Tag Archive for: Vísitasía

Krýsuvíkurkirkja

Íslensku biskuparnir áttu árlega að fara um biskupsdæmi sín og koma í hvern hrepp, svo að menn næðu fundi þeirra, vígja kirkjur, ferma börn og veita mönnum skriftagöngur. Þetta nefndist að vísitera.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1811.

Prófastar virðast hafa átt að fara einu sinni á ári um sóknir í umdæmi sínu. Breytingar urðu á þessu við siðaskipti með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537 og síðar með kirkjuskipun Kristjáns IV árið 1607, Norsku lögum Kristjáns V árið 1687 og erindisbréfi biskupa árið 1746.
Bækur þær, sem í er skráð það, sem fram fer við visitasíu, nefnast visitasíubækur. Þar er fyrst og fremst lýst eignum kirkna, föstum og lausum, og ítökum, eignarbréfum, kirkjuhúsi, skrúða og innanstokksmunum og fylgifé með áorðnum breytingum frá síðustu visitasíu, tekjum og gjöldum, kunnáttu og framferði prests og safnaðar og samkomulagi þeirra. Elstu, íslensku biskupsvisitasíubækurnar eru frá fyrri hluta 17. aldar. Fyrirrennarar þeirra voru máldagabækur, þar sem skráðar voru eignir kirkna og ítök.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Prófastar urðu umboðsmenn (þ.e. aðstoðarmenn) biskupa með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537. Þeir áttu að vísitera hverja kirkju í umdæmi sínu árlega, athuga reikninga kirkna, skýra barnalærdóm, veita náðarmeðul, kanna kunnáttu og hegðun sóknarfólks, athuga kirkjur og kirkjugarða og kynna sér launamál presta.
Væntanlega hafa prófastar tekið biskupa sér til fyrirmyndar með færslu visitasíubóka. Elsta prófastsvisitasíubókin er „Héraðsbók“ Halldórs Jónssonar í Reykholti fyrir árin 1663-1699. Sú bók er allt í senn: Bréfa-, visitasíu- og máldagabók. Sömu atriði eru tekin til meðferðar í visitasíubókum biskupa og prófasta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Máldagi er skjal, þar sem skráðar eru eignir kirkju og ýmis réttindi og tekjustofnar sem hún á að njóta. „Máldagi“ hefur einnig merkinguna „samningur“, og e.t.v. var máldagi kirkju upphaflega samningur um eignaskipti milli kirkjubóndans og kirkjunnar. Orðið máldagi var einkum notað í kaþólskri tíð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Vísitasía biskups.

Umsjónarmönnum kirkna var skylt að láta skrá máldaga viðkomandi kirkju og halda honum við. Biskupar höfðu eftirlit með því að það væri gert. Einnig átti að lesa máldagann upp einu sinni á ári við fjölmenna messu. Elsti máldagi sem varðveittur er í frumriti er Reykjaholtsmáldagi, um eignir Reykholtskirkju í Borgarfirði. Elsti hluti hans er frá því um 1180. Hugsanlegt er að rithönd Snorra Sturlusonar sé á hluta máldagans.

Íslensku kirkjumáldagarnir eiga sér enga hliðstæðu í Norður-Evrópu, og veita mjög mikilvæga yfirsýn um eignir og búnað íslenskra kirkna frá því á 12. öld og fram yfir siðaskipti.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Vísitasía.

Árið 1789, 24. júlí, var gefin út tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi og því, sem þeim fylgir. Þar var próföstum boðið að taka út kirkjur, prestssetur og kirkjujarðir, þegar prestar dæju eða færu frá brauðunum eða þess gerðist þörf eins og ævagömul venja væri til á Íslandi. Úttektargerðirnar skyldu ritaðar í kirkjubókina (þ.e. kirkjustólinn) og lýst nákvæmlega ásigkomulagi hvers hlutar og getið breytinga frá síðustu úttekt svo og álags. Þessi tilskipun gildir enn (2017) í flestum atriðum. Ákvæðið um kirkjubækur er t.d. þar með.
Þegar kemur fram yfir 1900, fór mjög að draga úr færslu kirkjustóla. Virðast menn oft láta sér nægja að færa visitasíur og skoðunargerðir kirkna inn í visitasíubækur biskupa og prófasta, og hvað varðar kirknareikninga, hafa lögin um innheimtu og meðferð á kirknafé nr. 20/1890, 22. maí, líklega haft þau áhrif, að margir hættu að skrá reikningana í kirkjustóla en í staðinn á laus blöð eða eyðublöð, því að lögin gera ráð fyrir endurskoðun reikninganna af hlutaðeigandi presti eða safnaðarfulltrúa og síðan prófasti.

Krýsuvíkurkirkja – altaristafla?

Altaristafla

Altaristafla í kirkju fyrrum.

Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857 og endurbyggð og endurvígð árið 1964.
FERLIR sendi Þjóðskjalasafni Íslands eftirfarandi fyrirspurn: „Kemur eitthvað fram í gögnum safnsins um altaristöflu í Krýsuvíkurkirkju. Í ferðabók Englendings frá því á ofanverðri 19. öld segir að í kirkjunni sé „altaristafla, bogadregin að ofan“.
Þjóðminjasafnið kannast ekki við að altaristafla hafi verið til í kirkjunni. Krýsuvíkursókn var á þessum tíma ýmist færð til Selvogs eða að Stað í Grindavík. Einhverjir kirkjugripir gætu hafa færst á milli kirknanna á þesum tímamótum, líkt og kirkjugripir frá Staðarkirkju að Grindavíkurkirkju 1907 og voru flestir þeirra þá geymdir á lofti nýju kirkjunnar.
Þórarinn Snorrason, nú látinn, sýndi okkur forna dýrgripi Selvogskirkju (Strandarkirkju) á sínum tíma, en þar var þá enga aðra altaristöflu en þá er nú prýðir kirkjuna að finna.
Líklegt má telja að altaristafla hafi prýtt Krýsuvíkurkirkju á 19. öld, allt til upphafs þeirrar 20. og þá verið talin henni til eignar.“

Krýsuvík

Krýsuvík – bæir fyrrum.

Svar: „Þjóðskalasafnsins var afrit af tveimur Vísatasíum biskups, annað frá 1875 og hitt frá 1911“. Ekkert kemur fram um altaristöflu í þessum „tasíum“, en þær eru þó fróðlegar fyrir margt:

Vístasíubók Íslands-biskupsdæmis 1868-1898; Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Visitasíubók 1911.

„Ár 1875, 4. dag júnímánaðar vísiteraði biskupinn yfir Íslandi Dr. P. Pjetursson kirkju og söfnuð að Krýsuvík. Hún á alla Herdísarvík, 1x mælira lands á þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Hraunsnesi, milli Rangárgjögurs og marks við Besstaðinga, og enga grasnautn með, 3 hluti hvals, en Viðeyjingafjórðung, en frá Mígandigróf til Kirkjufjöru eiga staðir í Skálholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn og allan reka á Kirkjufjöru og þaðan frá og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn, en í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viða við Krýsuvík; þriðjun hvalreka eiga báðir staðir saman til marks við Strandamenn, en fjórðung hvala við Strandamenn til Vogs; hálfan tóftung hvals á Krýsuvík í Strandarhluta.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Húsið sjálft er úr timbri í 5 stafgólfum með tvöfaldri súð, 4 bitum og 2 sexrú’na gluggum á hverri hlið og 1 4 rúðna glugga á vesturstafni. Í framkirkjunni eru 5 bekkir hvoru megin og 1 sæti að auk að sunnanverðu; í kórnum eru hálffóðraðir bekkir allt í kring. Altari lítilfjörlegt með óskrálæstri hurð. Af ornamentis á kirkjan silfurkaleik með gylltri platínu úr silfri og coporadúk? bilaðan úr rósasilki. Í skrúða á kirkjan 1 rikkilín og hörkul úr rósadamanski fóðraðan, 2 altarisklæði, hvar af annað er með silkikögri á einn veg; kirkjan á tvo ljósstjaka úr tinu frá 17. öld.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Enn eru þeir sömu gallar á húsinu, sem seinustu prófastsvísitasíur tilgreina; porzionsreikningur? er heldur ekki aflagður fyrir þetta faradagaár né hin seinustu síðan 1871, enda virðist ekki fjárhald kirkjunnar hafa verið falið í hendur nokkrum eigenda hennar, sem eru fleiri en einn, nema hvað prófasturinn í seinustu vísitasíu hefur talið það eðlilegt, að kirkjubóndinn, Sjr. Jón Odsson hefði það á hendi, eins og hann hérmeð af mér er skipaður til eftirlieðis að vera fjárhaldsmaður kirkjunnar, að innkalla allar tekjur hennar, endurbæta húsið svo það verði sómasamlegt guðshús og gjöra reglulegan reikning fyrir tekjum og útgjöldum kirkjunnar eftirleiðis og að svo miklu leyti auðið er fyrir hin síðustu ár, og tekst hann þetta starf á hendur, og lofar að ræða bót á göllum kirkjunnar þetta ár, en gallar þessir, sem eins og áður er sagt eru taldir í seinustu prófastsvísitasíu, eru einkum þeir að ytri súð þarf að leggja á suðurhlið kirkjunnar og smíða nýjar gráður.
Kirkjugarðurinn þarf endurbóta við.“

Þrjú börn mættu til yfirheyrslu.
aelum ut supra

Undir skrifa þrettán einstaklingar, s.s. P. Pjetursson, Jón Oddsson, Vigfús Guðnason, Jón Jónsson, Guðmundur Vigfússon, Steingrímur Steingrímsson, Lárus Halldórsson, Björn Björnsson og Einar Einarsson.

Vístasíubók Íslands-biskupsdæmis 1900-1912; Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

„Ár 1911 hinn 21. sept. var biskup Þórh. Bjarnarson staddur Krýsuvík í Kjalarnesþingi. var hann þangað kominn til að hafa eigin sjón af kirkjunni,hafði bæði prófastur í skýrslum lýst afar bágbornu ástandi hennar og sóknarpresturinn hafði við komu sína til Reykjavíkur 20. þ.m. lýst kirkjuna alófæra til messugjörðar.
Biskup var að öllu sammála síðustu vísitasíu prófasts 20. júlí 1910, sem hjer umfærist til athugunar:
„Húsið er byggt 1857 úr timbri, á því hefir í upphafi verið ósmekkleg mannasmíð, gerðin ókirkjuleg, veggir mjög lágir, ekki fullar 3 álnir, undir bita, sem er um þvera kirkjuna framanverða, og á þeim afþiljað geymsluloftm gluggar afleitir og aðeins 4 á húsinu og veita ekki nægilega birtu nema vel sje bjart í lofti. Turnlaus hefur hún verið frá upphafi, og ekkert merki þess á henni að utan að hún sje kirkja. Járnvarin er hún öll að utan. Að innri gerð hefir hún aldrei sómt sér vel sem guðsþjónustuhús, en er svo úr sér gengin hið innra að hún getur ekki talist sæmilegt hús til safnaðarguðsþjónustu nema verulega sje fáguð og umbætt, enda ber á fúa á innviðum(sperra lá gjörfúinn af fúa) á suðurhliðinni og altari og grátur í versta ástandi og vegna súgs og kulda er hún alls óhæfileg til þeirrar notkunar að vetrarlagi. Prófastur hyggst að bera undir álit biskups og leita íhlutunar hans um hver ráð verði höfð til þess að bæta úr þessum vandræðum.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Muni kirkjunnar segir ábúandi sína og verið hafi – hvorki viðbætst nje reitt burtu fallið. Sem stendur eru aðeins tvö heimili í sókninni, og á báðum til saman að jafnaði nær 30 manns. Kirkjugarður þarf umbóta. 7 voru atkvæðisbærir við nýlega afstaðna pretskosningu.“
Biskup álítur að gera verði gangskör að því við eigendur kirkjunnar sem eru erendis að endurreisa hana hið fyrsta. Um viðgerð getur eigi verið að ræða. Verður prestur í bráð að flytja predrikanir sínar í heimahúsum í Krýsuvíkursókn.
Lýst var því yfir af viðstöddum sóknarnefndaroddvita að það sje eindregin vilji hins fámenna safnaðar að kirkja haldist í Krýsuvík enda ómissandi eftir landslegu.
Kirkjugarður er illa varinn og ætlar sóknarnefnd úr að bæta.
Kirkjugjöld hafa eigi verið innheimt nokkur hins síðustu ár en munu að mestu leyti vera fyrir hendi til endurbyggingar hennar.“
Skrúði kirkjunnar allgóður en nokkuð forn. Tveir altarisstjakar með ártalinu 1650.

Sjá meira um Krýsuvíkurkirkju HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Þórh. Bjarnason

Heimildir:
-https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/visitasiubaekur/
-https://is.wikipedia.org/wiki/M%C3%A1ldagi
-Krýsuvíkurkirkja – biskupsvísitasía 1875
-Krýsuvíkurkirkja – biskupsvísitasía 1911