Áhrif álvera á Íslandi – þungmálmar og brennisteinn í mosa
„Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands hélt fyrirlestur í nóv. 2007 þar sem hann gaf stutt yfirlit yfir vöktun á þungmálmum í Evrópu á síðustu áratugum og segir frá helstu niðurstöðum rannsóknanna hér á landi, einkum í nágrenni iðjuveranna í Straumsvík og á Grundartanga.
Í Evrópu hefur um árabil farið fram vöktun á magni þungmálma í mosum með það að markmiði að fylgjast með mengun í andrúmslofti. Íslendingar hafa tekið þátt í þessu fjölþjóðlega verkefni á fimm ára fresti frá árinu 1990 og hefur tildurmosa (Hylocomium splendens) verið safnað víðs vegar um land og þungmálmar (As, Cd, Cr, Cu, Fe, Hg, Ni, Pb, V, Zn) greindir. Síðust árin hefur brennisteinn (S) einnig verið mældur.
Vöktun með mosaaðferðinni byggist á því að mosar, einkum þeir sem mynda breiður, fá mestan hluta næringar sinnar með úrkomu og ryki sem á þá fellur. Málmarnir safnast fyrir í mosanum og því endurspeglar magn þeirra hreinleika þess andrúmslofts sem um mosann hefur leikið.
Árin 2000 og 2005 var mosa einnig safnað til mælinga á þungmálmum bæði við álverið í Straumsvík og í nágrenni fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Var það hugsað sem upphaf vöktunar á þungmálmum við álverin. Sumarið 2005 voru þessar rannsóknir endurteknar og vöktun einnig hafin í nágrenni verksmiðjanna á Grundartanga.
Niðurstöðurnar sýna að styrkur flestra þeirra efna sem mæld voru reyndist vera hærri í nágrenni iðjuverana í Straumsvík og á Grundartanga en bakgrunnsgildin gefa til kynna. Þessi áhrif eru þó mjög mismikil eftir efnum. Í Straumsvík kemur talsvert af þungmálmum einnig frá iðnaði í nágrenninu og á Grundartanga leggur Járnblendiverksmiðjan til talsvert af viðbótarefnum.
Á stórum svæðum á landinu urðu einnig töluverðar breytingar á styrk efna sem ekki verða raktar til innlends iðnaðar eða beint til umsvifa manna hér á landi.
Tildurmosi (Hylocomium splendens) er algeng mosategund hér á landi. Hann vex víða í breiðum og myndar afmarkaða árssprota. Tildurmosi er því mjög heppilegur til mælinga á þungmálmum. Með þessum rannsóknum fæst yfirlit yfir dreifingu þungmálma á landinu og hvort breytingar hafa orðið með tíma.
Vöktun á þungmálmum í mosa er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að iðnaður fer nú vaxandi hér á landi auk þess sem alltaf má búast við að eldvirkni geti haft veruleg áhrif á magn sumra efna í andrúmslofti og þar með á lífríki Íslands.
Árin 1990 og 1995 sá Rannsóknastofnun landbúnaðarins um framkvæmd rannsóknanna en eftir það hefur Náttúrufræðistofnun Íslands séð um verkið. Auk þessara stofnana hefur verkefnið verið styrkt af Norrænu ráðherranefndinni, umhverfisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, Umhverfisstofnun, stóriðjufyrirtækjum o.fl.
Mosi drepst við Hellisheiðarvirkjun
Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru að Hellisheiðarvirkjun föstudaginn 5. september eftir að hafa fengið ábendingu um að mosi hefði drepist á nokkru svæði vestan við virkjunina. Skoðuðu þeir svæðið milli Þjóðvegar 1, Svínahrauns og vegarins að virkjuninni. [Síðan hefur komið í ljós, sem reyndar flestir vissu, að mosi hefur verið að drepast í nágrenni við Svartsengisvirkjun ofan við Grindavík allt frá því að virkjunin tók til starfa.]
Á þessu svæði er mosinn hraungambri ríkjandi og myndar hann þar þykkt mosateppi, einkum á hraunbungum. Í lægðum setja háplöntur mikinn svip á gróður þótt hraungambri finnist þar í nokkrum mæli. Athuganirnar leiddu í ljós að mosinn er allvíða talsvert skemmdur. Mestar eru skemmdirnar í brúnum sem snúa í átt að virkjuninni. Skemmdir eru hins vegar litlar í lautum og uppi á hraunbungum.
Vaxtarsprotar mosans hafa drepist og göt hafa komið í mosaþekjuna. Eldri og hálfrotnaðir mosastönglar standa eftir og þekja yfirborð. Nánast hvergi sér í mold. Aðrar tegundir virðast hafa orðið fyrir mun minni áhrifum. Þó má allvíða merkja að blaðendar stinnastarar, sem þarna vex með mosanum, eru óvenju dökkir. Einnig sáust merki um að hattsveppir væru dekkri á þeirri hlið sem snéri að virkjuninni.
Skemmdirnar eru mismiklar, einna mestar eru þær norðvestan við virkjunina en einnig eru talsverðar skemmdir norðaustan við Þjóðveg 1. Þær eru greinilega mun minni við jaðar Svínahrauns en ná þar aðeins upp í hraunjaðarinn en lítið sem ekkert upp á hraunið.
Hvað drepur mosann?
Á þessu stigi er ekki ljóst hvað veldur mosadauðanum en útbreiðsla skemmdanna og ummerki benda ekki til þess að skaraveður eða rof hafi valdið þeim. Hins vegar er mun líklegra að um einhvers konar mengun sé að ræða. Hellisheiðarvirkjun losar brennisteinsvetni í talsverðum mæli og er hugsanlegt að mosadauðann megi rekja til brennisteins. Myndirnar sem hér fylgja sýna skemmdirnar nokkuð vel. Ekki er hægt að fullyrða á þessu stigi hvort skemmdirnar ná út fyrir það svæði sem skoðað var en það þyrfti að kanna.“
Til viðbótar má geta þess, án allra tímafrekra vísindalegra rannsókna, að mosadauði í nágrenni við jarðvarmavirkjanir er og hefur verið staðreynd um langt skeið. Hann hefur verið vel þekktur af þeim, sem að virkjunum hafa staðið. Þeir hinir sömu hafa hins vegar þagað þunnu hljóði í von um að ekki vitnaðist. Betra hefði verið ef þeir hefðu vakið athygli á fyrirbærinu fyrr í von um að finna mætti aðferð til að koma í veg fyrir, eða a.m.k. minnka líkur á, slíku tjóni í framtíðinni.
Núlifandi kynslóðir munu áfram upplifa niðurlægingu gróðurs umhverfis (hinar umhverfisvænu) gufuaflsvirkjanir. Og þrátt fyrir skammlífi slíkra virkjana (ca. 40-60 ár) munu næstu kynslóðir ekki fá að njóta endurheimt gróðursins því á svæðunum mun ríkja auðn næstu aldirnar.
Heimildir m.a.:
-www.ni.is
-Sigurður H. Magnússon, Áhrif álvera á Íslandi – þungmálmar og brennisteinn í mosa: 7. nóvember 2007.
-Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur, Mosi drepst við Hellisheiðarvirkjun: 8. september 2008.