Gullkollur
Gróður á Reykjanesskaganum er að mörgu leyti líkur gróðri annars staðar á landinu. Af öllum plöntum á landinu má finna á honum rúmlega 60% af þeim. Gamburmosinn er einkennisplantan, enda víða nýlega hraun. Ferskvatnstjarnir í bland við saltan sjóinn er og meðal einkenna svæðisins.
Valllendi er víða. Allir þekkja grundir, þurra bala, brekkur og ræktuð tún, sem er að finna hvarvetna á skaganum. Á þessum stöðum eru grastegundir mest áberandi og setja sterkan svip á landið.
Fjara nefnist svæðið þar sem láð og lögur mætast. Breidd fjörunnar er mjög mismunandi og fer eftir staðháttum, aðallega þó halla lands. Við klettótta strönd er breiddin nær engin en við árósa og í grunnum víkum getur hún orðið nokkuð löng. Neðri mörk fjörunnar eru oft miðuð við mestu stórstraumsfjöru og efri mörkin við hæsta stórstraumsflóð, en einnig er hægt að fara eftir útbreiðslu ákveðinna lífvera. Fjara er mjög sérstætt búsvæði. Það stafar einkum af því að flestar lífverur eru ýmist á kafi í sjó eða á þurru eftir því hvernig sjávarföllum er háttað. Í annan stað hefur öldurót mikil áhrif á lífverurnar. Þar sem er mjög brimasamt og undirlagið óstöðugt ná engar lífverur fótfestu, eins og víða við suðurströnd landsins.
Þær plöntur sem eru einskorðaðar við fjöru eru aðallega þörungar en efst í henni eru líka nokkrar eiginlegar fjörutegundir eins og hin svarta fjöruskóf, sem er fléttutegund, og grastegundin sjávarfitjungur. Þá er að geta þess að allmargar landplöntur vaxa eingöngu við efstu fjörumörk og ná oft talsvert niður í fjöru. Af þeim má nefna blálilju, hrímblöðku, skarfakál, fjöruarfa og fjörukál, sem allar hafa tiltölulega þykk og safamikil, blágræn blöð. Þessar tegundir þola háan saltstyrk og á stundum stirnir á saltkrystalla í blöðum þeirra.
Því ofar sem dregur við strönd bætast sífellt fleiri tegundir í hóp strandplantna. Oft ber þar mikið á baldursbrá, tágamuru, kattartungu, holurt og geldingahnappi auk ýmissa grastegunda, einkum melgresi, ef sandur er laus í sér.
Víða flæðir sjór yfir annað votlendi og þá myndast mjög sérstakt gróðurlendi, svo kallaðar sjávarfitjar. Langmest ber á grasleitum tegundum á þessum svæðum, grösum og hálfgrösum (einkum störum), en þó leynast smáar og fagrar jurtir inni á milli, eins og stjörnuarfi, strandsauðlaukur, kattartunga og sandlæðingur.
Til eru ýmsar gerðir af valllendi. Séu grastegundir nær einvörðungu drottnandi í svip landsins kallast það graslendi. Aðrar blómplöntur, eins og fíflar, brennisóley, hvítsmári og gulmaðra, vaxa jafnan inni á milli grasanna, ef vel er að gáð, einkum ef örlítil rekja er í rót eða landið smáþýft.
Stundum eru aðrar blómplöntur miklu meira áberandi í valllendinu til að sjá en grösin og þá kallast það blómlendi eða jurtastóð. Blómlendið er sjaldnast mjög víðáttumikið en er einkum neðst í brekkum, meðfram ám og lækjum eða í lautadrögum. Víða þar sem valllendi er hefur það orðið til úr mólendi við það að vera beitt. Hinar ýmsu gerðir af valllendi voru oft nýttar til slægna fyrr á öldum og síðar var farið að rækta þar tún.
Ekki er til neinn algildur mælikvarði á hvað kalla skal votlendi. Flestum er þó tamt að nota það orð um gróður, þar sem jarðvegur er blautur nær árið um kring, en sumir nota það einnig um tjarnir, læki og vötn. Oft er erfitt að draga þarna skýr mörk á milli.
Algengustu gerðir votlendis eru flói og mýri. Vatnsstaða í votlendi er ærið breytileg en í megindráttum eru skilin á milli flóa og mýrar þessi: Í flóanum flýtur vatn oftast yfir grassverðinum, hann er nær hallalaus og rennsli á vatni er lítið sem ekkert. Í mýrinni stendur vatn sjaldnast yfir grassverðinum, henni hallar oftast nær og vatnið er jafnan á hægri hreyfingu; að jafnaði ber talsvert á þéttum mosa í rót. Af þessu sést að oft getur verið skammt á milli tjarnar og flóa annars vegar og mýrar og þurrlendis hins vegar.
Flóar eru víðáttumiklir, bæði á láglendi og í hálendinu. Brokflói er afar útbreiddur og einkennistegund hans er klófífa en blöð hennar nefnast brok. Síðla sumars er brokflói hvítur yfir að líta, þegar fífan er í algleymingi, en á haustin setur rauðbrúnt brokið sterkan svip á hann. Ýmsar starir eru einnig mjög algengar í flóum. Ljósustararflói kemur næst brokflóa að víðáttu og er allalgengur víða um land og er hann blágrænn til að sjá. Einnig má nefna gulstararflóa, er sker sig úr sem gulgrænar rákir, sem er víða algengur á láglendi. Þessar þrjár af gerðir flóum er mjög auðvelt að greina úr fjarlægð á litnum einum saman.
Mýrar er hvarvetna að finna, frá ystu annesjum til hæstu hæða, þar sem samfelldur gróður nær. Einkennistegundir mýrarinnar eru ýmsar starir, eins og mýrarstör, stinnastör og hengistör. Mýrar eru oft þýfðar og vaxa ýmsar lyngtegundir á þúfnakollum.
Fyrr á árum var víða heyjað í votlendi.
Á eftirstríðsárum heimsstyrjaldarinnar síðari hófst verulegt átak í því að ræsa fram votlendi til að auðvelda ræktun túna. Það leiddi til þess að víðlend votlendi voru eyðilögð. Því hefur nú verið hætt og jafnvel hefur verið reynt að endurheimta það votlendi sem tapaðist með því að fylla upp í skurði.
Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.
Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis.
Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.
Ein algengasta planta landsins er af hálfgrasaætt og nefnist þursaskegg. Hver planta lætur mjög lítið yfir sér og fáir þekkja hana en samfelldar breiður þursaskeggs varpa sérstökum móleitum blæ á óræktarmóa vítt um land.
Auk þursaskeggsmós eru lyngmóar allalgengir. Flestar einkennistegundir mólendisins eru mjög auðþekktar og dregur mólendið oftast nafn sitt af þeim. Algengustu lyngmóarnir eru krækilyngs-, bláberjalyngs-, sortulyngs- og beitilyngsmór. Oft vaxa þessar tegundir saman að meira eða minna leyti.
Af öðrum gerðum mólendis má nefna fjalldrapamó, hrísmó öðru nafni, og sauðamergsmó.
Vel gróið mólendi þykir með fegurstu gróðurlendum landins og sérstaklega síðla sumars og fram eftir hausti skartar mórinn sínum fallegustu litum.
Mólendi er jafnan mjög ríkt af tegundum en á stundum hleypur svo mikill mosi í svörðinn að blómplöntur láta undan síga. Þá nefnist gróðurlendið mosamór og líkist hann þá mosaþembu sem algeng er í hraunum. Mosaþemba er þó sjaldnast talin til mólendis heldur litið á hana sem sérstakt gróðurlendi.
Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.
Á bersvæði mynda plöntur sjaldnast samfellda gróðurþekju heldur vaxa þær jafnan strjált. Á melum ræðst þéttleiki plantna einkum af hversu rakaheldnir melarnir eru og hvernig yfirborðsgerð þeirra er háttað. Á vorin eru miklar hreyfingar í yfirborði melanna, þegar klaki fer úr jörð, og þá er hætta á að plöntur missi rótfestuna.
Af algengum melaplöntum má nefna geldingahnapp, lambagras og holurt eða fálkapung öðru nafni. Á síðari árum hefur innflutt plöntutegund, alaskalúpína, náð að breiðast verulega út á melum, einkum á Reykjanesskaganum.
Lítinn vind þarf til þess að hreyfa við yfirborði sanda. Plöntum reynist því talsvert erfitt að festa þar rætur. Sumar tegundir eiga þó auðveldara en aðrar með að vaxa þar. Dæmi um slíka tegund er melgresi eða melur. Nokkurt skjól myndast í vari af stórvöxnum blöðum melgresis og því safnast sandur þar fyrir og háir hólar myndast. Ávallt er þó nokkur hreyfing á sandinum svo að melgresishólarnir flytjast úr stað með tímanum.
Nokkuð hefur verið gert af því að rækta upp mela og sanda á undanförnum áratugum. Sums staðar hefur sú uppgræðsla lánast allvel en ekki gengið sem skyldi annars staðar.
Ekki eru skörp mörk á milli gróðurs á láglendi og í hálendi landsins. Samfelldur gróður nær vart hærra en í tæpa 500 metra.
Þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori þekur snjómosi svörð og myndar harða skorpu.
Fjallað er um gróðureyðingu á öðrum stað á vefsíðunni.

Heimildir m.a.:
-http://www1.nams.is/

Sóley

Sóley við Miðsel.