Færslur

Hafnir

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.

Skálinn

Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það  var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli “Vágs ok Reykjaness”, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið “vágr” og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog. Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Landnámsbærinn

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum.

Kirkjuvogskirkja

Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil “hús” austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.
Vogur - tilgátaÁ skilti við minjarnar stendur: “Árið 2003 fundust á þessum stað tóftir langhúss sem er 18m að lengd og 8 m að breidd. Þá eru greinilegar tóftir fleiri smáhýsa á svæðinu. Við C14 aldursgreiningu fornleifasýna kom fram sterk vísbending um að bærinn hafi verið reistur fyrir árið 900. Frekari rannsóknir eiga eftir að fara fram á svæðinu. Mögulega er hér kominn bústaður Herjólfs Bárðarsonar.
Svo segir í Landnámu: “Herjólfr… var frændi Ingólfs ok fóstbróðir. Af því haf Ingólfs honum land millum Reykjaness og Vágs. Hann sonr var Bárðr, faðir Herjólfs, þess er fór til Grænlands ok kom í hafgreningar.”. Herjólfur, landnámsmaður í Vogi, hefur því verið langafi Bjarna Herjólfssonar sem fyrstur Evrópumanna sá meginland Ameríku.
Reykjanesskaginn allur fellur undir Landnám Ingólfs Arnarssonar. Síðar gaf hann þeim sem hann vildi úr landnámi sínu. Þannig hefur landið sem Herjólfur fékk náð yfir allan Hafnahrepp.
Örnefnið “Vogur” er væntanlega eldri mynd af “Kirkjuvogi”. Einnig er þekkt örnefnið “Lögrétta” úr nágrenninu sem talið er að sé undir norðaustur horni kirkjugarðsins.”
Við Kirkjuvogskirkju er annað ankerið af Jamestown, sem náðst hefur upp af strandstaðnum við Ósa. Austan þess var Lögréttan.

Heimild:
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.
-Upplýsingaskilti við “landnámsbæinn” í Vogi (Höfnum).

Hafnir

Skilti við “Vog” í Höfnum.

Flekkuvík

Í Sunnudagblaði Tímans árið 1964 segir Björn Þorsteinsson frá “Upphafi síldveiða við Faxaflóa”:
“Flekkuvík er yzt bæja við Vatnsleysuvíkina. Úr Dalsfirði í Noregi, heimabyggð Ingólfs landnámsmanns, skerst Flekkufjörður, kenndur við bæinn Flekku. Þaðan á Flekka landnámskona að hafa komið. Ingólfur fékk henni bólstað í Flekkudal í Kjós. Þar festi hún ekki yndi og fluttist í víkina, sem við hana er kennd. Þar var gnægð veiðiskapar undan ströndinni og góð lending, en vandrötuð. Flekka mælti svo fyrir andlát sitt, að sig skyldi heygja í túninu gegnt innsiglingunni og aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan kumlið sæist. Þessu hafa menn trúað og sennilega orðið að trú sinni.
flekkusteinn-221Í túninu í Flekkuvík er dálítil þúst, klapparhóll, sem nefnist Flekkuleiði. Á honum liggur hraunhella, letruð rúnum: „Hér hvílir Flekka”. Rúnirnar munu ristar á 17. eða 18. öld til virðingar við verndarvættina Flekku. Enginn man lengur nein deili á húsfreyjunni, sem kastaði fram stökunni:
Anza náði auðarbrík:
“Er minn bóndi, Skellir, róinn.
Fæst oft björg í Flekkuvík fyrir þá, sem stunda sjóinn.”
Í Flekkuvík er tvíbýli og gerðu bændur þar út sinn sexæringinn hvor seint á 19. öld, segir Ágúst Guðmundsson frá Halakoti í endurminningu sínum. Pétur Helgason, ungur formaður á báti frá Flekkuvík, bjargaði fimm mönnum af kili í óveðri undan Keilisnesi. Skipið var frá Vatnsleysu, og fórst þar formaðurinn, Auðun Jónsson, við þriðja mann. „En eftir þann róður fór Pétur aldrei á sjó, og var það skaði mikill með svo vaskan mann”, segir Ágúst. Þetta var 1887, þann 29. marz.
Síld hefur löngum gengið á Faxaflóa, en lítil tök höfðu Íslendingar á því að veiða hana og nýta. Stundum rak hana á f jörur í stórviðrum. Um sumarmál 1863 er sagt, að rekið hafi feikn af síld í Vogum. Á síldarhrönnin við ströndina að hafa náð mönnum í mitt læri.
Árið 1880 fór Ívar Helgason, bróðir Péturs, til Noregs, ásamt tveimur öðrum mönnum, til þess að læra síldveiðar. Hann kom upp með 30 síldarnet og hóf veiðar. Síldina notaði hann einkum í beitu og varð manna aflasælastur. Af Ívari lærðu menn hina nýju veiðitækni. Síldveiðar við Faxaflóa eiga upphaf sitt að rekja til Flekkuvíkur.”

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 13. september 1964, bls. 858-859.
Flekkuvík

Hafnir

Við kirkjugarðsvegg Kirkjuvosgkirkju að vestanverðu er skilti. Á því er Höfnum og kirkjum byggðalagsins þar lýst í máli og myndum:

Hafnir
Elstu ritheimild um byggð í Höfnum er að finna í landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og reykjaness. landssvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokku við Eyrarbakka og þaðan til grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Ávallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogyr. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væru að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Hafnir

Kotvogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúða líkt og á L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.
Hafnir
Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn, sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.
Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar jarðeldahrinu á Reykjanesi á 13. öld, tók land að eyðast vegna sandfosk. Byggðin hefur hopað og nú er svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.
HafnirÁ 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér til rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.
Nú er byggðin að mestu í gamla Kirkjuvogshverfinu sem nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns undanfarna áratugi.

Kirkjur í Höfnum

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Kirkja hefur verið [í] Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.
Núverandi kirkja, Kirkjuvosgkirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyr og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðarmiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar, þjóðminjavarðar, voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld. Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónasemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr. Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.
Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðarbókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvosghverfinu.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.