Það gladdi okkur að sjá einhver ný andlit, þótt mennirnir væru óþrifalegir og óþefur af þeim. Þeir voru svo skrýtnir, að vér hentum að því mikið gaman. Þeir voru flestir breiðleitir og ekki sérlega ljóslitaðir.
Flestir voru þeir lágvaxnir, en einn eða tveir þeirra voru fremur háir, ég held varla undir 6 fetum. Sumir þeirra voru ærið síðskeggjaðir, en aðrir ekki meira skeggjaðir en svo, að það gátu verið leifarnar eftir raksturinn með bitlausum hníf eða skærum. Hárið var alveg óhirt, enginn kambur hafði snert það, og féll niður á bak og herðar í flókum, og sást greinilega í því vargurinn og nitin, sem hefst sífellt við á þessum hluta líkamans, þegar hreinlætið er vanrækt…
Í viðræðum virtust þeir vera mjög örir og höfðu allmikinn handaslátt og höfuðburð. En þegar eitthvað var sagt við þá eða þeim boðið eitthvað, sem gladdi þá, létu þeir ánægju sína í ljós með því að klóra sér og strjúka sig ákaflega og með því að aka sér. Þessir vesalingar gleyptu matvælin, sem við gáfum þeim, með mikilli græðgi. Þeir voru vel tenntir og bruddu harðasta kex okkar, svo að það varð meltanlegt á svipstundu….
Konurnar, sem þarna unnu, voru vissulega ekki að jafnaði steyptar í náttúrunnar fegursta móti, og sumar kerlingarnar voru ljótustu mannverur, sem ég hef augum litið. En í hópi ungu stúlknanna voru ýmsar, sem mundu hafa verið taldar laglegar, jafnvel í Englandi. Og litarháttur íslenskrar stúlku, sem ekki hefur orðið of mjög fyrir óblíðu náttúrunnar, þorlir samanburð við konur hvaða lands, sem er. Þær eru venjulega lægri en enskar konur, en samsvara sér vel og eru mjög heilsuhraustar eftir útliti þeirra að dæma.”