Húshellir II

Húshellir

Inngangur Húshellis er í vestanverðri fallinnar hraunbólu. Þegar inn er komið blasir við mikill geymur og eru gangar í allar áttir. Á miðju gólfinu er hlaðið hús, ca. 2×2 metrar í ummál. Bein eru í einum gangnanna, þeim er liggur í suður. 

Húshellir

Í Húshelli.

Ekki er vitað af hverju beinin kunna að vera. Ekki er heldur vitað hvers vegna húsið var hlaðið í hellinum. Þarna gætu hreindýraveiðimenn hafa haft aðstöðu um tíma, eða einhverjir aðrir, einhverra hluta vegna. Húsið er sennilega hlaðið til að halda hita á þeim er þar gistu svo og forðast vatn er lekur úr loftum eftir rigningar. Botn hússins hefur verið fóðraður með mosa.
Í stórvirkinu „Íslenskir hellar“ segir Björn Hróarsson svo frá Húshelli:
„Björn Finnsson og Hörður Þór Sigurðsson fundu Húshelli sumarið 1988. Hellismunninn er um tveir metrar á breidd og eins og hálfs meters hár. Innan við munnann skiptist hellirinn í tvær meginrásir og eina þrengri. Þegar komið er rétt inn fyrir hellismunnann blasir við töluverð hvelfing með sléttu gólfi. Á miðju gólfinu er sérkennilegt byrgi, hlaðið úr hraungrjóti. Hleðslan er falleg og sýnilega gömul. Byrgið (króin eða „húsið“) er einhlaðið, úr þéttu og blöðróttu hraungrjóti sem líkast til hefur verið borið inn í hellinn enda hann lítt eða ekkert hruninn.

Húshellir

Í Húshelli.

Steinunum er haganlega hlaðið á þrjá vegu og veit opna hliðin mót munnanum. Moldarjarðvegur hefur sytrað niður um hellisþakið og myndað þunnt lag á gólfi hellisins umhverfis byrgið. Inni í byrginu er einnig mold en þar sem hún virðist vera þykkari en fyrir utan gæti verið skán undir. Steinarnir sem notaðir hafa verið í hleðsluna eru feiknastórir og þyrfti ákveðna og einarða menn til að gera sér það að leik að hlaða byrgið. Margt bendir til þess að hleðslan sé gömul. Fæstir hlaða stórum steinum að gamni sínu og hefur byrgð því líklega þjónað einhverjum tilgangi, til dæmis svefnkró, og gærur og dúkur strengdur yfir til að verjast regni úr hellisþakinu. Nokkuð drýpur úr loftinu og hefur vatnið borið með sér fínan leir eða mold eins og áður var getið. Ofan á veggjum byrgisins hafa hlaðist upp tveggja til fimm sentimetra háar strýtur. Veggirnir eru um 1,5 metrar á hæð. Stafnveggurinn er um 1,2 metrar á lengd en hliðarnar tæpir tveir metrar. Breidd veggjanna er að jafnaði um 40 cm. Neðstu steinarnir og þeir stærstu eru hið minnsta 300 kíló.

Húshellir

Í Húshelli.

Til hliðar við byrgið og litlu innar eru beinaleifar, bæði sauðfjár- og stórgripabein. Beinin liggja á víð og dreif en einnig hefur hnútum verið stungið inn á milli steinanna að innanverðu í byrginu og rennir það stoðum undir þá eknningu að einhver hafi hafst við í hellinum, líklega í skamman tíma þó.
Hleðslan í Húshelli er ráðgáta. Hverjir hlóðu þetta, hvenær og af hverju? Í gömlum sögunum segir af útilegumönnum á Selsvöllum á 18. öld. Útilegumennirnir héldu til við Vellina, nálægt Hvernum eina, en herjuðu á Vatnsleysuströnd, meðal annars stálu þeir frá bóndanum í Flekkuvík. Eftir að þeir höfðu flutt sig „norður með fjöllunum, í helli sem þar er,“ áreittu þeir og rændu ferðalanga. Yfirvaldið safnaði liði, handtók mennina og færði til Bessastaða þar sem dæmt var í máli þeirra. Hvort húshleðslumennirnir eru þarna komnir veit auðvitað enginn.
Önnur saga segir, sem er reyndar bara saga, að yfirvaldið hafi lokað helli útilegumannanna eftir handtökuna til að koma í veg fyrir að aðrir settust þar að. Þannig að e.t.v. er þessi útilegumannahellir hulinn bak við mosavaxna hleðslu.

Húshellir

Í Húshelli.

Velta má upp fleiri skýringum á tilvist hleðslanna í Húshelli. Ef til vill hafa hreindýraveiðimenn haft þarna afdrep í veiðiskap sínum en síðustu hreindýrin á þessu svæði voru drepin á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar.
Hellirinn greinist í þrjár áttir út frá húsinu. Til hægri frá munnanum liggja um 20 metra löng og vel manngeng göng. Miðrásin er um 40 metra löng en mjög þröng. Til vinstri frá munnanum eru svo aðalgöngin. Í þeim, skammt innan við húsið, eru stórgripabein. Innan við beinin þrengist hellirinn verulega og verður að leggjast á magann á oddhvasst gólfið til að mjaka sér áfram og upp. Göngin hækka aftur og hlykkjast síðan, óhrunin og fögur, inna um 50 metra þar til kemur að dálitlu herbergi. Inn frá því liggja mjög þröng göng inn í annað herbergi og í því er töluvert af dropsteinum. Aðeins er fyrir allra grennstu menn að komast inn í innsta herbergið. Heildarlengd hellisins er um 150 metrar.“
FERLIR hefur frétt af öðrum helli, allnokkru vestar, „eigi langt frá Mávahlíðum“. Í honum á, að sögn, að vera vistarverur, hrosshaus, beinagrind og fleiri forvitnilegar leifar. „Komið er að rás í úfnu hrauni. Innan við hana tekur við skúti og síðan hellir. Þar eru leifarnar“. Ekki mun vera auðratað að hellinum þeim, en slíkt getur varla talist í FERLIRsfrásögu færandi. Ætlunin er að „þefa“ hellinn þann uppi við tækifæri.

Heimild:
-Björn Hróarsson, Íslenskir hellar – 2006.

Húshellir

Húshellir – op.