Eftirfarandi grein um Grindarskörð birtist í MBL í júli 1980.
“Fyrr á tímum lá aðalleiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogs, fyrir norðan Valahnúka, um Grindaskörð, Hvalskarð og þaðan til byggða í Selvogi. Í daglegu tali er þessi leið nefnd Selvogsgata. Hún er á ýmsan hátt torsótt. Meðfram henni er lítið sem ekkert vatn að finna, hún liggur að mestu um gróðurlaus brunahraun og í Grindaskörðum kemst hún í 400 m y.s. Með breyttum samgönguháttum lagðist umferð um Selvogsgötuna niður að mestu og hin síðari ár hefur verið lítið um mannaferðir í Grindaskörðum. Þó munu gangnamenn eiga þar leið um vor og haust, rjúpnaskyttum bregður fyrir á haustin í leit að bráð og svo kemur fyrir að einstaka göngumaður sé þar á flakki sér til gagns og ánægju.
Um þessar mundir er unnið að vegargerð frá Krýsuvíkurveginum fyrir sunnan Hafnarfjörð áleiðis að skíðalöndunum við Bláfjöll. Vegurinn mun liggja rétt fyrir norðan skörðin og við það opnast aftur þetta svæði sem hefur til þessa verið falið fyrir svo mörgum. Vegurinn nær nú ekki lengra en að Lönguhlíð og þar skiljum við bílinn eftir og tökum stefnuna á Grindaskörðin. Á vinstri hönd höfum við hraunið úfið og ógreiðfært en á hina hlíðar fjallsins þaktar lausum skriðum. En milli hrauns og hlíðar er gott að ganga. Þar eru harðir, sléttir og grasigrónir balar, sem ættu að reynast tilvalin tjaldstæði handa þeim, sem hafa hug á lengri dvöl.
Eins og sjá má á korti eru Grindaskörðin milli Lönguhlíðar og Kristjánsdalahorns. Þar eru þrír hnúkar sem heita Stóribolli, Tvíbollar ( á kortinu nefndir Miðbollar) og Syðstubollar. Á þessu svæði öllu hefur verið mikil eldvirkni áður fyrr og eru Stóribolli og Tvíbollar gamlir gígar, sem hafa lagt til megnið af því hrauni, sem þekur svæðið fyrir norðan og vestan skörðin. Fyrir ferðamanninn eru Tvíbollar einna forvitnilegastir og þangað tökum við stefnuna. Þegar komið er upp á gígbarminn kemur í ljós að gígskálarnar eru tvær. Unnt er að ganga brúnirnar allan hringinn, en þó er nokkuð laust undir fæti á stöku stað.
Enginn hefur rannsakað þetta svæði betur er Jón Jónsson jarðfræðingur. Álit hans er að meginhluti þeirra hrauna, sem þekja svæðið frá Grindaskörðum og norður að Undirhlíðum og Helgafelli, sé komið frá Stórabolla og Tvíbollum. Hann segir Stórabollahraunið eldra og liggi það víða undir Tvíbollahrauninu. Samkvæmt mælingum munu þessi hraun vera nokkurn veginn jafnstór, þekja um 18 ferkm. Hvort og vera um 0.36-0.37 km að rúmmáli.
En þegar farið er að athuga aldur Tvíbollahrauns nokkru nánar, koma fram sterkar líkur til þess, að það hafi runnið eftir landnám norrænna manna hér á landi, því undir því hefur fundist á einum stað hið svokallaða landnámslag, en það er öskulag, sem talið er að sé frá því um 900.
Útsýnið af Bollunum er frábært í einu orði sagt. Hraunbreiðurnar til norðurs blasa við fyrir fótum manns, og gamla Selvogsgatan hlykkjast milli hraunhólanna í áttina að Valahnúkum. Og í einni sjónhending greinir maður byggðina á Innnesjunum, allt frá Hafnarfirði til Kjalarness. Og ekki spillir fjallasýnin með Snæfellsjökul sem útvörð í vesturátt. Þótt útsýnið til suðurs sé ekki eins tilkomumikið, hefur það samt glögga mynd af hinu gífurlega hraunhafi sem þekur þennan hluta Reykjanesskagans, enda telur Jón Jónsson að á sama tíma og Tvíbollahraunið rann, hafi á annan tug gíga við Grindaskörð og þar fyrir suðvestan, verið virkir.
Þótt við höfum ekki farið lengra en upp í Grindaskörðin, er margt annað að sjá og skoða, sem athyglisvert er, þótt ekki hafi verið minnst á það hér. T.d. er margir fallegir og sérkennilegir hellar í hraununum fyrir norðan skörðin og má það nefna hellana í Dauðadölum og Kristjánsdölum. Við höldum til baka sömu leið að bílnum. Það hallar undan fæti og leiðin sækist greitt. Og þá er gott að rifja upp stutta sögn úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”.
Heimild:
-Mbl dags. óviss 1980 júlí.