Þingvallaför 1907 – Dr. Louis Westerna Sambon

Öxarárfoss

Í Eimreiðinni árið 1922 er grein eftir Dr. Louis Westerna Sambon um „Þingvallaför“ hans:

Louis Westenra Sambon
Dr. Louis Westenra Sambon fæddist á Ítalíu (1871?), af frönskum, ítölskum, enskum og dönskum ættum. Faðir hans var franskur í föðurætt, en ítalskur í móðurætt. Móðir hans var ensk, skyld skáldinu Charles Dickens og komin af hinum fræga danska siglingamanni, Vitus Bering. Faðir hans, er barðist sem fríliði í her Qaribaldi, var frægur fornfræðingur, einkum myntfræðingur.
Louis lést 30. águst 1931 (63 ára).

„Þriðjudag 28. júní. — Klukkan rúmlega níu, leggur löng bifreiðalest af stað úr Reykjavík til Þingvalla með konungsfólkið og um hundrað gesti. Meðal gestanna eru yfirvöldin á staðnum, prófessorar háskólans og allmargir blaðamenn.

 

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þingvallavegurinn er vel kunnur. Hann liggur til suðausturs um ófrjótt og grýtt ölduland, yfir Elliðaárnar, fræga laxelfi, rétt ofan við ósana, stígur svo smámsaman í tvö hundruð og tuttugu feta hæð yfir sjávarmál, liggur um vesturbakka Rauðavatns og þaðan nálega samhliða Hólmsá upp að Geithálsi. Hólmsá rennur í Elliðaárnar og líður í bragðfögrum bugðum fram með Rauðhólum, þyrpingu rauðra og svartra smágíga, er minna á forngrísk skapker, steind rauðum og svörtum myndum. Þessa stundina speglar Hólmsá algrátt loftið og er sem gjörð úr skygðu stáli um hraunhólana. Allt er svæðið skolbrúnt eða hnotbrúnt yfirlits, með óreglulegum flekkjum hér og þar af rauðbrúnu gjallkenndu hrauni og grænleitum engjum, drifnum ótali frostalinna þúfna. Í þúfunum eru hvítar, mórauðar og svartar kindur í ró að kroppa hýjunginn. Kringum hina strjálu bæi eru skýrt afmarkaðar, fagurgrænar flatir. Það eru túnin, sem gefa af sér töðuna, vetrarfóðrið handa kúnum. Alt hitt er grjót, hrúgald af hraunhellum og -molum á víð og dreif, af hvers konar stærð og lögun.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Átakanlega ófrjótt, grátt og eyðilegt, og þó er þessi grjótauðn svipmikil og full af fegurð. Klettarnir eru ýmist flekkóttir af skófum eða í mosareifi. Á milli steinanna og í hraungjótunum vaxa burknar og blómjurtir. Stór svæði eru þakin lágvöxnu, silfruðu birki- og víðikjarri svo þjettu sem þófi væri, eða purpurábreiðu af sauðamerg (Loiseleuria poocumbens). Túnið þakið sóleyjum glóir sem gullþynna. Stórir skúfar af rjómalitum rósum — hinum elskulegu holtasóleyjum (Dryas octopetala), skína í svartri umgerð veðurbitinna kletta: Á víð og dreif um ömurlegustu auðnir glitra smaragðlifar mosalegar þúfur af lambagrasi, settar rúbínrauðum stjörnum. Þessar blómperlur eru gleðin síunga. Á vinstri hönd er Esjan, verndarvættur Reykjavíkur, mikið fjall krýnt björtum skýjabólstrum; hlíðarnar eru með fönnum, sóldílum og skýjaskuggum. Framundan rísa þrír tindar úr mistrinu. Það eru Móskarðshnúkar og Skálafell og líta út sem vofur í snjóhempunum.

Louis Westerba Sambon

Louis Westenra Sambon á Íslandi.

Við Geitháls skiftist vegurinn í tvær álmur. Vér förum þar til vinstri, í norð-austlæga stefnu, og komum nú brátt inn á milli margra smávatna og tjarna. Við Krókatjörn komum vér auga á bifreiðalestina okkar löngu, fulla af prúðbúnum körlum og konum, háværum og glaðværum. Vér förum fram hjá tveimur biluðum bifreiðum og tökum strandaðan farþega: Það var vitamálastjórinn.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Þrívörður. Útsýni til Þingvalla.

Vér erum nú á heljarvíðu hringsviði. Veggir og sæti eru fjöll, áhorfendur ský, leikvöllurinn hraunbreiða, skylmingamennirnir hundraðhentir risar, og munda sumir logasverð, en sumir í ísbrynjum. Blýgrátt og drungalegt loftið dregur mjög úr litunum á landinu. Mest ber á dökkgráum og dumbungslitum. En hvað þetta litskrúðsleysi er þó áhrifamikið þrátt fyrir allt! Með höfuðskeljastaðinn Skálafell frammi fyrir oss og regnskýin yfir höfðum vorum, minnumst vér »Krossfestingarinnar« eftir Vandyke og »Syndaflóðsins« eftir Poussin, tveggja meistaraverka þar sem grálitunum hefir verið beitt af mikilli snild. Í bröttum hlíðum og gljúfrum fjallanna liggja fannir og breðar, ömurlega ataðir eldfjallaösku.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegurinn.

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Konungsvegur
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

 

Þingvallavegur

Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vér hverfum aftur til vagnanna og ökum áfram yfir eyðilega og tilbreytingarlausa heiðina. Ömurleikinn alt umhverfis er ógurlegur; þögnin er sem farg; ekkert hreyfist í hrauninu; ekkert bærist í loftinu, ekkert heyrist nema vagnahljóðið og skraf og hlátur samferðamannanna; og þó ber sjónarsviðið von um æðistryltan orraleik: haf í uppnámi storknað í stein, and í flogateygjum fyrir einhverju ógnarafli. Væri ekki víðáttan; gæti þessi grjótauðn vel verið mynd af þeirri stundu opunarinnar þegar óskapnaðurinn var að taka á sig lögun heimsins okkar, höggvin í basalt af voldugum hamri Einars Jónssonar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – ræsi.

Meðfram veginum á hægri hönd hafa stórar steinvörður verið reistar, til að vísa ferðamönnum veg, þegar landið er undir snjó. Aflangur steinn skagar út úr vörðunni ofanverðri og bendir á veginn. Mér er sagt að hrafnar, sem nú eru farnir til að boða komu konungsins, sitji altaf á þessum fingravörðum, og fari hin prestlega fjaðrahempa þeirra vel við svartar vörðurnar. Þarna sitja þeir, blaka vængjum, krunka, gala og bomsa. Heimildarmaður minn segir: »Þeir virðast altaf vera rétt komnir að því að vitna í ritninguna«. Honum skjátlast: Þessir »ljótu, leiðu, myrku, mögru, mösknu-fuglar eða djöflar« hafa altaf hugann á holdlegum efnum og eru að harma fornar hryðjualdir vígamanna og ræningja, þegar nóg var af manna- og nautaslátri. Það er því ekki furða þó viðkvæði þeirra sé: »Aldrei, aldrei meir!«

Þingvallavegur

Brú á gamla Þingvallaveginum.

Vér erum nú komnir á heiðina þar sem hún er hæst (1222 fet yfir sjávarmál) og veginum fer að halla ofan í móti. Útsýnið fram undan er ljómandi, því að nú er að birta yfir. Umhverfis eru öldumynduð bláfjöll, með smágerðum snjóhniplingum. Hæsti tindur í sólfáðri fjallaröðinni á hægri hlið vora, eru hinar snæviþöktu Súlur, 3571 fet yfir sjávarflöt. Sum fjöllin til vinstri handar, ljósgul að lit, eru stórir líparítpýramídar.

Konungsvegur

Sæluhúsið við Þingvallaveginn á Mosfellsheiði.

Vér förum fram hjá dálitlu steinskýli (sæluhúsi), þar sem ferðamenn, þegar snögglega brestur á, geta leitað sér hælis og fundið ekki aðeins skýli, heldur og eldsneyti, vatn og fæði að því er mér er sagt. Margur kaldur, þreyttur, fannbarinn ferðalangur hefir átt þessum sæluhúsum lífið að launa. Þó hefir það borið við, að menn hafa fundist helfrosnir innan veggja þeirra, er þeir náðu þangað of seint og voru orðnir of dasaðir og sljóvir til að færa sér hressingu og eldsneyti í nyt; aðrir, er voru að ná sér, og þó enn með óráði, þóttust heyra marra í snjónum undan hestum, er væru að skjögra að kofanum, og hottið í aðframkomnum mönnum, hásum af kulda og þreytu. Sumir hafa séð menn, sem ekki voru þarna. Magnaðar draugasögur eru til um það, að í grenjandi blindösku byljum, sem hverjum manni er ólíft úti í, komi stundum náfölar vofur ríðandi að sæluhúsi, til að nema þaðan hvern þann, er þar kynni að hafa leitað skjóls, en gleymt guði sínum:

Hann sendir orð sitt til jarðar,
boö hans hleypur með hraða.
Hann gefur snjó eins og ull,
stráir út hrími sem ösku.
Hann sendir hagl sitt sem brauðmola;
hver fær sfaðist frost hans?
Sálm. 47., 15.—17. v.

Mosfellsheiði

Varða við Gamla-Þingvallaveginn.

Þegar lengra kemur, förum vér fram hjá smátjörnum nokkurum, og komum nú sem snöggvast auga á blett af Þingvallavatni, eins og í hillingu, mjóa rák af skínandi safírbláma. Þungbrýndu ólundarskýin, sem sátu á fjallatindunum, hafa hjaðnað burt, aðeins fáeinir dúnmjúkir skýjahnoðrar svífa um silkifölblátt loftið, niður við sjóndeildarhringinn, og gætu vel sýnst svanir á flugi. Bláminn er dýpri uppi í hvolfinu, en vatnsbláminn er sterkari og gagnsærri, skærari en himinbláminn. Það er dásamlegur blámi, sem ekki verður með orðum lýst.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegurinn.

Bifreiðarnar okkar þeysa nú eftir veginum, hver rétt á eftir annari, sem færi þar eimlest með fullhraða, og þyrla upp gulum rykmökkum. Vér förum fram hjá hóp söðlaðra hesta, er standa við veginn. Á tveimur eru kvensöðlar með purpurarauðu silkiflossæti og söðulboga. Vér förum fram úr mörgum fótgöngumönnum og hjólamönnum, sem allir eru á leinni til Þingvalla. Vatnið kemur aftur í augsýn, hinn laðandi bláflötur þess ljómar í sólskininu eins og biflaust, seiðandi afarauga. Lækur með sama fágæta blámanum, Torfdalslækurinn, rennur sína leið á vinstri hönd við oss. Hver minsta gára er fagurbláma safíra. En hve fjöllin handan við vatnið skýr og sýnast nærri, séð gegnum undurskært loftið! Hver gróf og geiri sést, svo skýrt sem í sjónauka væri. Mógulur vegurinn liggur í bugðum, eins og snákur á snarferð.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú.

Vér brunum yfir rauðmálaða trjábrú. Stúlknahópur hrópar »húrra« fyrir oss, um leið og vér förum fram hjá. Tuttugu og tveir vagnar þeysa á undan oss og stórir rykmekkir þyrlast upp hægra megin við oss. Vér förum yfir aðra brú, yfir Móakotsá, sem rennur úr Drykkjartjörn. Fjöldi hrossa er á beit í þúfunum til hægri handar, og stara þau á oss stórum augum.

Kárastaðastígur

Ekið um Kárastaðastíg. Vegurinn um gjána var opnaður árið 1900 og lokað fyrir bílaumferð 1967.

Vér þjótum áfram og yfir þriðju brúna, móts við Kárastaðabæinn. Túnið þar líkist austrænum gullofnum dúk, ljósgrænt grasið ofið sóleyjagulli. Það líður aftur fyrir oss, eins og töfraábreiða. Hraðskriður vagnanna, indælt landslagið, dýrðlegt sólskinið, fjörgar oss, vér skröfum kátir við samferðamennina og vagnarnir bruna hraðar og hraðar, geysast áfram í rykstormi.
Alt í einu breytir vegurinn um stefnu, vagnarnir taka snögga sveiflu, vér hverfum inn í gapandi ginið á gjá og vitum naumast af fyrr en vér erum komnir miðja vegu ofan í kok á ferlíkinu. En augað greinir margt í einu bragði. Vér sjáum hina miklu stuðlabergsveggi, skuggann á milli, snarbrattann, sólfagra sléttuna niður undan, fagnandi mannfjöldann í þyrpingu við innganginn, nýreistan boga með þrílitum fánum og bláum skildi og skarlatsrautt klæði, strengt þversum, og á það letrað stórum stöfum, ekki »Lasciate ogni speranza« hans Dante, heldur hjartanleg heillakveðja til konungs og drotningar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú yfir Öxará.

Vér ökum ofan eftir, yfir járnbrú, sem Öxará þrumar undir á leið sinni til vatnsins, komum ofan á opna völlu og nemum loks staðar framundan palli, er fánar blakta yfir og reistur hefir verið dagsins vegna. Gjá sú hin mikla, er vér fórum um, er Almannagjá og heitir svo fyrir þá sök, að í lok júnímánaðar ár hvert, streymdu þúsundir ríðandi manna úr öllum héruðum Íslands niður einstigið undir hamrinum bratta, ofan á völluna, til að vera á hálfsmánaðar þingi, kaupstefnu og íþróttamóti, sem haldið var á Þingvöllum.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Almannagjá er eitt af Íslands mörgu furðuverkum. Hún myndast annarsvegar af þverhníptum hamravegg, full 100 fet á hæð, og endar þar hraunsléttan, er vér fórum yfir, og hins vegar af klettagarði, tuttugu álnir frá, og talsvert lægri, er hallast aftur eins og framhlið hans togaði í hann um leið og hún bugast niður á hraunsléttuna, fimm rasta breiða. Austurjaðar þessarar hraunsléttu endar í samsvarandi gjá — Hrafnagjá, sem að vísu er minni, en engu að síður prýðileg.

Almannagjá er nokkrar rastir á lengd og liggur frá norðaustri til suðvesturs. Má rekja hana frá Ármannsfelli niður fyrir Þingvelli, meðfram vesturströnd Þingvallavatns. Botninn er sem í virkisgröf og stráður stórum stuðlabjörgum, er fallið hafa úr veggjunum beggja megin; annars er hann grasivaxinn, nema á svo sem sex hundruð álna svæði, sem Öxará freyðir um á leið sinni til vatnsins.
Hið sokkna hraunsvæði, er takmarkast af gjánum tveimur, — Almannagjá og Hrafnagjá — nær frá eldfjallinu Skjaldbreið að Hengli, og hallast frá norðaustri til suðvesturs, lækkar undir vatnið og myndar botn þess. Fyrir mörgum öldum, lá þessi langa hraunbreiða jafnhátt hásléttunni umhverfis, en einhver voðaveila, sem líklega hefir komið af því, að vatnsrensli neðanjarðar gróf undan, varð til þess, að hún rifnaði um jaðrana og sökk þangað sem hún er nú, skekin sundur í hreinasta tíglagólf, úr óreglulegum brotum, með rifum og glufum á milli.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Og hér er Þingvallavatn, bláast vatna, og horfir skygðum kristalsfletinum til himins, eins og það segði: »Ertu alveg eins blár?« En himininn er ekki eins blár, né heldur hafið með andstæðugulum dílum sargassoþangsins, og ekki gulldröfnóttur blámasteinninn, né heldur kornblómið á akrinum. Og þó kannast ég við þennan skínandi heiðbláma. Ég hefi séð hann í Bláa hellinum á Capri, á fjaðraskrauti ísfugla, páfagauka og blárra paradísarfugla, á vængjum stóru bláfiðrildanna í Brasilíuskógum, í brosandi augum drengsins míns.
Líttu á þetta undursamlega vatn í brúnni hraunskálinni, með ýmislega grænum rákum á grynningum og rifjum meðfram ströndinni; eru dröfnurnar á páfuglsfjöðrum eins fagurbláar? Líttu á það, þegar sólin skín sem glaðast og það logar eins og blátt bál, hefir nokkur safír nokkurn tíma ljómað svo?
Þvílíkur töfrablámi! Hvað hann gleður og heillar! Frá mér numinn af aðdáun, hreifur af litadýrðinni, finst mér ég verði, eins og Glákus forðum, að sökkva mér í þennan bráðna hlákristall.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Þingvallavatn er í lögun sem hálfmáni, 16 rasta langt og 5-8 rasta breitt. Dýptin er frá grynningum að 60 föðmum. Upp úr því nálega miðju, rísa tveir eyhnúkar, með eldgígum, svartir og ófrjóir. Það eru Sandey og Nesjaey. Þar verpir svartbakur. Ýmsir höfðar ganga út í vatnið frá norður-, austur-, suður- og vesturströnd þess, eins og spælabrot í brotnu hjóli. Norðan að vatninu liggur endinn á hraunbreiðunni milli gjánna, í mosareifi, og Öxarársandur, að vestan sprungin brún hásléttunnar, að austan og sunnan brött fjöll: Arnarfell, Miðfell, Búrfell, Hengill — nú í tígulegum purpuraskikkjum.

Arnarfell

Arnarfell.

Úr mynni á suðausturenda vatnsins rennur Sogið sem slanga, er sýgur vatn þess, eins og nafnið bendir til. Ekkert segl sést á hinu friðsæla vatni, ekkert gárar flöt þess, nema fiskar sem vaka.
Vatnið er fult af silungi, bleikju og urriða, og er það einmitt fiskur á konungsborð. Fiskurinn af urriðanum er rósrauður, en af bleikjunni með lítið eitt rauðgulum blæ, hvortveggja bráðfeitur og óviðjafnanlega bragðgóður. Annar meðlimur uggaþjóðarinnar er þarna líka: hið herskáa hornsíli (Qasterosteus), ofurlítill velsporaður vígabarði vatnspyttanna, er gerir hreiður með handstúkulagi, af engu minni list en vefarafuglinn, og gætir eggja og unga ræktarlausra og ómóðurlegra maka sinna, með trú og dygð fram í rauðan dauðann. Hreiður hornsílisins er gert úr smágervum jurtatægjum, tengdum saman með sterkum silkiþræði, er myndast í nýrunum og kemur frá blöðrunni, þegar hornsílið er fullþroska og hinn hugrakki litli riddari kemur til burtreiðar í ljómandi purpuralitum brúðkaupsklæðum.

Nikulásargjá

Nikurlásagjá.

Þarna eru ýmsar tegundir af vatnabobbum af Limnaea-, Pisidiutn- og Lepidurus- kyni og lirfur og púpur margra vatnaskordýra. Gnótt er af reki og er það einkum smákrabbadýr (Daphnia, Diaptomus, Cvelops), hjóldýr (Rotifera) og fáeinar tegundir af kísilþörungum (Melosirae, Asterionella o.s.frv.), Af augljósum vatnaplöntum skal eg að eins nefna Rivularia cylindrica, blágrænan þörung með löngum svipu-líkum þráðum og tvær stórar grænþörungategundir, Chara og Nitella sem vaxa á fimtíu til níutíu feta dýpi. Fjöldi fugla: sefandir, lómar, sendlingar, maríuerlur, tjaldar, andir, gæsir, máfar, trönur, hegrar og svanir, lifa á því, eða á ströndum þess, eða fljúga yfir ljómandi safírbláan flötinn, og með þeim svífur andi fegurðarinnar, því að hvar getur indælli sjón?

Flosagjá

Flosagjá.

Þingvallasléttan með vatninu, ánni og hamraveggnum minnir mig á svæðið kringum Avernus vatnið, þar sem Virgill setti hlið undirheima, og reyndar eru hér Elysium-vellir og Tartarusklettar hlið við hlið eins og á Phlegra-sléttunni í Campania Felix. Mikla undra kviðu mætti yrkja út af Þingvallavatni. Þúsundir manna í hátíðabúningi — konurnar prúðbúnar eins og blóm — hafa safnast í hópum á víð og dreif, sumir standa og sumir sitja, í grasgrónum brekkunum niður af austurvegg Almannngjár. Álengdar eru þessar brekkur með mannþyrpingunum til að sjá eins og persneskar flosábreiður, sem af ásettu ráði eru með óreglulegum myndum og litum til að bægja á braut illu augnaráði og heilla til sín hamingjuna.
Þegar vér komum inn á sléttuna, leikur hornaflokkur þjóðsönginn, karlaflokkur syngur og mannfjöldinn lýstur upp fagnaðarópi og klappar hrifinn höndum. Hinir miklu stuðlabergsveggir endurkveða og magna þessi fjölbreyttu hljóð og margfalt bergmál hljómar frá gjá til gjár, frá fjalli til fjalls, yfir sléttuna og vatnið og aftur til baka, safnast í volduga velkomanda kveðju til konungs og drottningar.

Flosagjá

Tært vatnið í Flosagjá.

Vér stöndum nú á helgum stað, á stað sem er vígður sögu og sögnum. Gjáin mikla, hraunsléttan, hin streymandi á, heiðblátt vatnið eru minjar frægrar fortíðar og yfir þeim skín sem forðum hin dýrðlega sól. En hvað það er ósamræmilegt að sjá rétt hjá Lögbergi gistihús, sem með goðgá kallast »Valhöll«, og niður undan Öxarárfossi timburhús með rauðu þaki fyrir konunginn, nauðalíkt leikfangi sniðnu eftir örkinni hans Nóa. Hvað það á undarlega illa við að sjá bifreiðaröðina löngu öðru megin vegarins og þessar mörgu stikur af baðmullardúk skornar niður í smáfána og veifur, sem blakta í blænum og rjúfa samræmi náttúrunnar með prjáli ósamstæðra lita.

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907 – danskir sjóliðar.

Rúmlega sextíu tjöld hafa verið reist út um vellina og fólkið þyrpist um þau eins og býflugnasveimur. Stúlkurnar, á sullbaldíruðum bolum, glitra í sólskininu eins og frjórykaður rósatordýfill, en tveir konungsþjónar skoppa um í skarlatsrauðum maríuhænu einkennisbúningi og gefa hinu kvika sjónarspili bjartari blæ. Um leið og ég geng yfir veginn kemur bifreið, sem seinkað hefir, þjótandi ofan á vellina og á eftir henni ríðandi menn, lausir hestar og hestar undir klyfjum, alt Skundar ofan gjána og glamrar margvíslega í, eins og trjásöngva þreytti þar sinn glamurkliðandi kveldsöng.

Jörunadrhús

Jörundarhús á Þingvöllum.

Vér etum dögurð á gistihúsinu. Þar hefir rétthyrndu vegtjaldi verið aukið við hinn venjulega borðsal til að koma gestafjöldanum fyrir, og liggja tjalddyrnar fram í salinn og ekki minsta smuga til loftræsingar. Hinn ljúffengi rósrauði Þingvallasilungur með «mayonnaise«-sós og agurka-salati, er indæll, jafnvel þó honum sé ekki skolað niður með sólskinsvökva frá Burgund, Rínlöndum eða Campagne, en hitinn inni í tjaldinu er afaróþægilegur. Vér hlustum á Matthías Þórðarson, hinn lærða vörð Þjóðmenjasafnsins í Reykjavík. Hann býður konung og drottningu velkomin og talar um forna frægð Þingvalla á dögum lýðveldisins. Vér hlustum á hann með athygli þrátt fyrir það, þó hitinn stigi í líkbrennslutjaldi voru og líkurnar fyrir því, að «Valhöll« verði að sannri valhöll fyrir hetjur þær, er nú sitja að veislu innan veggja hennar. Flestir félagar mínir eiga eflaust þennan heiður skilinn, en ég held nú samt, að frestur væri ekki illa þeginn, þar sem við eigum eftir að sjá Geysi. »Til þess að okkur líði vel«, segir sessunautur minn til hægri hliðar, »þyrftum við að fara úr holdinu og sitja í beinunum einum«. »Það væri ekki til neins«, svaraði ég, »við yrðum undir eins að bruðningi«.
Það er gott að koma út og fylla lungun hreinu lofti himinsins. Þarna andspænis oss, er vér horfum í norðvestur, fellur hinn svali, ólgandi, freyðandi straumur Öxarár ofan í gjána eins og mjöður í mundað horn. Hærra, fimm röstum norðar, rísa demantstindar Súlnanna á ameþýst grunni. Nær, til hægri handar, stendur Ármannsfell, nálega snjólaust og purpuragrátt. Að lögun hefir því verið líkt við dalaðan hjálm.
Lengra burtu og austar liggur stór snæþakin eldfjallshvelfing. Það er Skjaldbreið. Það er trú manna að þessi fjöll séu jötunhlífar á dreif; hjálmur og skjöldur Ármanns, írsks risa, sem sagt er að hvíli undir Ármannsfelli og sé þar haugur hans.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Margt fólk er að klifra upp á austurbarm Almannagjár til að sjá fossinn nær. Ég fer á eftir þeim og klifra upp klettabrekkuna, sem er að nokkru vaxin grasi, birkikjarri, mosa og steinbrjótum, uns ég næ upp á austurbarminn. Hér hitti ég suma af »Gullfoss«-vinum mínum og með þeim fer eg ofan í gjána.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Fossinn er ljómandi! Á rás sinni yfir móinn kemur Öxará allt í einu á brún hengiflugsins, og eins og jagúar stekkur á tapírahjörð, hendist hún á svipstundu, dunandi og freyðandi á dökkgrá stuðlabjörg, er liggja í þyrpingu í og í kringum djúpan hyl við rætur bergsins. Á slíkum stað mætti búast við að mæta dýrunum ógurlegu, er vörnuðu Dante vegarins í myrkviðinum forðum, jagúarnum, ljóninu og úlfynjunni mögru. Og þarna eru þau reyndar! steypast öll saman ofan í einu bræði-froðu-kófi: snjóhvíti hlébarðinn að norðan, sandlita ljónið og vefrarvaður blágrárra úlfa, sem vel má vera að einhverntíma hafi verið flokkur guðlausra manna. Líttu á þau þegar þau koma á brúnina; þau virðast nema staðar sem snöggvast og geysast svo fram í tryltum vígamóð. Hlustaðu á! Þau urra, ýlfra, hvæsa, frísa, öskra og drynja ógurlega. Má ekki, þar sem æðandi flóðið skellur í stórgrýtisurðina fyrir neðan, sjá voðastökkið, heljarhramminn, sem lýstur banahögg, leiftrið í logandi augunum, skína í hvítar vígtennurnar, glampa á mislitan hrygg og froðuhvítan kvið? Hve það er undarlegt, þetta samband forms- og litarfegurðar og æðistrylts eðlis, tignar og grimdar, mjúkleiks og þokka og óbifandi eyðingarfýsnar.

Þingvellir

Öxarárfoss.

En Öxará verður naumast með orðum lýst, þar sem hún hendist í gagnsæjum kristallsdyngjum ofan í gjána. Og lítið nú á hana þar sem hún rennur ofan gjána milli hinna háu hamraveggja. Hún freyðir, niðar og dunar yfir stórgrýtisbjörgin og milli þeirra. Feldurinn hennar fagurhvíti er allur með svörtum flekkjum. Þar sem hún finnur hlið í lægri hamravegginn tekur hún enn eitt stökk með háum dyn, nálgast svo vatnið, teygir úr sér endilangri á flötum söndunum og mókir suðandi og malandi eins og kátur og fullur köttur.

Þingvellir

Þingvallafundurinn 1907.

Á stórum votum steini rétt neðan við fossinn sé ég frú Björnsson, er starir inn í leiftrandi augu gnýjandans. Hún minnir á konur, er verða frægar fyrir það að temja villidýr og standa óskelfdar hjá strókum af ljónum, tígrum og jagúörum, en regnbogalitur úði skýst til og sleikir hendur hennar og andlit góðlátlega eins og lébarðahvolpur.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Ég klifrast upp fyrir fossinn og gefur mér þar góða fuglsýn af dalnum milli gjánna og vatninu í fangi hans. Það minnir mig á japönsku skjaldbökuna, sem segir af í þjóðsögum og var með ljómandi páfuglsstéli, því að hinn þurri hluti sokknu hraunsléttunnar, allur skoraður sundur í plötur eða skildi af ýmsri stærð og lögun, bendir á að þetta sé skjöldur af risavaxinni skjaldböku, en vatnið sýnir grænt og gullið og blátt stélið, breitt út sem prúðlegast. Hraunbreiðan fyrir fótum mér er grágrænflekkótt. Náttúran hefir klætt hið rifna og molnaða yfirborð mosaþembu, lyngi og birkikjarri. Á miðri þessari hraunsléttu glitrar fagurgrænt túnið í Skógarkoti, eins og landbrot í eyðimörku. Annað tún lengra norður heitir Hrauntún.
Við endann á vatninu, nálægt Öxarármynni, stendur hin litla timburkirkja Þingvalla, með kirkjugarðinn, prestsetrið og túnið umhverfis. Vegurinn heim að kirkjunni er nú svartur af mannfjölda; eflaust er konungurinn þar að skoða gamla predikunarstólinn og altaristöfluna, eða hinn fræga lögkvarða Íslands, sem er einsteinungur skoraður djúpt á austurhlið.
Ég fer ofan á sléttuna til þess að komast aftur í konungsfylgdina og skoða hið tröllslega tíglaverk, sem myndaði gólfið á hinum forna þingstað. Hér má fylgja gjám og glufum langa leið undir skærum vatnsfletinum. Alt hið sokkna svæði er því líkast sem það væri jötunheima steingrind, er hallaðist hálfsokkin í jökulvatnið, sem streymir frá Langjökli, seitlar undir Skjaldbreiðarhraun, fyllir vatnsskálina og rennur svo um Sog og Ölfusá út í Atlantshaf.
Þingvellir
Þegar vér komum á Geysisveginn, mætum vér konunginum, er kemur frá kirkjunni, og nemum staðar til að skoða staðinn, þar sem dómar fóru fram í fornöld. Það er hraunrimi, þrjúhundruð álnir á lengd og tuttugu til sextíu á breidd, og nálega umluktur sem tangi af tveimur djúpum gjám, Flosagjá að vestan og Nikulásargjá að austan, er renna saman við norðurendann með tónkvíslar móti.

Þingvellir

Þingvellir.

Gjárnar eru frá átján til fjörutíu fet á breidd og fimmtíu fet á dýpt ofan að djúpu vatni, sem í þeim er. Nikulásargjá var svo nefnd 1742, er Nikulás nokkur sýslumaður, er flæktur var mjög í málaferli, drekkti sér í gjánni; hin dregur nafn sitt af Flosa, söguhetju, er stökk skyndilega yfir gjána og komst þann veg undan. Milli þessara tveggja gjáa er grasi gróinn hjalli, þar sem sakamenn voru reyndir, og yrðu þeir sannir að sök, voru þeir teknir þar samstundis af lífi. Á þessum Tarpejukletti voru lagaverðirnir öruggir fyrir afskiftum annara. Leiðin þangað var af náttúrunnar hendi svo mjó, að auðvelt var að verja. Efst á þessum kletti situr nú hinn sérstaki konungsmálari, hávaxinn, fríður og góðlegur Dani og dregur mynd af útsjóninni yfir vatnið, aðdáanlega vel og fimlega.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Af brúnni yfir Nikulásargjá horfum vér ofan í gjána. Vatnið er svo furðulega tært, að smæstu hlutir sjást skýrt á miklu dýpi. Fjöldi silfurpeninga, er menn hafa leikið sér að að kasta í vatnið, liggja þar á mosa- eða þang-koddum, og sýnast stærri, bjartari og nær gegnum kristallstært vatnið. Þetta stækkunarmagn vatnsins hefir lengi verið kunnugt, Seneca segir í sínum Quaestiones náturales, þar sem hann er að skýra það hvernig regnboginn kemur fram: »Hver hlutur sýnist miklu stærri þegar menn sjá hann í gegnum vatn«, og Macrobius segir oss, að rómverskir veitingamenn á hans dögum voru vanir að setja við veitingahúsdyrnar hjá sér egg, grænmeti og ávexti í glerkerum fullum af vatni, svo að matvæli þeirra virtust stærri og girnilegri en þau voru í raun og veru.

Flosagjá

Þingvellir – Flosagjá.

En vatnið í þessum gjám er merkilegt, ekki svo mjög fyrir það hve algerlega tært það er og hve mikið það stækkar, sem fyrir hitt hve geysifagrir og breytilegir litir þess eru. Horfið beint ofan í vatnið, og þér munuð sjá það fagurlega grænt með blæbrigðum frá malakít og smaragð yfir í dökkasta brons, þó að það þegar dýpra kemur, sé nálega bleksvart. Horfið nú á það á ská, og það verður himinblátt, heiðblátt, rússablátt eða sterkblátt, en yfir bæði græna og bláa litnum leika glampar af purpura, fjólubláu og gulli eins og slást í kristallsstrendingum, skelplötu og sápubólum. Þessir löngu vatnsálar í djúpri og þröngri hamragjánni eru því tilsýndar sem regnbogaslöngur, er teygja úr sínum ljómandi, bragandi „Ugðum“, eða eins og bláir og grænir purpuraroðnir hátsar á Páfuglum á Ceylon eða í Birma.

Þetta skæra vatn, logandi eins og eldur, kalt sem ísinn, líður svo mjúklega milli stuðlabergsveggjanna, að ætla mætti að það stæði kyrt, ef ekki væru þaraþræðirnir, sem teygjast í áttina sem það rennur í. Frá neðanjarðaræðum streymir þessi töfrakristall fullur af dásamlegri fegurð, skrýddur vökvasilki og gimsteinagliti. Hann hrífur hvert hjarta með alsigrandi töfrum ljóss og ljóma, hverfur um djúpar, ósýnilegar æðar og rennur að lokum út í bláa vatnið mikla. Að vatnið í gjánum stendur í sambandi við stöðuvatnið, sanna silungarnir, er stundum koma upp í þær hópum saman.

Þingvellir

Konungsfylgdin fer frá Þingvöllum 1907.

Ég lít upp í gjáveggina og sé að þeir eru tjaldaðir grænum mosabreiðum, lögðum fögrum burknum. Hátt uppi, rétt á gjábarminum, eru margar plöntur rétt komnar að því að falla, svo ákafar virðast þær að gægjast ofan í gjána, og með þeim gægist hinn gullni guð ljóssins sjálfur. Það er líka kunnugt, að vagninn hans svífur kringum þennan stað mánuðum saman, bæði dag og nótt. Hver veit nema þessi djúpu vötn séu bústaður dáfagurra dísa? Eru engar hafmeyjar á Þingvöllum?

Þingvellir

Þingvellir – haust.

Jú, víst, hvað ætti hún Hallgerður lævísa að hafa verið annað, hún sem seiddi hann Gunnar í glötunina! Sá tigni maður sá hana fyrst við búðardyrnar hennar hjá vatninu. Hún var nýstigin úr lauginni og kembdi hár sitt langt og hrynjandi eins og sönnum hafmeyjum er títt.
Ég get ekki slitið mig burt. Vatnsdísin heillar mig, hinn frábæri yndisleiki kristallsvatnsins færir mér unað, sem engin önnur skynjan má veita. Eins og hinn skygngi starir á skyggða kúlu úr bergkristalli eða beryl, reyni eg líka að rjúfa blæjuna er skilur hið »verulega líf« umhverfis oss frá andlega lífinu, sem er enn þá verulegra fyrir þá sem trúa. »Hof Demeter í Patras«, segir Pausanias, »á óskeikandi véfrétt í sinni helgu lind«. Svo munu og hin bláu berylvötn á Þingvöllum gædd sannleikskrafti og megna að vekja vitranir, ef horft er í þau af hreinu hjarta.“ – G. F. þýddi.

Heimild:
-Eimreiðin, 5.-6. hefti 01.12.1922, Þingvallaför, Dr. Luis Westenra Sambon, bls. 344 og 349-362 – https://timarit.is/page/4819435?iabr=on#page/n0/mode/2up/search/%C3%BEingvallaf%C3%B6r

Þingvellir

Kárastaðastígur.