Urtagarður við Nes – skilti
Sunnan við Nes á Seltjarnarnesi er garður, nefndur „Urtagarður„. Á tveimur upplýsingaskiltum við garðinn má lesa eftirfarandi; annars vegar:
Saga Urtagarðsins
Garðurinn var opnaður árið 2010 í minningu þriggja mann sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi. þeir voru Bjarni Pálsson (1719-1779) landlæknir, Björn Jónsson (1738-1798) lyfjafræðingur og lyfsali og Hans Georg Schierbeck (1847-1911) landlæknir. Árið 2010 voru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í nýstofnað embætti landlæknis (1760) og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands (1885). Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck þáverandi landlæknir.
Nesstofa og nytjagarðurinn
Stofnun landlæknisembættisins með konunglegri tilskipun Friðrik V. Danakonungs árið 1760 markaði tímamót í sögu opinberrar heilbrigðisþjónustu á íslandi. Í tengslum við embættið var rekið apótek og seld lyf undir umsjón menntaðs lyfjafræðings. Voru lækningajurtir m.a. ræktaðar í hluta allstórs matjurtagarðs við Nesstofu. Björn Jónsson var fyrsti menntaði lyfjafræðingur landsins og byggði hann upp og annaðist þennan matjurta- og lækningajurtagarð í Nesi frá 1768. Björn vann fyrst sem aðstoðarmaður Björn Pálssonar landlæknis en var síðan skipaður fyrsti lyfsali á Íslandi árið 1772. Sama ár kom fyrsta útgáfa af Lyfjaskrá Danska ríkisins, Pharmacopea Danica, út. Apótek var rekið í Nesi til ársins 1834 er það flutti til Reykjavíkur. Má þá ætla að ræktun lækningajurta hafi lagst af.
Framlag til heilsubótar
Lyflækningar hafa löngum byggst á notkun jurta sem taldar eru hafa áhrif á heilsu fólks og jafnvel einstaka sjúkdóma.
Ofangreindir heiðursmenn höfðu allir frumkvæði að nýtingu og ræktun nytjajurta, hver á sinn hátt enda var þekking á jurtum og lækningarmætti þeirra mikilvægur hluti menntunar þeirra. Bjarni Pálsson landlæknir (1719-1779) hvatti ráðamenn holdsveikraspítala til að rækta kál og kartöflur handa sjúklingum sínum. Skyldi gefa sjúklingum kál og ferskar jurtir úr íslenskri náttúru minnst tvisvar í viku (fjallagrös, skarfakál, hrafnaklukku, njólablöð og Ólafssúrur). Björn Jónsson (1738-1798) kynntist lækningajurtagörðum við apótek á námsárum sínum í Danmörku.
Við suðurgafl Nesstofu útbjó hann stóran jurtagarð með hlöðnu torfgerði í kring og nýttist hann vel til ræktunar. Auk lækningajurta, ræktaði Björn matjurtir, reyndi kornrækt og var einna fyrstur til að reyna trjárækt hér á landi. Hans Georg Schierbeck (1847-1911) sameinaði læknisstarfið og garðyrkjuháhugann með því að hafa forgöngu um eflingu og útbreiðslu garðyrkju og ræktun matjurta, almenningi til heilsubótar. Ekki var vanþörf á, enda voru margir Íslendingar vannærðir og þjáðir af skortssjúkdómum vegna einhæfs mataræðis. Með stofnun Garðyrkjufélags íslands var hafin skipuleg fræðsla almennings um garðyrkju og útveguð aðföng til ræktunarinnar.
Schierbeck hafi lagt stund á garðyrkjunám í Danmörku og nýttist það vel við fjölbreyttar tilraunir á ræktun korns, matjurta og ýmiss konar skrautjurta, runna og garðtrjáa. Elsta innflutta garðtré á íslandi sem enn lifir er silfurreynirinn í Fógetagarðinum við Aðalstræti í Reykjavík og er það gróðursett af Schierbeck árið 1884.
Urtirnar í garðinum
Garðurinn skiptist í tvo meginhluta, efri garð og neðri garð auk áningar- og fræðslusvæðis við hlið neðri garðsins sem hefur fengið nafnið Björngerði til heiðurs Birni Pálssyni, apótekara í Nesi. Í efri garðinum eru alls um 130 tegundir jurta og finnast um 70 þeirra í íslenskri flóru. Við val á jurtum í garðinn var tekið mið af heimildum um ræktun hér á landi og í garðinum í Nesi á árunum 1768 til 1834. Takmarkaðar heimildir eru fyrir því hvaða lækningajurtir Björn mun hafa ræktað. Í garðinum eru því einungis nokkur dæmu um jurtir sem voru skráðar í dönsku lyfjaskránni, Pharmacopoea Danica, fra 1772 og gætu hafa verið reyndar hér á landi. Aðrar jurtir sem hér eru sýndar voru ekki ræktaðar hér fyrr en síðar. Til dæmis eru ekki til heimildir fyrir því hvenær rabarbari kom til landsins.
Ýmsar jurtir úr íslenskri flóru voru nýttar á þessum tíma og einnig hafa fundist merki um þekktar, fornar lækningajurtir við fornleifarannsóknir á klausturstæðum frá miðöldum á íslandi. Nokkrar slíkar eru til sýnis í garðinum og eru þær sérstaklega merktar með mynd af heilagari Dóróteu. Heimildir varðandi matjurtir og kornrækt eru ítarlegastar. Jurtir þær sem sýndar eru í garðinum eru merktar og fylgja upplýsingar hverri plöntu. Staðsetning jurta í garðinum tekur bæði mið af flokkun og vaxtarskilyrðum plantnanna. margar plönturnar tilheyra fleiri en einum flokki. Sérstakir sýngareitir eru í görðunum fyrir jurtir sem nýnæmi þykir að sýna á hverjum tíma.
Plöntunum í görðunum má skipta í fimm flokka eftir eiginleikum og heimildum um nýtingu þeirra.
Í efri garði eru:
Lækningajurtir, alþýðulækningajurtir, matjurtir, korn og krydd.
Urtagarðurinn í Nesi
er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar, Garðyrkjufélags Íslands, Embættis landlæknis, Læknafélags íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins. garðurinn er rekinn sem hluti af starfsemi safnanna í nesi og þar má nálgast upplýsingar um leiðsögn og plöntuvísi Urtagarðsins með fróðleik um plönturnar og nýtingu þeirra.
Og hins vegar:
Lyfjagerð fyrr og nú
Lengi hefur maðurinn nýtt jurtir og jurtahluta til þess að lina þrautir og lækna mein. Bakstrar, smyrsl og seyði voru unnin úr villtum jurtum sem var safnað sérstaklega til þess að nýta til lækninga. Þekking á virkni jurtanna og hvernig þær megi best nýta til lækninga gekk mann fram af manni. Með stofnun landlæknisembættisins árið 1760 varð breyting á þessari hefð. Lyfjagerð og lyfsala var viðfangsefni yfirvalda. Jurtir og steinefni voru undirstaða allrar lyfjaframleiðslu á þessum tíma og í fyrst hefur fremur lítill munur verið á þeim lyfjum sem unnin voru á hefðbundinn hátt og þeim sem unnin voru í nesi. Þá má ætla að einhver munur hafi verið á því hvernig og hvaða lyfjum var beitt í lækningaskyni þar sem notast var við fjölbreytt úrval ýmiss konar innfluttra jurta og steinefna í apótekinu í Nesi.
Árið 1772 urðu nokkur vatnaskil í sögu lyfsölu og lyfjaframleiðslu á Íslandi. Þá var embætti lyfsala stofnað. Í árslok 1771 sigldi Björn Jónsson til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði fyrstur Íslendinga. Hann var skipaður lyfsali á íslandi 18, mars 1772 og tók við rekstri apóteksins í Nesi úr hendi landlæknis. Sama ár kom út fyrsta lyfjaskráin Pharmacopoea Danica. Hún gilti fyrir öll apótek í ríki Danakonungs og innihélt 640 staðlaðar lyfjauppskriftir sem öllum bar að fylgja við blöndun lyfja. Einungis örfáar af þeim jurtum sem eru tilgreindar í lyfjaskránni vaxa villtar á Íslandi.
Með aukinni þekkingu á lyfjafræði og auknum kröfum um gæði lyfjanna fækkaði jurtalyfjunum ört. Þess í stað var farið að framleiða lyf úr hreinum efnum sem ýmist voru unnin úr plöntum eða framleidd á annan hátt. Á íslandi hurfu jurtalyfin alveg þegar framleiðslu lyfja í apótekum var hætt í lok síðustu aldar. Þá var enda orðið erfitt að útvega jurtir sem stóðust kröfur lyfjafræðinnar um gæði og virkni. Í Evrópsku lyfjaskránni er enn nokkur jurtalyf skráð enda ríkari hefð fyrir jurtalyfjum í Mið-Evrópu þar sem gróður er fjölbreyttari.
Nokkur náttúrulyf eru skráð á Íslandi nú til dags og fullnægja þau þar með kröfum Evrópsku lyfjaskrárinnar og íslenskrar reglugerðar. Það er ljóst að í upphafi var aðeins lítill hluti landsmanna, sem átti þess kost að leita til lærðra lækna og kaupa lyf í apóteki. Flestir treystu á húsráð og kunnáttu vísra manna á notkun þeirra villtu jurta sem uxu í nágrenninu. Þetta breyttist mjög á 20. öld. Þekkingu á nýtingu jurtanna hefur þó verið viðhaldið innan lyfjafræðinnar og á vettvangi alþýðulækninga.
Í neðri garði eru:
Berjarunnar og epli. Villiepli þóttu mikilvæg hollustufæða til forna áður en matarepli frá Austur-Asíu komu til sögunnar.
Hvannir og laukar. Hvannir og laukar voru mikilvægar lækninga- og heilsujurtir til forna a Norðurlöndum og má vísa til íslensks og latnesks heitir á ætishvönninni – Angelica Archangelica L, eða erkiengisjurt, til marks um það. Ætihvönnin vakti athygli sem lækningajurt og barst frá Noregi til Mið-Evrópu á síðari hluta Miðalda.