Færslur

Reykjanesviti

Í Lögréttu 1928 er m.a. fjallað um upphaf sögu “Íslenskra vita“:

Thorvald Haraldsen Krabbe

Thorvald Haraldsen Krabbe (21. júní 1876 – 16. maí 1953). Hann var danskur landsverkfræðingur fæddur í Frederiksberg. Faðir hans var Harald Krabbe læknir og dýrafræðingur.
Krabbe lauk námi í byggingarverkfræði 1900 og vann hjá dönsku járnbrautunum til 1902, þegar hann hóf vinnu hjá gasverki Valby og sá um byggingu götulýsingarkerfa. Árið 1906 var hann skipaður landsverkfræðingur á Íslandi. Í upphafi árs 1918 var embætti landsverkfræðings skipt í tvo hluta, embætti vegamálastjóra (Geir G. Zoega) og vitamálastjóra (Thorvald Krabbe) en frá þeim þróuðust stofnanirnar Vegagerð ríkisins og Vita- og hafnamálaskrifstofan.

“Nú um áramótin er liðin hálf öld síðan farið var að starfrækja fyrsta vitann hjer á landi. En það var Reykjanesvitinn, sem fyrst var kveikt á 1. desember 1878. Í öll þau rösk þúsund ár, sem siglingar höfðu þá verið stundaðar hjer við land og milli landa var við engin leiðarljós að styðjast hjeðan úr landi, svo að sögur fari af. Annars staðar er vita snemma getið í sögum og sögnum, s.s. í Dionskviðu. En einhver fyrsta áreiðanleg vitneskja um vita, sem menn hafa, er um Pharoseyjarvitann egyptska, sem reistur var árið 331 fyrir Krists burð og stóð fram á 13. öld.

Á Norðurlöndum var fyrsti vitinn reistur um 1202 á Skáni. Annars er miklu fyr getið vita í gömlum sögum og lögum og er þá átt við bál, sem kynt vora til þess að gefa til kynna hernaðarhættu og liðsöfnun. Nú er orðið viti eingöngu látið tákna ljósmerki til siglingaleiðbeininga. Og saga vitanna er nú sem sagt orðin hjer hálfrar aldar saga og hefur þess verið minnst með því, að gefið var út vandað rit um vitana, samið af Th. Krabba, vitamálastjóra.

Vitarnir hafa haft mikið gildi fyrir siglingar og sjómennsku og bjargað mörgum mannslífum og mörgum skipum og gert siglingar allar öruggari og áhættuminni en þær vora áður. Enn vantar að vísu nokkuð á það, að vitakerfið nái umhverfis alt landið og sumar eyðurnar eru bagalegar og á hættulegum stöðum og margt stendur enn til bóta. En samt er það mikið verk og merkilegt, sem unnið hefur verið með því að koma upp á 50 árum, eða öllu heldur síðan um aldamót, öllu vita- og sjómerkjakerfi landsins.

En frá því um aldamót, eða síðan heimastjórnin komst á, hafa flestir vitarnir verið reistir, því eftir að Reykjanesvitanum var komið upp var lítið aðhafst í tuttugu ár. Það gekk ekki umyrðalaust að koma Reykjanesvitanum upp. Málinu var hreyft undir eins á fyrsta árinu eftir að fjárveitingavaldið var flutt heim hingað. Það voru þeir Halldór Kr. Friðriksson þingm. Reykvíkinga og Snorri Pálsson þingm. Akureyringa, sem fyrstir hófu máls á vitabyggingu.

ReykjanesvitiGekk síðan í alllöngu þjarki milli þingsins og stjórnarvaldanna í Kaupmannahöfn. Í einu brjefi sínu sagði flotamálastjórnin danska m. a. að vitabygging á Íslandi væri lítt nauðsynleg, því næturnar sjeu nægilega bjartar þann tíma ársins, sem siglingum sje haldið uppi, eða frá miðjum mars til 1. sept. en frá 1. desember til miðs mars sjeu venjulega engar siglingar við Ísland vegna óveðurs! Að lokum komst þó vitinn upp fyrir sameiginleg framlög danska ríkissjóðsins og landssjóðs Íslands. Hann var reistur undir stóm Rothe verkfræðings, en fyrsti vitavörðurinn var Arnbjörn Ólafsson. Síðan var vitanum breytt og nýr viti reistur síðar.

Reykjanesviti.Seint gengu frekari framkvæmdir í vitamálunum, þótt lítils háttar fjárveiting til þeirra stæði á fjárl. En einstakir menn höfðu áhuga á málunum og einn þeirra, Otto Wathne brautst í því að koma sjálfur upp vita á Dalatanga og fjekk einnig til þess styrk frá vitamálastjórn Dana. Í Engey var einnig allsnemma komið upp ljósvörðu, sem tendruð var, þegar póstskipa var von. Næstu vitarnir, sem komu sunnanlands, voru á Garðskaga og á Gróttu og var leifturviti, 12 metra hár, sá fyrsti hjer á landi, reistur á fyrri staðnum 1897. Það ár var einnig reistur viti í Skuggahverfinu í Reykjavík. Um aldamótin fóru sjómenn og útgerðarmenn að leggja aukna áherslu á kröfunar um fjölgun vita og fór nú vitunum að smáfjölga. Í Arnanesi og í Elliðaey voru vitar reistir 1902 fyrir forgöngu Hannesar Hafstein og L. H. Bjarmason. 1904 var fyrir tilmæli Hannesar Hafstein, skipuð nefnd fjögurra danskra sjóliðsforingja, til að gera tillögur um vitamálin og gerði hún ráð fyrir vitabyggingum fyrir 315 þús. kr. Árið 1906 var svo reistur Stórhöfðavitinn í Vestmannaeyjum, sem endurbættur var 1910.

LauranesvitiUpp úr þessu fer áhuginn á vitamálum að verða æ meiri og betra skipulag að komast á. Sýnir það nokkuð hvern hug menn höfðu á þessum málum, að á þingi 1907 hjelt Þórhallur biskup og fleiri því fram, að ekki mætti minna vera, en að 100 þúsund krónur færu árlega til vitanna. Nú fer líka hver vitabyggingin að reka aðra, fyrst meðan Páll Halldórsson var umsjónarmaður Faxaflóavitanna, en einkum eftir að Th. Krabbe varð umsjónarmaður 1909 og síðan vitamálastjóri 1918. Árið 1908 kom Dalatangavitinn og Siglunesvitinn, 1910 stór gasviti í Dyrhólaey, 1911 Rifstangavitinn, nyrsti viti landsins, 1912 Vattarnesvitinn, 1913 vitar á Bjargtöngum, Kálfhamarsnesi, Skagatá og Flatey á Skjálfanda, 1915 í Grímsey, Malarhorni og á Hólmavík, 1916 á Ingólfshöfða, 1917 á Malarrifi og í Bjarnarey, 1918 á Gerðatanga og á Akranesi og var notað í hann nýtísku gasljós.

Albert Þorvarðarson

Albert Þorvarðarson – síðasti vitavörðurinn í Gróttu; 17. ágúst 1896 – 12. júní 1970. Albert fæddist í Gróttu, og
voru foreldrar hans Guðrún
Jónsdóttir frá Morastöðum í
Kjós og Þorvarður Einarsson,
ættaður austan úr Skaftafellssýslu. Þorvarður var fyrsti vitavörður í Gróttu, og erfði Albert
embættið og gegndi því til dauðadags.

1919 voru reistir vitar á Straumnesi (þar sem Goðafoss hafði strandað) og í Selvogi. 1920 voru reistir vitar í Súgandafirði, Arnarfirði og 3 vitar í Eyjafirði og 1921 var reistur Gjögurvitinn við Reykjarfjörð og Sandgerðisvitinn og árið eftir voru reistir 9 vitar, en næstu 3 ár var ekkert fje veitt til vitabygginga, en þó vom reistir tveir vitar, Stafnesviti og Urðarviti 1925, en komu ekki í reikning fyr en 1926, en það ár vom aftur veittar 50 þús. kr. til vitabygginga og reistir 3 vitar við Breiðafjörð. Loks var svo í fyrra reistur Dyrhólavitinn og höfðu verið veittar til hans 160 þús. kr. og í sambandi við hann var á þessu ári settur nýr radíóviti. Í ár hefir einnig verið lögð út fyrsta ljósbaujan, á Valhúsgrunni við Hafnarfjörð.

Það er þakkarvert og merkilegt verk, sem unnið hefur verið með stofnun allra þessara vita og viðhaldi þeirra, af stjórn og þingi, vitamálastjóra og vitavörðum.

Elsti vitavörður landsins er nú Þorvarður Einarsson á Gróttu, hefur verið þar síðan 1897. Sjerstakt skip er haft í ferðum milli vitanna til þess að flytja þeim nauðsynleg tæki og efni frá aðalstöðinni í Reykjavík.

Vitamálastjóri telur, að enn sje þörf mikilla bóta og nefnir t.d. að þörf sje landtökuvita með þokulúðri og radíóvita fyrir Austurland og einnig 10—12 radíóvita á útnesjum og 8—10 góða siglingavita á útnesjum norðan- og austanlands og marga þokulúðra, vita og ljós- og hljóðmerki innfjarða.

Væntanlega tekst enn að auka og bæta vitakerfið, landinu til gagns og sóma.”

Fálkinn

Í Fálkanum, Alþingsafmælisútgáfunni 1930 er einnig fjallað um sama efni undir fyrirsögninni “Vitarnir á Íslandi“:

“Sje litið á uppdrátt af Íslandi, þar sem sýnt er ljósmál helstu vita með ströndum fram, rekur maður augun í, að ljósmál vitanna nær víðast hvar saman, svo að ekki eru nema stuttar eyður á milli á einstöku stað. En samskonar uppdráttur frá 1898 sýnir, að þá var landið allt vitalaust, nema Reykjanes og með fram sjóleiðinni þaðan inn til Reykjavíkur. Og fyrir 52 árum var enginn viti til á landinu, þangað til Reykjanesvitinn var kveiktur, hinn 1. desember það ár. Þessi fyrsti viti landsins þótti hið mesta furðuverk á þeim tíma.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Þegar vitabyggingunni var fyrst hreyft á þingi voru sumir þingmenn á þeirri skoðun, að vitamálin væri eitt af sameiginlegu málunum við Dani og að flotamálastjórnin danska ætti að kosta hjer vitabyggingar. En því neituðu Danir, þó að flotamálastjórnin hins vegar væri landsjóði hjálpleg við framkvæmd vitabygginga fram eftir árunum og ljeti ljóstækin í Reykjanesvitann af hendi ókeypis. Vitinn var byggður úr höggnu grjóti, sem lagt var í kalk úr Esjunámunni.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Stóð hann á Valahnúk, alveg fram á hamarbrún, áttstrend bygging rúmlega 6 metra há en hnúkurinn er 43 metra hár þar sem vitinn stóð. En þegar frá leið molnaði bergið svo mikið, að vitanum þótti hætta búin þar sem hann var. Því var ráðist í að byggja nýjan vita á Bæjarfelli, skammt frá gamla vitanum, árið 1907 og 20. mars árið eftir var kveikt á þessum vita í fyrsta sinn. Kostaði þessi viti nær 100.000 kr. og ljósmagn hans 23 sjómílur eða 4 sm. meira en hins eldri.

Eftir þetta verður langt hlje á vitabyggingum, nema hvað ljósmerki voru sett á stöku stað, en 1897 eru reistir vitar á Garðskaga og Grótíu og innsiglingarviti í Reykjavík. Sumarið 1902 eru svo reistir vitarnir á Arnarnesi við Ísafjarðardjúp og Elliðaey á Breiðafirði. Á Stórhöfða var viti reistur 1906 en á Dalatanga og Siglunesi 1908. Við fyrrnefnda vitann var sett upp þokulúðursstöð 1918, hin eina fullkomna, sem til er á landinu.
VitarSíðan hefir vitum fjölgað svo á landinu að þeir eru nú 54 og er landtökuvitinn á Dyrhólaey þeirra stærstur og fullkomnastur. Var hann byggður 1927 og samsvarar ljósmagn hans 330.000 kertaljósum og sjást mundi hann úr 35 sjómílna fjarlægð, ef hæð hans yfir sjávarmál væri nægileg til þess. Kostaði hann rúm 160.000 kr. Árið eftir var hin fyrsti radíóviti settur upp á sama stað og er hann skipum að ómetanlegu gagni. — Ein ljósbauja hefir verið sett upp, á Valhúsgrunni við Hafnarfjörð, en hafnar- og leiðarljós eru á 35 stöðum á landinu.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli.

Til þess að vitakerfið komist í gott horf er enn talið, að byggja þurfi landtökuvita og radíóvita á Austurlandi, 8—10 útnesjavita á Norður- og Austurlandi og fjölda vita á fjörðum inni.

Framan af var umsjón vitanna í höndum manna, sem gegndu öðru aðalstarfi, eða frá 1897, að Markús Bjarnason var skipaður umsjónarmaður og eftir hans dag Páll Halldórsson. En 1. jan. 1910 var Th. Krabbe landsverkfræðingur skipaður umsjónarmaður vitamála og fjórum árum siðar var vitamálaskrifstofan stofnuð og vitamálastjóraemhættið stofnað og tók Krabbe við því. Kemur hann manna mest við hafnar og vitamálasögu landsins og á því árabili, sem hann hefir haft stjórn vitamálanna lifir orðið gerbreyting á þeim.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skjaldarmerki.

Samtímis því, að fyrst var kveikt á Reykjanesvitanum var farið að leggja vitagjald á þau skip, sem sigla við Ísland, að undanskildum skemmtiskipum, herskipum og íslenskum fiskiskipum, og var gjald þetta 40 aurar og 20 aurar á hverja smálest flutnings. Gjald þetta var lækkað árið eftir; náði það eingöngu til skipa, sem kæmi að vesturlandi og greiddu hærra gjaldið þau skip, sem komu að landi milli Reykjaness og Snæfellsness en lægra þau er komu milli Snæfellsness og Horns.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – uppdráttur ÓSÁ.

Frá ársbyrjun 1909 voru skip skylduð til þess að greiða vitagjald hvar sem þau kæmi að landinu, 20 aura á smál. og skemmtiskip ekki undanskilin, og var gjaldið hækkað í 25 aura og íslensk fiskiskip látin greiða það, er þau komu frá útlöndum. Árið 1917 var gjaldið hækkað upp í 40 aura en skemmtiskip greiddu 15 aura á smálest. Og 1920 var gjaldið hækkað upp í 1 krónu, fyrir almenn skip og 40 aura fyrir skemmtiskip. Loks bættist gengisviðaukinn við þetta gjald 1924.

Tilgangurinn með vitagjaldinu var auðvitað sá, að gera landinu kleyft að standa straum af viðhaldi vita þeirra, sem á hverjum tíma hafa verið starfræktir í landinu. Hefir það jafnan nægt til þessa, og jafnvel stundum líka til byggingar þeirra nýju vita, sem reistir voru á sama ári.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli og Valahnúkar fjær.

Stundum hafa komið fram aðfinnslur um, að vitagjaldið væri of hátt, einkum í þeim árum, sem litið hefir verið byggt af vitum og skatturinn talinn einskonar gróðabragð ríkissjóðs. En þegar að er gáð hefir kostnaðurinn við vitana í sumum árum farið svo langt fram úr tekjunum, að eigi er að vita á hvorn bóginn hallast.

Hins vegar hefir vitakerfið orðið til þess, að gera færar hingað siglingar á þeim tíma árs, sem áður þótti ekki viðlit að sigla á strendur landsins. Og landsmenn fá beinlínis peninga í aðra hönd vegna vitabygginganna. Vátryggingargjöld skipanna hafa lækkað, ströndin fækkað, og í vátryggingargjaldinu sem sparast, safnast fljótt fúlga, sem um munar.”

Heimildir:
-Lögrétta, 54. tbl. 12.12.1928, Íslenskir vitar, bls. 2-3.
-Fálkinn, 25.-26. tbl., 21.06.1930, Vitarnir á Íslandi, bls. 30.
-https://timarit.is/files/57502337

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1908.

Eftirfarandi ágrip af “Vitasögu Íslands” var tekið saman af Tómasi Lárusi Vilbergssyn, í tengslum við nám í NKN-2007:
Reykjanesviti-557“Margir sjá vita í gegnum rómantísk augu, þeir draga upp mynd í hugum manna af björgunarafrekum og hetjudáð annars vegar og kyrrð og náttúrufegurð út á afskekktu nesi hins vegar ásamt heillandi byggingarlist. Vitabyggingar eru sér arkitektúr út af fyrir sig og rísa yfirleitt einir mannvirkja á þeim stöðum sem þeir eru. Vitar hafa frá örófi alda gegnt veigamiklu hlutverki fyrir sjófarendur og oft og tíðum verið það leiðarljós sem skyldi milli lífs og dauða hjá sjómönnum. Vitar höfðu lýst sjómönnum um alla Evrópu í margar aldir áður en fyrsti vitinn var byggður hér við land. FiskveiðarÍslendinga höfðu að mestu verið stundaðar á opnum bátum þar sem menn létu sér nægja að hafa mið af kennileitum í landi. Þó að þilskipaútgerð hafi eitthvað verið stunduð í kringum 1875 var ekki haldið út um dimmasta tímann og menntaðir skipstjórnarmenn það fáir að þeir mynduðu ekki neinn þrýstihóp. Stopular siglingar voru að landinu og var talið að ekki færu nema um 70 skip hjá Reykjanesi árlega. Samt sem áður vara reynt að leggja fram frumvarp um sérstakt vitagjald árið 1875, þrátt fyrir að enginn viti væri risinn á landinu.

Fyrsti vitinn rís
ReykjanesvitiÁrið 1877 voru veittar 14000 krónur úr landssjóði til vitabyggingar á Valahnúk á Reykjanesi og 12000 úr ríkissjóði Dana. Þar með reis fyrsta vitabyggingin á Íslandi og kveikt var á Reykjanesvita 1. desember 1878. Verkið var erfitt því torsótt var að draga grjót og annað efni upp á Valahnjúk við allskyns aðstæður og frekar litla verkþekkingu á svona byggingum.Eins og títt er um opinberar byggingar á Íslandi þá fór þessi bygging 10000 krónur fram úr áætlun.

Vitavörðurinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti og fyrsti vitavörðurinn, Arnbjörn Ólafsson.

Vitinn þurfti mikla umhirðu þar sem hann hafði verið reistur á svo afskekktum stað og því var ráðinn vitavörður í fullt starf við vitann. Landshöfðinginn réð Arnbjörn Ólafsson til starfans árið 1878 og átti hann að fá 800 krónur í árslaun og þurfti að halda vinnumann og borga honum af þeim launum. 

Einnig hafði hann endurgjaldslaus afnot af vitavarðarbústaðnum og mátti nota til eigin þarfa 30 potta árlega af steinolíubirgðum vitans. Vitavörðurinn starfaði eftir ítarlegu erindisbréfi eftir danskri fyrirmynd.
Gardskagaviti-557Erindisbréfið kvað ítarlega á um alla umsýslu við vitann, húsin og landið í kring, umhirðu á ljósabúnaði og nákvæma útlistun hvernig halda átti dagbók yfir embættisstörfin. Í 10 gr. Erindisbréfsins segir m.a.: „Hálfri klukkustund fyrir sólsetur, ber vitaverði og aðstoðarmanni hans að vera til staðar við vitann, til þess samkvæmt starfsreglugjörðinni að undirbúa allt, til þess að kveikja vitann. Byrjað skal að kveikja svo snemma, að vitinn sje klukkustund eptir sólsetur með fullri birtu og á að halda henni við þangað til 45 mínútum fyrir sólaruppkomu“. (Vitar á Íslandi, 2002: 38). Einnig var ætlast til þess að vitaverðir sýndu gestum vitana enda margir forvitnir um þessar byggingar. Útbúnar voru sérstakar reglur um heimsóknir gesta í vita og máttu vitaverðir, frá 1910, heimta gjald af gestum.

Hvaleyrarviti-557

Í reglum um heimsóknir segir m.a.: „Vitavörður hefir leyfi til að sýna aðkomandi mönnum vitann að innan, frá því er hann hefir lokið hinni daglegu ræstingu , þangað til stundu áður en hann kveikir á vitanum aptur…. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræfalega til fara. Vitavörður skal vera þægilegur í viðmóti við þá, sem óska að sjá vitann, og skýra þeim frá ásigkomulagi allra vitafæranna.“ (Stjórnartíðindi 1897 B, bls.446-447).

Óblíð náttúruöfl
grottuviti-557

Náttúra landsins fór hörðum höndum um vitann, bæði veður og jarðskjálftar sem skuku Reykjanesskagann annað veifið og í jarðskjálfta 1887 fór ljósabúnaður vitans illa. Farmenn í siglingum voru farnir að kvarta út af ljósleysinu og sumarið 1896 var danskur vitafræðingur T.N. Brinch kvaddur til landsins til að kanna ástandið. Brinch kom með tillögu að endurnýjun ljósabúnaðar, vita með snúningsljósi á Garðskaga, hornvita á Gróttu við innsiglinguna til Reykjavíkur. Einnig voru samþykktir, samkvæmt hans ráði, vitar við innsiglinguna við Reykjavík og Hafnarfjörð. Þessar framkvæmdir voru framkvæmdar sumarið 1897 undir stjórn Brinch vitafræðings auk þess sem það var samþykkt að ráða vitaeftirlitsmann sem sæi um eftirlit með viðhaldi og rekstri vitanna. Í sumum tilfellum bjuggu vitaverðirnir á svokölluðum vitajörðum þar sem þeir gátu drýgt tekjur sínar með hlunnindum af jörðinni og stundum fiskveiðum. Lítið gerðist í vitamálum næstu árin.

Fyrsti vitinn í einkaframkvæmd

Stafnesviti-557

Austfirðingar vildu fá vita til sín en töluðu fyrir daufum eyrum. Þá tók Otto Wathne, útgerðarmaður á Seyðisfirði, sig til og lét byggja vita á sinn eigin kostnað 1895 á Dalatanga, en danska vitamálastjórnin lagði til ljósabúnað. Var vitinn starfræktur til 1908, en þá lét vitamálastjórnin reisa nýjan vita á Dalatanga.

Vitavæðing
Árið 1908 voru komnir vitar í alla landsfjórðunga og nokkrir litlir innsiglingarvitar hér og þar um landið. Hæðir og lægðir voru í byggingu vita næstu áratugina, aðallega vegna peningaskorts, stríðs og fleira. Á afskekktustu stöðunum voru reist íbúðarhús fyrir vitaverðina og þeirra fjölskyldur, annars var þeirra gætt af næstu bæjum. Með fjölgun vitanna var gert út sérstakt vitaskip sem sá um að þjónusta vitana. Með tilkomu Veðurstofu Íslanda urðu vitaverðir fastir veðurathugunarmenn og drýgði það aðeins tekjur þeirra en krafðist líka mikillar yfirlegu og nákvæmni. Um þarsíðustu aldamót voru vitarnir 5 að tölu en uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954 en þá var ljósvitahringnum um landið lokað.

Gróttuviti

Gróttuviti.

Í dag er fjöldi ljósvita við strendur landsins alls 104. Í dag fá flestir ljósvitaanna 104 orku sína frá rafmagni, samveitum, eða rafgeymum. Sólarorkan sér um að knýja 41 vita. Hvaleyrarviti í Hvalfirði er eini vitinn sem enn er með gasljósi. Starfsmenn Siglingarstofnunar sinna viðhaldi vitanna og baujanna fyrir utan innsiglingar og hafnarvita sem eru í eigu og umsjón sveitarfélaga. Öryggishlutverki vitanna má skipta í þrennt. Þeir leiðbeina um staðsetningu, vara við siglingahættum og vísa leið inn á hafnir og skipalægi.”

Heimild:
-Wikipedia.org

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Viti

Eftirfarandi um varir og bryggjugerð birtist “Úr skýrslu erindreka innanlands” í Ægi 1918.
Gardur-221“Engan mun undra, sem kynnir sér staðháttu fiskimanna sunnanlands, þótt raddir heyrist um endurbætur á leiðum og lendingum og jafnvel um nauðsyn hafna. Að skaganum leggja hinar feikiþungu Atlanshafsöldur langt sunnan úr höfum og kemur með ómælanlegu afli að ströndinni, rótandi öllu fjöruborði sem ekki er bjargfast, gerir hún öllu fjöruborði sömu skil frá Vesturhorni með allri suðurströndinni vestur að Garðskaga og að meðtöldum Akranesskaga.
Mörg af þessum fiskiverum eru fremur fámenn mestan hluta ársins, þótt á vertíðinni talsverður útvegur sé rekinn þaðan, anna því oft ekki þessir fáu heimilisföstu menn að halda við lendingunum, sem allvíða eru ekki annað en geilar í kletta, sem smásteinum hefir verið rutt úr, til að koma upp og ofan skipum sínum, þegar gott er sjólag. Fyr á tímum þótti sjálfsagt að vör væri undan hverjum bæ, en aukinn útvegur stærri skipa og meiri vöruflutningar hafa breytt þessu þannig, að nú þykir og er nauðsynlegt að eiga að minsta kosti eina góða lendingu í hverju fiskiveri, sem hægt sé í öllu bærilegu veðri að afgreiða skip til að á öllum tíma árs að geta veitt móttöku skipum þeim, er vörur flytja og lent með afla sinn.

Gardur-222

Ein hin fyrsta lending á Suðurnesjum, sem lagfærð var í þessu augnamiði var »Varós« um 1885; lagði landssjóður þar nokkurt fé fram til þessa, en af svo skornum skamti, að hætta varð við hálfgert verk, og svo ilt eftirlit með viðhaldi Verksins, að nú sjást naumast nein vegsummerki eftir, þó má geta þess að sundvörðurnar standa enn, með ómyndar ljóstýrum sem kveikja á, ef búist er við að róðrarbátar séu á sjó.
Þá kemur næst, eftir því sem mér er sunnugt. Bátabryggja í Steinsvör á Akranesi, var það mjög góð lendingabót meðan stundaður var sjór að eins á opnum bátum, en eftir að vélabátaútvegur kom þar, er þessi bryggja algerlega ófullnægjandi og hættuleg vélbátum: er því lífsnauðsyn fyrir þetta kauptún, að koma sér upp bryggju í Lambhússundi hið allra fyrsta og væri óskandi að hreppsnefnd kauptúnsins væri skipuð svo hygnum mönnum, að þeir tækju þetta mál að sér og fylgdu því fram með dugnaði, kauptúninu til tekna, sóma og þæginda.

Gardur-223

Þrátt fyrir það, þótt Varós á sínum tíma hafi verið álitinn bezta lending í Garði, er nú á seinni árum búið að endurbæta Gerðavör svo mikið, að deildin áleit heppilegra að gera lendingarbót þar, heldur en í Varós, og verð eg að telja það alveg rétt athugað. Hve mikil nauðsyn sé á þessu fyrirtæki sýnir bezt vörumagn það, sem flyzt að og frá Gerðum, þrátt fyrir hina mjög óþægilegu lendingu, sem þeir eiga við að búa nú. Vona eg að hreppsnefnd þessa hrepps lánist að koma þessu verki í framkvæmd hið fyrsta, og efast eg ekki um greiðan gang málsins hvar sem leitað er stuðnings, þar sem Garðurinn er og hefir verið aflasælasta fiskiver Suðurkjálkans.
Gardur-224Um bryggjugerð Keflavíkur vil eg geta þess, að þetta mál hefir lengi verið á dagskrá í hreppnum og áður gerðar áætlanir að bryggju á þessum stað, en sökum þess hversu útvegurinn hefir breyzt siðan, frá árabátum í vélbáta, var nauðsynlegt bæði að velja annað bryggjustæði og sömuleidis að hafa bryggjuna í öðru sniði fyrir þennan útveg. Hafa útvegsbændur átt mjög erfitt með að koma afla sínum á land síðustu ár, sökum ónauðsynlegrar meinbægni viðkomandi lóðareiganda, eftir því sem skýrt hefir verið frá, og því aðalnauðsyn fyrir sjómenn yfirleitt, að hreppurinn eignist bryggju til almennra afnota.
Enn er mönnum í fersku minni norðanrokið 24. marz 1916, þegar skiptaparnir miklu urðu í
Grindavík, þó það sérstaka lán ætti sér þá það, að mannbjörg yrði, hrein tilviljun, að þessi eini kútter skyldi hitta skipin. Eða gera menn sér í hugarlund liðan þessara manna? Fyrst af öllum mætti að leitast við að ná landi, þar til sár og magnleysi þjáir svo mennina, að enga viðleitni er hægt lengur að sýna, og með kvíða búfst við að hver báran sem að ber, geri enda á þessu striti; uppgefinn, kaldur, sár og soltinn situr sjómaðurínn þannig og sér hverju framvindur. Eða hvað sögðu þeir af líðan sinni skipverjarnir af vélbátunum sem lágu úti þessa nótt og næstu nætur á eftir, og er þar þó ólíku saman að jafna, þar sem þeir náðu landvari og gátu skriðið undir þiljur og ilað sér.”

Og þá birtist eftrifarandi um vita í Sandgerði í sama tölublaði Ægis.
“Í 6. tbl. Ægis þ. á. er greinarstúfur með þessari yfirskrift undirrituð af tveim Akurnesingum og þar Sandgerdisviti-21sem ekki er að sumu leyti farið með rétt mál í fyrsta kafla greinarinnar, »Ljósin i Sandgerði«, þá vildi eg biðja yður herra ritstjóri að ljá þessum línum rúm í heiðruðu blaði yðar.
Í áminstum greinarkafla er þess meðal annars getið, að hinn 24. apríl hafi 3 vélbátar róið frá Sandgerði og eftir vanalega dvöl á miðum, hafi bátarnir farið að leita lands, og er nær dróg og dimma tók, hefðu formenn þeirra orðið þess varir, að ekki hefði verið kveikt á leiðarljósunum. Enn fremur að landsmenn sem tilheyrðu bátunum, hefðu farið til vitavarðar og beðið hann að kveikja, en hann hefði tjáð þeim, að samkvæmt auglýsingu stjórnarráðsins, hefði hann ekki átt að kveikja frá 1. apríl.
Hvað sem nú þessari stjórnarráðsauglýsingu viðvíkur, um að kveikja ekki frá 1. apríl, þá vildi eg skýra frá því, að eftir henni var alls ekki neitt farið, þegar þannig stóð á og vitaverði eða öðrum var kunnugt um, að bátar væru úti fyrir og þyrftu að leita hafnar i Sandgerði, þegar dagsljósið fór að hylja innsiglingarmerkin. Er það því allsendis tilhæfulaust, að vitavörður hafi nokkurntíma skorast undan því að kveikja þegar þess hefir gerst þörf.
Frá því að mótorbátaútgerð hófst í Sandgerði, hafa þar verið notuð rauð innsiglingaljós. Alt fram að síðastliðinni vetrarvertíð eða 1. jan. þ. á., voru það luktir sem dregnar voru upp í leiðarmerkin, með öðrum orðum sundtrén, og má eg viðstöðulaust fullyrða, að alla tíð, á hverjum tíma ársins, þegar kunnugt var um að bátar þyrftu að leita hafnar og ekki var sundabjart, voru þessi rauðu ljós viðhöfð og það alla tíð án nokkurs endurgjalds.
Sandgerdi-221Á næstliðnu ári lét eg reisa 2 vita, þá er ræðir um í fyrnefndri grein, með miklu fullkomnara ljósi en hér að framan er um getið, gerði eg það til tryggingar því að leiðin inn á Sandgerðisvík yrði auðfarnari í myrkri. Sýna vitar þessir rautt fast ljós og komu til notkunar 1. janúar síðastl. og þar eð vitar þessir kostuðu mikið fé, var ákvarðað kr. 2,50 fyrir hlut af bátum þeim, sem að staðaldri notuðu þá sem leiðarvísi, og rætti það kallast undravert, hafl nokkur með ógeði goldið þessa smávægilegu upphæð fyrir jafnmikið lífsskilyrði og þeir eru.
Greinarhöfundar telja sérstaklega fjóra galla á þessum vitum (ljóskerum).
1. Að þau eru mikið of fjærri sjó.
2. Að þau eru of lág og þar af leiðandi ófær leiðarvísi að degi til, sem þau eiga þó jafnframt að vera.
3. Að þau hyljast strax ef um þoku eða úrkomu er að ræða.
4. Að frágangur vitanna er svo slæmur að ljósin mæta bæði súg og hristing ef storm gerir og þar af leiðandi geta þau ekki logað með sínu fulla ljósmagni.
Það mun nú svo með þessa vita eins og flest annað, að eitthvað megi að þeim finna, enda eru aðfinslur oftast á reiðum höndum, sumpart réttar og sumpart rangar, en hvað þessa upptöldu sandgerdi-222galla snertir, þá skal eg sem minst um þá ræða, þar mér er ekki svo kunnugt um þá, því leið mín liggur sjaldan eftir þessari sundleið, en eg vil samt benda á, að hinn síðasti er á engum rökum bygður, það er engu síður hægt að dæma um það af landi en af sjó, hvernig ljósin loga, og að öðru leyti álít eg ekki gott fyrir þá menn að dæma um frágang á húsi, sem þeir aldrei hafa stígið fæti sínum í.
Í sambandi við þetta vildi eg minnast á það að vetrarvertíðina 1916 kom það fyrir einn dag í bezta veðri, er nokkrir bátar voru á sjó, að snögglega brimaði svo að leiðin varð alófær, varð þá að kvöldinu nokkur ágreiningur á milli manna sem í landi voru um það, hvernig haga skyldi ljósum til að benda bátunum frá sundleiðinni. Nokkrir komu með þa uppástungu að draga upp ljós, aðrir að draga þau í mið tré og enn aðrir að sýna ekkert ljós, í augnamiði þess að þá væri leiðin algerlega lokuð, og varð það niðurstaðan, enda kom það i ljós, að engum kom til hugar að leita að sundinu þegar engin leiðarmerki sáust, og lögðu þvi bátar þessir inn fyrir Garðskaga og lágu í Garðsjónum í sléttsævi yfir nóttina, komu síðan að morgni er briminu var slegið niður.

Sandgerðisviti-3

Hið sama tilfelli kom fyrir síðastliðna vetrarvertið. Reis þá enn ágreinigur með tilhögun ljósanna, og varð aftur niðurstaðan sú, að sýna ekkert ljós, og varð það einnig til þess, að þeir bátar sem úti fyrir voru leituðu ekki til lands. Út af þessari óvissu með það hvernig gefa skyldi bendingar, þegar sundleiðin væri ófær og myrkur væri skollið yfir, voru allir formenn í Sandgerði boðaðir á fund, til þess að koma sér saman um eitthvað ákveðið. Á fundinum mættu flestallir formenn og útgerðarmenn og var eftirfarandi tillaga samþykt í einu hljóði: »Fundurinn samþykkir að alt af sé kveikt á vitunum, en þegar brim er svo mikið að sundið er álitið ófært, þá séu rauðu rúðurnar teknar frá, þannig að vitarnir sýni hvítt ljós, en á sama tíma sé stranglega bannað að hafa Carbidljós á bryggjum eða öðrum þeim stöðum sem vilt getur fyrir vitaljósunum«. Að svo búnu voru kosnir 3 kunnugir og vissir menn til þess að úrskurða hve nær ekki skyldi nota rauðu rúðurnar. Þessi breyting með ljósin var síðan tilkynt umsjónarmanni landsvitanna til birtingar.”
Framangreint er undritað “Reykjavík, í október 1917 – Loftur Loftsson. Þess má geta að nefndur Sandgerðisviti var byggður 1908 og hækkaður síðan verulega árið 1944.

Heimild:
Ægir, 11. árg., 2. tbl. 1918, bls. 24-29.

Sandgerði

Sandgerðisviti.

 

Óskar Aðalsteinsson

Gísli Sigurðsson ræðir við hjónin Hönnu Jóhannsdóttur vitavörð og Óskar Aðalstein fyrrum vitavörð á Horni og í Galtarvita um ýmis fyrir bæri þessa heims og annars. Viðtalið átti sér stað þegar Hanna var vitavörður í Reykjanesvita. Hér birtist hluti þess:

Hanna Johannsdottir-1„Ætlar ekki telpan að koma með ykkur inn?”
„Hvaða telpa”, spurði ég forviða.
„Telpan, sem er með ykkur í bílnum”, og Óskar Aðalsteinn bendir á mannlausan bílinn.
„Það er engin telpa með okkur”, áréttaði ég; „hún er að minnsta kosti ekki þessa heims. Hvernig lítur hún út?”
„Hún er með kastaníubrúnt hár og klædd í röndótt pils. Látum það vera; maður sér svo margt og hér við Reykjanesvitann ber ýmislegt fyrir augu. Þetta er eins á torgi lífsins. Stundum allt fullt af fólki. Og fegurðin, — allir þessir hreinu litir. Já, eins og á torgi lífsins. Æjá, ég var að vakna, þegar þú bankaðir. Var að skrifa einn kafla í bókina og lagði mig á eftir. Verst að Hanna er ekki heima. Hún rétt skrapp til Grindavíkur og hlýtur að fara að koma. Hún á að taka veðrið eftir smástund og verður hér á mínútunni. Nú skreppur hún í kaupstað, þegar með þarf. Það er einhver munur eða í Galtarvita. Annars kunnum við alltaf vel við okkur þar, enda búin að vera þar í 24 ár”.
Reykjanesviti-221„Og eftir öll þessi ár ertu orðinn vitavörður á Reykjanesi?”
„Nei, konan mín er tekin við. Hanna er vitavörður í Reykjanesvita og ég er bara goskarl hjá henni, enda tími til kominn. Hún er fyrsta konan á Íslandi, sem skipuð er í embætti vitavarðar. Áður var hún búin að vera aðstoðarvitavörður í Galtarvita og þekkti þetta allt vel. Ég er bara að skrifa og held, að ég sé með efni í ágæta bók. Hún kemur út í haust ef guð lofar og Guðmundur Jakobsson. Það er gott að skrifa hérna. Og gott að rölta um hlaðið og sjá útsýnið. Ég tek menn tali og segi þeim frá kríunni. Hún verður eins og voldugt herlið, þegar líða tekur að hausti, — mikill fjaðraþytur, enda langt flug framundan. Já, þetta er eins og leiksvið, — þannig verkar það á mig: Þessi vin hér í auðninni, hóllinn með tígulegum vitanum og heitir víst Bæjarhóll… bíddu annars; við skulum hafa allt á hreinu og fletta þessu upp í bók. Það er allt um þennan stað í Ferðafélagsárbókinni frá 1936.”
Í þeim svifum kom Hanna vitavörður á Skódanum austan úr Grindavík og með henni ungur drengur, sem er til heimilis í vitavarðarhúsinu ásamt með þeim hjónum. Hann kallar þau afa og ömmu, en er raunar kjörsonur eiginkonu sonar þeirra. Hanna tilkynnir um veðrið, ber gestunum kaffi. Allt hennar fas vitnar um festu og örugg tök á hverju verkefni.
Óskar Aðalsteinn: „Nei, hér sé ég, að hann heitir Húshóll. Og vitinn verður 100 ára nú í desember. Kannski verður þá haldin veizla. Reykjanesvitinn var fyrst reistur á Valahnjúk, sem skagar út í sjóinn og sést hér út um gluggann.

Reykjanesviti-223

En eftir snarpar jarðhræringar þótti ekki ráðlegt að hafa hann þar lengur og þá var hann endurreistur á Húshól.”
Hanna er dóttir Jóhanns Loftssonar á Háeyri á Eyrarbakka og áður í Sölkutótt á sama stað. Jóhann var formaður framanaf og átti fyrsta bílinn, sem komst upp Kamba. Óskar Aðalsteinn er aftur á móti frá Ísafirði og hefur þar til nú átt heima á Vestfjörðum. Hann hefur sinnt ritstörfum jafnframt vitavörzlu og hafa alls komið út eftir hann 15 bækur: sú fyrsta 1939.
Óskar Aðalsteinn: „Aðal vitaævintýrið hófst þegar ég gerðist vitavörður í Galtarvita við Súgandafjörð. Sú varðstaða stóð í 24 ár. Við vorum orðin mjög rótgróin þar eins og nærri má geta. Galtarvitinn stendur á allháum sjávarbakka í Keflavík; sá víkurkriki skerst inní hálendið norðan Súgandafjarðar.
Yfir vitann gnæfa fjöllin Göltur og Öskubakur; hamraborgir, þar sem hvert klettabeltið tekur við af öðru frá sjávarmáli Galtarvititil efstu brúna. Líkt og á Horni er Galtarviti með afskekktustu byggðu bólum á landinu. Þar ríkir sú þögn, sem aldrei verður fundin í fjölmenni. En það er í henni hreyfing, ljúf og góð, sem líkja má við bylgjuhreyfingu túngresis á lognkyrrum sumardegi. Og útnesjaþeyrinn á vorin; enginn lýsir honum svo viðhlýtandi sé.
Við Galtarvita er mjög magnað og dulrænt umhverfi; hafi maður þá gáfu að sjá það sem oft er kallað einu nafni huldufólk, er maður aldrei einn. Í nánd við vitann er ein af meiriháttar álfabyggðum á landinu; þar eru Hulduhvammar, Álfhólar, Tröllaborgir og Dvergasteinar. Og álagablettir eru þar um allt. Sögur af samskiptum manna og huldufólks á þessum stað eru flestar fallnar í gleymsku, en sumar lifa enn; til dæmis sagan um litlu telpuna, sem týndist og var síðan skilað og ekki hægt að sjá á þriðja degi, að neitt hefði fyrir hana komið. Talið var að álfkona hefði lagt ofurást á barnið og hnuplað því, en skilað aftur þegar hún sá hræðsluna og sorgina á bænum. Mér fannst huldufólkið við Galtarvita bæði gott og listrænt. í Keflavíkurhól var heil sinfóníuhljómsveit.

Hornbjargsviti

Slíka tóna hef ég aldrei heyrt og þeir voru ekki frá venjulegum hljóðfærum. En þar var líka vera af öðrum toga, sem átti eftir að halda tryggð við okkur æði lengi. Á Horni var slangur af verum á sveimi, þar á meðal Breti, sem gekk þar ljósum logum og vildi helzt vera í fjósinu. Ég talaði oft við hann, sem var erfitt, því hann talaði ensku og ég ekki nógu harður af mér í því máli. Ég var alltaf að hvetja hann til að koma sér áfram til æðri heimkynna, en hann var svo jarðbundinn. Hann hefur líklega ekki kunnað sem verst við félagsskapinn við okkur, því hann fluttist með okkur til Galtarvita og einnig þar hélt hann sig í fjósinu. Ég kallaði hann alltaf Gumma og hann var eins og einn af heimilisfólkinu. Stundum stóð hann við bæjardyrnar og þá sagði ég: „Farðu nú frá Gummi minn, — mér leiðist að ganga í gegnum þig. Ég verð alltaf svo þungur af því. Þú ert svo baneitraður”. Gummi var bezta grey. Lengi vel talaði hann bara ensku.

Reykjanesviti-330

En eftir rúm tuttugu ár var hann töluvert farinn að tala íslenzku og tók framförum. Einu sinni var ég að koma einsamall á báti frá Súgandafirði, þegar vélin bilaði og ég utanvið mig eins og vant er og hafði gleymt að taka árar með. En þá er Gummi allt í einu kominn um borð og knýr bátinn áfram á fullum hraða með fótunum. Hann virtist vita á undan okkur, þegar það skref var tekið að flytja frá Galtarvita og var mjög óánægður, þegar við fórum. Ennþá hefur hann ekki sést hér við Reykjanesvita.
„En eru ekki huldubyggðir hér við Reykjanesvita?”
„Ég hef séð huldufólk hér nærri, en lítið náð sambandi við það, nema einn ungan mann.
Það er truflandi hér, einkum austur undir Grindavík, hvað mikið er um svipi látinna manna. Nokkru áður en við fluttumst að Reykjanesvita, átti ég Reykjanes-brim-2leið hingað frá Grindavík. Veður var vont; rigning og dimmviðri. Þá sá ég einhverja furðulegustu sýn, sem fyrir mín augu hefur borið: Öldur bárust á land, brimöldur og í þeim fjöldi manns, sem barst uppí sjávarlokin. Þessir menn engdust og fórnuðu höndum, — þó var sem þeir væru gagnsæir. Þeir gáfu frá sér lág, en gífurlega sterk hljóð. Ég er ýmsu vanur af þessu tagi, en þarna fylltist ég óhugnaði og varð smeykur. Síðar hef ég oft farið í allskonar veðri til Grindavíkur og alltaf orðið var við eitthvað.
Hér í íbúðarhúsinu hef ég orðið var við karl og konu, sem ganga í gegn annað slagið, en tala ekki við mig. Helzt vildi ég að þau hyrfu og að við gætum fengið að vera hér útaf fyrir okkur. Um það vil ég ekki segja annað í bili.
En hér í kring er allt kvikt og fullt af ljósum, þegar rökkva tekur og það er bara til ánægju. Það eru lituð ljós, oft blá eða ljósgræn og öðruvísi en okkar ljós„.
„En álfar?”
„Ég veit ekki, hvort maður á að kalla það álfa. Líklega hef ég ekki komizt í kynni við þessa blómálfa, sem sumir hafa séð. Aftur á móti sé ég smáfólk, mjög elskulegt og óvíða meira um það en einmitt hér við Reykjanesvitann. Ég veit ekki hvort það er huldufólk. Maður sér það í nánd við uppsprettulindir og eftir að rökkva tekur eru oft heilir skarar að leikjum í nánd við hverina, — það dansar og skemmtir sér. Það er fyrst og fremst þetta, sem er sérstakt við umhverfi Reykjanesvitans.

Reykjanesviti-332

Ég fer varla svo út í ljósaskiptunum, að ég sjái ekki heilu hringdansana: Karlmenn í grænum, rauðum og bláum kirtlum, en kvenfólkið hvítklætt og með slæður. Þetta er mjög fallegt fólk; aðeins smærra en við. Stundum koma hingað heilar fylkingar, sem virðast ná allt upp til fjallanna innar á skaganum. Einn og einn hefur komið til mín án þess að tala til mín. En þeir vita af mér og þeir vita, að ég sé til þeirra. Smáfólkið aftur á móti; það er öðruvísi og við suma þar hef ég talað. Það er tvennskonar, sumt saklaust og elskulegt og virðist lifa áhyggjutaust frá degi til dags. En svo eru þeir, sem sitja löngum hjá villtum blómum og lifa mikið í hugsuninni. Þeir hafa hvatt mig til að skrifa bókina þá arna, sem nú er í smíðum. Þetta er gott fólk og enginn ótugtarskapur er þar á ferðinni. Og það vil ég segja þeim, sem ekki sjá og efast eðlilega, að þeir hefðu gott af návistum
við þetta fólk aungvu síður. Það gerir maður með því að hverfa til svona staða úti í náttúrunni og setjast niður. Fyrst kemur smáfólkið og kannar stemmninguna, en svo koma aðrir stærri og gefa manni styrk.
Sumt huldufólk hefur þá gáfu til að bera, að það skapar eitthvað úr engu og lætur það eyðast jafnóðum. Sumir skrifa til að mynda með fingrinum út í loftið og þá verða til myndir í litum, en eru við lýði í skamma stund og leysast þá upp. Á sama hátt virðast þeir geta skapað sér hús, sem aðeins standa um stundarsakir.

Reykjanesviti-334

Einstaka sinnum hef ég upplifað það fyrirbæri að fara sálförum, sem kallað er og þó nokkrir hafa reynt og skýrt frá. Það er afar einkennileg reynsla. Hjá mér hafa þetta verið minni háttar sálfarir að ég held, utan einu sinni, að ég brá mér á kreik svo um munaði. Þá fann ég vel eins og fleiri hafa lýst, hvernig ég losnaði við líkamann og gat horft á hann úr fjarlægð. Síðan hvarf ég á brott og kom í borg, sem ég þekkti ekki og var heldur ekki þessa heims. Hún var alveg ólík þeim borgum, sem við þekkjum, bæði að gerð og efni. Mér þótti sem þar ætti að fara fram ráðstefna og allt í einu var ég kominn á þessa ráðstefnu, sem vann að því að magna upp straum til að bjarga einhverju á jörðinni að ég held. Þarna myndaðist einn vilji; ég hafði vitund þeirra hinna og þeir mína. Á eftir tóku allir í hendina á mér, leifturhratt en þægilega og á eftir leystist borgin upp án þess að hljóð heyrðist. Alltaf hafði ég á tilfinningunni samband við líkamann, en ég varð ekki var við neinn þráð eins og sumir hafa talað um. Um tíma var ég staddur í tómarúmi og var skelkaður og ég minnist þess greinilega, þegar ég fann líkamann aö nýju og smaug inn í hann.”
Hanna: „Þetta átti sér nokkuð oft stað, meðan við bjuggum í Galtarvita, en það ber minna á því hér. Það er næstum því óhugnanlegt að horfa á hann í þessu ástandi. Hann virðist í fyrstu falla í trans eða djúpan svefn, en eftir dálitla stund opnast augun. og þá er hann mjög uppljómaður á svipinn.
Það er þá eins og hann vakni til annars heims og talar þá eitthvað, sReykjanesviti-336em ég skil alls ekki. Þetta ástand varir í fimm til tuttugu mínútur og það er eins og hann haldi í hendina á einhverjum á meðan. Hann virtist alltaf tala við sama fólkið og af lýsingum hans þóttist ég vera farin að þekkja, við hverja hann var að tala. Svo dró allt í einu af honum; hann slappaðist allur og lá eins og dauður maður, ýmist með augun opin eða lokuð. Fyrir kom, að ég hélt hreinlega, að hann væri látinn og fór þá að reyna lífgunartilraunir”.
Óskar Aðalsteinn: „Á eftir man ég yfirleitt vel, hvað hefur gerst. Það er rétt, að ég hitti og ræði við sama fólkið; það er á sjöunda sviði frá jörðu. Sjálfsagt finnst einhverjum það hljóma undarlega. En þarna er unnið að jákvæðum áhrifum og þar er kona, sem mestu ræður. Sjálfur hef ég þegið hjálp, sem þaðan kemur. Á tímabili var ég oft með verk og óþægindi fyrir hjarta, en það var lagað og ég tel mig vita, hvaðan sú hjálp kom.”
Hanna: „Eftir að við fluttum á Reykjanes, hef ég minna orðið vör við þetta fyrirbæri, en þaö átti sér oft stað á árunum, sem við vorum í Galtarvita. Ég skal játa, að ég var talsvert smeyk fyrst, ekki sízt vegna þess að það er ekkert auðhlaupið til læknis úr Galtarvita. Það gegnir öðru máli hér. Sjálf er ég annars eins gersneydd dulrænum hæfileikum og hugsast getur. Ég verð aldrei vör við neitt og er öll í þessu jarðneska. Og satt að segja líkar mér það bezt þannig”.
„Þú hefur haft æfingu í vitavarðarstörfum að vestan og ekki þurft að læra neitt nýtt, þegar hingað kom?”
Gunnuhver-222Hanna: „Frá 1967 var ég aðstoðarvitavörður í Galtarvita og hafði því góða reynslu, þegar hingað kom. Erfiðast er í skammdeginu; maður veit aldrei, hvað fyrir getur komið, ef eitthvað bilar. Vitinn sér að verulegu leyti um sig sjálfur. Í dagsbirtu gefur hann engin merki, en fótósella setur ljósið í gang um leið og skyggir. Bregðist rafmagnið, er dísilstöð til vara.”
„En þarftu að fara ofan að nóttunni til að gá, hvort allt sé með felldu?”
Hanna: „Það er að miinnsta kosti ekki skylda. En ég vakna tvisvar eða þrisvar á nóttu og fylgist þá með ljósinu. Það venst og maður sofnar fljótt aftur. Í Galtarvita vorum við alveg háð vélum. Ljósið í vitanum þar var framleitt með rafmagni frá dísilstöð og lítilli vantsaflsstöð yfir sumarið”.
„Vandistu alveg þessari miklu afskekkt þarna við Galtarvita?”
Hanna: „Þegar illviðri geysuðu þótti mér það dálítið öryggislaust, en reyndin varð sú, að það kom ekki að sök. Við höfum aö verulegu leyti unnið þetta verk saman og allt hefur gengið vel. Stundum er spurt, hvort ekki sé hætta á, að hjón verði leið hvort á öðru í svo mikilli einangrun. En ég tel að svo sé ekki. Sambandið verður mjög náið. Óskar gerði mikið af því aö lesa upphátt fyrir okkur úr bókum. Það var þá skemmtun, sem við upplifðum sameiginlega og svo gátum við rætt efni bókarinnar og gerðum mikið af því.”
Oskar Adalsteinn„Hverjar eru annars daglegar skyldur vitavarðarins?”
Hanna: „Til dæmis það að taka veðrið sex sinnum á sólarhring. Í vitanum verð ég að hreinsa ryk og seltu af gluggum og sjálfri krónunni. Hér er líka radíóviti, sem sendir frá sér mors-merki og ég þarf að fylgjast með honum. Við getum ekki brugðið okkur frá bæði; það er viðleguskylda. Þetta er bindandi ekki síður en að búa með kýr og í rauninni miklu meir.”
Við gengum upp snarbrattan hólinn og síðan upp hringstigann, sem liggur eins og snigill unz komið er að ljósaverkinu. Þar var allt vel málað og hreint og útsýnið fagurt á þessum lognkyrra júlídegi. En þarna er veðravíti eins og gróðurinn sýnir bezt og ólíkt umhorfs í illviðrum og myrkri skammdegisins.
Ég spurði vitavörðinn á leiðinni niður, hvort hún væri ekki smeyk að fara ein upp í vitann í svartamyrkri.
Hanna: „Sem betur fer kemur ekki oft til þess að ég þurfi að fara þangað ein í myrkri. Ég skal játa, að ég mundi ekki fá mér kvöldgöngu þangað að gamni mínu. Tilhugsunin um það þætti mér ekki þægileg, en þegar á ætti að herða, mundi ég fara þangað eins og ekkert væri og ég býst við að reyndin yrði ekki nærri eins vond og tilhugsunin”.
Óskar Aðalsteinn beið eftir okkur á tröppum íbúðarhússins. Það var tekið að kvölda. Ég spurði: „Er dansinn byrjaður við hverina?” Skáldið strauk augun og gekk austur yfir hlaðið og skyggndi með höndunum, líkt og menn gera þegar þeir horfa á móti sólu. „Það er í það bjartasta ennþá,” sagði hann. „en dansinn fer að hefjast. Ég finn hreyfinguna. Er þetta ekki stórkostlegt? Og litirnir, svo hreinir, svo bjartir.
Eins og á torgi lífsins”.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Sigurðsson, 3. sept. 1978, bls. 8-12.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi.

Portfolio Items