Þyrill
Tilgangur ferðarinnar var að skoða tófir gamla bæjarins og hofhús að Þyrli í Hvalfirði.
Svo segir í Harðar sögu Hólmverja: “Þorsteinn gullknappur bjó þá á Þyrli, grályndr ok undirförull, slægvitr ok vel fjáreigandi.” Harðar saga, ÍF XIII, 62, sbr. 87 “[Indriði] fór um morgininn einn saman, ok it gegnsta reið hann til Þyrils. hann steig þá af baki ok gekk ofan Indriðastíg hjá Þyrli ok beið þar, unz Þorsteinn fór til blóthúss síns … Hann snýr þá fram fyrir hann ok hjó hann með sverðinu Sótanaut undir kverkina, svá at af tók höfuðit. Hann lýsti þessu vígi á hendur sér heima at Þyrli …” „Bæjarhús jarðarinnar standa undir samnefndu fjalli.“, segir í örnefnaskrá. Í Fornleifaskráningu fyrir Hvalfjarðarstönd 2003 segir að þar sé steinhús með kjallara, byggt 1937, um 5 m norðaustar heldur en gömlu bæjarhúsin stóðu. Ekki er lengur búið í húsinu en er notað sem afdrep í búskaparsnúningum. Ekki er vitað til að mannvistarlög hafi fundist við byggingu hússins.
Húsin á Þyrli eru á milli tinda Þyrilsins og Þyrilsness sem gengur fram í Hvalfjörðinn. Umhverfis húsið eru sléttuð tún. Allt svæðið er í halla í hlíðarrótum fjallsins Þyrils sem gnæfir yfir bænum, girt klettabelti. Suðaustan við húsið er malarborið og flatt hlað, á milli íbúðarhúss og fjárhúss og hlöðu sem enn eru notuð. Steypta húsið stendur á nokkuð láréttum stalli sem gengur út úr hlíðinni og gæti kallast hóll en þó að öllum líkindum náttúrulegur en ekki upphlaðinn. Lítil ummerki sjást eftir gömlu bæjarhúsin en þó er óslétt og glittir í grjót nokkrum metrum suðvestan við steinhúsið. Eins sker gróður sig úr umhverfinu þar sem gömlu húsin voru, vallhumall áberandi á um 26 m svæði, N-S og um 10 m A-V. Garðlög þau sem eru á túnakorti og voru við gamla bæinn sjást enn greinilega. Gömlu bæjarhúsin stóðu á meðan var verið að byggja nýja húsið en voru rifin fljótlega eftir að nýbyggingu lauk.
Í riti Kristians Kålunds um íslenska sögustaði frá 1872-1874 segir: „Ofan við bæinn er svonefndur Goðahóll. Er talið að þar hafi staðið hof það sem nefnt er í Harðar sögu. Tóftin er mjög óljós snýr austur og vestur. Hún er um 6 faðma löng, en mjög mjó, 1 faðmur, svo að hún virðist naumast meira en breið skora; má þó vera að stafi af því, að veggir séu fallnir saman. Dyr virðast hafa verið við syðri langvegg nokkru nær austurenda. [Nmgr. Sigurður Vigfússon gróf upp tóftina, mældi hana og lýsti henni nákvæmlega, taldi hana 17-57 fet. Árb. Fornl. 1880-81, 17.] Í húsvegg skammt frá bæjardyrum er neðst í veggnum allstór steinn (um 1.5 álnar langur, 1 álnar hár), nálægt miðju er skálmynduð laut, að stærð eins og fyrir krepptan hnefa. Steinninn nefnist, þótt undarlegt sé, „blótsteinn Harðar“, en ýmsir telja, að þar sé steinn sá er Þorsteinn blótaði í hofi sínu, að því er sagan segir.“
Sigurður Vigfússon, fornfræðingur, kom að Þyrli sumarið 1880 og gróf í tóftina. Hann segir í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1881: „Að Þyrli er forn tótt uppi í túninu fyrir ofan bæinn, sem kölluð eru Hoftóft… Steinn einn mikill hefir lengi verið í bæjarveggnum, er fram snýr á Þyrli. Hann er og hefir verið kallaðr Blótsteinn, og um það eru sagnir, sem einlægt eiga að hafa haldizt, að hann hafi staðið í hofinu eða blóthúsinu á Þyrli… Hann er úr blágrýti. Síðan tók ég nákvæma mynd af steininum, sem hér fylgir með [myndin er sýnd aftast í árbókinni, bls. 124], hann er 1.25 alin á lengð, 0.75 al. á breidd og 0.5 al. á þykt.
Niðr í hann er klappaðr bolli lítið sporöskjumyndaðr. Að innan er bolli þessi sem hálfkúla að lögun og mjög sléttr með lítt ávölum börmum. Hann er að þvermáli 4 þuml. og 2.25 þuml. á dýpt. Að ofan er steinninn mjög sléttr af náttúrunni, því að eigi sýnist hann vera höggvinn. Af einu horninu virðist jafnvel að vera brotið síðar, eins og myndin sýnir. Síðan tók ég að grafa tóttina af blóthúsinu. Tóttin snýr í útnorðr og landsuðr, afhúsið í útnorðr. Hún stendr í nokkrum halla; spottakorn fyrir landsunnan tóttina kemr upp lækr og rennr þar niðr eftir, og minnir mig, að hann sé kallaðr blótkelda… Öll tóttin, þegar hún hafði verið grafin, var 57 fet á lengd út á ytri hleðslur og 17 fet á breidd; afhúsið er 17 fet á lengd, og þannig er það ferskeytt.“
Brynjólfi Jónssyni fornfræðingi segist svo frá í Árbók fornleifafélagsins 1904: „Mér var falið að athuga, hvernig blóthústóftin á Þyrli liti nú út.
Það eru nú 12 ár síðan Sigurður sál. Vigfússon gróf hana út, og er hún nú aftur grasi gróin; enda er hún í túni. Fyrir bakvegg hennar sér glögglega og er sem mjótt þrep langs með honum að innanverðu. Einnig sér fyrir vesturgafli og er hann bogadreginn. En eigi mótar neitt fyrir framvegg, millivegg eða austurgafli. Að eins standa steinar upp úr grasrótinni hér og þar, alveg óreglulega. Er hætt við, að úr þeim veggjum hafi verið tekið grjót eftir að S. V. skildi við þá. Nú er annað fólk nýkomið að Þyrli, og vissi það ekkert um blóthústóftina. Að eins einn drengur var þar, sem gat vísað mér á hana. Gjörði eg uppdrátt af henni, eins og hún kom mér fyrir sjónir.“
Í Frásögum um fornaldaleifar er minnst á merkilega staði í Hvalfirði.: „Geirhólmr á Hvalfirdi, Hardarhæd i Dagverdarnesi, er nú kallast Þyrilsnes, rústir af Hofi Þorsteins Gullknapps á Þyrli og Önundarholt ynnfrá Brecku, er Hólmverja saga hermir frá.“ (FF 1983, 344). Tóftin er friðlýst: „Þyrill. I) Leifar forns blóthúss, vestur á túninu. Sbr. Árb. 1880-1881: 74-76; Árb. 1904: 18. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 22.01.1931.“(Friðlýsingarskrá 1990). Í Harðarsögu segir: „Hann [Indriði] fór um morguninn einn saman, ok it gegnsta reið hann til Þyrils. Hann steig þá af baki ok gerði gekk ofan Indriðastíg hjá Þyrli ok beið þar, unz Þorsteinn fór til blóthúss síns, sem hann var vanur. En er Þorsteinn kom, gekk hann inn í blóthúsit ok fell fram fyrir stein þann, er hann blótaði ok þar stóð í húsinu, ok mæltist þar fyrir…
Síðan gekk Þorsteinn út ok heim Indriði sá ferð hans gerla. Indriði bað hann eigi hlaupa svá mikinn. Hann snýr þá fram fyrir hann ok hjó þegar með sverðinu Sótanaut undir kverkina, svá at af tók höfuðit.“ (ÍF XIII, 90-92). Tóftin er rétt rúma 100 m norðaustur af bæ. Tóftin er í túnbrekku í hlíðarfæti Þyrils og snýr mót suðvestri. Túnið er í rækt, borið er á það og það slegið. Tóftinni er þó hlíft. Tóftin er orðin mjög svo ógreinileg. Hún virðist snúa NV-SA, 20,5 m á lengd og um 6 m á breidd en þó er erfitt að greina hvar norðaustur langvegg sleppir því hann fjarar út upp í brekkuna að norðaustan.
Megineinkenni tóftarinnar er fyrrnefndur norðaustur langveggur, eða ruðningur, sem er 20,5 m langur. Hann er hæstur 0,7 m og um 2 m breiður. Við suðausturenda eru 7 steinar, um 0,3 x 0,4 m að jafnaði, í hnapp og liggja tiltölulega óreglulega N-S. Við norðvesturenda mótar fyrir bogadregnum garði – gafli. Suðvestur langhlið er ógreinileg og lítið sem ekkert upphleypt en þó má greina mörk garðsins á þúfum og lægðum í landið.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafræðifélags 1881 fjallar Sigurður Vigfússon um „Um hof og blótsiðu í fornöld“. Þar segir m.a. um hofið í Þyrli: „HlN fyrsta hoftótt, sem rannsökuð hefir verið hér á Íslandi, er blóthúsið á pyrli. Aðaleinkenni þessarar tóttar eru einkannlega afhúsið eða þó öllu fremr veggrinn, sem skilr það frá aðalhúsinu, sem, eins og tekið er fram áðr, hefir aldrei verið með neinum dyrum; afhúsið hefir því verið fullkomlega skilið frá aðalhúsinu og enginn gangr þar á milli, eftir því sem tóttin sýnir ; þenna millivegg dyralausan hefi eg einnig orðið var við á fleirum hoftóttum, sem kallaðar eru. Afhús er í öðrum enda og veggrinn milli þess og aðalhússins er fult eins mikill og þykkr eins og aðalveggir tóttarinnar, og er það auðséð, að á honum hafa aldrei dyr verið. Tóttin er hálfkringlótt fyrir endann á af húsinu og miklu kringlóttari enn nokkur tótt, er eg hef séð, enda tóttin öll mjög regluleg. Dyr eru á af húsinu á miðjum gafli; þær sjást glögglega; fyrir hinn endann er tóttin hornótt, eins og vanalegt er, og eru þar einnig dyr á miðjum gafli. Við nyrðra kampinn á dyrunum er hola eða lægð, sem mig minnir að nefnd sé blótkelda, enn í henni er þó ekkert vatn nú eða deigja; enda virðist hún mjög sigin saman.
Tóttin öll er nær 14 faðmar á lengd og 7 faðmar á breidd, sem er ákafleg breidd. pannig sjá menn, að tótt þessi er ákaflega stór, einkannlega á breiddina. pessi tótt er kölluð „Hoftótt“. Málið er ekki, ef til vill, nákvæmt, með því að eg gat að eins stigið tóttina, enn nærri mun það samt láta. Það eru 14 eða 15 ár, síðan eg skoðaði þessa tótt; tók eg þá af henni mynd, sem eg hefi enn til. Eg nefni tóttina á pyrli blóthús, af því að í sögunni er nefnt blóthús á pyrli, enn eigi hof, og hygg eg, að það sé svo nefnt, af því að það hefir eigi verið höfuðhof, heldr einungis heimilishof, ef svo mætti að orði komast, þvíað, eins og kunnugt er, skyldu vera þrjú höfuðhof í hverju þingi, nefnilega eitt höfuðhof í hverju goðorði. par vóru menn vandaðir til að varðveita hofin bæði að vitrleik og réttlæti. peir skyldu dóm nefna á þingum og stýra sakferlum, og því vóru þeir goðar kallaðir. Það, sem enn fremr er einkennilegt við tóttina á þyrli, er það, að afhúsið liggr alt miklu lægra, eins og áðr er getið, og dyrnar út úr hliðveggnum bæði á afhúsinu og aðalhúsinu, og auk þess þessir bálkar i afhúsinu, hvé mjög sem þeir kunna að vera úr lagi gengnir.
Það er auðvitað, að ekkert verðr með vissu ákveðið að sinni, fyrr enn fleiri hoftóttir verða rannsakaðar, sem nógar eru til á landi hér, og samanburðr fæst; enn hvað sem þessu líðr, þá er tótt þessi í öllu verulegu lík þeirri lýsingu, sem vér höfum á hofum í fornsögum vorum. í afhúsið var skipað goðunum, enn aðalhúsið var haft fyrir veizlusal, er blótveizlur vóru haldnar. Sakir þessa eru engar dyr milli aðalhússins og af hússins, að þangað hefir vist engum verið leyfilegt að koma, nema goðanum sjálfum eða þeim, sem hann leyfði. Alt hofið skoðuðu fornmenn heilagt, og helgi hofanna var aftekin með lögum, þegar kristni var lögtekin, nefnilega „að hof öll skyldi vera óheilög“, enn mest helgi hefir þó hvílt yfir afhúsinu, og milliveggrinn hefir því verið sem nokkurs konar fortjald fyrir afhúsinu sem hinu allra helgasta…“
Í túnbrekkunni fyrir neðan tóftirnar er brunnur (Hoflind). „Ásinn er enn nefnt Hofið, þar sem blótshúsið stóð, og lind er þar, sem heitir Hoflind; neðan við lindina er kallaður Brunnvöllur. Nafn sitt dregur hann af því að lækurinn frá lindinni var þar leiddur í hlaðinn brunn. Þangað var vatn sótt…“, segir í örnefnaskrá. 6 – 8 m sunnan við fornleif „blóthús“ er brunnur eða lind. 3 m vestan við lindina er raflínustaur. Lindin er í túnbrekku í hlíðarfæti Þyrils sem snýr mót suðvestri. Túnið er í rækt, borið er á það og það slegið. Brunnurinn er hlaðinn, 6 – 7 umför steina sjást ofan við vatnsborð (1,3 m) en ekki er vitað hve langt niður hleðslan nær. Byggt hefur verið yfir grjóthleðsluna, timburraftar þversum yfir brunninn, bárujárnþak yfir röftunum og svo torf þar ofna á. Heildarhæðin er um 1,6 m. Mannvirkið er hringlaga, um 4 m í þvermál. Vatn seytlar úr brunninum, undan brekkunni í vestsuðvestur. Þar sem vatnið kemur út er op og timburfleki þar fyrir sem lokar opinu. Opið er 0,7 m breitt neðst en 1,3 m efst. Lindin sér enn bænum (útihúsum) fyrir vatni og er greinilega viðhaldið.“
Þörf er að afgirða minjasvæðið og beita á það hestum. Við það gætu minjarnar skýrst verulega.
Frábært veður. Gangan tók 33 mín.
Heimildir m.a.:
-Harðar saga, ÍF.
-Örnefnalýsing fyrir Þyril.
-Fornleifaskráning fyrir Hvalfjarðarströnd 2003.
-Kristian Kålunds um íslenska sögustaði frá 1872-1874, 215.
-Árb 1881, 71, 74-75.
-Árb 1904, 18.
-FF, 344.
-Friðlýsingarskrá.
-Sigurður Vigfússon – Árbók Hins íslenska fornleifafræðifélags 1881.