Vesturengjar – Austurengjar
Stefnan var tekin yfir Vesturengjar frá Seltúni í Krýsuvík og yfir á Austurengjar.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um Engjarnar norðan og ofan við Krýsuvíkurbæina: „Austur og upp frá Stóra-Nýjabæ lá Austurengjagatan meðfram Dýjakrókum og vestan til við Tindhólsgil um Tindhólsbrekku sunnan undir Tindhól móbergshól nokkrum strýtum. Héðan lá leiðin um Öldurnar sunnanhalt við Austurengjahver, Engjahver eða Nýjahver eins og hann var kallaður 1924, er hann kom upp eftir jarðskjálfta í Krýsuvík. Þá tóku við Austurengjarnar, sem munu hafa tilheyrt Nýjabæjunum að mestu eða öllu. Þar voru Nýjabæjarengjar; Þrætustykki. Kringlumýrar tvær; Kringlumýrin efri og Kringlumýrin neðri og þá Seljamýri. Suður frá Engjunum var Litla-Fell. Hveralækurinn eða Austurengjalækur rann norðan mýranna með Litla-Lambafelli og niður milli þess og Stóra-Lambafells um Grófirnar og nefndist þá Grófarlækur.
Þegar Krýsuvíkurgatan kemur austur um Réttarholtið og reyndar alveg að heiman frá Krýsuvíkurbæ, nefnist hún Vesturengjavegur eða Vesturengjastígur. Liggur hér áfram upp lágt holt milli þriggja tjarna lítilla, sem nefnast Augu. Þjóðvegurinn liggur nú milli tveggja. Hér litlu ofar og austar er komið að Grænavatni. Kring um það að norðan, vestan og sunnan eru Grænavatnsmelar. Að því liggja Grænavatnsbakkar klettastallar. Suður frá Grænavatni eru alldjúpir bollar, nefnast Stampar. Stóri Stampur og Litli Stampur grösugir og þar hafði fólk í Krýsuvíkurhverfi trú á að yxu lifgrös betri, en annarsstaðar. Á austurbakka Grænavatns er skarð, þar fellur inn lækur vatnslítill, nefnist Flóðalækur. Hann kemur úr Flóðunum, sem eru vestasti hluti Vesturengjasvæðisins, sem liggur milli Lambafellanna og Hálsins að norðan. Austasti hluti flóðanna nefnist Teitsflóð. Sunnan flóðanna upp undir holtinu og Lambafelli Litla voru engjasvæði, nefndust Teigarnir Álfsteigur neðri með holtinu, og Álfsteigur efri norðan í fellinu. Þá er Grófarteigur vestan Grófarlækjar.
En austan Grófarlækjar voru Gullteigur neðri og Gullteigur efri og liggja vestan í Stóra-Lambafelli. En Grófarlækurinn fellur austur undir hlíðum fellsins. Af Grænavatnsmelnum liggur Vesturengjastígurinn upp nokkuð og austur. Þar er komið að svo kölluðum Vöðlum og lækur kemur ofan úr dölunum og nefnist Vaðlalækur og rennur niður í Flóðin. Þegar yfir Vaðlana kemur tekur við Vesturengjahæð með Vesturengjamóa eða Engjamóa og nær þetta svæði allt að Fúlapolli eða Leirpolli. Þá er komið í Seltún, Seltúnslækur skiptir Seltúni. Vestan við hann eru Seltúnsbörð. Á Seltúnslækjarbakka vestari stóð í eina tíð Námahúsið. Frá Fúlapolli rennur vatn lítill lækur, nefnist Svuntulækur. Neðarlega á engjunum tengist hann, rennur hann saman við Seltúnslæk. Myndast þarna engjateigur, sem nefnist Svunta. Neðan við þetta engjasvæði er Suðurkotsnes og Gvendarrimi. Austan við Seltúnslæk, sem einnig er kallaður Engjalækur, er Vesturengjalækur, er engi, er nefnist Flatengi og liggur niður með læknum. Þar neðst er svo Norðurkotsnes. Lengra niður með læknum er mikið land sem fer undir vatn þegar vex í Kleifarvatni, en kemur undan því er út fjarar, og var þarna oft gott slægjuland. Svæði þetta var nefnt Nýjaland. Að austan takmarkast það af Rifinu lágu sandrifi, sem þó fór ekki í kaf er flæddi. Við syðri hluta Rifsins var Refanes. Suður og upp frá Nýjalandi voru svo Hvammarnir, Stórihvammur með Laugina öðru nafni Hvammalaug og Hvammagil. Hér í hvamminum hafa skátar frá Hafnarfirði byggt sér Skátaskála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Selgil kemur ofan úr Selásum eða Selhæðum og Selgilslækur nefnist hann. Frá Stórahvammi liggur Hvammholt niður á Rifið.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.:
-Gísli Sigurðsson, örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.