Tag Archive for: Vogsósasel

Þórarinn Snorrason
Gengið var frá Hlíð við Hlíðarvatn, að Vogsósum, Fornagarði fylgt upp túnið og síðan haldið áfram eftir Kirkjugötunni að Strönd í Selvogi.
Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð, sem mun hafa verið landnámsbær Þóris haustmyrkurs. Reyndar er talið að rústir þær hafi verið á tanga eða hólma, sem er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Eftir að hækkaði í vatninu hafa möguleikar á að skoða þær farið minnkandi.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Frá rústunum liggur Hlíðargata austur og inn með fjallinu, framhjá fjárborginni og tóftunum undir Borgarskarði, Hlíðarborg og Hlíðarseli áleiðis upp á Suðurferðaveg (Selvogsgötu).
Gengið var suður með austanverðu Hlíðarvatni, um Réttartanga og síðan beygt upp á gróna hraunhóla þar austur af, vestan þjóðvegarins. Á þeim eru Borgirnar þrjár, eða Vogsósaborgir eins og þær hafa einnig verið nefndar. Borgir þessar eru nokkuð heillegar. Ekki er vitað hver hlóð þær, en eflaust hafa þær átt að skýla fé svo sem meginhlutverk fjárborganna var. Ekki er ólíklegt að þær hafi verið frá fleiri en einu koti, sem voru þarna skammt frá. Skammt austar, austan þjóðvegarins eru tóftir Vogsósasels.

Hlíð

Hlíðarkot – tóftir.

Frá Borgunum er ágætt útsýni yfir Hlíðarvatn, hólmana, Víðisand sunnar og Alnboga, vestan fráfallsins úr vatninu. Þar lá gamla þjóðleiðin frá Strönd yfir ósana og áfram áleiðis að Herdísarvík. Jörðin þar fór í eyði árið 1957 eftir að Hlín flutti burt 17 árum eftir andlát Einars Benediktssonar.

Gengið var að enda Fornagarðs (Strandargarðs) neðan við túnið á Vogsósum og honum fylgt áleiðis upp túnið. Vogsósar var stórbýli og prestsetur á fyrri tíð. Þar bjó galdrapresturinn Eiríkur Magnússon á ofanverðri sautjándu öld og fram á þá átjándu. Margar sögur eru til af Eiríki og göldrum hans. Aldrei notaði hann galdur sinn til ills en gerði mönnum glettur og aðallega ef á hann var leitað að fyrra bragði.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1840 segir að Vogsósaland sé “allt að framan gjörspillt af sandágangi, verr en Austurvogurinn, því að sönnu fýkur hann af austur- og landnyrðingsáttum eins á þetta land og Austurvoginn. En þar að auki líka því meir af útnorðri og til með af vestri, sem það er nær Víðasandi. Þegar ósinn er undir ís, fær túnið á Vogsósum óbætanleg áföll af sandi í vestanstormum, t.d. næstliðinn vetur.”
Árið 1847 voru Strönd og Vindás komnar í eyði og eru taldar með Vogsósum sem eru beneficium og liggja Hlíð og Stakkavík og 3 ½ hdr í Þorkelsgerði undir kirkjuna. “Prestsetrinu fylgja 2 ásauðar kúgildi og 1 veiði- og heyflutníngsbátur. Tún er lítið mjög og hætt við sandfoki, og utantúns slægjum eins, en landkostir eru góðir og útibeit góð. Jarðarhlynnindi eru hér að auki talin, þó mínkandi fari; sela- og silúngsveiði og sölvatak, sem líka gengur af sér, einkum af sandfoki, en höfuðkosturinn er trjáreki. Selvogs kirkja á ítak í Krýsuvíkur fuglbergi.

Vogsósar

Vogsósar – kirkjugatan að Strönd.

Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa og umlukið þar bæ er nefndur er Vogshús, enda er hann nefndur svo í fornbréfum. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra.”
Þess má geta að suðaustan við túnið á Vogsósum eru óþekktar rústir, fast austan við Fornagarð.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Frá Vogsósum er ágætt útsýni upp að Svörtubjörgum. Á þeim er Eiríksvarðan. En “þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svco langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er svo hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon … dó 1716 … og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.”
Margar sögur eru til af Eiríki, presti á Vogsósum. Eftir að Eiríkur var orðinn prestur í Selvogi komst það orð á að hann væri göldróttur. Kallaði þá Skálholtsbiskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann að gera grein fyrir því hvort hann kynni eitthvað úr þeirri bók. Eiríkur fletti upp bókinni og sagði; “Hér þekki ég ekki einn staf”! Og sór fyrir það. Síðar sagði hann að þetta þýddi ekki að hann þekkti engan staf í bókinni heldur að hann þekkti alla stafi bókarinnar nema einn.

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarðs er getið í heimildum. Segir m.a. að “Vogósatúngarður var girtur aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: „Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…“ (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér.“
Stefnan var tekin suður yfir heimatúnið, að Kirkjugötunni, sem liggur yfir að Strönd. “Kirkjugatan lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogósum og áfram suður að Strandarkirkju.“ Hún sést enn vel þar sem hún liggur um sandinn, enda ávallt mikið farin þangað til fyrir tiltölulega stuttu síðan.

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd í Selvogi – einnig nefndur „Staður“.

Selvogur er vestasta byggð í Árnessýslu og var lengst af fremur afskekkt og einangrað byggðarlag. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og vegamál hafa verið í ólestri fram undir þetta. Á fyrri tíð voru í Selvogi margar jarðir og víða stórbúskapur og gjöful fiskimið undan landi. Síðast var gert út á vetrarvertíð úr Selvogi árið 1950 og eftir það hafa bændur lifað eingöngu af landbúnaði og einkum sauðfjárbúskap því mjólk var ekki sótt á bæi í Selvogi til að flytja í mjólkurbú. Í byrjun tuttugustu aldar eru um 20 býli í Selvogi en nú mun búskapur lítill í sveitinni.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sagan segir frá sjómönnum sem fyrir langa löngu villtust í hafi og hétu því að byggja kirkju þar sem að þeir kæmu að landi ef þeir lifðu af. Eftir áheitið leiddi engill þá heila á húfi að landi í Engilsvík og þeir byggðu kirkju að Strönd. Kirkjan sem nú stendur að Strönd var reist seint á nítjándu öld og endurbyggð árið 1967. Í henni er gömul altaristafla frá 1865 og kaleikur kirkjunnar er merkilegur en hann er forn gefinn kirkjunni af Ívari Hólm lögmanni og hirðstjóra sem sat á Strönd en einnig á Bessastöðum. Kaleikur þessi er eini gullkaleikurinn sem til er hér á landi og því mikil gersemi. Síðasti prestur sem bjó í Selvogi var séra Eggert Stefánsson merkur maður en hann þjónaði Strandarkirkju á árunum 1884 til æviloka 1908. Þá var prestakallið lagt niður sem sérstakt prestakall.

Vogsós

Vogsósaborgir.

Helgi og átrúnaður á Strandarkirkju virðist hafa komið upp mjög snemma eins og sagan af áheiti skipshafnarinnar sýnir og væntanlega fylgt henni alla tíð. Öldum saman hefur verið heitið á kirkjuna í lífsnauð og hvers kyns öðrum erfiðleikum. T.d. munu norskir sjómenn snemma hafa heitið á kirkjuna og eignaðist hún skógarhögg í Noregi. Í gegnum aldirnar hefur kirkjunni því safnast mikill auður, bæði dýrmætir gripir og peningar. Hluta af því hefur verið varið til endurbóta á kirkjunum en einnig hefur þetta fé verið lánað til kirkjubygginga víða um land.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðn uppdrátt af Selvogi.

Stórbýli var á Strönd og á staðurinn sér mikla sögu frá fornu fari þótt þar sé ekki lengur búið og vafalítið eitt af elstu býlum sveitarinnar. Fram yfir aldamótin sextán hundruð voru 7 eða 8 býli á Strönd en hverfa úr byggð á 17. öld og árið 1696 fer höfuðbólið sjálft í eyði. Því olli uppblástur og sandfok sem gerði jörðina óbyggilega, sem fyrr sagði.
Eftir að Strönd fór í eyði var um það rætt að flytja kirkjuna en fólkið var á móti því þar sem það taldi hættu á að við það glataði kirkjan mætti sínum og helgi. Hún stendur því enn á sama stað og í upphafi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn
-http://www.utivist.is

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Þorkelsgerðissel

Gengið var að Hásteini þar sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður í Strandarkirkju, tók á móti þátttakendum. Með í för var einnig Guðmundur G. Þorsteinsson, hellafræðingur með meiru. Kristófer vísaði m.a. á Svarthól, sem er þarna vestan við Hástein (Hásteina).

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Undir Svarthól eiga að vera tóttir. Ætlunin var að skoða þær síðar. Þá lýsti Kristófer landamerkjum og fl. með vísan til væntanlegra selfunda á og við Selvogsheiði. Þessi ferð var sérstök að því leyti að ætlunin var að finna nokkra staði, a.m.k. einn þeirra hafði hingað til ekki verið merktur inn á kort og aðeins örfáir núlifandi menn vissu hvar væri að finna. Þá áttu fleiri uppgötvanir eftir að koma á óvart í ferðinni.

Á kortum er Bjarnastaðaból sagt vera við Hástein. Þar eru tóftir og hleðslur. Ekki er ólíklegt að þar hafi einhvern tíma verið selstaða. Upplýsingar höfðu borist um að selið frá Bjarnastöðum væri hins vegar mun ofar í heiðinni. Gengið var áleiðis þangað eftir áður gefinni leiðarlýsingu Snorra frá Vogsósum, með stefnu til norðausturs að Hnúkunum, en þar undir brekkunum, u.þ.b. kílómeter ofan við Háststein, átti Bjarnastaðaból að vera. Það reyndist líka vera þar. Uppi á og vestan undir hól áður en komið var að efsta hólinn undir brekkunum var stórt sel með allmörgum tóttum. Hlaðinn stekkur var vestan af selinu, einnig á hól.

Þorkelsgerðissel

Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Suðvestan við Bjarnastaðaból, í svipaðri fjarlægð frá Hásteini, í norður frá honum, var gengið fram á Þorkelsgerðisból, einnig stórt sel með mögum tóttum. Stekkurinn var á hól skammt norðan við selið. Á kortum hefur Þorkelsgerðissel verið sýnt norðan til við Vörðufell, nálægt Eimubóli.

Eimuból

Eimuból – uppdráttur ÓSÁ.

Línan var tekin norður fyrir Vörðufell, um tveggja kílómetra leið, þar sem komið var að Eimubóli. Tóttirnar eru austan við stórt gróið jarðfall, en í því eru hellisop til suðurs og norðurs. Hlaðinn gerður er ofan og umhverfis opið. Í öðru jarðfalli skammt sunnar er gömul tótt og kví. Hellir þar í suður hefur verið notaður sem fjárhellir. Hleðsla er inn í honum miðjum. Op er upp úr þeim helli skammt sunnar. Að sögn Guðmundar eru Eimuhellar, eða Eimuhellir því um eina sundurslitna hraunrás er að ræða, um 400 metrar í heildina. Norðan við stóra jarðfallið er hlaðinn stekkur og einnig er hlaðinn lítill stekkur ofan á syðsta opinu, ofan við fjárhellinn.

Vindássel

Vindássel – Uppdráttur ÓSÁ.

Tóttir eru skammt austan við Eimuból, Vindássel. Landamerki Eimu og Vindáss liggja í vörðu syðst á Vörðufelli og í vörðu á Hellholti. Frá Vindásseli mátti vel sjá gömlu réttina ofan á Vörðufelli.
Gengið var að Einbúa vestan Vörðufells. Um 200 metrum vestan við hólinn er gróið jarðfall. Niður í því er gamalt tófugreni. Guðmundur kannaði hraunrás, sem þar er og virtist hún ná eitthvað til norðurs og einnig til suðurs. Rásin mun verða skoðuð nánar síðar. Botninn í rásinni er hrjúfur. Loftið innan við munnann stendur á hraunsúlum.

Bjarnastaðaból

Stekkur í Bjarnastaðabóli.

Þá var gengið til norðurs í átt að Hraunhól í mið Svörtubjörg, vestan við Hellholt. Á meðan aðrir leituðu að tóttum, sem áttu að vera þar í slakka miðsvæðis, en þó vestar, kíkti Guðmundur í Bólið, helli austan í Hellholti. Við opið er lítil tótt og inni í hellinum eru miklar hleðslur. Í leiðinni var litið ofan í hraunrás suðvestan Hellholts, en hún reyndist vera um 10 metra löng. Nánar verður fjallað um Hellholtssvæðið í annarri FERLIRslýsingu.
Eftir nokkra leit fannst tóttin, sem nefnd hefur verið Strandarsel (Staðarsel) uns annað vitnast. Stór varða er á hæð austan við tóttina og liggur gömul leið úr suðri í átt að vörðunni, en sunnan hennar beygir gatan til vesturs að selinu. Suðvestan við tóttina er fallega hlaðinn stekkur.
Gengið var í átt að Hlíðarborg, en þar sunnan borgarinnar átti skv. lýsingu að vera önnur hlaðinn fjárborg, svonefnd Valgarðsborg. Hún var þar líka, hringlaga og hefur verið allnokkuð mannvirki á sínum tíma.
S

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓsÁ.

vo gerðist hið furðulega. Á leið frá Valgarðsborg að Hlíðarborg í norðvestri gengu þátttakendur fram á stórt sel. Það er að öllum líkindum Hlíðarsel, en bein sjónlína er að frá selinu að bænum Hlíð norðan við Hlíðarvatn. Selið er efst í brúninni í austur séð frá Hlíð. Í örnefnalýsingu fyrir Hlíð er getið um Selstöðu frá Hlíð í Selbrekkum, sem eiga að vera skv. henni ofan við Vogsósaréttina við girðinguna austan við Hlíðarvatn. Ekki var að sjá nein merki um minjar þar, a.m.k. ekki að þessu sinni. Hér gæti verið um ónákvæma staðsetningu að ræða, en selstaðan hins verið sem hér getur.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Skammt norðan við selið, handan girðingarinnar, er Hlíðarborg, mikið mannvirki vestan undir háum hraunhól. Niður með borginni til vesturs liggur greinileg gömul gata (Hlíðargata) áleiðis að Hlíð við Hlíðarvatn. Við hana eru litlar vörður og vörðubrot. Skammt norðar eru tóftir (borg o.fl.) undir Borgarskörðum.
Frá Hlíðarborg var gengið að hellinum Ána, en við op hans eru talsverðar hleðslur. Ennig er hlaðinn lágur garður skamma leið til suðurs frá hleðslunum.
Loks var haldið yfir að Vogsósaseli, sem er skammt austan við Vogsósaréttina. Selið eru tvær tóttir efst á hraunhrygg sunnan Vatnaása.
Ferðin var frábær. Veður einnig – hlýtt, stilla og sól. Gangan tók 5 klst og 11 mín.
Bjarnastaðasel

Bjarnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Áni

Gengið var frá Selvogsréttunum austan við Hlíðarvatn og upp í Selbrekkur neðst í svonefndu Rofi. Þar voru skoðaðar tóftir Vogsósasel við Stekkjardældir, sem sumir hafa álitið vera Hlíðarsel. Tóftirnar eru innan marka Vogsósa. Þórarinn, bóndi, staðfesti að um sel frá þeim bæ væri að ræða.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Gengið var áfram austur Rofið og stefnan tekin á einn af stærstu hraunhólunum í heiðinni, með stefnu á Katlabrekkur. Þar undir vestanverðum hólnum er Hlíðarborgin. Hún hefur verið allnokkurt mannvirki, en verið breytt síðar því inni í henni er hlaðið hús eða stekkur. Hvorutveggja gæti hafa tengst athöfnum í Hlíðarseli, sem er þarna skammt frá. Selið er í nokkurra mínútna fjarlægð til suðausturs, utan í og á grónum hól. Þar eru talsverðar rústir, sem rissa þarf upp við tækifæri. Austan við tóftirnar er nafngreind fjárborg.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var til norðurs inn á svonefnda Hlíðargötu, er liggur frá Suðurfaravegi (Selvogsgötu) þar sem hann kemur niður úr Strandardal áleiðis að Strönd í Selvogi, og henni fylgt til vesturs, áleiðis að tóftum bæjarins Hlíðar. Við götuna er fjárborg undir Borgarskörðum og tvær tóftir skammt vestar. Op hellisins Ána birtist á vinstri hönd.
Þegar komið er að Hlíð ofan við Hlíðarvatn verða fyrst fyrir tóftir norðan þjóðvegarins. Þar móta fyrir húsum og görðum. Sunnan þjóðvegarins eru bæjartóftir og skammt vestar með vatninu eru tóftir útihúsa og garðar.
Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú í bráðum 80 ár. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn, en talið er að elsti bæjarhlutinn hafi verið við tanga, sem nú stendur út í vatnið þar fyrir neðan. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær rústir í kaf.

Borgarskarðsborg

Borgarskarðsborg.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá bókinni í álfheimum. Í henni segir frá komu skips á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður. Stýrimaður tók Jón nokkurn með sér út í skipið eftir nokkrun aðdraganda og leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fekk Jón eigi annað að sjá og fer með það. Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríkur spyr hann að: „Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?“ Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann: „Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.“
Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið. Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga. Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: „Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.“

Hlíðarkot

Tóft ofan Hlíðar.

Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fekk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna. Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum. Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu.
Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.
Segir önnur saga frá því að Eiríkur hafi komið þessari miklu galdrabók, sem síðar var nefnd Gullskinna, fyrir í Kálfgili við Urðarfell ofan við Svörtubjörg. Þess er og getið að í bókinni sé getið um upphaf byggðar á Íslandi og að sú lýsing sé önnur ern segir frá í síðari tíma skrifum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.