Færslur

Sjóbúð

Nafngiftir í veri á Reykjanesskaganum, bæði til forna og allt fram á 20. öld, eru áhugaverðar. Gömul nöfn í verinu hafa nú fengið nýjar merkingar, en fróðlegt er að skoða uppruna þeirra og tengsl við verið og vermennskuna. Verstöðvarnar voru með ströndinni, bæði að sunnanverðu og norðanverðu. Voru það ýmist útver eða heimaver.

Verbúð

Verbúð.

A. -Flutningsmenn – duglegir menn er tóku að sér að flytja færur (föt, gerðir skór, skinnklæði, ýmsir smámunir, verskrínan með smjéri og smálka (kæfu).
B. -Heimarekstrarmenn – þeir sem ráku hestana heim eftir að hafa fært færur í verið.
C. -Þjónusta – sú er sá vermönnum fyrir brauði eða annarri þjónustu – oftast á nálægum bæjum.
D. -Liðléttingur – sá um ýmsa útréttinga og létta vinnu í landi.

Skipin voru oftast tírónir áttæringar með 14 mönnum, auk hálfdrættings. Stundum voru þau þó bæði sexæringar áttrónir, með 10 mönnum, og jafnvel teinæringar, tólfrónir með 16 mönnum.

Hér verða til fróðleiks nefnd 20 störf er tengdust vermennskunni með einum eða öðrum hætti. Eflaust kannast sumir við nöfnin, en í annarri merkingu, s.s. formaður nefndar, lagsmaður konu, leiðsögumaður ferðamann, andþófsmaður (andófsmaður), leimaður íþróttafélags og trúnaðarmaður stéttarfélags eða á vinnustað.

1. -Formaður – sá er stýrði bæði búð og báti – til orðs og æðis.
2. -Vermaður – maður í veri, venjulega útveri, hafði í skrínu 3 fjórðunga af smjöri, 1 sauð, soðinn niður í smálka eða kæfu – kölluð mata, einnig sauðafall reykt, 1 fjórðung af harðfiski og 1 fjórðung af rúgi. Ennfremur 2 pund af kaffi, 2 pund af kandíssykri og 1 pund af kaffirót. Dugði matan ekki varð vermaður mötustuttur.
3. -Háseti – hver við sinn keip (á kyndilmessu – 2. febrúar) – ræðari og vermaður á bát.
4. -Lagsmaður – lá með öðrum í bálki.
5. -Þóttulagsmaður – samsetungur á þóftu.
6. -Hlutalagsmaður – tveir hásetar voru um eitt kast er skipt var. Formaður skipti, tók besta fiskinn af óskiptu sem skipsfisk, en deildi öðrum öðrum þorskafla í köst, nema ef tekið var frá fyrir segli, önglum eða skipi.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

7. -Hálfdrættingur – íhlaupamaður, oftast unglingur. Margur vermaðurinn byrjaði sem hálfdrættingur.
8. -Kaffihaldari – ráðsettur skipverji er hélt utan um kaffiforðann, sauð og skekknti kaffi, ábyrgðarstarf.
9. -Sögumaður – sá er flutti sögu, las sögur, hafði uppi kveðskap, lagði gátur og “skanderingar” (spil, tafl, skák, kotru, myllu, goða eða að “elta stelpur”.
10. -Leiðsögumaður – sá er sagði til um dýpið hverju sinni.
11. -Miðskipsmaður – besta sætið, minnst velta og létt að draga – oft yngstu mennirnir.
12. -Barkamaður – miðskipa – andæft við miðkipsmann.
13. -Fyrirrúmsmaður – miðskipsmaður mót barkamanni.
14. -Framámaður – sá er stökk fram við lendingu hvoru megin og hélt skipinu kyrru meðan seilað var, mikið vandaverk og eingungis heljarmönnum ætlað.
15. -Afturámaður – sá sem var í slógrýminu þar sem útgerðin fór fram.
17. -Andþófsmaður – hélt skipinu upp í vindinn á veiðum og gætti þess að það ræki ekki, yfirleitt tveir.
16. -Landverkamaður – vann og verkaði fiskinn í landi – oft unglingur.
18. -Leikmaður – þátttakandi í leikjum, s.s. glímu, aflraunum, höfrungahlaup, ríða til páfans, járna pertu, sækja smér í strokk o.fl. Inni voru sagðar sögusagnir, sögulestur, kveðnar rímur, lagðar gátur og skanderingar (kveðast á), ennfremur spil, tafl, skák, kotra, mylla, goði og að elta stelpu.
19. -Trúnaðarmaður – sá er tók að sér að skrifa bréf fyrir óskrifandi, t.d. til kærustu.
20. -Heimgöngumenn – menn er sammældu sig til farar heim úr veri 11. maí.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Happadrætti fengu menn er veiddu annað en þorsk á öngul sinn. Eign þess er dró.

Samheiti fyrir sjóklæði var bösl.

Fiskur verkaður og flattur. Flattur fiskur var hlaðinn í kös og síðan lagður á lága grjótgarða (vergögnin). Fiskurinn þurfti að skelja í frostlausu. Þá var hann góð vara í kaupstað. Fékk fiskurinn ekki þurrk vildi hann slepja og varð maltur. Þá varð hann óhæf verslunarvara. Ef fiskurinn fraus í herslunni var hann ágæt matvara, en gekk illa í kaupstaðabúa. Væri hann breiddur upp nýr og þornaði án þess að frjósa, varð hann ólseigur og illur til átu, en ágæt kaupstaðavara. Það gat því verið vandlifað í veri.

Ef einhver skipverji veiktist , var honum gefinn hlutur og jafnvel þótt hann lægi alla vertíðina.

Í róðri gátu einhverjir farið að “gifta sig” og “kalla á Eyjólf”, en svo var kallað í spaugi, er menn gubbuðu af sjósótt; hið fyrra nafnið var dregið af veislunni, sem fugl og fiskur fékk af upplátinu, en hið síðara af hljóðinu við uppköstin.

Heimildir m.a.:
-Oddur Oddsson – Sagnir og þjóðhættir – 1941.

Verleiðir