Færslur

Hlöðunesrétt

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi” fjallar hann m.a. um Hlöðunesrétt, lögrétt Vatnsleysustrandarhrepps; öðru nafni Vogarétt eða Strandarrétt:

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt vígð árið 1956.

“Fyrir ofan Hlöðversneshverfi er samkomuhúsið Kirkjuhvoll (sjá U.M.F.Þróttur). Nokkuð fyrir ofan Kirkjuhvol er fjárrétt. Það er hin gamla Vogarétt sem áður var staðsett á milli Vogabyggðar og Vogastapa. Þessi nýja rétt er reyndar enn kölluð Vogarétt þó hún sé á ströndinni. Gamla Vogaréttin var lögrétt eins og sú nýja sem byggð var árið 1956. Réttin hefur einnig verið nefnd “Hlöðunesrétt” og “Strandarrétt”.

Vogarétt

Garður við Vogarétt – hlaðið úr holsteini.

Skammt neðan við  Hlöðunesréttina stendur opið hlaðið lítið hús úr holsteini (sandsteini) er bar nafnið Garður, sem lítt hefur verið getið í heimildum.
Lögrétt þýðir aðalskilarétt fjár (sbr. orðabók Árna Björnssonar frá 1979).

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Í lögrétt skal fara fram löglegt uppboð óskilafénaðar sem kemur í hana frá hinum ýmsu aukaréttum í sýslunni. Hefur opinber embættismaður á vegum viðkomandi sýslumanns það starf að bjóða upp féð.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt 1982.

Árið 1956 var samþykkt af sveitastjórn að byggð skyldi ný lögrétt á nýjum stað og voru kosnir þrír menn til að kanna hvernig staðið skyldi að framkvæmdinni. Þeir voru; Guðmundur í. Ágústsson, þáverandi hreppsnefndarmaður, Sigurjón Sigurðsson, Traðarkoti og Þórður Jónasson á Stóru-Vatnsleysu. Þessir menn fóru um sveitir suðvestanlands og könnuðu kosti og galla margra rétta, til að sameina það besta í eina nýja lögrétt fyrir Vatnsleysustrandarhrepp.

Vogarétt

Hlöðunesrétt árið 2022.

Réttin var hlaðin úr sandsteini (holsteini) og við hana er mjög góð aðstaða fyrir fjárflutningabíla.
Þórður Jónasson bóndi á Stóru-Vatnsleysu sá um byggingaframkvæmdir ásamt aðstoðarmönnum. Gekk verkið vel og var réttin vígð árið 1956 með mikilli viðhöfn.”

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 247-248.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Vogaréttin

Vogaréttin ofan Réttartanga vestan Voga var um tíma lögrétt fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna og Grindavíkurbændur. Réttin sést glögglega á loftmyndum frá árinu 1954. Eftir það á tilteknu tímabli virðist hún hafa horfið af yfirborðinu, án nokkurra athugasemda.

Vogarétt

Vogaréttin um 1950.

Í örnefnaslýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Voga segir: “Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur.”

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir: “Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin.”

Skammt norðvestar á tanganum má enn sjá leifar enn eldri réttar í fjöruborðinu og dregur tanginn mjög líklega nafn af henni. Sjórinn hefur sópað henni burt að mestu.

Vogarétt

Vogaréttin – mynd Sigurðar Inga Jónssonar, sem staðsetur réttina fyrrverandi af nákvæmni.

Í leit að upplýsingum um Vogaréttina svaraði Sigurður Ingi Jónsson: “Ég reyndi að stilla saman gömlu loftmyndinni og annarri frá 2019 og fæ ekki betur séð en að malbikað hafi verið yfir réttina (sjá mynd)”.

Vogarétt

Vogarétt. – Hér er mynd af leifum Vogaréttarinnar gömlu suður á Flötunum milli Voga og Stapans. Myndin er af skátamóti þar í júlí 1971 og græna hertjaldið er í almenningnum og svo sést móta fyrir dilkunum nær okkur sem línum í jarðveginum og svo virðist vera hleðsla við klettana hér næst, enda var réttin byggð utan í klettahól. Grjótið var tekið á sínum tíma í hafnargerð í Vogum (SG).

Sesselja Guðmundsdóttir bætti við: “Já, byggingar Vogalax fóru yfir hana ca. 1983. Búið var að taka grjótið úr henni í hafnargerð að mig minnir. Nýja réttin á Ströndinni var byggð og tekin í notkun 1956” [ofan við Hlöðunes].
Meira um “Hlöðunesréttina” (Strandarréttina/Vogaréttina) síðar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Voga.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Voga.

Vogaréttin

Vogaréttin – loftmynd frá 1954 (t.v.) og loftmynd frá 2021.