Vegakerfið á Þingvöllum – Guðmundur Davíðsson
Guðmundur Davíðsson ritaði um „Vegakerfið á Þingvöllum“ í Alþýðublaðið árið 1940:
„Nokkru fyrir aldamótin síðustu var gerður akvegur frá Reykjavík til Þingvalla. Hann er lagður, eins og kunnugt er yfir há-Mosfellsheiði, bak við alla bæi í Mosfellssveit og kom því sveitinni að engum notum. Hann var nokkurskonar öræfavegur. Meðfram honum var nálega hvergi snöp handa ferðamannahestum um há sumarið og undir snjó lá hann allan veturinn. Nú er hætt að nota hann að mestu. En í annan stað er búið að gera veg gegnum Mosfellssveit, yfir lág heiðina og til Þingvalla. Hann var lagður í tilefni af Alþingishátíðinni 1930.
Þegar búið var að leggja háheiðarveginn austur á bak við Skálabrekku var um tvær leiðir að velja með hann ofan á Þingvelli. Annaðhvort varð að fara með hann skáhalt austur aið Þingvallavatni og upp með því, nálægt gömlu þingmannaslóðunum, upp á Þingvelli, eða norðaustur fyrir neðan túnið á Kárastöðum og ofan í Almannagjá, og var sú leið valin. Verkfræðingurinn, sem þá var, áleit að heppilegra væri að leggja veginn upp með vatninu, og mældi þar fyrir honum. En þetta fór öðruvísi en ætlað var. Ráðin voru tekin af verkfræðingnum. Honum var boðið að hætta við að fara með veginn þessa leið, en taka hina leiðina, þar sem vegurinn liggur nú, ofan í Almannagjá. Að þessu lágu þau atvik, sem nú skal greina. Bóndanum, sem þá var á Kárastöðum, var það ljóst — að loku var skotið fyrir það, að hann hefði mikinn hagnað af greiðasölu, ef vegurinn lægi fjærri bænum upp með vatninu. Hann gerði sér vonir um, að gestir, á leið til Þingvalla, mundu frekar slæðast heim að bæ sínum, ef vegurinn lægi rétt hjá túninu. Bóndi fór því á fund prestsins á Þingvelli og fékk hann á sitt mál til að fá ráðstöfun verkfræðingsins breytt. Prestur talaði við landshöfðingja um þetta mál. Eftir þessa krókaleið, á bak við verkfræðinginn, bar bóndi sigur úr býtum. Þannig varð hagnaðarvon, lítilsiglds kotbónda, af greiðasölu, orsök til þess að skemmdar voru ýmsar merkar sögumenjar á Þingvöllum og stór spillt útliti staðarins. Í tilefni af veginum voru hús reist á óheppilegum stöðum innan fornu þinghelginnar, gerð spjöll á jarðvegi og fornum búðarleifum, vegir lagðir og troðnir stígar um vellina þvera og endilanga.
Ríkið hefir orðið að kosta stórfé til“ að afmá lýtin á Þingvöllum, þó aldrei verði það hægt um sum þeirra, einungis fyrir glappaskot að leggja veginn um Almannagjá, en ekki upp með Þingvallavatni, eins og upphaflega var ráð fyrir gert.
Árið 1896 var farið með veginn ofan í Almannagjá um svonefndan Kárastaðastíg. Þar var áður einstígi upp úr gjánni. — Sögulegast við hann er það, að sagt er, að Flosi Þórðarson og Eyjólfur Bölverksson hafi gengið þarna upp á efri gjábakkann árið 1012, er Eyjólfur þáði mútu til að taka að sér vörn í brennumálinu. En það atvik varð einn aðdragandinn að bardaga á Alþingi. Þegar vegurinn var lagður, voru klappirnar þarna sprengdar og rifnar niður.
Miklu stórgrýti var rutt óreglulega í neðri vegkantinn. Meðfram berginu var gerð mikil uppfylling undir veginn og aflíðandi halli ofan í gjána. Niðri í Almannagjá voru leifar af stórri fornmannabúð, sem giskað var á að Gestur Oddleifsson, spekingurinn frá Haga á Barðaströnd, hafi átt. Þær voru þurrkaðar út með öllu.
Þegar komið var með veginn að Drekkingarhyl var þar öllu umturnað. Sprengt úr gjábakkanum og stórgrýti dembt ofan í hylinn þar, sem hann var dýpstur. Trébrú var síðan lögð yfir gljúfrið þar, sem áin féll úr hylnum og ofan á vellina. Vegurinn var lagður stuttan spöl austur fyrir brúna, var þá hætt við hann í það sinn. Það mátti afsaka, að vegurinn var lagður eftir gjánni og jarðrask, sem af því stafaði, ef ekki hefði verið um aðra leið að gera, en það var síður en svo, eins og áður er sagt. Oft kemur fyrir að vegurinn í gjánni verður ófær af snjó frá hausti og fram á vor, kemur hann þá engum að gagni. Konungskomu ár var 1907. Í tilefni af því var þá byrjað á veginum aftur, þar sem áður var fráhorfið. Nú var gerð skörp beygja á veginn og hann lagður þvert yfir miðja Neðri vellina (Lögréttuvöllinn forna) og suður með hraunjaðrinum fyrir endann á Flosagjá, en þar var gerð einhver sú krappasta bugða, sem til er á þjóðvegi hér á landi.
Tveimur vögnum með hestum fyrir, varð ekki ekið eftir bugðunni, hvorum á eftir öðrum, nema maður fylgdi hverjum hesti til að koma í veg fyrir útaf keyrslu. Þarna hefir bifreiðum verið ekið útaf veginum, minnsta kosti 5 sinnum síðan 1930, þó hefir ekkert slys hlotizt af. Trébrú var lögð yfir Nikulásargjá. Hún var látin víkja fyrir steinsteypubrú laust fyrir 1930. Eftir að gjáin var brúuð 1907, var farið að grýta ofan í hana peningum. Síðan fékk hún nafnið „Peningagjá.“
Veginum var haldið áfram frá gjánni, austur hraunið að Vellankötlu. Þar hvíldist vegagerðin í 30 ár. En vegurinn frá Þingvöllum þangað austur var lagður í eins dags nauðsyn, eða eingöngu til þess, að hægt væri að aka konungi yfir hraunið, sem þó aldrei þurfti á að halda. Vegurinn var í síðan kallaður „Konungsvegur“. Þar, sem vegurinn var lagður með hraunjaðrinum, frá Neðri völlunum, sást á stöku stað votta fyrir leifum af fornum búðum. En menjar þeirra hurfu algerlega eftir að vegurinn kom. Á þessari leið var Brennugjá. Henni var einnig að mestu leyti spillt með því að hlaða veginn upp þvert yfir hana, þar sem hún opnast úr hrauninu fram að Öxará.
Um 1920 var loksins farið að byrja á að hlynna eitthvað að Þingvöllum. Vegurinn, sem lagður var 1907 þvert yfir Neðri vellina var tekinn í burtu og lagður í víðri bugðu á klöpp milli Efri og Neðri vallanna, þar sem lítið bar á honum. Var síðan sléttað rækilega yfir vegarstæðið á völlunum og öll sár grædd, sem af því stöfuðu.
Gistihúsið „Valhöll“ var rétt austan við Neðri vellina, við hina svonefndu Kastala, árið 1898. Var talið víst að því hafi verið hlassað þarna of n í æfa gamla búðartóft. Þetta var mjög óheppilegur staður. Þarna var gert ýmiskonar jarðrask, sem enn sjást merki, og áberandi óþrifnaður dreifðist út frá húsinu í allár áttir. Enginn vegur var lagður sérstaklega heim að húsinu, en þar mynduðust útflattir troðningar eftir bifreiðar, hesta og gangandi fólk. Rétt fyrir Alþingishátíðina, þegar húsið hafði staðið þarna í 30 ár, var það flutt vestur fyrir Öxará, þar sém það stendur nú. Jafnað var yfir gamla grunninn og þakinn með torfi og reynt að bæta úr áberandi jarðraski kringum hann.
,,Konungshúsið“ var reist 1906 vestan við Efri vellina upp við hallann gegnt Öxarárfossi. Móttökunefnd konungskomunnar valdi því þennan stað, vegna þess, að fossniðurinn heyrðist þarna svo vel heim að húsinu. Heppilegra var þó að láta það standa austan við vellina. Þaðan mátti sjá fossinn hverfa ofan í gjána og líka heyra í honum. Þessi ráðstöfun hafði í för með sér að lagður var götuslóði eftir eridilöngum Efri völlunum heim að húsinu. Nokkrurn árum síðar var hann aflagður, en gerður vegur ofan frá húsinu þvert austur yfir vellina, og beygður í rétt horn með hraunjaðrinum heim að „Valhöll.“ „Konungshúsið“ var flutt um sama leyti og „Valhöll“ vestur fyrir Öxará, eftir að hafa staðið þarna í liðlega 22 ár, en þvervegurinn var látinn óhreyfður. Nú er hann eingöngu notaður af gangandi fólki, sem þarna á leið upp í Almannagjá.
Enn hefst nýr þáttur í vegagerð á Þingvöllum í tilefni af undirbúningi Alþingishátíðarinnar 1930. Þá var lagður akvegur norður Efri vellina, eftir endilöngum Leirum og upp fyrir Almannagjá um svo nefndan Leynistíg, var hann látinn koma á Kaldadalsveginn fyrir sunnan Ármannsfell. Annar akvegur var lagður frá „Konungsveginum“ fyrir austan Þingvallatúnið og vestur með suðurjaðri þess, yfir nýgerða steinsteypubrú á Öxará og heim á hlað í „Valhöll.“ Fyrir vestan brúarsporðinn var enn lögð akbraut suður á móts við „Konungshúsið.“ Braut þessi var byrjun á vegi, sem gert var ráð fyrir að síðar yrði lagður með Þingvallavatni, eða sömu leið og áætlaða vegarstæðið frá 1896. Gamla tröðin heim að Þingvallabænum var endurbætt um þetta leyti og gerð fær bifreiðum, en steinlagður, vegspotti, sem lagður var, fyrir nokkrum árum heim túnið á bak við kirkjuna, tekinn í burtu. Þá var gerður steinlagður göngustígur ofan með kirkjugarðinum, að norðanverðu fram á Öxarárbakkann, og nokkrum árum síðar haldið áfram með hann suður að Öxarárbrú, enda var þá búið að leggja niður tröðina, sem frá fyrri tímum lá frá bænum suðaustur í gegnum túnið. Er nú þarna opin leið fyrir þá, sem koma norðan frá völlunum vilji þeír stytta sér Ieið, heldur en að fara hringinn austur fyrir túnið og heim að „Valhöll.“
Eru nú taldir allir vegir á Þingvöllum, sem gerðir hafa verið af mannahöndum í seinni tíð. Flestar götuslóðir, troðnar af hestafótum á víð og dreif um Þingvelli, voru nú lagðar niður og græddar út. Þær gátu ekki lengur fullnægt farartækjum eða umferðarþörfinni. Dagar þeirra voru því taldir, hvort sem var.
Þingvellir eru viðkvæmari staður, ef svo mætti segja, en nokkur annar blettur á Íslandi. Við svo að segja hvert skref þar, eru tengdir einhverjir sögulegir viðburðir frá fyrri tímum. Öll nýbreytni á þessum stað í vegagerð, húsabyggingum eða öðrum mannvirkjum, sem til lýta mega teljast, er hliðstæð því að skafa út letur á fornu og dýrmætu skinnhandriti og krota í staðinn aðra óskylda stafi.
Fyrir austan Öxará hefir miklu verið kostað til að bæta úr lýtum, sem stöfuðu frá ýmsum nýgerðum mannvirkjum, akvegir færðir til og vegarstæðin grædd út, vellirnir sléttaðir, hús, sem þarna voru til óprýðis, flutt á ánnan stað að undanskildu einu, timburkofanum við Efri vallargjána, sem enn hefir ekki verið þokað. Ýmislegt fléira er eftir að taka þarna í burtu, sem lítil prýði er að. Eitt af því er girðingafarganið á völlunum.
Þegar eftir Alþingishátíðina kom það brátt í ljós, að engin leið var að halda völlunum óskemmdum vegna bifreiðaumferðar. Ekið var yfir þá þvert og endilangt og rist ofan í þá djúp hjólför. Þá var það ráð tekið að girða þá með vírneti og gaddavír. Þetta var neyðarúrræði, en varð ekki komizt hjá því. Til þess að hægt sé að losna við girðingarnar á völlunum verður fyrst að breyta þar vegi og umferð frá því, sem nú er. Skal nú skýrt frá, hvernig það má gera.
Það stendur til að krappa bugðan við Flosagjá, frá 1907, verði bráðlega tekin af með því að sveigja veginn í víðari bugðu örfáum metrum norðar, þvert yfir gjána. Verður þá að sprengja allmikið úr öðrum gjábakkanum og auk þess að flytja að mikið grjót til að fylla upp gjána, sem þarna er hyldjúp. Efnið í uppfyllinguna hefir mönnum dottið í hug að sprengja úr berghlein í Almannagjá rétt við alfaraveginn. Ef að þessu yrði horfið, væru gerðar hér tvenns konar skemmdir. bæði þar, sem efnið er tekið, og á staðnum, sem það er látið. Um það verður ekki deilt, að stór lýti yrðu á báðum stöðunum. Þegar vegurinn var færður af Neðri völlunum, var gengið svo vel frá vegarstæðinu, að hvergi sást hvar það hafði legið. Við Flosagjá verður ekki hægt að fara eins að. Krappa bugðan , myndi verða látin standa óhreyfð þó að hin kæmi. Þá yrðu þarna framvegis tvær bugður, hvor við hliðina á annari, til stórra lýta í augum allra, sem um veginn fara.
Bugðan á veginum við Flosagjá eins og hún er nú veldur engum öðrum farartækjum slysahættu nema bifreiðum. Er þá hægt að gera hana óskaðlega hvað þær snertir með öðrum hætti en að breyta henni?
Hér að framan hefi ég bent á, að allur bifreíðaakstur ætti að leggjast niður eftir vegum um Þingvelli, frá nýju þjóðleiðinni eftir að hún er komin. Ef þetta yrði framkvæmt, hyrfi bifreiðaumferð um kröppu bugðuna við Flosagjá. Hún er þá orðin hættulaus og því óþarft að breyta henni, en gangandi fólki veldur hún engum slysum.“
G.D.
Heimildir:
-Alþýðublaðið 5. mars 1940, bls. 2-3.
-Alþýðublaðið 6. mars 1940, bls. 3-4.