Haldið var að Elliðakoti og Vilborgarkoti síðdegis í dimmasta skammdeginu. Norðanáttin blés grimmt á vinstri vangann, en sólin litaði himininn rauðan bæði á bak og fyrir. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði örnefnalýsingu fyrir Elliðakot og Vilborgarkot. Hér verður lögð megináherslan á síðarnefnda kotið.
“Ég fór með Karli Nordahl að Elliðakoti 18. júlí 1978. Þar eru aðeins húsarústir eftir. Húsgrunnurinn stendur enn, en húsið brann 1949. (Sjá meira um Elliðakot HÉR). Karl segir, að afi hans hafi byggt það 1887. Það var timburhús, en Elliðakot hafði þá verið í eyði. Krakkar, sem þar gistu, kveiktu í húsunum. Ósinn, sem Tryggvi nefnir Dugguós, kallar Karl Gudduós. Það er lækurinn, sem rennur frá Selvatni í Hólmsá og ræður merkjum Elliðakots til vesturs. Á herforingjaráðskortinu er lækur, nefndur Urðar-lágarlækur. Karl segir, að enginn lækur hafi verið til með því nafni. Lækurinn hafi alltaf heitað (svo) Sellækur, en Urðarlágar eru upp með læknum. Hrútslækur rennur í norðvestanvert Selvatn úr Sauðhúsamýri.
Norðan við Nátthagavatn er engjastykki, sem nefnt er Nátthagi. Austan við Nátthagavatn er ávöl hæð, Klifin. Karl sagði, að kvísl rynni í Leirdal, þegar mikið vatn væri í Fossvallaá, en hún rennur um dragið milli Vatnahæðar og Vatnaáss. Þar sem Fossvallaá rennur í Hólmsá, heita Fossvellir. Heiðin upp af Leirdal er Elliðakotsheiði. Þar langt til austurs, fyrir norðan Lyklafell, er Klakkur, 247 m á hæð.
Við Elliðakot er grjótveggur, sem Skúli bóndi á Úlfarsfelli hlóð. Þegar komið er að Elliðakoti, er Dyngja fyrir ofan bæjarrústina. Fram við bæinn er Nónholt [(á teikningum Nónás)], ávalur ás í þá eyktarstefnu frá bænum.
Nátthagaá fellur frá uppsprettum við Syðstubrekkur, norðan við Hólmsá. Þegar komið er upp fyrir Litla-Lyklafell, þá er hér Sleðaás. Þar uppi er vindbelgur, rétt austan við veginn. Efrivötn eru fyrir ofan Vatnaás, en Neðrivötn fyr[ir] neðan hann. Fyrir neðan Vatnavelli er Syðri-Fossvallakvísl.
Norðan við Vatnásinn (svo) er Fossvallaklifið. Og nálgumst við þá upptök Fossvalláar, skammt frá Stangarhóli og Litla-Lyklafelli.
Ég ók með Karli Nordahl upp veginn fyrir ofan Elliðakot, ásinn, sem farinn er, heitir Dyngja. Vegurinn var hroðalegur, og komumst við ekki lengra en upp á háhrygginn og snerum þar við. Þegar ekinn er vegurinn að Elliðakoti, þá er til vinstri Gudduós og síðan Nónholtið og Miðmundahóll. [(Miðmundarhóll á teikningu.)]
Vilborgarkot (og Geirland): Ég kom með Karli að Vilborgarkoti 18. júlí 1978. Hann sagðist muna eftir Vilborgarkoti í byggð. Vilborgarkot fór úr byggð 1905. Síðast bjó þar Pétur Ólafsson, flutti að Elliðakoti og bjó þar í 10 ár, síðan í Þormóðsdal.
Geirland er í landi Lækjarbotna. Milli Klifanna fyrir ofan Geirland eru Klofningar. Árfarvegurinn við Lögberg, norðan við foss þar í ánni, er nafnlaus. Karl segir, að Klofningar tilheyra (svo) ekki Lækjarbotnum. Miðmundamýri er fyrir neðan Geirland, en Miðmundahóll fyrir ofan. Geirland fór í eyði. Ólafur Sigurjónsson (sonur Ólafs í (svo)) hefur kindur í Geirlandi. Geirland var keypt úr landi Lækjarbotna 1927. Sigurjón Ólafsson bílstjóri reisti nýbýli og keypti af Guðmundi Sigurðssyni á Lækjarbotnum.”
Að þessu sinni var stefnan tekin á Vilborgarkot undir suðaustanverðu Vilborgarholti (Litla-Kotási). Kotið hefur verið reist í nokkrum bratta. Sex stafnar hafa verið á framhlið mót suðaustri, þar af einn hálfur (þ.e. með efri hluta). Austast hefur verið fjárhús og innan og á bak við bæinn hlaða. Vestan hennar er garður utan um heykuml. Hlaðan hefur verið mikið mannvirki, djúphlaðin með stóru grjóti í veggjum. Smiðja hefur verið milli fjárhússins og íbúðarhúsa. Veggir standa heillegir, grónir að utan.
Enn má glögglega sjá húsaskipan í Vilborgarkoti. Vestan við bæinn eru leifar að útihúsi, líklega hesthúsi. Austan við bæinn eru tóftir tveggja húsa, þar af er annað tvískipt. Annað, það austara, hefur væntanlega verið sauðakofi, en hið tvískipta gæti hafa verið útibúr og reykkofi.
Milli bæjarins framanverðan og matjurtargarðs er heimtröð. Suðaustar má sjá leifar túnræktar, heillegar beðasléttur í mýrarslakka. Hlaðinn túngarður umlykur heimatúnið. Hlaðið hefur verið um brunn neðan og vestan við heimtröðina.
Ekki er að sjá að ábúendur í Vilborgarkoti hafi haft úr miklu að moða, en bæjarhúsin eru táknræn mynd fyrir 19. öldina og því verðmæt sem slík. Auðvelda þyrfti aðgengi að minjunum með tilheyrandi upplýsingum.
Ofan við bæjarstæðið eru grónar lægðir millum hóla. Nú eru þar forfallnir sumarbústaðir. Líklegt má telja að þarna hafi verið heyjað fyrrum fyrir Vilborgarkot.
Bæjarleifarnar í Vilborgarkoti eru nú (2008), skv. örnefnaskránni, orðnar rúmlega eitt hundrað ára, sem gefur þeim friðunarrétt skv. gildandi lögum. Bæjarhúsin og útihúsin eru mun eldri, sem og túngarðurinn.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Guðlaugur R. Guðmundsson skráði – Örnefnalýsing fyrir Elliðakot og Vilborgarkot.