Eftirfarandi “Tilkynning frá ríkisstjórninni” birtist í Morgunblaðinu árið 1942:
“Í því skyni að ameríska hernum megi takast að verja Ísland og draga sem mest úr áhættu landsmanna, er aðeins takmörkuð umferð leyfð um svæði það á Reykjanesi, sem sýnt er á hjer birtum uppdrætti.
Á Reykjanesi norðvestanverðu alt það svæði, sem afmarkast af línu dreginni yfir nesið, og liggur hún þannig; hefst í Litlu-Sandvík og liggur þaðan austur á við h.u.b. 6.3 km. til staðar, sem liggur um 1 km. í suður frá Sandfellshæð, þaðan í norðaustlæga átt h.u.b. 13 km. vegalengd upp á brún hæðar þeirrar, er nefnist Litla-Skógfell, þaðan í norður átt h.u.b. 6.3 km. vegalengd til strandarinnar skamt innan við Grímshól á Vogastapa.
Land það, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, skal ekki taka yfir Innri Njarðvík, Ytri Njarðvík, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði, Hvalsnes, Stafnes, Hafnir, nje heldur tiltekin landsvæði ræktuð eða umbætt og eru þau sýnd utan merkjalínu greinds svæðis á áðurgreindum uppdrætti.
Auk þess eru neðangreindir vegir innan svæðis umferðatakmörkunarinnar undanskildir takmörkuninni, svo sem sýnt er á uppdrættinum, sem hjer er prentaður með:
1. Vegurinn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru. Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Vegurinn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Vegurinn til Grindavíkur.
Landamerki þessara kauptúna og svæða verða auðkend með staurum máluðum rauðum og hvítum.
BANNSVÆÐI
Allir þeir staðir, þar sem tæki eru sett upp, mannvirki reist eða hernaðarstörf framkvæmd, innan þess svæðis, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, eða eru afgritir og merktir sem slíkir, eru bannsvæði.
Íslendingar mega ekki fara inn á áðurnefnd svæði, sem bönnuð eru eða leyft takmörkuð umferð um, nema þeir hafi í höndum tilhlýðileg vegabrjef. Vegabrjef samþykt af íslensku ríkisstjórninni fást, þegar um þau er beðið hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og lögreglustjóranum í Keflavík og munu þeir leiðbeina umsækjanda til hlutaðeigandi ameríks starfsmanns. Umsókninni skulu fylgja tvær myndir af umsækjanda, 5×5 cm. á stærð. Umsóknin skal tilgreina þann sjerstaka hluta takmarkaðs eða bannaðs svæðis, sem umsækjandinn óskar að fara um, og sömuleiðis á hvaða tíma eða tímum og í hverjum tilgangi hann hygst að fara þar um. Sá sem fer um takmarkaða eða bannaða svæðið skal ávalt bera á sjer vegabrjef sitt.
Engar ljósmyndavjelar eða myndatökuáhöld má fara með inn á takmarkað eða bannað svæði nje geyma þar.
Vegabrjef þurfa Íslendingar ekki til þess að ferðast um neðangreinda vegi:
1. Veginn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Veginn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Veginn til Grindavíkur.
Þar sem vegir þessir liggja um þau svæði, sem umferð er takmörkuð um, er frjáls að fara um veginn, en hvorki má farartæki nje maður staðnæmast þar nje dvelja.
Íslenskar flugvjelar mega ekki fljúga yfir áðurgreind svæði, sem umferð er takmörkuð um, og eigi nær þeim en í 24 km. fjarlægð. – Reykjavík 18. maí 1942.”
Heimild:
-Morgunblaðið 21. maí 1942, bls. 6