Kögunarhóll – Inghóll
Gengið var um söguslóðir Ingólfs Arnarssonar á og við Ingólfsfjall.
Kögunarhóll, stundum nefndur Knarrarhóll, er í landi Hvols. Hann er hólstrýta úr móbergi suður af Ingólfsfjalli að vestanverðu. Suðurlandsvegurinn liggur um skarðið milli hóls og fjalls. Þjóðsaga hermir að Kögunarhóll sé haugur sem Ingólfur Arnarson hafi orpið yfir skip það er hann sigldi á hingað til lands. Nafnið Kögunarhóll mun merkja útsýnishóll.
Í heimild frá árinu 1821 segir að “… hier nærst ma teliast Knarar eda Kogunarholl, ad mestu allt um kring grasivaxinn mikid stór holl sem stendur framan undir landsudurs horni a firrnefndu Jngolfs fialli, inn i þennan hól er sagt ad Ingolfur hafi att ad lata skip sitt.” Árið 1840 var sagt að “Í útsuður fyrir neðan fjallið stendur upphár, ávalur, graslaus hóll, aðeins laus við það, en nú nefnist Kögunarhóll, en að fornu var kallaður Knörhóll, og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt.”
Af hólnum er mjög gott útsýni til flestra átta. Sérstaklega hefur vel sézt til mannaferða um Ölfusið, eins og leiðir lágu, áður en gerðir vegir komu.
Gengið var á Ingólfsfjall upp skarð austan Þórustaðanámunnar. Leiðin var greið. Á skarðsbrúninni er varða sem ofar á fjallsbrúninni. Gangan inn eftir fjallinu var nokkuð slétt í brúnum brekkna. Framundan blasti Inghóll við ásamt Leirdalahnúkum.
Inghóll hefur jafnan verið tilnefndur sem legstaður Ingólfs Arnarssonar, hins fyrsta skráða landnámsmanns. Hóllinn er efst á fjallinu, á mörkum Hvamms og Alviðru. Hann er hár, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum hefur hann verið talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hans. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hann upp nema að litlu leyti. Ýmislegt hefur verið skráð og ritað um Inghól.
Árin 1641-42 er skrifað að “kveðið ex tempore yfir haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfir haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfir leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir.”
Árið 1703 segir að Inghóll sé þar sem “fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, sé haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn.
Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.”
Um 1750 er ritað að: “Udi Arness-Syssel imod Sydost paa Ingolfsfjeld ligger Ingolf den forste Landnamsmand begraven. Hans Hoj og Gravsted er hojt og stort, som klarligen kan sees af omrejsende Folk, so færdes om Olveset, eller og osterlig i Flooen.”
1821: “Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfialli; og er þess hærsti toppur. Vic: lógmadur E. Olafsson, hefr i hans R[ejse]besk[rivelse] sídara parti p:849 skrifad umm þessa Holls stærd. Líkur eru a því; eptir þvi sem su annars mistriggilega Ármans Saga ummgietur; ad Jngolfur Arnarson, sem bio a Reikium i Ólvesi; gamall og blindur þegar Armann kom ut hingad – hafi utvalid sér Legstad i þessum efsta toppi Jngolfsfialls sem Sionar holi; hvadann hann gat yferlitid allt Olvesid og miklu fleiri Hieród; um Jngolf Singur Egiert i Mánamali – “nemur hatt vid Ský haugnuandi –
… Sógusógn almuga umm Jngolf er su ad hann hafi latid þræla sina tvo sem nefndust Kagi og Kallbakur og þionustu Stulku sem nefndist Ýma bera giersemar sínar og fiarmuni skómmu fyrir sitt andlat uppi Jnghól og grafa þær þar inni. – hafi sidann drepid óll þessi hiu so þau ecki giætu fra sagt ecki er ad óllu olíkleg sagann; þvi Órnefni ber Jngolfsfiall eptir þessumm Hiuumm, þarsem Jngolfur Hefdi att ad fyrirkoma þeim t d Jmu Skard, Kaga Gil og Kallbakur.“ FF I, 223-24.
Árið 1840 segir að “Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór ummáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.”
Árið 1873 segir að “á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”
Brynjúlfur Jónsson ritar um Inghól árið 1898. Þar segir hann að “Inghóll, eða eiginlega Ingólfshóll, heiti hóll sá á Ingólfsfjalli, sem almennt hefir verið álitinn haugur Ingólfs. Á hann að hafa sagt fyrir að jarða sig þar … bað eg Kolbein bónda Guðmundsson í Hlíð í Grafningi, sem eg vissi að hafði skoðað hólinn, að láta mig fá lýsingu á honum, og gjörði hann það góðfúlsega. Svo segir í bréfi hans: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum. Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðaní honum stórgrýti nokkuð. Að eins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfis hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.” Nú hefir mér sjálfum auðnast að koma upp á fjallið og sjá hólinn. Heg eg mjög litlu við lýsingu Kolbeins að bæta. Það er víst að hóllinn er verk náttúrunnar. … En varðan á hólnum er mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni. Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt. Um vörðu þessa mun séra Stefán Ólafsson hafa kveðið vísuna: “Stóð af steindu smíði”, og hefir hann þá álitið hana leiði Ingólfs. Nú er hún landamerkjavarða.”
„Styrmir fróði, sem var uppi á 12. öld, segir, að sumir menn segi, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Brynjólfur biskup í Skálholti fór upp á Inghól með menn með sér. Þar með Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi. Hann orti vísu uppi á hólnum, sem er svona: „Stóðu að steindu smíði, staður fornmanns hlaðinn, hlóðu að herrans boðiheiða teikn yfir leiði. Haugur var hár og fagurhrundin saman á grundu. Draugur dimmur og magurdrundi í björgum undir.“
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi, allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi verið um annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.“
Tóftir bæjarins Fjalls eru við suðausturhorn Ingólfsfjalls, en þar á Ingólfur að hafa haft vetursetu á leið sinni vestur með suðurströnd landsins þar sem hann settist að í Reykjavík.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Stefán Ólafsson: Kvæði I, Kaupmannahöfn 1885, s. 73.
-Halfdan Jónsson, Lýsing Ölfushrepps, SSÁ, 245.
-Jón Ólafsson frá Grunnavík, Antiqvariske Annaler II, 185-86.
-Brynjúlfur Jónsson 1899, 14-15.