Færslur

Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.