Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir

Keflavík

Í þremur tölublöðum Faxa árin 1947 og 1948 eru birtir „Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum“ eftir Mörtu V. Jónsdóttur:

„Það hafa löngum farið litlar sögur af Rosmhvalanesi eða Suðurnesjum, eins og Skaginn er kallaður í daglegu tali, eða því fólki, er þar hefur búið fyrr og síðar. Þó mun mörg sagan, ef geymst hefði, hafa borið Suðurnesjabúum vitni um snilli sjómennsku, drengskap og áræði, þrek og þorí hinum mörgu mannraunum liðinna alda. Svo munu þeir er bezt þekkja liðna kynslóð geta mælt. En það er eins og örlögin hafi frá upphafi byggðar séð um, að þaðan væri engra fregna að leita.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Tvisvar hafa verið ritaðir annálar á Suðurnesjum á fyrri öldum svo vitað sé. Báðir hafa þessir annálar glatast.
Sennilegt er, að íbúar Skagans hafi snemma dregið björg í bú, ekki einungis handa sér og sínum, heldur einnig handa öðrum. Hefur þar af myndast visir til verzlunar. Og einhverja góða og gilda ástæðu hefur Steinunn gamla landnámskona haft, þegar hún keypti landið af Ingólfi frænda sínum. Mætti geta þess til, að hún hafi þá þegar verið búin að sjá, hver gullkista lá úti fyrir ströndinni, er hún fór þangað til bús.
Það er sennilegt, að Keflavík hafi snemma á öldum orðið aðsetur verzlunar og viðskipta. Hefur lega staðarins valdið þvi, þar sem á báðar hliðar eru hin aflasælu fiskimið á vestanverðum Faxaflóa og jafnvel á sjálfri Keflavíkurhöfn oft og einatt uppgripa afli.

Höfnin í Keflavík, er liggur fyrir opnu hafi mót austri, var reyndar aldrei talin örugg  höfn, þótt akkerisbotn væri góður og dýpi nóg (14 faðmar), var skipum er þar lágu, hætta búin, er austan-suðaustan stormur geisaði. Var og talið allt fram á ofanverða 19. öld, að engri björgun yrði við komið, ef skip ræki upp að Berginu, enda urðu þar skipsakaðar nokkrir.
Aðrar hafnir á Skaganum voru áður fyrri Grindavík (Staðarsund), Þórshöfn norðan Ósbotna og Bátsendar sunnan við Stafnes. En allar þessar hafnir hurfu úr sögunni um og eftir aldamótin 1800 og varð Keflavík þá einvöld á Skaganum.
Keflavík
Svo sem kunnugt er, ráku Englendingar, Þjóðverjar og Hollendingar verzlun og fiskiveiðar hér við land fyrr á öldum. Koma þessar þjóðir, einkum Englendingar og Þjóðverjar, því mikið við sögu Skagans.
Nýi annáll getur þess, að enskt skip hafi komið til Suðurlands 1412. Mun það vera elzta heimild um siglingar Englendinga hingað til lands. Sumarið 1415 er aftur getið 6 enskra skipa, er lágu í Hafnarfirði og verzluðu við landsmenn. Eitt þeirra „reyfaði“ skreið á Rosmhvalanesi og sést af því, að þeir hafa verzlað við suðurhafnirnar og er harla líklegt, að Keflavík hafi verið ein þeirra.
Aðalhöfn Englendinga við Faxaflóa, var Hafnarfjörður. En Hamborgarkaupmenn, er líka vildu fleyta rjómann af verzlun við Íslendinga, urðu Englendingum þungir í skauti og var oft æði róstursamt þeirra í milli.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar frá 15. öld.

Árið 1518 var orusta háð í Hafnarfirði milli Englendinga og Hamborgarmanna. Höfðu hinir síðarnefndu dregið saman mikið lið. Er sagt, að þá hafi komið til móts við þá 48 þýzkir menn sunnan frá Vatnsleysu, Keflavík, Bátsendum og Þórshöfn. Á þessu sést greinilega, að Þjóðverjar hafa þá verið búnir að leggja undir sig hafnirnar á Suðurnesjum.
Í orustu þessari sigruðu Þjóðverjar og náðu þá yfirráðum í Hafnarfirði. Hafa þeir eftir það orðið svo til einráðir á Faxaflóa.
Englendingar höfðu eftir þetta aðsetursstað í Grindavík um nokkurt skeið. En þetta var stundarfriður. Árið 1532 réðust Þjóðverjar að enskum kaupmanni, er þá verzlaði í Grindavík og hafði gjört sér vígi ‘á Járngerðarstöðum. Drápu Þjóðverjar kaupmanninn og allt lið hans. Hafa það án efa verið erfiðir dagar fyrir alþýðu manna að búa við sífelldar óeirðir og ójöfnuð útlendra manna. Þó hefur þjóðin orðið að þola margfalt meira, er konungsverzlun Dana varð hér einvöld árið 1602. Að visu hafa aðrar þjóðir verzlað við landsmenn eftir sem áður á laun, en eftir því sem lengur leið, urðu verzlunarsamböndin sterkari og böl landsmanna ægilegra.

Staður

Grindavíkurhöfn og Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá 1751.

Á einokunartímabilinu var hverri höfn úthlutað vissu umdæmi, var hverjum manni innan þess umdæmis, skylt að verzla við sinn verzlunarstað. Ef út af þessu var brugðið og upp komst, voru harðar refsingar dæmdar þeim, er framið hafði þá óhæfu að verzla við aðra en sinn kaupmann.
Alræmd varð sagan um Hólmfast Guðmundsson, bláfátækan búðarsetumann í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd. Hafnarfjarðarkaupmaður taldi hverfi þetta til síns umdæmis. Voru þó mörkin ekki glögg og oft um deild. Hólmfasti hafði orðið á sú skyssa að selja Keflavíkurkaupmanni 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd. Hefur ef til vill fengið betra verð. Mál út af þessu tiltæki Hólmfasts var tekið fyrir á Kálfatjarnarþingi sumarið 1699 og var hann dæmdur sekur. Ekkert átti hann til að borga með sektina, nema bát sinn, er talinn var svo ónýtur að hann væri ekki gjaldgengur. Var Hólmfastur því húðstrýktur á þinginu að viðstöddum amtmanni, HafnarfjarSarkaupmanni og öllum þeim, er þingið sóttu. Sætti hann þar hinni grimmilegustu meðferð. Á þessu sama Kálfatjarnarþingi lét sá hinn sami, Hafnarfjarðarkaupmaður, alþýðu gefa sér vitnisburð mjög lofsamlegan um verzlun og viðskifti þeirra í milli. Er augljóst, að alþýða manna hefur þá verið svo þrautpínd, að enginn hefur þorað að hreyfa andmælum, er þeir gáfu honum slíkan vitnisburð. En tíðum hafa Íslendingar verið langminnugir og svo mun hafa verið um þá menn, er þoldu óréttinn á þessu Kálfatjarnarþingi.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á Vatnsleysuströndinni, einmitt á þeim sama stað er atburður þessi gjörðist, lifði sagan um Hólmfast á vorum alþýðu fram undir síðustu aldamót og varð fastur liður í þeim sæg rökkursagna, er fullorðna fólkið sagði börnum og unglingum.
Nálega tveim öldum síðar en atburður þessi gjörðist, heyrði ég söguna sagða eina slíka rökkurstund. Maður sá, er söguna sagði, kunni frá mörgu að greina. Hann hafði alið allan sinn aldur á Vatnsleysuströnd og var af góðum ættum á Suðurnesjum hið næsta. Hann sagði, að Hólmfastur hefði eftir atburð þennan flutzt út í Njarðvíkur. Hefði bóndinn í Innri-Njarðvík tekið hann í sína umsjá og hefði Hólmfastur dvalið þar til æviloka. Sögumaður endaði með þessum orðum: „Þessari sögu megum við aldrei gleyma“.
Þótt þessi gerð sögunnar séu munnmæli ein, eru líkur fyrir því, að rétt sé hermt. Í manntalinu 1703, eða 4 árum síðar en atburður þessi gjörðist, búa á einni Innri-Njarðvíkurhjáleigunni: Hólmfastur Guðmundsson 56 ára, Solveig Sigurðardóttir kona hans 38 ára og Þorsteinn sonur þeirra II ára gamall. Býli þetta er nafnlaust í manntalinu, en lítill vafi er á því, að nafn Hólmfasts hefur festst við býlið. Mun það vera sama býlið, sem enn í dag heitir Hólmfastskot.

Skip 1600-1700

Skip – 1600-1700.

Um aldamótin 1700 var svo þrengt orðið kosti landsmanna, að ekki þótti viðunandi. Var Lárus Gottrúp lögmaður fenginn til utanfarar með erindisbréf, eða bænaskrá til konungs, er fjallaði um hörmungar landsmanna og harðdrægni kaupmanna. Lögmaður sigldi með Keflavíkurskipi og með honum kona hans og barn þeirra ásamt þjónustufolki.
Þegar lögmaðurinn var kominn suður til Keilavíkur, ásamt fólki sínu, albúinn til ferðar, heimtaði kaupmaður, að hann legði fram mat til fararinnar. Lögmaður ætlaði þá að kaupa kjöt og smjör af bændum þar syðra, því sjálfur hafði hann bú á Þingeyrum og voru auðvitað engin tök á að nálgast mat þaðan, en skipið lá albúið til siglingar á Keflavíkurhöfn.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Er kaupmaður vissi um fyrirætlanir lögmanns, fyrirbauð hann bændum að selja lögmanni og hótaði þeim stórum refsingum, ef þeir voguðu slíkt. Þorðu bændur þá ekki að selja fyrr en lögmaður hafði heitið þeim, að taka alla sökina á sig. Keypti lögmaður svo af bændum það, er hann þurfti og sigldi með skipinu. Þetta gerðist sumarið 1701. Er þetta glöggt dæmi um verzlunarhætti og átök milli landsmanna og kaupmanna. Svo er sagt að Hamborgarar hafi fyrst sett verzlunarbúðir sínar á hólma nokkurn skammt frá landi í Keflavík (Jón Aðils – Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602—1787). Það er mjög ólíklegt, að hólmi þessi hafi verið í Keflavíkurhöfn. Dýpi hafnarinnar er mikið og hvergi sker eða grynningar, sem gefa til kynna, að land hafi staðið þar upp tir sjó. Engin munnmæli eru til þar syðra um sokkinn eða eyddan hólma. Hefði þó verið eðlilegt, að sögn um slík umbrot hefði varðveitzt. En fyrir framan Leiruna, næstu byggð fyrir utan Keflavík, er hólmi, er var aðsetur þýskra endur fyrir löngu.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Árið 1840 ritaði séra Sigurður Sivertsen, prestur á Útskálum, lýsingu á prestakalli sínu. Þar segir svo um Leiruhólma: „ — Hann var áður grasi vaxinn, sem ennþá sér vott til. Höfðu þar þýskir haft fyrr meir verzlunarbúðir sínar á sumrum og lagt skipum sínum: hafa rúsir eftir þá allt til skamms tíma sést“. Gæti hólmi þessi, sem Íslendingar nefna ennþá Leiruhólma, hafa orðið í munni útlendings að Keflavíkurhólma, einkum ef þeir hafa þá samtímis verzlað á Keflavíkurhöfn. Eru mörg dæmi þess, að útlendingar breyttu staðanöfnum hér eftir geðþótta.
Skúli landfógeti Magniísson segir í hinni merku ritgerð sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu, er hann samdi árin 1783—85, að Vatnsnesvík hafi verið verzlunarstaður til forna „— en sennilega áður en verzlun hófst í Keflavík“. Á þessum stað, sunnanvert við Vatnsneskletta, eru nú hafnarmannvirki Keflavíkur.
Árið 1787 var verzlunin hér á landi gefin frjáls, en einungis við alla þegna Danakonungs. Konungsverzlun Dana, sem hér hafði setið að völdum frá 1602, seldi þá, og næstu ár, verzlanir sínar. Danskir kaupmenn, sennilega margir þeirra er verið höfðu verzlunarfulhrúar fyrir konungsverzlunina, keyptu þá verzlanirnar og ráku þær áfram. Munu verzlunarhættir lítið hafa breytzt fyrst í stað, en smátt og smátt hefur farið að rofa til, enda risu þá upp fleiri verzlanir við hverja höfn.

Keflavík
Kaupmaður sá, er keypti Keflavíkurverzlun, hét Christian Adolph Jacobæus, þá kaupmaður í Keflavík. Kaupverð verzlunarhúsa, lóðar og varnings var 10265 ríkisdalir 17% skildingur í „kurant“-mynt. Christian Adolph var fæddur í Keflavík 1767 og hefur ungur tekið við verzlunarforstöðu eftir föður sinn, Holgeir gamla Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Keflavík.
Haustið 1785 kom Jacobæus upp frá Danmörku með Hafnarfjarðarskipi og var þá veikur af bólusótt. Hafði hann farið utan um vorið í verzlunarerindum, en tekið sóttina um það leyti, er hann lagði í haf. Barst bólan eftir þetta um landið og varð af mikið mannfall.

Keflavík

Keflavík 1800.

C. A. Jacobæus kvæntist 1794 danskri konu, Reginu Magdalenu, er var fædd í Kaupmannahöfn 1769. Þau áttu mörg börn, þar á meðal Holgeir Jacobæus, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn og Sophiu, er átti Ebbesen verzlunarstjóra í Rvík.
Jacobæus stofnaði verzlun í Reykjavík 1795, ásamt Ludvigsen stórkaupmanni í Kaupmannahöfn. Var hann annar elzti kaupmaður í Reykjavík. Hefur hann þá átt mikinn húsakost í Keflavík, því hann lét flytja tvö af Keflavíkurhúsum sínum til Reykjavíkur og byggja þau þar, við Hafnarstræti. Var annað húsið sölubúð og íbúð sitt í hvorum enda; hitt var vörugeymsluhús, stórt og mikið, og eflaust vel byggt, því það hús stóð hér í Reykjavík til 1935 og var síðast alllengi notað fyrir bílaviðgerðarverkstæði.

Peter Duus

Peter Duus.

Jacobæus bjó eftir sem áður í Keflavík, en hafði verzlunarstjóra í Reykjavík, þar á meðal Ebbesen tengdason sinn og Peda Duus, er löngu síðar varð kaupmaður í Keflavík og kemur þar mikið við sögu.
Aðra verzlun átti Jacobæus í Hafnarfirði. Sú verzlun varð síðar Linnetsverzlun, er lengi starfaði í Hafnarfirði og var góðfræg. Hans Linnet var fyrst verzlunarstjóri Jacobæusar í Hafnarfirði, en keypti svo verzlunina 1836. Kona hans var Regina Magdalena Secrup, systurdóttir C.A. Jacobæusar í Keflavík. Eiga því niðjar þeirra Linnetshjóna ætt sína að rekja til Holgeirs Jacobæusar hins síðasta kóngskaupmanns í Keflavík. C. A. Jacobæus hefur haft umfangsmikla verzlun í Keflavík. Það sýnir meðal annars, hve margt fólk var á heimili hans.
Árið 1790 voru þar 38 manns. Jacobæus var þá ókvæntur, en danskur beykir Hoeg að nafni, kona hans einnig dönsk og dóttir þeirra, er var matreiðslukona, munu hafa séð um kaupmannsheimilið. Vinnufólkið mun hafa búið í öðru húsi, enda var þar einnig önnur ráðskona, er Ingveldur hét Einarsdóttir.
Þar var einn „undirassistent“, einn búðardrengur, einn afhendingarmaður, einn smiður. Það var Jóri Sighvatsson, er síðar varð útvegsmaður og merkisbóndi í Höskuldarkoti við Ytri Njarðvík. Fjórtán vinnumenn, sjö vinnukonur og fjögur börn, er vinnufólkið átti, auk þess einn gamall maður örvasa og þrír danskir vetursetumenn. Næstu ár fór fólki heldur fækkandi, og 1801 voru ekki nema 14 manns í heimili.
KeflavíkEftir Chr. A. Jacobæus, varð Holger sonur hans kaupmaður í Keflavík 1836. Kona hans, Charlotte Marie, var dönsk. Þau áttu 15 börn. Voru 10 þeirra á lífi, er þau fluttu af landi brott 1843 og 1844. Þessar fjölskyldur bjuggu allar í sama húsinu, hver eftir aðra, en það er gamla Duushúsið, er svo mun vera nefnt enn í dag.
Séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum, hefur ritað smákafla um þá Jacobæusarfeðga inn í húsvitjunarbók prestakallsins 1827—1847 við árið 1837. Hann segir svo um Holger Jacobæus: „Foreldrar kaupmanns Jacobæusar var kaupmaður Chresten Jacobæus og Md Regina Magdalena, bjuggu þau hjón fyrr í Keflavík, átti hann þar kaupstað; líka höndlun í Hafnarf. og Rvík og var einn sé merkasti maður á sinni tíð. Faðir hans var Holgeir gamli Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Rvík. Holger yngri fékk Keflavík keypta af föðurnum eða til láns, en varð að láta af hendi aftur. Varð hann þá factor hins nýorðna eiganda kaupm. J. J. Benediktsen. Varð þó seinna að láta þá forþénustu lausa og sigldi árið 1843 til Færeyja hvar hann fékk forþénustu í brauði Clausens í Ólafsvík. Kona hans og börn sigldu ári seinna og áttu þau saman 15 börn en hann hafði eignlengi mjög örðuga lífsútkomu. Þau hjón eignast 1 son áður, Karl að nafni“.
Jens Jakob Benediktssen varð eigandi Keflavíkurverzlunar 1841, en bjó þar aldrei. Hann var sonur Boga sagnfræðings á Staðarfelli Benediktssonar, átti verzlanir á Ísafirði, Grundarfirði og Vestmannaeyjum, en bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Verzlunarstjóri hans í Keflavík, eftir að Jacobæus hvarf burtu, var Marteinn Smith, er síðar var kaupmaður og konsúll í Reykjavík og var giftur Ragnheiði systur Jens Jakobs. Þau fluttu til Keflavíkur 1844 og bjuggu þar 4 ár. En 1848 fluttu þau til Kaupmannahafnar og seldi Smith þá Duus kaupmanni Keflavíkurverzlun.“

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1947, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 9.
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 4-5.
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 3-4.

Keflavík