Færslur

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skerst inn úr sunnaverðum Faxaflóa, og eru takmörk fjarðarins Hvaleyrarhöfði að sunnan, en Bali eða Dysjar að norðan. Hafnarfjarðar er fyrst getið í Hauksbókartexta Landnámu, en þar segir svo um brottför Hrafna-Flóka og förunauta hans frá Íslandi:

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

“Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og á Herjólf, – hann kom í Herjólfshöfn. Flóki kom í Hafnarfjörð, – þeir fundu hval á eyri einniút frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri – þar fundust þeir Herjólfur.” Menn hafa leitt að því getum, að Herjólfshöfn, sem segir frá í Landnámu, sé Hvaleyrartjörn, en hún var höfnin í Hafnarfirði, sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.
Í landnámu segir, að Hafnarfjörður hafi verið í landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarssonar. Ásbjörn nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, allt Álftanes og bjó á Skúlastöðum.

Garðar

Garðar.

Enginn veit lengur, hvar sú jörð var, en giskað hefur verið á, að hún hafi verið, þar sem nú eru Garðar á Álftanesi. Að öðru leyti fer fáum sögum af Hafnarfirði, frá því að land byggðist og allt fram til upphafs 15. aldar. Hans er hvergi geti í fornöld í sambandi við verslun og siglingar, og er sennilegt, að strjálbýlt hafi verið við fjörðinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, enda voru fiskveiðar lítið stundaðar hér á landi á því tímabili miðað við það, sem síðar varð. Það er athyglisvert, að Hafnarfjarðar er þá fyrst getið að marki í heimildum, þegar fiskafurðir verða aðalútflutningsvara landsmanna í stað landbúnaðarafurða. Þessi umskipti urðu um 1400. Þá varð skreið eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga í stað vaðmáls.

Herjólfshöfn

Herjólfshöfn í Hafnarfirði.

Sökum legu sinna og ágætra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi varð Hafnarfjörður ein helsta verslunar- og fiskveiðihöfn landsins laust eftir 1400. Hafnarfjarðar var fyrst getið í sambandi við verslun 1391. Þá kom þangað kaupskip frá Noregi, og þremur árum síðar lagði norskt skip úr höfn í Hafnarfirði. Þeirra eru einu dæmin, sem kunn eru, um siglingar til Hafnarfjarðar á 14. öld. Ljóst er, að Hafnarfjörður var ekki jafnþekkt verslunarhöfn á þessum tíma og síðar varð, enda voru siglingar hingað til lands mjög stopular á 14. öld, og sum árin féll sigling alveg niður.
Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar fiskveiðar og verslun hér við land, og þá hófst nýtt tímabil í sögu Hafnarfjarðar. Fyrsta enska kaupskipið, sem sögur fara af, kom til Hafnarfjarðar árið 1413.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Þegar Englendingar hófu siglingar hingað til lands um 1412, varð gjörbreyting til batnaðar á verslunarháttum, og fyrir vikið versluðu Íslendingar mikið við þá, en Danakonugur reyndi hins vegar að halda versluninni við Ísland í sama horfi og áður, þ.e. að einskorða hana við Björgvin í Noregi.
Þegar fram sótti, voru Englendingar ekki sérlega vel þokkaðir meðal Íslendinga, því þeir þóttu yfirgangssamir og áttu það til að ræna skreið landsmanna. Sló í brýnu með Englendingum og Íslendingum á ofanverðir 15. öld, e.t.v. oftar en einu sinni.

Flensborgarhöfn

Flensborgarhöfn – minningaskjöldur við minnismerki um Hansaverslunina.

Í kringum 1468 hófu Hansamenn siglingar til Íslands, Í fyrst komu skip þeirra frá Björgvin, en fljótlega hófust siglingar frá ýmsum þýskum Hansaborgum, svo sem Lýbiku, Hamborg og Brimum. Hörð samkeppni var milli Englendinga og Þjóðverja um bestu verslunarstaðina og þá einkum Hafnarfjörð. Kunn eru átökin þar 1475 og atlagan að Básendum 1490 (sjá Grindavíkurstríðið) eru urðu upphafið að endalokum á verslun Englendinga hér á landi.

Þýskabúð

Þýskabúð við Straumsvík.

Þjóðverjar virðast hafa hrakið Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum um og eftir 1480 og þegar kom fram á fyrri hluta 16. aldar höfðu þeir náð undirtökunum á verslunni hér á landi.
Hafnarfjörður var aðalhöfn Hamborgaramanna hér á landi á ofanverði 15. öld og alla 16. öld, enda engrar íslenskrar hafnar getið jafnoft í verslunarskjölum Hambogarkaupmanna og Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki við Flensborgarhöfn um veru Þjóðverja í Hafnarfirði fyrrum.

Á fyrri hluta 16. aldar færðust þýsku kaupmennirnir í aukana. Þá fóru þeir að hafa vetursetu hér á landi og ráku umfangsmikla útgerð á Suðurnesjum í trássi við bann konungs. Nú hóf konungsvaldið tilraunir til að hnekkja veldi Þjóðverja. Fyrsta skrefið í þá átt var að hirðstjóri konungs, Otti Stígsson, gerði árið 1543 upptæka alla báta þeirra á Suðurnesjum og aðrar eignir. Vorið 1550 handtóku þeir umboðsmann hirðstjórans, Kristján skrifara, en létu hann lausan í Hafnarfirði um sumarið, þegar hirðstjóri kom til landsins.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, önnur útgáfa.

Um þessar mundir fylgdu Danakonungur þeirri stefnu að koma versluninni til Íslands í hendur danskra kaupmanna. Friðrik 2. Tók upp þá nýbreytni að selja einstakar hafnir á leigu. Við þessa ráðstöfun jókst vald konngs yfir versluninni og þetta var undanfari þess, að Danir tækju hana alfarið í sínar hendur. Kristján 4. Danakonungur gaf út tilskipun um einokunarverslun Dana hér á landi árið 1602. Þá varð úr sögunni hið beina verslunarsamband milli Íslands og Þýskalands og um leið Hafnarfjarðar og Hamborgar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – verslun Einar Þorgilssonar.

Verslunarstaðurinn í Hafnarfirði hét Fornubúðir og var á Háagranda, ysta tanga Hvaleyrargranda, gegnt Óseyri. Á fyrri hluta einokunartímabilsins, 1602 – 1787, var Hafnarfjörður helsti verslunarstaður á landinu.

HafnarfjörðurÁ árunum 1684-1732 var í gildi svokölluð umdæmaverslun. Landinu var skipt í mörg verslunarumdæmi, og var landsmönnum bannað að versla utan þess umdæmis, sem þeir voru búsettir í, að viðlögðum algerum eignamissi og þrælkun í járnum á Brimarhólmi. Kaupsvæði Hafnarfjarðar náði yfir Kálfatjarnar-, Garða- og Bessastaðasóknir, og voru íbúar þar árið 1702 samtals 980.
Árið 1774 tók konungur við versluninni, og breytist þá ýmislegt Íslendingum í hag.

-Úr Saga Hafnarfjarðar – Ásgeir Guðmundsson – 1983.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður nútímans.

Íslendingar

Magnús Már Lárusson fjallar um Hafnarfjörð í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1960 undir fyrirsögninni “Enn úr firðinum“:

Magnús Már Lárusson

Magnús Már Lárusson.

Árið 1957 skrifaði prófessor Magnús Már Lárusson grein í þetta blað, er hann nefndi “Sitthvað um Fjörðinn”. Í þessari grein komu fram athyglisverðar upplýsingar um sögu Hafnarfjarðar. Vakti greinin verðskuldaða athygli. Nú hefur þessi glöggi vísindamaður enn á ný skrifað grein fyrir þetta blað. Er hún ekki ómerkari en sú fyrri og varpar nýju ljósi á sögu Hafnarfjarðar og nágrennis. Rannsóknir og athugasemdir Magnúsar kollvarpa ýmsum fyrri hugmyndum manna og leiðréttir hann misskilning sem jafnvel fræðimenn hafa byggt á til þessa. Þá víkur prófessorinn enn að leit sinni og annarra að landnámsjörðinni Skúlastöðum, fullyrðir ekki en leggur á borðið nýjar athuganir og skýringar, sem vekja menn til umhugsunar um þetta merkilega rannsóknarefni.
Elzta saga byggðar á Reykjanesskaga er harla óljós og gloppótt. Heimildir eru fáar og stangast iðulega á. Náttúruhamfarir, eldgos og landbrot hafa geisað án þess að setja teljandi spor í heimildir. Og örnefni hafa týnzt eða breytzt.
Hér skal ekki drepið á nema örfáa þætti, sem ef til vill gætu verið til fróðleiks. Hins vegar er varla mögulegt að gera þeim full skil á þessum vettvangi. Áður hefur hér verið bent á þann möguleika, að upphaflegt heiti Ófriðarstaða, sent ranglega nefnast nú Jófríðarstaðir, hafi e.t.v. verið Unnólfsstaðir. Jörð með því nafni kemur fyrir í skrá frá Viðeyjarklaustri 1395, DI iii 597. Leiga er talin þar 3 merkur, og er það landskuld. Fyrir 1400 er almennast, að landskuld er full lögleiga eða 10% aí andvirði þess, sem leigt er. Dýrleiki Unnólfsstaða þessara er þá 12 hundruð, sem er býsna nærri dýrleika Ófriðarstaða síðar á öldum. Í sömu skrá er og Hvaleyri talin klausturjörð og er landskuld af henni talin 4 hundruð. Þá er dýrleikinn með sama reikningi og að ofan 40 hundruð.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Í síðari tíma heimildum er hún talin 20 hundruð. Gætu menn þá spurt, hvernig á þessum mismun standi. Hér kemur a. m. k. tvennt til greina. Annars vegar er sú einfalda staðreynd, að ein afleiðing af mannfalli Svarta dauða var sú, að jarðir fengust ekki byggðar nema með lækkaðri landskuld og er þá höluðreglan, að hún er felld til helmings eða ofan í 5%. Er það þegar staðreynd um miðja 15. öld á Norðurlandi og helzt svo þar og á Suðurlandi fram eltir öldum, þótt landskuld í Vestfjörðum og á Austurlandi víðast hvar væri 81/3%.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á 18. öld. Hvaleyri fjær.

Klaustur- og kirkjujarðir tíunduðust yfirleitt ekki. Týndist þá hið forna hundraðsmat víða niður. En þegar farið var að gera jarðabækur fullkomnar á s.l. 17. aldar, var dýrleikinn reiknaður upp úr landskuldinni með því að tuttugfalda hana. Jarðabók Kleins fylgir sérstök tafla, sem notuð hefur verið til þess að setja dýrleikatölu á jarðir þær, sem eigi höfðu tíundazt. Á 17. öld var landskuld af Hvaleyri 1 hundrað frítt, sem samkvæmt þessum reikningi gerir 20 hundruð. Af þessu ætti þá að vera ljóst, að dýrleikinn hefur ekki valdið breytingunni, heldur er það landskuldin, sem hefur lækkað vegna fólksfæðar m. a. — Hins vegar ber að nefna eitt mjög mikilvægt atriði. Samkvæmt vitnisburði Steinmóðs ábóta í Viðey, sennilegast frá því um 1475, er kirkjan á Hvaleyri talin eiga töluverðan hluta at Hvaleyrarlandi, sjá DI iv 751. Er sá hluti það mikill, að vel hefði mátt nema hálfum dýrleikanum. En þar sem kirkjan missti í raun stöðu sína sem hálfkirkja eftir siðbót, má vera að kirkjuhlutinn í jörðinni hali gleymzt. Þess eru dæmi til. Nefna má t.d. Saxhól yzt á Snæfellsnesi.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1880-1890. Hér má sjá Hvaleyrarlónið, Grandann og nágrenni.

Þegar þessir tveir möguleikar eru grandskoðaðir, verður nýtt uppi á teningnum. Fyrri upphæðin er reiknuð sem 10% af 40 hundruðum, hin sem 5% af 20 hundruðum. Seinni landskuldin er helmingur þess, sem full lögleiga mundi nema, j.e. 2 hundruð. En 1395 er landskuldin helmingi meiri eða 4 hundruð. Dýrleikinn sem afgjaldsmælir er þá helmingi meiri. Þá verður spurningin sú, hvort kirkjan hafi verið reist eftir 1395 og til hennar verið lögð 20 hundruð. Það kann að vera svo, en virðist fremur ósennilegt. Kirkjan hefði þá varla fengið svo mikið af landi. Það virðist fremur vera svo, að hún hljóti að vera eldri. Dýrleikamunurinn hlýtur að stafa frá öðru, sem varla getur annað verið en rýrnun í gæðum. Og má þar fyrst benda á, að síðan á landnámsöld hefur stöðugt landbrot átt sér stað, sem einkum ætti að ganga nærri jörð eins og Hvaleyri, þar sem túnstæðið er á nesi fram í sjó. Vitað er með vissu, að verzlunarstaðinn varð að flytja um miðja 17. öld norður yfir fjörðinn í Akurgerði vegna landbrots. Það ætti að sýna hugsanlegan möguleika þess, að Hvaleyri sjált hefði þá orðið fyrir hnjaski.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Séu fógetareikningar frá miðri 16. öld athugaðir, þá sést, að þá þegar er rýrnun þessi komin fram. Þar segir 1547—48, að með Hvaleyri standi 2 leigukýr, 6 ær og 4 kirkjukúgildi, en landskuld er kúgildi, frítt hundrað, og tunna mjöls og leigur (af 3 kúgildum) eru 6 1 jcirðungar smjörs. 1552 er greidd tunna bjórs í stað mjöls, sjá DI xii 114, 140, 154, 174 og 400. Samkvæmt kaupsetningu 1546 er mjöltunna sama virði og bjórtunna, þ. e. 30 fiska, DI xi 518-19, sbr. ix 583—4. Samkvæmt kaupabálki 6 í Jónsbók verður að telja fiskinn hér 2 álnir innanlands til útlausnar, því 3 vættir mjölvægs matar er hundrað, en í tunnu er þá 240 merkur eða 11/2 vætt og er því verðið 60 álnir. 1509 er bjór- eða mjöltunna talin 40 álnir til landskuldar í kauptíð. DI viii 268. Landskuldin er þá að álnatali 180, en sé hún reiknuð 1 /20, þá er Hvaleyri að hundraðstali 30 hundruð um þær mundir. Það er þá auðséð, að hnignunin er að eiga sér stað. Þess má geta hér, að Þorbjarnarstaðir í Hraunum eru í eyði 1395.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Bærinn á seinni hluta 18. aldar. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni.

Máldagi Hvaleyrarkirkju áðurnefndur nefnir Nýjahraun, en í landamerkjaskrá frá 7. júní 1890 segir skilmerkilega, að Nýjahraun nefnist Kapelluhraun neðst. Gæti verið fróðlegt að rifja upp það, sem vitað verður úr heimildum um Nýjahraun þetta. Í Flateyjarannál segir við árið 1343, að skipið Katrínarsúðina braut við Nýjahraun. Skálholtsannáll segir við sama ár, að Katrínarsúðina, er lét úr höfn í Hvalfirði, braut fyrir utan Hafnarfjörð og drukknuðu 23 menn, en Gottskálksannáll segir, að Katrínarsúðina braut fyrir Hvaleyri 1343 og drukknuðu þar 4 menn og 20. Sennilega var þetta skip Snorra nokkurs, sbr. annálsbrot og lögmannsannál, þótt Flateyjarannáll tilgreini skipstapa hans 1342. Hér er þá skip, sem ferst við Nýjahraun eða fyrir utan Hafnarfjörð eða fyrir Hvaleyri. Staðsetningin er þá allsæmileg. Skipstapinn hefur orðið út af enda Kapelluhrauns. Hins vegar má gjarnan minnast þess, að í gömlum heimildum, t. d. sóknalýsingu síra Árna í Görðum 1842, er Hafnarfjörður talinn ná milli Melshöfða að norðan og Hraunsness að sunnan. Sé það haft í huga verða heimildirnar enn skiljanlegri.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Enn getur Nýjahrauns í Kjalnesinga sögu, kap. 2 og 17, og er þar talið suðurtakmark Bryndælagoðorðs, en Botnsá í Hvalfirði norðurtakmarkið. Saga þessi er frá 14. öld, en erfitt er að segja með vissu, hvort frekar eigi að setja hana til upphafs aldarinnar eða miðju hennar. Sem söguleg heimild er hún slæm. Nú verður spurningin þessi, hversu nýtt Nýjahraun er á 14. öld og ennfremur hver eru takmörk þess. Heitið sjálft ber með sér, að það hljóti að hafa runnið eftir að landið byggðist. Heiti eins og Óbrynnishólar bendir til hins sama. Um tímann er erfiðara að fullyrða. Allar líkur benda þó fremur til tíma fyrir 14. öld, og er vitað, að eldgos hafi verið mikil á Reykjanesskaganum um miðja 12. öld. Sennilegast er Nýjahraun frá þeim tíma rétt eins og Ögmundarhraun í Krýsuvík. Bezt er að skoða víðáttu þess á Jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar, blað 3. Þar sést, hvernig hraunið hefur ollið upp úr gossprungum meðfram Undirhlíðum og er það breiðast þar. Mjókkar það svo og fellur til hafs og er suðurkantur þess í Straumi. Breidd þess þar er rúml. 1/2 km. Ástæða nokkur er fyrir því að virða fyrir sér hraun þetta. Það kann að hafa runnið yfir byggt land að einhverju leyti og þá sennilegast niðri hjá Straumi. Þar kann að hafa verið eitthvert dalverpi lítilfjörlegt, og áreiðanlega hefur þar verið vatn til drykkjar rétt eins og nú.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Í sóknarlýsingu sinni segir síra Árni í Görðum um eyðijarðir, að hann viti ekki um neina, „nema það skyldu vera Skúlastaðir, sem mælt er hafi verið jörð áður fyrr meir, og hvar af skuli finnast minjar upp í hrauni, suður frá Hvaleyri.“ Það er sorglegt að hann skuli ekki tilgreina staðsetninguna skilmerkilegar. En leyfilegt væri að láta sér detta í hug Kapelluhraun, því „suður“ er hér um slóðir oftast notað í merkingunni „útsuður“. Ennfremur má benda á Almenningana sunnan við Kapelluhraun. Af heimildum sést að margir bæir eiga þar beit, skóg o. 11., sem á verður drepið síðar. Þetta hefur upphaflega verið mjög sæmilegt land og er enn ekki verulega farið að blása. Þessir Almenningar koma samt skringilega fyrir sjónir. Það er eins og eftirstöðvar af jörð séu þar eftir, sem orðið hafa almenningseign, en ekki að þeir séu óskipt sameignarland.
Nú kynni einhver að benda á svonefnt Skúlatún, sem Brynjúlfur Jónsson túlkaði sem Skúlastaðatún í Árbók fornleifafélagsins 1903. Menn kynnu að halda, að síra Árni ætti við það. En það er varla svo, því er hann ræðir um selstöður, segist hann ekki vita nema það, að Garðar eigi selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin, og hafði verið haft í seli þar til 1832, en aðrir í sókninni höfðu ekki notað selstöðu um hálfa öld fyrir 1842. Svæði þetta er stórt mjög, en Jarðabók Árna Magnússonar segir, að staðurinn í Görðum eigi selstöður, þar sem heitir við Kaldá, og eru þar bæði hagar og vatnsból gott. Í öllum máldögum Garða er svæði þetta nefnt: Afrétt í Múlaún, t. d. DI iv 108, vi 123, xv 638, og var síra Árna þetta kunnugt, enda er pláss þetta í Garðalandi.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

Örnefni í kringum Hafnarfjörð og í honum sjálfum hafa orðið fyrir töluverðu hnjaski innfluttra manna. Ófriðarstaðir verða Jófríðarstaðir, Steinhes verður Steinhús, Klelrakkagil verður Markrakagil, öfugt, svo örfá dæmi séu tekin. Skúlatún er vafalaust afbökun úr Múlatúni. Leitin að Skúlastöðum hefur sennilega verið áköf, meðan lærðir menn bjuggu á Álftanesi og skólinn var starfræktur á Bessastöðum. Þeir hafa vitað, að Skúlastaðir eru eingöngu nefndir í Landnámu. Þeir kunna að hafa stuðlað að nýrri nafngift. Eltirtektarvert er, að Árni Magnússon nefnir m.a. eftir sögn gamals manns, að bær hafi staðið í Lönguhlíð. Virðist bæjarheitið nefnt, því maðurinn ruglar svo sögnunni saman við skriðuhlaupið á Lönguhlíð í Hörgárdal 1389. Sbr. Ssí 2: I, 2 bls. 60.
Sé lýsing Brynjólfs frá Minna-Núpi í Árbók fornleifafélagsins 1908 athuguð, þá er hún ekki sannberandi um, að þar hafi býli verið. Enda eigi heldur lýsing Þorvalds Thoroddsen í Ferðabók I. Tilgátan, sem hér hefur verið drepið á, er eigi heldur svo sennileg – Kapelluhraun og þá Nýjahraun liggur á eldra hrauni. Eftir aðalínum að dæma hefur þó legið kvos í landsuður frá henni og myndað dalverpi rúmlega 1 km á breidd, en 3 km inn frá sjó. Pláss hefði verið þar, hefði jarðvegur verið nægur á hinu eldra hrauni. Landnámsjarðarinnar er eðlilegast að leita við sjóinn, því fiskiföng hafa laðað frumbýlinginn.

Ólafur Lárusson

Ólafur Lárusson.

Prófessor Ólafur Lárusson hefur bent á ákvæði í elzta máldaga Bessastaða, sem gæti bent til, að annað hvort Sveinbjörn Ásmundsson á 12. öld eða afi hans Sveinbjörn Ólafsson á 11. öld hafi átt Bessastaði, en þeir voru í beinan karllegg af Ásbirni Özurarsyni landnámsmanni á Skúlastöðum, en landnám hans náði frá Hraunsholtslæk suður að Hvassahrauni, þ. e. Afstapahrauni.
Sjálfur hef ég á þessum vettvangi bent á Garða. Nú má í því sambandi benda á annað. Sonur Sveinbjarnar Ásmundssonar var Styrkár, en hans getur í sambandi við Viðeyjarklaustur, sem hann gaf rekapart.
Er þess getið í máldaga, er varðveitzt hefur í afskrift frá því um 1598, er Oddur biskup Einarsson lét gera og er prentað eftir henni í DI i 507. En eins og textinn er þar lesinn og prentaður, er hann mjög villandi. Þó virðist hann eiga við Krýsuvík að nokkru. Það er í máldögum reyndar að finna orðalagið til marks við Beðstæðinga (eða Bessstæðinga), DI ii 361, sem hefur verið skilið sem Bessastaðamenn. Gæti það þá enn stuðlað að því að binda Bessastaði við ættmenn Ásbjarnar á Skúlastöðum. Og hafa menn þá í því sambandi blínt á ofarnefndan máldaga og tengt Styrkár við Bessastaði og gjört ráð fyrir, að reki Styrkárs væri sanmi og fjórðungsreki Viðeyjar í Krýsuvík.

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Nú vill svo til, að textinn er ranglesinn, en aðeins eitt orð. Í máldaganum stendur og til hægðarauka fyrir lesendur fært til nútímastafsetningar: „Styrkár Sveinbjarnarson galt staðnum hvalreka meðal Hraunnesstjarna og Kolbeinsskora, hina fjórðu hverju vætt, og hval, hvort sem er meiri eða minni. En sá maður, er býr í Krýsuvík skal skyldur að festa hvalinn, svo að ei taki sær út og gera orð til Viðeyjar fyrir þriðju sól.“
Í fornbréfasafninu stendur í hval. í máldagabókinni stendur fyrir og löng z. í landamerkjaskrá Steingríms biskups Jónssonar og með hans hendi í Lbs. 112 4to bls. 166 er lesið og eins og ég geri. Að sá lestur er réttur er tiltölulega auðvelt að sýna fram á í skjölum tveim frá 1497, sem varðveitzt hafa í Bessastaðabók, skrifaðri um 1570, er að finna vitnisburði um reka Viðeyjarklausturs.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Segir þar skýrt, að vitnin hafi heyrt lesinn máldaga þess efnis, að kirkja og klaustur í Viðey ætti hina fjórðu hverju vætt í öllum hvalreka utan frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnesstjörnum eður vötnum, hvar sem á land kæmi á þessu takmarki, er liggur fyrir Strönd í Kálfatjarnarkirkjusókn. Eitt vitnið hafði verið 29 vetur í Hraunum og annað alizt þar upp; þriðja vitnið hafði verið 46 vetur í klaustursins vernd, en 15 vetur heimilisfastur í Viðey, en búið annars á klaustursins jörðu og verið formaður á skipum þess. Sjá D1 vii 337-38.
Takmark þetta er reyndar hreppsmörk Vatnsleysustrandarhrepps, Kolbeinsskorir heita nú Ytri- og Innri-Skor í Stapanum. Einkennilegt er, að reki þessi skuli ekki koma fram í skránum D ii 245-48. Texti máldagans, eins og hann liggur fyrir, er spilltur. Er ekki hægt að segja með neinni vissu, hvort Styrkár hafi gefið rekann, sem Viðeyjarklaustur átti óefanlega í Krýsuvík. En hitt liggur ljóst fyrir, að Styrkár Sveinbjarnarson hafi átt Vatnsleysuströndina alla eða a. m. k. rekann fyrir henni.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell fjær.

Þá er komið í annað landnám en Ásbjarnar á Skúlastöðum. Hér var landnámskona Steinunn hin gamla, er keypti Romshvalanes allt fyrir utan Hvassahraun af Ingólfi Arnarsyni, en gaf Eyvindi frænda sínum land milli Hvassahrauns og Kvíguvogabjarga, sem nú nefnast Vogastapi. Athugasemd þessi styrkir, að Styrkár Sveinbjarnarson hafi haft mikilla hagsmuna að gæta suður með sjó og gerir það líklegt, að Sveinbjörn Styrkársson af Rosmhvalanesi, er féll í Bæjarbardaga 1237, hafi getað verið sonur Styrkárs. Enn fremur styrkir hún skoðun Ólafs prófessors Lárussonar, að Hafur-Björn, sonur Styrkárs, hafi komizt að Nesi við Seltjörn með kvonlangi sínu, sjá Landnám Ingólfs, II., bls. 48-51.

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.

Áður er minnzt á Almenningana. Nú er ástæða til að benda á eftirtektarvert atriði í sambandi við þá. Í Jarðabók Árna Magnússonar er svo greint um þá, að „það, sem Suðurnesjamenn kalla Almenning, tekur til suður við Hvassahraunsland og Trölladyngjur. Gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi, svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðarland og selstaða.“ Sé svo jarðabókin grandskoðuð, þá kemur í ljós, að jarðirnar í Grindavíkur-, þó ekki Krýsuvík, Rosmhvalaness- og Vatnsleysustrandarhreppum, auk Hraunabæjanna og Hvaleyrar, Áss og Ófriðarstaða
eiga hrísrif til kolagjörðar og eldiviðar í Almenningum. — Það er furða, að nokkur hrísla skuli vera eftir. — Hafnirnar eiga þar ekki ítök fremur en Krýsuvík.
Það, sem eftirtektarvert er, getur verið tilviljun. Fyrst má benda á, að meðal þessara landssvæða er hluti úr landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs, land Steinunnar hinnar gömlu allt, frændkonu Ingólfs, og land það, er fyrsti Hafur-Björn var uppi á, en það er Grindavík.

Hafur-Bjarnastaðir

Hafur-Bjarnastaðir á Rosmhvalanesi.

Styrkár Sveinbjarnarson virðist hafa staðfestu suður með sjó, en eigi á Álftanesi og sonur hans hét Hafur-Björn. Gæti það bent til þess, að erfðir og tengdir höfðu orkað að því að tengja framangreind svæði saman að þessu leyti, er Almenningunum við kemur. Hafur-Birnir þessir tveir eru hinir einu þekktu með því nafni frá þjóðveldisöld. Enn fremur eru Hafurbjarnarstaðir á Rosmhvalanesi þeir einu með því nafni á landinu og reyndar Viðeyjarklaustursjörð 1398.
Hvernig sem þessu er varið, þá er eitt ljóst, að jarðirnar við sunnanverðan Hafnarfjörð eiga samleið með Suðurnesjum, en jarðirnar norðan við hana þar engra hagsmuna að gæta, nema Garðar, er eiga lönd með Undirhlíðum. Og liggja skilin um Hamarinn. – Magnús Már Lárusson

Framhald er undir fyrirsögninni “Sitthvað um Fjörðinn“.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1960, Enn úr firðinum – Magnús Már Lárusson, bls. 4-5.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefnakort.

Íslandskort 1590

Magnús Már Lárusson skrifar um Hafnarfjörð í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1957 undir fyrirsögninni “Sitthvað um Fjörðinn“.:

Magnús Már Lárusson

Magnús Már Lárusson.

Fyrstur manna, sem notað hafa höfnina í Hafnarfirði, er Flóki Vilgerðarson, sem öllum er kunnur undir heitinu Hrafna-Flóki. Segir Landnáma frá því, eins og textinn er í Hauksbók og Þórðarbók, en Hauksbók, sem eldri er, var rituð fyrir Hauk Erlendsson, er dó 1334. Jafnframt er frá því skýrt, að þeir Hrafna-Flóki og félagar hans fundu hval á eyri út frá firðinum og kölluðu Hvaleyri. Hvaleyri er því eitt með elztu örnefnum á þessu landi. Ekki er unnt að nefna Hafnarfjörð mikinn fjörð. Miklu fremur er um vog að ræða eða vík. Þetta er samt svo til komið, að skorningurinn er nokkuð þröngur, þótt eigi sé hann langur, en í honum myndazt að sunnanverðu hið ákjósanlegasta afdrep fyrir smærri skip, eða hafskip landnámsmanna. Það getur vart leikið vafi á, að heitið sé upprunalegt og fornt mjög, m. a. má benda á, að það kemur fyrir í Kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti, og var það tekið saman um 1200. Að vísu þekkist það ekki í svo gömlu handriti, heldur eingöngu frá því um 1500 og nokkru yngra. Í Íslendingasögum getur heitisins aldrei, né heldur í Biskupasögum og Sturlungu, en í fjarðatali einu frá því um 1312. Það virðist sem svo, að hin ákjósanlega höfn hafi ekki verið notuð, enda voru ef til vill aðrir staðir hentugri, þegar á stærð skipa og samgöngur innanlands er litið. Það þurfti ekki svo stóra smugu til þess að geyma skip 10.—13. aldar.

Garðar

Garðar um 1900.

Nokkuð var Hafnarfjörður úrleiðis miðað við flutningaþörf almennt. Að vísu var stórbýli í grennd, þar sem Garðar á Álftanesi voru, auk annarra mikilla bújarða, en fiskverzlun var reyndar ekki orðinn enn eins snar þáttur í verzlunarmálum Íslendinga og seinna varð. Þótt stórbýlin væru í grennd, þá voru einnig góðar smáhafnir mýmargar við Faxaflóa aðrar en Hafnarfjörður. Eins og samgöngumálum var háttað innanlands, gat Hafnarfjörður ekki fengið neina verulega þýðingu í bili. Hin mikla útgerð, sem var á 10.—13. öld, var ekki staðsett á Hvaleyri eða Álftanesi. Hún var suður á Reykjanesi og yzt á Snæfellsnesi, að ótöldum Vestfjörðum. Að vísu má leiða allgóð rök að því, að Garðar, hin týnda landnámsjörð Skúlastaðir, hafi snemma klofnað upp í fleiri smærri einingar og ekki sízt vegna afstöðunnar til útvegs, en veitt er fyrir heimamarkaðinn, og þegar um 1200 eignaðist Skálholtskirkja þó nokkrar minni jarðanna. Fiskur af þessum slóðum hefur sennilega farið mikið til austur fyrir fjall, sá sem ekki var neyttur heima.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðor á fyrri hluta 20. aldar.

Það er og eftirtektarvert, að ekkert býli fær nafnið Höfn eða Hafnarfjörður eða bara Fjörður. Þar eru önnur nöfn, svo sem Hvaleyri og Ófriðarstaðir. Þetta bendir til þess, að á þeim tíma, sem nafngiftin er áköfust, viðurkenna menn að vísu ágæti hafnarinnar, en hins vegar hefur hún ekki það mikla þýðingu, að hún hafi áhrif á nafngjöfina.
Fram á seinni hluta 13. aldar voru hafskipin ekki svo ýkjastór, og lesi menn Grágás eða Jónsbók, hinar fornu lögbækur, þá munu menn finna ýtarleg ákvæði um skipadrátt og annað, sem lýtur að því að setja skipin upp í naust yfir vetrartímann. Það er þá eðlilegt, að gullaldarritin skulu ekki geta Hafnarfjarðar að Kirknatali og Landnámu slepptum. Eins þegja og annálarnir lengi framan af. Það styður og ofangreinda skoðun. Samgöngur voru ekki svo litlar milli landa, að það eitt var nægilegt til þess að skapa þögnina um Hafnarfjörð.

Skip

Skip á 18. öld.

En í lok 13. aldar er áhrifa krossferðanna verulega farið að gæta í Norður-Evrópu. Krossferðirnar höfðu aukið þekkingu Evrópumanna á margan hátt; menn kynntust aftur verzlunarleiðum og verzlunaraðferðum, sem voru hálfgleymdar síðan á velgengnisdögum Rómaveldis. Í Evrópu rísa aftur upp borgir, sem legið höfðu niðri um skeið. Borgirnar framleiddu ekki nóg handa sjálfum sér, heldur varð að afla bjarga með verzlun. Iðnaður borganna og viðskipti gerðu borgarbúanum kleift að afla sér matar á annan hátt en að framleiða hann. Jafnframt varð dirfskan meiri við að búa stór skip, mun stærri en eldri skipin í Norður-Evrópu og á Norðurlöndum. Að vísu voru þau varla betur sjóhæf, en þau báru meira og það fór smám saman að tíðkast að setja á þau þilför. Er skipin stækkuðu, urðu kröfurnar til hafnanna aðrar og meiri en áður. Jafnframt því fóru Englendingar og Þjóðverjar að stunda eigin siglingar í ríkara mæli en áður. Þeir sóttu til Noregs ýmsar mikilvægar afurðir, meðal annars skreið. Og samfara þessum breyttu verzlunarháttum, virðist allmikil veðurfarsbreyting hafa átt sér stað. Hér á landi þvingaði hún fram nokkra breytingu á atvinnuháttum. Í stað þess að leggja aðaláherzlu á landbúnaðinn og hafa mikinn nautpening og stunda einhverja kornrækt, eru menn tilneyddir að stunda sjóinn meir en áður. Ennfremur rak á eftir fýki útlendra í skreið, vöru, sem var auðgeymd og flytja mátti um langar leiðir. Hér héldust í hendur innlendir og erlendir hagsmunir.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1720.

Þessi breyting er um það bil fullgengin um garð um 1330—1340. Þá sjá menn, hvernig munkarnir á Helgafelli hafa notað aðstöðu og tækifæri til þess að leggja undir klaustrið allar helztu útvegsjarðirnar á Snæfellsnesi á örfáum áratugum. En skipin eiga enn eftir að stækka. Þegar komið er fram á þennan tíma um miðja 14. öld, getum vér átt von á því að finna Hafnarfjarðar getið í heimildum. Enda fer að vonum, því í annálum er þess getið, að 1391 kom skip af Noregi til Hafnarfjarðar, og 1394 er þess getið, að skip hafi lagt í haf frá Hafnarfirði. Og nú er skammt að vænta þess, að Fjarðarins sé getið, svo að sjá megi, hversu þýðingarmikil höfn hann er.
Árið 1412 er merkisár í sögu landsins. Það er samt ekki innlend saga eða innlendir viðburðir, er gera árið svo merkilegt, heldur hitt, að þá getur fyrst Englendinga hér við land samkvæmt heimildum, er nú eru til. Þá skýrir Nýi annáll frá því, að skip af Englandi hafi komið austur fyrir Dyrhólmaey. Var róið til þeirra úr landi og í ljós kom, að á voru fiskimenn. Og sama haust urðu fimm Englendingar viðskila við lögunauta sína; gengu á land austur við Horn og sögðust hafa soltið í bátnum marga daga og vildu kaupa sér vistir. Voru þeir svo staddir hér um veturinn, því báturinn hvarf á meðan þeir voru burtu og mennirnir, er þar voru í. Vistuðust þessir fimm fyrir austan um veturinn. Jafnframt er þess getið, eins og reyndar áður, að engin frétt hafi komið af Noregi til Íslands, sem bendir til, að samgöngur við það land hafi verið stopular, enda utanríkisverzlun Norðmanna þá að mestu komin í hendur erlendra manna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Næsta ár eða 1413 kom kaupskip af Englandi til Íslands. Fyrirliðinn hét Ríkarður. Segir Nýi annáll glöggt frá athöfnum hans hér á landi. Hann gekk á land austur við Horn, reið þaðan til Skálholts og þaðan aftur austur undir Eyjafjöll og sté þar á skip sitt og sigldi því til Hafnarfjarðar. Svo segir annállinn, að árinu áður hafi honum verið skipuð höfn á Eyrarbakka, en þar vildi hann ekki lenda. Allt hátterni hans bendir til, að honum hafi fyrirfram verið kunnugt um ástæður hér heima. Og nokkur von virðist, að honum hafi litizt miður vel á Eyrarbakka sem höfn. Hér syðra er sagt, að hann hafi haft kaupskap við Sundin og hafi margir af honum keypt; öðrum leizt miður vel á þetta og tekið fram um þá, að þeir hafi verið „vitrir“. Sigldi hann svo burt litlu síðar og þeir fimmmenningarnir, er höfðu verið hér um veturinn. En áður en í burt fór, tók hirðstjórinn, æðsti maður landsins, Vigfús Ívarsson Hólmur, af honum trúnaðareiða, að hann skyldi hollur og trúr landinu. Ennfremur var tekið fram, að Ríkarður þessi hafi haft „Noregskonungsbréf til þess að sigla í hans ríki með sinn kaupsskap frjálsliga.” Að vísu munu sumir hafa efazt um, að það fái staðizt, en heimildin í Nýja annál er afdráttarlaus. Enda kom fyrir, að veitt voru afbrigði frá gildandi reglum, ef svo þótti henta.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1880-1885.

Meginreglan átti að vera sú, að engir nema norskir kaupmenn máttu sigla með kaupskap norður fyrir Björgvin eða til norskra skattlanda, eyjanna. Hins vegar sést á mýmörgum heimildum, að siglingu Norðmanna sjálfra stórhrakaði á 14. öld, og kann vel að vera, að hinn mikli mannfellir í svartadauðanum þar um miðja öldina eigi sinn þátt í því. Í íslenzkum heimildum eru tveir athyglisverðir dómar frá 1409, þar sem í ljós kemur glögglega, að konungsvaldinu veitist miður auðvelt að fá sinn varning fluttan af landinu til Noregs og jafnvel öfugt, erfiðlega hefur á þeim árum gengið að fullnægja Gamla sáttmála. Við báða dómana er nafngreindra norskra kaupmanna getið og eru tveir af þeim ráðamenn í Björgvin. Svo eitthvað hefur verið til af þeim enn; þó er vitað, að þýzkir kaupmenn voru þá í þann veginn að taka Björgvinjarverzlunina í sínar hendur. En allt þetta mál og vandræði stuðla að uppgangi Hafnarfjarðar sem verzlunarhöfn. Englendingar voru búnir að koma auga á hin ágætu hafnarskilyrði og heimildirnar sýna, að þeir halda siglingum áfram til Hafnarfjarðar. Og fiskveiðar þeirra hér við land stóraukast.

Skálholt

Skálholt.

Nýi annáll segir frá því, að árið 1413 hafi komið hingað við land 30 enskar fiskiduggur eða meir, og fyrir norðan og austan land eiga Englendingar að hafa farið með rán og yfirgang. Þó er skýrt frá því, að fyrir norðan hafi þeir lagt peninga í staðinn fyrir naut, er þeir tóku. Sennilega hafa menn verið hálfhræddir um að hrjóta lög og settar reglur og Englendingar því neyðst til að taka sér réttinn sjálfir. Fimm ensk skip komu til Vestmannaeyja og fluttu bréf Englandskonungs, að kaupskapur væri leyfður við hans menn, sérlega í það skip, sem honum tilheyrði. Og keypti svo hver sem orkaði eftir efnum. Hins vegar kom einnig til bréf Eiríks konungs, er bannaði öll kaup við útlenda menn, þá sem eigi var vanalegt að kaupslaga með. En sama árið dó og Jón biskup í Skálholti, er Ríkarður hinn enski heimsótti. Hann hafði áður verið ábóti í Múnklífi,klaustrinu við Björgvin.
Nú getur næst Hafnarfjarðar, er eftirmaður hans, Árni Ólafsson hinn mildi, kom út á knerri þeint, sem hanri sjálfur lét gera. Hann var þá voldugasti maður á Íslandi: Skálholtsbiskup, hirðstjóri konungs, umboðsmaður Hólabiskups og tilsjónarmaður erkibiskups í Þrándheimi. Ennfremur hafði hann umboð Múnklífisklausturs yfir Vestmannaeyjum og skuldheimtu fyrir marga kaupmenn í Björgvin. Sjálfur gekk hann á land við Þvottá í Austfjörðum, en knerrinum var siglt til Hafnarfjarðar. En auk knarrarins lágu það sumar sex skip ensk í Hafnarfirði, og er eitt þeirra sagt hafa rænt skreið á Reykjanesi og í Vestmannaeyjum.

Hinrik V

Hinrik V.

Hinu er einnig frá skýrt, að fráfarandi hirðstjóri Vigfús Ívarsson hafi tekið sér far með einu þeirra til Englands og haft með sér eigi minna en sextíu lestir skreiðar og mikið brennt silfur. Ein afleiðingin af þeirri ferð er sú, að hinn 7. okt. þetta samt ár 1445 gefur dómkirkjukapítulinn í Kantaraborg út bréf, þar sem lýst er yfir því, að Vigfús Ívarsson, móðir hans, kona og börn eru tekin undir bænahald heilags Tómasar biskups og píslarvotts. Hins vegar eru og önnur bréf gefin út í Englandi nokkru síðar, þar sem fram kemur, að Jakob Oslóarbiskup og Andrés riddari frá Losnu hafi kvartað undan yfirgangi og óskunda, er nokkrir enskir þegnar hafa gert á nokkrum eyjum Noregskonungs, einkum Íslandi. Því bannar hertoginn af Bedford, bróðir Englandskonnngs, í fjarveru bróður síns, að enskir þegnar fari um eins árs bil til fiskveiða við Ísland, og ítrekar Hinrik konungur V. bannið stuttu síðar, er hann ritar forráðamönnum ýmsra borga og verzlunarstaða og bannar þegnum sínum að fara hingað til lands til fiskveiða eða annarra erindagerða öðruvísi en áður hafði verið forn vani.

1419 er frá því skýrt, að gerði hríð á „skírdag svo hörð með snjó, að víða kringum landið hafði brotið ensk skip, eigi færri en hálfur þriðji tugur. Fórust menn allir, en gózið og skipsflökin keyrði upp hvarvetna.“ Og frá sama tíma er enn merkari heimild, þar sem er hyllingarbréf Íslendinga til Eiríks konungs af Pommern. Að vísu gæti manni virzt sem það væri nokkuð seint, þar sem Margrét drottning andaðist 1412.

Eiríkur af Pommern

Eiríkur af Pommern.

Þetta hyllingarbréf er árétting til konungsvaldsins, þar sem vitnað er glöggt til Gamla sáttmála og landsréttinda. Segir þar: „Kom yðart bréf hingað í landið til vor, í hverju þér bannið oss að kaupslaga með nokkra útlenzka menn. En vorar réttarbætur gera svo ráð fyrir, að oss skyldi koma sex skip af Noregi árlega, hvað sem ei hefur komið í langan tíma; hvar af yðar náð og þetta fátæka land hefur tekið grófan skaða. Því — upp á Guðs náð og yðart traust — höfum vér orðið að kaupslaga með útlenzka menn, sem með frið hafa farið og réttum kaupningsskap og til hafa siglt. En þeir duggarar og fiskarar, sem reyfað hafa og ófrið gert, höfum vér refsa látið“. Það virðist óneitanlega sem svo, að Íslendingar reki sína eigin utnríkispólitík um þessar mundir. Og Arnfinnur Þorsteinsson á Urðum, sem þá er orðinn hirðstjóri og undirritar hyllingarbréfið — Arnfinnur Þorsteinsson, yðra foreldra hirðmann, veitir þrettán dögum síðar tveim kaupmönnum verzlunarleyfi um allt land og leyfi til útgerðar úr landi. Er bréfið gefið út í Hafnarfirði og þar liggur skip þeirra, Kristaforus að nafni og er enskt. Báðir hirðstjóranir, Vigfús Hólmur yngri og Arnfinnur á Urðum, ganga í berhögg við konungsvaldið, landinu til góða. För Vigfúsar til Englands sýnir glöggt að annað og meira hefur búið undir en það eitt að vera tekinn í bænahald klerka í Kantaraborgardómkirkju, og var þó norskrar ættar. Hins vegar er Eiríkur af Pommern á margan hátt betri maður en ágripin gera hann, þótt hagsmunir hans rækjust á hagsmuni Íslendinga. Hann vildi markvisst efla innanlandsverzlunina í sínu víðlenda ríki, þar sem hann var konungur Norðurlanda allra, en skorti mýkt sinnar miklu fósturmóður til þess að fá menn á sitt band. Það er reyndar ekki svo óskennntilegt að hugsa til þess, að Hafnarfjörður hafi þegar komið við sögu á þenna hátt í sjálfstæðisviðleitninni á liðnum öldum.
Englendingar voru orðnir þess vísir fyrir löngu, að fiskimiðin hér voru hið þýðingarmesta forðabúr, og létu ekki hrekja sig í burtu. Nú fengu þeir að auki nokkrum árum síðar voldugan stuðningsmann, þar sem var biskupinn á Hólum, Jón Vilhjámsson Craxton, og Englendingur sjálfur. Að vísu hafa sumir haldið, að hann hafi verið norsk—enskur eða jafnvel sænskur og hafa sem rök, að Ragna nokkur Gautadóttir er nefnd frændkona hans í bréfi einu. Hún kann hins vegar að hafa verið systir Eiríks nokkurs Gautasonar Upplendings, er getur og í bréfum Jóns biskups. Frændkona merkir hér ekki annað en friðla, skv. málvenju almennri um alla Evrópu á þeim tíma. Í okkar heimildum kemur jafnvel fram, að laundóttir er nefnd frændkona og sonur frændi. Þessi nýi Hólabiskup kom út með enskum í Hafnarfirði.

Kristján IV

Kristján IV.

Hér á landi virtist hann reynast vel. Af bréfabók hans, sem er sú elzta, er varðveitzt hefur, verður ekki annað séð en að hann hafi verið hinn dugmesti og gegnt embætti sínu með alúð. Hins vegar sést svo og, að hann hafi dregið taum landa sinna, þegar við mátti koma. Nokkru síðar kom út annar biskup, Jón Gerreksson til Skálholts, og er frægur að endemum. Hann er sagður hafa komið hingað með Englendingum í Hafnarfjörð, en hafði veturinn áður setið í Englandi. Milli Englendinga og Þjóðverja er svo hörð samkeppni um verzlunina og fiskinn við Ísland, og kom til átaka milli þeirra á sjó og landi, meðal annars hér í Hafnarfirði, og kann að vera, að heitið Ófriðarstaðir stafi frá því, er róstusamt var í Hafnarfirði undir lok 15. aldar. Svo fór, að Englendingar voru hraktir burt af Þjóðverjum nálægt 1518 að sögn síra Jóns Egilssonar í Biskupaannálum.
Bækistöð sína í Hafnarfirði höfðu Englendingar við Fornubúðir svonefndu, en eigi verður vísað nákvæmlega á þann stað. Þjóðverjar settust að sunnan fjarðar vestan við Óseyri, sennilega á sama stað og Englendingar höfðu setið á áður, enda sá hentugasti staður. Voru það Hamborgarmenn, sem tóku sér bólfestu þar. Brátt virðist komið þar hverfi nokkurt, hafi það ekki verið áður. Þar getur timburhúsa og jafnvel kirkju þýzkrar; og eru þrír prestanna nafngreindir og hafa vafalaust verið mótmælendur, þar eð þess elzta getur fyrst 1538. Fyrir siðaskiptin hafa þessir ekki verið með öllu þýðingarlausir.

Fornubúðir

Fornubúðir.

Eigi er vitað, hvar kirkja sú stóð, en komi upp mannabein við húsbyggingar nútímans sunnan fjarðar, mun sennilega vera fundinn kirkjugarður sá, sem ugglaust hefur fylgt þeirri kirkju. Hún hefur sennilega verið öll úr timbri og af einni heimild má sjá, að hún hefur verið með koparþaki. Í Hafnarfirði hafa Hamborgarar haft sína aðalbækistöð hér við land, rétt eins og Englendingar. Hér var í rauninni höfuðstaður landsins. En hitt er ekki einkennilegt, að ekki skuli vera til lýsing á kirkjunni, svo að dæmi sé tekið. Hún var íslenzkum kirkjuyfirvöldhm óviðkomandi. Hitt sést, að safnað er til viðhalds hennar í Hamborg allt til ársins 1603, en þá eru þeir Hamborgarar þegar úr sögunni. Og 1608 skipar Kristján IV. konungur svo fyrir að rífa skyldi allar byggingar þýzkra í Firðinum. Konungsvaldinu var nokkur vorkun. Í þeim byggingum höfðu ýmsir þeir hlutir gerzt, sem vel gat sviðið undan að minnast, hvernig umboðsmaður konungs var tekinn til fanga og hafður í haldi og svo framvegis. Það er líka yfirlýsing konungs, að nú skuli í staðinn koma verzlun, sem eigi að lyfta undir aðalverzlunarborgir Dana og þá einkum Kaupmannahöfn.

Friðrik II

Friðrik II.

Faðir konungs, Friðrik II., hafði að vísu riðið á vaðið með því að veita hinum duglegasta og athafnasamasta danska kaupmanni, Markúsi Hess, borgarstjóra Kaupmannahafnar, verzlunarleyfi í Hafnarfirði 1576, en verzlunarhættir hans virðast hafa fallið Íslendingum svo illa í geð, að þegar eftir vorsiglinguna það ár senda þeir bænarskrá til konungs og kvarta. Samkeppnin, sem ríkti á 16. öld milli enskra og þýzkra leiddi af sér vöruvöndun og hagstætt verð, en Dönum lá á að græða sem mest á stuttum tíma, enda nauðulega staddir sjálfir. Þessi leigumáli féll niður 1579, og fékk þá höfuðsmaður, Jóhann Bockholt, leyfið og hélt um tíma í samkeppni við Hamborgara.
Sitt af hverju kom fyrir í Hafnarfirði, bæði á tímum Englendinga og eins á tímum Hamborgara og Dana. Stúlkurnar lentu í ástandi þá eins og nú. Að minnsta kosti er ekki annað að sjá af kvæðum síðmiðalda, menn stálu, drukku og slógust, rétt eins og nú. Og menn vorkenna manninum, sem stelur vegna neyðar sinnar kvinnu og fátækra barna, og lögréttumenn ganga í ábyrgð fyrir hann. Svo má lengi tína til.
Hin eiginlegu umskipti verða, er verzlunin er einokuð 1602. Þá fá borgararnir í Kaupmannahöfn, Helsingjaeyri og Málmey einkarétt á verzlunarstöðum hér á landi og er þeim skipt milli þeirra gegn 16 gamalla dala gjaldi af hverjum! Þá eru nafngreindir hinir nýju kaupmenn í Hafnarfirði. Fyrstur er Mikkel Vibe, hinn mikilhæfasti maður, er verður borgarstjóri í Kaupmannahöfn. Annar er Hermann Wöst, sem og var merkur og stórauðugur maður. Þriðii er nafngreindur Böill Sören Islænders, sem gefur tilefni til margskonar hugarbrota. Er hann íslenzkrar ættar, sonur Sörens Íslendings? Og gæti heitið verið afbakað fyrir Egill? Fjórði aðilinn er kona, er heitir Kristen, líklegast ekkja beykis nokkurs, Sören að nafni, þar sem hún er skilgreind Sören Böckerss. Það er auðséð, að Hafnarfjörður er álitinn vera einn aðalstaður landsins, þar sem auðugustu og valdamestu dönsku kaupmennirnir taka staðinn á leigu, menn, sem leggja fram rúmlega 1/3 hluta rekstrarfjár kompaníisins, sællar minningar, 1620.

Hans Nansen

Hans Nansen.

Af þeim kaupmönnum, sem svo síðar á öldinni er getið í sambandi við Hafnarfjörð, skal aðeins nefna hér Hans Nansen, einhvers mikilhæfasta Danann, sem uppi var á 17. öld. Hann gerðist borgarstjóri í Kaupmannahöfn 1644 og hægri hönd Friðriks III. í vörn Kaupmannahafnar móti Svíum, er Karl X. Gustav var búin að hertaka alla Danmörku, að slepptum smáskika þeim, er hin gamla Kaupmannahöfn nam. Hann var forsvarsmaður borgarastéttarinnar á móti aðlinum og veitti Friðriki ómetanlegan stuðning í því að koma aðlinum á kné með stofnun einveldisins. Hafnarfjörður hefur því enn á hans dögum verið talinn álitlegur athafnastaður, sem og sést á því, að sonur hans tók við verzluninni í Firðinum að föður sínum látnum. Á hans dögum var gerð ein mikilvæg breyting. Verzlunarstaðurinn hafði verið sunnan fjarðar frá fornu fari, á 17. öld á Hvaleyrargranda, en Hans Nansen yngri nær eignarhaldi á Akurgerði, og þá flyzt staðurinn norður fyrir fjörð, líklega skömmu eftir 1677. Margt sögulegt gerðist enn. Nú var mönnum bannað að leita út fyrir tiltekin verzlunarumdæmi, og er alkunnugt, hver meðferðin varð á Hólmfasti Guðmundssyni 1699 fyrir að selja nokkra fiska í Keflavík og fékk 16 vandarhögg fyrir. Þótt eymdin væri orðin mikil og ríki kaupmanna svo mikið, að jafnvel sjálfur Garðaprestur hafði ekki lengur í fullu tré við þá, þá var Hafnarfjörður samt aðalmiðstöð landsins. Þangað komu dönsku herskipin, þar söfnuðust kaupskipin saman til þess að hafa samflot heim til Danmerkur, þangað var rekið sláturfé af öllu Suðurlandi, því þar var eina brúklega og örugga höfnin. Það er því undarleg tilviljun örlaganna, sem réð því, að Hafnarfjörður skyldi ekki verða höfuðstaður landsins, Hafnarfjörður, sem átti svo ríkan þátt í að byggja upp borg hinna fögru turna við Sundið, sjálfa Kaupmannahöfn.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Viðleitni Skúla Magnússonar til þess að skapa iðnað innanlands með stofnun innréttinganna var hin lofsamlegasta. Og Hvaleyri var lögð til innréttinganna og Fjörðurinn gerður að höfn fyrir fiskiduggurnar, sem áttu að rétta fiskíríið við, en það stóð skamman aldur. Fjörðurinn var of fjærri innréttingunum sjálfum og þá líka Skúla fógeta í Viðey. Og árið 1757 lagði hann til, að Hafnarfjörður yrði lagður niður sem verzlunarstaður og þá til þess að lyfta undir Reykjavík. Síðan hefur óneitanlega staðið nokkur togstreita unt það, hvort Hafnarfjörður fái að lifa. En er Bjarni riddari Sívertsen réðst í hinar miklu framkvæmdir sínar, sem voru fullt eins traustar og Skúla fógeta, og keypti Ófriðarstaði og Hvaleyri, auk verzlunarhúsanna í Akurgerði, og stofnsetti jafn þarflegt fyrirtæki og skipasmíðastöð, þá sýndi hann í verki, að Hafnarfjörður væri hinn ákjósanlegasti staður til athafna. Er hann því með réttu talinn höfundur kaupstaðarins. En staður þessi byggir enn á hinu sama og Englendingar ráku augun í um 1400.

Bjarni Sívertsen

Bjarni Sívertsen.

Undirstaðan er höfnin. Það er hún, sem skapar aðstöðuna, hin ágæta höfn, sem er hin bezta við Faxaflóa enn, sem komið er. Og það er undarlegt, að hún skuli ekki vera meira notuð nú á síðustu árum til þess að létta á Reykjavíkurhöfn, sem hefur alls ekki samboðið athafnasvæði í landi miðað við þýðingu og stærð, þar sem geymslupláss er sáralítið og umferðarskilyrði ein hin lökustu, sem sjá má í borg af svipaðri stærð. Hvað sem því líður, hefur Hafnarfjörður hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir framtíðina, og þá ekki síst með kaupum sínum á Krýsuvík, þar sem finna má hin verðmætustu auðæfi náttúrunnar hér nærsveitis og verða munu til Þess að margfalda möguleika Hafnfirðinga framtíðarinnar til afkastamikils athafnalífs og aukinna nota hinnar ágætu hafnar.” – Magnús Már Lárusson.

Framhald er undir fyrirsögninni “Enn úr firðinum“.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 17.12.1957, “Sitthvað um Fjörðinn” – Magnús Már Lárusson, bls. 4-6.
Hafnarfjörður 1890

Keflavík

Í þremur tölublöðum Faxa árin 1947 og 1948 eru birtir “Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum” eftir Mörtu V. Jónsdóttur:

“Það hafa löngum farið litlar sögur af Rosmhvalanesi eða Suðurnesjum, eins og Skaginn er kallaður í daglegu tali, eða því fólki, er þar hefur búið fyrr og síðar. Þó mun mörg sagan, ef geymst hefði, hafa borið Suðurnesjabúum vitni um snilli sjómennsku, drengskap og áræði, þrek og þorí hinum mörgu mannraunum liðinna alda. Svo munu þeir er bezt þekkja liðna kynslóð geta mælt. En það er eins og örlögin hafi frá upphafi byggðar séð um, að þaðan væri engra fregna að leita.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Tvisvar hafa verið ritaðir annálar á Suðurnesjum á fyrri öldum svo vitað sé. Báðir hafa þessir annálar glatast.
Sennilegt er, að íbúar Skagans hafi snemma dregið björg í bú, ekki einungis handa sér og sínum, heldur einnig handa öðrum. Hefur þar af myndast visir til verzlunar. Og einhverja góða og gilda ástæðu hefur Steinunn gamla landnámskona haft, þegar hún keypti landið af Ingólfi frænda sínum. Mætti geta þess til, að hún hafi þá þegar verið búin að sjá, hver gullkista lá úti fyrir ströndinni, er hún fór þangað til bús.
Það er sennilegt, að Keflavík hafi snemma á öldum orðið aðsetur verzlunar og viðskipta. Hefur lega staðarins valdið þvi, þar sem á báðar hliðar eru hin aflasælu fiskimið á vestanverðum Faxaflóa og jafnvel á sjálfri Keflavíkurhöfn oft og einatt uppgripa afli.

Höfnin í Keflavík, er liggur fyrir opnu hafi mót austri, var reyndar aldrei talin örugg  höfn, þótt akkerisbotn væri góður og dýpi nóg (14 faðmar), var skipum er þar lágu, hætta búin, er austan-suðaustan stormur geisaði. Var og talið allt fram á ofanverða 19. öld, að engri björgun yrði við komið, ef skip ræki upp að Berginu, enda urðu þar skipsakaðar nokkrir.
Aðrar hafnir á Skaganum voru áður fyrri Grindavík (Staðarsund), Þórshöfn norðan Ósbotna og Bátsendar sunnan við Stafnes. En allar þessar hafnir hurfu úr sögunni um og eftir aldamótin 1800 og varð Keflavík þá einvöld á Skaganum.
Keflavík
Svo sem kunnugt er, ráku Englendingar, Þjóðverjar og Hollendingar verzlun og fiskiveiðar hér við land fyrr á öldum. Koma þessar þjóðir, einkum Englendingar og Þjóðverjar, því mikið við sögu Skagans.
Nýi annáll getur þess, að enskt skip hafi komið til Suðurlands 1412. Mun það vera elzta heimild um siglingar Englendinga hingað til lands. Sumarið 1415 er aftur getið 6 enskra skipa, er lágu í Hafnarfirði og verzluðu við landsmenn. Eitt þeirra „reyfaði” skreið á Rosmhvalanesi og sést af því, að þeir hafa verzlað við suðurhafnirnar og er harla líklegt, að Keflavík hafi verið ein þeirra.
Aðalhöfn Englendinga við Faxaflóa, var Hafnarfjörður. En Hamborgarkaupmenn, er líka vildu fleyta rjómann af verzlun við Íslendinga, urðu Englendingum þungir í skauti og var oft æði róstursamt þeirra í milli.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar frá 15. öld.

Árið 1518 var orusta háð í Hafnarfirði milli Englendinga og Hamborgarmanna. Höfðu hinir síðarnefndu dregið saman mikið lið. Er sagt, að þá hafi komið til móts við þá 48 þýzkir menn sunnan frá Vatnsleysu, Keflavík, Bátsendum og Þórshöfn. Á þessu sést greinilega, að Þjóðverjar hafa þá verið búnir að leggja undir sig hafnirnar á Suðurnesjum.
Í orustu þessari sigruðu Þjóðverjar og náðu þá yfirráðum í Hafnarfirði. Hafa þeir eftir það orðið svo til einráðir á Faxaflóa.
Englendingar höfðu eftir þetta aðsetursstað í Grindavík um nokkurt skeið. En þetta var stundarfriður. Árið 1532 réðust Þjóðverjar að enskum kaupmanni, er þá verzlaði í Grindavík og hafði gjört sér vígi ‘á Járngerðarstöðum. Drápu Þjóðverjar kaupmanninn og allt lið hans. Hafa það án efa verið erfiðir dagar fyrir alþýðu manna að búa við sífelldar óeirðir og ójöfnuð útlendra manna. Þó hefur þjóðin orðið að þola margfalt meira, er konungsverzlun Dana varð hér einvöld árið 1602. Að visu hafa aðrar þjóðir verzlað við landsmenn eftir sem áður á laun, en eftir því sem lengur leið, urðu verzlunarsamböndin sterkari og böl landsmanna ægilegra.

Staður

Grindavíkurhöfn og Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá 1751.

Á einokunartímabilinu var hverri höfn úthlutað vissu umdæmi, var hverjum manni innan þess umdæmis, skylt að verzla við sinn verzlunarstað. Ef út af þessu var brugðið og upp komst, voru harðar refsingar dæmdar þeim, er framið hafði þá óhæfu að verzla við aðra en sinn kaupmann.
Alræmd varð sagan um Hólmfast Guðmundsson, bláfátækan búðarsetumann í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd. Hafnarfjarðarkaupmaður taldi hverfi þetta til síns umdæmis. Voru þó mörkin ekki glögg og oft um deild. Hólmfasti hafði orðið á sú skyssa að selja Keflavíkurkaupmanni 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd. Hefur ef til vill fengið betra verð. Mál út af þessu tiltæki Hólmfasts var tekið fyrir á Kálfatjarnarþingi sumarið 1699 og var hann dæmdur sekur. Ekkert átti hann til að borga með sektina, nema bát sinn, er talinn var svo ónýtur að hann væri ekki gjaldgengur. Var Hólmfastur því húðstrýktur á þinginu að viðstöddum amtmanni, HafnarfjarSarkaupmanni og öllum þeim, er þingið sóttu. Sætti hann þar hinni grimmilegustu meðferð. Á þessu sama Kálfatjarnarþingi lét sá hinn sami, Hafnarfjarðarkaupmaður, alþýðu gefa sér vitnisburð mjög lofsamlegan um verzlun og viðskifti þeirra í milli. Er augljóst, að alþýða manna hefur þá verið svo þrautpínd, að enginn hefur þorað að hreyfa andmælum, er þeir gáfu honum slíkan vitnisburð. En tíðum hafa Íslendingar verið langminnugir og svo mun hafa verið um þá menn, er þoldu óréttinn á þessu Kálfatjarnarþingi.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á Vatnsleysuströndinni, einmitt á þeim sama stað er atburður þessi gjörðist, lifði sagan um Hólmfast á vorum alþýðu fram undir síðustu aldamót og varð fastur liður í þeim sæg rökkursagna, er fullorðna fólkið sagði börnum og unglingum.
Nálega tveim öldum síðar en atburður þessi gjörðist, heyrði ég söguna sagða eina slíka rökkurstund. Maður sá, er söguna sagði, kunni frá mörgu að greina. Hann hafði alið allan sinn aldur á Vatnsleysuströnd og var af góðum ættum á Suðurnesjum hið næsta. Hann sagði, að Hólmfastur hefði eftir atburð þennan flutzt út í Njarðvíkur. Hefði bóndinn í Innri-Njarðvík tekið hann í sína umsjá og hefði Hólmfastur dvalið þar til æviloka. Sögumaður endaði með þessum orðum: „Þessari sögu megum við aldrei gleyma”.
Þótt þessi gerð sögunnar séu munnmæli ein, eru líkur fyrir því, að rétt sé hermt. Í manntalinu 1703, eða 4 árum síðar en atburður þessi gjörðist, búa á einni Innri-Njarðvíkurhjáleigunni: Hólmfastur Guðmundsson 56 ára, Solveig Sigurðardóttir kona hans 38 ára og Þorsteinn sonur þeirra II ára gamall. Býli þetta er nafnlaust í manntalinu, en lítill vafi er á því, að nafn Hólmfasts hefur festst við býlið. Mun það vera sama býlið, sem enn í dag heitir Hólmfastskot.

Skip 1600-1700

Skip – 1600-1700.

Um aldamótin 1700 var svo þrengt orðið kosti landsmanna, að ekki þótti viðunandi. Var Lárus Gottrúp lögmaður fenginn til utanfarar með erindisbréf, eða bænaskrá til konungs, er fjallaði um hörmungar landsmanna og harðdrægni kaupmanna. Lögmaður sigldi með Keflavíkurskipi og með honum kona hans og barn þeirra ásamt þjónustufolki.
Þegar lögmaðurinn var kominn suður til Keilavíkur, ásamt fólki sínu, albúinn til ferðar, heimtaði kaupmaður, að hann legði fram mat til fararinnar. Lögmaður ætlaði þá að kaupa kjöt og smjör af bændum þar syðra, því sjálfur hafði hann bú á Þingeyrum og voru auðvitað engin tök á að nálgast mat þaðan, en skipið lá albúið til siglingar á Keflavíkurhöfn.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Er kaupmaður vissi um fyrirætlanir lögmanns, fyrirbauð hann bændum að selja lögmanni og hótaði þeim stórum refsingum, ef þeir voguðu slíkt. Þorðu bændur þá ekki að selja fyrr en lögmaður hafði heitið þeim, að taka alla sökina á sig. Keypti lögmaður svo af bændum það, er hann þurfti og sigldi með skipinu. Þetta gerðist sumarið 1701. Er þetta glöggt dæmi um verzlunarhætti og átök milli landsmanna og kaupmanna. Svo er sagt að Hamborgarar hafi fyrst sett verzlunarbúðir sínar á hólma nokkurn skammt frá landi í Keflavík (Jón Aðils – Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602—1787). Það er mjög ólíklegt, að hólmi þessi hafi verið í Keflavíkurhöfn. Dýpi hafnarinnar er mikið og hvergi sker eða grynningar, sem gefa til kynna, að land hafi staðið þar upp tir sjó. Engin munnmæli eru til þar syðra um sokkinn eða eyddan hólma. Hefði þó verið eðlilegt, að sögn um slík umbrot hefði varðveitzt. En fyrir framan Leiruna, næstu byggð fyrir utan Keflavík, er hólmi, er var aðsetur þýskra endur fyrir löngu.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Árið 1840 ritaði séra Sigurður Sivertsen, prestur á Útskálum, lýsingu á prestakalli sínu. Þar segir svo um Leiruhólma: „ — Hann var áður grasi vaxinn, sem ennþá sér vott til. Höfðu þar þýskir haft fyrr meir verzlunarbúðir sínar á sumrum og lagt skipum sínum: hafa rúsir eftir þá allt til skamms tíma sést”. Gæti hólmi þessi, sem Íslendingar nefna ennþá Leiruhólma, hafa orðið í munni útlendings að Keflavíkurhólma, einkum ef þeir hafa þá samtímis verzlað á Keflavíkurhöfn. Eru mörg dæmi þess, að útlendingar breyttu staðanöfnum hér eftir geðþótta.
Skúli landfógeti Magniísson segir í hinni merku ritgerð sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu, er hann samdi árin 1783—85, að Vatnsnesvík hafi verið verzlunarstaður til forna „— en sennilega áður en verzlun hófst í Keflavík”. Á þessum stað, sunnanvert við Vatnsneskletta, eru nú hafnarmannvirki Keflavíkur.
Árið 1787 var verzlunin hér á landi gefin frjáls, en einungis við alla þegna Danakonungs. Konungsverzlun Dana, sem hér hafði setið að völdum frá 1602, seldi þá, og næstu ár, verzlanir sínar. Danskir kaupmenn, sennilega margir þeirra er verið höfðu verzlunarfulhrúar fyrir konungsverzlunina, keyptu þá verzlanirnar og ráku þær áfram. Munu verzlunarhættir lítið hafa breytzt fyrst í stað, en smátt og smátt hefur farið að rofa til, enda risu þá upp fleiri verzlanir við hverja höfn.

Keflavík
Kaupmaður sá, er keypti Keflavíkurverzlun, hét Christian Adolph Jacobæus, þá kaupmaður í Keflavík. Kaupverð verzlunarhúsa, lóðar og varnings var 10265 ríkisdalir 17% skildingur í „kurant”-mynt. Christian Adolph var fæddur í Keflavík 1767 og hefur ungur tekið við verzlunarforstöðu eftir föður sinn, Holgeir gamla Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Keflavík.
Haustið 1785 kom Jacobæus upp frá Danmörku með Hafnarfjarðarskipi og var þá veikur af bólusótt. Hafði hann farið utan um vorið í verzlunarerindum, en tekið sóttina um það leyti, er hann lagði í haf. Barst bólan eftir þetta um landið og varð af mikið mannfall.

Keflavík

Keflavík 1800.

C. A. Jacobæus kvæntist 1794 danskri konu, Reginu Magdalenu, er var fædd í Kaupmannahöfn 1769. Þau áttu mörg börn, þar á meðal Holgeir Jacobæus, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn og Sophiu, er átti Ebbesen verzlunarstjóra í Rvík.
Jacobæus stofnaði verzlun í Reykjavík 1795, ásamt Ludvigsen stórkaupmanni í Kaupmannahöfn. Var hann annar elzti kaupmaður í Reykjavík. Hefur hann þá átt mikinn húsakost í Keflavík, því hann lét flytja tvö af Keflavíkurhúsum sínum til Reykjavíkur og byggja þau þar, við Hafnarstræti. Var annað húsið sölubúð og íbúð sitt í hvorum enda; hitt var vörugeymsluhús, stórt og mikið, og eflaust vel byggt, því það hús stóð hér í Reykjavík til 1935 og var síðast alllengi notað fyrir bílaviðgerðarverkstæði.

Peter Duus

Peter Duus.

Jacobæus bjó eftir sem áður í Keflavík, en hafði verzlunarstjóra í Reykjavík, þar á meðal Ebbesen tengdason sinn og Peda Duus, er löngu síðar varð kaupmaður í Keflavík og kemur þar mikið við sögu.
Aðra verzlun átti Jacobæus í Hafnarfirði. Sú verzlun varð síðar Linnetsverzlun, er lengi starfaði í Hafnarfirði og var góðfræg. Hans Linnet var fyrst verzlunarstjóri Jacobæusar í Hafnarfirði, en keypti svo verzlunina 1836. Kona hans var Regina Magdalena Secrup, systurdóttir C.A. Jacobæusar í Keflavík. Eiga því niðjar þeirra Linnetshjóna ætt sína að rekja til Holgeirs Jacobæusar hins síðasta kóngskaupmanns í Keflavík. C. A. Jacobæus hefur haft umfangsmikla verzlun í Keflavík. Það sýnir meðal annars, hve margt fólk var á heimili hans.
Árið 1790 voru þar 38 manns. Jacobæus var þá ókvæntur, en danskur beykir Hoeg að nafni, kona hans einnig dönsk og dóttir þeirra, er var matreiðslukona, munu hafa séð um kaupmannsheimilið. Vinnufólkið mun hafa búið í öðru húsi, enda var þar einnig önnur ráðskona, er Ingveldur hét Einarsdóttir.
Þar var einn „undirassistent”, einn búðardrengur, einn afhendingarmaður, einn smiður. Það var Jóri Sighvatsson, er síðar varð útvegsmaður og merkisbóndi í Höskuldarkoti við Ytri Njarðvík. Fjórtán vinnumenn, sjö vinnukonur og fjögur börn, er vinnufólkið átti, auk þess einn gamall maður örvasa og þrír danskir vetursetumenn. Næstu ár fór fólki heldur fækkandi, og 1801 voru ekki nema 14 manns í heimili.
KeflavíkEftir Chr. A. Jacobæus, varð Holger sonur hans kaupmaður í Keflavík 1836. Kona hans, Charlotte Marie, var dönsk. Þau áttu 15 börn. Voru 10 þeirra á lífi, er þau fluttu af landi brott 1843 og 1844. Þessar fjölskyldur bjuggu allar í sama húsinu, hver eftir aðra, en það er gamla Duushúsið, er svo mun vera nefnt enn í dag.
Séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum, hefur ritað smákafla um þá Jacobæusarfeðga inn í húsvitjunarbók prestakallsins 1827—1847 við árið 1837. Hann segir svo um Holger Jacobæus: „Foreldrar kaupmanns Jacobæusar var kaupmaður Chresten Jacobæus og Md Regina Magdalena, bjuggu þau hjón fyrr í Keflavík, átti hann þar kaupstað; líka höndlun í Hafnarf. og Rvík og var einn sé merkasti maður á sinni tíð. Faðir hans var Holgeir gamli Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Rvík. Holger yngri fékk Keflavík keypta af föðurnum eða til láns, en varð að láta af hendi aftur. Varð hann þá factor hins nýorðna eiganda kaupm. J. J. Benediktsen. Varð þó seinna að láta þá forþénustu lausa og sigldi árið 1843 til Færeyja hvar hann fékk forþénustu í brauði Clausens í Ólafsvík. Kona hans og börn sigldu ári seinna og áttu þau saman 15 börn en hann hafði eignlengi mjög örðuga lífsútkomu. Þau hjón eignast 1 son áður, Karl að nafni”.
Jens Jakob Benediktssen varð eigandi Keflavíkurverzlunar 1841, en bjó þar aldrei. Hann var sonur Boga sagnfræðings á Staðarfelli Benediktssonar, átti verzlanir á Ísafirði, Grundarfirði og Vestmannaeyjum, en bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Verzlunarstjóri hans í Keflavík, eftir að Jacobæus hvarf burtu, var Marteinn Smith, er síðar var kaupmaður og konsúll í Reykjavík og var giftur Ragnheiði systur Jens Jakobs. Þau fluttu til Keflavíkur 1844 og bjuggu þar 4 ár. En 1848 fluttu þau til Kaupmannahafnar og seldi Smith þá Duus kaupmanni Keflavíkurverzlun.”

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1947, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 9.
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 4-5.
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 3-4.

Keflavík