Vífilsstaðavatn – skilti
Við vestanvert Vífilsstaðavatn eru fjögur skilti; upplýsingaskilti, fiskaskilti, fuglaskilti og blómaskilti. Á hinu fyrstnefnda má lesa eftirfarandi:
„Vífilsstaðavatn og nágrenni var friðlýst sem friðland 2. nóvember 2007. Markmiðið með friðlýsingunni er að friða og vernda vatnið, lífríki þess og nánasta umhverfi ásamt því að auka útivistargildi svæðisins. Með friðlýsingunni er almenningi tryggður réttur til að njóta ósnortinnar náttúru til framtíðar.
Lífríki friðlandsins
Friðlandið er um 188 hektarar að stærð og þar af er vatnið 27 hekarar. Fá vötn á Íslandi hafa jafn fjölskrúðugt lífríki og Vífilsstaðavatn. Lindarvatnið er hreint og ómengað. Hér hefur náttúran fengið að þróast nánast óáreitt. Seiðum hefur aldrei verið sleppt í vatnið.
Fiskar
Í vatninu er meðal annars bleikja, urriði, áll og hornsíli. Hornsílin í vatninu eru óvenju smávaxin, flest minni en 5 cm. Árið 2002 fundust kviðgaddalaus hornsíli í vatninu. Þau eru einstök í íslenskri náttúru og hafa einungis fundist á örfáum stöðum í heiminum. Hornsílin í Vífilstaðavatni varpa nýju ljósi á þróunarsögu hryggdýra.
Fuglar
Álft, grágæs og ýmsar endur, eins og skúfönd, stokkönd og toppönd, setja mikinn svip á vatnið frá vori fram á haust og hinn skrautlegi flórgoði verpir hér. Sinfónía sumarsins er síðan fullkomnuð af mófuglum í kjarrinu og mólendinu kringum vatnið þar sem mest ber á þúfutittlingi, skógarþresti og hrossagauki. Til að tryggja náttúrlegt jafnvægi er mikilvægt að gefa fuglum ekki brauð eða annað fóður. Þannig er einnig dregið úr hættu á ofauðgun og því að óæsklegir fuglar laðist að vatninu.
Á varptíma 15. apríl til 15. ágúst er öll umferð utan stíga óheimil í friðlandinu.
Gróður
Gróðurfar er fjölbreytt, mólendis- og mýrargróður ásamt fjölbreyttum trjágróðri.
Nafnið Vífilsstaðavatn?
Vífill var leysingi Ingólfs Arnarssonar, landnámsmanns, annar tveggja þræla sem fann öndvegissúlur hans og fékk Vífill frelsi fyrir. Hann byggði bæ sinn að Vífilsstöðum.
Gunnhildur í Vífilsstaðahlíð
Gunnhildur er varða sem berklasjúklingar hlóðu uppi á Vífilsstaðahlíð. Það var talið mikið batamerki ef berklasjúklingar á Vífilsstöðum komust upp að vörðunni án þess að hósta upp blóði. Slóðin upp að Gunnhildi er kölluð Heilsustígur.
Skammt frá vörðunni er skotbyrgi frá síðari heimstyrjöldinni. Útsýnisskilti er í námunda við Gunnhildi, þaðan er víðsýnt í um 100 m hæð yfir sjó.
Trjálundurinn Bakki
Bakki tengist sögu berklasjúklinga á Vífilsstöðum. Hörður Ólafsson, sjúklingur á Hælinu, fékk leyfi til að girða af reit í hlíðinni norðaustan við VVífilsstaðavatn. Afkomendur Harðar eiga nú Bakka sem er opinn göngufólki til að njóta fjölbreyttra trjátegunda og ekki síst fuglalífs svo sem stara sem koma í flokkum til næturdvalar.
Umgengni
Útivistarstígurinn umhverfis vatnið er um 2.6 km langur og tekur um 40 mínútur að ganga hann. Göngum vel um náttúruna og vinnum ekki spjöll á henni né skiljum eftir rusl. Óheimilt er að spilla náttúrlegu gróðurfari, trufla dýralíf og hrófla við jarðmyndunum og öðrum náttúrminjum í friðlandinu. Kveikið ekki elda né á grillum.
Hundar
Samkvæmt samþykkt um hundahald skulu hundar alltaf vera í taumi og ávallt skal fjarlægja saur eftir hunda.
Öll umferð hunda er bönnuð í friðlandinu á varptíma frá 15. apríl til 15. ágúst.
Umferð vélknúinna ökutækja í friðlandinu er aðeins leyfð á vegum vegna þjónustu við friðlandið. Allar siglingar eru óheimilar á friðlýstu vatniu. Engin tjaldstæði eru í friðlandinu. Veiði er heimil í Vífilsstaðavatni á tímabilinu 1. apríl til 15. september. Veiðileyfi fæst með veiðikortinu.















