Villingavatn í Grafningi

Villingavatn

Þorgeir Magnússon, fæddur að Villingavatni 27. 3. 1896, og bjó þar frá 1925 til 1948. Þar bjó áður faðir hans, Magnús Magnússon, fæddur að Villingavatni 1. 6. 1858, frá 1887 til 1925. Þar áður Magnús Gíslason, fæddur að Villingavatni 21. 7. 1813 frá 1850 til l887. Þar áður Gísli Gíslason, fæddur á Þúfu í Ölfusi 9.10. 1774, frá 1804 til 1850.

Villingavatn

Þorgeir Magnússon. Myndin er tekin við  Krýsuvíkurkirkju.

Í örnefnalýsingu Þorgeirs af Villingavatni sem hann skráði árið 1970 getur hann um helstu örnefni og minjar á landareigninni. Þar segir m.a.:
„Að norðan: Þingvallavatn frá Sogskjafti (þar sem vatnið fellur í jarðgöngin hjá Steingrímsstöð) að Villingavatnsárós.
Að vestan: Villingavatnsá, frá því að gatan liggur yfir hana, fyrir neðan Tröllháls út í Laxárdal og eftir henni til ósa við Þingvallavatn. Þegar kemur út að Tröllhálsi eru mörkin eftir götunni sem farin er þegar farið er fram í Ölfus, í grjóthól í Votumýri og er það horn-mark, og einnig landamerki milli Ölfus- og Grafningshreppa.
Að sunnan: Bein stefna um Villingavatnsselfjall í Efjumýrarþúfu, sem er hornmark sem 6 jarðir liggja að, Villingavatn, Úlfljótsvatn, Hlíð, Stóriháls, í Grafningi, og Gljúfur og Sogn í Ölfusi. Þetta eru afar forn mörk.
Að austan: Þau mörk eru frá 1850, og eru milli Úlfljótsvatns og Villingavatns, og eru úr Efjumýrarþúfu um há Botnahnúk, Dagmálafjall, Úlfljótsvatnsselfjall, Náttmálahnúkur, vesturbrún Hlíðarkinnar um Gildruhól í Hagavíkurþúfu, í há Skinnhúfuberg og þaðan í stefnu á Kálfstinda niðrí Þingvallavatn, (rétt vestan við niðurfallið í Steingrímsstöð).

Villingavatn

Villingavatn um 1960.

Þegar jörðunum Úlfljótsvatni og Villingavatni var skift árið 1850, fékk Villingavatn veiðiítak í Úlfljótsvatni, frá Straumsnesi að Sauðatanga, og bátsuppsátur á Kænunefi. En það nef eyðilagðist þegar Ljósifoss var virkjaður og vatnsborð Úlfljótsvatns var hækkað.“
Í örnefnalýsingunni getur Þorgeir m.a. um Villingavatnssel í Seldal, Gamlasel í Gamla-selgili og Ingvaldarsel ofan Svartagils (í landi Úlfljótsvatns).

Villingavatn

Villingavatn – túnakort 1918.

Í fornleifaskráningu um „Fornleifar í Grafningi“ frá árinu 1998 segir m.a. um Villingavatn:

Villingavatn
20 hdr. 1706, c. 1500. Úlfljótsvatnskirkjujörð. Fyrst getið 1397, DI IV, 93. 13.6.1703 telja eigendur að jörðunni Úlfljótsvatni … sextíu hundruð að dýrleika, hvar með fylgir kirkjueignin Villingavatn, tuttugu hundruð að dýrleika, en hefur verið þessi kirkjueign sett fyrir xc til arfaskipta í fastaeign, hvað enn nú stendur sem fyrri. JÁM XIV, 62.

14.6.1703 telur Magnús Magnússon ’20c af Úlfljótsvatni, bóndaeign, heyra mér …. Kirkjujörð, …

Villingavatn

Villingavatn um 1960.

heitir Villingavatn, að dýrleika 10c að aftekturn. Tilheyrir mér hún hálf. Landskuld til mín, x aurar, gelst í landarum. Kirkjukúgildi 6, þar af eftir 3 betalast prestinum 6 fjórðungar smjörs eða í landaurum, peningum eður þvílíku.’ JÁM XIV, 63 nm.
„Allstór fjallajörð. Liggur móti norðaustri og á land frá Þingvallavatni og út í Ölfusmörk.“ SB III, 266, 1918: Tún 5,7 ha. Matjurtagarðar 695 m2. 1839: „heyskapur gnægur, útbeit og silungsveiði, hættujörð af graflækjum.“ SSÁ, 182. 1977: Tún 39,7 ha.

Villingavatn

Villingavatn – Hringatjarnir neðst og Villingavatn efst.

„Víða góð skjól og beitiland gott þar til mýið var drepið 1959. Þurrlend móajörð með melum á milli upp til fjallsins en mýrarsund nær bænum og kringum tjörnina. Valllendisblettir eru víða.“ SB III, 266. Flest túnjarðarinnar sléttuð með stórvirkum vinnuvélum um og eftir 1970.
Bæjarhóllinn var við heimreiðina þar sem hún beygir til norðurs, um 40 metra austur af núverandi íbúðarhúsi. Slétt tún, sléttað eftir 1970.

Skinnhúfuhellir

Villingavatn

Skinnhúfuhellir – einstigi.

Skinnhúfuhellir er austast í á Langapalli. Þangað var áður fyrr fært eftir mjóu einstigi í miðju berginu, en nú hefur brotnað úr því á kafla svo það má heita ófært á fæti. Í örnefnalýsingu Úlfljótsvatns stendur: Þjóðsagnir segja, að í Skinnhúfuhelli hafi búið tröllkona, Skinnhúfa að nafni, og karl hennar, sem Símon hét, hafi búið í öðrum helli, sem við hann er kenndur.

Símonarhellir
„Símonarhellir: Í berginu við vesturendann á Langapalli.“ segir í örnefnalýsingu. Í örnefnalýsingu Úlfljótsvatns stendur: Þjóðsagnir segja, að í Skinnhúfuhelli hafi búið tröllkona, Skinnhúfa að nafni, og karl hennar, sem Símon hét, hafi búið í öðrum helli, sem við hann er kenndur. Sá hellir er vestan í Skinnhúfubergi, en sá hellir er í Villingavatnslandi. Svo segir í örnefnalýsingu.

Villingavatn

Villingavatn – Símonarhellir.

Í sagnaþáttum og þjóðsögum sem Guðni Jónsson safnaði er sagt frá Símoni og Elínu skinnhúfu, sem hafi verið uppi skömmu eftir miðja 18.öld, bæði fátæklingar og hafi ætlað að leggjast út. Í Símonarhelli fannst þýfi sem Símon hafði stolið af húsbændum sínum á Villingavatni. „Annar hellir [en Skinnhúfuhellir] er vestan til í hlíðinni, hafður fyrir fjárhelli frá Villingavatni.“ Ekki skráð 1998. Í Símonarhellir er grjóthleðslur, en engar slíkar eru í Skinnhúfuhelli.

Fjárhellir – fjárskýli

Villingavatn

Villingavatn – fjárhellir (-skjól).

„Frá Símonarhelli útað fjárhellinum er kallaði í daglegu tali með Björgunum […]. Fjárhellir: Í daglegu tali nefndur Hellirinn. Tekur 120 fjár með heykumli“, segir í örnefnalýsingu. „Fjárhellir er við Þingvallavatn, notaður frá ómunatíð.“ Hellirinn er upp í bergið, um það bil 80 metra suður af bökkum Þingvallavatns, um 2 km norðaustur af bæ.
Frá hellinum niður að vatnsbakkanum er hallandi túnbali. Í hellisopinu eru trésperrur sem afmarka opið. Austan við það hefur verið hlaðið milli tveggja stórra bjarga og gæti það verið heykuml, er að mestu fallið ofan í tóftina en hún hefur verið 10×4 að utanmáli og er hleðsluhæð mest 0,4 metrar.

Lambagarður

Villingavatn

Villingavatn – örnefni og minjar; ÓSÁ.

„Lambagarður: Hlaðinn varnargarður, frá vatni upp í berg“, segir í örnefnalýsingu. Um það bil 50 metra austur af fjárhellinum er hlaðinn garður út í Þingvallavatn, um 2 km norðaustur af bæ. Grýtt, brött og gróin hlíð frá bergi út í vatn. Garðurinn er 45 metra langur og 1 metra breiður og er hleðsluhæð mest 0,4 metrar en hleðslur eru nokkuð signar.

Tjörnin (Villingavatn)
„Lækurinn: Afrennsli úr Tjörninni, rann norður mýrarsund og engjar og útí Þingvallavatn. Í tíð Magnúsar Magnússonar [ábúandi 1887-1925] var grafinn skurður meðfram Helluholti, Gíslaþúfu og Stekkásmóa norður í Rás, þetta var gert til þess að ná vatninu til áveitu á engjarnar, og tókst vel, en eftir það var alltaf talað um gamla og nýja læk. Nú mun sú áveita vera aflögð.“ segir í örnefnalýsingu. Í mýrinni eru nú tveir vélgrafnir skurðir og einnig náttúrulegir farvegir eða handgrafnir skurðir. Sundurgrafinn þýfður mói.

Heykuml – tóft

Villingavatn

Villingavatn – heykuml á Einbúa.

Um 40-50 metra suðaustur af Einbúanum og 100 metra austur af Hringatjörnum er Einbúakumlið. Þýfður melur, blettur í annars uppblásinni urðinni. Heytóftin er vel heilleg, opnast til norðurs. Hún er alls 6×4 að utanmáli en 4×2 að innanmáli. Hleðslur eru enn vel greinilegar, alls 5 umför þar sem suðausturveggurinn er hæstur.

Stekkur (heimasel)

Skinnhúfuhellir

Skinnhúfuhellir.

„Stekkás: Nokkuð hár ás fyrir vestan engjarnar og norðan Hellholts.[…] Stekkurinn: Sunnan í Stekkásnum, síðasti stekkurinn sem notaður segir í örnefnalýsingu. Stekkjartóftin er um 50 metra norður af norður enda Tjarnarinnar (Villingavatns), um 100 metra vestur af Villingavatnsánni.
Stekkurinn er byggður utan í stóran jarðfastan stein á sléttur grónum bala í annars grýttri, blásinni og þýfðri brekku. 2 hólf eru greinileg, að norðaustanverðu hefur aðeins verið grafið inn í brekkuna og hlaðið undir og milli 2 steina. Hólfið er um 3 á breidd en bæði 2 og 4 var.“

Fjárborg (Borgin)

Villingavatn

Villingavatn – tóft ofan við Björgin, vestan vaðsins yfir Sogin. Sennilega birgðageymsla Skólholtsstaðar við Kjóaveginn.

„Borgin: Gömul fjárborg á Borgarholti.“ segir í örnefnalýsingu. Borgarholtið var á túninu sem nú er norðan og austan við tjörnina, þar sem nú er braggi. Borgin var sunnan við braggann. Slétt tún.

Gamli-garður
„Gamli garður: Garðlag liggur yfir Grenásinn vestanverðan frá Tjörninni suður í Úlfljótsvatn. Þetta hefur verið mjög mikið mannvirki, því það sem enn sést, er breitt um sig, og bendir til þess að garðurinn hafi verið breiður og mikill, engar sagnir eru tengdar við þennan garð svo vitað sé.“ segir í örnefnalýsingu. Vesturendi hans er nokkuð ofan við Gamlastekk, 017, og svo liggur garðurinn til norðvesturyfir ásinn og út í Úlfljótsvatn, við Fjárhöfða. Ásinn er gróinn í hlíðunum og blásinn og grýttur að ofan. Garðurinn er alls um 1,2 km langur og 1,3 á breidd en hleðsluhæð er mest 0,5. Nokkuð rof er í garðinn, og svo liggur vegaslóði í gegnum hann efst á ásnum. Garðurinn hefur sennilega verið nær 1,5 km í upphafi.

Gildruhóll

Villingavatn

Villingavatn – refagildra á Gildruhól.

„Gildruhóll: Grjót- og klapparhóll fyrir sunnan Grenás, í mörkum milli Villingavatns og Úlfljótsvatns.“ segir í örnefnalýsingu. „Hóllinn er á landamörkunum, girðing liggur við hann. Grjót og klapparhóll. Ekki er að sjá gildrutóft þarna og man heimildarmaður ekki eftir að svo hafi verið“.
Leifar gildrunnar má sjá syðst á Gildruhól.

Gamlastekkatún
„Gamlastekkatún: Grasbrekka fyrir ofan [Litlaflóðs-] mýrina, og sést móta fyrir stekknum.“ segir í örnefnalýsingu. Brekka þessi er austur af tjörninni (Villingavatni), og var stekkurinn sunnan við miðja tjörn á vatnsbakkanum. Mikið þýfi á austurbakka tjarnarinnar. Heimildarmaður telur enn sjást til stekkjarins, en skrásetjari gat ekki greint hann í stórþýfinu.

Stöðulhús

Villingavatn

Villingavatn – stöðulhús/Gamla réttin.

„Stöðulhús: Fyrir sunnan túnið, við veginn, þar sem réttin er. Gamla réttin.“ segir í örnefnalýsingu. Fyrir sunnan túnið, milli túnsins og Grjóthólsins. Réttin og húsið standa um 2 metrum suðaustan við heimreiðina um 6 metrum norðar en afleggjarinn af þjóðveginum heim að Villingavatni. Tóftin af húsinu er 2×6-7 að innamáli en 15xll að utanmáli og hleðsluhæð mest 0,5m, opnast til norðausturs. Hleðslugrjót greinilegt að innanverðu, oft sjást 3-4 umför. Réttin kemur til suðvesturs út úr tóftinni og beygir síðan til norðausturs og síðan til norðurs eftir heimreiðinni þangað til hún hverfur inn í hana. Gætu verið fleiri tóftir sunnan við réttina.

Stekkjarflatir

Villingavatn

Villingavatn – fjárborg efst í Gamla-selsgili.

„Stekkjarflatir: Stórar valllendisflatir, vegurinn liggur yfir þær austast, og ná þær alla leið út að Klifberagili að suðvestan og Hádegismóum að norðv.“ segir í örnefnalýsingu. Á Stekkjarflötum er nú tún suður af þjóðveginum, 360, austan við afleggjarann heim að Villingavatni. Sjást smá mishæðir í túninu en erfitt að geta sér til um hvar stekkurinnn var nákvæmlega.

Selnef
„Selnefið: Melnef sem nær útí ána, suðvestur af Keldumýri.“ segir í örnefnalýsingu. „Um 150 metra suðvestur af Grafarmýrinni er Selnefnið. Þýfður blautur mór. Heimildamaður man ekki eftir að hafa séð né heyrt um tóftir þarna.“
Villingavatnsáin kemur þarna niður úr Gamla-selgili. Gamlasel er ofarlega í gilinu.

Gamlasel

Villingavatn

Villingavatn – Villingavatnssel.

„Gamla Selgil: Gilið sem liggur eftir miðjum [Sel-] dalnum. […] Dagmálafjall: Fell fyrir austan Seldal, í mörkum. Eyktarmörk frá Gamlaseli sem var í Gamlaselgilinu suður undir Botnaflöt, eins og enn sér merki.“ segir í örnefnalýsingu. „Villingavatn átti sel í Seldal á vallendisflöt sem snýr móti suðri, rétt við götuna, sem liggur úr Seldal upp í Laxárdal. Skúti er í Seldal í gilinu sem kemur úr Laxárdal, og var hann notaður sem geymsla fyrir mjólkurmatinn. Sunnan við selið kemur lækur úr Litla-Laxárdal.“ segir í Sunnlenskum byggðum. Seltóftin er við gilið þar sem lækurinn úr Litla Laxárdal kemur niður, um 40 metra suðaustur af akveginum upp í Laxárdal. Þýfður vallendismói er milli selsins og götunnar.

Villingavatn

Villingavatn – Villingavatnssel.

Aðeins sést ein nokkur óglögg tóft, tvíhólfa. Hún opnast til suðurs og er hólfið sem opnast 2,5×1,5 að innanmáli. 2 metrum sunnan við opið mótar fyrir öðru hólfi en það er aðeins lxl að innanmáli. Að utanmáli er tóftin 7,5×4 m og eru hleðslur útflattar mest 0,2 á hæð.

Hlíðarskarð
„Hlíðarskarð: Þar sem gatan liggur út á Selflatir. – Hlíðarskarð heitir skarðið fyrir norðan Selflatimar.[…] Um Hlíðarskarð eru götuslóðar, sem nú eru fáfarnir, síðan vegurinn kom fyrir neðan Háfell og Skógarnef.“ segir í örnefnalýsingu. Greinilegur götuslóði, má sjá hann liggja í gegnum tóftina undir Náttmálahnjúknum.

Villingavatnssel

Villingavatn

Villingavatn – Villingavatnssel.

„Villingavatn átti sel í Seldal á vallendisflöt sem snýr móti suðri, rétt við götuna, sem liggur úr Seldal upp í Laxárdal. Skúti, 3×3 m, er í Seldal í gilinu sem kemur úr Laxárdal, og var hann notaður sem geymsla fyrir mjólkurmatinn. Sunnan við selið kemur lækur úr Litla-Laxárdal.“ segir í Sunnlenskum byggðum. Þýfður vallendismói er milli selsins og götunnar, vegurinn upp í Seldal liggur samhliða götunum.
„Innst í Seldalnum að vestanverðu, alveg við árbakkan eru 3 tóftin sem eru sennilega af seli á þýfðum vallendisbala. Allt svæðið er 12x12m og er hleðsluhæð mest 0,4m. Stærsta tóftin er nokkur greinileg, alls 3 hólf í henni. „

Heimildir:
-Fornleifar í Grafningi, Orri Vésteinsson & Sædís Gunnarsdóttir, Reykjavík 1998.
-Þorgeir Magnússon, örnefnalýsing fyrir Villingavatn 1970.

Villingavatn

Villingavatn – fjárhellir; áletrun.