Verbúðir á Reykjanesskaga

Verbúð

22 verbúðarstaðir voru um tíma á Reykjanesskaganum, sumir höfðu nokkrar búðir, s.s. í Þorlákshöfn og í Herdísarvík.

Verbúðir

Verbúðir – Bjarni Jónsson.

Verbúðirnar á Suðvesturlandi tengjast mikilvægum hluta af sögu og efnahagssögu Íslands, sérstaklega í kringum sjávarútveginn. Þær voru miðstöðvar útræðis, þar sem sjómenn dvöldu í vertíðum. Þær voru nauðsynlegar til að hýsa þann mikla fjölda manna sem streymdi til verstöðvanna.

Verbúðirnar voru jafnan staðsettar þar sem góð fiskimið og lendingarskilyrði voru, svo sem á Reykjanesskaganum, og einnig í kringum Faxaflóa og Snæfellsnes (sem er stundum talið hluti af Vesturlandi, en tengist sterklega Suðvesturlandi í sögu útræðis).

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Verbúðirnar við Grandagarð í Reykjavík eru dæmi um nýlegri verbúðir sem voru friðlýstar sem húsaröð og bera vitni um þróun sjávarútvegar og húsnæðismála í höfuðborginni.

Upprunalegar verbúðir voru oft einfaldar byggingar, hlaðnar úr grjóti eða úr torfi og grjóti, til að standast álag vetrarveðra og þjóna sem einföld gisting fyrir sjómennina. Búðarleifarnar eru í dag mikilvægur hluti af menningarsögu Íslands og hafa gildi sem slíkar. Þær minna á lífshætti og harða lífsbaráttu sjómanna fyrri tíma.

Lending - Bjarni Jónsson

Lending – Bjarni Jónsson.

Þróun sjávarútvegs, með vélbátum og stærri skipum, ásamt breyttum lífsháttum, hefur leitt til þess að hlutverk gamalla verbúða hefur breyst mikið. Margar þeirra eru nú einungis rústir, minjar um liðna tíð, á meðan aðrar hafa verið endurbyggðar eða friðlýstar.

Selatangar er einstaklega áhugaverður og mikilvægur sögustaður á suðurströnd Reykjanesskaga, mitt á milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Þar er að finna leifar af einni heillegustu og best varðveittu gömlu verstöð Íslands, sem ber vitni um harðbýlt líf sjómanna áður fyrr.
Verbúðin var stór og mikilvæg verstöð sem notuð var frá miðöldum fram á upphaf 20. aldar. Verstöðin var einkum rekin á vegum Krýsuvíkurbónda, en menn frá víðar að, þar á meðal Skálholtsbiskupi og Ísólfsskála, reru þaðan á vertíðum.
GrindavíkVísa er til sem nefnir allt að 82 sjómenn við róðra frá verinu á Selatöngum á sínum tíma. Útræði lagðist að mestu niður á Selatöngum eftir árið 1880, en síðast var róið þaðan um 1912.
Rústirnar á Selatöngum eru friðlýstar minjar. Þar má finna a.m.k. búðatóftir sem sýna hvar sjómenn sváfu á hlaðnum bálkum (svefnstæðum). Þessar hleðslur eru einstaklega áhugaverðar minjar um húsnæði og aðbúnað vermanna.
Auk verbúðanna eru á svæðinu fjöldi minja um fiskverkun, svo sem fiskbyrgi (til að þurrka og geyma fisk) og fiskigarðar.

Grindavík

Árabátur neðan verbúðar.

Sjómenn í landlegum nýttu sér einnig hraunhella í Katlahrauni til ýmissa verka og hlaðið var fyrir op sumra þeirra. Sem dæmi eru nefndir Mölunarkór (þar sem var kvörn) og Sögunarkór (þar sem rekaviður var sagaður og úr honumm unnir ýmsir nytjahlutir).
Selatangar eru einnig þekktar fyrir sagnir um draug sem kallaður var Tanga-Tómas. Hann var sagður gera mönnum ýmsar smáglettur og reimleiki varð svo mikill á seinni hluta 19. aldar að það var talið ein ástæðan fyrir því að verstöðin lagðist af.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Auk þess sem Selatangar bjóða upp á stórbrotið umhverfi og ógleymanlega innsýn inn í sögu sjávarútvegs á Íslandi er þar m.a. að finna grjóthlaðnar refaildrur, fjárskjól, fornar reka- og skreiðarleiðir. Elstu minjarnar eru frá því á 19. öld, en sjórinn hefur brotið jafnt og þétt af grýttri ströndinni og þar með tekið til sín eldri minjar.

„Sumarvertíðin byrjarði almennilegast um páskatíma til Þingmaríumessu,“ sem er 2. júlí, og var vertíðin því um þrír mánuðir. Vetrarvertíðin var frá kyndilmessu 2. febr. til lokadags 11. maí. Skipin voru af fimm stærðum: þriggja manna, fjögurra manna, fimm manna för (bæði stór og lítil), sexæringar og áttæringar. Ekki er vitað hversu margir menn voru í raun í skipunum og þess ber að geta að á seinni hluta 19. aldar réru yfirleitt sex menn í fjögurra manna förum. Þá eru og ótaldar þjónustur sem getið er um að sumir hafi hjá sér og hafa sennilega séð um eldamennsku, viðgerðir á fatnaði og þess háttar.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð (tilgáta).

Í verbúðunum snérist allt um fiskveiðar og sjávarútveg fer ekki hjá því að fjölmargir Íslendingar hafi þekkt verbúðalíf af eigin raun. Vistarverurnar kölluðust einu nafni „verbúðir“. Orðabók Menningarsjóðs skilgreinir þetta orð sem „sjóbúð, bústað í verstöð, skýli handa vermönnum“.
Talið er víst að verbúðir hafi þekkst á Íslandi frá upphafi útgerðar. Sjávarútvegur hefur alla tíð verið nátengdur íslensku bændasamfélagi sem án stuðnings frá sjónum gat illa eða ekki þrifist.
Kotbúskapur þjóðarinnar leiddi af sér mikinn straum manna í verstöðvar víðs vegar um land en þó einkum á Suður- og Vesturlandi. Þess voru fjölmörg dæmi að bændur réðu sig á vertíð þar sem fjöldi búa var kostarýr og því engin tök á að framfleyta meðalfjölskyldu á búskapnum einum saman. Fólkið í sveitunum hafði því náin kynni af lífi og starfi manna í verstöðvunum – enda fýsti margan manninn að komast úr einangrun dalabæjanna í margmennið við sjóinn og taka þátt í ævintýrum tengdum fiskveiðunum.
VerbúðHeiti búðanna voru margvísleg en oftast voru þær kenndar við bæina sem bátarnir voru frá eða formenn þeirra sbr. Hjallabúð í Þorláksöfn eða Krýsuvíkurbúð í Herdísarvík.
Ýmiss konar hefðir og venjur urðu til í kringum verbúðarlífið. Í fornum heimildum segir frá því að jafnskjótt og sjómaður kom í verið innti hann formann sinn eftir því hver ætti að vera rúmlagsmaður hans. Að því búnu var farið að laga til í bálknum eða rúminu og koma fyrir skrínum og öðru lauslegu. Það var kallað að búða sig. Þar sem rúmstæðin voru bálkar urðu menn að fá eitthvað til mýktar ofan á grjótið og var þá oftast notast við hey. Í Þorlákshöfn var gömul hefð að skipseigandi legði til heyið í fyrsta skipti sem sest var að í nýrri verbúð. Þess voru einnig dæmi að marálmur og hefilspænir væru notaðir í þessu skyni. í Grindavík bar við að skeljasandur væri látinn ofan á grjótið og þar ofan á þang eða marálmur.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – verbúðir.

Þó var ekki laust við að menn kysu fremur lyng þar sem fló vildi sækja í þangið og hálminn. Í Vogum á Vatnsleysuströnd var vani á haustin að sækja marga hestburði af lyngi í þessum tilgangi. Þar sem rúm voru með snærisbotnum höfðu menn hærusekk með heyi og einstaka formaður var með dýnu. Ofan á lyngið, þangið eða heyið, lögðu menn gjarnan strigapoka eða jafnvel gæruskinn og þar yfir rekkjuvoð. Flestir höfðu brekán sem yfirbreiðslu en sumir höfðu fiðursæng eða ofið teppi sem ábreiðu. Ekki var óþekkt að vermenn fengju fiðursængur að láni og var þá leigan 2 krónur yfir vertíðina (1900). Flestir vermenn höfðu með sér kodda en undir honum var fötum komið fyrir.

Verbúð

Verbúð – bátar í vör.

Síðasta verkið við að búða sig var að koma mötuskrínunum fyrir í bálknum. Þá var önnur höfð í bríkarstað en hin í höfuðlagsstað. Sjóklæðin, sem voru skinnklæði, héngu á stoðum á milli bálkanna.
Venjulega svaf formaður í bálknum næst dyrum til vinstri en einnig kom fyrir að hann væri í kórrúmi. Hálfdrættingur svaf oftast í kórrúmi en stundum við þriðja mann í bálki. Í verstöðvum vestra svaf hann oftast hjá formanni. Sú venja skapaðist gjarnan að þeir sem voru á sama skipi fleiri en eina vertíð, héldu áfram að vera rúmlagsmenn.

Grindavík

Grindavík – verbúð við Járngerðarstaði; uppdráttur.

Verbúðaskyldur voru nokkrar og skipaði formaður fyrir í byrjun vertíðar hvernig þeim skyldi háttað. Rúmlagsmenn áttu einn dag í senn að sjá um að sækja vatn, hita kaffi og sópa búðina. Þeir sem sváfu næst fyrir innan formann áttu að byrja og síðan koll af kolli sólarsinnis. Þannig var þessu háttað víðast hvar en þó kom fyrir að kaffihaldari væri skipaður yfir alla vertíðina. Þá bar vermönnum að afla eldiviðar og sjá um matseldun og sama manni var falið að annast blöndukútinn þar sem drykkur var hafður með á sjó.

verbúðVerbúðir voru mjög misjafnar hvað varðar aðbúnað og gæði. Í bókaflokknum „Íslenskir sjávarhættir“ eftir Lúðvík Kristjánsson er fjölmörgum tegundum verbúða gerð ítarleg skil í myndum og máli. Verbúðin að Járngerðarstöðum í Grindavík, sem stóð fram yfir síðustu aldamót, er e.t.v. dæmigerð verbúð þess tíma. Þar er henni lýst á þann hátt að í öðru lagi veggjanna hafi verið grjót en í hinu torfstangir. Með því byggingarlagi var talið að veggurinn yrði stöðugri. Á milli ytri og innri hleðslu var síðan troðið mold. Við báða enda miðbálksins voru 8×10 sm gildir stafir. Ofan á þeim hvíldu sperrur sem mættust í mæni en voru með neðri endann á vegglægjum. Á sperrum voru lagbönd en þar á ofan reisifjöl sem tvöfalt torf var lagt ofan á en þó stöku sinnum þrefalt. Mold var í gólfi og var hún hörð og slétt eftir margra áratuga umgang. Hæð búðarinnar frá gólfi var um þrír metrar. Ljórar (glerrúður) um 30 sm í þvermál í tréumgjörð – voru sinn hvoru megin á hliðarþekju. Inngangur í verbúðina var á gafli. Hurðir voru tvær og féll sú fremri inn í lítinn gang sem myndaðist af veggjarkömpunum.

Þorlákshöfn

Verbúð í Þorlákshöfn.

Í verbúðinni á Járngerðarstöðum var hengilampi og olíuhylkið sem var úr blikki var ætíð kallað „beholder“. Þetta var tíu línu brennari en slík viðmiðun fór eftir vídd kveikpípunnar. Til þess að sjá um lampann var skipaður sérstakur ljósameistari sem hafði það hlutverk að bæta olíu á lampann og halda glasi hans hreinu. Þetta hlutverk var jafnan í höndum miðrúmsmanns þar sem lampinn var gjarnan staðsettur fyrir miðri verbúð.
Þess er einnig getið að í flestum verbúðum hafi verið kirna sem tók u.þ.b. tuttugu lítra. Hún var sameiginlegt næturgagn allra búðarmanna og stóð á miðju gólfi um nætur. Þetta þarfaþing var kallað kerald eða kjásarhald og það var skylda hvers búðarmanns að sjá um kjárarhaldið eina viku á vertíðinni. Átti hann m.a. að losa það og þrífa dag hvern og sjá til þess að það væri á sínum stað á kvöldin og væri ekki til vansa ef einhver kæmi ókunnugur í búðina.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Hér á undan hefur lítillega verið getið um verbúðir, eða sjóbúðir eins og þær voru gjarnan kallaðar, sem voru algengar víða um land fyrir og um aldamótin. Þegar líða tók á 20. öldina fór þessum verbúðum fækkandi en þess í stað fengu vermenn, og annað að komufólk sem vann við sjávarútveg, inni í sérstökum húsum eða verbúðum sem rekin voru af útgerðaraðilum. Þar erum við komin að þeirri tegund verbúða sem flestir kannast við. Sem fyrr voru þessar verbúðir – og eru enn – afar misjafnar að gæðum og nokkuð ljóst er að allar verbúðir, sem eru í notkun í dag, uppfylli lágmarks skilyrði hvað varðar hreinlæti og annan aðbúnað innandyra.

verbúð

Sjómaður.

Í verbúð Lofts Loftssonar í Sandgerði dvöldu á árunum 1917-1919 nokkrir sjómenn af Álftanesi. Þetta voru svokallaðir haustmenn sem réru á áttæringi í birtingu á hverjum morgni. Þeir höfðu með sér skrínukost í stórum koffortum sem voru full af alls kyns góðgæti. Þetta voru hressir og góðir karlar; flestir fjölskyldumenn sem héldu að heiman til þess að sækja björg í bú.
Hinn íslenski sjómaður var klæddur skinnstakk, brók og sjóskóm. Sjóklæðin voru gjarnan borin lifrarlýsi til þess að hrinda burtu vatni. Þeir voru ræstir eldsnemma á morgnana, róið á miðin í misjöfnum veðrum, fiskað og síðan róið í land. Stundum þurfi að seila fiskinn og draga að landi í stað þess að kasta honum á skiptivöll. Ávallt var unnið fram á kvöld, þ.e. er ekki voru landlegur. Þær voru gjarnan notaðar til að hlúa og gera við nauðsynleg mannvirki, s.s. hlaða fiskigarða og þurrkbyrgi.
Sjómenn voru jafnan svo þreyttir að þeir reyndu að nota vel þær fáu stundir sem gáfust til þess að sofa. Þetta var ekkert annað en púl og alltaf hlakkaði sérhver sjómaðurinn mikið til lokadagsins. Þá var hann fljótur að hypja sig í burtu.

Herdísarvík

Herdísarvík – verbúðir.

Auk Selatanga má nefna Þorlákshafnarbúðina, verbúðirnar í og við Herdísarvík, í Húshólma, við Nótarhól hjá Ísólfsskála, Skálholtsbúðina í Járngerðarstaðahverfi Grindavík, Hvyrflabúðina í Staðarhverfi ofan við Merki, í Höfnum, á Stafnesi, í Sandgerði, í Garði, í Keflavík, í Njarðvíkum, við Voga, við Kálfatjörn, við Hvaleyri, við Garða, á Álftanesi, í Reykjavík, við Blikastaði, við Brautarholt og Hvamm í Kjós.

Heimild:
-Fiskifréttir, 47. tbl. 15.12.1989, Verbúðarlíf á Íslandi fyrr og nú, Sigurjón Björnsson, bls. 16-17.

Selatangar

Selatangar – búðir Krýsuvíkurbænda.