Langhóll – Langihryggur – flugvélaflök
Gengið var frá Móklettum vestan Lyngfells við Ísólfsskála. Ætlunin var að skoða leifar flugvéla er fórust í norðanverðu og austanverðu Fagradalsfjalli árið 1941. Í þessum slysum létust 14 menn, en 11 lifðu annað óhappið af. Fyrra slysið varð 24. apríl, en hið síðara 2. nóvember.
Stefnan var tekin norður yfir Efra-Borgarhraun með mörkum Beinavarðahrauns með neflínu á Einbúa. Selskálin er þar innar, í fyrrum gróinni kvos undir suðurhlíðum Fagradalsfjalls. Ofan við hana er Görnin. Hún var rakin áleiðis upp á fjallið. Görnin skiptist í þrennt er upp í hana er komið. Vestan í henni er Kastið þar sem enn eitt flugvélaflakið er, B-24 Liberator. Flugvélin fórst 4. maí 1943 og með henni 14 menn. Einn lifði slysið af. Um borð í þessari flugvél var m.a. Andrews, yfirmaður herafla Bandaríkjamanna í Evrópu.
Þegar upp í Görnina var komið var austanverð hlíð þrædd upp á hvirfil Fagradalsfjalls og honum síðan fylgt inn að Langhól. Af hólnum er hvað víðsýnast á Reykjanesskaganum.
Flugvélaflakið utan í Langhól er norðaustan í honum, ofarlega. Það var aðfararnótt 24. apríl 1941 að Sunderland flugbáti var flogið í fjallshlíðina. Þrír menn af 14 manna áhöfn létust í kjölfar slyssins.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá þessu flugslysi í Fagradalsfjalli.
„Aðfaranótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 „KG-G“ úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundu og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík. Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.“
Ljósmynd, sem tekin var af slysstaðnum á sínum tíma sýnir mikið brak. Í dag má sjá leifar af mótir, auk ýmissa smáhluta. Eitthvað mun hafa verið hirt skömmu eftir slysið, en síðan eru liðin rúmlega 60 ár. Á þeim tíma hefur veður og menn séð um að fjarlægja drjúgan skerf. Brak liggur niður með hlíðinni og lækur, sem rennur úr gili austan við slysstaðinn, hefur dreift léttustu hlutunum vestur með norðurhlíð fjallsins, allt niður að Dalsseli, sem er þar norðvestan í því.
Áhöfnin
Afdrif áhafnarmeðlima er ekki fullu kunn.
Það sem vitað er að 13 menn voru um borð, einn lést í slysinu, tveir létust síðar af sárum sínum. 10 komust lífs af mikið slasaðir.
Pilot/Sq. Leader E.J. Prescott
Pilot/Officer J. Dewer
Flight/Sergeant Anthony Cusworth, Radio operator
F/Lt Huges (unconfirmed)
Sgt. H.W. Taylor (unconfirmed) †
Flugvélin
Short Sunderland Mk I
Registration ID: KG G
Serial no: N9023
RAF No. 204 Squadron
Þá var gengið suður með hlíðinni og stefnan tekin á Stóra-Hrút með Geldingardal og Meradali til beggja handa.
Friðþór Eydal sagði að með flugvélinni, sem fór í Langahrygg, hafi verið 11 menn og allir látist. Einn þeirra var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02. nóvember 1941.
Matthías Johannessen segir skemmtilega frá samtölum sínum við Magnús Hafliðason á Hrauni í bók sinni „Samtöl I“ er þeir gengu saman á öll þrjú flökin í Fagradalsfjalli. Magnús kom með fyrstu mönnum á slysstaðinn í Langahrygg. Lík þeirra, sem fórust með flugvélinni, voru flutt heim til Bandaríkjanna eins og venjan var haustið 1941 áður en Bandaríkin voru komin opinberlega í styrjöldina. Ekki var farið að jarðsetja Ameríkana í Fossvogskirkjugarði fyrr en í janúar 1942.
Talsvert brak er úr vélinni utan í hryggnum og niður með hlíðinni. Hreyfill liggur við rætur hennar, í gili, sem þar er.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu:
„Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið „74-P-8“ hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur öðrum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafðist í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.
Þar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir „74-P-3“ og „74-P-9“ lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10. Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í vegf yrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið. Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.“
Talsvert smábrak er enn í hlíðinni og annar hreyfillinn þar niður af, sem fyrr sagði. Í læk, sem rennur þar um gil, liggur talsvert af braki, s.s. vélarhlutar.
Haldið var áfram suður með Langahrygg og vestanverðum Einihlíðum niður í Stóra-Leirdal og yfir í Drykkjarsteinsdal. Skömmu áður hafi svartstjörnóttur gemlingur, vel haldinn, mætt ferðalöngunum austan undir hálsinum er skilur af Stóra-Leirdal og Nátthaga. Hann var alls ekki á því að blanda sér í hópinn.
Drykkjarsteinninn var skoðaður, sem og fjárborgin í Neðra-Borgarhrauni, en borgin sú er talinn hafa verið hlaðin af Viðeyjarmönnum og nýtt þaðan.
Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagðist hafa verið staddur ásamt Ísólfi við Veiðibjöllunef milli Skála og Selatanga þegar flugvélin lenti í Langahrygg. Þeir hafi þá þegar haldið þangað upp eftir og séð hvers kyns var – líkamshlutar dreifðir um allt. Þar sem enginn virtist á lífi héldu þeir til Grindavíkur þar sem Tómas Tómasson, sá eini er kunni eitthvað í tungumálum, tilkynnti um slysið. Hermenn komu á beltatækjum og þeir fóru með þeim í dósunum svo til beint að augum upp að Langahrygg. Hann myndi eftir því að einn hermannanna ætlaði að taka einn vindlingapakka af einu líkanna, en dauðbrá við það sama þegar hann sá að hann stóð einungis við hluta þess.
Jón sagðist einnig muna eftir flakinu í Langhól. Hann gekk þangað oft til rjúpna fyrrum. Flakið var hálfbrunnið. Skottið og skyttuturninn voru lengi vel í hlíðinni og skall og small jafnan í skyttustólnum þegar vindurinn næddi um flakið.
Frábært veður. Gengnir voru 17 km á 5 klst. og 5 mín.
Áhöfnin
Allir um borð létust í slysinu.
Ens. G.N. Thornquist capt. †
Ens. C. Bialek, pilot †
2/Lt. William P. Robinson, pass (US Army 10th Infantry) †
Aviation Machinist´s Mate 1st Class, Vern H. Anderson †
Aviation Machinist´s Mate 1st Class, Walter V. Garrison †
Radioman 1st Class, Oran G. Knehr †
Seaman 2nd Class, M. Ground †
Seaman 2nd Class, E.L. Cooper †
Aviation Machinist´s Mate 1st Class (Naval Pilot), Coy M. Weems †
Radioman 2nd Class, Joseph S. Wanek †
Aviation Machinist´s Mate 3rd Class, Andrew R. Brazille †
Aviation Ordnanceman 3rd Class, W. Gordon Payne †
Flugvélin
Glenn L. Martin Company, PBM-3D Mariner
Registration ID: 74-P-8
Bu.No: 1248,
US Navy, Squadron VP-74
Flugsveitin notaði PBM-3D Mariner vélar á Íslandi frá 9. ágúst 1941 til 19. janúar 1942.
Sjá einnig flugslysið í Kastinu í Fagradalsfjalli HÉR.
Heimild:
-Flugsaga Íslands – í stríði og friði – Eggert Norðdahl, bls. 153.
-Flugsaga Íslands – í stríði og friði – Eggert Norðdahl, bls. 146.
-Matthías Johannessen – Samtöl I – 1977.
-Magnús Hafliðason – Hrauni.
-Friðþór Eydal.