Færslur

Víkingaheimar

Víkingaheimar eru í Reykjanesbæ. Setrið það tekur fyrir þátt Íslands í landafundum Norður-Ameríku. Þar má finna víkingaskipið Íslending sem sigldi til Ameríku sumarið 2000, og sýningu sem Smithsoninan stofnunin í Bandaríkjunum gaf til Víkingaheima. Hún gefur gestum tækifæri til að læra um sögu og lifnaðarhætti víkinga við Norður-Atlantshafið fyrir þúsund árum.
Vikingaheimar-islendingurFrá stofnun hafa Víkingaheimar gengið gegnum mikla endurnýjun síðustu vikur (maí 2012) og þar verður hægt að skoða og upplifa nýja vinkla á næstu mánuðum. Víkingaheimar eru ekki bara eitt sýningarhús með einni sýningu heldur heilt svæði með tengdum sýningum.
Í sýningarhúsinu verða fimm sýningar í gangi. Fyrst má telja Íslending, víkingaskipið sjálft sem sigldi til Ameríku árið 2000 og allt sem því fylgir. Einnig má sjá endurnýjaða sýninguna Víkingar Norður Atlantshafsins, sýningu um siglingar og landnám norrænna manna sem sett var upp í samstarfi við Smithsoninan stofnunina í Bandaríkjunum. Þriðja sýningin í húsinu er sýning á merkum fornleifum af Suðurnesjum og má þar nefna gripi úr nýjustu rannsókninni í Höfnum.
Vikingaheimar-safnid-1Fjórða sýningin er kynning á helstu söguslóðum á Íslandi. Fimmta sýningin kallast svo Örlög goðanna og fjallar um norræna goðafræði. Þarna eru raktar ýmsar þekktustu sögur af norrænu goðunum með aðstoð einstakra leikmynda eftir listakonuna Kristínu Rögnu, tónlist eftir Hilmar Örn allsherjargoða ásamt hljóðleiðsögn á fjórum tungumálum sem Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur hefur tekið saman.
Víkingaskipið Íslendingur er völundarsmíð. Fyrirmynd þess er hið fræga víkingaskip sem fannst við fornleifauppgröft árið 1882 við Gauksstaði í Sandefjord í Noregi. Gauksstaðaskipið sem svo hefur verið kallað varðveittist vel í jörðu (en í núverandi safni má helst ekki hósta í nálægð þess því þá gæti það fallið saman í duft eitt saman).
Vikingaheimar-safnid-2Hafa vísindamenn fornleifa- og sagnfræði metið mál þannig að skipið sé smíðað árið 870, fjórum árum áður en Ingólfur Arnarson sigldi handan um höf og nam land á Íslandi.
Gunnar Marel Eggertsson hóf smíði víkingaskipsins í október 1994 og lauk hálfu öðru ári síðar. Skipið var sjósett í mars 1996. Skipið smíðaði Gunnar Marel að mestu leyti einn, en naut leiðsagnar víða frá. Skipið er úr furu og eik sem kom sérvalin úr skógum í Skandinavíu. Segl skipsins var framleitt í Danmörku. Við hönnun á stefni skipsins var horft til margra þátta. Hæð stefnins nýttist á tvennan hátt, bæði fyrir drekahöfuð, sem þurfti að sjást víða að, og sem vörn gegn háum öldum á úthafinu. Íslendingur er 22,5 metrar á lengd og 5,3 metrar á breidd. Djúprista þess er 1.7 metrar, meðalhraði er 7 sjómílur, hámarkshraði 18 sjómílur.
Vikingaheimar-safnid-3Fyrst eftir að Íslendingur var sjósettur var skipið notað til að fræða íslensk skólabörn um víkingatímann. Ætlun Gunnars Marels Eggertssonar var þó sú að sigla skipinu til Bandaríkjanna árið 2000 til minningar um sjóferð Leifs Eiríkssonar steinöld fyrr, en það ár var efnt til margvíslegra atburða vestanhafs til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá landnámi norræna manna. Allt þetta gekk eftir.
Gunnar Marel Eggertsson og áhöfn Íslendings lögðu upp í frá Reykjavík, á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2000. Fyrsti viðkomustaður var Búðardalur. Þar tók áhöfnin þátt í hátíðahöldum Dalamanna í tilefni af lokum byggingar tilgátubæjar að Eiríksstöðum í Haukadal, þar sem Eiríkur rauði bjó forðum.
Vikingaheimar-kola-7Úr Búðardal var lagt í haf. Siglingin var löng, ströng og alls ekki áhættulaus. Úti af Hvarfi, suðurodda Grænlands, lenti skipið í hafís og þoku og var nokkur hætta á ferðum. Allt fór þó vel að lokum. Til Brattahlíðar á Grænlandi kom víkingaskipið 15. júlí þar sem efnt var til landafunda- og víkingahátíðar að viðstaddri Margréti Þórhildi Danadrottningu. Frá Brattahlíð var siglingunni svo haldið áfram. Mikið var um dýrðir þann 28. júlí þegar Íslendingur kom í L’Anse aux Meadows á Nýfundalandi, sem er eini ósvikna víkingastaðurinn þar um slóðir. Til New York kom skipið 5. október eftir ríflega þriggja mánaða siglingu frá Íslandi.
Sigling Íslendings vestur um haf og koma Vikingaheimar-safnid-5skipsins til hafnar í Nýju Jórvík vakti gríðarmikla athygli. Sjónvarpsstöðvar kepptust við að sýna myndskeið frá viðkomustöðum skipsins og var mál manna þetta hefði verið góð landkynning.
Eftir komu skipsins til Bandaríkjanna var skipið í nokkur misseri í geymslu í Westbrook í Connecticut-fylki. Um hríð var nokkur reikistefna um örlög þess. Í júlí 2002 var gert heyrinkunnugt um samkomulag ýmissa aðila á Suðurnesjum, undir forystu Reykjanesbæjar, um kaup á skipinu sem var flutt heim til Íslands á haustmánuðum þetta sama ár. Fyrstu árin eftir það var skipið utanhúss í Njarðvík en komst undir þak í hinum nýbyggðu Víkingaheimum á Njarðvíkurfitjum á haustdögum 2008.
Skipinu hefur nú verið komið fyrir á járnsúlum, sem bera það einn og hálfan metri uppí loftið. Það gerir fólki kleyft að ganga undir það og njóta Vikingaheimar-safnid-6hinnar miklu völundarsmíðar sem skipið er.
Segja má að aðalsýningar-gripurinn, Íslendingur, hafi á sínum tíma verið kappsfullt afrek; þrotlaus, en að mörgu leiti vanmetið, þangað til nú – með tilkomu safnsins.
Þriðja sýningin í húsinu er á merkum fornleifum af Suðurnesjum og má þar nefna gripi bæði úr Hafurbjarnarkumlinu og úr nýjustu rannsókninni í Höfnum, auk fleiri stöðum á landinu. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, hefur borið hitan og þungan af rannsóknunum. Bjarni er maður með mikla almenna reynslu, bæði af heimildavinnu og vettvangsrannsóknum. En, eins og sýningin ber með sér, er enginn, hvorki hann né aðrir, óskeikulir.
Húsið, er hýsir starfsemina, er kafli út af fyrir sig. Um það mætti skrifa margt, þrátt fyrir að um “verðlaunaarkitekt” hafi verið að ræða.
Ef horft er hins vegar á heildarmynd sýningarinnar, út frá hinum Vikingaheimar-safnid-7“venjulega” Íslendingi eða útlendingi, má að mörgu finna. Sýningin, eins og hún er, tekur mun fremur mið af þekkingu fornleifafræðingsins en þeirra fyrrnefndu.
Oft er auðveldara að gagnrýna en koma með tillögur til úrbóta. Hér skal þó gerð tilraun til þess síðarnefnda. Glerkassamódelið (þar sem umgjörðin er reyndar úr plexigleri), sem flestir skoða síðast á sýningunni mætti færa innan við innganginn. Það gefur góða yfirsýn yfir flest það er á eftir kemur. Þessu merkilega módeli mætti auk þess gera miklu betri skil strax í byrjun. Flestir gesta fara til hægri frá gestaborðinu. Þar eru m.a. gripir frá ýmsum uppgraftarstöðum frá víkingatímanum á landinu og jafnvel erlendis (Grænlandi og Skandinavíu). Lítið dæmi; sýnd er kola frá Vogum í Höfnum. Á fallegri mynd af uppgreftinum til hægri sést kolan, en ekki er minnst á hana þar.
Í næsta bás eru gripir, þ.á.m. kolan, en viti menn; hana er Vikingaheimar-safnid-8hvergi að sjá á meðfylgjandi fallegri bakgrunnsmynd af vettvangi. Það eru svona smáatriði er trufla þá er hafa einhverja yfirsýn yfir vettvang, bæði uppgröftinn í Vogi (Kirkjuhöfnum) sem og víkingatímabilið eftir 870 e.Kr.
Auk alls þessa flækja aðfengnir gripir (og eftirlíkingar), bæði frá öðrum stöðum á landinu og jafnvel öðrum heimsálfum, eins og þeir eru kynntir til sögunar, heildarmyndina. Hafa ber í huga að hér er um vænlegan ferðamannastað að ræða er endurspegla á einfaldan hátt bæði merkilegt tímabil í heimssögunni og sögu hinnar íslensku þjóðar, en eins og sá “heimur” kemur nú (2012) á staðnum slíkum fyrir sjónir (þrátt fyrir alla hinu merkilegu gripi frá Vogi (Höfnum)) þarf að bæta um betur – og það verulega…
Hvers vegna ekki að uppfæra safnið sem heild og leggja annars vegar megináherslu á “glerkassamódelið” og hins vegar á gripina frá Vogi út frá hallgrimshellan-21sögulegt og áþreifanlegt samhengi við víkingatímabilið – þar sem Íslendingur trjónir yfrum með megináherslu á hvorutveggja?
Áhugavert er þó, þrátt fyrir allt framansagt, hversu aðkoma Þjóðminjasafns Íslands virðist lítil í þessu annars áhugaverða þjóðsögulega safni. Vitað er að Þjóðminjasafnið býr yfir ótal gripum í geymslum sínum er tengjast sögu svæðisins, en engir þeirra virðast skila sér á þetta annars ágæta nærsafn þjóðlegra fræða… Það ætti í raun að vera sameiginleg krafa sveitarfélaga á Suðurnesjum (Reykjanesskaganum vestanverðum) að fá heim þær fornleifar er Þjóðminjasafnið nú geymir innilokaðar í myrkviðum og aflokuðum vörslum sínum og eru engum til gagns…
Stekkjarkot

Stekkjarkot – Víkingarheimar að baki.