Nýjasel

Ætlunin var að kíkja á Nýjasel í Grafningi, sunnan Mælifells.

Nýjasel - Mælifell fjær

Gengið var frá Nesjavöllum til austurs yfir Stangarháls um Bletti ofan við Hagavíkurvelli. Upp úr dalnum var haldið áfram austur yfir Hvíthlíð og niður í dalverpi suðvestan Mælifells. Á þessari leið var yfir tvær langhlíðar að fara. Ofanverð Hvíthlíð er sléttur melur á móbergshrygg. Dalurinn austan hennar hefur einhvern tímann verið vel gróinn en er nú örfoka að mestu. Milli hans og Þverár með stefnu á Stapafell eru tveir lægri móbergshryggir. Milli þeirra er grannur gróinn dalur, opinn til suðurs. Undir eystri hryggnum er Nýjasel.
Selstaða Ölfusvetninga mun skv. lýsingum hafa verið sett þarna á 19. öld. Í lýsingum segir jafnframt um Nýjasel: “Sunnan frá Mælifelli gengur rani að ánni. Vestan í þessum rana, við Seltanga, eru tættur Nýjasels. Hér er talið hafa verið síðast haft í seli í Grafningi, árið 1849. Síðasta selstúlkan var Anna Þórðardóttir, síðar húsfreyja að Villingavatni (1850-1888). Nýjasel er móti norðvestri við smátjörn á mýrarbletti sem er alveg við selið. Selið var meira en klukkutíma gangur að því frá Ölfusvatni. Var fénu beitt í Laka. Er þetta eina selið sem er vitað með vissu, hvenær var síðast notað, en það var 1849. …”
NýjasselFramangreind lýsing á staðsetningunni er nokkuð ónákvæm. Í rauninni ganga tveir ranar sunnan úr Mælifelli. Sá eystri nær þó lengra til suðurs, svo til alveg að ánni. Milli þeirra er fyrrnefnd langlægð. Í henni eru mýrartjarnir, austan þeirra er selið. Tóftin er þrískipt; tvö stærri rými og það þriðja minna og til hliðar að sunnanverðu. Dyr snúa mót vestri, með útsýni að Skolla sunnarlega á Hvíthlíð.
Ef ekki hefði verið vegna heimilda um að Nýjasel væri yngra en Gamlasel
undir Selhól, miklu mun nær Ölfusvatni, mætti ætla að það væri eldra af útlitinu að dæma. Selið er líkara eldri gerð selja, miðgerðinni, en þeim nýrri. Það er orðið reglulegra en óreglulegustu útgáfur seljanna, en samt með hefðbundinni þrískiptingu með eldhúsið til hliðar. Þá gefur staðsetning selsins til kynna að það gæti verið eldra en Gamlasel því tilhneiging var að færa selstöðurnar nær bæjunum á síðasta tímaskeiði þeirra. Ekki var þá lengur þörf á að sækja svo langt í sel, þ.e. nýta úthagana, og sýna fram á með tilvist þess hvar landamerkin lágu (a.m.k.). Ekki er með öllu útilokað að hér sé ekki um svonefnt Nýjasel að ræða. Sel, sem lagðist af um miðja 19. öld, ætti að vera öllu greinilegra og með öðru lagi.
LakiÁ skilti við Nýjasel segir m.a.: “Hér var sel frá Ölfusvatni og nefndist Nýjasel. Það var aflagt um miðja 19. öld. Síðasta selstúlkan í Nýjaseli var Anna Þórðardóttir, fædd 1819. Gróðurfar umhverfis selið var með öðru móti en nú er, til dæmis átti bær í Ölfusi skógarítak á þessum slóðum fyrr á öldum. Uppblástur hefur aukist jafnt og þétt allt til vorra tíma. Algengt er að seltóftir séu þrískiptar líkt og hér í Nýjaseli og var þá um að ræða svefnhús, eldhús og mjólkurbúr þar sem mjólkin var unnin.”
Jafnframt segir: “Allajafna þótti seltíminn skemmtileg tilbreyting. Þess eru dæmi að selin hafi verið kölluð sumarsetur eða sumarhús og líktust þau oft litlum bæjum. Stundum flutti húsbóndinn sjálfur þangað um tíma en annars sinnti vinnufólk þeim störfum sem til féllu og snerust aðallega um smölun, mjaltir og vinnslu mjólkurinnar. Selskapur var algengur á Íslandi allt frá fyrstu öldum byggðar en lagðist að mestu af á 18. öld. Á þessum tíma og raunar fram á þessa öld (20. öld) tíðkaðist að færa lömb frá ám og reka þau á afrétt. Yfirleitt voru lömbin orðin um 6 vikna gömul þegar þeim var stíað frá. Eftir það voru ærnar mjólkaðar en þegar hart var í ári bar við að byrjað væri að mjólka þær meðan lömbin gengu enn undir. Ær voru mjólkaðar í kvíum heima við bæi, á stekkjum eða stöðlum, eða við sel. Á flestum bæjum lögðust fráfærur af fyrir 1930 en dæmi eru um þær allt fram til 1951.
Skófmyndun á HvíthlíðSelin voru oft alllangt frá bæjum og tilgangurinn með þeim var einkum að nýta sumarbeit allt til heiða og dala og hlífa þar með heimatúnum fyrir ágangi búfjár. Algengt var að kýr og jafnvel hross væru rekin á sel með kvíánum. Þá var gróðurinn upp til fjalla oft kjarnmeiri og ærnar mjólkuðu betur en ella. Mjólkin sem kom úr ánum fyrst fyrir burð nefndist broddur og úr henni var gerður stinnur búðingur, klíkt og enn tíðkast með kúamjólk. Þetta var afar næringarrík fæða og kærkomin að voru, einkum á fátækum og barnmörgum heimilum. Annars voru að mestu sömu afurðir af sauðamjólkinnni og nú tíðkast úr kúamjólk, til dæmis ostur, skyr, rjómi, undanrenna og smjör. Smjörið var gjarnan geymt í skinnbelgjum af kindum og oftast etið súrt, enda lítið salt að fá og smjör almennt ekki saltað fyrr en á 19. öld. Súrt smjör gat haldist óskemmt í meira en 20. ár. Til forna var ríkidæmi manna meðal annars mælt í smjöreign; þannig átti Loftur ríki Guttormsson fjögur tonn af smjöri þegar hann lést 1432.”
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Nýjasel

Nýjasel.