Færslur

Dísurétt

Haldið var að Kleifarvöllum og haldið á Kleifarvallarskarð. Þar nokkuð ofan við brúnina eru þrír skútar, Pínir, Sveltir og Músarhellir. Frábært útsýni var þarna yfir Vogsósa og Selvog. Sjá mátti t.d. Fornagarð (Strandargarð) mjög greinilega þar sem hann liðaðist um sandinn sunnan Vogsósa, en garðurinn er talinn eitt elsta uppistandandi mannvirki landsins.

Áni

Áni.

Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Upp af Strandardal er Kálfsgil þar sem Eiríkur prestur á Vogsósum er sagður hafa grafið mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu. Haldið var að Eiríksvörðu efst á Svörtubjörgum, en hana er Eiríkur sagður hafa látið hlaða og mælt síðan svo fyrir um að á meðan varðan stæði væri Selvogur hólpinn fyrir Tyrkjanum. Hugað var að Sælubúnu, lind á milli Svörtubjarga og Urðarfells og síðan gengin refaslóð niður fyrir björgin og staldrað við í Staðarseli, fallegu fráfæruseli efst undir björgunum. Þaðan er fallegt útsýni niður með Svörtubjörgum, Katlahlíðum og Herdísarvíkurfjalli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Eftir að hafa skoðað selið vel og vandlega var gengið niður með björgunum í rjómalogni og hita. Klifrað var upp í Stígshella vestast og efst í Svörtubjörgum, en framundan (neðan) þeim eru brattar grasbrekkur og síðan einstigi vestur með hellunum og áfram upp á vesturbrún fjallsins. Þaðan var haldið að Hlíðarborg og hún skoðuð. Um er að ræða mjög fallega fjárborg á fallegum stað, vestur undir háum klofnum hraunhól. Byggt hefur verið hús í borginni, en allt er þetta upp gróið.

Valgarðsborg

Valgeirsborg í Hlíðarseli.

Valgeirsborg er skammt sunnar, en vestan hennar eru tóftir, sennilega selstöðu. Ekki er vitað til þess að þessar minjar hafi verið færðar á fornleifaskrá. Frá Hlíðarborg var gengið að Ána og skoðaðar hleðslurnar fyrir hellismunnanum og síðan hellirinn sjálfur.
Litið var til með Vogsósaseli ofan við Vatnsdal. Að því búnu var gengið að Vogsósaborgum, þremur mjög heillegum fjárborgum á hól austan Hlíðarvatns.
Þetta er skemtileg gönguleið og margt að skoða.
Frábært veður – sól, hlýtt og lygnt.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.