Í Fálkanum 1963 er viðtal við Vigdísi Ketilsdóttur frá Kotvogi í Höfnum undir yfirskriftinni “Æskudagar í Höfnum“. Hún var þá 95 ára og mjög vel ern. Sveinn Sæmundsson skrifaði viðtalið. Þar segir m.a.:
“Á nítjándu öldinni, þegar allur almenningur barðist í bökkum, en ný tækni var að koma til sögunnar fór mikið orð af ríkidæmi ýmissa útvegsbænda á Álftanesi og suður með sjó. Flestir voru þetta miklir dugnaðar og fyrirhyggjumenn, sem nytjuðu landið og sóttu jafnframt sjóinn. Sumir höfðu komizt í álnir af eigin rammleik, en aðrir höfðu hlotið nokkurn arf og ávaxtað sitt pund með ráðdeild, og var sá hópurinn stærri.
Einn þeirra höfðingja sem hvað mest orð fór af um miðja nítjándu öldina, var Ketill Ketilsson í Kotvogi, Ketilssonar Jónssonar ættaður af Álftanesi.
Katli var svo lýst, að hann var höfðingi í sjón og raun, alvörumaður og trúmaður mikill. Kona hans var Vilborg Eiríksdóttir, ættuð austan ag Skeiðum, en alin upp á Litla-Landi í Ölfusi. Þau Ketill og Vilborg eignuðust sex börn er upp komust og er af þeim komin mikil ætt. Meðal barna þeirra voru Ketill, sem tók við búi í Kotvogi, Eiríkur, sem lengi bjó að Járngerðarstöðum í Grindavík og Vígdís, húsfrú að Grettisgötu 26 í Reykjavík.
Vigdís er ern svo af ber. Þrátt fyrir níutíu og fjögur ár að baki, er hún hress og glöð í bragði, stálminnug og hafsjór af fróðleik, ekki einungis frá gömlum dögum, heldur frá því sem hefur skeð fyrir nokkrum árum eða því sem skeði fyrir nokkrum vikum eða mánuðum. Í stuttu rabbi sagði Vigdís mér frá ýmsu sem á dagana hafði drifið, en saga merkar konu í níutíu og fimm ár verður ekki sögð í stuttri blaðagrein. Því verður þetta ekki ævisaga heldur nokkrar ósamstæðar myndir.
— Ég er fædd í Kotvogi árið 1868 en fór eins árs gömul í fóstur til Gunnars Halldórssonar og Halldóru Brynjólfsdóttur í Kirkjuvogi. Þetta atvikaðist þannig, að móðir mín veiktist og okkur tveim yngstu börnunum var komið í fóstur. Kirkjuvogur var næsti bær við Kotvog, — túnin lágu saman. Mamma fór til Reykjavíkur til lækninga, hún var sullaveik og það voru átta aðrir slíkir sjúklingar hjá Jónassen ]ækni.
Lækningaaðferðin þætti ekki á marga fiska núna, sjúklingurinn var látinn sitja á stól og svo var stungið á honum. Af þessum níu sjúklingum dóu sjö. Mamma og ungur piltur lifðu af. Þegar hún kom aftur heim í Kotvog, voru fósturforeldrar mínir búnir að taka ástfóstri við mig og vildu helzt hafa mig áfram. Það drógst að ég færi heim aftur og þegar ég var átta ára dó Gunnar fóstri minn. Þá tók ég af skarið og sagðist ekki yfirgefa fóstru mína. Í Kirkjuvogi var ég svo til nítján ára aldurs, en auðvitað með annan fótinn í Kotvogi seinni árin.
Meðan mamma var veik í Reykjavík bjó hún hjá þeim Geir Zoega í húsinu sem nú er nýbúið að rífa neðarlega á Vesturgötunni. Mikið sé ég eftir því húsi. Ég var þarna seinna og mjög dásamlegar endurminningar á ég þaðan. Pabbi minn og Geir Zoega voru miklir vinir. Geir var frábærlega duglegur maður og var jöfnum höndum í búskapnum, verzluninni og útgerðinni. Hann var allt í öllu og virtist hafa tíma til alls. Við vorum þarna stundum langdvölum, en aldrei fékkst Geir til að taka við borgun. — Bændur sunnan að ráku fé til Reykjavíkur og seldu bæjarmönnum. Ég man að pabbi sendi Geir einu sinni tvo væna sauði. Vinnumaður var í Kotvogi, sem Einar hét, kallaður Melkir. Hann var trúmennskan sjálf en einfaldur og skrítinn í tilsvörum. Einar var meðal rekstrarmanna þegar pabbi sendi Geir sauðina tvo. Þegar þeir voru komnir með reksturinn inn í Reykjavík dreif að margt fólk til þess að skoða féð. Þar á meðal var Theodor Jónassen bæjarfógeti sem fór að þukla sauðina og hafði orð á því hvað þeir væru fallegir. Einar þekkti ekki bæjarfógetann, rauk að honum og sagði: „Hvað, ætlar þú að stela sauðunum? Hann Ketill minn á þá”!”
Baðstofulífið var skemmtilegt í Kotvogi. Þar var yfir tuttugu manns í heimili á vertíðinni og allt prýðis fólk. Pabbi var ákaflega heppinn með það. Hann var mikill alvörumaður, en hafði ekki á móti því að glatt væri á hjalla hjá unga fólkinu. Auk heimilsfólksins, var alltaf margt ungt fólk af bæjunum í kring,sem kom og sat í baðstofunni á kvöldin og tók þátt í vinnunni og kátínunni. Eiríkur bróðir minn var ekkert hrifinn af ullarvinnunni, en hann var hrókur alls fagnaðar heima. Hann spilaði listavel á harmonikku og stundum var dansað. Við fengum að dansa í fremri stofunni, sum okkar höfðum lært að dansa í Reykjavík og eldri bændum í nágrenninu fannst þetta í meira lagi skrítið, það man ég glöggt.
Húslestur var lesinn á hverjum degi á haustin og veturna og á sunnudögum allt árið. Á eftir var sunginn sálmur. Oftast var lesið úr Pétursbók og þeir lásu til skiptis bræður mínir.
Baðstofan á Kotvogi var gríðar stór. Fremst var afþiljað hús, þar sváfu foreldrar mínir. Alltaf voru lesnar sögur eða annar fróðleikur á vokunni. Noregskonunga sögur voru í uppáhaldi og ýmsar bækur sem út komu.
Hjá okkur var alltaf mikill og góður matur, alltaf eldað það mikið að hægt væri að bjóða gestum að borða, því mjög var gestkvæmt.
Steikur voru á stórhátíðum og voru steiktar í stórum potti með flötum botni og loki. Í þessum pottum var líka bakað brauð og þá var potturinn látinn standa á glóðinni og glóð líka látin ofan á lokið til þess að fá brauðið til þess að bakast jafnt. Einu sinni á ári kom skip með vörur frá Keflavík. Þetta var mikill flutningur, því fólkið var margt. Í fremri stofunni voru tvær stórar byrður sem kornmaturinn var geymdur í.
Heima í Kotvogi var mjög stór og reisulegur bær. Þar voru tvær stofur auk baðstofunnar og húsakostur allur mjög góður. Bærinn var byggður úr rekaviði og það var alltaf sérstakur ilmur af honum, úr viðnum. Við unga fólkið fórum stundum margt saman í útreiðartúra, og þá var glatt á hjalla. Ég var alltaf mikið fyrir hesta og við höfðum lengi hesta hérna á Grettisgötunni.
Pabbi átti úrvalsgæðinga, og meðan ég var lítil, var mér og bróður mínum á líkum aldri stranglega bannað að fara á bak þeim. Einu sinni sem oftar fórum við, bróðir minn og ég, út með sjó. Við vorum alltaf með snæri og oftast náði maður hestum til þess að komast leiðar sinnar.
Við vorum bæði aðeins krakkar þegar þetta gerðist. Pabbi hafði þá fyrir nokkru fengið tvo gæðinga norðan úr Skagafirði og hafði vinur hans fyrir norðan valið þá fyrir hann ,og sent suður. Pabbi hafði lagt sérstaklega ríkt á við okkur að láta þessa tvo í friði, en þeir voru í girðingu og voru tvö rekatré í hliðinu, þannig að okkur krökkunum var ofraun að opna það eða loka. Nú sem við vorum þarna innfrá, sáum við enga aðra hesta, en þessa tvo gæðinga hans pabba og freistingin var of sterk: Við hnýttum upp í þá og fórum á bak. Það var eins og við manninn mælt, að þeir tóku á rás og við réðum ekki við neitt. Efra tréð í hliðinu var ekki í og þeir stukku léttilega yfir það neðra með okkur á bakinu og geistust á harða stökki heim að Kotvogi. Þeir stönzuðu ekki fyrr en heima á hlaði.
Pabbi átti kíki og einmitt þennan dag var hann að kíkja inneftir. Einhver af heimilisfólkinu heyrði hann allt í einu hrópa upp yfir sig: „Guð minn góður!” Hann hafði komið auga á hestana, sem fóru sem fugl flygi yfir vegi og vegleysur með okkur á bakinu. Ekki man ég hvort við hlutum refsingu fyrir tiltækið, en ekki reyndum við að óhlýðnast þessu banni í annað sinn.
Frá Kotvogi voru gerð út tvö skip á vertíð, áttæringur og teinæringur. Pabbi var heppinn með menn á þau eins og reyndar allt sitt fólk, og oft varð ég þess vör, að ungum mönnum þótti gott að vera á útgerð hans. Ungar stúlkur tóku fullan þátt í störfunum og við jafnöldrur mínar unnum í öllu nema því að bera á tún. En í fiskinum vorum við seint og snemma á vertíðinni og fram á sumar. Ég get sagt að ég hafi átt tvenna dásamlega foreldra, mömmu og pabba í Kotvogi og mömmu og pabba í Kirkjuvogi fósturforeldra mína. Fósturforeldrar mínir áttu einn son, séra Brynjólf, sem seinna giftist systur minni. Gunnar fóstri minn í Kirkjuvogi var meðalmaður að hæð, þrekinn og annálaður kraftamaður.
Bærinn í Kirkjuvogi var tveggja hæða timburhús og stóð skammt frá sjónum, en stétt fyrir framan húsið, hellulagðri, hallaði niður að sjónum. Fóstra minn vantaði einu sinni stóra hellu í hornið á stéttinni og hann fór með piltana sína til þess að sækja hana. Þeir leituðu nokkuð og kölluðu á hann. Sögðust hafa fundið hellu sem væri góð en hún væri jarðföst. „Getið þið ekki ráðið við hana fjórir?” spurði hann. Þeir sögðust ekki komast að henni fjórir. Fóstri minn gekk að hellunni, lyfti henni og bar hana út á skipið.
Einu sinni í landlegu komu tveir ungir menn, sem heldur þóttu árásasamir að Kirkjuvogi og voru undir áhrifum. Ekki vissi ég hvernig þetta byrjaði, en þeir voru uppi á lofti og lenti þar saman í slagsmál. Einhver hrópaði að sækja húsbóndann. Fóstri minn kom upp á loftið með hægðinni, tók þá báða og setti á sitt hvort hné svo bökin snéru saman og hélt þeim þannig. Þeir voru alveg óðir og vildu bíta hvern annan heldur en ekki, en fóstri minn hélt þeim í stálgreipum þangað til móðurinn rann af þeim. Hann var annálaður kraftamaður og stilltur vel og misnotaði ekki sína miklu krafta. Gunnar fóstri minn gat ekki heitað mér um neitt, sem ég bað hann um og alltaf fann hann leiðir til þess að veita mér bænir mínar, án þess að ganga í berhögg við neitun fóstru minnar ef svo bar undir.
Mér er minnisstætt að einu sinni á miklum afladegi var hann að salta aflann og allir unnu að nýtingu hans. Ólafur bróðir minn sem var nokkrum árum eldri en ég, kom heim frá Kotvogi og sagðíst ætla á bát út í varpeyju, sem liggur skammt undan landi, ,,og ég verð skipstjórinn,” sagði hann. Ég hljóp inn til fóstru minnar og bað um leyfi að fara með. Hún sagði að það kæmi ekki til mála að ég færi með. Þetta væru allt börn og svona ferðalag stórhættulegt fyrir þau. Ég hef víst farið að skæla, nema þegar ég kom þangað sem fóstri minn var að salta fiskinn, spurði hann hvað væri að. Ég sagði að fóstra mín hefði bannað mér að fara í skerið með Ólafi. „Já, með eintómum krökkum máttu ekki fara og auðvitað hefur fóstra þín rétt fyrir sér eins og alltaf, en hún bannar þér ekki að fara með mér.” Svo hætti hann að salta og réri með okkur krakkana út í eyju.
Þegar afurðunum var afskipað, voru bátarnir lestaðir í lítilli vík, sem heitir Þórshöfn. Þetta var afburða góð höfn og þröngt sund inn í hana. Fóstri minn og piltar hans voru einu sinni að skipa út hrognum í tunnum. Þegar þeir komu út að skipinu sem átti að taka tunnurnar, var þeim sagt að þeir yrðu að bíða, því yfirmennirnir væru að borða. Ekki munu Gunnari fóstra mínum hafa líkað þessi svör. Allt í einu heyrðu yfirmenn og aðrir á skipinu, sem var hátt á sjónum, dynki og skruðninga. Þeir þustu frá borðhaldinu og urðu þá vitni að því, að fóstri minn tók hverja tunnuna af annarri og kastaði þeim upp úr bátnum upp á þilfarið. Þeir létu hann ekki bíða það sem eftir var af útskipuninni.
Alltaf eru mér minnisstæðar ferðir okkar út að Kalmannstjörn. Þar bjó ekkja, Ráðhildur að nafni, mesta sæmdarkona. Hún missti þrjá mennina sína og unnusta að auki. Tvo þeirra tók sjórinn. Ráðhildur var mjög gestrisin og manni fannst mikið til koma að fá kaffi og kræsingar í stofunni. Hún missti einnig son sinn í sjóinn, ég man að skipið fórst þriðja jóladag. Móðir mín var hlédræg kona og fátöluð, en þegar hún lét i ljósi skoðun sína á einhverju máli var eftir því tekið. Merkur maður sem ég þekkti í æsku, sagði einu sinni, að aldrei hefði hann vitað svo ólík hjón, sem forelra mína, né heldur jafn gott hjónaband. Þau dáðu hvort annað. Vart mun hafa liðið sá dagur að pabbi væri ekki beðinn einhvers greiða og hann var með afbrigðum bóngóður. Þó var tvennt sem honum var sárt um: Það voru skip, sem alltaf voru höfð í sem beztu lagi, og svo hestar.
Einu sinni snemma morguns, kom nágranni okkar einn, sem ég nafngreini ekki, heim að Kotvogi. Foreldrar mínir voru ekki komnir á fætur en maðurinn bað pabba að lána sér bát til þess að sækja timbur, sem rekið hafði úr strönduðu skipi. Þennan dag var hálf illt í sjó, og pabbi sagði manninum að hann vildi helzt ekki lána bátinn, því þeir létu hann berjast við grjótið og færu ekki nógu vel með hann að öðru leyti. Maðurinn fór við svo búið. Pabbi snéri sér að mömmu og spurði hvort hún væri ekki á sama máli. „Gazt þú ekki neitað honum með færri orðum,” sagði hún. Pabbi skildi hvert hún fór. Hann fór fram í baðstofu þar sem piltarnir voru að borða morgunverð og sagði þeim að taka áttæring, róa inn í ósa og sækja timbrið fyrir manninn, og síðan ættu þeir að bera það á land og koma því fyrir heima hjá honum.
Pabbi átti jörðina Hvalsnes og þar byggði hann kirkju árið 1864. Þessi kirkja var úr timbri. Mörgum árum seinna komu menn af Nesinu og tjáðu honum að þakið á kirkjunni væri farið að leka. Ég man þetta eins og það hefði gerzt í gær. Pabbi sat eftir að mennirnir voru farnir og var hugsi. „Ég er ákveðinn i að láta gera það,” sagði hann upp úr eins manns hljóði. Mamma spurði hvort hann ætlaði að láta gera við þakið á kirkjunni. „Ég er ákveðinn í að byggja nýja steinkirkju,” sagði hann. „Ég ætla ekki að skilja eftir eitthvert fúahrip handa börnunum mínum.” Svo lét hann byggja steinkirkju þá er nú stendur á Hvalsnesi árið 1887.
Geir Zoega útvegaði honum færasta trésmið héðan úr Reykjavík, Magnús Ólafsson og steinsmiður var Stefán, faðir Sigvalda Kaldalóns og þeirra systkyna. Pabbi kostaði kirkjubygginguna að öllu leyti.
Ég giftist tuttugu og tveggja ára. Maðurinn minn var Ólafur Ásbjörnsson frá Njarðvík. Við hófum útgerð frá Kotvogi en þá voru togararnir komnir á miðin, þeir skófu Hafnaleirinn og þessa vertíð fiskaðist varla í soðið, hluturinn var frá 16—50 fiskar. Margir á skipinu okkar Ólafs voru svonefndir útgerðarmenn, þ. e. menn sem réru fyrir fast kaup yfir vertíðina en voru ekki upp á hlut. Það vor létu sumir bændur sem ég vissi um úrin sín eða giftingarhringana til þess að gera upp við sjómennina. Vitanlega urðu þeir að fá sitt. Við bjuggum lengi að afleiðingum þessarar lélegu vertíðar, rétt eftir aldamótin.
Eftir 12 ára búskap í Keflavík fluttum við til Reykjavíkur.”
Heimild:
-Æskudagar í Höfnum – Vigdís Ketilsdóttir, Fálkinn 06.02.1963, 36. árg, 5. tbl. bls. 8-9 og bls. 36.