Viðeyjarsel

Lækjarbotnar

Í Gömlubotnum (Lækjarbotna) er m. a. að finna tóftir bæjar Hallberu Jónsdóttur, en hún bjó skv. heimildum í Lækjarbotnum um 1870, auk Hallberuhellis. Þá er þar ekki síst að finna leifar tveggja selja; Örfiriseyjarsels og Viðeyjarsels (Bessastaðasels). Þess síðarnefnda er þó hvergi getið í fornleifaskráningum þrátt fyrir merkilegheitin – ekki einu sinni í skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ (bls. 25). – http://borgarsogusafn.is/sites/borgarsogusafn.is/files/atoms/files/skyrsla_159.pdf

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Árið 1868 var Þorsteini Þorsteinssyni gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Um 1870 eftirlét hann Hallberu Jónsdóttur helming jarðarinnar. Hún lenti síðan í dómsmálum við Benedikt Sveinsson á Elliðahvammi, föður Einars Bendiktssonar, eftir að Þorsteinn hafði selt honum Gömlubotna. Hallbera neitaði að greiða Benedikt leigu af jörðinni, en í undirrétti var honum dæmd jörðin öll. Yfirréttur sneri dómnum við og taldi sannað að Hallbera ætti helminginn. Eftir sem áður þurfti hún að greiða bóndanum á Elliðahvammi leigu af hálfri jörðinni – þeim helmingi er var í hans eigu.
Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna. Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið. Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum (1876-1957) flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Á Lögbergi hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit, en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður, Svavar Guðmundsson. Norðan við grafreitin má sjá leifar útihúss með hlöðu í suðurenda.

Viðeyjarsel

Viðeyjar (Bessastaðasel).

Tilgangur einnar FERLIRsferðarinnar af u.þ.b. 1000 talsins var ekki síst sá að athuga hvort hægt væri að koma auga á leifar tveggja selja, sem áttu að hafa verið á þessu svæði, þ.e. auk Örfiriseyjarsels undir Selfjalli. Bæði Viðey og Lambastaðir munu hafa haft selstöður þarna efra þótt staðsetning þeirra hafi ekki legið ljós fyrir. Jafnan hefur verið gengið út frá því sem vísu að öll selin væru í Örfiriseyjarselsstað.
Í Jarðabókinni 1703 segir að Erfersey hafi haft selstöðu undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel. Tóftir við skátaskálann sem þar er syðst í Botnunum munu að öllum líkindum vera leifar þess, sem og seinni tíma bæjarstæði, auk búskapar (beitarhús) frá Lögbergi.
Í örnefnaskrá fyrir Lækjarbotna eftir Guðlaugur R. Guðmundsson kemur m.a. fram að „býlið [Lækjarbotnar] stóð á hólnum, Bæjarhólnum, sem er til hægri, þegar þjóðvegurinn er ekinn þá í austurátt. Hóllinn reyndist það hár, þegar bílöld gekk í garð, að erfiðleikum var háð fyrir bóndann að aka upp á hólinn og leggja veg að bænum. Þar af leiðandi færði bóndinn býlið, 1907, yfir hinum megin, þar sem land var lægra, og reisti þar nýjan bæ. Hann nefndi húsið Lögberg. Þar bjó Guðmundur til dauðadags 1957.
Bóndinn treysti því og, að vatnsból gott væri rétt hjá Lögbergi, en vatnsmagn er þar mjög breytilegt í Fossvallaá og Fossvallaklifið oft þurrt. Karl segir, að aðeins árin 1921 og 1976 hafi runnið allt sumarið í ánni.
Undir Selfjalli eru Selhólar. Þar fyrir framan er Gráhóll og Pálspyttur við hann, þar sem Páll hefur líklegast farið undir ís.
Viðeyjarsel / Bessastaðasel / Örfiriseyjarsel / GömlubotnarSel frá Viðey var inn með Gömlubotnum.“ Í athugasemdir og viðbætur við Lækjarbotnaörnefnalýsinguna skráði Sigríður Jóhannsdóttir eftir Jóni I. Bjarnasyni að „Fossvallaklifið [hafi] oftast [verið] þurrt; þar rennur aldrei vatn; klifið er, þar sem gamli vegurinn var, og hraðbrautin liggur núna um klifið upp á Fossvogsvellina. Þar hefur aldrei runnið nein á. Lækurinn og pytturinn nú orðnir þurrir, síðan nýi vegurinn var lagður.
Jörðin Örfirisey var landlítil; átti selstöðu undir Selfjalli, ekki Viðey. Af því dregur fjallið nafn. Þar sem selið var, heita Selhólar; sjást rústir ennþá, nú reyndar mjög sokknar.“
Um selstöðu Reykjavíkurbæjarins segir að jörðinni hafi verið eignuð slík „þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Og þar sem Langahlíð var í sunnanverðri Öskjuhlíð var jafnvel talið að Víkursel hafi verið þar sem nú má sjá leifar. Skammt frá eru merki eftir sel frá Hlíðarhúsum.
Selstígur Viðeyjarsels og ÖrfiriseyjarselsÍ Sögu Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson segir: „Að búskapur hefur verið mikill, má meðal annars sjá af því, að jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst.“
Um selstöðu Lambastaða segir Jarðabókin að „selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.“
Í lýsingu Viðeyjar segir „selstaða er á fastalandi þar sem heitir Viðeyjarsel, og hefur það verið brúkað frá Bessastöðum.“ Í lýsingu fyrir Bessastaði er ekki minnst á selstöðu í Jarðabókinni 1703.

Meðfylgjandi er m.a. uppdráttur af minjunum í Lækjarbotnum af Viðeyjarseli (Bessastaðaseli) og Örfiriseyjarseli, auk uppdráttar af selstígnum, en þeirra er ógjarnan getið í einstökum fornleifaskráningum þegar slíkra minja er getið.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel).