Þórufell – Þóra P. Jónsdóttir
Í Morgunblaðinu 2. október 1987 er minningargrein um Þóru P. Jónsdóttur. Þóra fæddist í Breiðholti og bjó lengi við Reynisvatn. Hún var vel kunnug á sínum heimaslóðum, líkt og lesa má:
„Ástkær tengdamóðir mín, Þóra Petrína Jónsdóttir frá Reynisvatni, er látin í hárri elli. Hún átti ekki nema fjögur ár ólifuð til að fylla heilt árhundrað. Með Þóru er fallinn í valinn verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar, sem lifað hefur tímana tvenna. Í minningu tengdamóður minnar get ég ekki látið hjá líða að fara um hana nokkrum orðum og endurgjalda henni að nokkru þann hlýhug og velvilja sem hún sýndi mér alla tíð.
Þóra var fædd 13. maí 1891 í Breiðholti. Foreldrar hennar voru þau Jón Jónsson, bóndi þar og kona hans Björg Magnúsdóttir, en þau hjón áttu miklu barnaláni að fagna og var Þóra yngst þrettán barna sem þeim hjónum varð auðið. Þrátt fyrir alla ómegðina, tókst Jóni og Björgu alla sína hjúskapartíð að sjá börnum sínum farborða.
Jón og Björg bjuggu myndarlegu búi að Breiðholti og víst er að þar hefur oft verið gestagangur mikill í sláturtíðinni, er vinnumenn og bændur af Suðurlandi komu slæptir ofan af Hellisheiði með reksturinn til slátrunar í bæinn, enda lá Breiðholtsbýlið um þjóðbraut þvera.
Eftir að Jón féll frá 1897, tók Björg við búrekstrinum, sem henni fórst vel úr hendi. Björg stýrði búi í Breiðholti í ein sex ár eða til 1903 er hún brá búi og fluttist til Reykjavíkur með þau barnanna sem ekki voru að fullu vaxin úr grasi. Þá var Þóra á þrettánda ári og var talan þrettán þar enn á ný áhrifavaldur í lífi hennar. Eins og títt var með börn og unglinga á upphafsáratugum aldarinnar, varð Þóra snemma að sjá sér farborða og leggja til með sér til heimilishaldsins. Eftir að hún fluttist til Reykjavíkur vann hún í fiskvinnu, verksmiðjuvinnu og kaupavinnu uppí Borgarfirði og austur í Fljótshlíð.
Þóra kynntist í Reykjavík lífsförunauti sínum, Ólafi Jónssyni, múrarameistara frá Stuðlakoti [Stöðlakoti], miklum ágætis- og hagleiksmanni. Þau gengu í það heilaga 14. október 1913 og lágu leiðir þeirra saman eftir það í rúm fimmtíu ár, eða þar til Ólafur andaðist 25. september 1965, þá rétt kominn á efri ár.
Fyrst um sinn bjuggu Þóra og Ólafur í Stuðlakoti, æskuheimili Ólafs. Stuðlakot kannast óefað margir Reykvíkingar við, en það er steinbærinn við Bókhlöðustíginn, beint fyrir sunnan latínuskólann gamla, en bærinn hefur fyrir skemmstu verið gerður upp í upphaflegri mynd. Í Stuðlakoti og á Bókhlöðustig 6a, húsi sem Ólafur reisti, bjuggu þau í rúm tíu ár, eða þar til þau festu sér jörðina Reynisvatn í Mosfellssveit til ábúðar.
Eftir að þau brugðu búi og fluttust að Reynisvatni 1924, þurfti víða að taka til hendinni. Húsakostur á Reynisvatni var bæði rýr og lélegur og túnið lítið og þýft. Það var því í nógu að snúast fyrstu búskaparárin. Ólafur byggði nýtt og rúmgott íbúðarhús og braut ódeigur mikið land til rætkunar. Ólafur var búhöldur góður, og hafði á fóðrum margt fjár, sem var bæði vænt og fallegt.
Þrátt fyrir óbilandi áhuga Ólafs fyrir búskapnum, var hann þó trúr og tryggur þeirri iðn sem hann hafði menntast til, múrverkinu. Hann stundaði múrverk jöfnum höndum með búskapnum allt fram yfir 1950, er hann lagði múrskeiðina á hilluna og snéri sér alfarið að búskapnum. Meðal þeirra bygginga sem Ólafur vann við og tók þátt í byggingu á voru ýmis stórhýsi, s.s. Landspítalinn, Landsbankinn, Hafnarhúsið, Hótel Borg og Gamla Bíó.
Án efa hefur mikið mætt á Þóru á frumbýlisárum hennar og Ólafs að Reynisvatni. Þegar hér var komið við sögu höfðu þau eignast fimm börn, sem öll voru ung að árum og fjögur önnur bættust í barnahópinn næstu árin. Þær stundir sem bóndinn dvaldi fjarri heimilinu í Reykjavík við múrverkið, hafði Þóra í mörgu að snúast, barnauppeldi og búverkum. Eflaust hefur jafnlyndi og æðruleysi Þóru og væntumþykja fyrir börnum og ferfætlingum átt stóran þátt í því að bústörfin gengu sinn vanagang, þótt Ólafur væri við störf í Reykjavík.
Börn þeirra Þóru og Ólafs urðu níu talsins. Eftir að börnum voru vaxin úr grasi, fyllti næsta kynslóð upp í það tóm sem verður þegar börnin eru farin að heiman. Öll barnabörnin, sem eru 17 að tölu, dvöldu langdvöldum á Reynisvatni hjá ömmu og afa meðan hans naut við.
Enn á ný 1980 urðu breytingar á högum Þóru. Hún seldi Reykjavíkurborg landareignina og húsakostum á Reynisvatni og fluttist búferlum að Mávahlíð í Reykjavík, þar sem hún eyddi ævikvöldinu.
Þrátt fyrir háan aldur og margt viðvikið á langri ævi, hafði Þóra fótavist allt fram á síðasta dag og fylgdist vel með öllu þó líkamlegt þrek væri farið að minnka.
Alla ævi hafði Þóra mjög sterkar taugar til æskustöðva sinna í Breiðholtinu. Þegar embættismenn á vegum Reykjavíkurborgar voru að finna götum í Breiðholtinu nöfn, var Þóra höfð með í ráðum, enda óvíst að aðrir eftirlifandi hafi verið kunnugri örnefndum og staðháttum á þeim slóðum en hún. Borgaryfirvöldum þótti við hæfi að nefna þrjár götur í höfuðið á Þóru og tveimur systrum hennar, göturnar Þórufell, Lóuhólar og Maríubakki. Ræktarsemi Þóru við Breiðholtið kom ekki síst fram í því að henni var umhugað um varðveislu örnefna í Breiðholtinu, þótt gömlum kvíastæðum og stekkjarbrotum væri valið það hlutskipti að lenda undir undirstöðum íbúðarhúsa og háhýsa. Þóra brást því glöð við þeirri beiðni starfsmanna Örnefnastofnunar að fylla í eyður stofnunarinnar um örnefni á bernskuslóðum hennar og næsta nágrenni.
Þóra var um margt einstæð kona. Hún var hjartahlý og ráðagóð og vildi úr hvers manns vandkvæðum ráða. Hún var mikill dýravinur og náttúrunnandi, hún unni öllu því sem lífsandinn hrærði.“ – Þorgeir Þorkelsson
Heimild:
-Morgunblaðið, 2. október 1987, Þóra P. Reynisdóttir, f: 13.05.1891, d. 21.09.1987, bls. 39.