Tag Archive for: Vogastapi

Camp Dailey

Í Youtube miðlinum „Vogar TV“ má sjá þann 7. okt. 2018 myndband af gönguferð Vogamanna undir leiðsögn Viktors Guðmundssonar að fyrrum herspítalanum Camp Dailey á innanverðanum Stapanum, við gamla Suðurnesjaveginn, er reyndar var upphaflega lagður sem vagnvegur þar á árinu 1912.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum 1921.

Vegagerðinni frá höfuðborginni lauk loks í Njarðvíkum árið eftir. Með tilkomu bílsins var vegurinn lagaður að þörfum hans, breikkaður og undirlagið bætt til muna. Síðan hafa framfarirnar jafnan mótast að kröfum nútímans…
Viktor Guðmundsson, svæðaleiðsögumaður á Reykjanesskaga og fyrrum FERLIRsfélagi leiddi gönguna. Hér á eftir má lesa fróðleik og myndir frá henni:

Herdeildin, 22 og eitthvað svoleiðis, kom til landsins í ágúst 1942. Hún staðsetti sig fyrst á Reykjum í Hrútafirði.
Í júnímánuðu árið eftir færði sveitin sig suður yfir heiðar. Eftir skamma viðdvöl í Mosfellssveit var ákveðið að reisa ætlað sjúkrahús nálægt Meeks-flugvelli á Miðnesheiði.

Camp Dailey

Viktor Guðmundsson leiðsegir.

Á árunum 1942-’43 voru um 50.000 erlendir hermenn hér á landi.

Camp Dailey

Camp Dailey – uppdráttur.

Gert var ráð fyrir veikindum og slysum af 5% af heildarfjölda eða um 2500 manns. Þann 21. ágúst 1943 sama ár hófst bygging sjúkrahússins á Camp Dailey á Vogastapa. Verkið tók 9 mánuði. Spítalinn samanstóð af 32 braggabyggingum. Auk þess bjó starfsfólk spítalans í 42 bröggum er stóðu á víð og dreif umhverfis – auk áberandi frárennslislagnar í sjó fram niður í Vogavík.

Sem betur fer var þurfti herinn lítið á spítalaþjónustinni að halda. Þegar þjónustu hans lauk eftir stríðslok 1945 brann miðkjarni spítalans í óveðri í apríl árið 1946. Í framhaldinu hirtu landsmenn aðrar leifar hans líkt og maurar úr þúfu. Öllu, sem hægt var að stela var stolið.

Camp Dailey

Camp Dailey.

Í dag er minjasvæði Camp Dailey takmarkað því nokkuð af því fór undir núverandi Reykjanesbraut, auk þess sem öðrum hlutum þess hefur lítill sómi verið sýndur.
Afliggjarinn til Grindavíkur á sínum tíma lá í gegnum búðirnar.
Enn má sjá a.m.k. tvær fóðraðar vatnsborholur hersins á svæðinu. Flestar jarðlægar minjar eru huldar lúpínu.

Daily Camp

Daily Camp – minjar.

Menn hafa oft verið að rugla Camp Dailey við stóra húsið ofan vegarins, en það var fjarskiptastöð hersins.
Olíutankur var við hvern einasta bragga, líkt og sjá má á vettvangi.
Sýnilegustu minjarnar í dag eru steyptir stöplar undir frárennslislögn frá spítalanum er lá í sjó í Vogavík, eins og áður sagði.
Á árunum 1978-1982 var plantað grenitrjám utan í lágina þar sem spítalabraggahverfið var.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Sesselja Guðmundsdóttur segir á bls, 57-58 um svæðið;

Reiðskarð

Stapagata um Reiðskarð.

„Næst förum við um Stapann eða Vogastapa (Njarðvíkur-stapa segir Skúli Magnússon, 1785) en eldra nafn á Stapanum er Kvíguvogabjörg eða -bjarg. Vogastapi er um 5 km langur og liggur allt vestur undir Innri-Njarðvík. Sjávarmegin eru klettabelti að mestu með stórgrýtisurðum við sjávarmál en að ofanverðu eru aflíðandi hjallar mót suðri og austri. Gamla þjóð leiðin Almenningsvegur sem liggur um hreppinn endilangan og við höfum fylgt endrum og sinnum heitir nú Stapagata. Hún liggur um Stapann endilangan og er lýst aftast í ritinu.

Camp Dailey

Fyrr á öldum lá þjóðleiðin til Suðurnesja ofar (sunnar) á Stapanum og í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti á eystri hluta Stapans en vestar sást hún býsna glöggt fyrir fáum árum allt til Innri-Njarðvíkur. Nú er gamla þjóðleiðin á þeim kafla eyðilögð af vinnuvélum. Mjög villugjarnt var á Gamla-Stapavegi segja heimildir og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum.

Camp Daily

Úr skýrslu um „Reykjanesbraut – Fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands 2001.“

Við Stapahornið milli Gamla-Keflavíkurvegar og Reykjanesbrautar er slétt svæði en á því var reist herskálahverfi árið 1942 sem kallað var Dailey camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina starfandi hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Dailey camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946. Eldri hreppsbúar nota enn þetta örnefni yfir umrætt svæði. Frá herskálunum lá skolplögn niður Stapabrekkuna og síðan í sveig allt til sjávar. Á lögninni eru opnir steyptir brunnar, sumir nokkuð háir, með stuttu millibili og hafa þeir ótrúlega lengi staðist tímans tönn.

Stapinn

Kálgarðsbjalli – kálgarður ofan Camp Daily.

Við Dailey camp að austanverðu plöntuðu systur úr Soroptimistaklúbbi Keflavíkur trjám árið 1990 og kölluðu svæðið Bjartsýnisreitinn. En það er til önnur skýring: Soror þýðir systir á latínu og optimist þýðir bjartsýnismanneskja þannig að soroptimisti þýðir bjartsýnissystir og þá er örnefnaskýringin ljós.
Bjallar heita hjallarnir eða misgengin sem ganga suðvestur úr Vogastapa og eru þeir fimm í hreppslandinu en sá efsti og syðsti fylgir B-svæði. Eitthvað eru sérnöfn Bjallanna óljós, svo virðist sem tvö nöfn geti átt við einn og sama Bjallann og erfitt er að staðsetja Mýrabjalla, Sandbjalla og Miðbjalla. Næsta víst er þó að sá bjalli sem er fyrir vestan Dailey camp heitir Lyngbjalli og sá vestan hans heitir Kálgarðsbjalli. Bjallinn sá dregur nafn sitt af kartöflugarði (hreppsgarði), norðan Gamla-Keflavíkurvegarins, sem þar var um aldamótin.“

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls, 57-58, Lionsklúbburinn Keilir 2007.
-Vogar TV 7, leiðsögn Viktors Guðmundssonar, okt. 2018.
-Reykjanesbraut – Fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands 2001.

Camp Dailey

Camp Dailey.

Stapinn

Lengi hefur verið leitað að Kolbeinsvörðu á Vogastapa. Hún var sögð vera við Innri-Skoru, á landamerkjum Voga og Njarðvíkur. Hið rétta er að við Innri-Skoru, vestanverða, eru landamerkin í sjó. Ofan hennar er Brúnavarðan og í sjónhendingu frá henni er Kolbeinsvarða, en úr Kolbeinsvörðu áttu landamerkin að liggja í Arnarklett sunnan Snorrastaðatjarna.

Vogastapi

Vogastapi – kort.

Eftir vísbendingu Ólafs frá Stóra-Knarrarnesi, sem hafði séð Kolbeinsvörðu er hann var ungur, var haldið inn á gamla Grindavíkurveginn frá nýja Keflavíkurveginum og honum fylgt u.þ.b. 50 metra. Þá var stöðvað og haldið til vesturs í u.þ.b. 100 metra. Þar upp á hól stendur Kolbeinsvarða. Fótur hennar stendur enn og einnig svolítið af vörðunni. Hún hefur greinilega verið sver um sig, u.þ.b. 3 metrar að ummáli og sést neðsti hringurinn nokkuð vel. Fokið hefur yfir hluta vörðunnar að vestanverðu og gróið yfir.

Kolbeinsvarða

Kolbeinsvarða?

Á steini í vörðunni á að vera ártalssteinn (1724). Gera þarf talsvert rask við vörðuna ef finna á steininn (ef hann er þá þarna enn). Frá vörðunni sér í Brúnavörðu í norðri og Arnarklett í austri. Að sögn Ólafs mun hafa verið tekið úr vörðunni, líkt og úr svo mörgum öðrum vörðum og görðum, er verið var að ná í grjót í hafnargarðinn í Vogum. Hann myndi vel eftir því þegar hún stóð þarna, fallega hlaðin upp.

Grindavíkurveginum var fylgt upp Stapann. Víða má sjá fallega handavinnu vegagerðarmanna á veginum, s.s. ræsi og kanthleðslur, einkum þegar stutt er eftir yfir á gamla Keflavíkurveginn.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Skammt vestan við veginn áður en komið er að gatnamótunum eru allmikil gróin börð. Ef vel er að gáð má sjá mótaða hleðslu er myndar gerði á milli barðanna. Á einum stað sést vel hvernig gerður hefur verið garður úr mold og grjóti umhverfis gerðið. Innan þess er nokkuð gróðið svæði, hornlaga. Ekki er ósennilegt að þarna hafi vegagerðarmennirnir, er tóku til við að byggja Grindarvíkurveginn árið 1913 á Vogastapa, hafi haft sínar fyrstu búðir. Frá Seltjörn (Selvatni) hafa búðir þeirra eða aðstaða verið með u.þ.b. 500 metra millibili. Sjá má móta fyrir þeim á a.m.k. 12 stöðum við Grindavíkurveginn, en svo mikið hefur verið nýtt af hrauninu við gerð nýja vegarins að telja má fullvíst að margar aðrar hafi þá farið forgörðum.
Mikil landeyðing hefur orðið þarna á heiðinni og því erfitt að greina fleiri mannvirki. Þó á eftir að skoða þetta svæði betur með tilliti til fleiri ummerkja.
Nú væri tilvalið að skella þarna svo sem einu steintrölli til að vekja athygli á minjunum, sem nú eru að verða aldargamlar, en það mun jú vera einn yfirlýstur tilgangur tröllasmíðanna á heiðinni.
Frábært veður.

Grindavíkurvegur

Varða sunnan við Stapa.

Grímshóll

„Vogastapi er nær 80 metrar á hæð og skagar fram sem núpur milli Voga og Njarðvíkur innri. Þverhnípt björg eru framan í honum og eru það hin fornu Kvíguvogabjörg. Þar verpir nokkuð af sjófugli. Alfaraleið lá fyrrum yfir Stapann þar sem heitir Reiðskarð, en aksvegurinn var gerður á öðrum stað. Efst á Stapanum er hóll, sem Grímshóll nefnist. Um hann eru nokkrar þjóðsögur. Ein er á þessa leið:

Reiðskarð

„Einu sinni voru vermenn á leið suður í Leiru. Sumir segja, að það hafi verið Norðlendingar, en aðrir, að þeir hafi verið úr Rangárvallasýslu. Einn þeirra hét Grímur og var ungur að árum. Þegar þeir eru á leið upp Reiðskarðið á Stapanum, slitnaði reiðgjörð Gríms, og þar sem hann fór seinastur tóku félagar hans ekki eftir vþí, að honum dvaldist við að gera við gjörðina, og fóru á undan. Skildi þar með þeim. En er Grímur kemur upp á Stapann, mætir hann þar manni og taka þeir tal saman. Biður hinn ókunni maður hann að róa hjá sér um veturinn og segir, að hann muni ekki hafa verra af því. Grímur spurði þá, hvar hann ætti heima, en hann kvað næ sinn vera skammt þaðan. Og hvort sem þeir töluðu nú um þetta lengur eða skemur, verður það úr, að Grímur ræður sig í skip hjá þessum manni. Komu þeir nú brátt að snotrum bæ vel hýstum. 

Vogar á fyrri hluta síðustu aldar

Bóndi tók við hest Gríms og kvað hann eigi þurfa að hafa áhyggjur ah honum. – Síðan hófst vertíðin og róa þeir Grímur tveir á báti og hlóðu í hvert skipti. Aldrei þurfti Grímur að gera að fiski, og líkaði honum stórum vel þarna. En um lokin höfðu þeir fengið 10 hundruð til hlutar. Launaði bóndi honum stórmannlega og bað hann að róa hjá sér næstu vertíð. Er svo ekki að orðlengja það, en þarna reri Grímur síðan margar vertíðir og fiskaði alltaf manna mest. Seinast kvæntist hann dóttur bónda og fluttist til hans, og hefir ekki spurzt til Gríms síðan. En það er mál manna, að bær huldumannsins muni vera hóllinn efst á Stapanum og hefir hann síðan verið kallaður Grímshóll. –
Stapagatan gamlaOft er hvasst á Stapanum og þótti mjög villugjarnt þar í stórhríðum, áður en akvegurinn kom. En villigjarnast varð mönnum hjá Grímshóli, eftir því sem sagnir herma, og eftir því var talið, að hólbúarnir mundu villa um fyrir mönnum. Margir hafa orðið þar úti og sumir með sviplegum hætti. Þess er getið í Setbergsannál, að fundiszt hafi dauður maður undir Stapanum, og bar enginn kennsl á líkið; hefir það óefað verið vermaður. – 28. janúar 1859 varð Þorsteinn, sonur Klemensar bónda Sæmundssonar í Stapakoti, úti á Stapanum. Hann átti þá heima í Minni-Vogum. Síðla dags gengu tveir menn fram á hann dauðadrukkinn á Stapanum, og hafði hann brennivín hjá sér. Þeir vildu fá hann til þess að koma með sér, en hann var ófáanlegur til þess og reyndi að berja þá frá sér með staf sínum. Þá tóku þeir af honum stafinn og fóru svo sína leið. Ekki höfðu þeir rænu á því að segja til hans, en þeir gengu um hlaðið á Minni-Vogum og skildu staf hans þar eftir. Varð því ekki úr, að hans væri leitað um kvöldið, en síðar fannst hann örendur á Stapanum. – Nokkrum árum seinna, það mun hafa verið 1865, fór Egill fisktökumaður á Hólmi til Keflavíkur að vetrarlagi. Mun honum hafa dvalizt þar lengur en hann ætlaði.

Stapinn

Stapabúð.

Í vökulokin kom hann aftur að Stapakoti. Þá ar mikill snjór og útsynnings éljagangur. Vildi Klemens bóndi endilega, að hann gisti hjá sér um nóttina, en við það var ekki komandi, Egill vildi ólmur komast heim. Þá lét Klemens vinnumann sinn fara upp úr rúmi til þess að fylgja honum. En það er af ferðalagi þeirra að segja, að þeir hrepptu blindbyl á Stapanum, ætluðu að fara svonefndan Rauðastíg innan við gilið hjá Grímshól, en hröpuðu fram af björgunum. Fundust þar síðan limlest lík þeirra.

Stapi

Vogastapi – leiðir.

Sveinbjörn Egilsson frá Stapakoti varð úti hjá Stapanum um 1870. – Sigurður Jónsson frá Görðum á Landi varð úti á Stapanum seintá 19. öld.
Hér er aðeins fátt talið. En vegna þess, hve margir fórust á Stapanum, þótti þar löngum reimt mjög. Og hefir það ekki batnað á seinni árum, nema síður sé, þrátt fyrir aukna menntun og margs konar framfarir. Hafa gengið hinar römmustu sögur á seinni árum af „stapadraugnum“, eða „stapadraugunum“, því að sumir halda, að þeir séu margir. Væri vel, ef einhver vildi safna þeim sögum, því að þær eru harla girnilegar til fróðleiks.“

Heimild:
-Árni Óla – Strönd og Vogar, úr sögu einnar sveitar í Landnámi Ingólfs Arnarsson, 1961.

Á Grímshól

Grímshóll

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum.

Grímshóll

Stapagata og Grímshóll á Vogastapa.

Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

Jón Árnason I 14

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.