Færslur

Gvendarsel

Í “Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998 er m.a. fjallað um gamlar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur; Vatns- eða Dalaleið, sem voru í raun sitthvor leiðin vestan og austan Kleifarvatns millum Krýsuvíkur og Kaldárssels.

Vatns- eða Dalaleið

Breiðdalur

Breiðdalur.

“Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki farið áður. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara [þessa] leið en áður var. …Það er þá fyrst, að þessi leið er stysta og beinasta lestarleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðastaða og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún er nokkrum annmörkum háð, – og hún gat verið hættuleg. Þessi leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar verið tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrfyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávalt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vega á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

…Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun vikið að. …Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrri suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðarbunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypst hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvammahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær er hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í henni við landið. Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar ufir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tildóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur upp á stöpunum, em milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjara. – eða lítið vaxið ef í vexti var. Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamrar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt er í vatninu, náði það upp í Helluna, er stórgrýtt er í botnin undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10-20 , ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. …Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn á Blesaflöt…. Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn í Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur, harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðadals er farið yfir allbratt malhaft, og þegar norður af því kemur, er komuð í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og svo má heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið. – Slysadal. …Þegar Slysadal sleppur, er komið í Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu. Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadali, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldárssels.”

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 271-272.
-Ólafur Þorvaldsson; Ábók 1943-48, bls. 91-94.

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.