Tag Archive for: Vogar

Landakot

Jörðin Landakot lætur ekki mikið yfir sér þegar ekið er um Vatnsleysstrandarveg. Jörðin er á milli Þórustaða og Auðna (Höfða) og skartar m.a. fallega hvítri skeljasandsströnd. Tóftir er þar víða að finna. Fróðlegt er því að skoða örnefnalýsingar um jörðina, annars vegar skráða af Ara Gíslasyni og hins vegar Margréti Guðnadóttur og bróður hennar Eyjólfi.

Landakot

Landakot – loftmynd.

Ari Gíslason skráði m.a. eftirfarandi (lýsingar á upplandinu er sleppt): „Jörð á Vatnsleysuströnd næst við Auðna. Upplýsingar um örnefni gaf Guðni Einarsson bóndi þar.
Merki móti Auðnum. Fyrir neðan flæðarmál er ós sá, sem heitir Markaós sem er austasti ósinn er skerst inn úr aðalós þeim er gengur inn milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál við suðurenda stakkstæðis, sem tilheyrir Landakoti, um Krók þann er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda svo um Brunnhóla sunnanverða eftir gömlu torfgarðlagi um sunnanverðan Landakotshól.
Við merkin móti Auðnum er sker sem heitir Skurðsker og aðeins innar er annað sem heitir Sundsker. Milli þeirra er leiðin inn að vörinni og þar innar eru svo Markaflúðir í fjörunni.

Landakot

Landakot – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Markaflúð á landi er Djúpagróf, gamalt vatnsból, unnið af mannahöndum, allmikið og merkilegt mannvirki, er á merkjum móti Þórustöðum. Þangað var vatn sótt áður fyr. Þetta er borað með handafli, hlaðið innan og tröppur niður í.
Í túninu er aðeins Landakotshóll, stór hóll upp af bæ og á merkjum móti Höfða, í sambandi við hann og slátt þar er sagt að fólk hafi dáið hér úr óþekktri veiki. Gamlar tættur eru inni í miðju túni neðan við bæ og heitir það Gata. Þar var alinn upp skipstjórinn á glæsilegasta skip Íslands. Þar standa hlóðir eins og áður fyr Tröppurnar í Djúpugróf er Landakotsmegin en
líklega hefur hann verið gerður í félagi. Vestast á túni lenti hér eitt sinn flugvél, hún brotnaði en maðurinn slapp, síðan var þetta stykki nefnt Holland.“

Margrét Guðnadóttir

Margrét Guðnadóttir.

Margrét Guðnadóttir og Eyjólfur Guðnason rituðu eftirfarandi örnefnalýsingu fyrir Landakot byggða á landamerkjalýsingu jarðarinnar frá 1886:
„Um landamerki jarðarinnar Landakots í Vatnsleysustrandarhreppi gagnvart jörðunum Þórustöðum að norðan og austan og Auðna og Bergskots að sunnan og vestan vísast til landamerkjalýsingar gerðrar 12. júní 1886 að Brunnastöðum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Undirrituð kannast við flest kennileiti í þeirri lýsingu, en ekki þó öll.

Landakot

Landakot – Gata.

Um fjölda býla í Landakoti fyrrum vitum við ekki, en höfum ekki heyrt talað þar um tvíbýli. Í 7. línu, bls. 2, er talað um býlið Götu. Gata á að hafa verið neðan við Landakotsbæinn, en er norðan við hann, miðja vegu milli íbúðarhússins í Landakoti og girðingarinnar, sem skilur Landakot frá Þórustöðum.
Tættur Götu standa enn, og þar er hlaðinn grjótgarður um kálgarð, sem alltaf var kallaður Götugarður og sáð í hann fram á síðustu ár.

Landakot

Landakot 1921.

Býlið Lönd vitum við ekki hvar var og getum ekki staðfest, að það hafi verið niður við sjó, en þar eru tóftarbrot á tveimur stöðum og gamalt kálgarðsstæði hjá öðrum, sennilega er það sá kálgarður, sem talað er um í landamerkjalýsingunni frá 1886 og nefndur sjávarkálgarður Landakots. Hann var aflagður fyrir okkar minni. Ofan til í Landakotstúninu, miðja vegu milli Þórustaða og Bergskots, eru enn eldri hleðslur, og var faðir okkar stundum að gizka á, að þar hefðu Lönd verið. Þetta var þó ágizkun ein.

Landakot

Landakot – sjóhús.

Á bls. 2 er talað um kennileiti í Landakotsfjöru. Skerið, sem þar er kallað Sílalónssker, var alltaf kallað Síllónssker í okkar bernsku (kannski Sílónssker, því lón er fyrir innan skerið, og fellur aldrei vatn úr því um fjöru) og kampurinn kambur. Landasker og Skorusker þekkjum við ekki. Talað var um tvö Sundsker, dýpra og grynnra. Það Sundsker, sem er á mörkum Landakots og Þórustaða, er dýpra skerið, en í grynnra skerinu er djúp skora, og gæti rétta heitið á því verið Skorusker eða Skurðsker.

Landakot

Landakotsskiparétt.

Neðst á bls. 2. er talað um brunninn Djúpugröf. Sá brunnur var aldrei kallaður annað í okkar tíð, og var ausið úr honum vatni á þvott. Vatnsbólið var annar brunnur miklu dýpri, byrgður, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100 m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað er Brunnurinn. Fjöruvötn eru í Landakotsfjöru, ósalt vatn, sem áður fyrr var notað á þvott og ull. Þau koma upp úr um fjöru, en fara í kaf á flóði, og eru líklegast á suðurmörkum fjörunnar, upp undan Síllónsskeri. Meðan þang var skorið um allar fjörur, var auðvelt að finna vötnin, en nú
eru þau kannski horfin í þangið fyrir löngu.

Landakot

Landakotsgarður.

Á bls. 2 er getið álaga á Landakotshól, sem er að mestu í Landakotstúni, en að hluta í landi Bergskots. Hólinn mátti ekki slá Landakotsmegin nema neðst, en við kunnum engar sögur um afleiðingarnar eða sjálf álögin. Það þótti sjálfsagt að slá aldrei hólinn; kýrnar myndu ekki heppnast, ef hóllinn væri sleginn.
Á bls. 3 í lýsingu Örnefnastofnunar er getið þekktra hóla og kennileita úr Strandarheiði, en erfitt er að staðsetja þá í landi hverrar einstakrar jarðar á svo þéttbýlu svæði, nema þá, sem næstir eru bæjum, eins og Skálholt og Vatnshóla, sem báðir virðast vera í landi Landakots. Ekki vitum við, hvar Auðna-Klofningar, Stórhæð eða Klofi eru, en þeirra er getið í landamerkjalýsingu. Önnur kennileiti á bls. 3 þekkjum við.
Sú lýsing á jörðinni Landakoti, sem við fengum í hendur frá Örnefnastofnun, gæti verið ítarlegri, og skulum við tína til hér á eftir fáeina bletti, sem hétu nöfnum í okkar bernsku, og reyna að lýsa staðháttum.

Landakot

Landakot 1950.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson, faðir heimildarmanna. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot – bæjarstæðið.

Áföst íbúðarhúsinu sjávarmegin eru hlaða og fjós, er mynda skúrlaga ranghala, sem gerir húsið sérkennilegt að ytra útliti. Safnþró er neðan við grunn gamla hússins, vestan og neðan við fjósið. Alveg við austurhorn íbúðarhússins byrja gamlir grjótgarðar, sem skýldu kálgörðum heima við bæinn. Austast í þessum hleðslum er talin hafa verið smiðja. Undir
suðurhlið hússins var í okkar bernsku gerður blómgarður, girtur með trégrindverki og hlaðin sæti í horn grindverksins næst húsinu.
Niður túnið, frá húsinu, liggur sjávargata að uppsátrinu. Þetta var troðningur, en túnið hart og hægt að fara sjávargötuna með hest og vagn, ef með þurfti. Sunnan við sjávargötuna, suður að mörkum Auðna, er slétt flöt, harðbali, sem kallaður var Seiglöpp. Heyið á Seiglöpp þótti þorna seint. Vestast á Seiglöpp, næst mörkum Auðna, var gerður kálgarður um 1940. Er hann notaður enn. Sjávarmegin við þennan kálgarð eru hólar og klappir. Þar eru líklega þeir Brunnhólar, sem nefndir eru í landamerkjalýsingunni, þótt enginn sé þar brunnurinn. Við höfum ekki áður heyrt þetta nafn. Flötinni Seiglöpp hallar í átt til sjávar, og endar hún í þýfðri laut milli Brunnhóla og sjávargötunnar. Í lautinni er oftast tjörn, misstór eftir úrkomumagni og árstíðum, en brunn vitum við ekki um á þessum slóðum.
LandakotBrunnurinn, sem notaður var í okkar bernsku, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Neðan við tjörnina er gamalt, gróið kálgarðsstæði, aflagt fyrir okkar tíð. Það hlýtur að vera sá sjávarkálgarður, sem til er vitnað í landamerkjalýsingunni gagnvart Auðnum, enda liggur girðingin milli bæjanna úr suðurhorni hans í krók, sem myndast á mörkum sjávargarða beggja býlanna. Hjá kálgarðinum eru tóftarbrot, en ekki vitum við, hvort þar stóð bærinn

Landakot

Landakot – túnakort 1919.

Lönd, eins og látið er að liggja í heimildum, sem við fengum í ljósriti frá Örnefnastofnun. Í okkar bernsku gekk fjárhús með hlöðnum veggjum vestast út úr kálgarðsveggnum og sneri dyrum til sjávar. Það var kallað Efrikofi til aðgreiningar frá öðru fjárhúsi, Neðrikofa, sem stóð alveg niðri á sjávarkambinum. Út úr suðurvegg kálgarðsstæðisins gekk
hesthús með hlöðnum veggjum og sneri dyrum að Auðnum. Frá syðra vegg Efrikofa gekk gamalt garðbrot alveg niður á sjávarkamb. Gæti það hafa verið á mörkum jarðanna Landakots og Auðna, en girðingin, sem nú skilur jarðirnar, liggur nú skáhallt nokkru sunnar, eins og sneitt hafi verið af Auðnatúninu.

Landakot

Landakot – uppdráttur af Landakotsskiparétt.

Norðan sjávargötunnar, eiginlega í beinu framhaldi af neðra vegg gamla kálgarðsstæðisins, sem áður getur, neðan við þann brunn, sem vatn var leitt úr í bæinn, og skáhallt norður og niður til sjávar, var grjótgarður. Svæðið, sem afmarkaðist af honum og gamla kálgarðsstæðin annars vegar og sjávargarðinum hins vegar og girðingunni milli Landakots og Auðna að sunnan, var alltaf kallað Gerðið. Gerðið var athafnasvæði þeirra, sem sjóinn sóttu frá Landakoti. Þar var gert að veiðarfærum, og líklega hafa verið þar fiskreitir áður fyrr. Gerðið var slegið í okkar bernsku, en fiskur þurrkaður á reit, sem gerður var ofan túns eftir 1930. Grásleppa var þurrkuð við sjóinn og sundmagi breiddur á sjávargarðana, meðan hann var hirtur. Hleðslurnar kringum Gerðið hafa líklega átt að verja athafnasvæði útgerðarinnar fyrir ágangi búfjár.

Landakot

Landakotsfjara millum Þórustaða.

Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru.
Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – tóftir.

Um skerin í Landakotstanga má bæta því við það, sem segir hér á fremstu síðu, að sunnan við sundið í Landakoti er grynning, þar sem sér á þara í mestu fjöru. Þegar illt er í sjóinn, getur tekið sig þarna upp boði, sem heitir Landaboði. Einnig er talað þarna um Landarif.
Sjór hefur mikið gengið á landið í seinni tíð, og má heita, að sjávargarðurinn frá Hausaklöpp að mörkum Þórustaða sé eyddur. Á honum sem næst miðjum er sundvarðan, sem áður er á minnzt, og hefur verið reynt að halda henni við. Ofan við garðstæðið eru harðir sandbakkar með lágu, þéttu grasi. Þeir voru kallaðir Bakkinn eða Landakotsbakki og talað um að slá Bakkann.

Landakot

Landakot – hjallur.

Neðst á Bakkanum sést nú kálgarðsstæði, sem notað var til skamms tíma, eða þar til ágangur sjávar gerði þar veruleg spjöll. Þessi kálgarður var kallaður Bakkagarður eða Sandgarður , því að jarðvegurinn var hvítleitur af fjörusandi, hér um bil eins og sandfjaran fyrir neðan sjávarkambinn. Utan um Bakkagarð voru grjótveggir, og fyrir austan hann merkilegt mannvirki grafið inn í Bakkann, hlaðið í hring og reft yfir með tunnustöfum, svo tyrft yfir allt saman. Þetta var kallað Jarðhúsið og notað fyrir kartöflugeymslu í okkar bernsku og var víst upphaflega ætlað til að ísa í fisk.
Bakkinn náði frá sjávargötunni að sunnan og vestan og allt norður og austur að Þórustaðabakka og Þórustaðatjörn. Syðst í þeirri tjörn er brunnurinn Djúpugröf, að hluta í Landakotstúni, og tjörn í kvosinni sunnan og austan við Djúpugröf, en mógrafir vestan og sunnan við Djúpugröf í austurjaðar Bakkans. Þarna að norðanverðu, milli Jarðhússins og Djúpugrafar, er Bakkinn nánast ræma, en breikkar eftir því sem nær dregur sjávargötunni.
Það eru víst ekki nema um 60 ár síðan þessi hluti túnsins varð slægur, áður var þetta víst fjörusandur. Melgresi er sjávarmegin í öllum Bakkanum, og hefur það kannski átt sinn þátt í því að græða upp fjörusandinn1. Bakkinn var alltaf snöggur, hvernig sem á hann var borið. Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt. Í austurjaðri Bakkans, aðeins sunnan við tjörnina, sem Djúpugröf er í, er sá hóll Holland, sem flugvél nauðlenti á, líklega 1934-35. Þetta var mesti merkisviðburður í þá tíð, og sem betur fer slasaðist enginn.

Landakot

Landakot – Götugarðar.

Frá Auðnum, um hlaðið í Landakoti, inn túnið, ofan við tóftarbrotin í Götu og að Þórustöðum liggur troðningur, sem var alfaraleið um Ströndina og liggur áfram inn á bæi.
Ofan við þennan götuslóða liggur sá hluti Landakotstúns, sem nefndur var Inntún, næst Þórustöðum, en Upptún upp af bænum í Landakoti. Í Upptúni mótar fyrir gömlum hleðslum, sem gætu verið bæjarstæði, og faðir okkar gizkaði á, að hefði verið bærinn Lönd.
Mamma vissi ekki um neinn slíkan bæ. Heimreiðin frá þjóðveginum að Landakoti liggur beint upp af íbúðarhúsinu og skilur að Upptún og svonefndan Leyni, sem er grösug laut, er liggur frá heimreiðinni að girðingunni, sem skilur að Landakot og Bergskot. Leynirinn breikkar, er sunnar dregur, og suður við girðinguna er hann breiðastur og afmarkast af Landakotshól, sem áður er að vikið sem álagabletti. Milli hólsins og íbúðarhússins er þýfi ofan við Seiglöpp. Í þetta þýfi gat safnast vatn og stundum orðið úr tjörn. Þetta þýfi endar í tveimur lágum hólum, sem við kunnum ekki nöfn á, en á milli þeirra lá götuslóðinn, sem áður getur suður að Auðnum. Í Landakoti var álagahóllinn yfirleitt kallaður Bergskotshóll.
Ofan við Upptún, Inntún og Leyni var girðing og heiðarmegin við hana fiskreitur og hænsnakofi. Síðan kom önnur girðing neðan við þjóðveginn, og á milli þessara girðinga var Móinn með moldarflögum og klöppum, sem við krakkarnir skírðum ýmsum nöfnum, sem varla verða talin til örnefna.“

Heimildir:
-Landakot – Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Landakot – Örnefnalýsing Margrétar Guðnadóttur, skráð af Eyjólfi Guðnasyni.

Landakot

Landakot 2020. Gata framar.

Vogar

Í Vogum og Vatnsleysuströnd eru nokkur minnismerki:

Arahólavarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólsvarða.

“Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka”, segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi segir: “[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.”
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga og um 125 m SA við Minni-Voga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólavarða.

Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.

Arahólavarða stendur á Arahól við skrúðgarð Vogabúa.

Stefánsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

„Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á „hafnfirskan“ stein í vörðunni er klappað nafnið „Stefánsvarða“.“ (SG)

Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.

Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838.  Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. “Byggð í byrjun aldar.” Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.

Kristmundarvarða

Vogar

Vogar – minnsimerki; Kristmundarvarða.

„Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Árni Vigfús Árnason

Vogar

Vogar – minnismerki; Árni Vigfús Árnason.

Minningarreitur um Árna Vigfús Árnason gildismeistara sem lést í bílslysi á Reykjanesbraut 16.10.1991.
Blessuð sé minning hans!
St. Georgsgildið í Keflavík.

Minnisvarðinn stendur austan við Reykjanesbrautina, rétt sunnan Vogaafleggjara.

Jónas E. Waldorff

Waldorff

Vogar – minnismerki; Waldorff.

Skammt norðan Reykjanesbrautar, skammt vestan við Vogaafleggjara er kross. Á honum er eftirfarandi áletrun:
„Til minningar um Jónas E. Waldorff sem lést hér í bílslysi, f. 01.04.1989 – d. 09.03.2003“.

Íslands Hrafnistumenn
Minnismerki við gangstíg með ströndinni vestan Stóra-Vogaskóla.

Listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson var afhjúpað 2008 á Stóru-Voga túni við Stóru-Voga tanga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Á tímum árabátaútgerðar var Vatnsleysuströnd ein stærsta verstöð landsins og var verkið reist sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum og Vatnsleysuströnd.

Birgir Þórarinsson í Minna- Knarrarnesi með aðstoð Birgis Guðnasonar hjá Listasafni Erlings Jónssonar áttu frumkvæði að því að minnisvarði yrði reistur. Þeir leituðu til Erlings um gerð listaverks sem skírskotaði til sjómennsku og útgerðar frá Vogum og Vatnsleysuströnd. Erlingur brást mjög vel við hugmyndinni enda sjálfur frá Vatnsleysuströnd, og úr varð verkið Íslands Hrafnistumenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Erlingur fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 1920. Hann lést í Reykjanesbæ 2022. Mörg verk standa eftir hann í Reykjanesbæ og víðar. Erlingur starfaði lengi sem handavinnukennari í Keflavík og fór síðar til Noregs til að mennta sig frekar og starfaði þar síðar sem listakennari.

Á fótstalli minnismerkisins er skjöldur. Á honum stendur: „Íslands Hrafnistumenn – Erlingur Jónsson 2009.

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn,
þó að töf yrði á framsóknar leið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr,
eftir seglskipið vélknúin skreið.
En þótt tækjum sé breytt,
þá er eðlið samt eitt –
eins og ætlunarverkið,
er sjámannsins beið. – Örn Arnarsson“.

Sjómannadagsráð efndi til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadag 1939. Sigurljóðið var Hrafnistumenn Arnar Arnarsonar við lag eftir Emil Thoroddsen. Framangreint er fyrsta erindið af fjórum.

Jón Daníelsson

Vogar

Vogar – minnismerki; aflraunasteinn.

Jón Daníelsson í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd varð þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Auk þess að vera atorkumikill sjávarútvegsbóndi þótti mörgum til hans koma af ýmsum öðrum gáfum og atgervi.

Í Morgunblaðinu 1988 er fjallað um afhjúpun “Minnisvarða Jóns sterka Daníelssonar” við Stóru-Vogaskóla:
“Við skólaslit Stóru-Vogaskóla í Vogum sunnudagínn 15. maí klukkan 14 verður afhjúpaður minnisvarði um Jón sterka Daníelsson dannebrogsmann frá Stóru-Vogum, en minnisvarðanum hefur verið valinn staður á skólalóðinni, sem er í landi Stóru-Voga.
Jón Danfelsson fæddist 21. mars 1771 að Hausastöðum í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum við fremur kostalítil kjör, því foreldrarnir voru fátæki og fjölskyldan fjölmenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Jón Daníelsson.

Eitt var þó sem Jón skorti ekki í æsku og uppvexti, en það var hákarlalýsið og hákarlalýsisbúðingurinn, sem hann neytti sem feitismatar alla sína löngu ævi, en hann andaðist 16. nóvember 1865.

Minnisvarðinn, aflraunasteinn, er framan við Stóru-Vogaskóla. Á minnisvarðanum er skjöldur. Á honum má lesa eftirfarandi: „Aflraunasteinn – 450 kg. Til minningar um Jón Daníelsson frá Stóru-Vogum, f. 21. mars 1771, d. 16. nóv. 1865. Sæmdur Dannebrogs orðunni 1848.
Hér var Egils afl og áræði
fræleiki Gunnars, framsýni Njáls
hyggindi Snorra, hagvirkni Þórðar
Áskels frjósemi, ígrundun Mána“.

Flekkuleiði

Vogar

Vogar – minnismerki; Flekkuleiði.

Túnið við Flekkuvíkurbæinn er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.

Rúnasteinninn er í lágum grónum hól sunnan bæjarhúsanna, innan garðs.

Kúagerði

Vogar

Vogar – minnismerki; Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugamanna um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna, bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega.
Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði sem hlóð mannvirkið.

Varðan stendur við Vatnsleysuvík í Kúagerði, rétt við gamla Suðurnesjaveginn.

Minnismerki – „Hot Stuff“
Kastið; flugslys.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Í hlíðinni ofan við Kastið vestast í Fagradalsfjalli er brak úr B-24 sprengiflugvélinni “Hot Stuff” er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943, kl. 16:20.
var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Í Kastinu, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar enn á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta, sem fer þó óðum fækkandi. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Kastið 1943.

Eftirminnilegar slysavettvangiljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Fllugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.

Áhöfn og farþegar
Capt. Robert H. Shannon – Pilot †
Lt. Gen. Frank Maxwell Andrews – Copilot †
Capt. James E. Gott – Navigator †
T/Sgt. Kenneth A. Jeffers – Radio Operator †
S/Sgt. Lloyd C. Weir – Crew Chief †
S/Sgt. Paul H. McQueen – Gunner †
Civilian Adna W. Leonard – Methodist Bishop and Chairman of the Corps of Chaplains †
Brig. Gen. Charles A. Barth Gen. Andrews Chief of Staff †Hot Stuff Crew in front of aircraft
Col. Marlow Krum – Member of Gen. Andrews Staff †
Col. Frank L. Miller – US Army, Chief of Chaplains †
Maj. Theodore C. Totman – Gen. Andrews Secretary †
Lt. Col. Fred A. Chapman – US Army†
Maj. Robert H. Humphrey – US Army Chaplain †
Capt. Joseph T. Johnson – Gen. Andrews Aide †
S/Sgt. George A. Eisel – Tailgunner – lifði slysið af

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin
Consolidated B-24D-1-CO Liberator
Serial no: 42-23728
USAF 8th. Airforce 93rd. Bombardment Group.

Bandaríska B-24 Liberator – sprengjuflugvélin Hot Stuff, var fyrst flugvéla 8. flughersins til að ljúka 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari. Áhöfnin fékk fyrirmæli um að snúa flugvélinni heim til Bandaríkjanna vorið 1943 þar sem fara skyldi sýningarför um landið í fjáröflunarskyni fyrir Bandaríkjaher.

Vogar

Vogar – minnismerki; Andrews og félagar.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprengjudeildar, að fá far með Robert ,,Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Methodistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprengjuflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.
Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgni 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Skotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar komið var upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og splundraðist.
Við slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið.

Minnisvarðinn var upphaflega reistur í Arnarseturshrauni við Grindavíkurveg, en var síðar færður vegna tæringar frá Svartengisvirkjun og stendur nú í hlíðinni nyrst við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.

Ólafsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsvarða við Ólafsgjá í Vogaheiði. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, millum hennar og Stóru-Aragjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring, ólík hinum. Hún sést ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana.

Um aldamótin 1900 (21. desember) hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson.

Varðan var hlaðin til minningar framangreindan atburð.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti

Letur við Magnúsarsæti.

Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður „gjörtlari“, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík. Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan „Magnúsarsæti“ eftir Magnúsi „gjörtlara“. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þess eru höggnir stafir, ME. 1888 til minningar um nefndan Magnús, og þar fyrir neðan S.J.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti – letur.

Stafirnir S.J. gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að M. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.
Magnúsarsæti er í austanverðri Hrafnagjá skammt vestan Stóru-Vatnsleysu.

Litli sjómaðurinn

Þorvaldur Guðmundsson eignaðist Minni-Vatnsleysu árið 1953 – og varð þar með eigandi að stærsta svínabúi landsins.

Minni-Vatnsleysa

Litli sjómaðurinn á Minni-Vatnsleysu.

Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.

Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur á lágum grasi vöxnumhól skammt norðan við Ráðsmannsbústaðinn, ofan við sjávarkambinn. Á fótstallinum er skilti. Á því stendur: „Litli sjómaðurinn eftir Ragnar Kjartansson. Til minningar um þá er sóttu sjóinn frá Minni-Vatnsleysu – 1962“.

Hafa ber í huga að eflaust eiga eftir að koma fram minnisvarðar í umdæminu er víða kunna að leynast.

Þyrluvarða

Þyrluvarða

Þyrluvarðan 2008.

Vestast í Breiðagerðislakka, fast norðan Reykjanesbrautar, er varða – „Þyrluvarða“.
Það var 1. maí 1965 að Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu hrapaði niður í lægðina suðvestur frá Skrokkum norðan Reykjanesbrautar. Hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins og var varðan reist í minningu þeirra.
Fréttin birtist m.a. á forsíðu MBL þriðjudaginn 4. maí – Hörmulegt slys er 5 varnarliðsmenn farast í þyrlu, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli – “Sá hörmulegi atburður gerðist s.l. laugardagskvöld um kl. 19, að þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hrapaði til jarðar við jaðar nýja vegarins vestan Kúagerðis upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd, með fimm mönnum. Allir biðu þeir bana, enda varð þyrlan alelda um leið og hún snerti jörðina.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/#rey

Vogar

Vogar – minnismerki; Skjöldur við Kristmundarvörðu.

Kúastígur

Gengið var af tengivegi línuvegarins í Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar skammt austan við Voga, að Kánabyrgi og Viðauka, um Heljarstíg á Hrafnagjá, að Huldum, um Kúastíg á Hrafnagjá og eftir henni að Axarhól, þaðan að Hvíthólum og að upphafsstað.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Áður en gengið var að Kánabyrgi var litið á hlaðna refagildru í heiðinni, milli línuvegarins og Reykjanesbrautar, skammt austan tengivegarins. Hún lítur út eins og varða, nema að þessi varða er ekki á hæð eða við stíg, heldur í lægð, en slíkt er sjaldan varða siður. Þegar fallhellan, sem snýr mót suðri, er tekin frá opinu sést gildran vel. Það voru Brunnastaðabræður (Stakkavíkurbræður) sem bentu FERLIR á gildru þessa.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Kánabyrgi er skammt austar, norðan línuvegarins. Þar er hóll eða há klettaborg þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir ‘þrjótur, slæpingi; seppi“. En þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Gengið var eftir Heljarstíg, sem er einstigi yfir Hrafnagjá spölkorn suðvestan við Kánabyrgi. Þar er tæp gata og djúpar gjár til beggja handa.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra.

Þegar farið var til smölunar frá Kánabyrgi lá leiðin upp heiðina og um Huldur. Svæðið ber einnig örnefnið Margur brestur, sem þýðir líklega “margir eru brestirnir” því þarna eru víða sprungur er leyna á sér.
Ofar í heiðinni er Inghóll, með gamalli vörðu á, sem sagður er á eða við mörk Brunnastaða og Voga á Huldum. Hóllinn er fast ofan við Litlu-Aragjá. Fast neðan við hólinn og gjána eru Inghólslágar.
Viðaukur, Viðuggur eða Viðauðgur skammt austan Vogaafleggjarans skammt ofar er annað hvort heiti á nokkuð áberandi hólum þarna í heiðinni, sem standa rétt vestan við Línuvegsafleggjarann eða margstofna klöpp fast ofan við hólana. Klöppin er með rismikilli og fallegri vörðu á og stendur hún um 100 m neðan Hrafnagjár. Sumir ætla að varðan sé landamerkjavarða Brunnastaða og Voga.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Nafnið Viðaukur er sérkennilegt og vel má ætla að það sé rétta útgáfan af örnefninu og að það sé komið til vegna þess að einhver bóndinn hafi bætt við sig landi, þ.e. “aukið við” land sitt.
Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.
Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá “Stráka”.

Þórusel

Þórusel – stekkur.

Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána. Við Kúastíginn er tófugreni.
Efri gjárbarmi Hrafnagjár var fylgt til vesturs að Axarhól. Hann er nokkuð brattur og sprunginn eftir endilöngu og má líkja sprungunni við axarfar og af því dregur hóllinn trúlega nafn sitt. Norðan við Axarhóla eru Hvíthólar. Á leiðinni að þeim var komið við í Þóruseli, sem er suðvestan hólanna.

Hvíthólavarða

Hvíthólavarða.

Hvíthólavarða er á þeim, 70-80 cm á kant og traustbyggð. Varðan er áberandi kennileiti ofan við Vogana. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvar Þórusel hafi verið nákvæmlega, enda landið nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en á því átti að hafa staðið höfuðból með “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar þarna. Önnur tilgáta er að Þórusel hafi verið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Refagildra

Gengið var frá Brunnastaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni, um Brunnastaðasund að Hausthús, Vorhús og Hvamm, að Grænuborg ofan við Djúpavog og áfram með ströndinni í Voga.

Bieringstangi

Frá Efri-Brunnastöðum var gengið yfir að Skjaldarkoti, austasta kotinu í hverfinu. Skjaldarkot er nú í eigu Eggerts Kristmundssonar á Efri-Brunnastöðum. Ýmis óvenjuleg nöfn prýða staði á Ströndinni og ofan við hana. Má í því sambandi nefna orðið Kánabyrgi, sem er hóll eða há klettaborg skammt ofan Reykjanesbrautar, þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir „þrjótur, slæpingi; seppi“. Þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Töðugerði

Töðugerði.

Gengið var vestur með ströndinni, framjá Naustakoti ofan við Brunnastaðasund og yfir að Halakoti. Vestar var gengið um Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði. Þar var tíbýli fyrir aldamótin 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin. Komið var við tóftir bæjarins Grund á Bieringstanga. Á tanganum var mikil útgerð áður fyrr, þar var mikil sjóbúð og salthús. Í fjörunni er letursteinn. Á honum virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa það.

Halakot

Halakot.

Frá Bieringstanga var haldið að Vorhúsum þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.
Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Frá Grænuborg er ágætt útsýni upp hraunin í Vogaheiði og upp á Þráinskjöld. Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjaldarhrauni, er talið hafa runnið til sjávar fyrir um 9000 árum. Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar. Hún er 15 km löng milli Hvassahrauns og Kvíguvogastapa. Líkast til er nafnið dregið af danska orðinu „vandløse”, sem þýðir lauslega lindasvæði, en mikið ferskvatn kemur upp meðfram ströndinni úr beljandi móðum undir hrauninu, þótt ekkert slíkt sé að hafa inn til landsins.

Grænaborg

Í Landnámu er getið um að Steinunn gamla hafi þegið Rosmhvalanes af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, þar með alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíkuvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíkuvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi.
Gengið var með ströndinni áleiðis í Voga. Byggðahverfið er ört vaxandi kauptún við Vogavík.

Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð úr var Stóru-Vogar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stöpplabryggja og fiskhús reist. Síðan hefur bæði ýmislegt orðið þar til framfara, en annað hefur farið miður, s.s. almennt viðhorf gagnvart sögu og minjum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunsnes

Gengið var frá gömlu Hvassahraunsréttinni vestan Skyggnis, niður hraunið að ströndinni og henni síðan fylgt til austurs um Stekkjarnes og með Hvassahraunsbót að Markakletti. Þaðan var gengin bein lína yfir að upphafsstað, áfram að Hjallhólaskúta og síðan haldið yfir Reykjanesbrautina að Strokkamelum og brugghellinum.

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Þá var gengið til baka yfir brautina áleiðis að Fögruvík skammt vestar og skoðað hlaðið gerði skammt vestan hennar.
Skammt norður undan hól vestan við Skyggni er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos. Girðingin, sem liggur frá henni til norðurs, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Austan undir hólnum eru hleðslur. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um.

Hraunsnesskjól

Í Hraunsnesi.

Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður. Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum áleiðis að Skógarhól og síðan áfram upp í Rjúpnadalahraunið. Ofan Markakletts eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra.
Gengið var til baka suðvestur með stefnu suður fyrir Hvassahraun.

Hvassahraun

Hvassahraun – nú horfið.

Ekki er mikið vitað um ábúendur í Hvassahrauni fyrr á öldum, en þó er vitað að árið 1786 bjuggu þar Þorbjörn Jónsson, fæddur 1739, og kona hans Anna Magnúsdóttir, fædd 1734. Líklega hafa þau búið um tíma í Krýsuvík en með vissu eru þau farin að búa í Hvassahrauni 1786. Þau munu hafa komið austan úr Skaftafellssýslu í Skaftáreldum. Þau eru búandi þar í manntalinu 1801.

Þegar gengið er í gegnum annars gróið hraunið er ljóst að talsvert kjarr hefur verið í því fyrrum. Nú hefur berlega komið í ljós hversu vel kjarrið hefur tekið við sér eftir að fé á svæðinu hefur dregið sig til hlés.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Árið 1703 var t.d. hrísrif á heimalandi Hvassahrauni og var það einnig notað í heyskorti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á almenningum. Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir. Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði.

Hraun - aldur

Hraun á Reykjanesskaga.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Afstapahraun er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar.

Hin reglubundna goshrina, sú síðasta, fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Afstapavarða

Afstapavarða (nú horfin).

Hraunabyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en vestan Lónakotslands tekur Vatnsleysustrandarhreppur við. Hvassahraun er austasta jörðin í hreppnum.

Eftir að hafa kíkt á Hjallhólaskúta norðan Reykjanesbrautarinnar var gengið upp fyrir brautina. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvassahrauns

Strokkamelar – hraundríli.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Handan Reykjanesbrautarinnar, skammt vestar, er Fagravík. Við hana var áformað að byggja stálbræðslu. Féllst bygginganefnd Vatnsleysustrandarhrepps á það fyrir sitt leyti, en ekkert var úr rekstri hennar þrátt fyrir undirbúningsframkvæmdir á svæðinu.
Vestan við víkna er hlaðið gerði. Búið er að fjarlægja hluta þess, en veggir er enn standa, sýna nokkurn veginn hver stærðin hefur verið. Ekki er útilokað að þarna geti hafa verið um fjárborg eða rétt að ræða.
Fjaran og strandlengjan frá Fögruvík að Straumi á u.þ.b. 500 metra breiðu belti, ásamt ísöltum tjörnum, frá botni Fögruvíkur að Straumi, njóta náttúrverndar fyrir sérstætt umhverfi með einstökum náttúruperlum.

Hraunsnes

Fjárskjól í Hraunsnesi.

Vogaréttin

Vogaréttin ofan Réttartanga vestan Voga var um tíma lögrétt fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurbændur. Réttin sést glögglega á loftmyndum frá árinu 1954. Eftir það á tilteknu tímabli virðist hún hafa horfið af yfirborðinu, án nokkurra athugasemda.

Vogarétt

Vogaréttin um 1950.

Í örnefnaslýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Voga segir: „Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur.“

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir: „Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin.“

Skammt norðvestar á tanganum má enn sjá leifar enn eldri réttar í fjöruborðinu og dregur tanginn mjög líklega nafn af henni. Sjórinn hefur sópað henni burt að mestu.

Vogarétt

Vogaréttin – mynd Sigurðar Inga Jónssonar, sem staðsetur réttina fyrrverandi af nákvæmni.

Í leit að upplýsingum um Vogaréttina svaraði Sigurður Ingi Jónsson: „Ég reyndi að stilla saman gömlu loftmyndinni og annarri frá 2019 og fæ ekki betur séð en að malbikað hafi verið yfir réttina (sjá mynd)“.

Vogarétt

Vogarétt. – Hér er mynd af leifum Vogaréttarinnar gömlu suður á Flötunum milli Voga og Stapans. Myndin er af skátamóti þar í júlí 1971 og græna hertjaldið er í almenningnum og svo sést móta fyrir dilkunum nær okkur sem línum í jarðveginum og svo virðist vera hleðsla við klettana hér næst, enda var réttin byggð utan í klettahól. Grjótið var tekið á sínum tíma í hafnargerð í Vogum (SG).

Sesselja Guðmundsdóttir bætti við: „Já, byggingar Vogalax fóru yfir hana ca. 1983. Búið var að taka grjótið úr henni í hafnargerð að mig minnir. Nýja réttin á Ströndinni var byggð og tekin í notkun 1956“ [ofan við Hlöðunes].
Meira um „Hlöðunesréttina“ (Strandarréttina/Vogaréttina) síðar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Voga.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Voga.

Vogaréttin

Vogaréttin – loftmynd frá 1954 (t.v.) og loftmynd frá 2021.

Kálfatjörn

„Munnmæli eru um að aðalkirkjan á Vatnsleysuströnd hafi staðið upphaflega á Bakka, fram við sjóinn, en verið flutt að Kálfatjörn vegna landbrots af sjávargangi. En þar sem Bakki á að hafa staðið upphaflega, er nú grængolandi sjór. Þetta gæti staðizt, því að tvívegis hefir Bakki verið færður undan sjávargangi, 1779 og 1838.
Í Vilkinsmáldaga segir að Péturskirkja sé á Galmatjörn, og í athugasemdum í Fornbréfasafni segir að þetta muni hafa verið hið forna nafn staðarins. — kalfatjorn 1965Torfkirkja var í Kálfatjörn fram til 1624, en þá var þar reist kirkja með torfveggjum og timburþaki Fyrsta timfburkirkjan var reist þar 1844, en kirkja sú, er nú stendur þar, og er með allra stærstu sveitarkirkjum, var reist 1893. Prestar sátu á Kálfatjörn fram til 1919, en þá varð Kálfatjörn útkirkja frá Görðum á Álftanesi. —
Kálfatjörn stendur nokkurn veginn miðsvæðis á Ströndinni og var þangað fyrrum drjúgur kirkjuvegur frá innstu og yztu bæum. Var þar yfir hraun að fara og lá vegurinn í ótal krókum og sem næst sjónum, og var því mörg um sinnum lengri en akvegur inn er nú. Ekki voru þó ár til trafala, því að á Vatnsleysuströnd er ekkert rennandi vatn. Þó var þár á vorin ein afar ill torfæra fyrir þá, sem komu að utan, og nefndist hún Rás. Í leysingum á vorin gat safnazt fyrir mikið vatn fram í heiði og fékk það farveg til sjávar um. Rásina og var þar stundum beljandi elfur sem tók mönnum í mitti. Farvegur þessi er skammt fyrir vest an Kálfatjörn. Mönnum mun hafa leikið hugur á að sigrast á þessari torfæru, og árið 1706 var gerð heljarmikil brú úr grjóti þvert yfir Rásina. Sjást leifar hennar enn með fram stauragirðingunni hér á myndinni. Fékk vegarbót þessi nafnið Kirkjubrú vegna þess, að hún var gerð til þess, að kirkjufólk gæti komist óhindrað að staðnum. Á einn stein í rústum þessarar brúar er höggvið ártalið 1706, og af því draga menn þá ályktun að brúin hafi verið gerð það ár, og er því þessi vegarbót 260 ára gömul.“

Heimild:
-Morgunblaðið 1 júní 1965, bls. 5.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd.

Trölladyngja

Gengið var frá Trölladyngju upp í Sogadal, þaðan upp að Spákonuvatni og síðan niður Þórustaðastíginn þar sem hann liggur skásniðinn niður Selsvallafjall á Selsvelli, suður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi, um Þrengsli og Hraunsel, áfram niður með austurjarði Leggjabrjótahrauns og síðan gamla Krýsuvíkurveginum (Hlínarveginum) fylgt austur yfir Núpshlíðarhálsinn á Djúpavatnsveg sunnan Stóra Hamradals.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngjusvæðið er nátttúrminjasvæði, auk Keilis og Höskuldarvalla. Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólkvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffell í Keili. Þá er gígasvæðið vestan í Vesturhálsi er liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla hluti af náttúrverndarsvæðinu, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólkvangs. Sjálf er Trölladyngjan móbergsfjall, líkt og Grænadyngja, systir hennar, og Keilir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn.

Gengið var yfir Sogalækinn og áfram upp á gígbrún Spákonuvatns. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir litskrúðugt Oddafellið og formfagran Keili. Spákonuvatnið er í einum gíg af mörgum á Núpshlíðarhálsinum. Önnur vötn má t.d. nefna Djúpavatn og Grænavatn.

Gengið var um Grænavatnsengjar áleiðis niður að Selsvallafjalli. Af fjallinu var horft yfir Grænavatn í suðaustri. Skásneiðingur Þórustaðastígsins var síðan tekinn niður á Selsvellina vestur undir fjallinu. Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt niður fjallið. Reykjavegurinn liggur um Selsvellina.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengt upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Upp í fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Hluti selstóttanna kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti. Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli.
Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selsturnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.

Keilir

Keilir.

Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt á 19. öld. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega.

Ef marka má lýsingu sr. Geirs var ekki um marga kosti að ræða: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars
Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni.

Hraunssel

Hraunssel.

Gengið var niður Þrengslin og tóftir Hraunssels skoðaðar. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Haldið var áfram niður syðri Þrengslin, með austurjaðri Leggjabrjótshrauns og niður í Línkrók. Þar skammt frá á Sængurkonuhellir að vera í hrauninu undir hlíðinni. Þegar komið var niður á gömlu götuna (Hlínarveginn), sem rudd var fyrir hestvagna um 1932, var beygt til vinstri og götunni fylgt í sneiðingi upp Núpshlíðarhálsinn, um móbergsskarð og niður hálsinn að vestanverðu. Gangan endaði á Djúpavatnsvegi þar sem FERLIR-095 hafði byrjað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dyngjur-2

Dyngjur.

Oddshellir

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gíg fellsins eru hlaðnir garðar, aðhald og rétt og við hellisop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont. Tvö fjárskjól eru utan í fellinu suðaustanverðu.

Oddshellir

Oddshellir.

Einn hellanna, skammt sunnar, heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt suðaustan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyrnar”. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin.
Oddur hélt a.m.k. til í hellinum og þegar Ólafur Þorleifsson mun hafa ætlað að heimsækja hann á aðfangadag um aldamótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 30 árum síðar, sitjandi á syllu.
Sagnir er um að þegar mest var af sauðum í hellum Kálffells hafi þeir verið á annað hundrað.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

 

Atlagerði

Eftirfarandi var skrifað í Morgunblaðið um Atlagerðistanga og nágrenni árið 1970:
„Förinni var heitið suður á Vatnsleysuströnd, til þeirrar strandar, sem Spegillinn í eina tíð, ætlaði að innlima í Reykjavík á þeim árunum sem vatn skorti í höfuðborginni.
flekkuleidi-21Greið er förin, þegar Hafnarfirði sleppir, suður Kapelluhraun, framhjá Straumi, og áfram allar götur eftir Hvassahrauni, sem í raun réttri heitir Afstapahraun, og sunnan við það erum við þá einu sinni enn komin í Kúagerði. Raunar er Kúagerði merkur staður í samgöngusögu þjóðarinnar. Það var eini staðurinn, þar sem hægt var að brynna hestum í ósöltu vatni á þessum hraun fláka á Innnesjunum, og kom slíkt í góðar þarfir, bæði þeim ríðandi og gangandi. Í vesturjaðri þess var lítil graslaut með smátjörn í, fast við veginn á vinstri hönd. Heitir lautin Kúagerði, og var mikill áningarstaður, jafnvel í heiðnum sið.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Ég hef það fyrir satt, og sagði mér það maður, ættaður frá Hvassahrauni, sem var einu sinni stofufélagi minn á Vífilsstöðum, að kaffið hefði alltaf verið salt á þeim bæ, og þó var Kúagerði örskotsspöl í burtu. Síðan lagður var akfær vegur frá Keflavík til Reykjavíkur, hefur það oftast verið siður, að menn hefðu ekki tíma til að stanza og var þó meiri ástæða áður, en núna, þegar þetta hlemmiskeið liggur milli staða, — en í þetta skiptið, síðast liðinn sunnudag, gerðum við okkur dagamun, sveigðum til hægri út á gamla veginn, framhjá Vatnsleysunum, þar sem hann Þorvaldur okkar kæri ræktar svín, framhjá Flekkuvík, hinni frægu, þar sem Jónasi Hallgrímssyni var ekki í eina tíð betur treyst en svo um land að fara til að grafa í Flekkuleiði, að hann fékk rautt ljós. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, en Páll Vigfússon bóndi í Flekkuvík var lengi tregur, því að Jónas segir: „Ég hét þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn.“
Og áfram allar götur framhjá Kálfatjörn, en þeim stóra stað tilheyrði fjárborgin mikla, Staðarborg, sem er vel sýnileg frá þessum gamla þjóðvegi, þar austar og ofar í hrauninu.

Atlagerðistangaviti

Atlagerðistangaviti.

Í þetta sinn er ákveðið að heimsækja Gerðistangavita, sem löngum hefur lýst bátum og skipum, sem meðfram Vatnsleysuströnd sigla. Hlutverk hans er nú orðið svipur hjá sjón, en fallegt er engu að síður niður við vitann. Þar hefur vafalaust áður fyrri verið hættusigling og Tómas kveður um þá hættu:

„En bráðum rísa vindar við
yztu sævarósa,
um unn og strendur lands.
Og bylgjuföxin rísa sem
beðir hvítra rósa,
og boðar norðurljósa
í perluhvítum stormi stíga
dans.“
Og þótt Gerðistangaviti hafi nú að mestu lokið sínu dygga hlutverki, hefur hann áreiðanlega bjargað mörgum sjómanninum heilum í höfn, lýst þeim, sem þráir höfn, eins og Davíð yrkir svo fagurlega:
„Brennið þið vitar. Hetjur
styrkar standa
við stýrisvöl, en nótt til
beggja handa.
Brennið þið, vitar, út við
svarta sanda
særótið þylur dauðra
manna nöfn.
Brennið þið, vitar.
Lýsið hverjum landa,
sem leitar heim
— og þráir höfn.“

Móakot

Móakot á Vatnsleysuströnd – Atlagerðistangaviti fjær.

Við ökum út af veginum við Halldórsstaði, litlu býli, og leggjum bílnum okkar við hliðina á þriggja metra djúpum, hlöðnum brunni, sem er enn við lýði á þessari vatnslausu strönd, en þó sennilega núna aðeins handa svínum í kaldri kró.

Hlöðunesleiði

Hlöðunesleiði.

Í suðvestri blasir við okkur annað býli Narfakot. Vafalaust hafa báðir þessir bæir verið fyrrum eins konar hjáleigur aðalbæjarins, Hlöðvisness. Heitir hann í dag Hlöðunes, og er í eyði. Þetta var stór staður, og kenndur við þann, er þar byggði fyrstur manna.

Þar í túninu á þessi Hlöðvir að vera heygður og heitir þar enn Hlöðvishaugur. En áður en við höldum niður í fjöruna við Gerðistangavita, skulum við aðeins staldra við nafnið Narfakot. Það er nefnilega komið inn í Íslandssöguna á mjög merkan hátt. Meira að segja líka inn í bókmenntirnar.

Hlöðunes

Hlöðunes – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Áður fyrri, þegar Danir ráku hér „velferðarríki“ sitt með möðkuðu mjöli og fleiru tilheyrandi til sálubóta, skorti allt, jafnvel snæri til að hengja sig, hvað þá, að hægt væri að nota til veiðiskapar, var það einnig bannað með „majestets“ skipun, að verzla við annan kaupmann, en þann, sem staðsettur var í manns eigin „Krummavík“. Gerðust margir brotlegir, meðal annarra bláfátækur bóndi á hjáleigu frá Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, sem hét Hólmfastur Guðmundsson, fór með 13 fiska til kaupmannsins í Keflavík að auki 2 knippi af hertum sundmögum og lagði þar inn, þegar honum bar að Guðs og manna lögum og hans hátign ar Danakóngs, að leggja þetta allt inn hjá Knúti Stormi, kaupmanni í Hafnarfirði.

Fyrir þetta var Hólmfastur dæmdur til að kaghýðast á Kálfatjarnarþingi, 27. júlí 1699. Með því að áðurnefndur Stormur vildi ekki taka skektu hans upp í sektina. Þótt Hólmfastur fengi nokkru síðar bæði uppreisn æru og skaðabætur, hefur Laxness gert hann ódauðlegan og komið honum inn í ísl. bókmenntir sem samfanga Jóns Hreggviðssonar í dyflissunni á Bessastöðum og segir nú frá því.

Hlöðunes

Hlöðunes 2024.

Jón Hreggviðsson hafði spurt Hólmfast: „Var þér ekki útlátalaust að leggja fiskana inn í því umdæmi þar sem þér er skipað að verzla af mínum allra náðugasta herra?“
„Og þetta átti að koma fyrir mig, Hólmfast Guðmundsson.“
„Þú hefðir betur hengt þig í spottanum,“ sagði Jón Hreggviðsson.
„Hvenær hefur heyrzt í fornum bókum, að danskir hafi dæmt til hýðingar mann með mínu nafni í landi hans sjálfs hér á Íslandi?“
„Það er heiður að vera höggvinn. Jafnvel lítill karl verður maður af því að vera höggvinn. Lítill karl getur farið með vísu um leið og hann er leiddur undir öxina. Aftur á móti verður hver maður lítill á því að vera hýddur,“ sagði Hólmfastur.
Narfakot-22En því minnumst við á Hólmfast hér, að meðal mannanna, sem dæmdu hann vegna þessa „glæps“, sem við góðu heilli í dag, gætum sett tvö upphrópunarmerki við, sem háðsmerki, vegna þess, að við í dag búum við frjálsa verzlun, — voru einmitt tveir menn frá þessu Narfakoti, sem við okkur blasir í suðvestri, þeir Bjarni og Brynjólfur Þórólfsson, sem þá bjuggu þar.
Og nú látum við gamla sögu lönd og leið, göngum framhjá gömlum hvalbeinum, sem áður voru notuð fyrir hlunna og beint niður í fjöruna hjá vitanum. Á vegi okkar verða gamlar verbúðir, hlaðnar úr hraungrýti, bátur liggur ofarlega í landi, og við hugsum með okkur,: „Það er ekki hægt að setja hann út, nema á flóði.“

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Raunin varð önnur, þetta reyndist hin ákjósanlegasta vör sunnan við Gerðistangann. Einkennilegt var smágert þangið, þegar komið var fram undir sjó. Við þekktum það ekki, en fallegt var þar álitum. Einstakur æðarbliki styggðist og flaug á braut. Annars urðum við ekki vör við fugla. Skorkvikindi skriðu að venju undir þarabrúski, en það hæfir ekki þessari miklu strönd að minnast á slík kvikindi. Sker eru fyrir utan, og rétt fyrir 1880, orti ókunnur höfundur þetta vísukorn um báta flotann á ströndinni, þegar hann ýtti úr vör, líklega að morgni dags og hélt til hafs.

„Lundar branda láta án stanz
á leiði á heiði Ránar,
undan Strandar skerja skans
skunda bandahéra fans.“

Þarna á ströndinni er margt að sjá, bæði lifandi og dautt. Vel má vera, að það vindi á þessari strönd, en samt sem áður held ég, að hún geymi í fórum sínum svo mikla fjársjóði, að erfitt reynist að gera þá upp.

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegur (Hafnarfjarðarvegur) – tollskýlið við Straum.

Fjöruferð meðfram þessari úfnu strönd, meðfram skerjunum, meðfram vörunum, er að minnsta kosti þeirra peninga virði, sem maður verður að greiða samvizku sama manninum í tollskýlinu við Straum, þegar aftur er haldið heim. Ég lofa því, að ég skal síðar skrifa meir og betur um Vatnsleysuströnd, og áður en mig varði, rann bíllinn inn í óða umferðina á Hafnarfjarðarveginum, þar sem vegir liggja til allra átta og flestra óþekktra en ég vona samt heim til mín.“ — Fr.S.

Heimild:
-Morgunblaðið 8. nóv. 1970, bls. 6.

Hlöðunes

Gömlu Halldórsstaðir 2024.