Munað og gleymt – Varðveisla landamerkja á Reykjanesi

Reykjanes

Í B.A.-ritgerð Bryndísar Súsönnu Þórhallsdóttur, „Munað og gleymt – Varðveisla landamerkja á Reykjanesi“ í fornleifafræði frá árinu 2021 segir m.a. um efnið [hafa ber í huga að hér er verið að fjalla um landamerkri á vestanverðum Reykjanesskaga, en ekki á Reykjanesinu sem slíku, enda er það einungis smábleðill á fyrrum landamerkjum Hafnahrepps og Grindavíkur]:

Saga landamerkja og örnefna á Reykjanesi

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Ekki hefur verið skrifað mikið um landamerki hérlendis. Iðulega virðast þau einungis vera partur af heildar örnefnaskráningu en eru yfirleitt ekki rannsökuð út af fyrir sig. Þau eru yfirleitt bara nýtt til þess, eins og nafnið bendir til, til að marka línuna milli tveggja eða fleiri jarða. En hér skal úr því bæta, að minnsta kosti fyrir Reykjanesið. [Hér hefur gleymst að geta um starf Óbyggðarnefndar HÉR og HÉR.]
Reykjanesskaginn er á suðvesturhorni Íslands, suður af Faxaflóanum og er svolítið í laginu eins og fótur sem teygir sig vestur í átt að Snæfellsnesinu. Skaginn er gerður upp af Reykjanesinu, Miðnesinu (áður Rosmhvalanes) og Garðskaganum. Á honum eru Keflavík, Njarðvík, Hafnir og Ásbrú, nú undir Reykjanesbær; Garður og Sandgerði, sem í dag heitir Suðurnesjabær; Grindavík og Vogar á Vatnsleysuströnd, sem eru sitthvort bæjarfélagið, ásamt stökum bújörðum.

Húshólmi

Húshólmi í Ögmundarhrauni. Minjar frá upphafi byggðar hér á landi.

Þó að ekki séu til mikið um skrifaðar heimildir fyrir búsetu á Reykjanesinu fyrstu 300 árin eða svo virðist það hafa þó verið svo til samfelld frá landnámi. Fyrstu heimildir um það má finna í Landnámu þar sem talað er um Rosmhvalanes (Landnáma, bók 1, bls. 392; bók 2, bls.167), Grindavíkur (Landnáma, bók 2, bls. 331) og Krýsuvík (Landnáma, 2, bls. 302, 132), en einnig á nokkrum stöðum í DI (DI II, bls. 76, DI VII, bls. 457-458). Það virðist vera sem magn jarða á Rosmhvalanesinu og Vatnsleysustrandarhreppi voru komnar í byggð á 13. öld þegar elstu öruggu skriflegu heimildirnar koma fram. Margar þær jarða sem eru nafngreindar í skjölum þessum eru í byggð í dag, ýmist sem bújörð eða bæjarfélag en þó er eitthvað um eyðijarðir. Bæjarfélögin verða því tekin fyrir hver á fætur öðru og skoðað verður merkin þeirra. Sumar jarðirnar hafa landamerkjabréf en þar sem þau eru ekki að finna verður rýnt í ýmis konar nýrra efni.

Njarðvík

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Njarðvíkurnar eiga sér langa sögu og virðist verið orðin kirkjujörð tiltölulega snemma. Þær skiptast í dag í Ytri- og Innri-Njarðvík en heyra þó báðar [nú] undir Reykjanesbæ.
Það eru ekki til miklar heimildir fyrir Njarðvíkurnar á miðöldum. Það er talað um þær í rekjaskiptaskránni fyrir Rosmhvalanes sem dagsett er um 1270. Þar segir að þær eigi viðreka inn í Keflavík á móts við Hólm (Leiru) (DI II, bls. 76). Hitt er kirkjuskrá Hítardalsbókar sem er dagsett 1367 og tala um eignir kirkjunnar (DI III, bls. 221) sem lítilfjörlega virðast vera.

Njarðvík

Ytri-Njarðvík – Áki Grenz.

Þarna virðist vera hálfkirkja, því Njarðvík syðri (til að aðskilja kirkjuna í Njarðvík í Borgarfirði eystri) var ekki eigna mikil og ekki kom hún fram í kirkjuskrá þó að kirkjur nágranna jarðanna á Hvalsnesi, Kirkjubóli, Útskálum og Kirkjuvogi voru taldar upp. En einhver hljóta landamerkin hafa verið. Eina merkið sem fannst og var fullvíst að væru landamerki í Njarðvíkurlandi er Kolbeinsskor í skrá Stóruvoga (DI VII, bls. 299). Kolbeinsskor er þekkt sem Innriskora í dag og situr á Landamerkjunum milli Voga og Reykjanesbæjar. Upp af henni, á hamrinum sem situr milli Innriskoru og Ytriskoru er varða sem ber heitið Kolbeinsvarða sem einnig situr á merkjalínunni (SÁM, Vogar, Ari Gíslason).

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Þannig er hægt að sjá að þó að gamla landamerkið hefur breytt um nafn, þá lifir það áfram í öðrum merkjum, þá líklegast því þau eru nýtt sem landamerki. Þegar borin eru saman landamerki Innri-Njarðvíkur annars vegar og Voga hins vegar má sjá smá mismun. Skráin fyrir Innri-Njarðvík ber einungis nýja heitið, það er Innriskora (skrifað Innri-Skora í skjalinu (SÁM. Innri-Njarðvík, Ari Gíslason) en Kolbeinsvarðan kemur fyrir í skrá Voga. Þar sem þetta örnefni kemur einungis einu sinni fyrir í miðaldar skjölum má gera sér hugmynd um að munnlega geymd hafi þarna hjálpað til. Skoran er einnig landsvæði sem ómögulegt er að færa til, og því líkleg ástæða að ekki hafi nafnið fallið niður.

Háaleiti

Tröllin á Háaleiti.

Annað stakt merki má finna fyrir Njarðvík og það er að finna í skrá fyrir Hvalsnes og Stafnes (sem rædd verður frekar neðar). Þar kemur fyrir landamerkið Hafa leiti (DI II, 81). Landamerkið kemur fyrir í landamerkjabók fyrir Hvalsnestorfuna, eins og hún er nefnd þar og segir. ‘’þaðan liggja merkin beina línu uppá Háa-leyti, fyrir sunnan kölku’’ (LAN, 1922, bls. 43). Þarna er því verið að tala um Háaleiti. Háleitið kemur aftur fyrir í skránni fyrir Stafnes ‘’Torfmýrar hafa verið til hér í hlíðinni, en það, sem hæst ber hér upp af, heitir Háaleiti og er nú komið undir flugvöllinn.’’ (SÁM, Stafnes, Ari Gíslason).
Flugvöllurinn er Keflavíkurflugvöllur, sem Bretar og Bandaríkjamenn byggðu upp á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og er í dag alþjóðarflugvöllur okkar Íslendinga. Þarna má sjá að hernám Íslands hefur haft áhrif á landeignir og nýtingu enda skruppu Stafnes og Hvalsnes löndin töluvert saman við þetta.

Keflavík

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Í dag er Keflavíkur bóndabærinn í eyði og hefur verið lengi. Gamli Keflavíkurbærinn er sagður hafa verið upp á hrygg eða höfða sem var upp og suður af Grófinni. Því til staðfestingar áttu að hafa fundist mannvistarleifar þegar túnið var sléttað í tíð Duus eldri (Marta Valgerður Jónsdóttir, 1947, bls. 1). Duus hin eldri var fæddur 1795. Hann keypti Keflavíkurtorfuna 1848 og rak á henni verslun þar til 1864, þegar hann seldi syni sínum reksturinn (Skúli Magnússon, 1973, bls. 693). Túnið var því væntanlega sléttað milli 1848 og 1864.
Ekki er talað mikið um bújörðina Keflavík í máldögunum, heldur er aðeins vísað til hennar. Í henni eru bæjirnir Darrastaðir og Straglastaðir sem Árni Magnússon & Páll Vídalín segja ‘’að skynsamir menn ætla að þær sjeu hinar sömu, sem nú er kölluð Kothús og Ívarshús’’ (Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1982, bls. 106).

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur í Leiru – SG.

Þeir styrkja fullyrðingu sína á að ekki séu Darrastaðir og Straglastaðir til undir þeim nöfnum í dag en Kothús og Ívarshús standi aftur á móti í sömu röð og bæirnir úr eldri lýsingum. Í DI II eru þessar jarðir nefndir í skjali um rekaskipti milli jarða á Rosmhvalanesi en þar segir ‘’Jinn primis, Holmvur æ vidreka inn j keflavik til motz vid niardvík’’ Þarna virðist Keflavík í raun ekki vera búsetusvæði heldur vera mörk rekaskipta á milli Hólms í Leiru (þar sem í dag er Hólmsvöllur) og Njarðvíkur. Vitað er um verslun á svæðinu árið 1566 (DI XIV, bls. 472) en búseta fólks er ekki skráð fyrr en 1703, þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín skrá þar jarðnytjar svæðisins (Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1982, bls. 105). Þó má gera sér hugarlund að þarna hafi lengi verið byggð, bæði út frá hinum meintu tóftum í túni Duus, en líka var bæði verslun og gjöful fiskimið undan ströndum.

Kalka

Kalka – varðan var eyðilögð við gerð Meeksflugvallar.

Fyrsta heildstæða landamerkjaskráin fyrir jörðina Keflavík var ekki tekin fyrr en árið 1889, sem við höfum og varðveitum, og segir svo ‘’Frá svokölluðu Ós-skeri í fjörði (er liggur til suð-austur frá Nástrandargróf, ofan til við marbakka og merkjum jarðföstum kletti, þaðan strönd og beina stefnu, að vörðu í Háaleiti (Kölku), þaðan að svonefndri Keflavíkurberg, er liggur sunnan við Sandgerðisveginn, þaðan heima línu að Hellunefi innan Helguvík á Hólmsbergi. Á hallri klöpp ofan til á Hellunefi og jarðföstum steini á marbakkanum beint uppundan Ós-skeri er markað L.M., séu er einkennir landamerkjamark jarðarinnar, og þýðir landamerki.’’ (LM, Gullbringu- og Kjósarsýsla; Veðmálabók 1, 1889, bls. 240).
Þarna kemur fyrir Háleiti aftur og talað er um vörðu á því. Varða þessi kemur einnig fyrir í landamerkjaskrá Hvalsnes og Stafnes (DI II, bls. 81) og því má sjá að landamerkin virðast hafa verið þarna lengi. Varða þessi kemur aftur fyrir í skrá Ytri-Njarðvíkur og nefnist þá Grænásvarða. Það kemur heim og saman því eins og talað var um ofar, þá situr Háaleitið rétt hjá Grænásbrekkunni.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Áhugavert er að sjá að hvorki Háaleiti né Kalka kemur fyrir í skrá Ara fyrir Keflavík (SÁM, Keflavik, Ari Gíslason) en hún er aftur á móti í skránni fyrir Ytri-Njarðvíkurnar (SÁM, Ytri-Njarðvík, Ari Gíslason). Þar vandar hann ekki orðið hernum og talar um eyðilegging menningu landsins. Eins og var um rætt ofar þá saxaði koma hersins á landsvæði Suðurnesjabúa. Sum annara nafnanna koma fyrir í skránni hans, en hann skrifar Vatnsnes (1) er allstórt nes, er gengur í sjó fram. Nú er það mikið orðið byggt. Óssker (2) er í fjöru suðaustur frá svonefndri Nástrandargróf (3), sem er jarðfall mikið, nyrzt í kaupstaðnum, sem nú er.

Njarðvík

Njarðvíkur 1950. Vatnsnes fremst.

Norðan á Vatnsnesi er Vatnsnesbás. Þar var lending í gamla daga. Við norðurendann á Vatnsnesi er stór klettur laus við, sem nefndur er Vatnsnessteinn, og Vatnsnestjörn. Þar innar er bás, sem nefndur er Gatbás. Yfir hann er hvelfing, svo er bás, og þá er komið að Hjallbás, þar sem garðurinn liggur fram. Þá er eins og há nípa fram, sem heitir Hrafnahreiður. Það er í höfninni. Norðan við Nástrandargróf er hluti af Hólmsbergi, og þar á merkjum er Hellunef innan við Helguvík. Svo er þar uppi i heiðinni Rósuselstjarnir og Keflavíkurborg.’’ (SÁM, Keflavík, Ari Gíslason).

Hvalsnes og Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Bæirnir Hvalsnes og Stafnes standa í Suðurnesjabæ, sameiginlegu bæjarfélagi Garðs og Sandgerðis. Þessir tvö bæjarfélög sameinuðust undir einn hatt 2018 og tóku upp hið nýja nafn 7. janúar 2019 (Mbl.is, Heitir nú formlega Suðurnesjabær). Hvalsnes er og hefur verið kirkjujörð lengi en heyrir núna undir Útskálaprestakalli. Stafnes er í dag kölluð Stafnestorfan, en jörðinni var skipt upp í nokkrar jarðir. Í landamerkjaskrá fyrir Hvalsnes og Stafnes á Miðnesi segir: ‘’fra miosynde firi nordan tvnid aa starnesi ok til hlavp oss firi nordann vog: aa starnes vid hvalsnes þridivng j ollvm rekvm ok veidvm vtann storreka j hval. þat aa starnes firi avllv landi sínv. Hvallsnes aa j starnes land aa mela vt tveggía manada beit aa vor: Sambeit aa millvm garda firi nordan avgmvndar gerdi: Enn lyngrifa mork skilvr gata sv er liggur firi svnnann torfmýrar ok vp i hafa leiti til vordv þeirrar er standur aa letinv þar sem hæst er ok vo sydur sem hæst er leitid til motz vid kirkiv vog og niardvík. ok divpa vog. enn reka mork millvm divpa ogs ok starnes ok hvallsnes skilr grof sv er verdvr firi innann klettana til hægri handar er ridit er fra kirkiv vogi.’’ (DI II, bls. 81).

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefnin eru öll þekkt eða í nýtingu í dag. Þar á meðal Torfmýar og Ögmundargerði, lítill grasblettur í landi Stafness (Magnús Þórarinsson, 1960, bls. 150). Ekki er vitað hver þessi Ögmundur var sem bletturinn er nefndur eftir (SÁM, Stafnes, Halldóra Ingibjörnsdóttir) en fornbréfaskráin þar sem nafnið kemur fyrir er dagsett um 1270. Torfmýrin var þekkt sem örnefni þegar skráin fyrir Stafnes var tekin (Ari Gíslason) en svæðið var ekki lengur í eign Stafness. Ekki eru miklar frekari upplýsingar um þessar jarðir í DI. Þær koma aðeins fyrir í öðrum skjölum en ekki eru frekari umræður um jarðirnar sjálfar heldur einungis skiptingu nytja þeirra og annarra jarða á Reykjanesinu (DI II, bls. 76). Þar eru þær einungis nefndar með nafni en frekari skráning örnefna er ekki að finna.
Nafnið hefur því haldist í nýtingu í gegnum tíðina án efa vegna stöðu þess sem landamerki en þegar flugvöllurinn var reistur á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar fékk hlutverk hans á svæðinu forgang.

Gufuskálar, Nýlenda, Akurhús og Lónshús

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Gufuskálar koma fyrst fyrir í Landnámu. Þar er talað um mann sem er kallaður Ketill gufa. Í heimildinni segir ‘’Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann hinn fyrsta vetr að Gufuskálum, en um várit fór hann inn á Nes og sat at Gufunesi annan vetur.’’ (Landnáma, 1, bls. 167). Og seinna, ‘’Ketill fekk engan bústað á Nesjum, ok fór hann inn í Borgarfjord at leita sér at bústað ok sat hinn þriðja vetr á Gufuskálum við Gufá. Hinn fjórða vetr var hann á Snjófjallanesi at Gufuskálum’’ (Landnáma, 1, bls. 167) og en seinna ‘’Ketill gufa nam Gufufjord ok Skálanes til Kollafjarðar.’’ (Landnáma, 1, bls. 169). Gufuskálar á Romshvalanesi, það sem í dag er Suðurnesjabær í Gullbringusýslu, og Gufuskálar á Snæfellsnesi draga því báðir nafn sitt af sama manninum ásamt Gufunesi á höfuðborgarsvæðinu og Gufuá í Borgarbyggð.

Sjálfkvíar

Sjálfkvíar.

Gufuskálar eru í eyði í dag en þó má finna tvö landamerki sem hafa lifað af til nútímans.
Í rekaskjali Rosmhvalanes má finna ‘’og vt at gnvpe þeim er verdvr fyýrer innann sialfkviar; [sionhending rædvr þadann vr henni ok vt j tyslinga stein. Gvfuskaler eigv þadamm vt til midvardar os: Þa eigv Midhvs vt til býrdinga skers j vtskala oss.’’ (DI II, bls. 76).

Þrívörður

Þrívörður.

Sjálfkvíar og Þyrsklingasteinar eins og þeir eru skrifaðir í dag, tilheyra landi Gufuskála. Landið náði áður upp í Þrívörðurnar sem standa sunnan við Rockwill en hefur án efa smækkað töluvert við komu hersins. (SÁM, Gufuskálar, Símon Guðmundsson). Midvardar eru í dag Miðvör og Miðhús standa enn. (SÁM, Nýlenda, Akurhús, Lónshús, Ari Gíslason).
Ekki kemur nafnið Byrdinga sker neins staðar fyrir í nútíma skrám og ekki er víst hvort það hafi fengið nýtt nafn, eða að það hafi horfið vegna ágang sjávar.

Sandgerði, Garður og Hafnir

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort.

Miðnesið er nes sem gengur norður úr Reykjanesinu og var áður kallað Rosmhvalanes. Rosmhvalur er gamalt heiti yfir Rostung og bendir það til að þar hafi verið rostungabygð en skjaldarmerki Sandgerðis ber þess vegna rostung. Nesið nær frá Ytri-Njarðvík og allt vestur að Kirkjuvogi (Höfnum). Samkvæmt Landnámu á Steinunn Gamla, frænka Ingólfs Arnarsonar að hafa numið allt Rosmhvalanesið.
‘’Steinuðr en gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.‘’ (Landnáma, 2, bls. , 302).

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Frekari heimildir eru fyrir landnámi í Höfnunum og í Landnámu segir ‘’Þeim Herjólfi gar Ingolfr land á milli Vágs ok Reykjaness’’ (Landnáma, bók 2, bls. 393).
Forn landamerki fyrir nesið er sögð vera ‘’lína sú, sem dregin er frá Hunangshellu í Ósabotnum í Háleitisþúfu á Hafnarheiði og frá Háaleitisþúfu til Dungsgrófar í Keflavík.’’ (Gunnar M. Magnússon, 1963, bls. 10) (feirletrun mín).
Til er eldra skjal, dagsett um 1200 sem telur kirkjur í Skálholtsumdæmi (DI XII, bls. 1). Þar er verið að ræða um kirkjur sem þurfa á prestum að halda og má því sjá að þær sem koma fyrir eru ekki hálfkirkjur eða eigna litlar. Þar telur meðal annars telur kirkju í Njarðvík (DI XII, bls. 4).

Grindavík og Vogar

Grindavík

Grindavík – bæjarmerki.

Byggð í Grindavík kemur fyrir í Landnámu, en þar segir ‘’En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.’’ (Landnáma, bók 2, bls. 330). Moldar-Gnúpur er sagður hafa upprunalega hafa sest að á Álftaveri en flúið undan eldgosi (Landnáma, bók 2, bls. 331) og settust hann og synir hans að á landsvæði sem náði frá Selatöngum allt fram á Reykjanesið, það sem er nú Grindarvíkursvæðið. Þessir jarðeldar sem talað er um, er allra líklegast eldgosið sem kom upp í Eldgjá í kringum 934 (Björn Þorsteinsson, 1983, bls. 28).
Ekki er vitað hvernig byggð þróaðist eftir það fyrr en á 13. öld, þegar fyrsta dagsetta heimildin fyrir búsetu á svæðinu kemur fram. Þar höfum við elstu staðfestu heimildina á nafninu Grindavík og jörðinni sem því fylgir.

Staður

Staður fyrrum – fyrsti kirkjustaður í Grindavíkursókn.

Sú heimild kemur úr kirkjuskrá er gerð var í tíð Páls biskups Jónssonar, sögð vera skráð um 1200 (DI XII, bls. 9). Þar er listi yfir kirkjur sem þurfa presta þjónustu, það er, ekki hálfkirkja. Þar má sjá að komin var næg byggð í Grindavíkinni til að hafa kirkju sem er nógu stór til að þurfa prest og fulla prestþjónustu.
En hvernig þróuðust síðan byggðir á þessu svæði eftir að Molda-Gnúpur og hans fólk settust að? Jón Þ. Þór leggur fram áhugaverða pælingu. Hann bendir á að í Landnámu, er talað um Moldar-Gnúp og fjóra syni hans sem setjast að á svæðinu. Einungis er talað um konu eins bróðurins, Hafur-Björns (Landnáma, 2, bls. 332).

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina. Þórkötlustaðir í bakgrunni.

Hann vísar í þjóðsögu um stofnun Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Hún hermir að þessar jarðir hafi byggt Járngerður og Þórkatla og veltir hann fyrir sér hvort um sé að ræða tengdadætur Moldar-Gnúps. Þjóðsögur eru ekki endilega bestu heimildirnar en þó eru dæmi um að munnlega geymd hefur sinn sess í að viðhalda þekkingu kynslóð eftir kynslóð (Jón Þ. Þór, 1994, bls. 80).
Tvær DI skrár eru til fyrir landamerki í Grindavík. Þar koma fyrir bæirnir Grindavík, Járngerðarstaðir, Þórkötlustaðir og Vogar, í formi rekaskrár fyrir Skálholt. Þetta eru tvær útgáfur, nokkuð líkar en ekki alveg eins. Önnur (A) tekur einungis fyrir rekann nyrðra og eystra en hin skráin (B), tekur fyrir reka á Eyrum og Grindavík. Höfundur DI II bendir á að málfarið er eitthvað yngra en á skjali A, en er þó full marktægt.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól frá Vatnsleysustrandarbæjum.

Landamerkin fyrir jarðirnar Voga á Vatnsleysuströnd og Grindavíkur kemur fyrir í skjali B og segir þar: ‘’Somuleidis voru þesse landamerki hofd og halldin millum voga a strond, og Grindarvijkur meir enn vppa xxx vetur akallslaust. So eg vissa, ad vogar ætti ecki leingra enn nedan frä ad kalfsfelle, og vpp ad vatnzkottlum fyrir jnnan fagradal. og vpp ad klettnum. þeim sem stendur vip skögfell. hid nedra. vid gỏtuna. enn þorkotlustader og Jarngerdarstadir ættu ofan ad greindum takmörkum.’’ (DI II, 76).
Þessi útgáfa er frá um kringum 1600 (DI II, bls. 72) og er sögð vera afrit af eldra skjali.
Jón Sigurðsson telur fyrir hæstarétti þann 5. október 1876, að skráin myndi vera frá tíð Árna biskups Þorlákssonar eða frá um 1270 (Di II, bls. 67).
VatnskatlarHér er gengið út frá að þessi eldri dagsetning sé rétt. Ef sú dagsetning er rétt, (þ.e. frá 1270) þá eru landamerkin frá um 1240 hið minnsta þar sem “XXX” í skjalinu stendur fyrir 30 í rómverskum tölum.
Aftur kemur landamerkjaskrá fyrir jarðirnar í skjali sem dagsett er um 1500. Sú skrá er nánast orðrétt þeirri hér fyrir ofan og því auðsýnilegt að um uppskrif sé um að ræða en ekki sjálfstæða skrá um sama efni. Skráin er eignuð tíð Stefáns Jónssonar Biskups í Skálholti en hann tók við titlinum 1491 og sinnti biskupsdómnum fram til andláts 1518. Þar segir: ‘’Ur mȁldaga sem skrifadur var i tijd Byskups Stephanar. Voru þesse landamerke hỏfd og halldin i millum voga ȁ strỏnd og grindavijkurmanna meir enn upp ȁ 30 vetur ȁkallslaust. Ad vogar ætte ecke leingra enn nedan fra ad Kȁlfsfelle og upp ad vatnskỏtlum fyrer innan fagradal og upp ad klettum þeim sem stendur vip Skỏgfell hid nedra vid gỏtuna enn Þorkỏtlustader og Jarngerdarstadir ættu ofan ad þessum takmörkum.’’ (DI VII, bls. 457-458). ‘’

Arnarklettur

Arnarklettur – landamerki Voga og Grindavíkur.

Hvort 1600 uppskrifin sé ritinuð úr 1500 skjalinu eða hvort þau séu bæði rituð upp úr 1270 skjalinu skal ekki sagt, en eitt er víst að upplýsingarnar koma úr sömu átt. Því virðist vera komin góð byggð þarna og jarðirnar það stórar að þær nái upp að landamerkjum við Voga. Jarðirnar Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir eru flokkaðar undir ‘’Grindarvíkur’’, þó sjálfstæðar séu en bendir þetta til að þeir heyra undir sömu heild. Jón þ Þór dregur þar inn það sem hann kallar Hverfin þrjú, það er, uppbygging Grindavíkur í formi hjáleigna út frá lögbýlum. Hann bendir á að svona hverfi eru ekki einsdæmi en vitað er um svipuð dæmi á meðal ananrs við Faxaflóa.(Jón Þ. Þór, 1994, bls. 81-82). Jarðirnar Ás, Belgsstaðaholt, Fiskilækur og Melar í Borgafjarðarsýslu eru gott dæmi um slíkt hverfi en þar má finna fjórar jarðir sem halda nánast óbreytt landamerki ( DI I, 271-272, SÁM, Belgsholt, Ari Gíslason, Fiskilækur).
Ekki er meir skrifað um landamerki þessara jarða fyrr en kemur fram á lok 19. aldar. Í landamerkja skjali sem dagsett er 16. Júní 1890 má finna þessi örnefni aftur, ‘’frá kletti þeim, er stendur við götuna, norðan við Skógfell hið neðra (Litla Skógfell) al Kálffelli, og þaðan að Vatnskötlum.’’ (LAN, Veðmálabók I, bls. 225). Þessi landamerki sem feitletruð eru, má finna í skrám Hrauns og Þórkötlustaða í dag á móts við Voga.

Skógfellavegur

Þórkötlustaðir – „Kletturinn við götuna“; landamerki millum Litla-Skógfells og Kálffells.

Þær skrár eru töluvert meiri um sig enda eru þar ekki bara að finna landamerki heldur öll örnefni á jörðunum. Með því að bera saman þessi skjöl má sjá að af þeim landamerkjum sem koma fyrir eru þau öll til í dag. Kȁlfsfelle heitir í dag Kálffell og kemur fyrir í örnefnaskrám Hrauns og Þórkötlustaða. Það gegnir hlutverki landamerkis og segir þar ‘’Þaðan til vesturs sunnanvert við Keili um Vatnskatla og í Kálffell, sem er lágt og frekar lítið áberandi fell.’’ (SÁM, Hraun, Ari Gíslason). Í þessum bút kemur einnig fyrir Vatnskatlarnir og hið sama gerir í örnefnaskrá Voga ‘’Austur af holtinu er svo Kálffell. Norðanvert við Litla-Skógfell er klettur, frá Kálffelli er svo línan í svonefnda Vatnskatla (SÁM, Vogar, Ari Gíslason, bls. 7).

Skógfellastígur

LM-merki á Stóra-Steini við Skógfellastíg, 1.5 km norðan við Litla-Skógfell.

Vegurinn sem um ræðir er líklegast Skógarfellsvegur en hann situr norður við Litla-Skógfell. Kletturinn sem um ræðir í skjölunum gæti verið Stóra-Skógfell en það stendur vestan við Skógfellsveginn (SÁM, Þorkötlustaðir, Ari Gíslason, Vogar, Ari Gíslason).
Elstu staðfestu heimildirnar eru því frá um 1240 og þær yngstu frá árunum 1940-1965, þegar Ari var að skrá. Þarna höfum við um 700 ára millibil, milli elstu og yngstu skránna en ljóst er að landamerkin eru ekki einungis þau sömu, heldur hafa nöfnin haldið sér mjög vel.
Þar sem Vogar og Grindavík ná saman bæði í fornskjölum sem og í dag er vert að taka Voga fyrir hér sem framhald af skrám Grindavíkur.
Áhugavert er að sjá hversu vel þessar jarðir hafa haldið sér og hversu lítið rask virðist hafa verið á landamerkjunum. Þau hafa haldið sér og sitja í dag á sýslumörkum milli Grindavíkur og Voga.

Kolbeinsvarða

Kolbeinsvarða – landamerkjavarða ofan Innri-Skoru.

Skjal er til fyrir landamerki Stór Voga í Vatnsleysuströnd. Það fer dýpra í landamerki Voga en fyrri skrá fyrir Voga og Grindavík. Það er dagsett 9. júlí 1496 og fjallar um gjöf Guðmundar Magnússonar til Viðeyjarklausturs á hálfri jörð Stærri voga. Vogar á Vatnsleysuströnd voru áður þekktir sem Stóru-Vogar og Minni-Vogar og voru tvær aðskildar jarðir. Þeir skiptust síðan í mörg minni smábýli og hjáleigur (SÁM, Vogar, Ari Gíslason). Í skjalinu segir ‘’Sagdi hann oc jiakalavsa jordina oc þessi landamerki at merkigardinvm æ mille Minne voga er gengr vpp fyrir nordan gardinn oc ofan j tjornena oc vr tiornvnni oc ofan at sjonvm oc vt at vppgongvnni j Kolbeinsskor med sionvm.’’ (DI VII, bls. 299).
Eins og var bent á í kaflanum fyrir Njarðvíkurnar þá er varða í dag á merkjunum Reykjanes og Voga, rétt fyrir ofan Innri-Skoru sem heitir Kolbeinsvarða. [Enn markar fyrir vörðunni.]

Heimild:
-Ritgerð til BA-prófs, Bryndís Súsanna Þórhallsdóttir, „Munað og gleymt – Varðveisla landamerkja á Reykjanesi“, 2021, bls. 6-16.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Hans Erik Minor 1788.