Færslur

Keilir

Ætlunin var að ganga frá Rauðhólsseli inn á Brúnir vestan og suðvestan við Keili, þ.e. með efstu hjöllum Strandarheiði og Vogaheiði. Brúnirnar hafa einnig verið nefndar Heiðarbrúnir og til aðgreiningar Hábrúnir og Neðribrúnir. Sagnir eru til um Brúnaveg er var talinn liggja frá Afstapahraunsjarðri þvert yfir heiðina um Brúnir til Grindavíkur. Grindvíkingar áttu það til að stytta sér leið til Hafnarfjarðar ef veður var gott og fóru á “inn Brúnir” eins og sagt var. Þó svo talað hafi verið um Brúnaveg þá þarf það ekki að þýða að menn hafi farið eina slóð, en suðvestan við Keilir er áberandi gata, sem ætlunin er að skoða betur.
RauðhólsselÁ Brúnunum er t.d. Hellishóll, sem er allstór, í honum er smáskúti með opi til austurs og við það liggur einföld grjóthleðsluröð. Þá er Latur, strýtumyndaður hóll, í Brúnum. Millum þeirra er Hemphóll.
Stefnan var tekin á Rauðhóla með viðkomu í Rauðhólsseli. Frá selinu var gengið til suðvesturs norðan Keilis, til vesturs norðan hans, framhjá Hrafnafelli neðan við Melana og áfram til vesturs inn á Þráinsskjaldarhraunið, efst í Brúnunum með stefnu á Hellishól og Hemphól.
Rauðhólarnir eru margir á Reykjanesskaga. Nær allir eru þeir gjall- eða klepragígar frá gosum á sögulegum tíma. Hinir mosavöxnu Rauðhólar sunnan Afstapahrauns eru hins vegar mosavaxnir bólstrabergshólar með rauðleita kolla.. Afstapahraunið rann 1151, en efiðara er að gera sér grein fyrir úr hvaða gosi hólarnir mynduðust. Þeir virðast við fyrstu sýn vera frá öðrum tímabili, þ.e. miklu eldri en Afstapahraunið. Þráinsskjaldarhraunið hefur umlukt þá hólana svo þeir eru líklega eldri en það. Annars bera Rauðhólarnir mjög keim af Oddafellinu, nokkur ofar. Um sömu myndun virðist vera að ræða, lega beggja er sú sama og Þráinsskjaldarhraunið umlykur það einnig. Ekki er að sjá að hólarnir og fellið hafi orðið til í gosi undir jökli svo líklegast hafa þeir orðið til í gosi um það leyti er jökullinn var að hverfa á svæðinu. Jarðmyndunin gæti því verið u.þ.b. 1000 árum eldri en Þráinsskjaldarhraun.
LandamerkjavarðaSamkvæmt Jarðabókinni 1703 hafði Stóra-Vatnsleysa þá selstöðu “þar sem heitir Rauðhólssel”. Þar “eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti”. Í annarri heimild segir að fólk hafi þurft að yfirgefa selstöðuna fyrr en ella vegna ágangs drauga. Líklega má telja að það hafi verið hin “opinbera” skýring á ástæðunni, en vatnsskorturinn var jafnan sú raunverulega. Í Rauðhólsseli eru enn glöggar tóftir og allstórt seltún. Eldri tóft er í miðju seltúninu og yngra sel virðist hafa verið nyrst í því. Það gæti hafa verið byggt upp úr eldri stekk, sem þar hefur verið.
Keilir blasti við í suðri, hár og reisuleg[ur]. Fjallið hét fyrst “Keilen” sbr. Keilan (þ.e. kvenkyns), eins og sjá má t.a.m. á korti Björns Gunnlaugssonar. Strýtan er einkennisfjall á vestanverðum Reykjanesskaganum. Fjallið sést vel víða frá, t.d. frá ásum höfuðborgarsvæðisins, Ströndinni og Rosmhvalanesi. Tilkomumest er það frá Suðurgötunni í Reykjavík. Það er formfagurt og minnir að mörgu leyti á eldkeilu. Hvers vegna fjallið varð nefnt í karlkyni er mörgum hulið. Eðlilegra heiti á því hefði verið Keila.
Gata í BrúnumKeilir varð til við gos undir jökli á ísöld. Þar er því að mestu úr móbergi, 379 m.y.s. Strýtumyndunin er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Gígtappinn er að að mestu úr basalti/bólstrabergi og veðrast því síður en móbergið, sem er samanþétt öskumyndun undir þrýstingi. Auk þess ver móbergið kjarnan þótt vindum. Vatni og frosti hefur þó smám saman tekist að flytja efni af efstu brúnum fjallsins niður með hlíðum þess og myndað strýtuna, sem nú má sjá. (Sjá meira undir Keilir).
Keilir hefur löngum verið mikilvægt og frægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi:
Keilir fríður kennast skal,
knappt þó skrýði runnur,
fagran prýðir fjallasal
fyrr og síðar kunnur.

Þekkti ég siðinn þann af sjón
þekkan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
fiskimiðin tengja.

HemphólsvatnsstæðiðSæfarendur reyna rétt
rata´ að lending heilir;
til að benda´ á takmark sett
tryggur stendur Keilir. 

Melarnir eru sléttmynduð lægð norðan við Keili. Innbyggt hafði verið í gönguáætluna að reyna að halda 120 m.h.y.s., þ.e. halda sömu hæð frá vegupphafinu til koma heiðarloka – og til baka. Það tókst með ágætum svo ekki munaði nema nokkrum metrum. Við fyrstu hugsun virðist hér ekki vera um merkilegheit að ræða, en hún var samt sem áður grundvallaratriði ferðalaganna fyrrum þegar fara þurfti svo til allar leiðir (og götur) fótgangandi. Ferðalangar gættu þess mjög vel að “halda hæð”, þ.e. að þurfa ekki að fara niður í lægðir og síðan upp aftur. Þess vegna gengu þeir, ef mögulegt var, með hlíðum, jafnvel þótt vegkrókur væri. Þjálfað göngufólk veit, að ef fara þarf langa leið, er hér um eitt hið mikilvægasta lykilatriði að ræða. Þeir, sem skoða og leita gamalla þjóðleiða, eru mjög meðvitaðir um þetta. Það auðveldar þeim að rekja hinar “horfnu slóðir”. Þessi vitneskja og meðvitund, þ.e. að reyna að setja sig í spor forfeðranna, er ein áhrifaríkasta aðferðin við að finna fornar götur.
Flöskulíki í HemphólsvörðuNorðan (útnorður) við Keili eru vörður, nokkuð myndarlegar, í svo til beina röð austur/vestur. Líklegast eru hér um landamerkjavörður að ræða, þ.e. þær afmarka jaðranna á leið upp í hálsa.
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára). Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.
Ofan við Hemphól var komið inn á áberandi götu er lá niður með Brúnum frá vestanverðum Keili og áleiðis niður að hólnum austanverðum. Endaði hún við Hemphólsvatnsstæðið austan við hólinn. Hemphólsvatnsstæði er lítill mýrarðollur rétt austur af hólnum. Við það eru tvær vörður við götur að því, fyrrnefndri götu og annarri að því að austanverðu.
Hemphóll, eða Hemphólar,  er á Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel. Stór varða er á efsta hólnum og inni í henni allnokkur flöskulík. Hér áðu smalarnir úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir. Smalaleiðin lá skammt norðan við Brunnastaðasel og á Hemphól. Hóllinn er áberandi séður frá Kúagerði og á honum er varða. Heimild frá Grindavík segir hólinn heita Stóruvörðu. Sagt er að prestur Kálfatjarnarsóknar og Staðarsóknar í Grindavík hafi átt sameiginlega hempu og að hún hafi verið sótt á hólinn fyrir messur á hvorum stað og vegna þess sé nafnið Hemphóll tilkomið.

Hellishóll

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004): “Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Driffelli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.
Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar.

Varða ofan Brúna

Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.”

Latur er, sem fyrr sagði, strýtumyndaður hóll í Brúnum og er hann spölkorn norðaustur af Hemphól. Í heimildum heitir hóllinn líka Siggahóll og er sagður nefndur eftir Sigurði Björnssyni (1849-1929) bónda í Narfakoti. Latsörnefnin eru nokkur í landinu og óvíst er af hverju þau eru dregin. Jafnan hefur verið við ætlað að örnefnin hafi verið viðmið af sjó er siglt var tiltekna leið, þ.e. mælikvarði á hvernig miðaði, og auk þess verið leitt að því líkur að jarðfræðifyrirbærið, sem oft er lítið m.v. önnur nálæg, væri tilkomið vegna þess að það hafi dregist út úr eða frá þeim stærri. Þannig hafi Latur í Ögmundarhrauni dregist frá Latsfjalli o.s.frv.

Keilir í síðdegissólinni

Sama skýring gæti gilt um Lat í brúnum, því nálægir hólar eru stærri en hann. Þriðja skýringin, sem getið er um, er sú að við þessa nafngreindu hóla hafi verið áningarstaðir fyrrum, fólk staldrað við og hvílt sig – lagst í leti um stund. Það gæti vel átt við Lat í Brúnum, en þess bera að gera, sbr. framangreinda lýsingu, að letinni hafi jafnan verið útdeilt við annan nálægan hól; Hemphól, sem er skammt ofan við hann. Hérna gæti vissulega verið um nafnabrengl að ræða, enda hólarnir í heiðinni hver öðrum líkir. Ókunnugir, sem hafa áreiðanlega verið meirihluti ferðalanga um Brúnirnar, einn fáfarnasta stað Vatnsleysustrandarhrepps, gætu hafa heyrt um þennan áningarstað, en ekki getað gert sér nákvæmlega grein fyrir hvar hann var.
Hellishóll er ofan við Hemphól. Á honum er varða. Skúti er efst í hólnum og snýr opið mót suðri (landsuðri), austri ef notaður væri áttarviti. Fyrirhleðsla er við opið, en hún virðist fyrrum hafa myndað vegg út frá því. Frá Hellishól er hið ágætasta útsýni, líkt og af Hemphól, yfir heiðina og alla leið yfir að Skógfellunum í vestri. Sá, sem setið hefur á hólnum, hefur átt auðvelt með að fylgjast með mannaferðum um víðfeðmt svæði.
Ofan við Hellishól eru vörður í sömu línu og fyrstnefndu vörðurnar norðan við Keili. Þarna hækkar inn á Brúnir úr Fagradal og vel gróið í botninn. Grunur leikur á að þarna hafi Brúnavegur komið inn á heiðina. Farin verður önnur ferð á svæðið við tækifæri og er þá ætlunin að reyna að rekja götuna áfram inn á heiðina.
Tækifærið var notað og gígur Þráinsskjaldarhrauns skoðaður.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín. (22 km).

Heimild m.a.:
-Örnefni- og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja Guðmundsdóttir – 2007.

Gígur Þráinsskjaldar