Vörður á Reykjaneskaga

Ingólfsfjall

Á Reykjanessskaganum eru 204 nafngreindar vörður, fæstar við gömlu þjóðleiðirnar, flestar vel varðaðar.

Vörður

Vörður.

„Vörður munu aldrei verða taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur og sumar þeirra sérstaka sögu.
Giskað hefur verið á að vörðurnar séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi.
Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og -merkja, skil á milli bújarða, benda á siglingaleiðir með ströndum fram og til að vísa á fengsæl fiskimið, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar venjur við vörðuhleðslu fluttu landnámsmenn með sér hingað, þegar þeir komu siglandi frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar að á 9. og 10. öld og settust hér að.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur austan Ísólfsskála, hlaðnar af samnefndum vinnumönnum á bænum.

Vörður hafa verið gerðar af margvíslegum stærðum og gerðum. Í fyrstu hafa þær verið einfaldar og helst gerðar með þeim hætti að setja einn stein upp á annan og síðan koll af kolli, þ.e. sem leiðarvísar. En brátt hefur mönnum lærst að vanda meira til verksins, raða mörgum steinum saman í þyrpingu, helst hellusteinum, og hlaða síðan hverju steinalaginu ofan á annað, þar til komin var myndarleg og sýnileg varða, jafnvel meira en mannhæðar há. Slíkar vandlega hlaðnar vörður, einkum þær er hlaðanar voru á traustum grundvelli, gátu staðið um tugi ára, án þess að haggast, og jafnvel öld fram af öld, svo sem dæmin sanna.

Landnámsmenn Íslands komu að auðu landi og óbyggðu að mestu. Fyrstu árin í nýju landi hafa farið í að kanna næsta umhverfi á hverjum stað og síðan í framhaldi af því að leita hagkvæmra leiða milli byggða. Fyrst í stað könnuðu menn hinar skemmri leiðir, en ljótlega lögðu þeir land undir fót til að leita leiða milli landshluta. Líður þá ekki á löngu, þar til þeir þekkja deili á helstu hálendisleiðum um landið þvert og endilangt. Að sjálfsögðu urðu þessir landnemar að sýna mikla gætni og varúð, þegar þeir fóru um fjöll og óbyggðir í landi sem þeir þekktu lítið sem ekkert til. Þess vegna merktu þeir gjarna leiðir sínar með því að hlaða vörður, enda grjót tiltækt næstum hvarvetna á fjöllum. Slík leiðarmerki komu sér vel til að rata sömu leið tilbaka og þá ekki síður fyrir hina sem á eftir komu.

Mosfellsheiði

Þrívörður við sæluhúsið í Moldarbrekkum.

Á öllum tímum hafa menn líka hlaðið vörður sem minnismerki um tiltekna atburði, svo að þeir féllu síður í gleymsku. Eitt gleggsta dæmið um slíkt eru, til dæmis, Prestsvarðan ofan Leiru. Vörður þessar eru hinar stæðilegustu, þótt aldnar séu. Í Landnámu segir frá uppruna varðanna. Af frásögn hennar má vera augljóst að t.d. Hallbjarnarvörður við Kaldadal voru hlaðnar sem bautasteinar yfir þá sem féllu og þá ein fyrir hvern mann. Þannig hlóðu menn vörður til minningar um vígaferli og aðra válega atburði og hefur svo trúlega verið á öllum tímum. En menn minntust líka merkra og gleðilegra atburða með því að hlaða vörður.

Þingvallahraun

Vörður á Klettaborg í Þingvallahrauni.

En þótt vörður væru víða hlaðnar til minningar um menn og atburði, þá fer það ekki milli mála að oftast voru þær settar upp sem vegvísar á hálendisleiðum og annars staðar, þar sem slík mannvirki voru talin gagnleg. Fornmenn ferðuðust um hálendið milli landshluta og lengi fram eftir öldum þeystu þar um biskupar og aðrir höfðingjar og embættismenn með flokka sína og fylgdarmenn. Margir aðrir eins og vermenn, skreiðarflutningamenn, kaupafólk og fleiri fóru líka um fjöllin sinna erinda og hélst svo lengi.

Skógfellavegur

Vörður við Skógfellaveg.

Þegar kemur fram á 18. öld virðist tekið að draga mjög úr slíkum hálendisferðum, því að eitt af því sem Landsnefndin 1770 leggur áherslu á til viðreisnar með þjóðinni er að lagfærðir verði sem flestir fjallvegir ásamt með ýmsum öðrum samgöngubótum. Lítið varð þó úr slíkum framkvæmdum. Þó komst á árið 1776 skipuleg póstþjónusta og landpóstar tóku þá að ferðast um byggðir og óbyggðir. Hreyfing komst aftur á þessi mál undir aldamótin síðustu. Árið 1897 kom hingað til lands danskur vísindamaður, Daniel Bruun að nafni, og ferðaðist víða í því skyni að rannsaka eyðibýli og fleira.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð vetrarleiðin.

Þá skal nefnd sérstök tegund af vörðum sem kallaðar voru beinakerlingar. Voru þær margar hverjar stórar og stæðilegar. Slíkar vörður urðu í umræðu ferðamanna eins konar persónugervingar kvenna og þá einkum gleðikvenna. Ferðamennirnir gerðu gjarna klúrar vísur í orðastað þessara beinakerlinga, settu í hrosslegg eða sauðarlegg og stungu síðan milli steina í vörðurnar. Slíkar vísur voru sem sé stílaðar frá beinakerlingu til þeirra sem síðar fóru um veginn. Var þetta gert til skemmtunar í fásinni þeirra sem fóru um fjöllin. Frægust allra þessara kerlinga mun þó vera Beinakerlingin á Kaldadal, en hún stendur þar sem talin var hálfnuð leið frá Þingvöllum til Húsafells. Í orðastað þessarar víðfrægu beinakerlingar varð fyrir margt löngu þessi staka kveðin: Sækir að mér sveina val sem þeir væri óðir; kúri ég ein á Kaldadal, komi þið, piltar góðir.

Beinakerling

Beinakerling.

Auðvelt væri að halda áfram með að rifja upp gamlar beinakerlingarvísur sem margar hverjar eru haglega gerðar. En oft þóttu þær grófar í meira lagi. Breyttir samgönguhættir á bílaöld og meiri hraði en fyrrum hafa valdið því að menn nú á tímum staldra lítt við hjá fornum vörðum á fjallvegum og fágætt mun orðið að kveðnar séu beinakerlingavísur.“

Ástæður fyrir gerð varðanna og tilgangur hefur jafnan verið margskonar. Vörður eru nær undantekningarlaust hlaðnar úr grjóti, fengnu á staðnum, oft ferkantaðar (Skógfellastígur næst Grindavík), en einnig hringlaga (ofan við Auðnasel) eða tilviljunarkennar, með “stelpu- og strákalagi” (Hafnir, Merkines, Prestastígur og Strandarheiði) eða með öðru lagi og misjafnlega háar, allt frá einu umfari til tuga.

Hraunsholtssel

Vörður ofan Hvassahraunssels.

Vörðurnar voru jafnan hlaðnar sem vegvísar (vegprestar) til að leiðbeina ferðafólki rétta leið, t.d. í vondum veðrum (þoku, snókomu eða skafrenningi), til heilla (að kasta steini í dys eða vörðu hafði tvenns konar merkingu – a) að halda þeim, er þar var dysjaður, niðri eða b) að öðlast fararheill. Þær voru einnig reistar sem minningarmörk (um fólk, sem dó á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. Þyrluvarðan, Ólafsvarða og Stúlkuvarða), til gamans (sérkennileg varða á Strandarheiði, í Katlahrauni eða við Reykjanesbrautina þar sem tvöfölduninni líkur að vestanverðu (samskonar varða er skammt ofar í heiðinni, miklu mun eldri)) og til gagns (varða ofan við Merkines þar sem legið var fyrir ref (varðan notuð sem „útsýnisgluggi“) og varða ofan við Brunnastaði, en í henni er refagildra).

Garðsstígur

Þrívörður ofan Garðs.

Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. frá sjó (Brúnavörður) eða sem mið að ákveðnum stað eða sjóleið (yfirleitt mjög stórar eða háttstandandi), á landamerkjum (til að aðgreina mörk jarða eða svæða), við greni (oft litlar (kannski steinn á steini) og yfirleitt þrjár stutt frá hverri annarri – grenið í miðjunni), við upphaf vega eða vegamóta (og þá oft tvær eða þrjár hlið við hlið (fór eftir fjölda gatna, sem komu þar saman s.s. Rauðamelsstígur, Óttarstaðaselsstígur og Skógargata), ofan við mannvirki (selin) eða tiltekinn stað (fjárskjól – vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir), við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki (Hóp við Grindavík, Þórkötlustaðanes, Nesjar), og þannig mætti lengi telja. Beinakerlingar eða skilaboðavörður voru t.a.m. ekki óþekktar.

Prestastígur

Varða við Prestastíg.

Fyrrum var regla á hlutunum, sbr. það að vörður voru jafnan allar sömu megin við götu. Þannig var auðveldara að fylgja þeim, einkum við slæmar aðstæður. Oft var steinhella höfð út úr vörðunni götumegin (Hvalsnesleiðin, Árnastígur). Svo var einnig oft á gatnamótum. „Vörðutippi“ þessi vísuðu til norðurs skv. konunglegri tilskipun þess tíma.
Í seinni tíð má æ oftar sjá fólk hlaða vörður, yfirleitt skammt utan alfaraleiða. Þessar vörður eiga væntanlega að vera minnisvarðar fólksins um veru þess á þessum stað á tilgreindum tíma. Eftir að fólkið er farið gefur varðan sjálf í rauninni ekkert til kynna, nema að vera öðrum til ama og afleiðingar. Hafa ber í huga að fyrrum voru vörður hlaðnar til leiðbeininga fyrir aðra, en ekki einungis þá, sem hlóðu þær.

Garðstígur

Garðstígur – Efsta-Dauðsmannsvarða.

Strangt til tekið má víst ekki endurhlaða gamlar fallnar vörður, en þó hefur það nú verið gert víða um land, s.s. við Skógfellaleiðina að hluta og Árnastíg að hluta og víða hefur fólk lagt stein í „lágvaxnar“ vörður til að gera þær sýnilegri á ný. Hafa ber í huga að gömlu föllnu vörðurnar standa enn fyrir sínu. Glöggskyggnir sjá vel þessar jarðlægu „grjóthringi“ á jörðinni og geta fylgt þeim eins og til var ætlast. Skiptir þá engu hversu háreyst hrúgan er.
Jarðskjálftar og frostveðrun hafa oft leikið vörður grátt. Lengst hafa þær staðið, sem reistar hafa verið á klöpp. Bæði er það að frostveðrunin nær ekki til þeirra líkt og systra þeirra, sem hlaðnar hafa verið á mold- eða melbornu undirlagi, en auk þess skiptir máli hvernig „sveiflan“ í svæðisbundum jarðskjálftum liggur.

Fremstohöfði

Fremstihöfði – landamerkjavarða.

Vörður úr hraungrýti standast betur „áreiti“ en þær vörður, sem hlaðnar hafa verið úr sléttum grágrýtishellum auk þess sem vörður eru einfaldlegar misjafnlega gamlar. Þannig standa t.a.m enn margar vörður, sem hlaðnar voru við Hlíðarveginn (vetrarleiðina) á fjórða áratugi 20. aldar, á meðan nær allar vörðurnar á Selvogsgötunni eru fallnar, en á milli leiðanna eru einungis nokkrir tugi metra.

Þjóðsögur eru til um vörður, likt og annað dulumhjúpað. Þannig segir t.d. að sá sem færir til landamerkjavörðu skal að honum látnum dæmdur til að bera grjót til eilífðarnóns. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að var við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á. Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum – og öfugt.

Reykjanes

Vörðurkort af Reykjanesi – Ási.

Má sem dæmi nefna þjóðsöguna um Herdísi og Krýsu. Vörður voru hlaðnar í Kerlingadal um landamerkjastríð þeirra – að þeim látnum. Sjá má þær enn við gömlu þjóðleiðina. Í niðurlagi sögunnar segir að „nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar.

Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum.

Krýsa og Herdís

Dysjar Krýsu og Herdísar. Dys smalans er neðst á myndinni.

Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.
Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.“

Vörðufell

Markavarðan á Vörðufelli.

Þá má nefna vörðunar á Vörðufelli. Þar segir m.a. að „svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsuvíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.
En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell“.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegur; varða.

Í seinni tíð hafa gamlar vörður verið endurhlaðnar. Oft hefur þá verið tilviljun háð hvoru megin gömlu götunnar þar hafa verið hlaðnar. Víða má þó enn sjá leifar af gömlu vörðunni. Fyrrum var hverjum vinnufærum manni gert skylt að vinna hluta úr ári við garð- eða grjóthleðslu. Hægt var og að skylda búandi menn til að hlaða vörður. Þannig krafðist presturinn í Höfnum, sem einnig var prestur í Grindavík, þess af bændum þar í sveitum að hver þeirra skyldi hlaða a.m.k. eina vörðu og jafnvel tvær á þeirri leið, sem síðan varð nefnd Prestastígur.

Vörðurnar voru með jöfnu millibili, nokkurn veginn jafn háar og allar sömu megin við götuna. Þó er ein varða ólíkar hinum. Það er varðan á Presthól. Hún er klofin.

Prestastígur

Prestastígur.

Segja má að vörðuröðin lýsi vel samfélaginu og fólkinu, sem það mótar; flestar öðrum líkar, en þó ekki án undantekninga. Einn hleðslumaðurinn hefur ákveðið að gera sína vörðu öðruvísi og kannski meira eftir sínu höfði. Eflaust hefur það kostað mikla umræðu og jafnvel fordæmingu á sínum tíma, en í dag er þetta sú varða, sem vekur hvað mesta athygli og er hvað eftirminnilegust á þessari 16 km löngu leið.

Út frá vísindalegum og akademískum forsendum væri eflaust hægt, með mikilli vinnu, að finna bæði tilefni og hugmyndir fyrir „vörðugerð“ fyrri tíma, jafnvel allt frá upphafi landnáms sem og samlíkingar við vörður hér á landi og annars staðar – þaðan sem landnámsmennirnir eru taldir hafa komið – og farið. Niðurstaðan, hversu merkileg sem hún kynni að verða, myndi eflaust vekja athygli fárra, en varla fjöldans.

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Þegar „æft“ fólk leggur af stað í leiðangur með það fyrir augum að „endurfinna“ eitthvað, sem um er getið í örnefnaskrám, sóknarlýsingum, munnmælum eða öðrum heimildum, treystir það jafnan á kennileitin í landslaginu (sem yfirleitt er hvert öðru líkt). Þá er fyrst og fremst skyggnst eftir vörðunum. Ástæðan er sú að fólk hafði fyrrum tilhneigingu til að „merkja“ tiltekna staði, sem það vildi, að þeirra fólk gæti fundið aftur með sem minnstri fyrirhöfn. Örnefnin voru mikilvægur leiðarvísir, en vörðurnar gáfu nákvæma staðsetningu til kynna. Því má með sanni segja að vörðunar hafi verið það sem GPS-eða umferðarmerkin eru núna.

Hellisheiði

Hellisheiði – hellirinn á Hellisheiði; dágott varðað skjól.

Á nýrri leiðum, einkum við vagnvegina, voru vörðurnar jafnan hlaðnar sömu megin og hærri en fyrr. Því miður eru allflestar eldri vörðurnar fallnar og grónar orðnar. Vörður, sem sjá má í dag, voru allflestar hlaðnar kerfisbundið með fjárstuðningi landssjóðs. Munu þetta vera vörður sem hlaðnar voru eftir árið 1861 samkvæmt þágildandi skipan konungs frá 15. mars 1861, sbr. tillögudrög Alþingis frá 1857 að frumvarpi til vegaumbótarlaga: „12. gr.: Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag, skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annarri, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur, eður annað merki, á þeirri hlið, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar .“
Vörðurnar voru gerðar í ákveðnum tilgangi, s.s. að viðhalda sýslugötum, alfaraleiðum eða sem aðdragandi endurbóta, t.d. fyrir vagna. Á fyrstu áratugum 20. aldar tóku síðan sjálfrennireiðavegirnir við þeim eldri og þar með urðu vörðurnar smám saman óþarfar í landslaginu.

Gluggavarða

Gluggavarðan á Mosfellsheiði.

Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. við selin, eða tiltekinn stað, fjárskjól, byrgi vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir, við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki, – og þannig mætti lengi telja. Oft voru vörður hlaðnar sem eyktamörk til að sýna hvað tímanum leið.

Vörður voru, að gefnu tilefni, reistar sem minningarmörk (um fólk, sem hafði dáið á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. varða (dys) í Svínaskarði og varða (dys) norðan Sandfells milli Vindáss og Fossár. Dauðsmannvörðurnar á Miðnesheiði höfðu sama tilgang.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Fyrstu vörðurnar voru að öllum líkindum á landamerkjum, sbr. forn skrif um helgun lands. Mikilvægt að öðrum, sem á eftir kæmu, væru mörkin ljós. Að öðrum kosti kynni að koma til átaka um landayfirráð.
Landamerkjavörður voru á mörkum jarða. Við sumar þeirra, einkum á ystu mörkum í seinni tíð, var jafnframt í grafið tákn á klöpp, t.d. L, M, LM, X, V, + og eða ártal. Landamerki Reykjavíkur sem staðfest voru á 19. öld voru t.d. klöppuð í klappir á þremur stöðum með ártali. Á Markhellu (Markhellur, Markhelluhólar, Mark(a)hólar ofan Hrauna má t.a.m. sjá klöppuð nöfn þeirra þriggja jarða, sem þar mætast.

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Ágúst H. Bjarnason upplýsti m.a. að „eitt einkenni á landamerkjavörðum væri það, að í þær neðst voru iðulega sett viðarkol eða kolabitar. Þetta hafði eg eftir föður mínum. Síðar rann upp fyrir mér, að eg hafði líka lesið þetta einhvers staðar, en eg mundi ekki hvar.
Fyrir skömmu var eg að glugga í rit og þá rakst ég á eftirfarandi. – Þar segir svo: „Eldarnir hafa líklega verið gerðir á landamerkjum, og mun þangað að rekja þann sið, sem tíðkazt hefur fram undir vora daga, að setja viðarkol í landamerkjaþúfur.““

Sýsluvörður voru hlaðnar á mörkum sýslna. Oft voru þetta áberandi vörður á hólum og öðrum landfræðilegum kennileitum. „Vörður“ þessar gátu einnig verið stakir steinar eða áberandi bergstandar (Sýslusteinn sunnan Lyklafells) eða hólar. Á mótum sýslna voru gjarnan hlaðnar tvær eða fleiri vörður til áherslu, sbr. þrívörðurnar á Mosfellsheiði.

Hádegishóll

Varða á Hádegishól.

Eyktarmörk voru kennileiti tengd tíma sólarhringsins. Sólarhringnum var skipt í fjóra hluta; morgun, dag, aftann og nótt. Samkvæmt fornri reglu var hverjum hluta síðan skipt í tvær eyktir. Í einum sólarhring eru þess vegna átta eyktir, hver um sig þrjár klukkustundir á lengd. Eyktirnar voru þessar; ótta kl. 3, miður morgunn – rismál kl. 6, dagmál kl. 9, miðdegi, hádegi kl. 12, nón kl. 15, miður aftann – miðaftann kl. 18, náttmál kl. 21 og miðnætti – lágnætti kl. 24.
Víða um land má af þessum sökum finna miðmundarvörður, dagmálavörður, hádegisvörður, nónvörður, miðaftansvörður og fleirri í líkum dúr.

Villingavatn

Villingavatn – varða við gömlu ferjuleiðina að Skálholti.

Lengri aðalleiðirnar lágu milli bæja og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása og úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mislangar, allt frá og til fjarlægustu landshluta eða bara út frá bæ í fjárskjólið og stekkinn. Við þessar leiðir má víða finna misgamlar minjar, s.s. hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum, vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti á ferðum sínum.

Greinileg ummerki eru á fjölmörgum götum eftir umferð fólks frá upphafi landnáms á Reykjanesskaganum. Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, s.s. sjá má á Hellisheiðarvegi og Selvogsgötu þar sem vegirnir liggja um slétt hraun. Jafnan voru sumargöturnar sem hlykkjast um móa og heiðar óverulega varðaðar, en vetrarleiðirnar, sem voru beinni, voru það hins vegar bæði sýnilegar og þéttar. Ástæðan er einföld. Ágætt dæmi um slíka vörðuröð má glögglega sjá yfir Hellisheiði svo og ofanverðum Hlíðarvegi millum Kerlingaskarðs og Austurása, auk Hvalsnesleiðar yfir Miðnesheiði.

Selvogsgata

Varða við Selvogsgötu neðan Grindaskarða.

Í móum og á heiðum uppi má enn víðast hvar sjá hvar leiðir lágu þótt þær hafi afmáðst að hluta. Sumar eru reyndar áfangaleiðir og tengjast öðrum eða greinast út frá þeim til ýmissa staða. Reyna má að flokka leiðirnar miðað við notagildi. Þannig lágu þjóðleiðir milli byggðalaga. Þessir vegir sjást að mestu enn þann dag í dag. Þessar leiðir voru mikið farnar allt til þess tíma að vegir voru gerðir fyrir sjálfrennireiðina er kom hingað til lands í byrjun 20. aldar. Verleiðir má sjá við verin, bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Byggðakjarnar á landssvæðinu, s.s. Stafnes, Bæjasker, Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströnd, voru t.d. mikilvægar verstöðvar fyrir bæði vermenn alls staðar að af landinu og fiskflutninga, ekki síst til Skálholtsstóls, um aldir.

Selstígar lágu upp í selstöðurnar t.d á Miðnesheiðinni, Fuglavíkurselið, Stafnesselið og Hvalsnesselið, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. Enn má t.a.m. sjá leifar af 443 slíkum á landssvæðinu, ef vel er að gáð.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn – með vegvísi til norðurs.

Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og varla er til sú sveit eða hérað að ekki var þar kirkjustígur eða –gata. Bæði hefur leiðarkerfið þróast frá fyrstu tíð og götur verið lagfærðar. Þær mótuðust undan hesta- og mannafótum. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Með tilkomu vagnsins fóru fram vegbætur á mikilvægustu leiðunum. Sjá má slíkar umbætur á Hvalsnesveginum, Sandgerðisveginumog Stafnesgötunni (kaupstaðarleiðinni).
Mikilvægt er að varðveita þessar gömlu leiðir. Varðveislan felst ekki síst í notkun. Með því fyrir áhugasamt fólk að halda áfram að ganga þessar götur frama veginn verða þær öðrum sýnilegar og líkur minnka á að þær falli í gleymskunnar dá.

Brúar- og gjáavörður má sjá víða þar sem hraun er sprungið eða misgengi algengt, s.s. á selsstígunum í Vogaheiði, Vatnsleysuheiði og á Þingvöllum. Vörður þessar vísa á brýr eða aðgengilega staði til að komast yfir djúpar og langar gjár. Yfirleitt eru þær við þjóðleiðir eða stíga, s.s. selstígana í fyrrgreindum heiðum og við Prestastíginn á Þingvöllum. Á slíkum stöðum hafa gjarnan verið gerðar vegabætur með undirhleðslum til að auðvelda yfirferð manna og skepna.

Garðsstígur

Dauðsmannsvarða.

Dauðsmannsvörður má t.d. víða finna á heiðum og fjallvegum. Þrjár slíkar eru í heiðinni ofan Sandgerðis. Ein, þ.e. sú nyrsta á skv. gömlum sögnum að vera með áletrun. Sigurður sagði að enn hefði hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þá má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Þrátt fyrir nokkra leit hefur hún enn ekki fundist. Næsta verkefni verður líklega að taka hvern stein fyrir sig og skoða nánar. Það verður talsverð vinna, en vel framkvæmanleg við góðar aðstæður. Þá er og tími kominn til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem út frá henni liggur. Sjaldgæft er að grjót hafi fengi að vera í friði á Suðurnesjum því oftar en ekki var það tekið, hvar sem til þess sást, að ekki var talað um ef það var uppraðað og aðgengilegt til brúks, ekki síst í fornum hlöðnum görðum. Það var endurnýtt annað hvort í hafnarmannvirki eða við vegagerð. Þannig hurfu heilu garðarnir og stór hluti af merkilegum vörðum á svæðinu. Þó má víða enn sjá fótstykkin standa sem minnismerki um þær vörður sem voru. Sömu sögu er að segja um gjótgarða og vörður víðar á Skaganum.

Suðurnesjabær

Efri-Dauðsmannsvarða.

Þá eru Dauðsmannsvörður í heiðinni ofan við Berghús auk þess sem Efri-Dauðsmannsvarðan á efsta Draughólnum við Draugagil hefði verið hlaðin upp að nýju. Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðla dags eða undir kvöld.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. Og enn rölta menn um heiðina, meira og minna „dauðir“ fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Villuvörður hafa í gegnum tíðina verið hlaðnar í nokkrum óbyggðum landsins, sem jafnan hefur verið talið nauðsynlegt að fella til grunna. „Vér viljum taka til dæmis hér syðra heiðina, er liggur frá Vogastapa og suður á Garðskaga, milli Hafna, Rosmhvalsneshrepps, Garðs, Leiru, Keflavíkur og Njarðvíka. Heiði þessi er allstór, smáhólótt, og ákaflega villugjörn, en svo að segja er varða þar á hverjum hól, og verða þær að líkindum fleiri mönnum að bana, en illt loptslag þar, draugar og staupagjafir í Keflavík, sem hingað til hefir verið álitið að væri orsök til þess, að svo margir hafa orðið úti og dáið þar í heiðinni.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða.

Ef vissar vörður væru í heiði þessari, er vel mætti rekja sig eptir og engar villuvörður (draugar í heiðinni) í kring, mundu færri verða þar úti. Villuvörður þessar hafa smalar eða þeir er staðið hafa yfir fé að líkindum hlaðið sér til dægrastyttingar, en eigi gætt þeirra afleiðinga, er verða kynni af verki þeirra fyrir ókunna ferðamenn.“ Í dag eru svonefndar „ferðamannavörður“ eða „-vörtur“ af sama toga spunnar.

Dysjar eru upphækkuð vörðulíki; grafir eða grafhýsi úr grjóti. Hér á landi var fólk dysjað ef ekki þótti tilefni til greftrunar með viðhöfn, t.d. þegar fólk, sem hafði orðið úti í vondum veðrum, fannst alllöngu síðar. Dysjarnar voru gerðar úr hrúgu af grjóti.
Illþýði og galdramenn voru yfirleitt dysjuð eða urðuð, þ.e. fleygt yfir þau grjóti og lítt vandað til þessara síðustu híbýla þeirra. Oft eru „dysjarnar“ orðnar til í framhaldi af vörðu, reista til minningar um mann, sem t.d. varð úti á tilteknum stað eða til heilla, þ.e.a. ferðalangar trúðu því að með því að bæta steini í „dysina“ færi það þeim fararheill.

Fornasel

Varða við Fornasel.

Selsvörður voru hlaðnar sem kennileiti ofan við sel eða selstöður. Þær voru gjarnan við endann á selstígnum, ofan við selshúsin. Í fyrrum landnámi Ingólfs má enn merkja minjar yfir 400 selja og selstaða (selin voru nytjastaðir bæjanna fyrir árið 1900, s.s. kúasel, fjársel, eggjasel, kolasel o.s.frv.). Sérhvert sel átti sér selsstíg eða – götu, því á þeim tíma höfðu mennirnir ekki enn lært að nýta sér þyrlur til að ferðast ummerkjalaust á milli staða. Þetta er meira skrifað til gamans því sjaldnast hafa selstígar og – götur ratað inn í fornleifaskráningar, einkum hér áður fyrr. Við selstígana voru gjarnan hlaðnar litlar vörður, einkum við stíga þeirra selja er voru í alfaraleið. Ferðalangar komu gjarnan við í seljum, leituðu þar skjóls og stofnuðu til kynna við starfsfólkið; einkum selsmatsseljuna, en síður smalann. Út frá því hafa spunnist margar huldusagnir.

Skjólvörður voru fremur litlar, til merkis um op fjárskjóla eða skjóla þar sem fé leitaði einkum hlés fyrir veðrum, t.d. í grónum hraunhólum og sprungum.
Smalar nýttu sér þessi merki við leitir, enda til þess ætluð. Fáir þekktir kannaðir hraunhellar voru fyrrum, en við flest op þeirra má sjá litlar vörður í sama tilgangi. Þessar litlu vörður hafa í seinni tíð vísað mörgum hellarannssóknarmanninum á opin með áður ómældum árangri, s.s. með áður óþekktum fyrirhleðslum (Gjögur) og hlöðnum bælum (Gullbringuhellir).

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnsvarða í Hraunum.

Vatnsstæða- og brunnvörður voru hlaðnar til leiðbeiningar vegfarendum að slíkum mikilvægum stöðum. „Gvendarbrunna“ má finna víða. Við þá eru jafnan vörður. Ofan við Búðarvatnsstæðið neðan Markhelluhóls er forn mosagróin varða. Vatnsstæði voru gjarnan í seljum, enda forsenda þeirra í flestum tilvikum. Selin voru oftar en ekki á mörkum jarða, ekki síst til að undirstrika eignarhaldið. Grunur er um að varðan mosavaxna við Búðarvatnsstæðið hafi fyrrum verið landamerkjavarða, en mörkin síðar verið færð ofar í landið, að Markhelluhól.

Grenjavörður, tveir til þrír steinar, voru jafnan þrjár umhverfis greni, svo bera mætti kennsl á það. Víða við slíkar vörður eru hlaðin byrgi/skjól fyrir grenjaskyttur.

Gildruvörður voru ýmist hlaðnar til að benda á hlaðnar refagildrur eða þær voru sjálfar hlaðnar sem slíkar. Í mörgum vörðum, ef grannt er skoðað, má sjá fallhellu og ginningargapið innan hennar.
Hlaðnar refagildrur eiga sér sögu allt frá upphafi byggðar hér á landi. Þór Magnússon, fyrrum Þjóðminjavörður, hefur skrifað um nokkrar slíkar í Árbók Fornleifafélagsins. Á Reykjanesskaganum má finna 98 slíkar, fæstar opinberlega skráðar sem fornleifar.

Selatangar

Gatvarða á rekagötunni við Selatanga.

Leiðarmerkjavörður má enn sjá við endurbætta vegi og/eða vagnvegi fyrri tíma. Þær voru ýmist nefndar hálfnunarvörður, þ.e. voru miða vegu milli tveggja tiltekinna áfangastaða, eða voru reistar með jöfnu millibili, s.s. ca. eins eða tveggja kílómetra, til leiðbeiningar um vegarlengdir og nálganir.

Gat-, stráka- og stelpuvörður eru svo nefndar vegna sérstæðrar hleðslu, s.n. klofvörður; steinar er hvíla ofan á tveimur stoðum. Slíkar vörður má víða finna í stöku leiðavörðu, s.s. við Prestastíg. Klukkuvarðan á Mosfellsheiði, við Illaklifsleið, er enn eitt dæmið. Stundum hvarlar að manni, einkum eftir að vörðugerð við gamlar þjóðleiðir urðu að þegnskylduvinnu, að einhverjir einstaklingar hafi bæði viljað sýna mótþróa og jafnframt koma á framfæri nýsköpun við slíka verkefnavinnu. A.m.k. vekja þessar vörður sérstaka athygli enn í dag.

Prestsvarða

Prestsvarðan ofan Leiru.

Prests- og biskupavörður eru ýmist við fornar leiðir eða standa stakar, allt eftir tilefnum stöðugra eða einstakra ferða og sögulegra áfangastaða þeirra tíma kristinlegra boðbera um landið eða svæði. Presthólar eru og víða.
Þekktasta varðan var Biskupsvarða, sem stóð á klapparhól vestarlega á Hellisheiðinni. Hún var ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo skjól fengist fyrir öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld en 1830 var hlaðinn sæluhúskofi á sömu klöppinni og grjótið úr vörðunni notað í þá hleðslu. Kofinn, Hellukofinn, stendur enn.

Það væri hægt að skrifa langt mál um vörður og vörðubyggingar á Íslandi. Hér verður þó aðeins minnzt í örfáum orðum á vörðugerð á einum fjallvegi landsins, þeim sem einna næstur er okkur Reykvíkingum, þ.e. á Hellisheiði.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Gamli Hellisheiðarvegurinn, úr Hellisskarði við Kolviðarhól austur á Kambabrún, er einmitt gott dæmi um vel varðaðan fjallveg. Á þeirri leið, svona um það bil miðja vega, var hin fræga Biskupsvarða, fornt og mikið mannvirki. Óvíst er með öllu hvenær hún var hlaðin, en hennar er getið í gögnum frá lárinu 1703, og staðið mun hún hafa eitthvað fram á 19. öld. Hún var full sex fet á hæð og krosshlaðin, þannig að skjól var undir henni af hvaða átt sem vindurinn blés og afdrep fyrir mann og fararskjóta, ef því var að skipta. Hins vegar eru vörðurnar og vörðubrotin, sem nú eru sjáanlegar á Hellisheiði miklu yngri, og er raunar enn til hréf, sem sýslumaðurinn í Árnessýslu ritaði hreppstjóra Ölfushrepps á sínum tíma um þessar vörðubyggingar. Það er dags. 25. sept. 1817 og eru því rétt 150 ár liðin síðan þessari samgöngubót var komið á.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Innihald sýslumannsbréfsins var í stuttu máli fyrirskipun um „að uppfæra svo margar vörður á allri Hellisheiði þaðan sem Kambar byrja og vestur á Hellisskarð, að milli þeirra séu ekki meir en hér um bil 80 til 100 faðmar, að hver varða sé í það minnsta 2 álnir á hæð og að þessu verki sé lokið innan áttunda october næstkomandi.
Til að uppfylla þessa svo nauðsynlegu vegaforbetrun tilsegist hreppstjórum í Ölvesi að tilhalda sveitar bændum að gjöra verkið innan ákveðins tíma. En tilstjórnar- og forgöngumenn fyrir að verkið gjörist með trú og dyggð skikkast hér með af mér bændurnir: Gísli á Reykjákoti, Þorvarður á Vötnum, Sæmundur á Auðsholti og Þórður á Núpum.“
Þegar þessi „vegaforbetrun’“ var uppfyllt á tilsettum tíma og vörðurnar hlaðnar, svo sem fyrir var lagt, urðu þær eitthvað um eða yfir hundrað talsins. Þær voru flestar hlaðnar úr hellugrjóti, sem nærtækt er þarna á heiðinni, og undirstaðan föst og traust. Enda eru margar þeirra ennþá uppistandandi eða lítt hrundar, en sumar hafa ekki staðizt forgengileik tímanna og fallið í valinn.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Eftir er þó að geta merkasta mannvirkisins á þessum fjallvegi, en það er hellukofinn, sem enn er hinn stæðilegasti. Hann er byggður við fertugustu og fimmtu vörðu að austan, á klöppinni þar sem Biskupsvarða stóð fyrrum. Hann mun hafa verið hlaðinn einhvern tíma milli 1830 og 1840. Þetta er mjög sérstæð bygging, borghlaðinn grjótkofi, dregst saman að ofan, unz hann lokast alveg af heljarmikilli hraunhellu. Hann er jafn á allar hliðar um 1,85 m og 2 m undir loft í mæninn. Í honum mun „hafa rúmazt 5-6 manns, ef samkomulag var bærilegt.
Eins og áður segir, stendur hellukofinn enn og mun eiga fáa eða enga sína líka meðal sæluhúsa á landi hér. Eystri dyrakampurinn er þó dálítið illa farinn og farinn að gefa sig og kann að þurfa einhverrar lagfæringar við áður en langt um líður.
Nú eru tímarnir mikið breyttir frá því þeir Árnesingarnir voru að tína hellublöðkurnar í vörðurnar á heiðinni og hlaða kofann við Biskupsvörðu. Vörðurnar hverfa ein af annarri og fráleitt stendur hellukofinn heldur að eilífu, ef ekkert er að gert.

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

Átrúnaðarvörður voru reistar af gefnum tilefnum, s.s. í kjölfar „Tyrkjaránsins“ eða í kjölfar almannahættu, líkt og sagði af hinum þjóðsagnakenndu vörðum séra Eiríks á Vogsósum. Jafnan fylgdu slíkum vörðum þau áhríningsorð að meðan þær stæðu myndi íbúunum verða óhætt. Títublaðsvarðan ofan Járngerðastaða er ágætt dæmi um eina slíka. Sagan segir að meðan vörðunni þeirri verður viðhaldið muni ferðalöngum um Skipsstíg vel farnast. Því miður, líkt og um svo margar slíkar sagnir, hefur henni lítt verið sinnt á síðari tímum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Um Eiríksvörðu á Svörtubjörgum í Selvogi segir þjóðsaga: „Einu sinni var Eiríkur staddur í búð í Hafnarfirði. Hann leit út um gluggann og mælti til kaupmannsins: „Já, já, heillin góð, það eru ekki góðir gestir komnir í Selvog núna,“ hleypur út síðan og á bak og ríður austur í Selvog.

Arnarfell

Arnarfell – Eiríksvarða.

Í Selvogi var það til tíðinda að tyrkneskt skip kom þar inn undir land, og kemur bátur að landi og lendir þar sem heitir Sigurðarhúsabót. Jón hét bóndi í Sigurðarhúsum (það er fyrir austan Strönd). Jón fór til fundar við hina útlendu. Þeir taka hann og afklæða, slógu hring um hann og otuðu að honum korðum sínum, en sköðuðu hann þó ekki.
Nú tekur að hvessa og fara Tyrkjar í bátinn og sleppa Jóni. Þeir róa út á Strandarsund; þar stanza þeir um nokkra stund. Þá hefur skipið slitið upp og drífur til hafs; bátsmenn róa síðan eftir skipinu og náðu því ekki meðan til sást. Jón fer í klæði sín og litast um. Hann sér Eirík prest vera að ganga um gólf í Strandarkirkjugarði. Jón fer þangað og heilsast þeir; segir Jón Eiríki hrakning sinn. Eiríkur mælti: „Þú áttir ekki að fara til þeirra heillin góð; þú áttir ekkert erindi til þeirra. En því drápu þeir þig ekki að þeir mundu það ekki fyrr en þeir komu út á sund; þá vildu sumir snúa aftur að drepa þig, og varð það þeim til sundurþykkju og dvalar. Um síðir réðu þeir af að halda áfram, en ekki er víst þeir nái skipinu aftur. Farðu nú heim heillin góð og farðu ekki oftar á fund óþekktra útlendra.“

Gíslavarða

Gíslavarða ofan Staðarhverfis.

Jón fór heim, en Eiríkur fer upp á Svörtubjörg og hleður þar vörðu og mælti svo fyrir að meðan sú varða stæði skyldu Tyrkjar aldrei gjöra grand í Selvogi. Þessi varða stendur enn á Svörtubjörgum og er hún hlaðin að mynd sem lambhúsgaflhlað og einhlaðin að ofanverðu úr óhentugu hleðslugrjóti; snýr flatvegur hennar eftir bjargabrúninni og er tæpt mjög. Hún er mosavaxin og lítur út fyrir að hafa staðið lengi og er þar þó vindasamt; enda hafa Tyrkjar aldrei komið í Selvog síðan.“

Um Gíslavörðu ofan við Stað í Grindavík segir: „Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða. Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska.“

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

Innsiglingavörður voru jafnan tvær eða fleirri í beinni sjónlínu ofan við innsiglingar í vör eða lendingar. Sums staðar voru þær á fleirri en einum stað, allt eftir stefnubreytingum innsiglingarinnar. Með hafnagerð í byrjun 20. aldar voru vörður ofan lendingar bæði hlaðnar stærri og hærri og höfðu á sér þríhyrnt gulmálað tréverk sem stefnumerki og/eða ljósmerki. Slíkar vörður voru t.d. ofan við Hóp og á Þórkötlustaðarnesi í Grindavík eru ágæt dæmi um stórar og stæðilegar innsiglingarvörður frá því um og eftir aldarmótin 1900.

Brennuvörður eru eldri og voru hlaðnar ofan við lendingar, flatar að ofan, einkum við lendingar skipa Konungsverslunarinnar eða lendingar erlendra kaupmanna. Ef bátur eða skip hafði ekki komið að landi áður en skyggja tók var tendraður eldur á vörðunni til að vísa sjófarendunum leiðina. Sambærilegt dæmi er um örnefnið „Brennuhóll“ við lendingar víða um land og hann þá notaður í sama tilgangi. Einn slíkur er ofan Básenda utan Stafness.

Gömlu Hafnir

Stelpuvarða ofan við Gömlu-Hafnir.

Svonefndar „gatvörður” hafa valdið sumum mönnum heilabrotum um langa tíð. Sjá má nokkrar slíkar á Reykjanesskaganum. Ein helsta kenningin hefur verið sú að þær eigi sér skírskotun til sambærilegra mannvirkja í Norður-Ameríku og hefðu því bæði verið hlaðnar af sama fólkinu beggja vegna Atlantshafsins og/eða gegnt sambærulegu hlutverki. Hvert fólkið var eða hvaða hlutverki þær áttu að hafa þjónað hefur hins vegar ekki verið útskýrt af neinu viti. Ofan við Merkines eru t.d. tvær gatvörður. Skammt frá þeim er gróin laut og við vesturbrún hennar eru gamlar rústir og varða með gati neðst er þar hjá. Þetta er kallað Strákur. Nokkuð langt ofar er lítil varða á klapparhorni, sem heitir Stelpa.“ Í örnefnalýsingu fyrir Merkines er einnig getið um vörðurnar: „Neðst í Merkineslágum er grjótvarða, hlaðin þannig, Varða ofan við gömlu Hafnir – Systur – að neðst eru tveir stólpar og svo einn upp úr. Þetta er mjög gömul varða og ágætlega hlaðin. Hún heitir Strákur. Nokkuð ofar er lítil varða á kletti, sem nefnd er Stelpa. Þarna eru allmargir smáhólar. Meðan þetta land var meira nytjað, hafa örugglega margir þeirra haft nöfn, sem nú eru glötuð.“

Prestastígur

Varða (prestur) við Prestastíg nálægt Presthól.

Við svonefndan Prestastíg (nýnefna) eru tvær gatvörður utan í efstu brúnum (Presthól) ofan Hundadals. Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir segir m.a. um þessa leið (ekki er getið sérstaklega um vörðurnar): „Til norðurs er nokkuð stór grjót- og klapparhóll skammt upp frá gjánni. Varða við Presthól heitir Markhóll. Til norðvesturs er feikistór hóll upp af gjárbarminum og heitir hann Presthóll. Meðfram honum lá hestagata frá Kalmanstjörn og undir Haugum til Grindavíkur. Vegur þessi var varðaður og standa margar vel enn í dag.“
Á Mosfellsheiði eru tóftir sæluhúss vestan í Háamel. Í örnefnalýsingu fyrir Mosfellsheiði segir: „Sunnan undir Háamel var eitt sumar, eða tvö, fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarblóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sléttir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. „Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.“ Gatvarðan skammt vestar virðist ekki hafa verið í frásögu færandi. Reyndar eru vörður á þessari leið eitt allsherjar samansafn af öllum helstu vörðutegundum landsins.

Vatnsleysuheiði

Stök gatvarða á Vatnsleysuheiði.

Við Vestari rekagötuna milli Selatanga og Ísólfsskála er falleg gatvarða. Einnig á samhengisslausum stað í Strandarheiði ofan við Vatnsleysuströnd. Tvær gatvörður, annars vegar við hina fornu Hvalsnesleið og hina nýju Reykjanesbraut virðast vera æði nýlegar og vera dæmigerð sköpunarverk höfundanna. Þessar vörður, þótt nýlegar séu, gefa jafnframt góðar vísbendingar um tilurð þeirra, sem eldri eru, sem og Varða við Reykjanesbraut – nú horfin – annarra sambærilegra vestanhafs.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða.

Af framangreindum gatvörðum má draga tvenns konar ályktanir; annars vegar þá að einstaka áræðnum bónda hafi ofboðið ánauðin og ákveðið að tjá hug sinn til hennar. Í stað þess að hlaða hefðbundna forskrifaða vörðu hafi hann viljað vekja athygli á þurfalinginu. Dagsverkið hefur eflaust verið ca. tvær fullhlaðnar vörður og skýrir það vel gatvörðurnar tvær við Presthól. Afurðin hefur í framhaldinu án efa vakið mikið umtal á þeim tíma, enda vörðurnar ólíkar öllum öðrum hefðbundum við stíginn. Ef til væru stólræður prestsins frá þessum tíma mætti eflaust sjá viðbrögðin við afbrigðilegheitunum – með tilheyrandi bölvunum og bannfæringum. Í dag, þegar gengið er „Prestastíg“ (sem reyndar lá annars staðar um heiðina fyrrum) vekja þessar tvær vörður einna mesta athygli göngufólks og hafa því þjónað tilgangi sínum sem slíkar.

Merkines

Varða ofan Merkiness.

Svo gildir og jafnan um verk þeirra, sem hafa viljað tjá sig í seinni tíð á annan hátt en hefðbundinn. Líkt og þá hafa verkin verið talin „fáranleg“, en smám saman, með tímanum, fengið viðurkenningu í samræmi við gildi tjáningarinnar. Sömu lögmál eru algild, bæði í tíma og rúmi, um árþúsunda sögu mannskepnunnar – og þarf ekki Reykjanesskagann til.
Hins vegar má ætla, út frá sömu rökyggju, að einhverjir hafi viljað byggja vörðu á fjölförnum stað er ætlast var að vekti sérstaka athygli. Segja má að á öllum þeim stöðum, er það átti við, hefur það tekist með ágætum. Hughrifin ein hafa þó jafnan verið látin duga, en ekki verið talin ástæða til að fjalla sérstaklega um einstök mannvirki í markverðum textum – enda vörðurnar yfirleitt skammlífar. Þannig entist varðan við Reykjanesbrautina einungis í þrjú ár. Vörðurnar við „Prestastíg“ og ofanvert Merkines sem og við Rekagötuna frá Selatöngum og á Mosfellsheiði eru hins vegar u.þ.b. 100 ára. Ekki er vitað um aldur varðanna í Norður-Ameríku, en ætla má að tilefni að sköpun þeirra hafi verið af sömu tilfinningarrótum og hér á landi.

Jóhannesarvarða

Jóhannesarvarða.

Jóhannesarvarða er vestur undir Holtsgjá í Vogaholti, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels.
Þegar Sesselja Guðmundsdóttir ritaði bók sína „Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995) getur hún um Jóhannesarvörðu eða Jónasarvörðu. Erfitt sé að hendar reiður á hvort nafnið er réttara. Sagnir hermi að þarna hafi orðið úti maður, en engin nánari deili virtust finnast á þeim sögum.
„Svo var ég svo heppin þegar ég var að skoða ættfræði Krýsuvíkur-Gvendar hér um árið í Þjóðskjalasafni að ég rakst á kirkjubókarheimild um greftrunina. Man bara hvað ég varð frá mér numin þegar ég fann, óvænt, skrif um lát og greftrun þessa manns. Því varðan hafði kallað fram spurningar. En og aftur kom í ljós að sögusagnir fara nærri sannleikanum þrátt fyrir aldir!“
Ólafsvarða er enn ein varðan í Vogaheiði. Hún er minningarvarða um nafngreindan mann er féll þar ofan í sprungu á aðfangadag árið 1900 – og varð úti.

Þingvallavegur

Varða við Gamla-Þingvallaveginn. Vegvísir skv. konungsbréfi.

Árið 1776, þann 29. apríl, gaf Kristján VII út tilskipun/frumvarp, sem m.a. á finna eftirfarandi um vörður og vörðugerð: „Frumvarpið var nefnt „Tilskipun um vegina á Íslandi“. Í 14. gr. segir; „Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag. skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annari, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur eða annað merki á þeirri hlíð, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar.“
Með tilskipuninni var þegnskylduvinna til vega- og vörðugerðar afnumin.“

Vörður eru merkilegar menningarminjar sem þarf að sýna virðingu.

Berserkjavarða

Berserkjavarða við Gamla Þingvallaveginn.