Einn liður rannsóknanna var að mæla fjarlægðir frá vegi í áhugaverðustu útivistarsvæðin. Þær reyndust vera frá 3 metrum upp í 3 km, eftir því hvaðan farið var.
Leiðin frá Grindavík til Reykjavíkur er 51 km. Við athugun kom í ljós að sama leið frá Reykjavík til Grindavíkur reyndist einnig vera 51 km. Erfitt er að byggja niðurstöður rannsókna á einni niðurstöðu, m.a. vegna hugsanlegra efasemda um áreiðanleika, svo ákveðið var að sannreyna aðrar vegalengdir á Reykjanesi. Þær reyndust staðfesta fyrri niðurstöðu. Þannig reyndist fjarlægðin milli Keflavíkur og Reykjavíkur vera sú sama og á milli Reykjavíkur og Keflavíkur (48 km). Vegalengdin til og frá Reykjavík og Sandgerðis reyndist í báðum tilvikum vera 55 km. Til að taka af allan vafa var ákveðið að mæla vegalengdina milli staða, sem fólk nýtir sér sjaldnar, þ.e. Keflavíkur og Grindavíkur. Reyndist hún vera 23 km, sama í hvora áttina var farið.
Ef farin var leiðin um Hafnir kom í ljós að 39 km skyldu þar á millum. Jafnvel var talið að vegalengdirnar fram og til baka þá leiðina gæti verið misvísandi vegna malarvegarins á hluta leiðarinar, en það virtist ekki hafa áhrif á niðurstöðuna, þrátt fyrir 9 tilraunir. Á sama hátt reyndist vegalengdin frá Reykjavík til Grindavíkur um Krýsuvíkurveg vera 62 km, í sama hvora áttina var farið.
Heildarniðurstaðan af þessari umfangsmiklu rannsókn er sú að óvíða er styttra frá Reykjavík til áhugaverða staða hér á landi en einmitt á Reykjanesinu – og heim aftur. Vegalengdir eru ekki meiri en svo að hver og einn ætti að geta farið nestislaus að heiman og skoðað sig um án þess að óttast að verða hungurmorða á ferðalaginu. Ef svengdin kveður að eru víðast hvar bæði söluturnar og betri veitingarstaðir með tiltölulega stuttu millibili.
Ef lagt er í lengri ferðalög um svæðið, t.d. að morgni, er fátt sem getur komið í veg fyrir að viðkomandi komist heim að kveldi – hvílt sig og sofnað í eigin rúmi.