Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi” fjallar hann m.a. um Hlöðunesrétt, lögrétt Vatnsleysustrandarhrepps; öðru nafni Vogarétt eða Strandarrétt:
“Fyrir ofan Hlöðversneshverfi er samkomuhúsið Kirkjuhvoll (sjá U.M.F.Þróttur). Nokkuð fyrir ofan Kirkjuhvol er fjárrétt. Það er hin gamla Vogarétt sem áður var staðsett á milli Vogabyggðar og Vogastapa. Þessi nýja rétt er reyndar enn kölluð Vogarétt þó hún sé á ströndinni. Gamla Vogaréttin var lögrétt eins og sú nýja sem byggð var árið 1956. Réttin hefur einnig verið nefnd “Hlöðunesrétt” og “Strandarrétt”.
Skammt neðan við Hlöðunesréttina stendur opið hlaðið lítið hús úr holsteini (sandsteini) er bar nafnið Garður, sem lítt hefur verið getið í heimildum.
Lögrétt þýðir aðalskilarétt fjár (sbr. orðabók Árna Björnssonar frá 1979).
Í lögrétt skal fara fram löglegt uppboð óskilafénaðar sem kemur í hana frá hinum ýmsu aukaréttum í sýslunni. Hefur opinber embættismaður á vegum viðkomandi sýslumanns það starf að bjóða upp féð.
Árið 1956 var samþykkt af sveitastjórn að byggð skyldi ný lögrétt á nýjum stað og voru kosnir þrír menn til að kanna hvernig staðið skyldi að framkvæmdinni. Þeir voru; Guðmundur í. Ágústsson, þáverandi hreppsnefndarmaður, Sigurjón Sigurðsson, Traðarkoti og Þórður Jónasson á Stóru-Vatnsleysu. Þessir menn fóru um sveitir suðvestanlands og könnuðu kosti og galla margra rétta, til að sameina það besta í eina nýja lögrétt fyrir Vatnsleysustrandarhrepp.
Réttin var hlaðin úr sandsteini (holsteini) og við hana er mjög góð aðstaða fyrir fjárflutningabíla.
Þórður Jónasson bóndi á Stóru-Vatnsleysu sá um byggingaframkvæmdir ásamt aðstoðarmönnum. Gekk verkið vel og var réttin vígð árið 1956 með mikilli viðhöfn.”
Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 247-248.