Gengið var í fylgd Guðmundar Óskarssonar upp frá Hásteinum eftir að tóttirnar undir þeim höfðu verið skoðaðar sem og LM-merkið á landamerkjasteini er skipti löndum Bjarnastaða og Þorkelsgerðis.
Stekkur í Bjarnastaðaseli (-bóli).
Komið var í Bjarnastaðaból og skoðaðar tóttirnar þar sem og hlaðinn stekkur vestan við selið. Selið hefur verið nokkuð stórt. Haldið var til vesturs að Þorkelsstaðaseli, en þar er m.a. að finna tóttir fimm húsa og hlaðinn stekk í hraunhól norðan við selið. Þá var lagt í ´ann til norðvesturs um Selvogsheiði, upp í Eimuból þar sem selið var skoðað, eldri tóttir í grónu jarðfalli sem og Eimuhellir. Einn hluti hans hefur verið notaður sem fjárskjól og í öðrum hluta eru miklar hleðslur, líklega fullhlaðinn stekkur. Sá hluti hellisins gæti hafa verið notaður við fráfærur. Skammt austan við Eimuból eru tóttir Vindássels. Norðan þess er hlaðinn stekkur. Selminjarnar eru sumar hverjar greinilegar, en mjög gamlar.
Vörðufell – LM/krossmark?
Gengið var til suðurs á Vörðufell þar sem hin mikla Vörðufellsrétt var skoðuð. Þá var litið á Smalavörðurnar og fornt krossmark í steini sunnan undir stóru Vörðufellsvörðunni. Brotnað hefur ofan af steininum, en enn sést vel móta fyrir krossmarkinu. Í örnefnalýsingu er kveðið á um að þarna eigi að vera letrað stafurinn M, sbr. landamerki. Varðan ofan við steininn gegnir hlutverki í lýsingu af viðureign Eiríks galdraprests á Vogsósum og Tyrkja sem og varðan þar fyrir ofan – á Svörtubjörgum.
Í Strandarhelli.
Strikið var loks tekið niður á Strandarhæð og komið við í Strandarhelli. Hringlaga hleðsla er allt í kringum jarðfallið á Strandarhelli og er hellirinn þar ofan í. Hlaðið gerði er í kringum hól norðvestan við hellinn og einnig er hlaðið stórt hringlaga gerði vestan og sunnan við jarðfallið. Norðan þess eru tveir stórir skútar í hraunhól.
Strandarhellir var skoðaður vel og vandlega. Fyrirhleðslur eru á tveimur stöðum inn í honum. Hægt er að fara yfir hleðslurnar og skríða áfram inn eftir rásunum. Hægri rásin virðist vera vænlegri, en vegna moldar á gólfum var ekki farið þangað innfyrir nú. Þægilegra er að gera það þegar gólfið er frosið um vetur.
Í Strandarhelli.
Hægra megin í hellinum er hleðsla fyrir mjórri hraunrás. Innan við hleðsluna beygir hún til hægri og stækkar. Hægt er að far inn eftir rásinni, en eftir um 10-15 metra þrengist hún alveg og lokast. Í suðvestanverðu jarðfallinu virðist hins vegar hægt að komast inn undir hraunið og eitthvað áfram. Skríða þarf þar inn, en hvað tekur við þar fyrir innan er ómögulegt að segja. Þetta þarf einnig að skoða nánar. Strandarhellir er í um 15 mín. gangi frá þjóðveginum svo auðvelt ætti að vera að kíkja í hann aftur við tækifæri og þá með viðhlítandi búnað.
Komið var við í Bjargarhelli og hann skoðaður. Fyrirhleðslur eru í honum á tveimur stöðum. (Fjallað hefur verið nokkuð um Bjargarhelli í öðrum FERLIRslýsingum).
Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.
Loks var gengið niður á þjóðveg, framhjá Árnavörðu. Skammt frá henni er hlaðið byrgi fyrir refaskyttu, en þaðan hefur hún haft ágætt útsýni um og niður fyrir Strandarhæð. Skammt norðan vörðunnar liggur gömul þjóðleið vestur og austur um hæðina. Ekki var komið við í Gap (Gaphelli) að þessu sinni, en hann er u.þ.b. 300 metrum vestan við Bjargarhelli. Framan við Gaphelli er Gapstekkur, fallega hlaðinn og heilllegur.
Suðvestan við Bjargarhelli er hola í gróinn hraunhól og þar ofan í er skúti. Sumir segja það þar sé Bjargarhellir, en sú saga fylgir hellinum að í hann hafi fólk úr Selvogi ætlað að flýja ef Tyrkirnir létu sjá sig að nýju. Hella átti að vera við opið, sem hægt var að hylja það með.
Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.
Engin slík hella er á hólnum nú, en gróið gæti hafa yfir hana eða hún tekin í nálæga vörðu. Mold er inni í skútanum, en þrátt fyrir lítið op er innihaldið sæmilega rúmgott. Bjargarhellir hefur þó verið öllu álitlegri til dvalar. Þótt mold sé í botni hans nú er grunnt niður á slétt hraungólfið. Í honum hafa einnig verið vatnspollar, sem gætu hafa komið sér vel, auk þess sem opið er ekki auðfundið ókunnugum.
Suðvestan af hólnum eru tveir litlir skútar – Litli-Skolli og Stóri-Skolli.
Ljóst er að bæði Selvogsheiði og Strandarheiði hafa upp á fjölmarg forvitnilegt að bjóða þeim, sem það nenna að skoða.
Veður var ágætt – hliðarvindur og frískurlegur andblær. Gangan tók u.þ.b. 4 klst.
Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.