Tag Archive for: Vartnsleysuströnd

Stapaþúfa

Gengið var að Ólafsgjá þar sem Ólafur Þorleifsson frá Hlöðuneshverfi féll niður í þann 21. desember árið 1900 og fannst ekki fyrr en um 30 árum síðar (sjá nánar Frásagnir). Við gjána er myndarleg varða. Nefnd gjá er spölkorn ofan við Stóru-Aragjá, um 2.5 km austan núverandi Reykjanesbrautar. Neðar er Litla-Aragjá. Skammt vestan hennar eru gatnamót, annars vegar götu upp í heiðina frá Vogum og hins vegar stígs upp í Brunnastaðasel. Auðveldast er að finna Ólafsgjá með því að taka er mið af stærstu vörðunni á barmi Hrafnagjár og halda í beina stefnu á Kastið í Fagradalsfjalli. Um miðja vegu birtist Ólafsvarðan á gjárbarminum og vísar leiðina á staðinn.

Ólafsvarða við Ólafsgjá

Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Frá Ólafsvörðu var haldið að Stapaþúfu og greni skoðuð í Stóru-Aragjá beint neðan þúfunnar. Haldið var til norðurs í Gjásel, 7 keðjuhúsa sel, eitt hið fallegasta á Reykjanesi. Það hvílir undir gjárveggnum. Vestan við það eru tveir hlaðnir stekkir. Tekin var krókur til suðausturs að hinu gamla Hlöðunesseli, en það kúrir í brekku ofan við mikið landrof. Gengið var til suðurs frá því að Brunnastaðaseli. Í því eru tóttir stórra húsa á þremur stöðum. Fallega hlaðin kví er í gjánni aftan við selið. Talsvert ofan við selið er hinn sögufrægi Hemphóll. Á honum er varða.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Lagt var upp frá henni á Þráinsskjöld og ekki staðnæmst fyrr en í grasivöxnum aðalgígnum. Um er að ræða fallega lægð efst á hraunbungunni. Ekki er auðvelt að finna hann, en staðkunnugur heimamaður úr Vogunum var með í för og gerði það leitina auðveldari. Þráinsskjöldur er geysistór hraundyngja, sennilega um 16 þúsund ára gömul, og frá henni hefur komið geysilegt hraunflæmi. Frá miðju hans er langt til allra átta. Frá gígnum blasir Keilir við í norðaustri, Litli-Keilir, Trölladyngja, Núpshlíðarháls. Litli-Hrútur, Hraunsels-Vatnsfell – Stóri-Hrútur, Fagradalsfjall, Mælifell og loks Fagradals-Vatnsfell í norðvestri. Í fjarska sést Snæfellsjökull vel. Aðrar megindyngjur á Reykjanesi eru Sandfellshæðin og Hrútargjádyngja.

Breiðagerðisslakki

Brak á Slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Þegar haldið var niður dyngjuna var gengið yfir greinilega götu er virtist liggja áfram vestan við Keili. Líklega sameinast hún götunni yfir hraunið norðan Driffells er síðan kemur inn á Selsvallastíginn norðan vallanna. Skoðuð voru greni vestast í Eldborgum, auk þriggja refabyrgja, sem þar hafa verið hlaðin. Þá var haldið í Knarrarnessel, en í því eru tóttir þriggja selja. Knarrarnessel er frábrugðið öðrum seljum á Reykjanesi að því leiti að það er ekki í skjóli við gjá eða hæð heldur stendur það á hól. Við það eru bæði hlaðnar kvíar og stekkir. Loks var flak þýskrar njósnaflugvélar skoðað í Breiðagerðisslakka, en hún var skotin niður af bandamönnum í seinni heimstyrjöldinni. Áhafnameðlimurinn var fyrsti fanginn sem Bandaríkjamenn handtóku í stríðinu (sjá meira undir Fróðleikur og Lýsingar).
Gangan tók 5 klst og 3 mín. Veður var stórfínt, sól og gola.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.