Dýrtíðarvinnan 1918
Gísli Sigurðsson ritaði eftirfarandi grein um „Vegagerð í nágrenni Hafnarfjarðar“ í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1966:
„Árið 1918 gekk í garð með almennu atvinnuleysi hér í Hafnarfirði og eins í Reykjavík. Hverjir það voru, sem forgöngu höfðu í því, að leitað var til ríkisstjórnar um atvinnumál, veit ég ekki, en tel þó, að það hafi verið bæjaryfirvöld kaupstaðanna. Þessi viðleitni varð til þess að stofnað var til svokallaðrar dýrtíðarvinnu. Það var lagning nýs vegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það mun hafa verið hinn ungi Geir G. Zoëga verkfræðingur, er þá hafði verið skipaður vegamálastjóri, sem mældi út veginn og fann honum stað. Vegurinn átti að liggja út af Suðurlandsbraut um austanverða Sogamýri, vestan Blesugrófar, og upp austurenda Digranessháls, rétt austan við bæinn Digranes, þar sem gömlu göturnar lágu um hálsinn, þaðan niður að Kópavogslæk og yfir hann fyrir neðan Fífuhvamm, um mýrina þar, um Nónskarð og niður holtið úr skarðinu yfir Arnarneslæk um Kringlumýri, um Vesturmýrina rétt undir Hofstaðaholti, um Bjarnakrika, vestan Vífilsstaða og túns út á Svínahraun eða Vífilsstaðahraun, eins og það nú er kallað. Í suð-vestur um hraunið átti vegurinn að liggja og Miðaftanshóllinn að hverfa að helmingi undir veginn, þaðan eftir hrauninu niður á melinn norðan Setbergshamars og yfir Kaplalæk, svo um Sjávarhraunið niður á Hörðuvelli og tengjast þar Lækjargötunni.
Þetta átti að verða bezti og breiðasti vegur landsins fram að þessu, nefnilega 7 metra breiður, svo breiður, að auðvelt væri að leggja járnbrautarteina á annarri vegarbrúninni, þeirri eystri. Þessi vegur átti sem sagt að bæta úr allri þörf fyrir flutninga milli kaupstaðanna, bæði mannflurninga og vöruflutninga. Mig minnir, að til þessarar dýrtíðarvinnu ætti að verja um það bil 500.000.00 – fimm hundruð þúsund krónum – úr ríkisskassanum. Reykvíkingar áttu að leggja veginn úr Sogamýri suður að Miðaftanshól, en Hafnfirðingar frá Miðaftanshól niður í Hafnarfjörð. Hverjir verkstjórar voru frá Reykjavík vissi ég aldrei, en Sigurgeir Gíslason skyldi vera verkstjóri Hafnfirðinga. Hann mun og hafa verið sá maðurinn, er ráða skyldi menn til vinnu í vegagerð þessa. Faðir minn hafði komið mér þarna í vinnu. Og nú var aðeins beðið eftir því að kallið kæmi, að vinnan skyldi hefjast.
1. febrúar 1918. Það hlýtur að hafa verið þennan dag, sem vinnan byrjaði, því daginn eftir, 2. febrúar sem er kyndilmessa, ætlaði pabbi í verið upp í Grindavík, það var gamall siður, að menn skyldu vera komnir til verstöðva sinna þennan dag eða að minnsta kosti leggja þá af stað í verið. Þó lítil von væri með vinnu, fóru menn á hverjum degi, hverjum morgni að heiman niður á götu til þess að eigra þar milli vinnustöðva, hvort þar væri handarvik að fá. Ég mun þá eins og fleiri daga hafa farið niður á götu og gengið þar milli stöðva í snapi eftir vinnu, en ekkert bólaði á vinnu frekar en fyrri daginn. Á tíunda tímanum, er ég nálgaðist húsið, þar sem við bjuggum þennan vetur, Vesturbraut 10 í kjallara, slagafullum, mætti ég pabba. Sagði hann mér, að þá um morguninn hafi Sigurgeir verkstjóri farið með vinnuflokk til vegagerðar upp í hraun. Dýrtíðarvinnan væri að byrja. Ég yrði því að tygja mig til ferðar þegar í stað. Ég lét ekki segja mér það tvisvar, fór inn til mömmu, drakk kaffisopa og mun hafa fengið brauð með. Nesti fór ég ekki með, en slíkt var þó nauðsynlegt, þar sem vinnan var svo langt í burtu, að ekki var tiltökumál að fara heim í mat í hádegi. Mamma lofaði að senda bóður minn, ellefu ára, með mat til mín. Ég lagði svo af stað, og innan stundar var ég kominn á staðinn og hitti Sigurgeir að máli. Hann úrskurðaði mig í vinnuflokk sinn. En verkstjóri fyrir öðrum flokk var Jón Einarsson, velþekktur verkstjóri.
Við byrjuðum undir Miðaftanshól. Skyldi flokkur Jóns Einarssonar halda austur og upp af hólnum til móts við Reykvíkinga, en flokkur Sigurgeirs skyldi halda niður hraunið. Strax var ég settur í að bera grjót á handbörum móti ungum manni, Halldóri M. Sigmundssyni. Vorum við vinnufélagar allan tímann, sem við vorum í þessari vinnu.
Hælar voru settir niður til að fara eftir með veginn. Mælt var fyrir vegarbrúnum og þar settar niður stikur. Sérstakir menn voru til þess settir að hlaða vegarbrúnirnar. Ekki var skortur á hæfum mönnum í slík störf í Hafnarfirði. Þar var hver snillingurinn öðrum fremri. Sigurgeir hafði langa þjálfun í vegarlagningum um hraun Hafnfirðinga og Hafnfirðingarnir langa þjálfun í að hlaða vegarkanta, bæði heima í Firðinum og með Sigurgeir út um land. Þeir eru ekki margir vegarkantarnir, sem nú verða séðir, en þó eru þeir til og bera vott um vandaða vinnu, bæði handlagni og góða útsjón. Aðrir voru settir til að ryðja hólum og hæðum niður í lægðir. Svo vorum við strákarnir látnir bera grjótið að lagningarmönnunum eða smágrjót í púkkið við veginn.
Þar sem svo langt var heim, að ekki voru möguleikar á að fara í mat, átti sú regla að gilda að borða vel heima áður en farið væri til vinnu. Ferðin aðra leiðina skyldi greidd sem vinna. Svo átti að vinna sleitulaust til kl. 12 á hádegi. Þá var gefin hálf stund til matar. Síðan var unnið fram til kl. 5 e.m. og ekkert kaffihlé. Þetta fyrirkomulag þætti víst ómögulegt nú til dags. En þessu uðrum við verkamenn að hlíta í þá daga. Dálítið var þetta óþægilegt fyrst í stað, en þetta vandist þegar fram í sótti, og að síðustu vorum við farnir að kunna þessu allvel…
Alla tíð mættumst við verkamennirnir við hús Jóns Einarssonar, Strandgötu 19. Þaðan héldum við upp í hraunið, eftir stíg, sem þar lá og þeir Sigurgeir og Jón þekktu vel…
Eins og áður segir um verkið, var hólum jafnað í holurnar og kantar hlaðnir, en það sem til vantaði, var borið á handbörum og fyllt þannig upp. Var þetta allmikilvinna, en undir stjórn þeirra Sigurgeirs og Jóns miðaði verkinu allvel áfram. Þegar eftir stuttan tíma, var smiður fengin til til að skerpa og herða járnkarla og fleyga sem notaðir voru. Var smiðjan borin upp eftir einn morguninn. Smiðurinn var Sveinn járnsmiður Sigurðsson, ætaður frá Syðri-Gróf í Flóa. Fyrst í stað var smiðjan undir berum himni, en brátt var skúr fluttur upp eftir fyrir smiðjuna. Þá var einnig annar skúr fluttur upp eftir, það var matar- og áhaldaskúr. Bættist nú hagur manna, því nú var farið að matast inni. En ekki var skúrinn stærri en það, að ekki komst nema annar flokkurinn í skúrinn í einu. Flokkarnir urðu því að skiptast á að borða…
Ég man það enn, að mikil gleði var í kjallarnum á Vesturbraut 10, þegar ég kom heim með fyrstu útborgunina. Þá var hitað kakaó og snúðar keyptir til hátíðarbrigða. Svo var farið og skuldir greiddar, en þá var ekki mikill peningur eftir. En að vera skuldlaus var sama og hafa lánstraust. Þeirri reglu héldu við móðir mín alltaf. Vinnan gekk með sama hætti frá degi til dags og áfram mjakaðist vegurinn, sjö metra breiður og byggður með það fyrir augum, að járnbraut lægi á öðrum kanti hans, þegar þar að kæmi…
Þegar hér var komið sögu, hafði flokkur Jóns Einarssonar náð upp að Miðaftanshól. Þá sneri hann við og bætti upp í skörðin, sem orðið höfðu í flokki Sigurgeirs. Var enn um stund haldið áfram verkinu. En þar kom samt, að fé það þraut, er ríkisstjórnin hafði lagt til þessarar vegagerðar. Þá var lokið þessari dýrtíðarvinnu, og við héldum heim síðasta kvöldið. Vorum við þá farnir að una þessu vel, sem nú yrði kallað harðrétti, að eta einmælt allan vinnutímann…“
Enn í dag má sjá leifar af dýrtíðarvinnunni við Miðaftanshól. Öðrum köflum vegagerðarinnar hefur því miður verið spillt.
Heimild:
-Gísli Sigurðsson – Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 1966