Tag Archive for: Vogsósar

Þórarinn Snorrason
Gengið var frá Hlíð við Hlíðarvatn, að Vogsósum, Fornagarði fylgt upp túnið og síðan haldið áfram eftir Kirkjugötunni að Strönd í Selvogi.
Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð, sem mun hafa verið landnámsbær Þóris haustmyrkurs. Reyndar er talið að rústir þær hafi verið á tanga eða hólma, sem er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Eftir að hækkaði í vatninu hafa möguleikar á að skoða þær farið minnkandi.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Frá rústunum liggur Hlíðargata austur og inn með fjallinu, framhjá fjárborginni og tóftunum undir Borgarskarði, Hlíðarborg og Hlíðarseli áleiðis upp á Suðurferðaveg (Selvogsgötu).
Gengið var suður með austanverðu Hlíðarvatni, um Réttartanga og síðan beygt upp á gróna hraunhóla þar austur af, vestan þjóðvegarins. Á þeim eru Borgirnar þrjár, eða Vogsósaborgir eins og þær hafa einnig verið nefndar. Borgir þessar eru nokkuð heillegar. Ekki er vitað hver hlóð þær, en eflaust hafa þær átt að skýla fé svo sem meginhlutverk fjárborganna var. Ekki er ólíklegt að þær hafi verið frá fleiri en einu koti, sem voru þarna skammt frá. Skammt austar, austan þjóðvegarins eru tóftir Vogsósasels.

Hlíð

Hlíðarkot – tóftir.

Frá Borgunum er ágætt útsýni yfir Hlíðarvatn, hólmana, Víðisand sunnar og Alnboga, vestan fráfallsins úr vatninu. Þar lá gamla þjóðleiðin frá Strönd yfir ósana og áfram áleiðis að Herdísarvík. Jörðin þar fór í eyði árið 1957 eftir að Hlín flutti burt 17 árum eftir andlát Einars Benediktssonar.

Gengið var að enda Fornagarðs (Strandargarðs) neðan við túnið á Vogsósum og honum fylgt áleiðis upp túnið. Vogsósar var stórbýli og prestsetur á fyrri tíð. Þar bjó galdrapresturinn Eiríkur Magnússon á ofanverðri sautjándu öld og fram á þá átjándu. Margar sögur eru til af Eiríki og göldrum hans. Aldrei notaði hann galdur sinn til ills en gerði mönnum glettur og aðallega ef á hann var leitað að fyrra bragði.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1840 segir að Vogsósaland sé “allt að framan gjörspillt af sandágangi, verr en Austurvogurinn, því að sönnu fýkur hann af austur- og landnyrðingsáttum eins á þetta land og Austurvoginn. En þar að auki líka því meir af útnorðri og til með af vestri, sem það er nær Víðasandi. Þegar ósinn er undir ís, fær túnið á Vogsósum óbætanleg áföll af sandi í vestanstormum, t.d. næstliðinn vetur.”
Árið 1847 voru Strönd og Vindás komnar í eyði og eru taldar með Vogsósum sem eru beneficium og liggja Hlíð og Stakkavík og 3 ½ hdr í Þorkelsgerði undir kirkjuna. “Prestsetrinu fylgja 2 ásauðar kúgildi og 1 veiði- og heyflutníngsbátur. Tún er lítið mjög og hætt við sandfoki, og utantúns slægjum eins, en landkostir eru góðir og útibeit góð. Jarðarhlynnindi eru hér að auki talin, þó mínkandi fari; sela- og silúngsveiði og sölvatak, sem líka gengur af sér, einkum af sandfoki, en höfuðkosturinn er trjáreki. Selvogs kirkja á ítak í Krýsuvíkur fuglbergi.

Vogsósar

Vogsósar – kirkjugatan að Strönd.

Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa og umlukið þar bæ er nefndur er Vogshús, enda er hann nefndur svo í fornbréfum. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra.”
Þess má geta að suðaustan við túnið á Vogsósum eru óþekktar rústir, fast austan við Fornagarð.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Frá Vogsósum er ágætt útsýni upp að Svörtubjörgum. Á þeim er Eiríksvarðan. En “þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svco langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er svo hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon … dó 1716 … og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.”
Margar sögur eru til af Eiríki, presti á Vogsósum. Eftir að Eiríkur var orðinn prestur í Selvogi komst það orð á að hann væri göldróttur. Kallaði þá Skálholtsbiskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann að gera grein fyrir því hvort hann kynni eitthvað úr þeirri bók. Eiríkur fletti upp bókinni og sagði; “Hér þekki ég ekki einn staf”! Og sór fyrir það. Síðar sagði hann að þetta þýddi ekki að hann þekkti engan staf í bókinni heldur að hann þekkti alla stafi bókarinnar nema einn.

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarðs er getið í heimildum. Segir m.a. að “Vogósatúngarður var girtur aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: „Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…“ (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér.“
Stefnan var tekin suður yfir heimatúnið, að Kirkjugötunni, sem liggur yfir að Strönd. “Kirkjugatan lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogósum og áfram suður að Strandarkirkju.“ Hún sést enn vel þar sem hún liggur um sandinn, enda ávallt mikið farin þangað til fyrir tiltölulega stuttu síðan.

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd í Selvogi – einnig nefndur „Staður“.

Selvogur er vestasta byggð í Árnessýslu og var lengst af fremur afskekkt og einangrað byggðarlag. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og vegamál hafa verið í ólestri fram undir þetta. Á fyrri tíð voru í Selvogi margar jarðir og víða stórbúskapur og gjöful fiskimið undan landi. Síðast var gert út á vetrarvertíð úr Selvogi árið 1950 og eftir það hafa bændur lifað eingöngu af landbúnaði og einkum sauðfjárbúskap því mjólk var ekki sótt á bæi í Selvogi til að flytja í mjólkurbú. Í byrjun tuttugustu aldar eru um 20 býli í Selvogi en nú mun búskapur lítill í sveitinni.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sagan segir frá sjómönnum sem fyrir langa löngu villtust í hafi og hétu því að byggja kirkju þar sem að þeir kæmu að landi ef þeir lifðu af. Eftir áheitið leiddi engill þá heila á húfi að landi í Engilsvík og þeir byggðu kirkju að Strönd. Kirkjan sem nú stendur að Strönd var reist seint á nítjándu öld og endurbyggð árið 1967. Í henni er gömul altaristafla frá 1865 og kaleikur kirkjunnar er merkilegur en hann er forn gefinn kirkjunni af Ívari Hólm lögmanni og hirðstjóra sem sat á Strönd en einnig á Bessastöðum. Kaleikur þessi er eini gullkaleikurinn sem til er hér á landi og því mikil gersemi. Síðasti prestur sem bjó í Selvogi var séra Eggert Stefánsson merkur maður en hann þjónaði Strandarkirkju á árunum 1884 til æviloka 1908. Þá var prestakallið lagt niður sem sérstakt prestakall.

Vogsós

Vogsósaborgir.

Helgi og átrúnaður á Strandarkirkju virðist hafa komið upp mjög snemma eins og sagan af áheiti skipshafnarinnar sýnir og væntanlega fylgt henni alla tíð. Öldum saman hefur verið heitið á kirkjuna í lífsnauð og hvers kyns öðrum erfiðleikum. T.d. munu norskir sjómenn snemma hafa heitið á kirkjuna og eignaðist hún skógarhögg í Noregi. Í gegnum aldirnar hefur kirkjunni því safnast mikill auður, bæði dýrmætir gripir og peningar. Hluta af því hefur verið varið til endurbóta á kirkjunum en einnig hefur þetta fé verið lánað til kirkjubygginga víða um land.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðn uppdrátt af Selvogi.

Stórbýli var á Strönd og á staðurinn sér mikla sögu frá fornu fari þótt þar sé ekki lengur búið og vafalítið eitt af elstu býlum sveitarinnar. Fram yfir aldamótin sextán hundruð voru 7 eða 8 býli á Strönd en hverfa úr byggð á 17. öld og árið 1696 fer höfuðbólið sjálft í eyði. Því olli uppblástur og sandfok sem gerði jörðina óbyggilega, sem fyrr sagði.
Eftir að Strönd fór í eyði var um það rætt að flytja kirkjuna en fólkið var á móti því þar sem það taldi hættu á að við það glataði kirkjan mætti sínum og helgi. Hún stendur því enn á sama stað og í upphafi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn
-http://www.utivist.is

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um „Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

„Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.“

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog„.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni „Vanhugsað fálm„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar“, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg“ — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa“ á grundvelli misskilnings og „rannsóknar“, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels“, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður“ eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.“ – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, „Vanhugsað fálm“, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Embla

Í Emblu, 1. tbl. 01.01.1946, er „Ferðasaga Sigrúnar Gísladóttur frá Reykjavík í Selvog„:

Emla„Þegar ég var telpa austur á Eyrarbakka, heyrði ég oft sjómenn tala um, að þeir ætluðu áð skreppa út í Vog, það er Selvog, rétt eins og við börnin skruppum milli liúsa. Hafði ég því á tilfinningunni, að þetta væri afar auðvelt.
Svo fluttist ég til Reykjavíkur, og árin liðu, en aldrei komst ég í Selvoginn. Áætlun var gerð þangað á ári hverju, því að í Voginn vildi ég komast, þar sem hann var nú líka eina sveitin á Suðurlandi, sem ég hafði ekki komið í. Mig langaði líka að sjá Strandarkirkju, þetta Htla, einfalda guðshús, sem á orðið fúlgur fjár fyrir trú manna á kraft þess, og Vogsósa, þar sem séra Eiríkur hinn fjölkunnugi sat.
Því var það í júní 1940, að ég fekk tvær stallsystur mínar til að skreppa með mér austur í Vog. Við fórum úr Reykjavík um hádegi á laugardag með bíl að Kleifarvatni, gengum upp Lönguhlíð og tókum stefnu þaðan á Herdísarvík. En hvernig er annars Langahlíð, þegar upp er komið, fjallið, sem dregið er með langri, beinni línu og sker sig því svo sterklega úr öðrum fjöllum Reykjaness, sem öll eru eintómar strýtur og hnúkar með skörðum á milli, séð úr Reykjavík? Það var nógu gaman að kynnast því.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í norðanverðum Lönguhlíðum.

Þegar brúninni, sem við sjáum úr Reykjavík, sleppir, taka við mosaþembur, síðan talsverður gróður og víða yndisfagrir valllendisbollar með háfjallablómgresi. Fórum við því ekki óðslega að neinu. Veður var hið bezta, logn og sólskin. En nú fundum við, að þetta fjall er ekki einstakt í sjón, heldur líka í raun. Gróðurinn fer minnkandi, og nú tekur við hraun og aftur hraun, sem virðist alveg ógengt; svo stórgert er það.

Lönguhlíðar

Lönguhlíðar – Kerlingagil.

Eitt einkennir þennan stað sem fjall, að þaðan sér aðeins upp í himininn, og er því ekki hægt að átta sig á nokkrum hlut nema eftir korti og áttavita eða klukkunni og sólinni. Sjóndeildarhringurinn er ekkert nema hraun og þústir, hver annarri líkar. Frá norðurbrún, sem heitir Langahlíð, lækkar landið til austurs og hækkar svo aftur, svo að það er eins og maður sé niðri í skál. Við gengum upp á hæstu hraunstrýtuna og lituðumst um. Sáum við þá, að hraunið er lægst í miðju. Tókum við nú stóran krók á hala okkar til að leita að útgöngudyrum úr þessu völundarhúsi.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu við Litla-Kóngsfell.

Þegar við komum að þessari lægð, reyndist hún vera helluhraun, sem liggur, má segja, þvert yfir þessar ógöngur. Fréttum við síðar í Selvogi, að það er eina leiðin, sem fær er, þarna yfir. Þarna sáum við meira að segja slóða á hellunum á stöku stað eftir hesta, en þær eru nokkuð víða, þessar steinlögðu götur á Reykjanesfjallgarði. Þegar við komum að suðurbrún þessarar miklu hraunskálar, sáum við út á sjóinn, en fram undan hallar landinu, sem er hraunstraumur mikill, til suðurs. Er hraun það illt yfirferðar, — betra að vera vel skóaður í slíku gangfæri. Í þessum hraunstraumi sáum við einhvers konar dauf strik, sem reyndust vera gata. Var mikil hvíld að fylgja henni. Þessi gata, sem þarna liggur yfir hraunið, er sú elzta, sem við höfum séð á ferðum okkar.
EmblaÞessir gömlu götuslóðar tala sínu hljóða máli. Svipir horfinna kynslóða birtast og líða fram hjá. Sagan tekur á sig undarlega skýrar myndir. — Þarna hillir undir langa lest, langt niður frá. Þar er einhver stórbóndinn að fara með ullina, sem er þétt troðið í mislita hærupoka. — Niður hraunið að vestan kemur önnur. Á henni eru skreiðarbaggar svo stórir, að þá ber við loft. Eitthvað á nú að borða af þorskhausum á þessum bæ. — Þarna glittir í gyllta hnappa og skrautbúin reiðtygi. Danska valdið er að fara með fátækan bónda suður að Bessastöðum. Það á að dæma hann til fangelsisvistar á Brimarhólmi, af því að hann stal gamalli rollu til að seðja hungur barna sinna. — Sitthvað segja þessi gömlu spor. — Þarna kemur fólk á stangli — fótgangandi, hörmulega útleikið, með sár á fótum, þrútin augu og svartar tanngeiflur. Gömul kona er að þrotum komin; hún sezt við götuna og stynur mjög. — Þetta fólk er að koma frá eldunum, — Skaftáreldunum. Svona verka gömul spor kynslóðanna á vegfarandann, sem rekur þau.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Nú vorum við komnar niður á Selvogsheiði og höfðum gras undir fótum. Var þá ekki beðið boðanna að tylla sér og taka upp malinn. — Nú gerðust fæturnir viljugir, og var nú gengið rösklega. Ekki sáum við samt Selvog. Þarna eru götur, krossgötur. Við völdum þá, sem stefnir á Herdísarvík, fylgdum henni, þangað til hún hvarf í stórgerðan móa. Allt í einu stóðum við fram á svimhárri brún. Fyrir neðan okkur lá sjórinn og strandlengjan. Við sáum niður í Herdísarvík og bæinn, þar sem stórskáldið okkar, Einar Benediktsson, kvaddi þetta líf. Selvogur blasti við með hinu stóra, fallega Hlíðarvatni. Svo langt, sem augað eygði til hægri og vinstri, sáum við svartar hamrabrúnir. Hvernig áttum við, vængjalausar, að komast þarna niður?

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð.

Við komum auga á þráðbeint strik, sem náði milli fjalls og fjöru. Það gat hvorki verið gjá né gata; það hlaut að vera girðing, sem lögð var alla leið upp á fjallsbrún, annars gagnslaus sem vörn fyrir fé. Ákveðið var að reyna þar niðurgöngu, sem reyndist líka sú eina þar um slóðir. Þar hefur vatn brotið skarð í fjallið og myndað skriðu endur fyrir löngu. Er þar einstigi niður. Þar sem nú var orðið kvöldsett og áætlað var að komast að Nesi um kvöldið, gátum við ekki komið að Herdísarvík án þess að taka á okkur stóran krók, þar sem girðingin liggur langt fyrir austan víkina. Var því haldið áfram. Nú voru greiðar götur til bæja. Þarna er fallegur gróður, blóm og birki, móti sólu, í skjóli fjallsins, mikil hvíld fyrir augað frá hraununum, sem við höfðum gengið allan daginn.
Stakkavík er vestasti bær í Selvogi. Komum við þar og fengum mjólk. Var fóikið þar hlýlegt og gott. Hlíðarvatn liggur alveg að Stakkavík að vestan, og var nú freistandi að fá bát yfir vatnið, sem sparaði okkur 2—3 klst. göngu. Bóndinn átti trillubát, sem synir hans voru að tjarga þá um morguninn. Var hann því ekki vel þurr að innan, en velkominn okkur, ef við vildum þiggja hann í slíku ástandi, sem við og gerðum. En botnóttar urðum við býsna vel.

Vogsósar

Vogsósar.

Þá vorum við komnar að Vogsósum. Þar er ljómandi fallegt, — valllendisflatir, þegar túninu sleppir. Vatnið framan við bæinn rennur þar til sjávar gegnum ósinn, sem bærinn dregur nafn af.
Nú var miðnætti. Engin hreyfing sást á bænum. Sjálfsagt allir menn í fasta svefni. Svartbakur, ritur og kríur mynduðu hvítar breiður niðri á fjörunum. Endur syntu letilega með unga sína á vatninu, sem var purpuralitað frá endurskini sólarlagsins.

Vogsósar

Vogsósar.

Við gengum niður að sjónum. Það var fjara. Skerin, vafin sjávargróðri, náðu langt út í sjó og mynduðu spegilslétt lón á milli sín. Þar var æðarfuglinn og ú-aði hálfólundarlega yfir þessu ónæði svona um hánóttina. Þá dró það ekki úr fegurðinni, að máninn, sem var kominn nokkuð hátt á loft, speglaðist í lónunum. Allt var kyrrt. Náttúran tók á sig náðir. Í svona andrúmslofti gleymist stund og staður. Maður samlagast náttúrunni, leggst endilangur á sjávarbakkann og teygar að sér ilminn úr jörðinni og seltuna frá sjónum, nýtur þess að vera til. Við gengum í rólegheitum gegnum byggðina.

Selvogur

Selvogur – kvöld við Engilvík.

Að Nesi, sem er austasti bærinn, komum við á fimmta tímanum. Þar hugðumst við að fá leigða hesta hjá Guðmundi bónda upp að Hveragerði.
Urðum við nú að vekja upp, því að við þörfnuðumst hvíldar. Var okkur mjög vel tekið. Sofnuðum við fljótt og sváfum til kl. 9 um morguninn. Fórum við þá að fala hestana af Guðmundi, en það var ekki auðsótt mál, enda ástæða til. Þannig var ástatt, að sauðburður stóð yfir og því nýafstaðnar miklar smalamennskur, enda dreifðu ærnar sér um tún og hága með lömbin sín. Líka barst að mikill rekaviður vegna stríðsins, liestar því notaðir til liins ýtrasta við störfin. Samt var nú svo komið, að Guðmundur ætlaði að reiða okkur upp að Hrauni í Ölfusi.

Nes

Nes í Selvogi.

Á hlaðinu í Nesi voru kynstrin öll af rekaviði, sem staflað var upp í laupa. Hafði Guðmundur selt það allt til mæðiveikinefndar. Átti að senda bát eftir timbrinu í apríl-maí, en enginn hafði komið ennþá. Með þeim bát átti fólkið að fá nauðsynjar sínar úr kaupstaðnum. Var því víða orðið svo þröngt í búi, að til vandræða horfði. Skorti fólk marga hluti.

Nes

Nes árið 2000.

Húsmóðirin í Nesi átti eitthvað eftir af hrísgrjónum, svo að hún gat gefið okkur mjólkurgraut, svo og kjöt og slátur. Kaffikorn átti hún líka. Garðamatur var að þrotum kominn, því að það varð að ganga á hann, þegar mjölmatinn vantaði.
Fórum við stallsystur nú að skoða okkur um í Voginum, heimsóttum við einu manneskjuna, sem við þekktum þar, Margréti að nafni. Þótti henni hart að geta ekki gefið okkur kaffi, því að það var þrotið, og ekki þýddi að leita á náðir nágrannanna, því að alls staðar var sama sagan. Margrét var að elda sér kjötsúpu úr síðasta útákastinu, sem hún átti, og, sem meira var, síðasta kjötbitanum, svo að hún sagðist bara ekkert hafa að borða, þangað til báturinn kæmi með vörurnar. Ekki var að tala um að komast á sjóinn. Einn bátur sjófær, en engir menn til að róa, því að allur tíminn fór í að bjarga lömbunum.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Margrét fór með okkur út að Strandarkirkju og sýndi okkur hana. Er það ein snotrasta kirkja, sem ég hef komið í, mjög snyrtileg og vel við haldið. Einhver sérstök „stemning“ er í þessari kirkju. Ef til vill er það ímyndun vegna þjóðsögunnar um hana, og hversu vel hún verður við áheitum. Mikill og sterkur garður er nú hlaðinn henni til varnar, og virðist þess ekki vanþörf, því að satt að segja er það furðulegt, að hún skuli ekki fyrir löngu vera komin í sjóinn, svo nærri honum sem hún stendur.

Selvogur

Fornigarður í Selvogi.

Þessi varnargarður hefur líka varið landið frá eyðileggingu foksandsins, sem teygði sig inn eftir landinu og át upp gróðurinn, svo að þar, sem fyrir nokkrum árum sá ekki stingandi strá, eru nú gróðursælar valllendisflatir. Þegar við komum aftur heim að Nesi, færði Guðmundur okkur þau tíðindi, að hins langþráða báts væri nú loksins von upp úr hádegi þann sama dag. Var því alveg sjálfsagt að nota ferðina til Stokkseyrar, en þaðan var báturinn. Bæði var það fljótara og svo komumst við hjá því að níðast á veslings lúnu klárunum.
Eftir burtfarartíma bátsins frá Stokkseyri að dæma reiknaðist þeim í Selvogi svo til, að hann gæti farið þaðan um sex leytið e. h. þann dag. Með því móti átti okkur að heppnast að ná í síðustu áætlunarferð til Reykjavíkur.

Stokkseyri

Frá Stokkseyri.

Teitur Eyjólfsson, forstjóri Vinnuhælisins að Litla-Hrauni, hafði veg og vanda af þessari bátsferð. Þurftum við því að leita til hans með flutning á okkur. Teitur sló á glens, þegar við bárum upp bónorðið, sagðist hreínt ekki vita, hvernig það færi, þar sem við værum þrjár ungar stúlkur. Skipshöfnin væri nefnilega þrír ungir piltar. Formaðurinn væri reyndar talinn einn sá öruggasti á Stokkseyri, Ingimundur á Strönd. Hann sagðist ekki vita, nema þeir slepptu allri stjórn á bátnum og keyrðu í strand, ef þeir hefðu slíkan ágætis farm um borð! Ég hugsaði í símann: Það sér á, að síminn er ekki sjónvarp!

Stokkseyri

Frá Stokkseyri.

Tafir urðu svo miklar við útskipun í Voginum, að klukkan var orðin 2 um nóttina, þegar lagt var af stað þaðan. Við stúlkurnar áttum auðvitað „kojuvakt“. Við héldum eldinum við í „kabyssunni“, fengum okkur kaffi, sem var þar á könnunni, og létum fara vel um okkur.
Nú vorum við komin upp undir Stokkseyri. Var þá ekki orðið það hátt í, að við gætum flotið inn fyrir. Urðum við því að doka við. Settist þá öll „skipshöfnin“ að kaffidrykkju niðri í „lúkar“.
Var þar glatt á hjalla. Allt í einu tekur báturinn snarpan kipp. — Jú, við dinglum þar uppi á skeri. — Báturinn er kominn í strand! Það er yfirleitt ekki hlátursefni, þegar skip stranda á þessum slóð um, en í þetta sinn vakti það óskiptan hlátur skipshafnar og farþega vegna spár Teits forstjóra. Flóðið losaði um bátinn með hjálp vélarinnar, og allir björguðust vel í land. Til Reykjavíkur komumst við um hádegi á mánudag.“

Heimild:
-Embla, 1. tbl. 01.01.1946, Ferðasaga, Sigrún Gísladóttir, bls. 83-89.
Embla

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi er merkileg fornleif. Ýmsar ályktanir hafa verið dregnar um aldur mannvirkisins, sem lá frá Vogsósum við Hlíðarvatn að Nesi austast í Selvogi.
Bjarni F. Einarsson gerði rannsókn á Fornagarði sumarið 2003 og skrifaði skýrslu: „Fornleifar nr. 22 í Ölfusi, Árnessýslu. Skýrsla um fornleifarannsókn sumarið 2003„.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

„Að beiðni Vegagerðarinnar tók Fornleifafræðistofan að sér að grafa snið í gegnum hinn svokallaða Fornagarð sem liggur í landi Vogsósa og Strandar í Ölfushreppi í Árnessýslu.
Fornigarður liggur frá Hlíðarvatni, rétt norður af bæjarstæði Vogsósa og til suðurs í átt að Strandarkirkju. Yfirleitt er talið að hann hafi síðan legið til austurs utan um byggðina í Selvoginum. Ekki er víst að hann hafi upphaflega legið svo, heldur sveigt til vesturs eða suðvesturs skammt norðan við Strandarkirkju.
Hinn fyrirhugaði Suðurstrandarvegur mun óhjákvæmilega rjúfa Fornagarð. Garðsins er trúlega getið miðaldaheimildum og því merkilegur. Árið 1927 voru allar „Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar“ friðlýstar í landi Vogsósa og Vindáss“.
FornigarðurTil að vegaframkvæmdir gætu gengið eftir var talið nauðsynlegt að rannsaka stuttan kafla á Fornagarði þar sem hinn fyrirhugaði vegur mun fara í gegn um hann. Markmiðið með þessari rannsókn var að reyna að grafast fyrir um aldur garðsins og að kanna byggingu hans frekar en hægt var að sjá af þeim hluta hans sem reis upp úr sandinum.
Almennt er talið að Fornagarðs sé fyrst getið í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. Þar segir m.a.: Sex vætter æ huertt land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida med slijku sem rekur: (Ísl. fornbréfasafn 1893:124).
Garðsins er ekki getið aftur fyrr en í bréfi séra Jóns Vestmanns [1769 – 1859] til hinnar konunglegu dönsku nefndar til varðveislu fornminja í Danmörku. Er bréfið ritað þann 25. júní 1818.
FornigarðurÍ lýsingu Jóns segir svo um garðinn: Máské mætti telia Meniar-Fornaldar; Sýnishorn af þeim stóra Vórdslu Gardi, úr Hlídar-Vatni, alt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa Vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar/ sem óll skyldu þá hafa samfóst verid/ med læstu Hlídi ad Lógbýli hvóriu; – Eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og Austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd í Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Mann (Frásögur um fornaldarleifar 1983:228).

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.
Hér má m.a sjá Fornagarð umlykja neðanverða byggðina austan Strandar.

Næst er garðsins getið í Sýslu- og sóknarlýsingum árið 1840 og enn er það séra Jón Vestmann sem heldur á pennanum. Hljóðar lýsing hans svo: „Engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalla, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hvörju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þess vegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis. Þar um er þessi vísa:

Fegurðin um fram annað
einna var þó mest,
vart mun verða sannað,
víða hafi sést
öll vera tún í einum reit,
garði varin miklum mjög
um meiri part af sveit“. (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:226-27).

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ. Hér má sjá upphaf Fornagarðs við Vogsósa. Gamlahlið var á Fornugötu, neðst t.h.

Í Örnefnaskrá Vogsósa, sem var tekin saman á sjöunda áratug síðustu aldar, virðist nafnið Fornigarður fyrst koma fram svo að vitað sé (Örnefnaskrá Vogsósa). Kannski festist nafnið á garðinn þegar menn uppgötvuðu að hugsanlega hafi verið átt við þennan garð í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. Áður virðast menn hafa kennt hann við Erlend Þorvarðsson lögmann á 16. öld eins og fram kemur hér að ofan. Margt mun vera kennt við þann mann og sumt þjóðsagnakennt. Sagt er í Örnefnaskrá að á garðinum sé hlið sem Gamlahlið heitir. Hafi það verið eitt af hliðum Fornagarðs að lögbýlunum sbr. lýsingar séra Jóns Vestmanns hér að ofan. Hlið þetta er líklega nokkuð langt norðan við hinn kannaða hluta garðsins og langt fyrir utan áhrifasvæði Suðurstrandarvegar. Það var ekki kannað hvort hlið þetta væri enn sýnilegt.
Vegna vinnu við umhverfismat Suðurstrandarvegar var vegastæðið kannað með tilliti til fornleifa. Fyrsta könnun átt sér stað þann 11. september 2000. Garðinum er lýst svohljóðandi í Fornleifaskrá (Fornleifaskrá Íslands): „Garðurinn var aðallega skoðaður þar sem hann er í hættu vegna vegagerðarinnar. Hann virðist þó nær samfelldur, nema við sinn hvoran endann þar sem hann hefur máðst svolítið“. 13/6 2001

Fornigarður

Fornigarður – aðrir minni garðar greinast út frá megingarðinum.

Við vettvangsathugun þann 12/6 voru enn fleiri garðar skoðaðir á svæðinu og þeir teiknaðir inn á loftmynd hjá Vegagerðinni. Garðarnir virðast fyrst og fremst liggja við S – hluta þess svæðis sem Fornigarður afmarkar en þó norður af Víghól. Allir eru þeir mjög svipaðir og sumir mjög orpnir sandi.
Breidd þeirra er meiri en gefin er upp í lýsingu hér að ofan, eða 3 – 4 m (sandur) og hæðin getur verið rúmur einn metri (Fornleifaskrá).
Fornigarður, og allar aðrar fornleifar í landi Vogsósa, Strandar og Vindáss, voru friðlýstar árið 1927 (Fornleifaskrá 1990:78).

Fornigarður

Fornigarður ofan Ness.

Landið sem Fornigarður liggur um er að mestu leyti örblásið, sandorpið og lítt gróið land. Víða sér í bera hraunhelluna. Í kring um Vogsósa og Strandarkirkju eru þó grónir blettir og lúpínu hefur verið sáð innan landgræðslugirðingar sem þarna er. Ekki virðast nein rofabörð vera eftir sem sýnt gætu fyrra yfirborð eða hve mikið land hefur blásið burt á svæðinu. Slíkt má þó sjá nokkuð austar, eða austan við malarveginn að hverfinu í Selvoginum.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Sandurinn sem þarna liggur kemur trúlega aðallega frá ósum Ölfusár, enda má rekja þetta sandorpna og blásna land alla leið þangað. Þessi sandblástur hefur sennilega snemma orðið að vandamáli fyrir bændur í Vogsósum og byggðinni þar hjá…

Nokkrir garðar af ýmsum gerðum hafa verið rannsakaðir hér á landi. Túngarðar, sem finna mátti við nær hvert býli áður fyrr, enda tekið fram í Jónsbók að „hver maður skal löggarð gera um töðuvöll sinn“ (Sigurður Þórarinsson 1982:5), eru sennilega algengastir garða og allmargir þeirra hafa verið rannsakaðir.
Í hinum fornu lögum Grágás og Jónsbók er t.d. að finna ákvæði um breidd og hæð löggarða og hvenær vinna við þá skyldi fara fram. Skyldu þeir vera fimm fet á þykkt niður við rót en þrjú fet efst. Hæð þeirra skyldi taka í öxl. Yfirfært í metra gerir þetta 1,25 – 1,50 m að neðan og 0,75 – 0,90 að ofan og ca. 1,5 – 1,6 m á hæð (Kristmundur Bjarnason 1979:34). Breidd Fornagarðs uppfyllir ekki þessi ákvæði hinna fornu laga. Hins vegar fer hann mjókkandi eftir því sem ofar dregur í samræmi við lögin fornu.

Fornigarður

Fornigarður í Sevogi.

Árið 1776 kom þúfnatilskipunin svokallaða (Sami 1978). Í henni var kveðið á um að girða skyldi öll tún torf- eða grjótgarði, verði því við komið. Hver bóndi átti að hlaða árlega sex faðma í grjótgarði eða átta í torfgarði, fyrir sig sjálfan og hvern verkfærann mann á bænum. Garðarnir áttu að vera tvær álnir (0,98 – 1,14 m) á hæð og tvær og hálf alin (1,23 – 1,43 m) á breidd eða þykkt að neðanverðu, að minnsta kosti. Fornigarður uppfyllir ekki heldur þessi ákvæði hvað breiddina varðar.

Tilgáta um Fornagarð
Þegar loftmynd er skoðuð af svæðinu kemur vel í ljós hvernig Fornigarður skiptir sér skammt NNV af Strandarkirkju. Sá hluti hans sem liggur til SA, í átt að byggðinni í Selvogi, er greinilega miklu veigaminni og sennilega yngri en aðalgarðurinn. Það er tilgáta mín að hinn eiginlegi Fornigarður, eða hvað hann gat hafa heitið í upphafi, hafi legið í boga frá Hlíðarvatni að ströndinni og sá hluti sem beygir til SV þar sem garðurinn skiptir sér, sé hluti af þessum upprunalega garði.

Selvogur

Sveinagerði í Selvogi – fast við Fornagarð.

Sagnir um að Fornigarður hafi legið utan um alla byggðina í Selvogi eru mögulega ungar og til komnar löngu eftir að upprunalegi garðurinn var gleymdur og Vogsósar fluttir á núverandi stað. Í fyrsta lagi er bogadreginn garðurinn líkur þeim túngörðum sem við þekkjum frá fyrstu öldum byggðar í landinu. Þannig voru túngarðarnir utan um landnámsbýlin, ef þeir voru til staðar yfirleitt. Síðar breyttust þeir í lögun og færðust gjarnan nær býlunum.
Munnmæli herma, eins og fram kom hér að framan, að upphaflega hafi Vogsósar staðið þar sem nú heitir Baðstofuhella austan við ósa Óssins. Ef rétt er, getur Fornigarður vel hafa verið byggður utan um hinn upprunalega túngarð Vogsósa (sem var hugsanlega úr torfi og því algerlega horfinn). Garðurinn er þó nokkuð langt frá og umfangsmikill miðað við þá túngarða sem við þekkjum í dag.

Fornigarður

Baðstofuhella – fyrrum bæjarstæði Vogsósa?

Ef við hins vegar gefum okkur að garðurinn hafi verið sandvarnargarður utan um gömlu tún Vogsósa, getur þetta komið heim og saman. Túnin lifðu bæinn og geta hafa verið nýtt löngu eftir að hann hafði veri fluttur. Það má ímynda sér að þegar sandáblástur var orðinn að vandamáli, líklega einhvern tímann upp úr 1100 AD skv. sniði, hafi túngarðurinn verið færður frá bæjarstæðinu svo hann mætti þjóna bæði sem túngarður og sandvarnargarður.

Vogsósar

Vogsós – herforingjakort 1903.

Eftir að Vogsósar höfðu verið fluttir, ef svo var, missti garðurinn upphaflegt hlutverk sitt og prjónað var við hann á kafla og hann tengdur þeim túngörðum sem voru utanum byggðina í Selvogi svo verja mætti bæði hana og gömlu túnin í kringum Baðstofuhelluna ágangi sandsins.

Það var þó ekki sandurinn sem herjaði verst á svæðið við Baðstofuhelluna, það var sjórinn.

Vogsósar

Vogsósar – tóft ofan Baðstofuhellu.

Þar er nú aðeins ber klöppin eftir og engin ummerki um að þar hafi staðið fornbýli. Landbrotið er gríðarlegt á þessum stað og erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig það hefur litið út við upphaf byggðar í landinu. Vitað er að allmargar eyjar hafi fyrrum verið í Ósnum, en eru nú flestar horfnar; geta þó kunnugir bent á, hvar þær hafa verið. Nöfn eyjanna voru Sandey, Grjótey, Húsey, Hrútey og Fagurey (Örnefnaskrá Vogsósa). Brýtur þar land enn.

Niðurstaða Bjarna

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir 1104 AD. Um það leyti verður sandfok all áberandi á svæðinu og hlýtur það að hafa skapað ákveðin vandamál fyrir bændur þar. Til að verja tún frá þessum vágesti hefur mikill garður verið hlaðinn utan um tún Vogsósa þar sem hann stóð fyrst, eða þar sem nú heitir Baðstofuhella.
Nafnið Fornigarður er ekki ýkja gamalt og alls óvíst hvort garðurinn hafi haft nokkurt nafn í byrjun. Smám saman missir garðurinn þýðingu sína, kannski vegna þess að menn gáfust upp á vonlausri baráttunni við sandinn. Þó hefur honum verið haldið við með miklu minni tilkostnaði en áður. Grjóti hefur verið hrúgað upp eftir þörfum, en ekki vandað mikið til verksins enda ekki þörf á því.

Fornigarður

Fornigarður sunnan Vogsósa.

Rannsóknin leiddi í ljós að garðurinn er að mestu leyti heill þar sem hann var skoðaður undir sandinum, þó eitthvað kunni að vanta upp á efsta hluta hans. Þannig má ganga út frá því sem vísu að garðurinn sé jafn vel á sig kominn annarsstaðar þar sem eins háttar til og á rannsóknarstaðnum, með nokkrum undantekningum. Suðurhluti hans er trúlega mest laskaður og hugsanlega mætti rekja garðinn eitthvað lengra í átt að sjónum.“

Bryndís G. Róbertsdóttir rannsakaði og skrifaði skýrslu um „Aldur Fornagarðs í landi Strandar og Vogsósa í Selvogi út frá gjóskulögum“ árið 2004:

„Að beiðni Fornleifafræðistofunnar, fyrir hönd Vegagerðarinnar, tók höfundur að sér að aldursgreina Fornagarð í Selvogi út frá þekktum gjóskulögum.
Ekki hafa farið fram kerfisbundnar rannsóknir á gjóskulögum í Selvogi eða nágrenni.

Bryndís G. Róbertsdóttir

Bryndís G. Róbertsdóttir.

Í þessari greinargerð verður því að raða saman bútum úr rannsóknum margra jarðfræðinga til að átta sig á hvaða gjóskulög er líklegt að finna í Selvogi.
Gjóskulög sem vænta má að finnist í Selvogi eiga flest upptök sín á eystra gosbeltinu og hefur eldstöðin Katla í Mýrdalsjökli verið þar virkust. Einnig má búast við gjósku úr eldgosum sem orðið hafa í sjó skammt undan Reykjanesi, en eldstöðvarnar eru á vestasta hluta Reykjanes-Langjökuls gosbeltisins.
Gjóskurannsóknir á eystra gosbeltinu eiga sér langa sögu, eða allt frá því Sigurður Þórarinsson hóf gjóskurannsóknir hér á landi á fjórða áratug síðustu aldar. Rannsóknir hans beindust í upphafi að gjósku úr Heklu.

Fornigarður

Fornigarður – snið.

Höfundur byrjaði á því að skoða þversnið sem búið var að grafa í gegnum garðinn. Þar sem illa gekk að finna gjóskulög í sniðinu, fór höfundur að leita að betra sniði. Í botni skurðarins sem grafinn var í gegnum Fornagarð hafi orðið eftir stór hraunhella, sem var neðst úr garðinum og óhreyfð. Höfundur gróf niður með henni að vestanverðu og kom þar niður í fok og undir því góðan jarðveg, þar sem fundust mörg og vel varðveitt gjóskulög. Þó að rannsóknin snerist eingöngu um gjóskulög frá sögulegum tíma, ákvað höfundur að mæla allt sniðið.

Fornigarður

Fornigarður – snið.

Botn Fornagarðs er hraungrýti úr Selvogsheiðarhrauni. Fok er undir garðinum. Jón Jónsson (1978) sem ortlagt hefur öll hraun á Reykjanesskaga telur að hraunin undir Fornagarði séu komin frá dyngju sem kennd er við Selvogsheiði. Auk gígs efst á Selvogsheiðinni, eru 3 aðrir gígir á dyngjunni; Strandarhæð, Vörðufell og nafnlaus gígur suður af Svörtubjörgum. Við þunnsneiðaskoðun reyndist ekki unnt að greina mun á hraunum frá þessum fjórum gígum, svo litið er á þessi hraun sem sömu myndunina. Jón Jónsson (1978) telur að Selvogsheiðarhraunin séu væntanlega frá því snemma á nútíma, þegar sjávarstaða hafi verið lægri en nú. Það má sjá af því að yfirborði hraunanna hallar tiltölulega jafnt út í sjó, litlir sem engir sjávarhamrar eru með sjó fram og hvergi hefur fundist vottur af bólstrabergsmyndun meðfram ströndinni.

Niðurstaða Bryndísar

Fornigarður

Fornigarður – snið.

Frá neðri brún Fornagarðs og niður að gjóskulaginu Hekla 1104 eru 20,8 cm af foksandi, jarðvegsblönduðu foki og jarðvegi neðst.
-Fornigarður er örugglega mun yngri en gjóskulagið Hekla 1104. Jarðvegur á milli Heklu-1104 og foksins er 0,55 cm. Ef miðað er við sömu jarðvegsþykknun á ári og frá Landnámlaginu 870 að Heklu 1104, hefur jarðvegurinn myndast á 13 árum. Miðaldalagið, sem talið er myndað í eldgosi í sjó skammt undan Reykjanesi árið 1226, finnst ekki undir garðinum, né í sýni neðst úr foki.
-Uppblástur í nágrenni Fornagarðs hefur hafist fyrir 1226, hugsanlega um 1120. Erfitt, eða nánast ógjörningur, er að meta hve hratt fokefni hlaðast upp. Hér er sett fram einföld nálgun og gert ráð fyrir að upphleðsluhraði fokefna sé sá sami og jarðvegs. Árleg þykknun foks undir Fornagarði er sú sama og árleg jarðvegsþykknun frá Landnámslagi 870 að Heklu 1104.

Fornigarður

Fornigarður.

-Fornigarður er hlaðinn um 1595. Árleg þykknun foks frá Heklu 1104 og upp að núverandi yfirborði beggja vegna garðsins er sú sama.
-Fornigarður er hlaðinn á árabilinu 1405-1445. Ef að nálgunin hér að ofan er raunhæf, þá er Fornigarður hlaðinn á tímabilinu 1400-1600. Í frásögn frá 1818, sem skráð var af Jóni Vestmann, presti að Hlíð í Selvogi, er lýsing á stórum vörslugarði sem liggur frá Hlíðarvatni allt fram að Strönd. Garðinn eignar hann Erlendi Þorvarðssyni, lögmanni frá 1520-1554, sem bjó lengi á efri árum að Strönd í Selvogi og dó þar 1576 (Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823).

Fornigarður

Fornigarður – snið.

-Þessi frásögn um að Fornigarður hafi verið hlaðinn á 16. öld getur staðist miðað við þá nálgun sem höfundur hefur gert hér að ofan á þykknun foks undir og til hliðar við garðinn. Varpað er fram þeirri hugmynd að Fornigarður hafi til viðbótar við það að vera vörslugarður, einnig verið sandvarnargarður. Fokið gæti þá hafa átt uppruna sinn í fjörunni framan við Hlíðarvatn og við ósa útfalls Hlíðarvatns.“

Heimildir:
-Fornleifar nr. 22 í Ölfusi, Árnessýslu. Bjarni Einarsson 2004; Skýrsla um fornleifarannsókn sumarið 2003.
-Aldur Fornagarðs í landi Strandar og Vogsósa í Selvogi út frá gjóskulögum, Bryndís G. Róbertsdóttir, 2004.

Vogsósar

Vogsósar – hið forna bæjarstæði, fornigarður, Fornagata; loftmynd.

Þórarinn Snorrason

Þegar tekið er hús á Þórarni Snorrasyni (f. 8.8. 1931) er ógjarnan komið að tómum kofanum.
Vogsos-23FERLIR heimsótti hann á vormánuðum 2012 með það að markmiði að rissa upp minjar og örnefni í ræktuðum túnum Vogsósa (Vogsósa I og Vogsósa II) tók hann aðkomandi fagnandi eins og hans er jafnan von og vísa – og bauð í kaffi og meðlæti er hans hustra annaðist af alúð.
Spjallið snerist um tilefnið – að ganga um bæjartúnin, rifja upp örnefnin og sýnilegar minjar, teikna hvorutveggja á blað og setja fram með skiljanlegum hætti – til varðveislu til handa komandi kynslóðum.

Strönd

Strönd – upplýsingaskilti við Strönd í Selvogi.

Hafa ber í huga að þótt örnefnalýsingar séu til af Vogsósalandi eru þær þannig fram settar að erfitt er óvönum að átta sig á einstaka staðsetningum. Úr þessu þurfti að bæta um betur og þess vegna var FERLIR kominn á vettvang að þessu sinni. Reyndar hefur FERLIR og Þórarinn áður átt bæði góð og árangursrík samskipti, eins og t.d. má sjá á ýmsum lýsingum af nálægu umhverfi og ekki síst „Selvogs-uppdrættinum“, sem nú má líta augum framan við Strandarkirkju. Þórarinn  gjörþekkir þetta svæði og veit, líkt og aðrir, að sú vitneskja kemur til með að hverfa að honum gengnum. Enginn er jú eilífur…

Vogsos-24

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir að Þórarni hafði verið tilkynt um tilefni komunnar brást hann ljúfmannlega við, eins og hans er von og vísa. Vildi þó fá að drekka teið sitt í friði um sinn því hann var nýgenginn úr sparifötunum (sem lágu á stólbaki í stofunni) enda nánast að koma inn úr dyrunum eftir samsöng í messu með kirkjukórnum í Þorlákshöfn.
„Ég sá leifar af kind hér skammt upp í heiðinni í gær. Varstu að egna fyrir tófu, Þórarinn.“
„Nei, var hún hyrnd?“, spurði Þórarinn.
„Já, en það voru bara hauskúpan og hryggurinn eftir, auk ullarlagða á víð og dreif.“
„Það passar. Ég saknaði einnar hyrndar í haust. Þetta gæti vel hafa verið hún. Tófan hefur komist í hana. Ég náði 8 tófum frá skothúsinu mínu hér ofangarðs s.l. sumar. Það virðist vera nóg af henni.“
„Tók eftir greni þarna ofarlega í heiðinni í gær, merkt með vörðu og tveimur steinum ofan við opið.“
„Já, kannast við það. Var tófan í því?“
„Nei, það virtist yfirgefið.“
„Hefurðu komið upp að Hvalhnúk?“, spurði Þórarinn.
„Já, nokkrum sinnum, hvers vegna spyrðu?“
„Það er til gömul saga um nafngiftina – hefurðu heyrt hana?“.
„Nei, ekki svo ég muni.“
Vogsos-25„Það er nefndilega það. Sjáðu til“, sagði Þórarinn og fékk sér í nefið; „Þórir haustmyrkur byggði fyrstur manna Hlíð í Selvogi. Hann átti margt fjár, en saknaði jafnan margs þess að hausti.
Eitt sinn rak hval á fjörurnar. Þetta þótt hvalreki á þeim tíma. Þórir sótti í hvalinn, en tók eftir því að meira var horfið af honum en hann hafði tekið. Sá hann þá hvar tröllskessa var á leið upp Hlíðarskarð með byrgðar. Fylgdi hann tröllsskessunni eftir upp undir Hvalhnúk þar sem hann náði henni loksins. Bað hún hann þá griða því hún ætti nýfætt barn heima er þyrfti hennar við.
Vogsos-26Sá Þórir aumur á skessunni. Sagðist hann láta henni hvalketið eftir ef hún sæi til þess að ekki yrði um fjárrýrð á fjöllum. Samþykkti skessan það og fór sína leið, en talið hefur verið að bústaður hennar hafi verið í Stórkonugjá ofan fellsins.
Næsta haust bar svo við að Þórir saknaði einskis fjár af fjalli.
Sjáðu til, þessi saga hefur ekki verið skráð, en hún hefur verið almannarómur hér og útskýrir örnefnin þarna efra“, sagði Þórarinn og kímdi.

Fornigarður

Skýrsla um fornleifarannsókn sumarið 2003 – Aldur Fornagarðs í landi Strandar og Vogsósa í Selvogi; Bjarni F. Einarsson. 2004

„Það kom hingað maður fyrir nokkrum misserum“, hélt Þórarinn áfram. „Hann var fornleifafræðingur, eins og þú, og var að rannsaka fyrirhugað vegsstæði nýja vegarins (Suðurstrandarvegar). Þetta var skondinn karl, kom hingað og var afskaplega uppáþrengjandi. Ég var með honum í þrjá daga að skoða svæðið er vegurinn átti að liggja um, allt frá Þorlákshöfn að Krýsuvík. Enga borgun bauð hann mér þó fyrir vikið.“
„Gerði hann einhverjar rannsóknir?“
„Já“, sagði Þórarinn. Hann gróf þvert í gegnum Fornagarð, sagðist þurfa að skoða jarðlögin undir garðinum. Mér fannst gröfturinn svolítið skondinn. Hann kom með mann með sér og hann gróf stuttan tíma fyrir hádegi og stuttan tíma eftir hádegi með góðum hléum á millum. Það þættu ekki góð vinnubrögð hér í sveitinni.“
„Fékkstu einhverja niðurstöður úr rannsóknunum?“
„Nei, aldrei.“
Að þessu samtali loknu var gengið út. Þrátt fyrir að Þórarinn væri orðinn 81. árs var ekki að sjá að það háði honum á nokkurn hátt. Hann gekk rösklega yfir túnin, klofaði yfir girðingar og lýsti aðstæðum og örnefnum, líkt og sjá má á meðfylgjandi uppdrætti. Ljóst var á þessari göngu að þarna fór einn þeirra nútímamerkismanna er enn hafði bæði ágæt tengsl við landi sitt sem og menningu fortíðarinar frá örófi alda.

Vogsos-27

Vogsósar – Bænhúshóll.

Á göngunni var m.a. gengið á Gíslhól, Réttarhól, réttin skoðuð, klofað yfir Gamla túngarðinn / Fornagarð er náði frá Hlíðarvatni yfir um að Nesi í Selvogi, Imphóll skoðaður sem og tóftir Impukofa, litið á Fagurhól og Vaðhól, spekulerað á Bænhúshól (Túnhól) þar sem ku hafa verið bænhús til forna, skoðaður steinn sá er Eggert, síðasti sérann á Vogsósum lést örendur við 1908, Vellir og Vallabrún litin augum sem og Klettisþúfuhólar ofan Beitarhúsahæðar.
Að göngunni lokinni var ekki um annað að ræða en að þiggja kaffisopa við eldhúsborðið að Vogshúsum II þar sem þráðurinn var tekinn upp að nýju þar sem frá var horfið. Aðallega var þá rætt um gamla bændasamfélagið, hrístöku á heiðunum, fjárbeit og eftirminnilegt fólk; aðallega þó úr Grindavík.
Frábært veður.

Frétt 28. desember 2023 +

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason í fjárhúsinu með þrílembinga.

„Þórarinn Snorrason, bóndi í Vogsósum 2 í Selvogi, er látinn, 92 ára að aldri. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi á jóladag. Hann hafði legið á sjúkrahúsi um mánaðarskeið eftir að hafa lærleggsbrotnað er hann féll við útistörf við fjárhúsin í Vogsósum en þar stundaði hann sauðfjárbúskap.

Þórarinn var fæddur í Vogsósum þann 8. ágúst árið 1931. Hann var síðasti oddviti og hreppsstjóri Selvogshrepps en hreppurinn sameinaðist Ölfusi árið 1989. Þá var hann stóran hluta ævi sinnar helsti vörslumaður Strandarkirkju sem hringjari, kirkjuvörður og formaður sóknarnefndar.

Eiginkona hans var Elisabeth Charlotte Johanna Herrmann. Hún fæddist í Þýskalandi þann 28. desember 1927. Hún lést árið 2018. Þau gengu í hjónaband árið 1954 og eignuðust fimm börn en afkomendahópurinn telur auk þeirra núna níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason.

Þórarinn var aðalviðmælandi í þættinum Um land allt sem Stöð 2 gerði um Selvoginn haustið 2013. Þar sagði Þórarinn meðal annars frá kynnum sínum af skáldinu Einari Benediktssyni, sem bjó síðustu æviár sín í Herdísarvík.

Hér má sjá þáttinn um Selvog:

Þórarinn var á barnsaldri þegar Einar Benediktsson bjó í Selvogi, kom oft í Herdísarvík og man vel eftir honum. Þórarinn rifjaði meðal annars upp þegar hann varð vitni að hinstu för Einars úr Herdísarvík þegar lík hans var borið til Vogsósa en þá var enginn vegur kominn þar á milli.“

Heimildir:
-Þórarinn Snorrason, bóndi, fæddur á Vogsósum 8.8.1931.
-https://www.visir.is/g/20232508248d/thorarinn-snorra-son-i-vog-sosum-latinn

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðan uppdrátt af Selvogi.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi er forn vörslugarður er náði milli Hlíðarvatns við Vogsósa og austur fyrir Nes, austasta bæinn í Selvogi, eða Sæluvogi, eins og hann áður var nefndur. Garðurinn mun ekki alltaf hafa heitið “Fornigarður”. Áður nefndist hann Strandargarður eða Langigarður, en nú á tímum er hann nefndur Fornigarður vegna þess að hann telst með elstu mannvirkjum hér á landi. Reyndar er um tvískiptan garð að ræða; annars vegar Langagarð og hins vegar Fornagarð.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Heimildir um Fornagarð eru t.d. eftirfarandi:
1821: “Máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu; – Eignad er vrk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og Austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”

Fornigarður

Fornigarður ofan Ness.

1840: “Engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.”

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

1902: “Aðalgarður lá fyrir ofan alla bæi í Selvogi, frá Hlíðarvatni fyrir ofan Vogsósa í landsuður að Stórhól, og aftur í austur frá Stórhól austur fyrir Nes. Sést hann enn glögt víðast hvar. Fyrir austan Nes sér þó ekki garð austar en nú er túngarðurinn … Án efa hefir aðalgarðurinn legið fyrir austan Snjólfshús. En hann hefir líklegast verið færður þangað sem hann er nú, eftir að þau voru komin í eyði, og þá bygður aftur úr sama grjótinu, en sandur hulið það, sem eftir kann að hafa orðið.”

Fornigarður

Fornigarður – ÓSÁ.

„Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina [í Selvogi]; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina. Sagt er að hliðin hefðu verið læst og grind í.“

Hægt er að ganga eftir garðinum frá Hlíðarvatni yfir að Nesi. Skammt ofan við túnið á Vogsósum eru tóftir og fjárborg (ekki vitað hvað er – ekki skráð). Ofan við Strönd kemur garðurinn saman við annan engu minni. Á loftmynd sést lögun hans vel. Austaqn Strandarkirkju beygir garðurinn til austurs, yfir veginn að kirkjunni og liðast síðan um Selvoginn austur fyrir nes, sem fyrr sagði.
Sjá lýsingu á hinum u.þ.b. 7 km langa garði í annarri FERLIRslýsingu er Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum fylgdi þátttakendum úr hlaði við vesturenda garðsins – sjá HÉR.

Heimildir:
FF, 228; SSÁ, 226-27; Brynjúlfur Jónsson 1903, 51-52; Ö-Þorkelsgerði, 1.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Vogsósar

„Séra Eiríkur í Vogsósum var ekki lamb að leika sér við.
Einu sinni fóru menn, sem komu til hans í kutur-21kulda og frosti, að nauða á honum að gefa sér brennhvín. Hanm lézt ekki eiga, en sótti þó um síðir kút, sem gutlaði á. Fór svo, að jafnan gutlaði á kútnum, er þeir hristu hann, hversu oft sem þeir supu á honum, og sagði séra Eiríkur þeim að lyktum að hafa hann með sér.
Nú var óspart sopið á kútnum, og voru mennirnir í fyrstu kátir yfir því, hve drjúgar voru í honum dreggjarnar. En loks virtist þeim sem ekki myndi allt með felldu, og setti þá að þeim geig. Þreif einn kútinn og varpaði honum frá sér. Við það brotnaði hann og fór í stafl. En þá fyrst urðu mennirnir forviða: Stafirnir voru hvítir af myglu að innan, og var ekki sýnilegt, að deigur dropi hefði komið í kútinn langa-lengi.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 26. nóvember 1967, bls. 1043.

Vogsósar

Vogsósar – vörslugarður.

Vogsósar

Eftirfarandi frétt birtist á forsíðu Fréttablaðsins 31. okt. 2007 undir fyrirsögninni Fornt handrit finnst í húsi í Hafnarfirði – Dularfullt handrit rannsakað.

„Við vitum lítið um handritið enn þá. Það fannst í húsi ef svo má segja,“ segir Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Handritið-Fbl.Árna Magnússonar. Stofnuninni barst fornt handrit í gær sem fannst við tiltekt í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum.
„Handritið er með dularfullu letri sem við þekkjum ekki. Það er punktur á milli stafanna og þetta eru hvorki rúnir né latína. Þetta er einhvers konar leyniletur og skrifað á skinn sem bundið er á gamalt íslenskt band. Ég tel að það sé að minnsta kosti 200 til 300 ára gamalt og ef til vill eldra. Það er ekki vitað hvort það var skrifað á Íslandi,“ segir Vésteinn en rannsóknin er enn á frumstigi og kalla þarf til fleiri fræðimenn til þess að ráða gátuna.
Ritinu er lýst sem lítilli bók með viðarkápu sem vafin er inn í reimar. Pálmar Pétursson hafði bókina í fórum sínum í nokkur ár en ákvað að færa hana til athugunar hjá Árnastofnun. „Ég var að hjálpa bróður mínum að flytja og fann bókina á háaloftinu. Ég var þá í sagnfræðinámi og áttaði mig þess vegna á því að hún væri eitthvað til að kíkja á.“

Allt hér að aftan er að mestu til gamans gert – en öllu gamni fylgir jú einhver alvara. Skrifað hefur verið um galdrastafiÞrennt vekur athygli í fréttinni; í fyrsta lagi finnst forstöðumanni handritastofnunar handritið athyglisvert, í öðru lagi virðist textinn ólæsilegur núlifandi handritasérfræðingum og í þriðja lagi virðist handritið vera frá tíð Eiríks á Vogsósum, þess mikla galdraprests. Prestsetrið var löngum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður árið 1907.
Séra Eiríkur Magnússon (1638-1716) mun hafa lært undir skóla hjá Jóni Daðasyni í Arnarbæli og var síðar aðstoðarprestur hans. Hann varð síðan prestur í Selvogsþingum og bjó sem ókvæntur húsmaður á Vogsósum. Til eru margar sagnir af séra Eiríki og verður ein þeirra, um galdrabókina Gráskinnu (sem sumir vildu nefna Gullskinnu (Skuggi)), rakin að hluta hér á eftir.
Eitt af sérkennum íslenskra galdramála eru galdrastafir og skræður sem fjöldi manna var dæmdur fyrir að hafa í fórum sínum. Galdraskræður voru að sjálfsögðu lífshættuleg eign á 17. öld en þó eru til fjölmargar skræður á handritasöfnum. Nokkrar þeirra eru sannanlega frá tíma galdrabrennanna, en aðrar eru skrifaðar síðar, þær yngstu á tuttugustu öld. Einhverjar uppskriftir á skræðum leynast enn í einkaeign og til skamms tíma hefur fólk ekki flíkað slíkri eign. Hingað til hefur lítið farið fyrir fræðilegum rannsóknum á innihaldi eða geymd galdrabóka. Uppistaðan í sumum eru galdrastafir með mismiklum textum um meðferð þeirra og tilgang, en aðrar eiga meira skylt við lækningabækur miðalda. Til eru einnig bækur sem innihalda leyniletur af ýmsu tagi. Sumar bækur virðast skrifaðar af einum manni en við aðrar hefur verið bætt smám saman.
Í þjóðsögum er greint frá mögnuðum galdrabókum á biskupsstólunum, Rauðskinnu Gottskálks biskups grimma og Gráskinnunum á Hólum og í Skálholti. Bækur þessar voru grafnar með eigendum sínum og til eru margar sögur um tilraunir skólapilta til að komast yfir þær, sú frægasta er sagan af Galdra-Lofti.
Íslenskir galdrastafir virðast eiga sér mismunandi rætur. Sumir sýnast runnir frá rúnaletri en aðrir eru vafalaust innfluttir og ber þar mest á innsiglum sem finna má í dulspeki miðalda.
Sumir stafir bera nöfn en aðrir ekki. Með stöfunum fylgdu síðan leiðbeiningar um til hvers þeir voru ætlaðir og hvað þyrfti að gera til að þeir hefðu tilætlaða verkan. Því máttugri sem galdurinn var því erfiðara var yfirleitt að framkvæma hann. Tilgangurinn með notkun stafanna spannar allt frá vernd og lækningum til meingjörða. Fjölmargir stafir eru til sem ætlaðir eru til að verjast þjófnaði eða finna þjóf og annar stór hluti eru ástargaldrar, flestir ætlaðir til að verða sér úti um kvenmann.
Galdrastafur um fjárvarnaskaðaEkki eru skræðurnar alltaf sammála um heiti eða notkun einstakra stafa en stafina sjálfa má finna nákvæmlega eins í eldri og yngri skræðum. Í galdramálum sem upp komu á Íslandi er yfirleitt um að ræða stafi eða blöð sem ætluð eru til að létta sér lífsbaráttuna en lítið bar á svartagaldri eða meingaldri.
Í fyrrgreindri sögu af Eiríki á Vogsósum segir: „
Í Biskupstungum var eitt sinn kotkarl nokkur gamall og forn í skapi; lítt siðblendi hafði hann við alþýðu. Hann átti tvo hluti, er honum þóttu bestir af eigum sínum; það var bók, er ekki vissu aðrir menn, hvers innihalds var, og kvíga, er hann kappól.
Karl tók sótt mikla og sendi orð Skálholtsbiskupi og bað hann koma á sinn fund. Biskup brá við skjótt og hugði gott til að tala um fyrir karli og fer til fundar við hann.
Karl mælti: „Svo er mál með vexti, herra, að ég mun skjótt deyja, og vil ég áður biðja yður lítillar bónar.“ Biskup játti því. Karl mælti: „Bók á ég hér og kvígu, er ég ann mjög, og vil ég fá hvort tveggja í gröf með mér, ella mun verr fara.“
Biskup segir, að svo skuli vera, því honum þótti ei örvænt, að karl gengi aftur að öðrum kosti. Síðan dó karl, og lét biskup grafa með honum bókina og kvíguna.
Það var löngu síðar, að þrír skólasveinar í Skálholti tóku fyrir að læra fjölkynngi. Hét einn þeirra Bogi, annar Magnús, þriðji hét Eiríkur. Sagt hafði þeim verið af karli og bók hans, og vildu þeir gjarnan eiga þá bók, fóru því til á einni nóttu að vekja upp karlinn, en enginn kunni að segja, hvar gröf hans var. Því tóku þeir það ráð að ganga á röðina og vekja upp hvern af öðrum. Fylla þeir nú kirkjuna af draugum, og kom karl ekki. Þeir koma þeim niður aftur og fylla kirkjuna í annað sinn og hið þriðja, og voru þá fá leiði eftir og karl ókominn.
Séra Eiríkur þjónaði KrýsuvíkurkirkjuÞegar þeir höfðu komið öllu fyrir aftur, vekja þeir þessa upp, og kom karl þá síðastur og hafði bók sína undir hendi sér og leiddi kvíguna. Þeir ráða allir á karl og vilja ná til bókarinnar, en karl brást við hart, og áttu þeir eigi annað að gjöra en verjast. Þó náðu þeir af bókinni framanverðri nokkrum hluta, yfirgáfu svo það eftir var og vildu koma fyrir þeim, er þá voru á kreiki, og tókst þeim það við alla nema karlinn. Við hann réðu þeir engu, og sótti hann eftir parti bókar sinnar. En þeir vörðust og áttu ærið að vinna. Gekk svo til dags. En er dagaði, hvarf karl í gröf sína, en þeir þuldu yfir henni fræði sín, og hefur karl ekki gjört vart við sig síðan.
En blöðin færðu þeir félagar sér í nyt og sömdu eftir þeim fjölkynngisbók þá, er Gráskinna er nefnd og lengi lá á skólahúsborði í Skálholti. Vann Bogi þar mest að, því hann lærði miklu mest.
Þeir félagar vígðust síðan til prestskapar; varð Eiríkur prestur á Vogsósum í Selvogi, en ekki eru nefndir staðir hinna. En það er frá þeim sagt, að Magnús gekk að eiga heitmey Boga. En er hann spurði það, fer hann til fundar við Magnús, og vissi Magnús það fyrir og það með, að ef Bogi sæi hann fyrri, væri það sinn bani.

Eiríksvarða á Arnarfelli - heiðruð af FERLIR 2006

Magnús gekk í kirkju og stóð að hurðarbaki og lét segja Boga, er hann reið í hlað, að hann væri í kór að gjöra bæn sína. Bogi gekk í kirkju og inn á gólf, og sér Magnús hann fyrri og fagnar honum nú vel. Hann tók því glaðlega, og er hann reið burt, fylgdi Magnús honum á veg.
Að skilnaði tekur Bogi upp pela og býður Magnúsi að súpa á. Hann tók við, tók úr tapann og skvettir í andlit Boga, en hann féll dauður niður. Fer Magnús síðan heim, og segir ekki fleira af honum.
Þegar Eiríkur á Vogsósum frétti þenna atburð, brá honum við og mælti: „Já, já, heillin góð“ (það var vana ávarp hans), „allir vorum við þó börn hjá Boga.“
Þó þeir félagar hefðu farið dult með fjölkynngislærdóm sinn, leið ekki á löngu, áður það komst í orð, að Eiríkur á Vogsósum væri göldróttur. Því boðaði biskup honum á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann gjöra grein fyrir, hvort hann kynni það, sem á henni væri.
Eiríkur fletti upp bókinni og mælti „Hér þekki ég ekki einn staf á,“ og það sór hann og fór heim síðan. Sagði hann svo síðan kunningja sínum, að hann þekkti alla stafi á bókinni nema einungis einn og bað hann segja frá því, þegar hann væri dauður, en ekki fyrr…“
Heimildir m.a.:
-Fréttablaðið 31. okt. 2007
-http://www.snerpa.is/net/thjod/eirikur.htm
-http://www.galdrasyning.is/
Â

Vogsósar

Á Vogsósum í Selvogi er merkilegur steinn í túninu.
Þótt steinninn láti ekki mikið yfir sér, er reyndar Eggert-551nánast jarðlægur og lækist jafnan fyrir slátturvélum, hefur Þórarinn Snorrason, bóndi gætt hans vandlega. Segja má að steinn þessi hafi verið minnisvarði um séra Eggert Sigfússon, síðasta prestsins á Vogsósum. Séra Eggert Sigfússon fæddist 22. júní 1840 og lést 12. október 1908, einmitt við þennan stein í túninu. Mun prestur hafa verið að koma úr messu í Krýsuvík þegar hann veiktist á leiðinni heim og dó þarna við steininn.
Í Tímanum 1988 er fjallað um séra Eggert. Fyrirsögnin er „Lómar og skúmar“, en Eggert „þótti  undarlegasti maður landsins um sína daga“. Í Vogsósum skildu menn ekki þankagang þessa óvenjulega manns, sem álasaði mönnum fyrir að hugsa ekki um annað en „gemlinga
og grút.“
„En það er gömul saga að snillingseðlið getur tekið á sig margvíslegar myndir og í stað þess að vera hampað sem afbragðsmönnum samtíðarinnar, kunna menn að lenda á einhvern hátt utan vegar og verða fyrst og fremst taldir til furðufugla. Þau urðu örlög þess manns sem hér mun greint frá – hins sérkennilega prests, Eggerts Sigfússonar í Vogsósum í Selvogi. Hann þótti með afbrigðum kynlegur, en þegar við lesum sumar þeirra sagna sem af honum gengu, læðist að okkur sá grunur að það sem haldið var flónska og sérviska, hafi verið á einhvern hátt afbragðslegs eðlis, að þarna hafi verið á ferðinni spekingur, sem samtímamönnum tókst aðeins ekki að botna í.
Á Eyrarbakka var Eggert fæddur hinn 22. júní 1840. Faðir hans, Sigfús „snikkafi“ Guðmundsson, var hagleiksmaður hinn mesti og alkunnur kirkjusmiður, greindur vel og vandaðasti maður í öllu dagfari.
Hann veitti snemma athygli gáfum og námslöngun sonarins og ákvað Fornagata-601að senda hann til mennta. Gekk Eggert inn í Latínuskólann nýja í Reykjavík 15 ára gamall og lauk prófi á tilskildum tíma og stúdentsprófi frá Prestaskólanum tveimur árum seinna.
Ekki lét hann þó vígjast að sinni, heldur fékkst við barnakennslu á ýmsum stöðum næstu sex árin, bæði norðanlands og sunnan. En þá hugsaði hann sér til næðisamara lífs og óskaði vígslu af Pétri biskupi Péturssyni og hana hlaut hann 29. ágúst 1869. Fyrst gerðist hann prestur hjá Húnvetningum að Hofi á Skagaströnd og gegndi þar í þrjú ár. Þá flutti hann að Klausturhólum í Grímsnesi og urðu þjónustuárin tólf á þeim stað. Loks árið 1884 tók hann svo við Selvogi og Krýsuvík, er í þá daga var sérstakt prestakall, og hafðist þar við til dauðadags. Bjó hann í Vogsósum í Selvogi og hefur ætíð verið kenndur við þann stað.
Þessum skrýtna presti var svo lýst að hann hefði verið með hæstu mönnum vexti, en ákaflega grannur og krangalegur. Höfuðið var mjög lítið og augun þar eftir smá, en sakleysislega skær og tindrandi. Bar og öllum saman um sem þekktu hann að hann hefði verið hrekklaus eins og dúfa og aldrei gert flugu mein. En hafði fastar skoðanir á ýmum málum og þá ekki síst sumum af kennisetningum kirkjunnar, en þær hafði hann að engu þegar honum bauð svo við að horfa og hann taldi annað skynsamlegra. „Þegar ég skíri barn, gef saman hjón eða jarða framliðna, dettur mér ekki annað í hug en að sleppa öllum bölvuðum bjánaskap úr handbókinni.

Eggert-602

Eða hvað er það annað en bjánaskapur, þetta, sem ætlast er til að lesið sé yfir brúðinni: „Með sótt skaltu börn þín fæða.“ Þarf að segja nokkurri heilvita konu það að hún muni verða eitthvað lasin um það leyti, sem hún elur barn? Og til hvers er þá að hryggja hana með því að minna hana á þetta á mesta hátíðisdegi ævinnar? Þér megið kalla þetta hvað sem þér viljið, en ég kalla það bjánaskap. Og hvað þýðir að segja næturgömlu barni að það sé getið í synd eða dauðum manni að hann eigi að verða að mold? En svona eru margar fyrirskipanir kirkjunnar og ég ansa þeim ekki.“
Þar sem Eggert sté ekki á bak hestum varð hann að fara allra sinna ferða um sóknir sínar fótgangandi, hvernig sem viðraði. Voru þá oft lækir á vegi hans illir yfirferðar, en hann hafði mikla óbeit á því að vökna. Lagði hann nú höfuðið í bleyti og dó ekki ráðalaus. Lét hann gera sér stóran skinnsokk, klofháan, en þó einungis á annan fótinn. Hafði honum reiknast svo til að einn skinnsokkur mundi nægja, eins og lækjum var háttað við vanalegar aðstæður í prestakallinu. Sté hann út í lækina með þeim fætinum er sokkurinn var á og teygði síðan hinn fótinn upp á bakkann hinum megin. Náði hann með tímanum slíkri leikni í þessari íþrótt að orð var á gert. Skildi hann skinnsokkinn aldrei eftir, þyrfti hann að bregða sér að heiman.
Vogsos-65Eftir að séra Eggert gerðist prestur í Vogsósum hófst mótlæti hans að marki. Hann var þar kominn meðal manna sem höfðu lítinn skilning á hinu sérstæða gáfnafari hans. En þetta mótlæti var skki síst runnið af þvf hve hann var hárnæmur á eðlisfar sóknarbarna sinna og hvers konar óheilindi, tilgerð og hroki var eitur í hans beinum. Þá menn er hann taldi sérstaklega búna slíkum eiginleikum nefndi hann aldrei annað en skúma, en þá aðra sem voru hjartahreinir og lítillátir kallaði hann lóma. Þessum tveimur manntegundum hélt hann vandlega aðgreindum og beitti tegundarheitum þeirra umsvifalaust í allra áheyrn og hvort sem mönnum þótt betur eða verr. Þetta hispursleysi aflaði honum lítilla vinsælda meðal skúmanna, en hann kippti sér ekki upp við það. „Mér er alveg sama hvað um mig er sagt lífs og liðinn,“ varð honum að orði. Ef ég gæti þess að stíga ekki á hestbak, þá dey ég ekki af því að detta af baki.

Vogsos-66

Þannig verð ég heldur ekki með réttu sakfelldur, ef ég gæti þess að gefa engan höggstað á mér með breytni minni.“
Fjölmörg bréf eru til með hendi séra Eggerts, sem sýna hve fyrirlitning hans á skúmunum stóð föstum rótum. Í einu bréfanna er þessi klausa: „Ég kom beint úr Þorlákshöfn í dag um sólarlag að Strönd. Sigurður var heima. Selvogshreppstjórinn var þar staddur og sagði mér að Þ… væri búinn að bera Gr… út í annað skipti. Hér er dæmi þess á hve háu stigi réttlætiskennd skúmanna stendur. Hvar sem maður er eða fer í veröldinni, þá held ég að naumast sjái í heiðan himininn fyrir þessum bölvuðum skúmum! Ég vildi óska að allar veraldarinnar manneskjur væru orðnar að lómum. Þá þyrfti maður ekki að eiga við annað eins „jastur“ og þetta. Takk fyrir síðast.“
Selvogur-559Í öðru bréfi til Jóns kaupmanns Árnasonar í Þorlákshöfn kemst séra Eggert svo að orði: „Hér kom skúmur og tilkynnti mér sem hreppsnefndarmanni að hann ætti barn í vonum. Þetta kalla ég þunnar trakteringar og þess vegna bið ég þig að láta mig hafa á meðfylgjandi 8 potta kút, svo ég geti hresst mig á þessum skúmalegu vandræðum!“
Eggert sá líka kvenfólk á meðal skúmanna og ein þeirra var frúin í Hlíð, en af henni er þessi frásögn í bréfi frá Eggert til sálmaskáldsins sr. Valdemars Briem: „Frúin í Hlíð!
Það er nú frú í lagi. Kötturinn í Vogsósum skrapp upp að Hlíð um daginn að fá sér kött, en veistu hvað frúin gerði? Hún tók köttinn og drekkti honum í Hlíðarvatni. Tarna er ljóta „frúin“.
Selvogur-558Svo alvarlega tók klerkurinn í Vogsósum þessa skiptingu á mönnum að hann skráði þá vandlega er á prestssetrið komu sem lóma eða skúma, sbr. eftirfarandi skrá, sem varðveist hefur: „Skúmar“ aðkomir að Vogsósum anno 1887: Janúar 25. febrúar 92, mars 4, apríl 6, maí 43, júní 62… .=232 Júlí 75, ágúst 5, sept. 91, október 65, nóvember 14, desember 1… =257. SKÚMAR ALLS: =489 „Lómar“ aðkomnir að Vogsósum anno 1887: Janúar 1, febrúar 1, mars 0, apríl 1, maí 0, júní 0 … =3 Júlí 3, ágúst 3, september 5, október 2, nóvember 0, desember 0… =13. LÓMAR ALLS: =16.
Greinilega hefur flokkur skúmanna því verið heldur betur öflugri að áliti Eggert en hinna blessuðu lóma.
Ekki er lengra frá dauða séra Eggerts en svo að enn í dag er nær efalaust til – að vísu mjög aldrað – Selvogur-560fólk sem man hann sem börn, en hann lést 1908. Hér hefur mest verið gert úr því sem sérkennilegast þótti við hann en minna drepið á ágæta eiginleika hans. Hann tók sannleika og einlægni fram yfir allt annað og predikari var hann ágætur, enda þótt ræður hans stæðu sjaldnast lengur en sjö til fimm mínútur. Þá var hjálpsemi hans við bágstadda við brugðið og vandaðri mann og skilríkari getur ekki. Svik fundust ekki í hans munni. Á sama hátt virti hann sér til fánýtis og trafala hverja þá fjármuni sem tóku til annars en brýnustu nauðþurftar og byðu fátækir menn honum greiðslu fyrir unnin embættisverk, hafnaði hann henni jafnan jafnan með einu viðkvæði: „Þú mátt ekki missa þetta. Ég á nóg.“
Á efri árum hans gekk sá spádómur um sóknir hans að heimsendir væri í nánd. Höfðu margir af því þungar áhyggjur og þar á meðal var ungur drengur sem bar sig illa. Reyndi prestur að hughreysta hann og mælti: „Nei, barnið gott, almættið hefur ekki neinn heimsendi í huga og þú þarft ekki að óttast hann í bráð. En komi heimsendir seinna, verða það mennirnir sem hrinda honum af stað.“ Hvort spegluðu þessi orð klerksins lífsreynslu hans eða sá hann svo miklu lengra en þeir menn sem festu sér ummælin í minni, vegna þess hve fjarstæðukennd þau þá virtust – fyrir rúmum 80 árum.
Það var hinn 12. október 1908 í gráu og hráslagalegu haustveðri að Vogsósapresturinn var að koma frá messu í Krýsuvík – gangandi að vanda. Hann var kominn að túngarði í Vogsósum, þegar vinnumaður á bænum sá hvar hann greip sér um hjartastað og féll niður. Hann kom að honum örendum, þar sem hann lá á grúfu í sölnuðu grasinu [við lítinn stein] og hélt dauðahaldi um lítinn böggul, sem vinnumaðurinn vissi að geymdi snjáða prestshempu hans. Þar með var lokið ævi síðasta prestsins sem sat í Vogsósum – og vafalaust hins undarlegasta þeirra allra um leið.“

Heimild:
-Tíminn, 14. maí 1988, bls. 11-13.

Vogsósar

Vogsósar.

Herdísarvík

Í Jólablað Alþýðublaðsins 1946 segir Guðmundur Gissurason frá upplifun hans „Við sjóróðra í Herdísarvík„. Frásögnin lýsir vel aðbúnaði í sjóbúðum og verklagi sjómanna á fyrstu áratugum 20. aldar:

Gljúfurárholt

Gljúfurárholt í Ölfusi eftir jarðskjálfta 1896.

„Vetrarvertíðina 1919 var ég ráðinn til sjóróðra í Herdísarvík. Þar sem ég hafði aldrei farið til sjávar fyrr, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu að komast i verið, enda svo litið á almennt, að þá fyrst væri hægt að telja unglingana menn með mönnum, er þeir voru orðnir hlutgengir í skiprúm. Frá sjónarmiði unglingsins var útræði í fyrsta skipti ekki einvörðungu tengt við atvinnuna eða von um tekjur, heldur var hún að vissu leyti svölun á ævintýraþrá og eins konar prófraun.

Í byrjun góu lagði ég af stað í verið. Var ég þá hjá foreldrum mínum í Gljúfurárholti í Ölfusi. Nikulás, sonur Jóns í Vorsabæ í sömu sveit, var ráðinn á sama skip og ég, og urðum við samferða. Við vorum báðir fótgangandi og reiddum færur okkar á sínum hestinum hvor. Það var norðankæla og gott færi. Okkur sóttist ferðin greiðlega. Við vorum léttir í spori og höfðum röska og trausta hesta undir klyfjunum.
Við fórum sem leið liggur út Ölfus og fórum fyrsta daginn út á Hlíðarbæi, gistum á Breiðabólsstöðum hjá Ingimundi Ögmundssyni og Sigurlínu systur hans, en þau voru systkini Jóns, föður Nikulásar. Fengum við þar hinar beztu viðtökur. Var svo förinni haldið áfram daginn eftir, sem leið liggur út Selvogsheiði. Var veður hið ákjósanlegasta og hjarn yfir allt. Þegar við vorum staddir utan til á há Selvogsheiði, sáum við tvö seglbúin skip skammt undan landi. Virtust þau mjög tíguleg, og hugðum við þetta skútur vera, en seinna komumst við að raun um, að þetta voru opin áraskip á leið til Herdísarvíkur. Höfðu þau farið leiði frá Eyrarbakka þennan dag. Við létum nú lítið yfir þessari ágizkun okkar með skúturnar, en það vildi ég segja, að tígulegir og fallegir voru teinæringarnir gömlu með fullum seglum (framsegli, aftursegli, safnrokku og klýfir) og alveg ótrúlegt, hversu góðir þeir voru í sjó að leggja, þegar þeim var vel stjórnað.

Vogsósar

Vogsósar 1932.

Að Vogsósum komum við síðla dags og fengum þar fylgd yfir Hlíðarvatn. Það var ísi lagt, en vandratað yfir það. Fylgdi okkur piltur, sonur Vilhjálms bónda á Vogsósum, er Jakob kvaðst heita, rösklegur og myndarlegur piltur.
Frá Hlíðarvatni að Herdísarvík er yfir hraun að fara, en í gegnum það er ruddur vegur, sem er góður yfirferðar með baggahesta. Þegar við komum til Herdísarvíkur, var þar fyrir hópur manna, sem farið hafði leiði um daginn, og voru þeir að koma föggum sinum fyrir og búa um sig. Ég tók að mér að fara með hestana upp í Ölfus aftur. Ég var beðinn fyrir nokkra fleiri hesta frá Ölfusingum, er fluttu sig þennan dag. Í för með mér slóst maður af Eyrarbakka, sem hjálpað hafði til við flutningana út eftir þá um daginn. Hét hann Guðmundur Steinsson. Ætlaði hann austur að Nesi í Selvogi um kvöldið, til Páls Grímssonar, en hann kvaðst vera háseti hjá Páli, en Páll var þá og hafði verið um langan tíma heppnis- og myndarformaður í Þorlákshöfn.

Herd´siarvík

Herdísarvík 1898.

Er við lögðum af stað úr Herdísarvík, var komið dagsetur, tunglskinslaust, en heiður himinn og stjörnubjart. Ferðin gekk greiðlega, en er við vorum komnir út á Hlíðarvatn, brestur ísinn undan hestunum. Við höfðum farið af réttri leið og lent niður undir Vogsósaós, þar sem ísinn var ótryggur. Vatnið náði þarna hestunum nærri í kvið og var því að vísu engin hætta á ferðum. En hestunum kom ég ekki áfram, hvernig sem ég reyndi, og varð ég því neyddur til að fara af baki, og varð ég að brjóta ísinn, sem þarna var mjög veikur, og vaða á undan hestunum til lands.
Fór ég nú heim að Vogsósum og baðst gistingar, en Vilhjálmur kvaðst því miður ekki geta hýst hestana né gefið þeim hey, þar sem allar skepnur væru í húsi og hey farin að ganga til þurrðar, þar eð veturinn hefði verið mjög harður og gjafasamur. Það varð því úr, að ég héldi áfram upp í Ölfus, eftir að ég hafði þegið góðgerðir á Vogsósum, og fylgdi Vilhjálmur mér langt á leið. Er mér það mjög í minni, hversu Vilhjálmur var vinsamlegur við mig, barmaði sér sáran yfir því, að hafa ekki getað hýst mig, og gaf mér ýmsar leiðbeiningar varðandi leiðina yfir Selvogsheiði. Er hann kvaddi mig, bað hann vel fyrir mér og lét svo um mælt, að frá sér hefði aldrei farið neinn í meiri tvísýnu, og bað mig mjög eindregið um það, að koma við hjá sér, er ég færi út um daginn eftir. Ég þakkaði svo fylgdina og fórum við sinn í hvora áttina. Mér fannst, satt að segja, engin hætta á ferðum, og mig furðaði á því, hvers vegna Vilhjálmur var svona óttasleginn yfir þessu ferðalagi mínu, en ég fékk á honum mjög góðan þokka vegna þess, hversu annt mér fannst honum vera um mig. En ég leyndi hann því, að ég var rennvotur upp fyrir hné. Svona geta unglingar verið kærulausir. Vilhjálmur hefði verið fljótur að láta mig hafa þurra sokka og föt, ef hann hefði vitað þetta.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Stinningskaldi var á norðan, en ekki mikið frost. Tunglskinslaust, en heiður himinn. Ég rak klárana og lét þá brokka. Ég varð að hlaupa til að geta haldið á mér hita, því að mér fannst nöpur kólgan á Selvogsheiði um lágnættið. Ég hafði vindstöðuna fyrir vegvísir og löngu eftir að ég skildi við Vilhjálm sá ég að Kvennagönguhól[a] bar við himin á vinstri hönd, og vissi ég þá, að ég var á réttri leið, en brautina okkar frá því um daginn fann ég ekki, og hvergi sá á dökkan díl. Ferðin gekk viðstöðu- og tafarlaust, og að Breiðabólsstöðum kom ég um nóttina og fékk þar góðar viðtökur. Hjá þeim systkinunum, Ingimundi og Sigurlínu á Breiðabólsstöðum, hafði ég áður dvalið, og eru þau með merkasta fólki, er ég hef kynnzt, sakir prúðmennsku sinnar og mannkosta.
Dagin eftir fór Ingimundur með hestana áleiðis upp Ölfus, en ég sný við til Herdísarvíkur. Ég kom að Vogsósum í úteftirleiðinni, eins og ég hafði lofað Vilhjálmi.
Herdísarvík er vestasti bær í Árnessýslu og er í Selvogshreppi. Frá Herdísarvík að sýslumörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu mun vera um hálfs annars tíma lestaferð og út til Krýsuvíkur þriggja tíma ferð.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Næsti bær við Herdísarvík að austan er Stakkavík, og mun þangað vera um klukkutíma ferð. Herdísarvík er því mjög afskekkt og stendur fyrir botni samnefndrar víkur. Umhverfið er óblítt en tilkomumikið. Risavaxið fjall skamt frá í norðri, Herdísarvíkurfjall, með svötum skriðum og háum eggjum. Milli fjalls og fjöru úfið hraun, sem runnið hefur fram af fjallinu um skarð, er kallast Mosaskarð. Það hafa verið hrikalegar náttúruhamfarir, er hraun þetta fossaði fram af fjallinu og í sjó fram. Atlantshafsaldan, óbrotin og rismikil, faldar meðfram ströndinni. Ég hef hvergi séð risavaxnari né tígulegri öldur en brotsjóina á hólminum út af Selvogi, séð úr Herdísarvík. Það má með sanni segja, að þar skálmi boðarnir í lest.

Herd´siarvík

Herdísarvík – skipshöfn árið 1918; Efri röð frá vinstri: Guðjón Úlfarsson, Sigurður Tómasson, Jón Úlfarsson, Kolbeinn Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Haraldur Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Sigmundur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson, Tómas Sigurðsson, Ívar Geirsson, Jón Árnason, Jónas Einarsson.

Herdísarvík var mjög fiskisæl verstöð og stutt á miðin. Þessa vertíð, 1919, voru fimm skip gerð út frá Herdísarvík. Skipshafnirnar lágu í sjóbúðum, sem voru skammt austur af bænum, og voru 12 og 13 menn á hverju skipi. Í þessari litlu og afskekktu verstöð voru því saman komnir yfir 60 sjómenn úr Árness- og Rángárvallasýslu. Formenn á skipunum voru: Símon Símonarson yngri frá Bjarnastöðum í Ölfusi, Halldór Magnússon frá Klöpp í Selvogi, Gísli Scheving Gíslason frá Stakkavík, Ívar Geirsson frá Eyrarbakka og Ársæll frá Álfhólum í Landeyjum. Ég réri hjá Símoni, og voru skipverjar þessir, auk formannsins: Guðmundur Jónsson frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hafði áður verið heppnis formaður í Herdísarvík, Bjarni, sonur hans, Páll og Torfi, bræður, synir Jóns á Ægissíðu í Holtum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum í Grímsnesi, Elías Símonarson frá Núpum í Ölfusi, bróðir formannsins, Ari Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, Jón Þorsteinsson frá Miðdal í Laugardal, Árni Árnason frá Hjalla í Landmannahreppi, Nikulás Jónsson frá Vorsabæ í Ölfusi og ég, er þessar línur rita.
Sjóbúðin okkar var með beztu verbúðum. Veggirnir hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, sem lagt var í sement. Þakið járnvarið og klætt innan á sperrurnar með panel. Þrjú rúmstæði voru meðfram hvorum vegg, og voru tveir menn í hverju rúmi og lágu þeir andfætis.

Herdísarvík

Herdísarvík – skipshöfn 1918-1919;
Neðri röð: Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Guðjón Gíslason bóndi í Ásgarði í Grímsnesi.
Efri röð: Albert Jóhannesson frá Eyvík í Grímsnesi; Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Björgvin Sigurjónsson frá Kringlu í Grímsnesi.

Í einu rúminu vorum við þrír unglingar, og var það kallað strákarúmið. — Gólfið milli rúmanna var um einn og hálfur metri á breidd. Var það steypt, en í flestum sjóbúðum þá vou moldargólf, eða réttara sagt sands- og malargólf, og var búðin þrifin með því að moka gólfið. Inn af sjóbúðinni okkar var geymsla, þar sem geymd voru matvæli, fatnaður, skinnklæði og veiðarfæri. Fyrir ofan sig í rúmunum höfðu menn matarskrínur sínar, og snéru menn sér til veggjar og hölluðu sér að skrínunni sinni, er þeir mötuðust. Matarforðinn yfir vertíðina, eða útgerðin, eins og það var kallað, var tveir fjórðungar af smjöri, og var því drepið í annan enda skrínunnar, tveir sauðir, annar í hangikjöti og hinn í kæfu, og var kæfunni drepið í hinn enda skrínunnar á haustin um leið og kæfan var soðin. Auk þess lifðu menn á harðfiski og rúgbrauðum. Að sjálfsögðu var útgerð manna nokkuð misjöfn, og misjafnt entist mönnum forðinn, en það algenga var, að menn lifðu á þeim fæðutegundum, sem ég nú hef nefnt, þ. e. lifðu á skrínukosti, eins og kallað er, smökkuðu aldrei heitan mat eða neina vökvun aðra en svart kaffi og „munaðaraukinn eini og bezti, ögn af sykri“ í sjóvettlingi, sem venjulegast var geymdur í órónum sjóvettlingum.

Herdísarvík - skipshöfn 1919;

Herdísarvík – skipshöfn 1919;
Skipshöfn úr Herdísarvík. Formaður Ívar Geirsson sölkutóft, Eyrarbakka.
Efri röð talið frá vinstri: Guðjón Úlfarsson Fljósdal, Fljótshlíð, Sigurður Tómasson Barkarstöðum, Fljótshlíð, Jón Úlfarsson Fljótsdal, Fljótshlíð, Kolbeinn Jóhannesson Eyvík, Grímsnesi, Ólafur Ólafsson Áshól, Holtum, Haraldur Jónsson Gamla-Hrauni, Eyrarbakka.
Neðri röð talið frá vinstri: Sigmundur Jónsson Syðra-Velli, Flóa, Guðmundur Guðjónsson Nýjabæ, Sandvíkurhreppi, Tómas Sigurðsson Árkvörn, Fljótshlíð, Ívar Geirsson Sölkutóft, Eyrarbakka, Jón Árnason Vatnsdal, Fljótshlíð, Jónas Einarsson Garðhúsum Eyrarbakka.

Í sjóbúðinni okkar var hlýtt og notalegt, þótt ekkert væri eldfærið til að hlýja upp með, og útveggir óeinangraðir, enda voru menn engu góðu vanir hvað híbýli snerti og upphitun í húsum þekktist naumast. En ekki er því að leyna, að mataræðið og fatnaðurinn, ullarfötin, hömluðu mjög á móti kuldanum. Jú, ég man eftir einu eldfæri, sem átti það til að vekja menn eldsnemma á morgnana, þegar ræði var, með sínum sterku drunum og hvissi. Það var prímusinn. Það var Páll á Ægissíðu, sem venjulega hitaði morgunkaffið, eftir bendingu frá formanninum, og lét prímusinn gefa til kynna, að nú skyldu menn vakna, rísa upp við dogg að skrínum sínum, taka sér bita eftir því sem lystin leyfði, og fara svo að tígja sig. Formaðurinn tók alltaf fyrstur skinnklæðin, sótti þau inn í geymslu og gaf með því til kynna, að nú skyldi róið. Hásetarnir fóru að dæmi hans, sóttu hver sín bösl, þegjandi og íbyggnir.

Sjóklæði

Sjóklæði.

Það var oft hráslagalegt að fara í skinnklæðin, og sjóveikir menn fengu velgju, því að af skinnklæðunum lagði venjulega sterkan grútarþef. Skinnklæði voru verkuð með því móti, að maka þau í grút eða lýsi. Bar það vott um hirðusemi og snyrtimennsku að hirða skinnklæði sín vel, þurrka þau vel eftir róður, þegar hægt var, og bera á þau lýsi eða fernisolíu. Þegar skinnklæði voru vel hirt, voru þau pottheld og mjúk og ekki stirt að vinna í þeim. Menn skinnklædu sig hljóðlega; það hvíldi yfir því alvara og lotning. Menn smeygðu fótunum til botns í brókina, löguðu framleistinn, bundu á sig sjóskóna; það var lítt nettur skófatnaður, teigðu brókina upp undir hendur, reirðu hana að sér eftir kúnstarinnar reglum. Sumir signdu sig, áður en þeir smeygðu skinnstaknum yfir höfuð sér, vöfðu ermar að úlnlið, dóru saman í hálsmál, bundu um sig mittisbandið, settu á sig sjóhatt og sjóvettlinga. Skinnklæddur maður var karlmannlegur og fyrirferðarmikill. Skinnklæddur maður var friðhelgur. — Formaður fór fyrir til skips. Hann gengur að afturstafni skipsins, sem snýr að sjó. Hásetarnir raða sér að skipshliðunum, stjórnborðshlið, bakborðshlið, hver að sínum keip. Skorður eru losaðar, skipsmenn taka ofan, signa sig og gera krossmark fyrir rúmi sínu.
Þá er hlunnað og skipið sett fram, numið staðar í flæðarmáli, ef lág var; formaðurinn velur lag og kallar snjallt og ákveðið: „Ýtið.“ Nú þarf allt að gerast í skjótri svipan, ýta á flot, komast upp í skipið, setjast undir árar og taka í og róa sprettróður út fyrir landboðana. Nú er skipinu snúið, því skutur gengur á undan þegar ýtt er. Hásetar leggjast á árar og fá skrið á skipið. Ef skipi var vel róið, sýndist ein ár á borð, þegar séð var framan á skipið, þótt fimm eða sex menn reru. Nú sameinast skipverjar allir í hljóðlátri bæn; það er yfirlætislaus en hátíðleg helgiathöfn. Menn lægja róðurinn, taka ofan, drjúpa höfði og lesa sjóferðarbæn og „faðir vor“ og signa sig að bæninni lokinni. Þetta var gert í hverjum róðri, og eins þótt tví- eða þríróið væri: sama daginn. Þessi þagnar- og tilbeiðslustund skipshafnarinnar var þrungin innleik og hátíðablæ og alvöru.

Skrína

Skrína.

Við róum í hálftíma, klukkutíma. Formaðurinn stýrir. Hann ratar að netatrossunni, því að hann þekkir miðin. Framámennirnir grípa belginn, og stjórafærið er dregið inn. Það er oft erfitt að tosa upp stjóranum. Allir toga í stjórafærið, sem liggur eftir endilöngu skipinu, og formaðurinn er endamaðurinn og tekur af slakann, Nótin eru dregin inn, allt á handafli, auðvitað. Tveir draga netin, sinn hvorn tein, steinatein, kúlnatein. Aðrir skipverjar bera í, greiða úr, blóðga, greiða netin og leggja þau greið niður í barkann, andæfa. Það var stundum erfitt að vera í andófi; þessi látlausi róður, þar sem menn voru alltaf að snúa hver á annan. Skipinu áttu andófsmenn að halda beint í vindinn og sjá um að hafa beina niðurstöðu á netunum. Þetta var nokkuð vandasamt, ef strekkingur var, og þá var alltaf verið að rexa í andófsmönnunum: „betur á stjórn og báðir áfram“. Þegar búið var að taka trossuna, voru netin róin út, og var skipinu þá róið aftur á. Oft var vindstaða hagstæð; var þó siglt og var það kærkomið. Þá urðu menn glaðir og gamansamir, sungu eða kváðu:

Sigla á fríðum súðahæng
segja lýðir yndi.
Blakk að riða og búa í sæng
baugahlínar undir væng.
eða: : ’
Sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi
ítar segja yndi mest
og að teygja vakran hest.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Í Herdísarvík var landtaka ekki góð. Það varð oftast að seila út á vegna þess, að skipinu var ekki haldandi í vörinni fyrir brimi. Voru seilarólarnar svo bundnar saman og fest í þær færi og þær látnar fljóta að boðabaki, meðan hleypt var að og skipið sett.

Seilaról

Seilaról og -nál.

Skipin voru venjulega sett aðeins upp fyrir flæðarmál, en í naust, ef talið var að fárviðri væri í aðsigi. Nú voru seilarnar dregnar að landi á færinu, er fest hafði verið í þær. Þá var fiskurinn þræddur af seilarólinni á birgðarólarnar og borinn á bakinu upp á völl. Er því var lokið, labba menn til búðar. Hafði róðurinn þá staðið yfir frá kl. 6 að morgni til kl. 1—2 eða jafnvel 3—4 að deginum, og höfðu menn á þeim tíma sjaldnast notið nokkurrar hvíldar né smakkað vott eða þurrt. Menn tóku því venjulega hraustlega til matar síns. Gert var að fiskinum á aðgerðarvellinum og var hann saltaður í bingi. Meðan fiskur var hertur, þótti Herdísarvík góður herzlustaður vegna hraunsins, og sáust greinilega er fiskurinn var hertur á???

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Þegar vel fiskaðist var kominn dagur að kvöldi, þegar búið var að gera að; voru menn þá orðnir hvíldarþurfi, og tóku á sig náðir. Er menn höfðu gengið til hvílu, var lesinn húslestur, Passíusálmar eða Péturshugvekjur. Ari Þorsteinsson las lesturinn. Það urðu stundum fáir til að þakka fyrir lesturinn. Svefninn hafði seytt þá.

Þórarinn Árnason

Þórarinn Árnason 1912; 1856-1943.

Landlegur voru nokkuð tíðar. Þegar hafátt var, þá var ekki róandi fyrír brimi, og ekki mátti vera hvasst á norðan svo róandi væri. Menn voru oft á báðum áttum með, hvort róið skyldi, og var það kallað, að standa í vomum, Það var formaðurinn, sem gerði það upp við sig, hvort róið skyldi eða ekki, og aldrei heyrði ég neinn malda í móinn yfir ákvörðun formanns, né mögla yfir því, sem gera skyldi. — Í landlegum var oft glatt á hjalla í búðinni. Menn spiluðu, flugust á, tefldu, sungu. Ekkert útvarp, ekkert bókasafn, engin blöð, enginn sími, samgöngur mjög litlar eða engar. Menn urðu að búa að sínu. Það voru sagðir brandarar, og mikið hlegið, og svo sungið við raust, margraddað, sópran, prímóbassi, bassi, án hljóðfæris, án söngstjóra, og aldrei farið út af laginu. Búðarlífið var verulega skemmtilegt, og þar sem ég þekkti, til, ríkti svo heilbrigður og drengilegur andi í þessum félagsskap, að til fyrirmyndar er. Ég man ekki eftir að menn yrðu sundurorða, eða tækjust á í illu, en þarna sást ekki áfengi, nema á sumardaginn fyrsta, þá urðu allir að finna á sér, þá urðu menn góðglaðir og hlógu að fyndninni hver hjá öðrum, og þeim, sem mjöðurinn sveif mest á.

Ólöf Sveinsdóttir

Ólöf Sveinsdóttir 1910.

Þórarinn Árnason, sýslumaður frá Krýsuvík, var ábúandi Herdísarvíkur. Hann átti mjög margt sauðfé. Þórarinn hafði engin afskipti af sjómönnunum eða samskipti. Ég sá hann aldrei nema tilsýndar. Það var eins og hann forðaðist okkur. Konu hans, Ólöfu, sá óg einu sinni. Var hún fríð sýnum og fyrirmannleg.
Þessa vertíð gerðist ekkert markvert sérstaklega. Veðráttan var mjög köld, fiskirí sæmilegt, þegar gaf, og aflinn í vertíðarlok í góðu meðallagi. Einu sinni urðum við að hleypa austur í Selvog vegna útnyrðings.
Landtaka í Selvogi er slæm; þar hef ég orðið hræddastur um líf mitt. Ég held að margur hafi hlotið að biðja vel fyrir sér á sundinu í Selvogi.
Um lokin tvístrast menn og kveðjast með kossi. Menn halda heim til sín með lýsi, matfisk, skreið, sundmaga o.fl. Hluturinn er gerður upp, þegar aflinn hefur verið seldur.
Áraskipin eru horfin af sjónarsviðinu, og þeirra tími kemur aldrei aftur. Róðurinn er ekki lengur hið -lífsnauðsynlega starf, heldur er hann nú stundaður sem íþrótt. Hesturinn, sem rogaðist með byrgðar sínar, færur, skreið, lýsiskvartél o.fl. o.fl. um óbyggðir og vegleysur, er nú ekki lengur þarfasti þjónninn. Það hafa orðið framfarir, og framförunum fögnum við; en vissan bjarma leggur frá því sem var. Bráðum þeysum við í bílum austur Herdísarvíkurhraun, og austur Selvogsheiðar.“

Heimild:
-Jólablað Alþýðublaðsins 1946, 24.12.1946, Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason, bls. 37-45.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.