Garðaflatir

Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á.

Garðaflatir

FERLIRsfélagar ofan við tóft á Garðaflötum.

Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, en þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést þar til skamms tíma”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá, í Helgadal, Kaldárseli og í Selgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.

Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi skráð fund eða haft orð á hvar tóftir kynnu þar að leynast.

Garðaflatir

Garðaflatir – hluti af minjunum.

FERLIR var nýlega á ferð á Garðaflötum. Með framangreinda sögu að leiðarljósi var ákveðið að leita svæðið og kanna hvort þar væru einhverjar minjar að finna. Vetrarsólin var lágt á lofti þótt um miðjan dag væri. Við leit fundust a.m.k. fimm tóttir, þar af ein mjög stór, sem og garður umleikis. Stærsta tófin er syðst, norðan hennar virðist vera gerði og garður út frá því. Innar eru minni tóftir.
Fundurinn gefur sögunni byr undir báða vængi. Nú þarf bara að kanna svæðið betur og aldursgreina minjarnar.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.