Færslur

Oddafellssel

Gengið var frá nyrðri enda Oddafells frá Höskuldarvöllum og suður með vestanverðu fellinu. Gott rými er á milli hlíðarinnar og mosahraunsins.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Eftir stutta göngu var komið að tóftum hluta Oddafellsseljanna. Gengið er yfir eina tóftina, en sjá má móta fyrir öðrum. Stekkur eða kví er utan í hraunkantinum. Skammt sunnar eru fleiri tóftir. Er þá komið framhjá stíg er liggur inn á hraunið, áleiðis að Keili. Sunnan við þær eru hleðslur, stekkur og gerði, utar með hraunkantinum. Minni-Vatnsleysa hafði þarna selstöðu fyrrum. Eldri stígur (Oddafellsselsstígur) liggur inn í hraunið frá hleðslunum og kemur inn á hinn stíginn eftir stutta göngu. Stígnum var síðan fylgt í gegnum hraunið. Hann er tiltölulega greiðfær.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Nýr, ógreiðfærari, stígur hefur verið lagður yfir hraunið nánast samhliða, líklega fyrir Keilisfara. Þegar út úr hrauninu var komið var stígnum fylgt áfram áleiðis að Keili yfir móa og mela. Á leiðinni mátti sjá annan stíg liggja þvert á hann, Þórustaðastíginn.
Göngustíg var fylgt upp á Keili. Tiltölulega auðvelt er að ganga upp hlíð fjallsins, aflíðandi í fyrstu, en brattara ofar. Áð var um stund á móbergssyllu að 2/3 leiðarinnar genginni og útsýnið dásamað.

Keilir

Gengið á keili.

Rétt áður en komið var upp var komið uppá hraunnef þar sem horft er niður hinum megin. Sumum finnst nóg um, en ástæðulaust er að örvænta. Af toppnum er útsýni til allra átta. Sjórinn í norðvestri, Stór-Hafnarfjarðarsvæðið í norðri, Esjan og tengdafjöll hennar, Vífilssfell, Bláfjöllin, Þríhnúkar, Lönguhlíð, Helgafell, Fjallið eina, Mávahlíðar, Trölladyngja, Núpshlíðarháls, Driffell, Stóri Hrútur, Litli Keilir, Fagradalsfjöllin, Skógfellin, Þorbjarnarfell og Sandfellsfjöllin (Súlur, Þórðarfell og Stapafell, eða það sem eftir er af því) o.fl. o.fl. Keilir er móbergsfjall (379 m.y.s). Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Hann er helst þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Tapinn ver það gegn veðrun.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Gengið var niður Keili um stíg að austanverðu og þaðan yfir á stíg norðan Driffells er liggur upp af heiðinni sunnan Keilis. Sást hann vel á köflum ofan af fjallinu þar sem hann lá á ská niður heiðina til vestnorðvesturs. Honum var fylgt yfir úfið hraunið austan fellsins. Um stutt hraunhaft er að ræða. Handan þess er stutt yfir í Hverinn eina, en mann má muna sinn fífil fegurri, Nú stendur fremur lítill gufustrókur upp úr hveraholunni, en á árum áður sást þessi stóri gufuhver alla leið frá Reykjavík í staðviðri og góðu skyggni. Hitasvæði er umhverfis hverinn og ber umhverfið þess glögg merki.
Oddafellinu var fylgt til norðurs að austanverðu, gengið um Höskuldarvelli og komið að upphafsstað á tilskyldum tíma.
Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 59 mín.

Oddafellssel

Í Oddafellsseli.