Tag Archive for: Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu 1960, er birt þjóðsagan  „Í risaklóm„. Sagan birtist einnig í Æskunni árið 1981:

Vigdísarvellir

Móhálsadalur austan Vigdísarvalla.

„Endur fyrir löngu bjuggu hjón á bæ þeim, skammt frá Krýsuvík, er Vigdísarvellir hét. Sá bær er nú í eyði. Þau hjón áttu sér eina dóttur. Hún hét Guðrún. Guðrún var forkunnar fögur. Svo fögur að hennar líki fannst enginn á öllu íslandi. Ekki er þess getið að þau hjón hafi átt fleiri barna. Og bjuggu þau með dóttur sinni einni á Vigdísarvöllum.

Þegar þessi saga gerðist eru hjónin hnigin mjög á efri aldur, en dóttir þeirra gjafvaxta. Fregnir um fegurð Guðrúnar og gjörvuleik fóru víða. Menn komu víðsvegar að til þess að biðja hennar. En allt var það árangurslaust.
Hversu fríðir og föngulegir og fémiklir sem biðlarnir voru, neitaði Guðrún þeim öllum. Og getur sagan ekki um ástæðu fyrir því. Gekk svo um langan tíma.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Eitt kvöld síðla sumars er barið all-harkalega á bæjardyrnar á Vigdísarvöllum. Verður þeim hjónum og Guðrúnu bilt við, og hikaði bóndi við að fara til dyra. Er þá aftur barið og enn þunglegar en áður. Verður bónda nú ekki um sel og fer hvergi. Þess er þá skammt að bíða, að barin eru þrjú bylmingshögg á bæjardyrnar. Og þorir bóndi nú eigi annað en út að ganga. Nokkuð var farið að rökkva. Koldimmt var í göngum. Uggur var í bónda. Þreifaði hann sig fram eftir göngunum, fálmaði eftir slagbrandinum, tók hann gætilega frá dyrunum og gægðist út. Sá hann þá hvar stór maður, ferlegur útlits og ófríður, stóð frammi fyrir honum. Fannst bónda maðurinn mikilúðlegur og illa vaxinn. Þóttist hann aldrei hafa séð svo ljótan mann fyrr á ævi sinni. Sýndist honum hann meira líkur risa en mennskum manni. Hugði nú bóndi að hér væri ekki allt með felldu, en reyndi sem allra minnst að láta á ótta sínum bera. Heilsaði hann manni þessum, spurði um heiti hans og innti hann eftir erindi hans, og hvaðan hann væri. Kvaðst maðurinn heita Ögmundur og vera kominn til þess að biðja dóttur hans.
Ekki sagðist hann geta sagt hvaðan hann væri. Svo óttasleginn sem bóndi var fyrir, varð hann hálfu hræddari, er hann heyrði erindi komumanns og hinn hrikalega málróm hans. Bóndi varð fár við í fyrstu en sá fljótt að nú var annað hvort að duga eða drepast. Bað hann komumann hinkra ögn við meðan hann brygði sér í baðstofu og færði þetta í tal við konu sína og dóttur.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Þarf ekki að orðlengja það, að bónda þótti nú þunglega horfa, og að konu hans og Guðrúnu þóttu tíðindin ill. Æddi bóndi nú eirðarlaus fram og aftur um baðstofugólfið. Álasaði hann dóttur sinni harðlega fyrir að hafa ekki þegið bónorð einhvers af þeim mörgu ágætu og glæsilegu mönnum, er höfðu beðið hennar. Hefði þá þessum vansa verið bægt frá dyrum þeirra. En um það dugði ekki að fást, úr því sem komið var. Hér var vandi á ferðum. Góð ráð voru dýr. Hryllti bónda við að láta dóttur sína í hendurnar á þessum hræðilega risa. Og ef hann neitaði, var eins líklegt að hann tæki Guðrúnu með valdi og flytti hana á brott með sér. Í öngum sínum og ráðaleysi ráfaði bóndi nú til dyranna, en kona hans og dóttir fylgdu honum eftir með skelfdum augum. Komumaður leit löngunarfullum augum til bónda er hann kom út. En í því er bónda varð litið upp til hins ljóta og afskræmda andlits risans, kom honum skyndilega ráð í hug. —

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Nú er frá því að segja að skammt frá Vigdísarvöllum var hraun nokkurt, ógreiðfært og illt yfirferðar. Var það ákaflega úfið, holótt og þversprungótt og lá víða á því mosaslæða, svo að stórhættulegt var yfir að fara. Kom það eigi sjaldan fyrir að slys urðu á mönnum og dýrum. Bóndi hafði þá nýlega misst hest sinn og hafði hann fótbrotnað í klungri hraunsins.
Bóndi bað komumann fylgja sér. Mæltu þeir fátt en gengu hratt. Þegar þeir komu að hraunjaðrinum, mælti bóndi: „Ég skal gefa þér dóttur mína fyrir konu en með einu skilyrði þó. Þú skalt ryðja þetta hraun. Skaltu ryðja greiðfæran veg í gegnum það og vera búinn að því að sólarhring liðnum. Verðurðu ekki búinn að því fyrir lágnætti annað kvöld, verður þú af dóttur minni.“ Að svo mæltu gekk bóndi snúðugt burtu. Varð fátt um kveðjur. En risinn tók til óspilltra málanna við að ryðja hraunið.
Bóndi gekk glaður heim á leið og þóttist nú heldur en ekki vel hafa dugað sér og sínum. Sváfu þau hjónin vel um nóttina. Guðrún svaf illa. Hafði hún ýmist þunga drauma eða lá andvaka. Gat hún ekki varist þeirri hugsun, að verið gæti að risanum tækist að ryðja hraunið. En bóndi kvað það hina mestu fjarstæðu, taldi í hana kjark og bað hana sofa.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Árla næsta morgun reis bóndi úr rekkju. Hann gekk út á bæjarhólinn og skyggði hönd fyrir auga. Sá hann þá hvar risinn hamaðist sem mest hann mátti. Var engu líkara en kominn væri á hann berserksgangur. Grýtti hann grjótinu til beggja handa sem óður væri. Fannst bónda atgangur hans mikill og æðisgenginn. Og ekki var ásýnd risans ásjálegri.
Bónda leist nú ekki á blikuna. Hvarf hann inn í bæinn aftur og tjáði konu sinni, að tvísýnt væri nú að ráð hans dygði nokkuð. Kvað hann vera komið æði á risann enda miðaði honum drjúgum. Svo gæti farið að honum tækist að ryðja hraunið og yrðu þau hjónin að láta af hendi dóttur sína.
Ögmundardys
Þennan dag var eigi rótt í koti karls og kerlingar og varð lítið úr verki á Vigdísarvöllum. Var sem enginn gæti innt af hendi nokkurt verk til hlítar.
Tíðum var þeim hjónum og Guðrúnu gengið út á hólinn, einkum þó Guðrúnu. Og var sem hún hefði enga eirð í sínum beinum.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni. Jón Guðmundsson frá Skála við dysina.

Risanum miðaði æ betur og betur. Eftir því sem á daginn leið lengdist vegurinn og styttist nú óðum sá kafli er eftir var.

Leið nú dagurinn uns komið var fram í myrkur. Tóku hjónin að örvænta að úr þessu mundi rætast. Guðrún var orðin vonlaus. Fór hún að búa sig undir brottförina, og gerði hún það ekki sársaukalaust. Hjartað barðist ótt í brjósti hennar. Bar hún sig næsta aumlega, sem vonlegt var. Hafði hún aldrei úr föðurgarði farið áður enda ætlað sér vænlegra hlutskipti en að lenda í risaklóm. Grét hún beisklega yfir örlögum sínum. Móðir hennar reyndi að hughreysta hana þótt það kæmi einnig við hjarta hennar að skilja svo við dóttur sína.
Bóndi horfði á dapur í bragði. Rann honum svo til rifja að sjá örvæntingu dóttur sinnar, að hann ákvað að gera eitthvað, hvort sem það dygði eða dygði ekki. Æstur í skapi, samanherptur og þrútinn í andliti af reiði, yfirgaf hann mæðgurnar í þessu ástandi.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi gekk út í skemmu. Hann tók sveðju eina mikla og stóra og brýndi snarplega. Er hann hafði lokið því gekk hann rakleiðis út í hraunið. Stóð það heima að risinn hafði lokið hlutverki sínu. Greiðfær og allgóður vegur var nú kominn yfir hraunið.
Eins og bóndi bjóst við var risinn yfirkominn af þreytu. Var hann kominn miðja vegu til baka aftur og skjögraði til beggja hliða, er hann gekk.
Bóndi beið risans við hraunjaðarinn.
Honum var órótt. Eftir alllanga stund kom risinn að hraunjaðrinum. Gekk hann upp og niður af mæði og var þreyttur mjög. Réðst bóndi þegar að honum. Er hann sveiflaði sveðjunni og sá blika á hana, óx honum ásmegin. Ekki var allt afl þrotið úr æðum risans. Var þetta bæði harður leikur og langur, en þó fór svo að bóndi felldi risann. Var hann svo þjakaður eftir viðureignina að hann gat sig hvergi hreyft. Er hann hafði jafnað sig dysjaði hann risann þarna við hraunjaðarinn. Og heitir þar síðan Ögmundardys og hraunið Ögmundarhraun. Má enn þann dag í dag sjá Ögmundardys við vegarendann í Ögmundarhrauni.
Er bóndi kom heim voru heldur en ekki fagnaðarfundir á Vigdísarvöllum.
Af Guðrúnu er það að segja að hún giftist skömmu síðar og lifði við gæfu og gengi allt sitt líf.
Og lýkur svo þessari sögu.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1960, Í risaklóm – þjóðsaga, bls. 33-34.
-Sagan birtist einnig í Æskunni, 1. tbl. 01.01.1981, bls. 16-17.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Friðrik Bjarnason

Í blaðinu „Akranesi“ árið 1956, skrifar Friðrik Bjarnason um „Minningar“ sínar um allt og nánast ekki neitt. Hvað Garðahrepp og Hafnarfjörð varðar eru þær flestar því miður fánýtar í ljósi staðreynda sögunnar, en þær eru þó ekki alveg allar alvitlausar. Það er ávallt fróðlegt að sjá hvað öðrum finnst um hitt og þetta. Skoðum nokkrar þeirra Friðriks er varða Reykjanesskagann:

XXI.
Hraunin

Friðrik Bjarnason

Friðrik Bjarnason.

„Sunnan Hafnarfjarðar, sem og víðar kringum Fjörðinn eru víðlend hraun, úfin og ill yfirferðar. Þar gefur að líta háa og margvíslega lagaða hraunsnaga. Þar eru líka djúpar dældir, sumar mosavaxnar og með ýmsum gróðri, og einnig eru þar djúpar gjár og sprungur, er oft reynast illar yfirferðar og hættulegar. Hellar eru þar víða, margvíslegir að lögun og stærð Hraunkleprar, dropasteinar eru sums staðar. Þar eru einnig mannvirki, svo sem fjárhellar og aðrir, er líkastir eru því, sem þar hafi mannabústaðir verið.
Eitt sinn var bóndi af Hraunabæjum að huga að fé sínu suður í hrauni. Þetta var að vetri til, er snjór var á jörðu. Rakki fylgdi bónda, og rann hann á undan, sem hundum er títt. Er komið var langt út í hraunið, veitir bóndi því athygli, að hundurinn hverfur skyndilega, niður í hraunsprungu. Bóndi hraðaði sér sem mest hann má að sprungunni, heyrir hljóð hundsins niður í gjánni, en smám saman veikara, þar til það hverfur með öllu. Bóndi heldur áfram för sinni og svo heim til bæjar aftur. Á sextánda degi frá atburði þessum, kom hundurinn heim, allur blóðrisa og kviðdreginn mjög.

Piltur og stúlka fóru eitt sinn yfir sama hraun, en á öðrum stað og höfðu hest með í förinni, sem stúlkan reið. Þegar þau voru því nær komin upp úr hrauninu, festist hægri framfótur hestsins í hraunsprungu og varð eigi losaður. Fer þá piltur heim til næsta bæjar, en það var löng leið, og fær mann með sér og sleggju, til þess að brjóta bergið frá fæti hestsins, og tókst það svo vel, að hesturinn kom alheill upp úr sprungunni. En á meðan pilturinn var fjarverandi lá stúlkan ofan á hestinum, svo að hann brytist ekki um, og mun það hafa verið nálægt þremur tímum.

XXII.
Eyðibýli

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

Þorlákstún nefndist eyðibýli sunnan í Hvaleyrarholti. Býli þetta var lengi í eyði, en er nú aftur byggt og nefnist Þorgeirsstaðir eftir þeim, er reisti. Í fornum skrifum er getið um stórbýli eitt, að nafni Þorláksstaðir. Munnmæli herma að það hafi þarna verið. Sögusagnir segja, að þar hafi eitt sinn verið bænahús frá Hvaleyri og á því 18 hurðir á hjörum, með koparhúnum.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Straumsel er eyðibýli upp af Hraunbæjum sunnan Hafnarfjarðar. Sagnir herma, að það hafi í byggð verið lengi vel. Fyrir rúmum mannsaldri bjó þar maður að nafni Jón Þorsteinsson.
Bærinn brann, og fórst Jón bóndi þar, og hefur þar eigi byggð verið síðan.

Bali

Vigdísarvellir – tóftir undir Bæjarfelli. Bali er vestar, undir hlíð Vesturfells.

Vigdísarvellir heitir eyðibýli norðvestur af Krýsuvík. Jörð þessi hefur í byggð verið nokkurn tíma, eða frá því um 1830 að sumra sögn. Oft var þar tvíbýli. Slægjur voru þar engar, nema túnið, en sauðbeit allgóð niður í Núpshlíð, og er þangað löng leið frá bænum. Sumarhagar em þar ágætir heima við.
Mór var notaður til eldsneytis og mosi. Vatnsból er gott. Ástæður fyrir því að jörðin lagðist í eyði, eru sagðar margar. Fyrir aldamótin síðustu hrundi bærinn þrisvar sinnum af jarðskjálftum á rúmum 30 árum. Ágangur var mikill af sauðfé og hrossum úr Grindavík og af Ströndinni. Örðugt er þar til aðdrátta og langt til vetrarbeitar, sem fyrr segir og býlið nokkuð afskekkt. Sá, er síðast bjó þar, hét Ívar.

Garðaflatir

Garðaflatir – óskilgreindar minjar.

Sagnir eru til um það, að í fyrndinni hafi byggð verið á Garðaflötum og síðar selstöð, einnig i Helgadal, Skúlatúni og víðar. Sumir draga þó í efa, að svo hafi verið, einkum vegna skorts á neyzluvatni. Gamlir menn, er bezt máttu um þetta vita, svo og rannsóknir, er fram hafa farið á þessu, benda ótvírætt í gagnstæða átt. Vatnsskortur hefur ekki valdið heldur aðrar orsakir.

Akranes, 7.-9. tbl. 01.07.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 99.

XXIV.
Vígslur

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja.

Þjóðkirkjan í Hafnarfirði var byggð árið 1914 og vígð það ár, 20. desember. Vígsluna framkvæmdi Þórhallur Bjarnason biskup. Safnast var saman vígsludaginn við barnaskólahúsið og þaðan gengið til kirkju klukkan 12 á hádegi.
Í broddi fylkingar fór biskup og sóknarpresur, síra Árni Björnsson, en næstir þeim voru prófastur, síra Kristinn Daníelsson og síra Bjarni Jónsson og þá þeir síra Árni Þorsteinsson og síra Janus Jónsson, allir hempuklæddir. Þar næst kom sóknanefnd og þar á eftir aðrir kirkjugestir einnig í skrúðgöngu. Þegar að kirkju kom var klukkum hringt og leikið preludium á orgelið og því næst hófst sálmasöngur. Þar á eftir flutti biskup vígsluræðu, frá háaltari, og svo hin venjulega messugerð. Stólræðuna flutti sóknarpresturinn, en prófastur tónaði.
Um tólf hundruð manns voru viðstaddir athöfn þessa, eftir því sem nánast var talið. Sagt er að kirkjan taki 450 manns í sæti. — Athöfnin fór virðulega fram, enda til hennar vandað eftir föngum.
Um kvöldið bauð Ágúst kaupmaður Flygenring og kona hans biskupi, prestunum, kirkjusmiðnum, svo og öllum starfsmönnum kirkjunnar til kvöldverðar að heimili sínu, og var þar veitt af mikilli rausn. — Kirkjuvígslunnar er hér getið, því ekki var hennar minnzt í blöðunum, sakir annríkis í prentsmiðjunum fyrir jólin.
Fyrstur manna var jarðsunginn frá kirkjunni Guðni Þorláksson, yfirsmiður hennar. Naumast var lokið smíði kirkjunnar, er hann tók sótt þá, er dró hanri til dauða.
Fyrstu hjónin, sem gefin voru saman í kirkjunni, voru Björn Árnason og Guðfinna Sigurðardóttir frá Ási.

Kirkjugarðsvígsla

Hafnarfjarðarkirkjugarður

Kirkjugarðurinn á Öldum.

Hinn nýi kirkjugarður Hafnarfjarðarkaupstaðar, uppi á svonefndum Öldum, var tekinn til notkunar og vígður 3. marz 1921 að viðstöddu miklu fjölmenni. Athöfnin fór fram kl. 3 í hinum nýja grafreit. Sunginn var viðeigandi sálmur, og að því loknu hóf prófasturinn, síra Árni Björnsson, vígsluræðu og þar á eftir var sunginn sálmur. Að því loknu var jarðsett lík Einars Jóhannessonar Hansen, hið fyrsta í grafreit þessum. Hann var moldu ausinn af presti sínum, síra Ólafi Ólafssyni, fríkirkjupresti, og loks var sálmur sunginn. Söngflokkar beggja kirknanna sungu við athöfn þessa. Bylslitringur var á, dimmviðri og vestangarri.

Hafnarfjarðarkirkjugarður

Kirkjugarður Hafnarfjarðar hefur þjónustað Hafnfirðinga og nærsveitunga frá víglsudegi, 3. mars 1921. Garðurinn var vígður að viðstöddu fjölmenni séra Árni Björnsson prófastur flutti vígsluræðuna og var Einar Jóhannesson Hansen jarðsettur. Einar er því vökumaður garðsins. Þjóðtrúin segir að sá sem er fyrst grafinn í kirkjugarði eigi að vaka yfir garðinum og taka á móti þeim sem eru greftraðir þar á eftir honum.

Hinn nýi grafreitur á svo nefndum öldum, stendur á þurru moldarbarði. Þegar nokkuð kemur niður í grafirnar tekur við deiglumór, svo að grafirnar eru þarna þurrar og þokkalegar. Steyptur garður er í kringum reitinn. Inni í honum er dálítið skýli, til afnota fyrir gæzlumann garðsins.“

Heimildir:
-Akranes, 4.-6. tbl. 01.04.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 59.
-Akranes, 7.-9. tbl. 01.07.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 99.
Friðrik Bjarnason

Selsvellir

Í Faxa 1960 er „Ferðaþáttur III“ eftir Hilmar Jónsson. Þar fjallar hann um ferð félaga í Ferðafélagi Keflavíkur á Selsvelli og nágrenni:

Selsvellir
„Eins og lesendum Faxa er kunnugt, var starfsemi Ferðafélags Keflavíkur fremur lítil í fyrra, aðeins ein ferð var farin á vegum félagsins. Nú hefur brugðið mjög til hins betra um hag félagsins. — Þegar þetta er skrifað hafa 5 ferðir verið farnar, en það er einni ferð fleira en gert var ráð fyrir í áætlun F.K. — Eflaust er þessi ágæti árangur mikið veðrinu að þakka, en framhjá hinu verður ekki gengið, að í ár hafa félaginu bætzt starfskraftar, sem ríða baggamuninn. — Á ég þar við smiðina Magnús og Bjarna Jónssyni, að ógleymdum konum þeirra. En á síðasta aðalfundi var Magnús kosinn varaformaður, en Ásta Arnadóttir, kona Bjarna, gjaldkeri. Þetta fólk hefur myndað kjarnann í flestum ferðum félagsins í sumar. Og í fyrstu ferðinni, sem var gönguferð á Trölladyngju og nærliggjandi staði, var Magnús Jónsson leiðsögumaður. Lagt var af stað í þá ferð kl. 8 að morgni hins 6. júní.
Selsvellir
Þátttakendur voru 17. Þykir það mjög gott, jafnvel í höfuðstaðnum, þegar um gönguferð er að ræða. Á Höskuldarvelli vorum við komin um kl. 10, þar var setzt að snæðingi. Þá var hæg gola og leit út fyrir bezta veður. En að hálftíma liðnum var byrjað að rigna og það veðulag hélzt til kvölds. Fyrst var haldið á Selsvelli. — Þrátt fyrir veðrið voru allir í góðu skapi, sérstaklega lá vel á Guðmundi Magnússyni, sem fór með óprenthæfan kveðskap kvenfólkinu til andlegrar uppbyggingar.
Í Árbók F.Í. 1936 skrifar Bjarni Sæmundsson um Suðurnes. Hann segir: „Einn fallegasti staðurinn á suðurkjálkanum, og einn sá, er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af vestur hálsinum. Þeir byrja, má segja, þegar komið er inn úr þrengslunum og ná „milli hrauns og hlíðar“ 2 1/2 km. inn með hálsinum, rennsléttir og grösugir. Tærir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið.“
Selsvellir
Fjallasýn er þarna mjög fögur, á aðra hönd er Keilir, en á hina Grænadyngja (393 m.) og Trölladyngja.
Í fjarska eru Fagradalsfjöll, Frá Selsvöllum til Grindavíkur er allgreiðfær leið. Í fyrra gengum við Hafsteinn Magnússon frá Festarfjalli í Grindavík og á Keili. Gallinn var bara sá, að við fórum of nálægt Keflavík og lentum þar af leiðandi utan í aðalfjallgarðinum.

Selsvellir

Selstaða á Selsvöllum.

Á Selsvöllum eru nokkrar tættur eftir sel frá Grindavík. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir er frásaga um þjófa þrjá, sem höfðust við á Selsvöllum við Hverinn eina. Þeir voru hengdir samkvæmt Vallaannál 13. júlí 1703.
Frá Selsvöllum fórum við síðan yfir Selsvallaháls og komum á Vigdísarvelli. Þar eru miklar rústir bæði eftir útihús og mannabústaði. Þaðan er nokkur gangur að Djúpavatni. Með í förinni voru þrír ungir piltar, synir Bjarna og Magnúsar, og Jón Eggertsson. Þegar hér er komið sögu höfðu þeir gengið okkur eldra fólkið af sér. Urðum við að hafa hraðann á til að ná þeim, því að þoka var á og villugjarnt fyrir unga menn og ókunnuga. — Frá Djúpavatni var gengið yfir hálsinn frá Grænudyngju, og það verð ég að segja, að sjaldan hefur maður verið fegnari mat sínum en þegar við komum aftur á Höskuldarvelli. Var nú farið að rigna allmikið og ekki til setunnar boðið. Tóku menn það ráð, að ganga niður á veg, þar eð bíllinn, sem skyldi flytja okkur heim, var ekki væntanlegur fyrr en kl. 6.
Lýkur hér með frásögn af þessari ágætu göngu.“ – Hilmar Jónsson.

Í Faxa 2008 segir Helga Kristinsdóttir frá „Skátaútilegu á verslunarmannahelgi 1943“ upp á Höskuldarvelli og nágrennið skoðað:

Helga Kristinsdóttir„Það var að koma verzlunarmannahelgi og skátafélagið Heiðabúar í Keflavík að fara í útilegu – og nú tók þátt í sinni fyrstu stórútilegu nýlega stofnuð kvennasveit innan félagsins, 3. sveit. Stefnan var tekin á Höskuldarvelli. Bíll var fenginn til að koma hópnum inn í Kúagerði, en ekki man ég, hvernig bíll var notaður að þessu sinni, hvort farið var á tveimur bílum eða farnar tvær ferðir. Oftast var þó farið á vörubílum, og sátu þá allir í hnapp á pallinum og breiddu yfir sig segl til að skýla sér fyrir regni eða ryki, en þá voru vegir malarbornir og holóttir og allt á kafi í ryki, ef þurrkur var.
Þegar komið var í Kúagerði, var eftir 2-3 tíma ganga upp á Höskuldarvelli. Allir urðu að bera farangur sinn, bakpoka, svefnpoka, tjöld, nesti og stundum vatn, en það fór eftir veðurfari. Ekki var talið æskilegt að bera mikið „gos“, því glerið var alltof þungt – þá voru ekki komnar til sögunnar plastflöskur. Oft höfðum við með okkur suðusúkkulaði, sítrónu og rabarbara til að draga úr sárasta þorstanum.
Í þetta skipti var þó hafður svolítið annar háttur á. Á laugardagsmorgninum fóru tveir skátar úr 1. sveit upp á Höskuldarvellit með hesta, klyfjaða tjöldum, mat og matarílátum fyrir þennan 42 manna hóp, sem ætlaði að dvelja á „Völlunum“ yfir helgina, 15 skátastúlkur, 19 skátadrengi og 8 gesti. Það voru félagsforinginn, Helgi S. Jónsson, og deildarforinginn, Gunnar Þ. Þorsteinsson, sem stjórnuðu ferðinni. Er gangan hófst meðfram hraunjaðrinum, fór það eftir veðri og vindum, hvað við vorum lengi á göngu, en að þessu sinni sýndu veðurguðirnir okkur sína beztu hlið. Öðru hverju gengum við yfir hraunfláka og eftir kindagötum. Í hrauninu eru ákaflega fallegir, grónir bollar og gjótur, en alltaf varð maður að gæta sín að detta ekki og meiðast.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki – horft af Trölladyngju í átt að Kúagerði.

Á þessari göngu var stefnt á smá skarð í Trölladyngju. Gerði maður það, var komið svo til beint á tjaldstað. Af og til var tekin smá hvíld, því þetta gat verið þreytandi ganga, ekki sízt þegar bera þurfti mikinn farangur, auk síns hefðbundna búnaðar, svo sem fána, fánastöng, vatn, ef þurrkar höfðu staðið lengi, eldhústjald, prímus og potta, meðal annars til að elda sameiginlegan hafragraut á morgnana og hita kakó á kvöldin. Ekki mátti heldur gleyma eldsneytinu, olíunni á prímusinn, en allt þetta urðu „kokkarnir“, sem skipaðir voru fyrir hverja útilegu, að sjáum.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir. Trölladyngja fjær.

Þegar komið var á „Vellina“, var mikið áhyggjuefni, hve langt væri nú í vatn, en lækur rennur úr Djúpavatni mislangt eftir völlunum. Fór það eftir veðurfari, hvort hann þornaði upp, en þá þurfti að elta hann langt upp í fjall. Núna reyndist þó allt í lagi, lækurinn rann niður vellina.
Þegar búið var að tjalda og afmarka tjaldbúðir, var liðið að kvöldmat. Þá tóku allir upp nestið sitt og nutu þess að borða. Nestið var oftast grautur, brauð með kæfu eða osti, harðfiskur, soðið kjöt og mjólk. Síðan var farið að huga að varðeldinum, finna stað og eldsneyti.
Aðrir fóru að sækja vatn í kakó og graut, og smávegis fyrir morgunþrifin. Nú var setzt við varðeldinn, sungið, hlegið og sagðar sögur og brandarar, en á eftir var drukkið kakó og borðað kex. Tíminn leið hratt og mál að hvíla sig, því á morgun átti að fara í göngu.

Með sól í hjarta og söng á vörum
við setjumst niður í grænni laut.
Í lágu kjarri við kveikjum eldinn,
kakó hitum og eldum graut.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Morguninn rann upp, bjartur og fagur. Fánahylling, hafragrautur, tjaldskoðun og aðrir fastir liðir. Þá var kominn tími til að leggja af stað í gönguferðir. Þeir, sem fóru í styttri gönguna, gengu á Keili, Trölladyngju og Eldborg, en hún er gamall, rauður eldgígur. Mosinn í gígnum var svo þykkur þá, að maður sökk djúpt niður, líkt og verið væri að vaða snjó. Eldborgin er aðeins um 70 fet á hæð. Á milli hennar og Trölladyngju er mikill jarðhiti, og víða gufar úr jörðinni. Þarna á jarðhitasvæðinu var talsvert um svarta snigla, sem gátu orðið upp í 5-7 sentimetrar á lengd.
Þeir, sem fóru í lengri gönguna, gengu meðfram Oddafelli og stefndu á Selsvelli. Í leiðinni var Hverinn eini skoðaður, en hann hefur átt það til að hverfa og koma síðan aftur upp á allt öðrum stað. Eftir góða göngu komum við svo niður á Selsvelli.
Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, er eftirfarandi lýsing doktors Bjarna Sæmundssonar á Selsvöllum:

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

„Einn fallegasti staðurinn á Suðurkjálkanum, og einn sá sem verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af Vesturhálsinum. Þeir ná milli hrauns og hlíðar 2 1/2 km, rennisléttir og vel grösugir. Tveir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið. Er þarna mjög kvöldfagurt í góðu veðri, iðjagræn hlíðin á aðra hönd, en opið útsýni til Hraunsels, Vatnsfells, Keilis, Driffells o.fl.“
Þorvaldur Thoroddsen var líka hrifinn af Selsvöllum, er hann kom þangað og gisti þar í tjaldi. Hann sagði, að þar væri fríðara land og byggilegra heldur en víða þar, sem mikil byggð er, nógar slægjur á völlunum og ágæt beit í hálsinum. Hann hélt, að þar mundu vel geta staðið 2-3 bæir.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir [Bali]. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Þegar við vorum búin að hvíla okkur og næra, héldum við áfram. Nú var farið yfir Núpshlíðarhálsinn og á Vigdísarvelli, en þar var áður búið, eða til ársins 1905, en þá hrundu öll hús eða stórskemmdust í jarðskjálfta. Sá, er þá bjó á Vigdísarvöllum og var síðasti bóndinn þar, hét Bjarni Ívarsson. Flutti hann með fólk og búfénað að Narfakoti í Innri-Njarðvík. Rak hann búsmalann þangað yfir hraun og vegleysur.
Næst var stefnan tekin á Djúpavatn. Þar tengum við okkur fótabað, en vorum vöruð við að vaða of langt útí, því vatnið væri bæði kalt og snardýpkaði. Þarna lukum við nestinu okkar enda veitti ekki af að létta byrðarnar, því hópurinn var nú farinn að þreytast.
Nú var stefnan tekin meðfram Trölladyngju. Á leiðinni var Rauðihver skoðaður og síðan gengið niður á Höskuldarvelli, og þar með var hringnum lokað. Það var þreyttur en glaður hópur, sem skilaði sér í tjaldbúðir, eftir vel heppnaða gönguferð, og við tók bráðskemmtilegur varðeldur, sem stóð til miðnættis, enda þótt bálið væri aðeins ímyndað, því eldiviðurinn var uppurinn – en sólin sló rauðgullnum bjarma sínum á skátana og tjöldin.

Enn logar sólin á Súlnatindi,
og senn fer nóttin um dalsins kinn,
og skuggar lengjast og skátinn þreytist,
hann skríður sæll í pokann sinn.
Og skáta dreymir í værðarvoðum
um varðeld, kakó og nýjan dag.
Af háum hrotum þá titra tjöldin
í takti, einmitt, við þetta lag.

Keilir

Keilir – gestabók.

Talað hafði verið um það um kvöldið, að yrði gott veður með morgninum, væri upplagt fyrir Selsvallafarana að bregða sér á Keili. Morgunninn rann upp með lognblíðu og glampandi sól, svo veðrið gat ekki verið betra. Ekki fóru nú allir í Keilisgönguna. Sumir voru með harðsperrur eða hælsæri og vildu heldur safna kröftum fyrir heimferðina.
Þeir sem fóru, tóku daginn snemma og lögðu upp eftir fánahyllingu og morgunmat. Tveir úr hópnum höfðu þó yfirgefið tjaldbúðirnar strax eftir fótaferð, af því að þeir þurftu að komast fyrri hluta dags til byggða.
Nú þurfti að klöngrast yfir úfið hraunið. Það var alls ekki greiðfært að Keili. Enda þótt fjallið sé ekki ýkja hátt, eða aðeins 375 m, gat verið nokkurt puð að komast upp, því mikið er um skriður, og maður rennur iðulega hálft skref niður fyrir hvert skref upp.

Gunar Eyjólfsson

Gunnar Eyjólfsson, skáti.

Er upp á hátindinn var komið, blasti við okkur skrautlegur kexpakki, með erlendri áprentun. Hvernig í ósköpunum hafði þessi kexpakki komizt upp á tind Keilis óskemmdur og óveðraður? Svona gómsætt gráfíkjukex fékkst ekki í búðum á Íslandi á stríðsárunum. Hafði máski stór fugl frá útlöndum borið hann hingað?
En þegar pakkinn var opnaður, var ekkert kex í honum, aðeins lítill miði, sem á var skrifað: Borðuðum úr pakkanum kl. 11 – Gunni Gerðu og Bötti, en það voru þessir tveir, sem höfðu þurft að flýta sér til byggða. Þeir skruppu þá í leiðinni á Keili til að sitja einir að þessu ófáanlega, gómsæta kexi. Piltarnir eru kunnari nútímafólki sem Gunnar Eyjólfsson leikari og prófessor Þorbjörn Karlsson.
En við nutum útsýnisins yfir Reykjanesskagann og skrifuðum í gestabókina, sem þarna er geymd í vörðu, áður en við héldum niður aftur. Við komumst, án áfalla, í tjaldbúðirnar. Þar beið okkar sætsúpa, sem kokkamir geymdu handa okkur. Við vorum hálfhissa á, hvað þeir ætluðu okkur mikið, því komið var langt framyfir matartíma. En – hvaða bragð var þetta annars af súpunni? Olíubragð? Hvað hafði nú skeð? Og skýringin kom. Prímushausinn hafði stíflazt, og þegar þeir fóru að gera við hann, spýtti hann olíu beint í súpupottinn. Þessvegna fengum við nú svona stóran skammt af súpu. En súpunni voru gerð lítil skil, hún fékk bara að renna beint niður í hraunið, sem væntanlega væri talið mengunarslys nú.
Nú var kominn tími til að taka saman dótið og halda heim. Við þrifum eftir okkur og grófum ruslið, en það var siður hjá okkur, skátunum, að ganga vel frá öllu og valda engum spjöllum.
Nú var haldið af stað heim, eftir mjög góða og skemmtilega helgi, en nokkrir urðu þó eftir til að binda upp á hestana. Svo tóku hestasveinarnir við, og eftir 114 tíma vom þeir búnir að ná hópnum. Þegar við komum svo í Kúagerði, beið okkar bíll (eða bílar) til að koma okkur heim, og þangað komum við svo endurnærð eftir ógleymanlega útileguhelgi.“ – Helga Kristinsdóttir .

Heimildir:
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1960, Ferðaþáttur III, Hilmar Jónsson, bls. 111-112.
-Faxi. 2. tbl. 01.05.2008, Skátaútilega á verslunarmannahelgi 1943 – Brot úr óbirtri minningabók Helgu Kristinsdóttur, bls. 16-17.

Keilir

Keilir. Driffell t.v. og Oddafell t.h.

Tag Archive for: Vigdísarvellir