Tyrkjaránið II
Fimm skip frá Algeirs komu hingað til lands sumarið 1627.
Tilgangur áhafnarinnar var að ræna verðmætum og hneppa fólk í þrældóm. Skipin urðu viðskila sunnan við land vegna veðurs. Tvö fóru til Grindavíkur þar sem um 20 manns var hertekinn, þar af nokkrir Danir, og tvö fóru til Austfjarða þar sem rúmlega hundrað manns var tekinn höndum og færður um borð í skipin. Þau skip mættu því þriðja sunnan við landið og saman héldu þau til Vestmannaeyja. Þar voru langflestir teknir höndum, drepnir eða særðir. Hér á eftir er frásögn af atburðunum í Eyjum og í Djúpavogi, en þær lýsa vel því sem gerðist og hvernig viðbrögðin voru við svo óvæntri árás á annars friðsæl samfélög.
Þrjú skip stefndu undir Eyjar. Vindur var ekki hagstæður. Uggur og ótti greip fólk í Vestmannaeyjum, þegar sást til skipanna, enda höfðu Vestmannaeyingar frétt af ránum í Grindavík og víðar um landið. Höfðu Eyjamenn haldið uppi vöku og haft nákvæmar gætur á öllum skipum, er sást til af hafi. Öllum vopnfærum mönnum var safnað saman niður að Dönsku húsunum. Þar voru fallbyssur til staðar, en einnig voru mönnum fengnar byssur og önnur tiltæk vopn. Átti þannig að verja ræningjunum aðgang að höfninni.
Á sjónum undan Eyjafjöllum höfðu ræningjaskipin hitt enska duggu, er þar var að fiska. Tóku ræningjarnir þar 9 menn, sem þeir lofuðu að sleppa aftur, ef þeir ensku vísuðu þeim til hafnar í Vestmannaeyjum. Einn þessara 9 manna af ensku duggunni réð ræningjunum frá því að halda inn höfnina og vísaði þeim á aðra uppgöngu sunnan til á eynni. Varð því úr, að skipin sigldu frá höfninni, suður með Heimaey og hurfu bak við Helgafell.
Þegar skipin voru horfin bak við Helgafell, reið kaupmaðurinn í þorpinu, Lauritz Bagge, sem virðist hafa haft aðalforystuna á hendi, með nokkra menn suður á eyju til þess að fylgjast með ferð skipanna. Í Stakkabótinni sá hann, að settir voru út bátar frá þeim fullmannaðir og taldi, að hægt yrði að verjast ræningjunum þarna. Sendi hann því boð til skipstjóra á dönsku kaupskipi, sem lá hér í höfninni, að menn kæmu fjölmennir suðureftir með vopn.
Ræningjarnir sáu strax að uppganga þar yrði erfið, og hurfu frá. Reru þeir bátum sínum suður fyrir Litla-Höfða með Svörtuloftum og lentu við tanga suður af Brimurð, sem síðan heitir Ræningjatangi. Kaupmaðurinn danski sá nú, að ekkert yrði gert á móti svo fjölmennu liði vopnaðra manna og sneri aftur í bæinn ásamt mönnum sínum. Á leiðinni niður í bæ mætti hann skipstjóranum, og saman riðu þeir nú eins hratt og þeir gátu niður í þorpið. Skipstjóri fór út í skip sitt, boraði gat á það, og hjó á festar þess svo að það ræki upp eða sykki. Síðan fór hann í árabát með fjölskyldu sína og náði að komast upp á meginlandið. Kaupmaðurinn og hans fólk komust einnig sömu leið til lands, en ekki er vitað til þess að fleiri hafi bjargast með þessu móti.
Af ræningjunum er það að segja, að þeir fóru í þrem hópum í kaupstaðinn. Austasti hópurinn kom með miklum óhljóðum austan við Helgafell og réðst á Kirkjubæina og Vilborgarstaði. Miðhópurinn stefndi beint að höfninni. Vestasti hópurinn lagði svo til atlögu við bæina umhverfis Ofanleiti. Á efstu bæjunum hefur fólkið orðið verst úti, þar sem ræningjana bar svo fljótt að og óvænt. Neðst í bænum komst fólkið fremur undan og leitaði skjóls í hellum og gjótum. Hvar sem ræningjarnir fundu fólk á vegi sínum, tóku þeir það og bundu og ráku á undan sér niður í þorpið. Sama gilti jafnvel líka um búpening, sem á vegi þeirra varð. Þeir, sem komust ekki nógu hratt, voru höggnir í sundur og drepnir.
Ræningjarnir gáfu sér tíma. Þeir voru í Eyjum í þrjá daga, gengu fjöllin og leituðu hella og skúta, svo að enginn kæmist undan. Þeir klifruðu upp á syllurnar í Fiskhellum og tóku þaðan nokkrar konur og börn, sem leitað höfðu skjóls í fiskbyrgjunum. Enn má sjá nokkur þessara byrgja utan í klettaveggnum, þar sem fiskur er geymdur.
Prestinn á Kirkjubæ, séra Jón Þorsteinsson, fundu ræningjarnir í helli einum austur af Kirkjubæjum, en þar hafði hann falið sig ásamt fólki sínu, og drápu ræningjarnir hann. Margrét, kona Jóns, var hrakin ásamt dóttur og syni í átt til hafnarinnar.
Marga drápu ræningjarnir af hreinni morðfíkn og limlestu líkin. Erlendi nokkrum Runólfssyni stilltu þeir upp fram á bjargbrún og skutu hann niður, svo hann féll um hundrað faðma. Þá fundu ræningjarnir mann að nafni Ásmund, þar sem hann lá á sóttarsæng. Hann stungu þeir í sundur, svo að sæng hans varð rauð af blóði. Bjarna nokkurn Valdason hjuggu þeir þvert yfir höfuðið fyrir ofan augun. Konur fundust dauðar við sínar bæjardyr, sumar stungnar með spjótum, aðrar höggnar, svo svívirðilega við skilið, að fötunum var flett upp fyrir hnakkann og þær naktar. Tvær konur voru með börn, og urðu þær seinfærar, en börnin æptu mjög. Þau tóku ræningjarnir og hálsbrutu og mölvuðu í hvert bein við kletta og köstuðu síðan út á sjó.
Landakirkju brenndu ræningjarnir eftir að hafa rænt skrúða hennar og öðru fémætu, sem kirkjan hafði eignast eftir fyrra ránið 1614. Kirkjuklukkunum mun hins vegar hafa verið komið undan í fylgsni í fjallaskúta, og er önnur enn í fullri notkun í Landakirkju. Þá fluttu ræningjar prestshjónin, séra Ólaf Egilsson og konu hans, ásamt börnum og öðru heimilisfólki niður að Dönskuhúsum, sem stóðu á Skansinum. Var prestskonan þunguð og nær komin að falli, en samt var henni ekki hlíft. Fæddi hún barn sitt um borð í ræningjaskipinu á 11. degi eftir brottförina frá Eyjum.
Í Dönskuhúsunum á Skansinum geymdu ræningjarnir fólkið og héldu því þar, uns það var flutt út í skip. Höfðu skipin leitað inn á höfnina og lagst þar, þegar ekki þurfti að óttast neitt viðnám heimamanna lengur. Var fólkinu síðan smalað úr húsunum og látið róa út í skipin, en þar hitti það fyrir fleiri Íslendinga, sem ræningjarnir höfðu komist yfir.
Á miðvikudagskvöld, þann 18. júlí voru allir komnir út í skipin nema nokkuð af gömlu fólki, sem ræningjunum fannst ekki þess virði að flytja með sér til að selja mansali. Þetta fólk skildu þeir eftir inni í húsunum og kveiktu í. Frá þessu sagði piltur einn er komst af með þeim hætti, að hann skreið eftir gólfinu í mannþrönginni og komst út um leynidyr, sem ekki hafði verið læst.
Um miðjan morgun, fimmtudaginn 19. júlí voru ræningjarnir tilbúnir. Sigldu þeir á braut með herfang sitt í öllum skipunum, ásamt danska kaupfarinu, sem ekki hafði sokkið eins og ráðgert var. Setti nú mikinn harm og kvein að fólkinu, er það sá eyjarnar og landið hverfa sýnum.
Flestum ber saman um, að hernumdar hafi verið í Eyjum 242 manneskjur í þessu ráni. Rúmlega 30 munu ræningjarnir hafa drepið og líklega hafa um 200 manna komist undan hér í Tyrkjaráninu. Frásagnir eru til af nokkrum mönnum, sem komust undan í Ofanleitishamar, sem ræningjunum hefur ekki litist á að klífa, enda er hann víða snarbrattur. Þá bjargaðist nokkuð af fólki ofarlega í Fiskhellum, en þar er sums staðar ókleift og fólkið því orðið að síga þangað niður. Er sagt, að pils sumra kvennanna, sem björguðust, hafi lafað fram af berginu og hafi 18 kúlugöt verið á pilsi einnar konunnar eftir skothríð Tyrkjanna.
Til Austfjarða komu Tyrkir miðvikudagurinn 4. júní, sem þeir taka land við Hvalnes. Fóru þeir ómildum höndum um eigur fólksins á Hvalnesi, sem allt var statt í seli meðan ræningjarnir létu greipar sópa, en þeir fundu ekki fólkið og héldu því ferð sinni áfram austur á bóginn á tveimur skipum.
Um aftureldingu á föstudagsmorgun sáust skipin við Papey. Var þá hið hagstæðasta leiði inn á Djúpavog og veður svo háttað, að bjart var hið neðra, en þoka miðhlíðis. Sigldu skipin hraðbyri inn í mynni Berufjarðar. Á þessari leið urðu þeir varir við danskan bát úr Djúpavogskaupstað, er lá við línur sínar og voru þar á fjórir menn. Þennan bát hremmdu þeir óðar með allri áhöfn og héldu síðan inn fjörðinn þar til þeir komu á móts við Berunes. Þar vörpuðu þeir akkerum.
Var þá sól um það bil að rísa. Jafnskjótt og akkeri voru botnföst, voru þrír bátar mannaðir.
Réru víkingar sem mest þeir máttu suður yfir fjörðinn að kaupstaðnum í Djúpavogi, gegnt Berunesi. Þar var fyrir danskt kaupskip, er komið hafði til hafnar fyrir nokkru, og voru skipverjar í fasta svefni svo árla morguns. Einn bátanna lagðist samstundis að skipinu og vissu þeir, sem á því voru, ekki fyrr til en víkingarnir ruddust inn á þá með alvæpni. Fengu þeir engum vörnum við komið og voru í bönd reyrðir, áður en þeir áttuðu sig á því, hvað á seyði var. Hinir bátarnir tveir renndu hljóðlega upp í flæðarmálið, annar sunnan hafnarinnar, en hinn norðan. Hlupu víkingarnir á land upp sem fætur toguðu og umkringdu kaupmannshúsin og búðirnar, svo að engum, sem þar var inni, skyldi auðnast að komast undan á flótta; -flykktust síðan viðstöðulaust inn með brugðna branda. Hér fór sem úti á skipinu. Fólkið, sem vaknaði við þessa atburði af værum blundi, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og var hver gripinn, þar sem hann var kominn, sumir naktir í rekkjum sínum, aðrir á hlaupum um húsin. Var allt fólkið fært í fjötra á svipstundu, dregið niður í fjöru og flutt á tveimur bátum út í víkingaskipin. Voru þeir fimmtán, sem fangaðir voru á Djúpavogi þennan morgun, allt danskt fólk, nema einn.
Eftir að ræningjarnir höfðu fullvissað sig um að hafa náð öllu fólki á verslunarstaðnum Djúpavogi lögðu þeir af stað inn með Hálsum, 30 – 40 í hóp. Komu þeir fyrst að bænum Búlandsnesi með miklum hrópum og háreysti. Þar gripu ræniningjarnir 12 eða 13 manns. Bundu þeir hendur karlmanna á bak aftur og ráku síðan tveir úr þeirra flokki hópinn á undan sér til Djúpavogs. Þar voru fangarnir vistaðir um sinn í danska kaupskipinu á legunni.
Þessu næst héldu víkingarnir inn með Hamarsfirði og að prestssetrinu Hálsi. En þar fundu þeir engan heima á staðnum, því að presturinn, séra Jón Þorvarðarson, var í seli ásamt konu sinni, Katrínu Þorláksdóttur, heimamönnum öllum og þremur mönnum frá Hálshjáleigu. Ekki var þetta þó fólkinu til bjargar; ræningjarnir fundu selið og komu þar að fólkinu óvörum, svo að enginn komst undan, nema einn piltur, sem tók á rás. Það voru 11 menn, sem fangaðir voru í selinu. Þennan hóp ráku víkingarnir á undan sér í þá átt, sem pilturinn hafði leitað.
Þegar yfir hálsinn kom héldu þeir sem hann inn með Berufirði og léttu ekki fyrr ferðinni, en þeir komu að kirkjustaðnum við fjarðarbotn.
Víkingarnir herjuðu nú á hvern bæinn á fætur öðrum norður alla Berufjarðarströnd. Létu þeir fólk illa, drápu og limlestu. Alls munu þeir hafa rænt 62 mönnum af Berufjarðarströnd. Þá tóku þeir til fanga 13 manns frá Hamri í Hamarsfirði. Létu þeir vera sitt síðasta verk að ræna kirkjuna á Hálsi, áður en þeir skildu við Djúpavog.
Frá því fólkið var tekið héðan var það einungis sem fénaður í augum þeirra, sem yfir því réðu. Strax við komuna til Afríku var það selt, margir í burtu frá Algeirsborg, en þeir sem eftir urðu reyndu að hafa samband sín á milli, hjálpa hver öðrum og styrkja í útlegðinni.
Á fyrsta mánuðinum veiktist flest fólkið, og hafði 31 Íslendingur látist úr sjúkdómum þegar að mánuði liðnum. Meðferðin á fólkinu var nokkuð mismunandi eftir því hvort það lenti hjá góðu eða slæmu fólki. Flestir áttu þó erfiða daga, og var algengt að menn væru píndir til þess að reyna að fá þá til að kasta kristinni trú og taka upp Múhameðstrú. Um afdrif margra Íslendinganna úti í ánauðinni, vita menn fátt. Fólkið sem kom upp til Íslands aftur hafði frá mörgu að segja, en af sumu spurðist aldrei neitt.
Heimild m.a.:
-http://www.vestmannaeyjar.is/safnahus/byggdasafn/tyrkir.htm
-http://www.ismennt.is/vefir/eyglob/sagave/folk.html
-http://www.djupivogur.is/sagan/tyrkir.html
Aðrar heimildir um Tyrkjaránið:
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn“, Saga 1995, bls. 110-34.