Tag Archive for: Vörðufell

Vörðufellsrétt

„Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsuvíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell.“
Í örnefnaskrá fyrir Þorkelsgerði í Selvogi segir m.a. um Vörðufell: „Allangt austan við norður frá strandhæð er Vörðufell, eldgígur. Á því er Markavarða milli Eimu og Þorkelsgarðis [á að vera Eimu og Strandar (ÞS)]. Neðan undir vörðunni er stafur í klöpp (M).

Vörðufell

Markavarðan á Vörðufelli.

Á [Vörðu]fellinu eru margar vörður hingað og þangað, Vörðufellsvörður, sem hlaðnar eru af unglingum. Það brást þeim aldrei, er þeir voru að leita að skepnum, að þeir fundu það, sem leitað var að, ef þeir settu stein í vörðu eða hlóðu nýja, Eyþór kannast vel við þetta.“
Skv. örnefnalýsingum á stafurinn M að vera markaður á jarðfastan stein sunnan við Markavörðuna syðst á fellinu. Þegar betur er að gáð er þar um að ræða kross, en sprungur beggja vegna. Efri hluti steinsins hefur brotnað af skammt ofan við krossinn. Á fellinu eru enn urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Á Vörðufelli er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924.

Svörtubjörg

Þórarinn Snorrason á Vogsósum á ferð með FERLIRsfélögum í Vörðufelli.

Jón Árnason III 505

 

Bjarnastaðaból

Gengið var í fylgd Guðmundar Óskarssonar upp frá Hásteinum eftir að tóttirnar undir þeim höfðu verið skoðaðar sem og LM-merkið á landamerkjasteini er skipti löndum Bjarnastaða og Þorkelsgerðis.

Bjarnastaðasel

Stekkur í Bjarnastaðaseli (-bóli).

Komið var í Bjarnastaðaból og skoðaðar tóttirnar þar sem og hlaðinn stekkur vestan við selið. Selið hefur verið nokkuð stórt. Haldið var til vesturs að Þorkelsstaðaseli, en þar er m.a. að finna tóttir fimm húsa og hlaðinn stekk í hraunhól norðan við selið. Þá var lagt í ´ann til norðvesturs um Selvogsheiði, upp í Eimuból þar sem selið var skoðað, eldri tóttir í grónu jarðfalli sem og Eimuhellir. Einn hluti hans hefur verið notaður sem fjárskjól og í öðrum hluta eru miklar hleðslur, líklega fullhlaðinn stekkur. Sá hluti hellisins gæti hafa verið notaður við fráfærur. Skammt austan við Eimuból eru tóttir Vindássels. Norðan þess er hlaðinn stekkur. Selminjarnar eru sumar hverjar greinilegar, en mjög gamlar.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Gengið var til suðurs á Vörðufell þar sem hin mikla Vörðufellsrétt var skoðuð. Þá var litið á Smalavörðurnar og fornt krossmark í steini sunnan undir stóru Vörðufellsvörðunni. Brotnað hefur ofan af steininum, en enn sést vel móta fyrir krossmarkinu. Í örnefnalýsingu er kveðið á um að þarna eigi að vera letrað stafurinn M, sbr. landamerki. Varðan ofan við steininn gegnir hlutverki í lýsingu af viðureign Eiríks galdraprests á Vogsósum og Tyrkja sem og varðan þar fyrir ofan – á Svörtubjörgum.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Strikið var loks tekið niður á Strandarhæð og komið við í Strandarhelli. Hringlaga hleðsla er allt í kringum jarðfallið á Strandarhelli og er hellirinn þar ofan í. Hlaðið gerði er í kringum hól norðvestan við hellinn og einnig er hlaðið stórt hringlaga gerði vestan og sunnan við jarðfallið. Norðan þess eru tveir stórir skútar í hraunhól.
Strandarhellir var skoðaður vel og vandlega. Fyrirhleðslur eru á tveimur stöðum inn í honum. Hægt er að fara yfir hleðslurnar og skríða áfram inn eftir rásunum. Hægri rásin virðist vera vænlegri, en vegna moldar á gólfum var ekki farið þangað innfyrir nú. Þægilegra er að gera það þegar gólfið er frosið um vetur.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Hægra megin í hellinum er hleðsla fyrir mjórri hraunrás. Innan við hleðsluna beygir hún til hægri og stækkar. Hægt er að far inn eftir rásinni, en eftir um 10-15 metra þrengist hún alveg og lokast. Í suðvestanverðu jarðfallinu virðist hins vegar hægt að komast inn undir hraunið og eitthvað áfram. Skríða þarf þar inn, en hvað tekur við þar fyrir innan er ómögulegt að segja. Þetta þarf einnig að skoða nánar. Strandarhellir er í um 15 mín. gangi frá þjóðveginum svo auðvelt ætti að vera að kíkja í hann aftur við tækifæri og þá með viðhlítandi búnað.
Komið var við í Bjargarhelli og hann skoðaður. Fyrirhleðslur eru í honum á tveimur stöðum. (Fjallað hefur verið nokkuð um Bjargarhelli í öðrum FERLIRslýsingum).

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Loks var gengið niður á þjóðveg, framhjá Árnavörðu. Skammt frá henni er hlaðið byrgi fyrir refaskyttu, en þaðan hefur hún haft ágætt útsýni um og niður fyrir Strandarhæð. Skammt norðan vörðunnar liggur gömul þjóðleið vestur og austur um hæðina. Ekki var komið við í Gap (Gaphelli) að þessu sinni, en hann er u.þ.b. 300 metrum vestan við Bjargarhelli. Framan við Gaphelli er Gapstekkur, fallega hlaðinn og heilllegur.
Suðvestan við Bjargarhelli er hola í gróinn hraunhól og þar ofan í er skúti. Sumir segja það þar sé Bjargarhellir, en sú saga fylgir hellinum að í hann hafi fólk úr Selvogi ætlað að flýja ef Tyrkirnir létu sjá sig að nýju. Hella átti að vera við opið, sem hægt var að hylja það með.

Strandarhæð

Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Engin slík hella er á hólnum nú, en gróið gæti hafa yfir hana eða hún tekin í nálæga vörðu. Mold er inni í skútanum, en þrátt fyrir lítið op er innihaldið sæmilega rúmgott. Bjargarhellir hefur þó verið öllu álitlegri til dvalar. Þótt mold sé í botni hans nú er grunnt niður á slétt hraungólfið. Í honum hafa einnig verið vatnspollar, sem gætu hafa komið sér vel, auk þess sem opið er ekki auðfundið ókunnugum.
Suðvestan af hólnum eru tveir litlir skútar – Litli-Skolli og Stóri-Skolli.
Ljóst er að bæði Selvogsheiði og Strandarheiði hafa upp á fjölmarg forvitnilegt að bjóða þeim, sem það nenna að skoða.
Veður var ágætt – hliðarvindur og frískurlegur andblær. Gangan tók u.þ.b. 4 klst.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Vörðufell

Á leið að Strandarhæð var komið við í tóttum bæjarins Fell í Krýsuvík. Tóttirnar eru í gróinni kvos skammt sunnan við Grænavatn, í hæðinni þar sem hún halar til vesturs.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Á Strandarhæð var byrjað á því að skoða Bjargarhelli, helli þann er Selvogsbúar ætluðu að dyljast fyrir Tyrkjum, ef þeir snéru aftur. Skammt austan hans er Gapið, rúmgóður fjárhellir. Umhverfis hann er gerði, Gapstekkur, en umhverfis gerðið er annað ytra gerði. Frá Gapinu var gömlu þjóðleiðinni fylgt þangað til komið var á móts við Strandarhelli. Hann er í norður frá götunni. Hellirinn er gamall fjárhellir, stærstur þeirra, í stóru fjarðfalli. Umhverfis jarðfallið hafa verið hlaðnar miklar hleðslur og umhverfis þær eru vítt hlaðið gerði. Þegar komið er ofan í gróið jarðfallið eru hleðslur fyrir hellismunnanum. Skammt norðan af hellinum er hlaðið stórt gerði umhverfis hól. Þaðan blasir Vörðufellið við. Haldið var í átt að því, en skammt sunnan fellsins er Ólafarsel, mjög gamalt sel í grónum hraunkrika Vörðufellshrauns. Skammt austan við selið er hlaðinn stekkur utan í kletti.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Á Vörðufelli er Markavarða, landamerkjavarða. Undan henni er fornt krossmark á jarðföstum steini. Marks þessa er getið í mjög gömlum heimildum, en þá sem stafurinn „M“. Ástæðan er sprungur í steininum beggja vegna krossins. Ofar eru Smalavörðurnar, en þeim fylgdi sú þjóðtrú að hlæði smali vörðu á fellinu myndi hann umsvifalaust finna það sem týnt væri.
Á Vörðufelli er líka stór hlaðinn rétt, Vörufellsrétt. Norðan út af henni er hlaðinn leiðigarður. Réttin var lögð af seint á fjórð áratug 20. aldar og önnur nýrri þá hlaðinn ofan við Hellsholtið nokkru ofar í heiðinni.

Eimiból

Eimuból – hleðslu í helli.

Austan við Vörðufell eru þrjú sel. Fyrst er komið að Vindásseli, miklum tóttum á hól. Ofar er Eimuból á bakka jarðfalls. Hefur hellir, sem þar er verið nýttur sem fjárhellir, enda má sjá hringlaga hleðslur á og ofan við opið. Skammt sunnar, í grónu ílöngu jarðfalli, er forn tóft. Við það er fjárhellir. Í honum er hlaðinn stekkur.
Skammt austar er Skyrhellir í hraunhól, en þar var skyr seljafólks geymt fyrrum.
Frábært veður.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gapi

Gengið var á Strandarhæð ofan við Selvog að Gaphelli. Heimildir herma að hann hafi rúmað sex tugi fjár. Framan við hann er Gapstekkur. Þaðan var haldið að Strandarhelli austan í hæðinni.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Í hellinum, sem er vel rúmur að innanmáli, var haldið fé á öldum fyrrum. Sunnar er Bjargarhellir.
Þá var gengið mót Vörðufelli. Á fellinu er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924. Syðst á fellinu er Markavarða og undan henni klöpp með áklöppuðu krossmarki.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Í örnefnaskrá Ölfushrepps er sagt að þar eigi að vera stafurinn M, en um krossmarkið eru greinilegar gamlar sprungur beggja vegna. Efsti hluti steinsins hefur brotnað frá. Krossinn er greinilega áklappaður. Á fellinu eru einnig urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Suðaustan við Vörðufell er sel. Það er, skv. gömlum heimildum, Ólafarsel. Tóttirnar er mjög vel greinilegar. Stekkur er austan við tóftirnar. Enn austar eru tóftir Eimubóls og hellar. Hlaðið er fyrir op þeirra. Í einu jarðfallinu eru greinilegar gamlar tóttir tveggja húsa, sennilega eldri en selstóttirnar ofan þeirra. Hægt er að ganga í gegnum og á milli hellanna.

Vindássel

Vindássel í Strandarheiði.

Vestar eru tóftir Vindássels. Norðar er Hellholt. Efst á því er fallegur hellir, stór og mikill. Utan í holtinu eru margir aðrir hellar. Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar tóttir tveggja selja eða heiðarbæjar. Utan í hól eru a.m.k. þrjú fjárhús og annað langhús að auki. Ekki eru til heimildir um sel eða bæ þennan, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum (Strandarsel/Staðarsel).

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Útsýni vestur með Svörtubjörgum og áfram með Herdísarvíkurhlíðum er ægifagurt. Í hæðinni suðvestan undan selinu eru fallegir hellar og ofan á Svörtubjörgum trjónir Eiríksvarða, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710. Hann lést árið 1716. Á meðan hún stendur á Selvogi að vera óhætt fyrir ránsmönnum. Varðan er fjórar steinaraðir, fallega hlaðin og stendur reisuleg fremst á björgunum.

Girðingarrétt

Girðingarrétt.

Sunnan við selið er hellir með miklum hleðslum. Ofan við opið er hlaðin stekkur. Austan hans má sjá móta fyrir tóft undir hraunhól. Suðaustar í heiðinni er Girðingarréttin, öðru nafni Selvogsréttin eldri eða Gamlarétt.
Á bakaleiðinni sást til refa við leik á Selvogsheiðinni. Heiðin lætur ekki mikið yfir sér, en í henni má finna fjölmargar minjar, sem áhugavert er að halda til haga.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Girdingarrett-1

FERLIRsfélagar í Girðingarrétt með Þórarni Snorrasyni.

Eiríksvarða

Á Svörtubjörgum ofan Selvogs er Eiríksvarða.
Í þjóðsögunni „Vörðurnar á Vörðufelli“ segir m.a.: Eiríksvarða„Sagt er að ræningjar hafi komið á land ekki langt frá Krýsuvík. Komu þeir gangandi og stefndu fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var sendur maður til séra Eiríks prests, sem fór með honum og er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn numið staðar á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo þeir drápust fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heim að bænum. Nokkru seinna fór prestur austur á Selvogsheiði og nam staðar á felli einu lágu, hann byggði upp margar vörður og sagði að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur. Heitir fellið síðan Vörðufell.“
Í þjóðsögunni „Eiríksvarða og Vörðufell“ segir m.a.: „Eiríkur prestur hlóð vörðu þá sem við hann er kennd og kölluð Eiríksvarða, hún stendur fyrir ofan Hlíð á Hellisheiði. Eiríkur sagði að Selvogur mundi ekki verða rændur á meðan varðan stæði. Margar vörður hlóð hann á hæð þeirri er heitir Vörðufell, ránsmönnum þeim sem fóru um landið sýndist að herflokkar væru þar sem vörðurnar voru, en þær standa í röðum og eru um þrjátíu talsins og allar eru þær með klofi.“

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir að Vörðufellsvörður hafi verið hlaðnar af unglingum. „Það brást þeim aldrei, er þeir voru að leita að skepnum, að þeir fundu það, sem leitað var að, ef þeir settu stein í vörðu eða hlóðu nýja.“
Skv. örnefnalýsingum á stafurinn M að vera markaður á jarðfastan stein sunnan við Markavörðuna syðst á fellinu. Þegar betur er að gáð er þar um að ræða kross, en sprungur beggja vegna Efri hluti steinsins hefur brotnað af skammt ofan við krossinn. Á fellinu eru enn urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum.
Eiríksvarða, var sem fyrr sagði, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710.

Heimild:
-Vörðurnar á Vörðufelli, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Eiríksvarða og Vörðufell, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Brennisteinsfjöll

Á loftmynd má sjá allnokkur göt á landinu sunnan og austan við Vörðufell í sunnanverðum Brennisteinsfjöllum. Tvö þeirra eru meira áberandi en önnur. Svo virðist sem í þeim geti verið leið undir hraunið úr Vörðufellsborgum og niður í eldra hraun er myndaði t.d. Lyngskjöld. Í honum má og sjá minni göt er gætu verið hluti af sömu hraunrásum.
JafndægurEkki eru mörg misseri síðan FERLIR uppgötvaði litskrúðugasta hraunhelli landsins undir Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Að fenginni reynslu er ljóst að engir slíkir finnast nema fara á svæðið og skoða.
Farið verður um Lyngskjöld, hann gaumgæfður, og síðan haldið upp í götin fyrrnefndu.
Svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Lyngskjöldur er tiltölulega slétt helluhraun, líklega úr gígum vestan við sunnanvert Vörðufell. Nýrra hraun runnið að hluta til yfir það úr gígum norðvestan við Vörðufell. Einnig úr gígum Vörðufellsborgar norðaustan við fellið.
Mikil, löng og djúp hrauntröð er suðvestan við Vörðufell sem er framhald hrauntraðar úr gígunum efra. Bæði rofnar hún sunnan við Vörðufell þar sem sjá má mikil göt í nýrra hrauninu, auk þess sem stórt jarðfall er ofar í tröðinni. Hvorutveggja var skoðað í þessari ferð.
LeiðinReyndar er ekki heiglum hent að sækja Brennisteinsfjöllin heim. Þegar farið er í þau til norðurs þarf að huga að ýmsu ef rata á rétta leið í úfnu apalhrauni og þykkum hraungambra. Um aldur þessara hrauna er ekki vita, en telja má líklegt að Lyngskjöldurinn geti verið ca. 3500 ára og nýrri hraunin um 1000-2000 ára gömul. Sennilega hefur svæðið allt verið mjög virt um langt skeið, með stuttum hléum á millum.
Vitað er að hraun rann í Brennisteinsfjöllum um árið 1000, m.a. úr Bláfeldi (Draugahlíðargíg). Það kom niður Stakkavíkurfjall vestan við Hlíðarvatn. Annars eru sunnanverð Bláfjöll eitt stórbrotið jarðeldasvæði þar sem hver eldstöðin og gígaröðin hefur gosið eftir aðra. Víða er miklir gos- og móbergshryggir, sem komið hafa upp á síðasta jökulskeiði. Þar er og að finna einstaka stapa frá fyrra ísaldarskeiði. Tilkomumikið er að sjá hvernig einstök gos á hryggjunum hafa náð að bræði sig upp í gegnum íshelluna og mynda grágrýtisstapakolla. Einnig hafa undirliggjandi gossrásir náð að bræða af sér ísinn til hliðanna og mynda litla grágrýtisstapa, s.s. Höfðann út frá Sandafjöllunum.

Leiðin

Ofan og utan í þessum gömlu hryggjum eru svo ótal eldstöðvar, sem gosið hafa á ýmsum tímum á löngu tímabili. Miklar hrauntraðir liggja niður frá upptökunum, hrauntjarnir hafa myndast og hraungúlpar orðið til. Hrauntraðirnar eru sumar bæði breiðar og djúpar. Sú, sem ferðinni var heitið í að þessu sinni, við suðvestanverð Sandafjöll, hafði greinilega fóðrað hraunbreiðuna neðanverða (sunnanverða) í allnokkurn tíma því hún hafði smám saman hlaðist upp yfir landið umhverfis og myndað allnokkurn hæðarhrygg. Samanlagt er hrauntröðin um 3 km að lengd.
Skoðuð voru jarðföllin í Lyngskyldi. Það neðsta er stórt umleikis. Undir því gæti verið hólf, en ekkert Gjallgat var að sjá niður í það. Skammt sunnar steypist hraunáin fram af Geitahlíð (sem aðrir kalla Herdísarvíkurfjallsenda). Ofar er gat niður í rásina, en hún er svo lág að skríða þarf þar inn og undir hraunið.
Haldið var upp og yfir hraungambra á nýrra hrauni. Fjárgata liggur þar yfir. Þegar komið var upp að Höfða var áð. Þrátt fyrir margar hæðir og klettaborgir á þessu svæði er á því ótrúlega lítið um örnefni. Gæti það verið, annars vegar vegna þess að svæðið hefur ekki verið smalað um langa tíð og örnefnin því gleymst, eða ekki hefur verið talin ástæða til að nefna kennileitin þar sem fáir hafa að jafnaði farið þar um.
Þegar komið var upp í götin, sem ferðinni var heitið í, kom í ljós stærðarinnar niðurfall hið efra, en minna hið neðra. Bæði voru full af snjó þrátt fyrir snjóleysu á jörðu. Ofan efra jarðfallsins er hrauntröðin langa og djúpa svo löng sem augað eygði.
HraundrottninginFarið var niður í jarðfallið. Reipi hafði verið tekið með, en nú var í því bæði það mikill snjór að auðvelt var að komast niður og svo var að sjá að hægt væri að komast niður með því að fara á réttum stað í það norðaustanvert. Efst norðanvert í jarðfallinu var rás inn undir hraunið. Þegar niður var komið reyndist rásin full af snjó. Ekki var því lengra haldið að þessu sinni. Neðst sunnanvert í jarðfallinu var snjór. Regndropar höfðu þó holað snjóinn svo stinga mátti löngum staf niður. Hann botnaði ekki þrátt fyrir lengdina. Þarna niðri var greinilega rás, sem kanna þyrfti nánar. Helli þessum var gefið nafnið „Jafndægur“ þar sem hann var uppgötvaður 21 mars þegar vorjafndægur voru þetta árið.
Haldið var upp eftir hrauntröðunni löngu. Efst í henni var lokuð rás, full af snjó.
TröllahárTil baka var haldið nokkuð vestar en komið hafði verið. Skoðaðir voru nokkrir fallegir eldgígar. Suðvestan undir Sandafellum er mikil eldstöð. Sunnan úr henni ganga stuttar, en hrikalegar, hrauntraðir. Ein þeirra hefur myndað stóra hrauntjörn. Nú rísa umleikis hana háir bergveggir er mynda hið ágætasta skjól.
Tröllahár óx á mosa. Hraundrottning leið um Gambrann. Gervigígur stóð einn í lágri kvos. Þar hafði hraunið greinilega runnið niður beggja vegna eldri hæðar, og myndað aðstæður fyrir tjörn. Á seinni stigum gossins hafði hraunstraumurinn náð að renna niður í tjörnina og myndaðist þá gervigígurinn.
Þessi hluti Brennisteinsfjalla er öllu jafnan mjög fáfarinn. Jafndægur er uppi á hæð og því langt í frá að vera auðfundin. Til að geta gengið að henni þarf annað hvort góða loftmynd eða heppni – eða vitneskju um hvar hellinn er að finna.
Gengnir voru 10.5 km. Mesta hæð var um 350 m.y.s. Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Gígur