Vífilsfell
Vífilsfell er bæði áberandi fell ofan höfuðborgarsvæðisins, auk þess sem mótun þess vekur gjarnan áhuga og ákafa fjallafólks. Stallur er austur á fellinu, stundum nefndur Litla-Sandskeið vegna þess hversu sléttur hann er. En hvernig myndaðist stallurinn á Vífilsfelli?
Vífilsfell er í raun arfleifð bermyndana frá tveimur jökulskeiðum. Við gos undir jökli myndast móbergsfjöll, og nái gosið að bræða sig upp úr jöklinum þannig að ekki komist bræðsluvatn að gígnum renna hraun. Slík fjöll, með hraunlögum ofan á móberginu, nefnast stapar. Þekktustu dæmin um stapa á Íslandi eru Hlöðufell og Herðubreið. Gönguleiðin á Vífilsfell er meðal vinsælli gönguleiða á Reykjanesskaganum. Þegar gengið er upp á fellið að austanverðu er það nokkuð létt uppgöngu þó nokkuð bratt sé síðasta spölinn upp á Stallinn. Fellið er auk þess fallegt og þaðan er gott útsýni, einkum yfir höfuðborgarsvæðið. Hækkunin er um 400 metrar, en mesta hæð er 655 m.y.s.
Reyndar eru nokkrar uppgönguleiðir á Vífilsfell. Besta leiðin er þó sem fyrr sagði norðausturleiðin, upp úr Sauðadölum, hornið við akleiðina í Jósefdal. Gengið er upp greinilegan göngustíg sem liggur upp bratta hlíðina upp á hásléttuna fyrir ofan. Skriðan er laus á þessum slóðum en gönguleiðin hefur víða runnið af móberginu sem stendur næstum bert eftir. Nauðsynlegt er að taka vara við slíkum stöðum því þar getur verið erfitt að fóta sig.
Fyrsti áfangi leiðarinnar er þessi bratta brekka. Uppi tekur við flatlendi sem nær út að móbergklettunum sem mynda nokkurs konar öxl sem liggur að hæsta hluta Vífilsfells. Best er að fara upp klettana á öxlina og ganga eftir henni að tindinum. Þarna er lítið um lausamöl en enn ástæða til að fara varlega því móbergið getur verið varasamt.
Af öxlinni er greið leið að tindunum sjálfum og þar er um tvær uppgönguleiðir að ræða, upp báðar þarf að handstyrkja sig. Fyrir nokkrum árum voru þarna kaðlar til halds og trausts. Aðeins vestan við hornið er sprunga sem hægt er að nota til að klifra upp.
Uppi á toppi er hringsjá sem Ferðafélag Íslands lét koma þar fyrir um 1940 og má með aðstoð hennar átta sig á kennileitum í nágrenninu, nær og fjær.
„Eitt þeirra fjalla, sem blasa við augum manna héðan frá höfuðborginni er Vifilsfellið. Það er ekki stórfenglegt til að sjá, en þegar nær er komið breytir það um svip og ýtir undir þá löngun að ganga þar á efsta tind. Og í dag skulum við framkvæma það verk. Hægt er að ganga á fjallið frá öllum áttum en stysta leiðin er úr skarðinu í mynni Jósefsdals og þar skulum við hefja gönguna. Frá Litlu kaffistofunni, sem er á mótum hins gamla og nýja vegar yfir Svínahraunið ökum við afleggjarann, sem liggur inn í Jósefsdal. Við ökum um Sauðadali, meðfram Draugahlíðum og Þórishamri og brátt erum við komin í skarðið, en það er suðaustan undir Vífilsfelli, milli þess og Sauðadalahnúka. Hér skulum við skilja bílinn eftir og hefja gönguna. Framundan er brött skriða þakin lausum jarðvegi. Best er að velja leiðina milli tveggja grunnra vatnsrása, sem liggja þar niður ofan frá brún, eða ganga eftir annarri hvorri rásinni, því þar er fastara undir fæti. Þegar komið er upp á brúnina fyrir ofan, tekur við sléttur melur. Hann er kærkominn, því brekkan en erfið og hefur komið mörgum hraustum kappanum til að blása og svitna örlítið. Við hvílum okkur nokkra stund á brúninni og litumst um, því landslagið hefur breytt um svip og útsýnið aukist að miklum mun. Síðan tekur við annar áfangi.
Handan melsins rís móbergsklettur allbrattur, sem fer lækkandi til austurs. Okkur finnst hann óárennilegur í fyrstu, en tökum samt stefnuna á hann og fikrum okkur upp eftir honum.
Er á reynir er hann auðveldari viðfangs en okkur sýndist. Þegar efstu brún klettsins er náð, blasir við útsýnið yfir Bláfjöllin og út á Flóann. En ekki höfum við enn náð efsta tindi. Einn stallur er eftir og sá brattasti. Sumir þurfa smáaðstoð við að sigra hann, en flestir “hlaupa” upp án nokkurrar aðstoðar. Þegar hann er að baki er “hæsta tindi náð” og ekkert annað eftir en “rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin, náttúruna” (Tómas Guðmundsson), með aðstoð útsýnisskífunnar, sem Ferðafélag Íslands kom hér upp árið 1940.
Meðan við dveljum hjá skífunni fremst á fjallinu tökum við upp nestisbitann og njótum stundarinnar. Þá er tækifæri að minnast á söguna góðu um Vífil. Þjóðsagan segir að eftir að Ingólfur Arnarson hafði sest að í Reykjavík gaf hann Vífli þræli sínum frelsi og bústað, sem nefndur var Vífilsstaðir. Á Álftanesi er bærinn Sviðsholt. Þar bjó Sviði. Þeir félagar voru vinir og sóttu sjóinn fast, segir sagan. Síðan segir: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt, sem Vífilsfell heitir. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum, en til sjávar, gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs, áður en hann fór að róa, og reri ekki, ef hann sá nokkra skýskán á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og reri með Sviða”.
Og nú stöndum við á sömu steinunum og Vífill forðum, hér uppi á fellinu, ef marka skal sannleiksgildi sögunnar. En tæplega myndu margir á okkar öld geta leikið það eftir honum, að skjótast þessa leið frá Vífilsstöðum fram og aftur, áður en hann ýtti bátnum frá landi. En nú skulum við huga að heimferð. Sjálfsagt er að leggja smálykkju á leiðina og skjótast niður í Jósefsdalinn. Þá förum við til hægri, þegar komið er niðurfyrir klettabeltið, og göngum vestur brúnirnar. Auðvelt er að komast þaðan ofan í dalinn hvar sem er, en skemmtilegast er þó að ganga vestur fyrir dalbotninn og niður Bláfjallagilið, síðan út dalinn, sem er mjög sumarfagur, rennsléttur í botninn, en háir, brattir hnúkar á alla vegu.
Fyrrum var fjölfarin leið um Jósefsdal. Var þá komið inn í dalinn þar sem vegurinn liggur nú, en haldið áfram utan í Sauðadalahnúk og upp í annað skarð, sem er milli hans og….. Heitir þetta skarð Ólafsskarð. Það er kennt við Ólaf Skálholtsbryta samkvæmt þjóðsögu skráðri í safni Jóns Árnasonar (sú saga er sögð í kaflanum um Lyklafell). Önnur sögn segir, að fyrrum hafi verið býli í dalnum. Hét bóndinn Jósef. Hann var góður smiður, en forsmáði guð svo með blóti og formælingum að bærinn sökk með manni og mús. Eftir það lagðist byggð af í dalnum og var ekki byggður bær þar síðan. Önnur sögn greinir frá því, að tröll hafi átt heima í dalnum á tímabili. Þessi álög hafa samt ekki hvílt lengi yfir dalnum, því í nokkra áratugi átti skíðadeild Ármanns heimili sitt í dalnum. Þeir byggðu þar myndarlegan skála og æfðu skíðaíþróttina af kappi og héldu mörg mót. En svo var ekki grundvöllur fyrir áframhaldi og mannvirkin öll rifin og starfsemin flutt í Bláfjöll, þar sem hún er nú. Við göngum austur úr dalnum, fram hjá Grettistaki, stórum steini við veginn og upp í skarðið. Þar bíður bíllinn okkar.“
Stallurinn á Vífilsfelli er stapi, það er efsti hluti hans er blágrýtislög en móberg undir. Toppurinn á Vífilsfelli er hins vegar yngri myndun sem liggur ofan á blágrýtinu og utan í vesturhlíð stapans. Hann er úr móbergi og er hluti af NV-SA gossprungu sem teygir sig frá Henglafjöllum suður fyrir Sandskeið. Þessi sprungustefna er óvenjuleg en þó ekkert einsdæmi, en ríkjandi sprungustefna á Suðurlandi er NA-SV. Vífilsfell er semsagt myndað í tveimur gosum, þar sem hið síðara varð undir þykkari jökli en hið fyrra – sennilega hvort á sínu jökulskeiði.
Síðasta ísöld hófst fyrir um 2,8 milljónum ára og lauk fyrir um 11.000 árum. Það var þó ekki stanslaus vetrarkuldi allan þann tíma heldur skiptust á kuldaskeið og hlýskeið. Það er ekkert sem að bendir til þess að eldgos hafi verið óalgengari á ísöld en þau eru í dag. Hins vegar eru uppi hugmyndir um að á því tímabili þegar ísöld var að ganga í garð hafi eldgosum fækkað vegna aukins þrýstings frá upphleðslu íss. Að sama skapi voru eldgos tíðari þegar ísöld lauk og þrýstiléttir varð vegna ísbráðnunar.
Á hlýskeiðum runnu grágrýtishraun langar leiðir og oft langt út fyrir gosbeltin. Þessi hraun komu ýmist frá gossprungum, eldkeilum eða dyngjum. Á kuldaskeiðum ísaldar mynduðustu hins vegar móbergsfjöll við gos undir jökli, ýmist móbergshryggir sem hljóðust upp á sprungum en náðu yfirleitt ekki upp úr jöklinum eða móbergsstapar sem hlóðust upp úr jöklinum. Þessi fjöll setja mikinn svip á landslagið enn þann dag í dag. Sem dæmi um móbergshryggi má nefna Sveifluháls.
Á síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmynduninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi. Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé móbergið. Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Hafnarfjörð, Hengill, efsti hluti Vífulsfells, Bláfjöll og hryggirnir á Reykjanesskaga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild:
-visindavefurin.is
-Mbl, ágúst 1979.