Ásláksstaðir

Í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ lýsir Guðmundur Björgvin Jónsson (1913-1998) Ásláksstaðahverfi:

Atlagerði (rústir)

Ásláksstaðir

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti. Vestan við Gerðistanga er Álasund eða Álfasund. Um þessar nafngiftir hefur verið meiningarmunur, en Narfakotsbræður, sem bjuggu allan sinn aldur í nálægð við vitann og gættu hans í áratugi höfðu ekki heyrt annað nafn á sundinu en Álfasund.

Atlagerði

Atlagerði.

Í Atlagerði bjuggu hjónin Ingimundur Ingimundarson, f. 1837 og kona hans, Sigríður Þorkelsdóttir, f. 1845. Ingimundur var fyrsti vitavörður Atlagerðisvita, með sömu kjör og Narfakotsbræður síðar (sjá þar). Ingimundur stundaði sjó ásamt því er til féll í landi. Hann hafði engar landnytjar og greiddi landskuld til Ásláksstaða. Ingimundur og Sigríður voru síðust búendur í Atlagerði. Þeirra börn voru m.a. Þórður, f. 24. mars 1883 er
drukknaði frá unnustu sinni, Pálínu, sem gekk þá með barn þeirra, Þórð. Annar sonur Ingimundar og Sigríðar var Guðmundur, f. 1888, sem drukknaði líka á besta aldri.

Fagurhóll (rústir)

Ásláksstaðir

Fagurhóll.

Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðarjarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón, ekki veit ég nafn konunnar, en maður hennar hét Jón. Pau áttu að minnsta kosti einn son, Magnús, og varð hann síðar maður „Gunnu fögru“. Frá Fagurhóli var þessi fjölskylda farin um aldamót, en í staðinn kominn þangað Jón Þórarinsson, f. 1869 og bústýra hans, Ástríður Ólafsdóttir, f. 1877. Móðir Jóns, Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 1832, var hjá þeim. Hjá þeim ólst upp Stefán Runólfsson, bróðir Kristmanns, bónda og kennara á Hlöðversnesi (sjá þar). Jón og Ástríður voru fyrst vinnuhjú á Auðnum, hjá Guðmundi Guðmundssyni og trúlofuðust þar, en hófu síðan búskap í Fagurhóli. Hve lengi, svo og hver hefur verið síðasti búandi þar, er mér ekki kunnugt.

Móakot (í eyði)

Ásláksstaðir

Móakot 2021.

Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðurhluta Ásláksstaðarjarðar og er nú sameinað aðaljörðinni. Margir hafa verið búendur þar, enda allvel hýst á eldri tíma mælikvarða.

Móakot 1

Ásláksstaðir

Þar bjuggu um aldamótin Bjarni Sigurðsson, f. 1855, og kona hans, Kristín Jónsdóttir frá Móakoti. Bjarni var bróðir Gísla í Minna-Knarrarnesi. Þeirra börn voru: 1) Jón, f. 1890 (dó ungur), 2) Margrét, f. 1891. Hennar maður var Ingvar Gunnarsson, kennari, frá Skjaldarkoti. Þau bjuggu í Hafnarfirði, 3) Sigurður, f. 1893. Kona hans Anna Bjarnadóttir frá Stóru-Vatnsleysu (sjá þar). Sigurður lést á sóttarsæng á besta aldri frá ungri konu og tveim dætrum. Þau bjuggu í Reykjavík. 4) Þórður, f. 11. sept. 1895, d. 3. nóv. 1981. Hann stundaði eigin bílaakstur. Kona hans var Sigríður Ketilsdóttir úr Laugardal, f. 20. apríl 1901. Þau bjuggu í Hafnarfirði.
Síðar bjuggu í Móakoti Jón Hansson og kona hans, Guðrún Árnadóttir, fyrir og um 1929-30. Guðrún var dóttir Árna á Halldórsstöðum.
Þar næst bjuggu þar Guðmundur Hvamms (sjá Hvamm) og kona hans, Filippía Nikulásdóttir. Síðan bjuggu þar ýmsir leiguliðar árlangt eða að sumri til, m.a. bjó þar Stefán Hallsson, kennari með konu sinni, Arnheiði Jónsdóttur, (sjá Vorhús í Vogum).

Móakot 2

Ásláksstaðir

Móakot.


Þar bjuggu Árni Sveinsson, ekkjumaður, f. 1840 og bústýra hans, Margrét Jónsdóttir, f. 1867, (systir Ingibjargar, konu Magnúsar á Innri-Ásláksstöðum). Árni átti son fyrir, Jón, f. 1868, ári yngri en bústýran. Árni og Margrét áttu einn son, Bjarna, er varð maður Ásu Bjarnadóttur frá Vorhúsum (sjá þar). Bjarni var f. 1898 og voru því 30 ár á milli hálfbræðranna. Þegar Árni hætti að búa lagðist Móakot 2 af.

Nýibær (áður Hallandi, nú í eyði)

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Nýibær í Ásláksstaðarhverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.
ÁsláksstaðirUm aldamótin bjó í Nýjabæ Valgerður Grímsdóttir, f. 1850. Maður hennar, Kristján, var þá látinn. Þau höfðu átt dóttur, Guðrúnu, f. 1. ágúst 1872, d. 21. nóv. 1918 (úr spönsku veikinni). Guðrún hafði átt fyrir mann, Konráð Andrésson, f. 17. ágúst 1869, d. 10. sept. 1945. Valgerður Grímsdóttir átti húsið en leigði jörðina af ekkjunni Guðfinnu Halldórsdóttur, er áður hafði búið þar.
Um 1901 fóru Guðrún og Konráð að búa í Nýjabæ ásamt Valgerði, móður Guðrúnar, og höfðu þau jörðina á leigu áfram, en Guðfinna, eigandi jarðarinnar og seinni maður hennar Sigurður Jónsson voru þá húshjón á Auðnum hjá Guðmundi Guðmundssyni (sjá Auðna). Konráð byggði upp Nýjabæ árið 1911 og á meðan var fjölskyldan á loftinu á Ásláksstöðum og þar fæddist yngsta barn þeirra hjóna, Valdimar. Konráð vann hverja þá vinnu er til féll, en leigujörðin gaf aðeins af sér eitt kýrfóður. Hann fór því, eins og margir úr hreppnum á þeim tíma í kaupavinnu, og helst fór hann vestur í Dali, en þaðan var hann ættaður. Fyrstu árin fóru bæði hjónin vestur og þar fæddist fyrsta barn þeirra. Alls eignuðust þau 4 börn: 1) Kristján Níels, f. 1902, skipstjóra, bjó í Ytri-Njarðvík, d. 1985, 2) Guðrúnu, (lést ung), 3) Margréti, f. 1908, býr í Reykjavík, 4) Valdimar, f. 1911 atvinnubílstjóri, býr í Reykjavík.

Ásláksstaðir

Nýibær.

Jarðeigandinn, Guðfinna Halldórsdóttir, og seinni maður hennar, Sigurður Jónsson, vildu fá jörðina til eigin nota árið 1917. Þau voru þá búin að vera í 15 ár húshjón á Auðnum. Þegar Konráð varð að fara frá Nýjabæ, fékk hann inni á næsta bæ, Sjónarhóli, en hann átti Nýjabæjarhúsið og reif það til nota á öðrum stað. Guðfinna og Sigurður urðu því að byggja að nýju upp húsið, líkt og það er í dag. Ekki urðu þau lengi þar, því eftir tvö eða þrjú ár lést Sigurður, um 1919, og varð þá Guðfinna ekkja í annað sinn. Hún ól upp sér óskyldan dreng, Valgeir Jónsson, og fylgdust þau að meðan hún lifði. Guðfinna var mikil hannyrðakona og saumaði fyrir fólk og hafði nóg að gera. Hún seldi Nýjabæ árið 1921 og leigðu sér húsnæði eftir það meðan hún lifði.
ÁsláksstaðirKaupandinn að Nýjabæ var Sigurjón Jónsson, hálfbróðir Davíðs Stefánssonar bónda á Ásláksstöðum. Kona Sigurjóns var Guðlaug Guðjónsdóttir, systir Elísar á Efri-Brunnastöðum (sjá þar). Sigurjón og Guðlaug voru bæði dugleg og ráðdeildarsöm. Hann var lengst af vertíðarmaður í Ytri-Njarðvík, en á sumrin vann hann við búskap og hjá nágrönnum. Sigurjón var ávallt snar í snúningum þegar á þurfti að halda. Þegar Sigurjón lést árið 1955, brá Guðlaug búi og flutti til Keflavíkur og bjó þar til æviloka hjá Svövu dóttur sinni og Gesti tengdasyni sínum. Sigurjón og Guðlaug eignuðust 5 börn: 1) Svövu, bjó í Keflavík (látin), 2) Lilju, býr í Bandaríkjunum, 3) Einar Hallgrím, (lést ungur), 4) Guðjón (lést um tvítugt), 5) Karlottu, bjó í Bandaríkjunum (látin).
Næst Sigurjóni og Guðlaugu komu að Nýjabæ, Guðlaugur og Theódór, sonur hans. Þeir bjuggu þar í fá ár. Síðasti búandi þar var Guðjón Sigurjónsson og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir. Hún var frá Seyðisfirði og hann var fæddur í Reykjavík, en alinn upp á Marðarnúpi í Ásahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þau fluttu frá Nýjabæ um 1970 til Ytri-Njarðvíkur. Hann lést árið 1985. Þegar Guðjón fór frá Nýjabæ, seldi hann hreppnum forréttinn sem síðan seldi eigendum Ásláksstaða, og var jörðin þá komin til síns heima þó aldrei hafi farið langt.

Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.
Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi. Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.
Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Sjónarhóll (í eyði)

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „hómapati“ Sjónarhól. Hann var fæddur 30. jan. 1842, d. 16. ágúst 1919. Lárus var einn af 23 systkinum frá Arnardranga í Kirkjubæjarhreppi, V-Skaftafellssýslu. Kona hans var Guðrún Þórðardóttir frá Höfða ( sjá Hellna). Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum. Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott, enda fór fjölskyldan stækkandi. Lárus stundaði útgerð, en mikill tími fór í að sinna sjúklingum með hómapatískum lyfjum og meðferð, enda var hann alþekktur um suðvesturland fyrir lækningar sínar. Lárus bjó á Sjónarhóli til ársins 1889 eða í 12 ár. Hann flutti þá til Reykjavíkur og lést þar árið 1919, 77 ára gamall.
Eftir Lárus komu að Sjónarhóli, Magnús Magnússon, f. 1858 og ráðskona hans, Guðný Bjarnadóttir, f. 1850. Þau voru með fósturbarn, Guðmund Sigmundsson, f. 1895 og einnig fylgdi þeim vinnumaður, Ásmundur Guðmundsson, f. 1878.

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Síðan komu að Sjónarhóli hjónin Brynjólfur Ólafsson og kona hans, Jónína Jónsdóttir. Þau höfðu byrjað búskap í Reykjavík um 1907 en fluttu að Sjónarhóli um 1910 og bjuggu þar í 15 ár. Brynjólfur stundaði landvinnu og sjómennsku eins og títt var um þær mundir. Man ég hann sem meðalmann á hæð, herðabreiðan með dökkt hár og mikið efrivaraskegg. Sér í lagi bar á honum við kirkjuathafnir því hanri var söngmaður mikill og hafði það embætti að vera forsöngvari í Kálfatjarnarkirkju. Hann hafði mikila rödd og var leiðandi í söngnum.
Þau hjón eignuðust 4 börn: 1) Ólafíu Margréti, f. 1907 í Reykjavík og bjó hún þar síðar (látin), 2) barn er dó ungt , 3) Dagbjörtu f. 1912, bjó í Hafnarfirði (látin), 4) Ragnhildi f. 1917, býr í Reykjavík. Brynjólfur og Jónína ólu upp einn dreng, Svein Samúelsson, bróður Einars er ólst upp í Austurkoti í Vogum.
Árið 1925 var Brynjólfi boðinn kauparéttur að Sjónarhóli. Hafði hreppurinn eignast jörðina og Brynjólfur því verið leiguliði. Brynjólfur hafnaði kaupunum og flutti til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan. Kaupandi að Sjónarhóli varð Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði (bróðir Gunnlaugs kaupmanns þar). Friðfinnur átti þessa eign ekki lengi, því að á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur (sjá Halldórsstaði, Sjónarhól Vogum og Sjónarhól á Vatnsleysuströnd).
Ásláksstaðir
Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Síðar byggði hann nýtt hús árið 1929, það hús sem nú stendur. Reisulegt steinhús sem stendur suðaustur af gamla húsinu sem var orðið 43 ára gamalt og var að lokum notað fyrir gripahús. Smiður að nýja húsinu var Jón Helgason, mágur Magnúsar. Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað það að börnin voru farin að heiman. Hann var og útslitinn, með ágerandi kölkun í mjöðm sem síðar var reynt að laga í Noregi með litlum árangri. Börn Magnúsar og Erlendsínu voru: 1) Helgi (látinn), 2) Guðjón (lést ungur), 3) Ragnhildur, 4) Guðjón (nýlátinn ), 5) Anna Dagrún, 6) Guðrún Lovísa, 7) Guðlaug (látin), 8) Sigurveig, 9) Þórður, hálfbróðir (Guðríðarson), 10) Sesselja (lést barn). Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir (horfnir)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahverfi,

Um aldamótin bjuggu á Innri-Ásláksstöðum Magnús Magnússon, f. 1860, og kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1860. Þeirra börn voru: 1) Jónína, f. 1888, 2) Vilborg, f. 1891, 3) Magnús, f. 1893, 4) Guðrún, f. 1894, 5) Margrét, f. 1895. Einn son átti Magnús fyrir hjónaband, Sigurð að nafni.
Jónína átti Helga Jónsson frá Nýjabæ hjá Stóru-Vatnsleysu. Helgi fórst með m/b. Hermanni frá Vatnsleysu árið 1916. Vilborg, dóttir Magnúsar, átti Ólaf Teitsson frá Hlöðversnesi og bjuggu þau í Reykjavík. Vilborg var sérstakur velunnari Kálfatjarnarkirkju og gaf henni m.a. altarisdúk. Einn sonur Ólafs og Vilborgar var Eggert prestur á Kvennabrekku í Dölum. Ingibjörg lést á Innri-Ásláksstöðum, en Magnús kvæntist aftur og hét sú kona Eyrún. Átti hún son, Einar Hallgrímsson, er hún hafði með sér.
Magnús og Eyrún bjuggu í nokkur ár á Innri-Ásláksstöðum en fluttu síðan til Hafnarfjarðar og dóu þar. Munu þau hafa verið síðustu búendur á Innri-Ásláksstöðum og lagðist jörðin síðan undir Sjónarhól.“

Vogarétt

Sýsluréttin árið 2022.

Í Örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði segir Gísli Sigurðsson:
„Landamerkjalýsing Ásláksstaðahverfis úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu: Landamerkjalýsing þessi innibindur Ásláksstaðahverfi, en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandi (Nýibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi tilheyrir land allt, girt og ógirt, á milli Hlöðuneshverfis að sunnan og Knarrarness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær.“

Í „Athugasemdum og viðbætum Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum“ segir um Ásláksstaðasel:

Knarrarnessel

Knarrarnesel – uppdráttur ÓSÁ.

„Ásláksstaðasel á að vera austur af Hlöðunesseli milli þess og Knarrarnessels. Magnús á Sjónarhóli talaði um, að fé væri uppi í Huldum, segir Lúðvík. Friðrik gizkar á, að það séu hólar milli Hrafnagjár og Klifgjár, hægra megin við stíginn yfir Hrafnagjá. Þar er leitótt.“

Knarrarnessel

Knarrarnessel  að baki – vatnsstæði.

Í Jarðabók ÁM og PV árið 1703 segir um selstöðu Stóru Ásláksstaða: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
Um selstöðu Minni Ásláksstaða segir í Jarðabókinni 1703: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina“.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Ásláksstaðir, Guðmundur Björgvin Jónsson 1913-1998, bls. 261-272.
-Örnefnalýsing – Ásláksstaðahverfi. Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing: Athugasemdir og viðbætur Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, Gullbringusýsla – Vatnsleysustrandarhreppur, Stóru Aslaksstader og Minne Aslaksstader, bls 129-133.

Ásláksstaðir

Ásláksstaði – nokkur örnefni.

Hlíð

Í Örnefnalýsingu fyrir Hlíð (höfundur ónafngreindur) segir m.a.: „Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.

Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.
Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi.“

Hlíð

Hlíð – bæjarminjar.

Síðan er örnefnum við vatnið lýst, en auk þess segir: „Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman.“ Þórarinn Snorrason á Vogsósum upplýsti FERLIR um að ofan við Selbrekkur hafi fyrrum verið heimasel frá Vogsósum, enda í þeirra landi. Selið hafi jafnan verið nefnt Vogsósastekkur, enda voru yfirleitt ekki önnur mannvirki í heimaseljum.
„Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur [Hlíðarsel] og Stekkatún.“ Í Hlíðarseli eru greinilegar selminjar, nokkur hús, hlaðið smalaskjól og stekkur, sem stundum hefur verið nefnd Valgarðsborg, en hún ber öll einkenni stekks, þ.e. tvískipt aðhald. Skammt norðar er Hlíðarborgin, stekkkur, sem væntanlega hefur tekið við af selinu eftir að það lagðist af. Hlíðarsel er í landi Hlíðar. Þórarinn ók FERLIRsfélögum upp að Híðarborginni fyrir allnokkrum árum og benti þeim þá m.a. á seltóftirnar sunnan heiðargirðingarinnar.
„Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“

Hlíð

Hlíð, bæjarminjar.

Gísli Sigurðsson skráði örnefnalýsingu í landi Hlíðar. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.
Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins. Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Gísli Sigurðsson skráði einnig örnefni á Selvogsafrétti.

Aðalskráning fornleifa í Selvogi 2015.Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I“, sem Fornleifastofnun Íslands gerði 2015, segir m.a: um einstakar minjar í landi Hlíðar:
[Hafa þarf í huga að talsvert virðist vanta í skráninguna og hún lítt gaumgæfð. Svo virðist sem ef örnefna eða minja sé ekki getið í örnefnalýsingum þá eru þær ekki til. Lítið sem ekkert virðist hafa verið gert til að rýna svæðið á vettvangi, t.d. út frá heilbrigðri skynsemi].

Hlíð

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Jarðardýrleiki xx að sögn manna, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 463 Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lyngrif til eldiviðar bjarglegt. Silúngsveiðivon er góð og hefur oft að merkilegu gagni verið. Eggver í vatnshólmum hefur að nokkru gagni verið, en fer mjög til þurðar. Sölvafjöru og grasafjöruítak á jörðin fyrir Vogshúsalandi sem áður segir, vide Vogshús. Túnunum grandar fjallsskriður og landbrot, sem Hlíðarvatn gjörir að neðan. Engjar, sem áður voru litlar með vatninu, hefur sama vatn eyðilagt.“ JÁM II, 464

Bæjarhóll – bústaður

Ölfus

Hlíð- minnismerkií bæjarhólnum.

„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn fór í eyði árið 1906.
Slétt grund sem nær allt frá vatnsborðinu og upp að fjallsrótum. Þjóðvegurinn liggur um túnið um 70 m norðan við bæjarrústirnar. Enn er nokkur rækt í túninu. Það er ekki slegið, ógirt og sækja kindur í það. Veiðihús stendur á vesturenda bæjarrústanna og hefur sennilega raskað þeim að litlum hluta en miklar rústir eru á hólnum austan við húsið. Hefur bæjarröðin legið frá austri til vesturs og bærinn snúið með framhlið í suður.

Kirkjuhóll – bænhús

Kirkjuhóll

Kirkjuhóll (Bænhúsahóll).

„Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki vitað hvar Bænhúshóll var. Yfirleitt voru kirkjur og bænhús í næsta nágrenni við bæjarhóla og með hliðsjón af því er helst að giska á ávalan hól í túni fast austan við bæjarhól. Óslegið tún. Hóllinn er sporöskjulaga og nokkuð ávalur en ekkert rústalag á honum, 15-20 m í þvermál. Enginn annar hóll virðist líklegri.

Hlíðarsel – sel [Vogsósasel]

Vogsósasel

Vogsósastekkur  ofan við Selbrekkur (heimasel).

„…suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman,“ segir í örnefnalýsingu. Í annarri lýsingu segir: „Selbrekkur. Á þeim stað könnuðust þeir [heimildamenn í Stakkavík] við Stekkjardældir.“ Engar dældir eru suður frá Selvogsréttum en hins vegar eru grösugar brekkur og dældir um 300 m austur af þeim og hlýtur að vera átt við þann stað. Þetta er rétt tæpan 1 km SA af bæjarhól. Vel grónar og fallegar valllendisbrekkur og -dældir mót vestri og gróin grund þar niður af.
Eina tóftin sem þekkt er á þessum slóðum er sú sem Þórarinn Snorrason í Vogsósum nefnir Vogsósastekk. Þess má geta að Ómar Smári Ármannsson hefur kallað aðrar tóftir Hlíðarsel. Sú túlkun er ekki útilokuð þótt tóftirnar teljist of langt í burtu til að passa við lýsingu örnefnaskrár.
[Þeir, sem lesið og metið hafa örnefnalýsingar, vita að þær eru takmarkandi, misvísandi og jafnvel rangar. Þær ber ávallt að taka með fyrirvara, þ.e. ekki allt of bókstaflega. Í heimildum eru framangreindar Selbrekkur nefndar Vatnsdalur upp af Selvik, ofan Réttartanga. Gísli minnist ekki á Hlíðarborg, einungis Hlíðafjallsbrekkur og Hlíðargil, sem þar eru efra. „Sunnan undir þeim eru Selbrekkur. Skammt suðaustar er Hlíðarsel“. Þ.S.]

Borgaskörð – fjárskýli

Borgarskarðsborg

Borgarskarðaborg – neðri fjárborgin.

„Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar,“ segir í örnefnalýsingu. Undir skörðunum er tóft sem skörðin gætu hafa dregið nafn sitt af, um 130 m austur af stekk. Hlíðarborg og Valgarðsborg eru sunnar.
Lyngmói, sumsstaðar með hraunnibbum og -hólum. Hlíðargata liggur áfram til austurs fast sunnan við tóftina.
Tóftin er í háum og gróskumiklum valllendishól sem er nokkuð áberandi og sést vel að. Hún er lítið uppbyggð en að mestu leyti grafin niður í hólinn. Hann sjálfur er nokkuð hringmyndaður en hólfið er aftur næstum ferkantað. Mögulegt er að byggingin hafi upphaflega verið fjárborg en síðan verið endurbyggð sem fjárhús.

Hlíð

Borgarskarðaborgin efri.

[Önnur fjárborg, miklu mun eldri, er skammt ofar, enda jafnan talað um Borgarskarðaborgir. Hún er nánast jarðlæg, en þó má enn sjá móta fyrir hringlaga hleðslum í henni.]

Stekkatúnsbrekkur – stekkur

Stekkur

Stekkur í Sekkjatúnsbrekkum.

„Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún,“ segir í örnefnaská. Stekkjartóft er einmitt á þessum stað, undir Hlíðarfjalli um 600 m ANA af bæjarhól. Smákvos í lyngmóa sem víða er grasi gróinn. Hraunnibbur stingast upp úr hér og þar og talsvert er um stórgrýti. Hraunhólar eru suðaustan við stekkinn. Varla er hægt að segja að túnblettur sé kringum stekkinn. Ljómandi falleg tóft, byggð utan í jarðfasta kletta. Hún er tvískipt og L-laga, alls um 9×8 m stór.
Rekið hefur verið inn að sunnanverðu í dálitla rétt sem er um 7×5 m stór frá norðri til suðurs að utanmáli. Klettarnir mynda norðurgafl réttarinnar. Úr henni er svo op til vesturs, nyrst við klettana, í heldur þrengri kró sem er rúmlega 4×3 m stór frá austri til vesturs. Mikið grjót sést í innanverðum veggjum sem eru mest um 1 m háir.

[Sagan segir að þarna hafi hokrað maður stuttan tíma og að Borgarskarðaborgirnar hafi tengst búrekstrinum – ÞS.]

Hlíðargata – leið

Hlíðargata

Varða við Hlíðargötu.

„Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu,“ segir í örnefnaskrá. Gatan sést enn vel austan túns, t.d. um 390 m austur af bæ en einnig fast við stekkjartóftina. Grónar valllendiskvosir eru næst fjallinu en síðan tekur við lyngmói í gömlu hrauni. Greinilegur kindatroðningur liggur til austurs inn með fjallinu og sést vel víðast hvar. Sennilega eru það leifar af gömlu Hlíðargötunni. Að sögn Þórarins Snorrasonar var ekki fært með hesta upp Hlíðarskarðið og því oft farið inn með fjallinu og síðan til norðurs.

Dísurétt

Dísurétt.

[Ofan við Borgarskörðin er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.]

Hlíðarborg – fjárskýli

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Hlíðarborg er fjárborg úti í hrauninu 1,7 km austan bæjarhóls. Hún er um 150 m norðan við girðingu sem liggur frá skilaréttinni við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Borgin er byggð vestan í hraunhól, sem er klofinn eftir endilöngu, og þjónar hraunið sem austurveggur. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Borgin sjálf er nokkurn veginn hringlaga, alls um 13×14-15 m að stærð. Veggir eru allir hrundir og mikið grjót í þeim, einna minnst þó að norðanverðu og þar er hleðslan best gróin. Ekki sjást dyr á borginni. Mannvirkið er mjög óvenjulegt að því leyti að tóft, sennilega af fjárhúsi, er inni í borginni og fyllir út í hana að mestu, alls um 6×5 m stór frá NA-SV. Sennilega er hún yngri en borgin og heldur meiri gróska er í veggjum hennar en borgarinnar. Hleðsla er fyrir húsdyrum, um 3 umför af stórum og þykkum hellum og er það að heita má eina heillega hleðslan í tóftinni. Hlaðið hefur verið frá norðausturhluta hústóftarinnar að klettinum sem er austar og er hleðslan um 3-4 m löng. Hvorki sést garði né jötur í fjárhúsinu og ekki hlaða heldur.

Valgarðsborg – sel [Hlíðarsel]

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Tóftir eru tæpa 300 m suður af Hlíðarborg, á allgrösugum bletti vestan í klettahól. Sennilega eru þær nálægt mörkum móti Vogsósum en þau liggja úr Nefjavörðu austur í Hellholt. [Línan í Hellholt er mun sunnar]. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Milli Hlíðarborgar og umræddra tófta liggur girðing allt frá skilarétt við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Tóftirnar eru a.m.k. þrjár [dæmigert fyrir sel á þessu landssvæði] og ná yfir svæði sem er rúmlega 30×30 m stórt. Nyrst er greinileg en vallgróin tóft, dálítið grafin inn í brekkuna. Hún er einföld, um 7×5 m stór frá norðri til suðurs og dyr heldur sunnar en fyrir miðjum vesturvegg. Dýpt nemur allt að rúmum 1 m. Nokkrar dældir eru norðan og norðvestan við tóftina og gætu þar leynst fleiri mannvirki eða útbyggingar. Um 8 m austar, uppi á hól, er hleðsla, sem gæti verið yngri, sennilega refagildra. [Hleðslan ber engin einkenni refagildru]. Þetta er grunnur að hlöðnu hólfi sem er um 1,5 x 0,8 m stórt NA-SV og snýr op í SV. Hleðslan er aðeins eitt umfar og um 0,2 m há.

Hellir – fjárskýli [Áni]

Áni

Áni – fjárskjól.

Fjárhellir er úti í hrauni undir Borgarskörðum og um 1 km austur af bæjarhól. Hann er um miðja vegu milli Hlíðarfjalls og girðingar sem liggur frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell. Hálfbert hraun. Hellisopið snýr mót norðaustri. Það er einfaldlega skúti, fyrst nánast beint niður og svo innundir hraunhelluna til suðvesturs. Laglega hefur verið hlaðið um munnann á allar hliðar en þó er hægt að komast að honum úr austri. Hleðslan er úr hraungrýti og myndar hólf sem er hér um bil ferkantað og um 4,5×3 m að stærð SV-NA. Hleðslan er hæst að suðvestan, allt að tæpur 1 metri. Lítil varðaer á hleðslunni að suðvestan og að auki liggur einföld hleðsla um 3 m til suðvesturs frá hólfinu. Ekki var farið niður í hellinn en hann sýnist manngengur.

Hellir

Fjárskjól ofan Ána.

[Annar svipaður fjárhellir er skammt norðar. Hleðslur eru við opið.]

[Hlíðardalur – tóft

Hlíðardalur

Tóft í Hlíðardal.

Í heimildum er getið um Sælubunu við Selvogsgötuna (Suðurferðaveginn). Þar segir m.a.: „Hlíðardalur stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar.“
Í Hlíðardal er greinileg tóft. Sjá má móta fyrir grunnsteinhleðslum í grónum aflíðandi hvammi.]

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls 240-250.
-Selvogsafréttur, Árnessýsla – Selvogshreppur, Örnefnalýsing
-Hlíð – Örnefnalýsing.
-Hlíð í Selvogi, Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing.

Hlíðarsel

Hlíðarsel.

Hrafnabjörg

Hér á eftir verður fjallað um meint bæjarstaði Hrafnabjarga og Litla-Hrauntúns í Þingvallahrauni. Ýmsar fræðilegar skýringar hafa komið fram á hvorutveggja í gegnum tíðina, bæði frá sjálfskipuðum lærðum með skírskotun til „fræðigreina“ sem og bara forvitnum um landsins hagi í gegnum tíðina.

Sleðaás

Þingvallaréttin við Sleðaás.

Að þessu sinni lögðu FERLIRsfélagar land undir fót frá Sleðaási, skoðuðu selsminjar Litla-Hrauntúns sem og Hrafnabjarga í Þingvallahrauni, tóftir beggja bæjanna og nálægar fornar leiðir um hraunið. Hitinn var um 25 °C og nánast logn. Flugan var til óþæginda, en takmarkaði hins vegar ekki áhugan á efninu.

Í Jarðabókinni 1703 fjalla Árni Magnússon og Páll Vídalín um bæina Hrafnabjörg og Litla-Hrauntún í Þingvallasveit í Árnessýslu: „Á Hrafnabjörgum hefur verið kallað norðan undir sjálfum Hrafnabjörgum c: Hrafnabjargarfjalli, eru ummæli að þar hafi verið hálfkirkja eður þriðjúngakirkja.
Sagt er að fyrir pláguna stóru hafi í allri Þingvallasveit verið 50 býli, og að Hrafnabjörg hafi þá staðið í miðri sveit (fyrst ritað Fífilvellir, en breytt af Árna í Fíflavellir).“

Grímastaðir

Grímastaðir – uppdráttur BJ.

„Vestur frá Hrafnabjörg sést votta fyrir gömlum bœjarrústum; þar vottar og fyrir því, að tún hafi þar getað verið, og þar er gjóta eða hola, sem litr út fyrir að hafa verið brunnr. Í Ármanns sögu er talað um bœ undir Hrafnabjörgum. Það er kemur til ákvæðis sögunnar „suðr frá Klyftum“, þá ætti það jafnvel betur við, að þetta væri hinir fornu Grímsstaðir, enn þetta verður ekki ákveðið. “ (Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 43.)

„Kluftir (sandkluftir) eru milli Ármannsfells og Mjóufjalla, Suður frá Kluftum er skógi vaxið hraun til Hrafnabjarga. En það hraun er vatnslaust og því eigi byggilégt.
Í Hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Hún er að vísu nokkuð óglögg; þó má sjá, að í henni eru 2 miðgaflar, er skipta henni í 3 herbergi, sem hvert um sig er nál. 3 fðm. langt. Hin liggur nál. frá austri til vesturs og hefir vestasta herbergið dyr á vesturenda, en hin sýnast að hafa dyr á suðausturhliðinni. Breiddin á tóftunum er nál. 3 fðm. Við norðurhliðina vottar fyrir annari tóft, er einnig hefir dyr á vesturenda. Norðanmegin við þær er lítil tóft með dyr mót norðri. Svo sem 20—30 fðm. norðar er sérstök tóft, talsvert minni. Hún er tvískift, og er það glögt, að miðgaflinn er dyvalaus. Hefir austurherbergið dyr á suðausturhlið, en hitt á vesturenda. Lengd hvors um sig er nál. 2x 1/2 fðm., breiddin um 2 fðm. Þetta gæti vel verið heimahof. Stekkur gæti hún raunar líka verið, en er þó of lítil til þess á þessum stað; því hér verður að gera ráð fyrir mörgu sauðfé; tún hefir ekkert verið og þá ekki heldur kýr.
Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5.) að Grímsstaðir, Þav sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880—1, bls. 43. (Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904, Brynjúlfur Jónsson, bls. 44-45.)

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – uppdráttur BJ.

Hrauntún hefur verið kallað örnefni eitt í skóginum, sem munnmæli eru að bygt hafi verið fyrir pláguna, meinast síðan í plágunni í eyði lagts hafa og allajafna síðan í aun verið. Hefur hjer í þessu takmarki selstaða verið frá Þingvöllum svo lángt fram sem menn til muna og er enn nú, og vita menn ekkert hjer um að undirrjetta.
Anað Hrauntún hefur verið kallað verið í skóginum í norðaustur frá þessu og skamt eitt þr frá, og sjer til girðinga svo sem af túngarði. Meinast þetta hrauntún eins bygt verið hafa fyrir pláguna sem hið fyrra, en hver bæði Hrauntúnin hafi undir eins bygð verið, eður hafi bærinn verið fluttur verið og bíhaldið svo nafninu, það hafa menn ekki heyrt, og meinast þetta Hrauntúnið með sama móti eyðst hafa í plágunni sem hið fyrra. Hjer um vita menn ekki heldur framar að segja.“ (Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 45.)

Í BA-ritgerð Gunnars Grímssonar í fornleifafræði; „Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum“, árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi: „Þingvellir eru einn merkasti sögustaður Íslands. Þar var alþingi háð frá um 930 til 1798 eða í hartnær átta aldir. Fyrsti þjóðgarður landsins var stofnaður á Þingvöllum. Voru lögin um þjóðgarðsstofnun samþykkt 1928 og tóku þau gildi 1930 þegar haldið var upp á þúsund ára afmæli alþingis. Íslenska lýðveldið var formlega stofnsett á Þingvöllum 17. júní 1944 (Björn
Þorsteinsson, 1986). Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 vegna sögu og fornleifa staðarins auk gildis þeirra sem „helgistaðar þjóðarinnar“ (UNESCO, 2004).
Þingvellir
Þrátt fyrir langa sögu og miklar minjar hafa fornleifarannsóknir innan þjóðgarðsins á Þingvöllum verið færri en ætla mætti. Fjölmargar minjar hafa verið skráðar innan þinghelginnar (Sigurður Guðmundsson, 1878; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Guðmundur Ólafsson, 1986; Margrét H. Hallmundsdóttir, óútgefið) en lítið hefur verið um eiginlega fornleifauppgrefti, sem hafa flestir verið tiltölulega smáir í sniðum (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Adolf Friðriksson o.fl., 2006; Orri Vésteinsson, 2004; Margrét H. Hallmundsdóttir og Hansen, 2012). Rannsóknirnar hafa þá mestmegnis beinst að minjum innan þinghelginnar en ekki hefur verið fjallað eins mikið um minjar utan hennar, sem eru leifar eyðibyggðarinnar á Þingvöllum.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – sel?

Eyðibyggðarinnar er helst getið sem eins konar viðauka við umfjöllun um alþingisstaðinn (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1945) en hún er sjaldan í aðalhlutverki (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og heildstæða samantekt vantar. Aðeins hefur verið grafið á einum stað í þjóðgarðinum utan þinghelginnar, svo vitað sé (Brynjúlfur Jónsson, 1895). Hugmyndir um eðli og umfang eyðibyggðarinnar á Þingvöllum eru því langt frá því að vera fullmótaðar.

Helstu ritheimildir sem stuðst er við eru Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Árnessýslu (2. bindi, JÁM II), sóknarlýsing Þingvalla árið 1840 (Björn Pálsson, 1979), rannsóknarferð Brynjúlfs Jónssonar fornfræðings um Árnessýslu árið 1904 (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson þjóðminjavörð frá 1945 (Matthías Þórðarson, 1945).
Örnefni eru einnig afar mikilvægar heimildir í þessari ritgerð en helstu heimildarmenn í þeim efnum eru Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni (1932, 1939) og Pétur Júlíus Jóhannsson frá Skógarkoti (1983). Pétur merkti á sjöunda hundrað örnefna inn á loftmyndir á 9. áratug seinustu aldar ásamt því að skrifa ritgerðina Þingvallaþankar (Pétur J. Jóhannsson, e.d.). Framlag Péturs er ómetanleg heimild um sögu Þingvallasveitar. Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður hefur tekið saman örnefnaskrár Péturs, Ásgeirs auk fleiri heimildarmanna í sérstaka örnefnaskrá þjóðgarðsins og afhent Landmælingum Íslands, sem hefur gert þau aðgengileg.

Prestatígur

Prestatígur um Þingvallahraun – ÓSÁ.

Í Jarðabókinni er skrifað um tvö Hrauntún í Þingvallasigdældinni. Í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 er Hrauntúnið síðarnefnda sagt „suður af Mjóafelli“ og kallað Litla-Hrauntún, til aðgreiningar frá hinu fyrrnefnda (Björn Pálsson, 1979, bls. 183) sem var þá komið í byggð á nýjan leik. Litla-Hrauntún á sér enga sögu og féll því í skuggann af Grímsstöðum og Hrafnabjörgum hjá fornfræðingum. Sigurður Vigfússon (1881) minnist þannig ekki einu orði á eyðibýlið. Brynjúlfur Jónsson tileinkar Litla-Hrauntúni fjórar setningar í lok umfjöllunar sinnar um Hrafnabjörg en þar er honum mest umhugað um staðsetningu hinna fornu Grímsstaða.
Á 20. öld er Litla-Hrauntún merkt inn á mismunandi stöðum á kortum en aldrei sérlega nákvæmlega. Guðmundur Davíðsson, sem síðar varð fyrsti umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, hefur á orði í dagblaðsgrein hvað honum þyki „óviðfelldið“ hve mikið finnst af röngum örnefnum á korti dönsku herforingjastjórnarinnar; bæði séu nöfnin „afbökuð og færð úr stað“ að hans mati (Guðmundur Davíðsson, 1921, bls. 1). Guðmundur segir Litla-Hrauntún vera „[…] langt norður á Þingvallahrauni, u.þ.b. mitt á milli Ármannsfells og Hlíðargjár“ (1919, bls. 67).

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.

Í annarri dagblaðsgrein bætir Guðmundur við að Litla-Hrauntún sé í útjaðri skógarins og þar eru tóftir tveggja fornra bæjarstæða, sem heita hvort tveggja Litla-Hrauntún (1934, bls. 54). Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir Litla-Hrauntún sunnan á Mjóafellshrauni og þar sjáist „auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur“ (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 151). Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti segir Litla-Hrauntún skammt austan Víðivalla, sem eru við rætur Ármannsfells.

Prestastígur

Prestastígur.

Samkvæmt Pétri liggur leið fram hjá bæjarrústunum yfir Prestastíg (Gunnar Þórisson og Pétur J. Jóhannsson, 1983, bls. 182) en almenn málvenja á Þingvöllum er að kalla stíg aðeins þann hluta leiðar sem liggur yfir gjá. Því er ekki útilokað að fleiri en ein leið liggi yfir sama svokallaða Prestastíg, sem fer yfir Hlíðargjá. Í ritgerð sinni Þingvallaþönkum segir Pétur ennfremur að Litla-Hrauntún sé á milli gömlu og nýju sauðfjárveikigirðinganna (Pétur J. Jóhannsson, e.d., bls. 14). Nákvæmasta lýsingin af rústum Litla-Hrauntúns kemur frá Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði en hann lýsir þeim svo árið 1945: „Nyrzt er Hrauntún, nefnt Litla-Hrauntún. Sér þar fornar tóftir á 3 stöðum, og kemur það nokkurn veginn heim við frásögn Árna Magnússonar í jarðabók hans […] Sjá má greinilega hvort-tveggja bæjarstæðið, sem átt er við, og eru á hinu fyrra nýlegri tóftir, enda seltóftir frá síðari öldum, um 100 m. eru í milli. Á eystri staðnum er ein fornleg bæjartóft, sem skipt er í þrennt. – Um 40 m. fyrir norðan vestari tóftirnar eru hinar þriðju; aflöng, ferhyrnd tóft, mjög fornleg, skiptist í tvennt, og 6 m. fyrir vestan hana hringmynduð tóft. Sennilega hefur hér verið sel. – Það er lítt hugsanlegt, að hér hafi verið 2 byggð býli samtímis, en séu hér raunar 2 bæjarstæði, mun síðari bærinn hafa verið byggður einhvern tíma eftir að hinn fyrsti hafði farið í eyði. (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 81–82).

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún – bæjarstæðið.

Hér er líklegt að nafngiftir Hrauntúns og Litla-Hrauntúns hafi haft áhrif á lýsingar“.
Guðmundur Davíðsson og Matthías Þórðarson gætu hafa túlkað texta Jarðabókarinnar sem svo að verið sé að lýsa tveimur Hrauntúnum á einum stað og túlka því Litla-Hrauntún sem tvíbýli. Einnig er óvíst hvort það sem Kolbeinn Guðmundsson (1952) kallar Gamla-Hrauntún eigi við um Litla-Hrauntún eða hitt Hrauntúnið, sem aftur byggðist upp á 19. öld (sjá bls. 27).
Auk þess segist séra Guðmundur Einarsson, sem var prestur á Þingvöllum árin 1923–1928, hafa séð skálabyggingu fornmanna „[…] norðaustur í hrauninu frá Hrauntúni að sjá“, sem hann telur „víst að sé innan girðingarinnar“ (Guðmundur Einarsson, 1938). Ef meint skálarúst Guðmundar er innan gömlu girðingarinnar (sem nú hefur verið breytt í reiðgötu) gæti hún ef til vill verið af hinu svokallaða Gamla-Hrauntúni, eða verið allt annað, óþekkt bæjarstæði.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; bæjarstæðið.

Einnig gæti Guðmundur hafa átt við rústir Gamla-Stekks, sem er sagður skammt austan Hrauntúns (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 156). Ef skálarúst Guðmundar er ekki innan gömlu girðingarinnar (og er í raun skálarúst) eru líkur til þess að hún sé í Litla-Hrauntúni.

Prestastígur

Prestastígur (Hrafnabjargarvegur).

Hópurinn Ferlir leitaði að Litla-Hrauntúni og staðsetti árið 2011 meintar rústir norðan yngri girðingarinnar, við leið sem liggur yfir Hlíðargjá og er líklega svonefndur Prestavegur eða Hrafnabjargavegur (Ómar Smári Ármannsson, 2011a). Hekla Þöll Stefánsdóttir, þá landvörður á Þingvöllum, gekk skipulega um landsvæðið austan Víðivalla og norðan yngri girðingarinnar 2013 án þess að koma auga á neitt (Einar Á. E. Sæmundsen, munnleg heimild, mars 2017). Sá sem þetta skrifar gekk í landvörsluvinnu sjálfur skipulega um landsvæðið sunnan girðingarinnar í apríl 2017 í leit að Litla-Hrauntúni, án árangurs.
Nokkur óvissa ríkti um staðsetningu Litla-Hrauntúns: rústirnar eru jafnt sagðar norðan þjóðgarðsgirðingarinnar og sunnan hennar og einnig við leið sem liggur yfir Hlíðargjá um Prestastíg. Svæðið þar sem Ómar Smári Ármannsson merkir Litla-Hrauntún var kortlagt með flygildi í júlí 2017 en þar var ekki hægt að koma auga á rústir á loftkorti og yfirborðslíkani.

Til að taka af allan vafa um staðsetningu Litla-Hrauntúns voru um 3,2 ferkílómetrar lands kortlagðir báðum megin yngri girðingarinnar sem og sunnan undir Mjóafelli snemma sumars 2018.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; bærinn.

Miðað var við lýsingu Matthíasar Þórðarsonar (1945, bls. 81–82) að mannvirkin væru á þremur stöðum, þar sem 100 metrar væru milli fyrsta og annars staðarins og sá þriðji 40 metrum norðan hins fyrsta. Slíkt bar góðan árangur, því við einn grasblettinn í hrauninu sunnan girðingarinnar mátti greina daufa ferhyrnda upphækkun sem líktist mannvirki og út frá henni var hægt að staðsetja allar rústir Litla-Hrauntúns.

Litla-Hraunntún

Litla-Hrauntún; seltóft.

Rústin sem sást fyrst er sú, sem Matthías Þórðarson kallar „seltóftir frá síðari öldum“ en segir þær „bera nú með sér, að þar hafi ekki verið sel æði-lengi“ (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 81). Rústin situr ofan á lágri hæð og um 20 metrum suðvestar er grasblettur, sem Ásgeir Jónasson (1939) hefur eflaust átt við. Mögulega gæti þetta stutt túlkun Matthíasar Þórðarsonar að þarna sé sel. Fleiri minjar gætu leynst í nærumhverfi „seltóftanna“. Um 115 metrum austan „seltóftanna“ er rústin, sem Matthías Þórðarson kallar „fornlega tóft“ og segir skiptast í þrennt (mynd 24, miðdálkur). Ekki er auðvelt að færa rök með eða á móti Matthíasi þar sem rústin er mjög gróin og norðurhluti hennar virðist vera kominn undir birkirunna. Trjágróðurinn gerir það einnig að verkum að erfitt er að átta sig nákvæmlega á stærð rústarinnar en hitamyndavélin gat greint hitaójöfnur í gegnum laufskrúða
trjánna. Þriðji minjastaðurinn er um 40 metra norðan „seltóftanna“ og þar eru a.m.k. tvær rústir. Sú stærri er aflöng og tvískipt, snýr SA–NV og er kölluð „mjög fornleg tóft“ af Matthíasi Þórðarsyni.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg; bærinn.

Bærinn undir Hrafnabjörgum, sem er jafnan einfaldlega kallaður Hrafnabjörg líkt og fjallið sjálft, varð síðar að yrkisefni í Ármanns sögu yngri, sem er samin á seinni hluta 18. aldar upp úr Ármanns rímum. Þar sem Hrafnabjörg eru ekki nefnd í rímunum er vel hugsanlegt að höfundur Ármanns sögu hafi tekið sér skáldaleyfi með bæinn, sem er þá kominn vestur undir Skjaldbreið. Þar er Hallketill nokkur, leysingi Ketilbjarnar gamla, sagður búa en hann flutti þangað eftir að honum þótti of þéttbyggt í Laugardal (Íslendinga sögur XII, bls. 423).
Í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 er bærinn sagður vestan Hrafnabjargafjallsins og þá höfðu munnmæli Jarðabókarinnar um hálf- eða þriðjungakirkju þróast upp í stæðilega kirkju, sem þótti „ekki all-lítil“ (Björn Pálsson, 1979, bls. 186, 192).

Þingvallahraun

Vörður á Klettaborg í Þingvallahrauni.

Matthías Þórðarson lætur sér fátt um finnast um kirkjumunnmæli í kringum tvískiptu tóftina, sem honum finnst „allsendis ósennileg“ en hann lýsir Hrafnabjörgum svo: „Þá er bæjarstæði fornt skammt í útnorður undan Hrafnabjörgum. […] Aðalbæjartóftin skiptist í þrennt. Við norðurhlið hennar vottar fyrir annarri tóft, og hinni þriðju norðan við hana. Um 50 m. norðar er enn tvískipt tóft. (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 82).
Líkt og með Litla-Hrauntún hefur bærinn undir Hrafnabjörgum verið staðsettur á margvíslegum stöðum á kortum. Brynjúlfur Jónsson segir Prestaveg (sem hann kallar Prestastíg) liggja norður fram hjá bæjarrústinni (1905, bls. 47). Guðmundur Davíðsson, umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, getur þess árið 1934 að einstaka birkirunnar vaxa í grennd við bæinn en annars er landsvæðið að hans sögn „ömurlegt og óbyggilegt“ (1934,
bls. 53).

Prestastígur

Prestastígur.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1961 heitir bæjarrústin Hranavellir og er sögð „vestur af norðurenda Hrafnabjarga“ (Haraldur Matthíasson, 1961, bls. 132). Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti getur þess í örnefnaskrá Grímsnessafréttar að bæjarrústir Hrafnabjarga (sem hann kallar Hrafnabjargavelli) séu í litlu dalverpi fyrir framan örnefnið Kræklubrún („Grímsnesafréttur“, e.d., bls. 3). Bróðir hans, Pétur J. Jóhannsson (1983, bls. 182–183), segir rústirnar skammt norðan hesthústóftar Grímsnesinga, sem er við núverandi sauðfjárveikigirðingu suðaustan Prestastígs. Þess má geta að það er vatnsból við hesthústóftina, sem helst fram eftir sumri. Meintar bæjarrústir Hrafnabjarga voru staðsettar í ferð Ferlis árið 2011 (Ómar Smári Ármannsson, 2011). Voru þar skrásett möguleg mannvirki á tveimur stöðum við hraunkrika, sem virðast hafa að mestu farið á kaf undir malarjarðveg úr
leysingarfarvegi (Ómar Smári Ármannsson, munnleg heimild, 4. október 2019).

Presthóll

Tóft við Presthól við Prestastíg.

Út frá ritheimildum átti eyðibýlið að liggja við Prestaveg upp við örnefnið Kræklubrún. Bæjarrústin átti að vera 15–17 metrar að lengd, með gjótu austan hennar og tvískiptu mannvirki 30–40 metrum norður af bænum. Hrafnabjörg hafa þó verið merkt á margvíslegum stöðum og því ríkti mikil óvissa um hvaða heimildir væru áreiðanlegar.“
Ennfremur: „Á Hrafnabjörgum er fyrst að nefna bæjarrúst, sem snýr hér um bil austur–vestur og er um 16×6,5 metrar að stærð. Á norðurhliðinni er lítil viðbygging, um 4×3 metrar að stærð og trjárunni vex í henni miðri. Útveggir rústarinnar eru augljóslega bogadregnir og af útliti hennar að dæma er hér líklega um að ræða dæmigerða skálabyggingu.

Prestastígur

Prestastígur.

Ekki er þó öll sagan sögð en einnig sést móta fyrir annarri, smærri byggingu innan hennar, u.þ.b. 13×4,5 metrar að stærð og skiptist í þrjú hólf. Hugsanlega eru þetta leifar selstöðu sem hefur verið reist ofan á skálarústinni seinna meir, rétt eins og túlkað hefur verið á Grímsstöðum. Það virðist sem Brynjúlfur hafi teiknað rústirnar upp líkt og þær séu eitt og sama mannvirkið. Ekkert vatnsból sást við rústirnar en lítil gjóta um 20 metrum suðaustan þeirra gæti hafa verið brunnurinn, sem Brynjúlfur Jónsson og Sigurður Vigfússon áttu við. Ekkert vatn var þó í gjótunni og hún var hulin trjágróðri að stórum hluta.

Hrafanabjörg

Hrafnabjörg – bærinn.

Norðan skála- og seljarústanna svokölluðu er lág brekka og þar var hægt að staðsetja þrjár aðrar rústir á vettvangi. Um 30 metrum norðan bæjarrústanna er tvískipta tóftin, sem munnmæli um hálfkirkju eða þriðjungakirkju í Jarðabókinni eiga við og Brynjúlfur Jónsson stingur upp á að væri annaðhvort heimahof eða stekkur. Ekki er minnst á hinar tvær smátóftirnar í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og Matthíasar Þórðarsonar. Báðar þeirra virðast hringlaga eða ferkantaðar og 3–4 metrar í þvermál. Sú eystri er greinilegri, með inngang til suðurs og frá henni liggur lítill slóði í átt að bæjarrústunum.
Gróft kolalag var í innanrými rústarinnar á um 35 sm dýpi. Sú vestari virðist einnig hafa inngang til suðurs og í innanrými hennar var torfhrun blandað gjóskulögum sem hafa ekki verið greind. Birkirunnar vaxa í veggjum rústanna en ekki í innanrýmum þeirra. Frekari rannsókna er þörf til að meta heildarumfang og hlutverk þessara rústa en trjágróðurinn gæti mögulega hulið fleiri verksummerki.

Í Litla-Hrauntúni eru a.m.k. fjögur mannvirki á þremur stöðum. Á einum staðnum er mannvirki sem skiptist í tvö hólf. Hugsanlega eru þetta seljarústir. Á öðrum staðnum er aflangt, tvískipt mannvirki, sem er mögulega með bogadregna útveggi. Rúmlega hundrað metrum austar er annað aflangt mannvirki.

Á Hrafnabjörgum eru leifar mannvirkis sem hefur einkenni dæmigerðrar skálabyggingar með viðbyggingu á norðurhlið. Innan veggja þess vottar fyrir útlínum annars mannvirkis. Gæti það verið sel, sem hafi verið reist ofan á skálarústunum svokölluðu.“

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – tóftir.

FERLIRsfélagar hafa skoðað framangreinda minjastaði í Þingvallahrauni. Sunnan girðingar er umlykur Þingvallasvæðið eru selsminjar, í svonefndu Litla-Hrauntúni. Þar má greina þrjár tóftir og eru um 115 metrar á milli þeirra. Norðan girðingarinnar, við Prestastíg, eru fornar hústóftir og garðar; líklega hið forna bæjarstæði Litla-Hrauntúns. Milli selsins og bæjarins er klettaborg með tveimur vörðum, sem ekki virðast hafa verið fornleifaskráðar. Vörðurnar eru ágætar vísbendingar á milli minjastaðinna fyrrum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Framangreind staðsetning á Hrafnabjörgum er augljós selstaða; þrískiptar tóftir og stekkur. Hliðstandandi lýsingar eru af vatnsstæðinu þar sem nú eru rústir leitarmannakofa frá síðustu öld. Umleikis þær eru einu vísbendingarnar um fornfæri;  tvær mosavaxnar vörður.
Bærin á Hrafnabjörgum var mjög líklega við lækjarfarveg ofan úr fjallinu. Þar sér fyrir tóftum og görðum, sem nú eru að mestu komnar undir sandaura lækjarins. FERLIR teiknaði þær upp fyrir u.þ.b. tuttugu árum, en nú virðast þær nánast horfnar af yfirborði jarðar.

Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8. mín.

Heimildir:
-Jarðabókin 1703, Árni Magnússon og Páll Vídalín, Árnessýsla, bls. 363.
-(Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 43.)
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904, Brynjúlfur Jónsson, bls. 44-45.
-Matthías Þórðarson. (1922). Fornleifar á Þingvelli. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1921–1922, 1–107.
-Háskóli Íslands, Fornleifafræði; Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél. Ritgerð til B.A.–prófs í fornleifafræði –
Gunnar Grímsson, maí 2020 – https://skemman.is/bitstream/1946/35509/1/Kortlagning_eydibyggdarinnar_a_thingvollum.pdf

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg undir Hrafnabjörgum.

Þingvellir

Björn H. Bjarnason fjallar í hugi.is um gamlar götur og komu Friðriks VIII Danakonungs hingað til lands árið 1907:

Inngangur

Konungsvegur

Friðrik VIII.

„Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.
Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana “Ísland 1907.”
Konungskoma
Áhugavert er að skoða ljósmyndir teknar þessa sumardaga, pípuhattar í öllum áttum og harðkúluhattar, barðastórir kvenhattar, upphlutur og skotthúfur, skautbúningur og möttull. Í bakgrunninum voru derhúfur en á húfum lúðurþeytara voru sérstakir borðar. Allir báru höfuðföt sem er hyggilegt enda fer að sögn veðursérfræðinga 75% af hitatapi líkamans um höfuðið.
Svo voru það skínandi einkennisbúningarnir. Myndir frá þessum tíma eru allar í svart/hvítu og þess vegna heldur maður kannski að í gamla daga hafi allt verið svo leiðinlegt. Svo var þó ekki ef marka má allar sögurnar og eitt er víst að þarna var ekki litlaus hópur á ferð, öðru nær.
Tildur segjum við í dag á stíllausri öld, en gleymum því ekki að á bak við stífa framkomu þessa fólks leyndist oft hörkudugnaðar. Það er meira en að segja það að fara í 7 daga hestaferð á Íslandi að viðbættum íþyngjandi ræðuhöldum, ofáti og skjalli hvers konar sem sterk bein þarf til að þola. Auk þess var mikil pólitísk spenna í loftinu vegna sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Frá Reykjavík á Þingvöll
Konungsvegur
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir. Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á leið til Þingvalla.

Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi. Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.
Konungsvegur
Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Daníelsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
Konungskoman
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907, m.a. danskir sjóliðar.

Næsta dag 2. ágúst var haldin þjóðhátíð á Þingvöllum. Drifhvítar tjaldborgir höfðu risið þar og byggður hafði verið konungsskáli í hallanum upp að Almannagjá ekki langt frá Öxarárfossi en í Hestagjá voru höfð hross sem þurftu að vera til taks. Ekki létu fréttamennirnir sig vanta en Guðmundur Finnbogason var fulltrúi Blaðamannafélagsins. Þegar á ferðina leið reyndust fréttamennirnir hvað dugmestir. Það er ótrúlegt hvað forvitnin er mikið hreyfiafl.

Valhöll

Í Valhöll var snæddur hádegisverður, en kl. 1 hófst Lögbergsgangan og tóku nær 6000 manns þátt í henni. Það var regnkápuveður þennan dag og margar ræður voru fluttar og mikið sungið. Hannes Hafstein flutti konungsminni. Ýmsir aðrir tóku til máls. Tulinius sýslumaður stjórnaði glímukeppni og sigraði Hallgrímur Benediktsson í þessari keppni en þriðji varð Jóhannes Jósefsson sem síðar var kenndur við Hótel Borg en hann hafði lagt sig eftir grísk rómverskum fangbrögðum og var talinn öflugur glímumaður. Sem sigurmerki fékk Hallgrímur birkigrein og síðan var hann borinn af sviðinu í gullstól.
Björn M. Olsen prófessor fræddi fólkið um Úlfljótslög, Grágás, Járnsíðu og Jónsbók. Eins sagði hann frá því hvernig Gissur Þovaldsson sendi árið 1238 Hjalta biskupsson upp á þing með stóran flokk manna til að hleypa þinginu upp. Svo var það bardaginn á Alþingi eftir Njálsbrennu og hvernig dómi var hleypt upp árið 999 er dæma skyldi í máli á hendur Hjalta Skeggjasyni um goðgá. Það var síður í frásögur færandi að oftast fór þingið fram með hinni mestu friðsemd og spekt.

Þingvellir

Gálgaklettur á Þingvöllum. Árni Björnsson lýsir aðstæðum.

Lítillega sagði prófessorinn frá því hvernig þjófar höfðu verið hengdir við Gálgaklett og konur sem höfðu borið út börn sín eða deytt á annan hátt drekkt í Drekkingarhyl. Þetta gerði stóra lukku.
Um kvöldið var haldin hátíðarveisla. Þar flutti Sveistrup þjóðþingsmaður ræðu fyrir minni íslenska hestsins, en konungur mælti fyrir minni kvenna. Aðeins ein kona Ragnheiður Hafstein eiginkona Íslandsráðherra var í veislunni, sem mönnum þótti alveg kappnóg. Konungur beindi orðum sínum til hennar frekar en að tala út í buskann til allra þeirra kvenna sem voru annars staðar. Dansað var á palli fram á nótt og tók konungur þátt í dansinum.
Verst var að hesturinn sem Sveistrup lofaði hvað mest í fjörugri ræðu sinni fældist nokkrum dögum seinna fyrir vagni hans uppi á Hellisheiði. Sveistrup hlaut nokkrar skrámur á enni og mikil mildi að ekki hlaust verra af.

Frá Þingvöllum að Geysi
Konungsvegur
Næsta dag þann 3. ágúst var svo riðið hjá Skógarkoti Skógarkotsveg og í Vatnsvíkina hjá Vellankötlu um Gjábakkastíg og Barmaskarð á Laugarvatnsvelli. Þangað var komið um hádegisbil og beið þar stórt veitingatjald. Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 hafði sent þangað 160 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð.
Ýmsir ferðahópar ríða um landið í dag maulandi kramdar samlokur úr vasa sér og drekka volgt djús. Þarna í veitingatjaldinu voru ekki kramdar samlokur og kræsingunum var skolað niður með kampavíni. Hákon Noregskonungur átti afmæli þennan dag og það var hrópað húrra fyrir honum. Á eftir lágu menn rjóðir og mettir á meltunni í grængresinu þangað til lúðurþeytarar blésu í horn sín og allir stigu á bak aftur, en Pagh veitingastjóri og hans fólk átti eftir að vaska upp.

Konungsvegur

Konungsvegur í Þingvallahrauni við Skógarkot.

Eins og að ofan greinir var farið um Gjábakkastíg og má láta þess getið að Hallmundur Eiríksson á Gjábakka lánaði 3 hesta í konungsreiðina í 7 daga og fékk fyrir það 84 kr., en auk þess fékk hann 4 kr. fyrir að koma hestunum til Þingvalla. Þetta má sjá í bókhaldsgögnum vegna konungskomunnar sem geymd eru í þremur pappaöskjum í Þjóðskjalasafninu við Laugaveg.
Áfram var haldið um Laugardal og hjá Laugardalshólum og Efstadal og austur með Hlíðum ofan við túnið á Úthlíð í Biskupstungum, neðan við Múla, upp undir Helludal og þaðan austur að Geysi í Haukadal. Brú yfir Brúará hafði verið byggð árið 1901 þar sem steinboginn hafði áður verið. Ekki ætla ég að rifja hér upp lánleysi biskupsfrúarinnar sem lét brjóta þennan steinboga niður árið 1602 svo að soltið fólk kæmist ekki í birgðaskemmurnar í Skálholti, en brytinn sem hjálpaði henni við þetta verk drukknaði seinna í Brúará.

Brúará

Ýmsir fleiri hafa drukknað í Brúará. Árið 1958 var skoskur maður hér á ferð með hóp breskra skáta. Hann hét Stuart A. Mcintosh og reið út í ánna ofan við Brúarfoss. Áin hremmdi Stuart og drukknaði hann. Þetta er háskafljót.
Það var ekki soltið fólk sem stóð upp frá borðum á Geysi þetta kvöld. Á matseðlinum var súpa, lax í forrétt, svo nautasteik og að lokum ávaxtaábætir. Þessu var skolað niður með kampavíni. Ekki minnkaði aðdáun gestanna á skipulagi ferðarinnar við þetta.

Geysir-Gullfoss-Geysir

Konungsvegur

Minningarsteinn við Geysi í tilefni komu Friðriks VIII.

Þann 4. ágúst reið hópurinn að Gullfossi og til baka aftur. Konungsfylgdin tyllti sér á ystu nöf og var skálað fyrir framtíð lands og þjóðar. Um kvöldið var enn ein veislan. Þar tóku margir til máls m.a. Þorvaldur Thoroddsen. Hann fjallaði um jarðfræði og heitu hverina og eldfjöll. Hann sagði sögu af því að eitt sinn hefði hraungrýti úr Heklu steinrotað mann sem stóð á hlaðinu í Skálholti. Þarna er yfir Ytri-Rangá, Þjórsá og Hvítá að fara. Þetta fannst veislugestum áhugavert. Þorvaldur sagði frá fleiru skemmtilegu. Á eftir stóð konungur upp og kvað Þorvald vera vísindamann á heimsmælikvarða. Sá kunni lagið á því.

Frá Geysi að Þjórsárbrú

Konungsvegur

Konungur á Þjórsárbökkum 1907.

Daginn eftir þann 5. ágúst var riðið um nýju brúna yfir Hvítá hjá Brúarhlöðum og niður með Hvítá að austanverðu hjá Skipholti og að Álfaskeiði. Farið var yfir Langholtsós og Stóru-Laxá á Langholtsvaði skammt frá Syðra-Langholti. Þaðan svo sem leið lá að Þjórsárbrú. Vaðið á Laxá er nokkuð breitt þarna og þéttskipuð fylkingin var lengi að ösla í vatni en það náði hestunum stundum í kvið.
Þegar neðar dró sást yfir Hvítá heim að Bræðratungu þar sem Snæfríður Íslandssól bjó með júnkærnum Magnúsi Sigurðssyni eins og sagt er frá í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness. Þegar Magnús slæmdist í lekabytturnar hjá faktornum niðri á Eyrarbakka fór hann um Hvítárholtsferjuna þangað og heim aftur, en hjá Bræðratungu lágu þjóðgötur. Þar eru m.a. Flosatraðir.
Um ráðahag hennar og Magnúsar sagði Snæfríður eitt sinn: “Frekar þann versta en þann næst besta.” Snæfríður hafði ung fellt ástarhug til Árna Magnússonar handritasafnara, en hann vildi frekar giftast ríkri, danskri konu svo að hann gæti haldið áfram að safna handritum. Þegar sérviskan og ástin togast á í hausnum á karlmönnum þá hefur sérviskan ætíð betur. Snæfríður hins vegar taldi sig hafa kynnst ágætum manni þar sem Árni var og fannst þess vegna góður maður eftir það blátt áfram hlægilegur, ekki síst vonbiðill hennar Sigurður dómkirkjuprestur í Skálholti.
Konungsvegur
En áfram með ferðalagið. Hjá Skipholti hafði hádegisverður verið framreiddur en við Álfaskeið var boðið upp á mjólk, öl, sódavatn og kampavín. Þarna voru söngvarar, hljóðfæraleikarar, tónskáld, steikarar og þjónar, íslenskir þingmenn, danskir þingmenn, þýsk kerling frú Rosa Bruhn að skrifa fréttir, kóngur og Haraldur prins í húsarabúningi og Hannes Hafstein á hátindi síns ferils. Í hópi þingmanna voru margir úr bændastétt. Þeir söknuðu þess að sjá hvergi rakstrarvélar og herfi eða plóga á leið sinni, fannst hrífan óþarflega seinvirk. Bændur í Hreppunum og þeirra fólk var úti á túni þegar hersingin fór hjá og konungur ræddi við fullorðna fólkið og börnin líka, blessaða sakleysingjana.
Á fylgiskjali í Þjóðskjalasafninu sést að Ágúst Helgason í Birtingarholti lét senda 60 lítra af nýmjólk að Álfaskeiði. Hann seldi hvern lítra á 18 aura. Heimboðsnefnd Alþingis gerði hann einnig reikning fyrir tveimur glösum sem höfðu brotnað samtals 70 aurar.
Vagnar og ýmislegt dót varð eftir á Álfaskeiði. Þetta dót tók Ágúst til handargagns heim í Birtingarholt. Hann langaði mikið í einn vagninn og í því efni bar hann sig upp við séra Þórhall Bjarnarson, hvort ekki væri hægt að hafa uppboð á þessu dóti um það leyti sem búnaðarþingi lyki, en Þórhallur var formaður Búnaðarfélags Íslands. Ekki veit ég hvort Ágúst eignaðist þennan vagn.
En þetta dót á Álfaskeiði var ekki eini lausi endinn að lokinni þessari hestaferð. H. (Halldór) Einarsson á Kárastöðum í Þingvallasveit sendir eftirfarandi reikning til Heimboðsnefndarinnar.
Lán á hesti í 7 daga kr. 21.
Fyrir 2 hnakka og 4 beisli í 7 daga kr. 7.
Fyrir beisli er tapaðist kr. 10.
Fyrir að gera ferð til Reykjavíkur að sækja hnakkana og beislin og leita að hestinum sem var týndur 3 dagar á 9 kr. samtals kr. 27.
Konungsvegur
En við vorum stödd hjá Langholtsvaði. Þaðan reið konungsfylgdin á Þjórsárbakkana og eftir þeim endilöngum. Ekki var riðið á seinagangi og inn á milli með slætti. Í gamla daga riðu menn mikið á einhvers konar skeiðjagi eða kerlingargangi sem kallaður var eða valhoppi. Töltið eins og við þekkjum það í dag kom ekki inn í íslenska hestamennsku fyrr en seinna. Þó brugðu menn fyrir sig hýruspori ef mjúkt var undir fót og einn og einn kappkostaði að halda hesti sínum til t.d. Daniel Danielsson í Stjórnarráðinu og Ólafur Magnússon ljósmyndari. Ágætar ljósmyndir eru til af þessum mönnum og hestum þeirra.
Hjá Þjórsárbrú tók Sigurður Eggerz á móti fólkinu en hann hafði verið settur sýslumaður í Rangárvallasýslu frá 1. maí 1907 og tók við af Einari Benediktssyni. Mikill mannfjöldi var þarna samankominn sem heilsaði hestafólkinu með dynjandi fagnaðarlátum. Undirbúin hafði verið vegleg búfjársýning sem hefjast átti daginn eftir.
Skrá frá Landssímanum yfir útsend símskeyti frá Þjórsárbrú þann 5. ágúst sýnir, að umheimurinn hafði mikinn áhuga á því sem þar var að gerast. Þessir aðilar sendu skeyti þaðan: Dannebro, Ritzau, National tidende, Politiken og Berlinske tidende. Þessa skrá er að finna í einni af öskjunum þremur í Þjóðskjalasafninu.
Á búfjársýningunni næsta dag voru sýndar kýr, kindur og hestar. Margir Danir söknuðu svína og alifugla svo sem anda og gæsa. Þess má geta að árið 1900 voru 50.000 hross í landinu og voru 3095 hestar fluttir út það ár. Álitið var að þrefalda mætti þessa tölu þ.e. koma hestunum upp í 150.000 og töldu ýmsir að útflutningur hrossa gæti orðið hrossarækt í landinu lyftistöng. Verst er að Íslendingar hafa aldrei getað selt nokkurn skapaðan hlut annað en fisk, en fiskur selur sig sjálfur. Í þessu efni gætum við lært mikið af Dönum, framleiða minna og selja dýrara. Líflegar samræður fóru fram um smjörframleiðslu og bar öllum saman um að íslenska smjörið væri einkar aðlaðandi.

Frá Þjórsárbrú að Arnarbæli í Ölfusi
Konungsvegur
Að loknum hádegisverði var haldið yfir hengibrúna á Þjórsá. Konungur og Hannes Hafstein riðu í fararbroddi og fór hersingin eftir eggsléttum þjóðveginum í vestur. Stansað var við Ölfusárbrú en þar hjá var gamli sveitabærinn Selfoss. Nielsen faktor á Eyrarbakka stóð fyrir móttökum en hann var rómaður um land allt fyrir gestrisni. Konungur þakkaði viðurgjörninginn og óskaði Eyrarbakka velfarnaðar.
Í bókhaldsgögnum kemur fram á fylgiskjali 139 að séra Þórhallur Bjarnarson hefur fengið 20 flöskur af öli í Tryggvaskála á 35 aura stk. með gleri samtals kr. 7. Svo er að sjá að hann hafi fengið þessar 20 flöskur sendar í Hraungerði. Á fylgiskjali 143 sést að séra Þórhallur hefur ásamt 7 ríkisdagsmönnum, 10 ökusveinum og tveimur öðrum gist hjá séra Ólafi Sæmundssyni í Hraungerði aðfaranótt 6. ágúst.
Séra Ólafur fékkst ekki með nokkru móti til að setja upp ákveðið verð fyrir gistinguna, en lét séra Þórhall um að ákveða endurgjaldið sjálfur. Honum fannst hæfileg þóknun fyrir þetta vera kr. 50, en inni í þessu var mjólk, kaffi og dálítið skyr, eins vöktun á 30 hestum. Varla getur talist að séra Þórhallur hafi ástundað glannalegt líferni úr því að ölflöskurnar frá Tryggvaskála voru ekki nema 20 handa 7 ríkisdagsmönnum, 10 ökusveinum og tveimur öðrum.
Kolviðarhóll
Frá Ölfusárbrú var haldið hjá Ingólfsfjalli að Kögunarhól en þar var áð. Síðan var riðið að Arnarbæli. Þar beið gestanna reisuleg tjaldborg en kóngur og Haraldur prins gistu inni á prestssetrinu. Prestur í Arnarbæli var séra Ólafur Magnússon. Hann þótti ágætur söngmaður og tónaði manna best.
Dönunum fannst mikið til um mýrarnar þarna allt í kring og töldu að með framræslu mætti rækta upp mikið land í Ölfusinu. Þarna heita Forir og heyjaði séra Kjartan Kjartansson þar seinna. Hann notaði hesta við heyskapinn en undir þá setti hann þrúgur svo að hestarnir sykkju ekki á bólakaf.
Öldum saman bölvaði þjóðin mýrunum. Þær voru mikill farartálmi og menn urðu blautir í fæturna að ösla í þeim. Svo voru mýrarnar þurrkaðar upp en það spillti fuglalífi. Nú eru menn til sveita ekki lengur blautir í fæturna en þeir sakna fuglatístsins. Til þess að kalla fram fuglatístið verður aftur að búa til mýrar, en þá verða menn blautir í fæturna þegar þeir fara að sækja hestana sína út í haga. Lífið er ekki auðvelt.

Frá Arnarbæli til Reykjavíkur

Arnarbæli

Arnarbæli – konungskoman 1907.

Síðasta daginn 7. ágúst var farið upp Kamba en þeir hafa verið taldir vegaminjasafn þjóðarinnar enda þar götur og troðningar frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar. Þaðan var riðið um Hellisheiði hjá Hveradölum, Kolviðarhóli, í Lækjarbotna, hjá Geithálsi, Rauðavatni og fyrir norðan Árbæ. Aftur var komið til Reykjavíkur.
Upp Kambana riðu þeir samsíða á fetgangi Hannes Hafstein og Friðrik 8. Hannes reið brúnum hesti en konungur var áfram á gráum hesti. Hann innti Hannes eftir því hvernig hann teldi fólkinu hafi líkað ræðurnar hans. Þessa sömu spurningu hafði hann lagt fyrir séra Matthías Jochumsson er hann hitti hinn aldna prest í Almannagjá fyrr í ferðinni. Honum virtist mjög umhugað um að sér væri vel tekið. Hann var mun frjálslyndari en Kristján 9. faðir hans og menntaður maður í besta skilningi þess orðs bæði bókhneigður og mannblendinn, í senn hlédrægur og opinskár.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Snætt var í stóru tjaldi á Kolviðarhóli og hélt konungur þar þakkarræðu. Sterkt útiloftið og samneytið við íslenska hesta hafði gert hann ögn óvarkáran og léttan í höfðinu. Í ræðu sinni sagði hann m.a.: “Látum oss verða samferða og trúa og treysta hverir öðrum. Látum þessa ferð tengja fast band milli íslensku og dönsku þjóðarinnar og mín, sem ekki hef annað markmið en sannleik og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.” Þetta orðalag “báðum ríkjum,” fór mjög fyrir brjóstið á Christensen forsætisráðherra. Það var of mikill sjálfstæðiskeimur yfir þessu.
Er konungur hafði lokið máli sínu mælti Rambusch undirofursti fyrir minni framreiðslustúlkna m.a. þeirra sem höfðu vaskað upp á Laugarvatnsvöllum og gengið um beina. Hann ræddi um þolgæðisbros þessara erilsömu matvæladreifara. Sem hermaður vissi hann að án kokksins vinnst ekkert stríð og lítið fer fyrir matnum ef enginn nennir að bera hann á borð. Og ekki brást Franz Håkansson, bakari og conditori. Á Kolviðarhól hafði hann látið senda 175 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Hann átti hrós skilið.
Hraðboðar komu á móti konungsfylgdinni upp að Lækjarbotnum en þeystu síðan til baka að segja frá komu konungs svo að fólkið í Reykjavík gæti verið til taks að hrópa húrra. Þessa hraðboðun hafði Gísli J. Ólafsson tekið að sér sem verktaki fyrir kr. 400. Á sundurliðuðum reikningi frá honum stendur: “Til móttökunefndarinnar. Fyrir að senda hraðboð milli Reykjavíkur og Þingvalla, Reykjavíkur og Geysis, Reykjavíkur og Þjórsárbrúar og Reykjavíkur og Selfoss bera mér samkvæmt samningi kr. 400.-“

Niðurlag

Konungsvegur

Konungsvegur – áningarstaður á Laugarvatnsvöllum 1907.

Hestaferð þessi var í alla staði talin hafa heppnast með ágætum og bar öllum saman um að Friðrik 8. væri vænsti maður á margan hátt. Rómverjar til forna höfðu þann sið þegar sigursæll herforingi hélt inn í Rómaborg, að hafður var hjá honum þræll í stríðsvagninum. Á meðan lýðurinn hyllti herforingjann var það hlutverk þrælsins að endurtaka í sífellu: “Þú ert bara maður, þú ert bara maður.”
Hvern skyldi Friðrik 8. hafa haft við hlið sér í Ísalandsför sinni? Hann var svo alþýðlegur að enginn sem kynntist honum efaðist um að ef hann hefði verið beðinn um það hefði hann brett upp skyrtuermarnar og undið sér í uppvaskið. En hann var ekki beðinn um það. Hann var beðinn um að sitja í hásætinu. Það hásæti sem honum var ætlað hér á landi var í fornum stíl og smíðað af Stefáni Eiríkssyni. Það kostaði kr. 600.- Á sama tíma járnaði Jón Sigurðsson hest fyrir Axel Tulinius sýslumann og tók fyrir það kr. 1.75 með skeifum. Ef járnað var á gamalt kostaði það 25 aura á löpp. Þarna er dæmi fyrir Hagstofu Íslands að umreikna til verðlagsins í dag.
Af því að verið er að tala um verðlag má geta þess að Jónatan Guðmundsson fékk greiddar kr. 4 fyrir að spila á harmoniku á Þingvöllum. Vinna við að gera akfæran veg frá Skipholti að Brúarhlöðum 51 dagsverk kostaði kr. 204.- En brú á Langholtsós kr. 35.- Þetta sést á reikningi frá Ágústi Helgasyni í Birtingarholti. Í bréfi sem hann lét fylgja með kvað Ágúst vaðið á ósnum hafa spillst mjög. Upphæð þessi kr. 35.- var hins vegar dregin frá reikningnum til heimboðsnefndarinnar þar sem brúargerð á Langholtsós var talin utan við umsamda vegaframkvæmd.

Konungsvegur

Friðrik 8. var eins og milli steins og sleggju. Evrópa var að breyta um ásjónu og nýir tímar fóru í hönd. Aðeins 7 árum síðar braust fyrri heimsstyrjöldin út og álfan logaði öll. Þá var Friðrik 8. látinn en í skotgröfunum við Somne eða Verdun var ekki boðið upp á lax í forrétt og nautakjöt í aðalrétt og ávaxtaábæti á eftir.
Hannes Hafstein var líka milli steins og sleggju. Hann vildi sjálfstæði að því marki að eftir sem áður væri hægt að slá Dani um peninga fyrir verklegum framkvæmdum. Draumur hans var að hefja stórfelda ræktun í frjósömustu héruðum sunnanlands m.a. í Flóanum og austur á Skeiðum. Svo langaði hann að leggja járnbraut um Þrengslin austur fyrir fjall. Það er seinlegt að hossast á hestbaki, en það var glaður hópur sem skilaði sér aftur til Reykjavíkur eftir þessa hestaferð um Kóngsveginn í byrjun ágúst árið 1907.
Það er ekki fyrir leikmann að fara nánar út í þann stjórnmálalega undirtón, sem bjó að baki þessarar heimsóknar Danakonungs, en svona var hestaferðin. Friðrik 8. var þá 64 ára gamall. Það er svo sem ekki hár aldur miðað við að öldruð kona í Neðri-Fáki við Bústaðaveg byrjaði í hestamennsku 76 ára gömul. Hún er nú komin vel yfir áttrætt og búin að taka mestu kitlurnar úr vindótta klárnum sem hún keypti sér.“

Heimild:
-https://www.hugi.is/saga/greinar/130222/gamlar-gotur-konungskoman-1907/ – Örn H. Bjarnason.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.

Stafnes

Í Faxa 1993 er sagt frá gamalli sögn um Stafnes undir fyrirsögninni „Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes„:

Faxi 1993„Mælt er, að til forna hafi verið 24 hjáleigur og tómthús á Stafnesstorfunni. Taldi Jón Jónsson hreppstjóri frá Fuglavík, sem síðast bjó í Glaumbæ við Stafnes, mjög glöggur maður og fróður um margt, upp 14 af hjáleigum þessum, sem nú hafa verið fjölda mörg ár í eyði, og voru þær þessar: Nes, Hólmi (tvíbýli), Sandhús, Garðar, Rif, Refshalakot, Gosa, Hattakollur, Sveinshöfði, Vallarhús, Halakot, Lodda og Þemba.
Kvaðst hann á yngri árum sínum hafa heyrt fleiri bæjamöfn nefnd, en ekki muna þau. Sum af býlum þessum voru með vissu grasbýli frá Stafnesi, en þó flest þurrabúðir. Fiskveiðar munu óvíða hafa verið stundaðar með meiri dugnaði og betri hagnaði en frá Stafnesi, enda er þaðan örskammt að sækja á fiskimiðin. Fiskur var þá almennt hertur eða þá kasaður, svo sem skata og hákarl. Var fiskurinn hertur í grjótbyrgjum, sem byggð voru hingað og þangað upp um hraun, og sést þeirra víða merki enn í dag.
Stafnes
Á Stafnesi eru nú þessi býli: Stafnes, Glaumbær, Nýlenda, Bali, Litlibær, Hólakot og Grund, og eru hér talin 21 alls, ef byggð hinna síðarnefndu býla er svo gömul sem hinna. Er þá ekki nema þremur fátt í þá tölu, sem hin forna sögusögn greinir.
Svo er sagt, að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir, og er hún skráð eftir því, sem sagði Jón fyrrum hreppstjóri í Fuglavík árið 1888, og var hann þá um áttrætt.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi, og mun bærinn þá hafa staðið, þar sem nú er kallað Urð, og er þar nú rif, sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur, þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu, er stunduðu sjómennsku og reru til fiskjar frá Nesi.

Einn dag að áliðnum vetri, er þeir voru á sjó að vanda, brimaði snögglega svo mikið, að ólendandi var talið. gerðist gamli maðurinn órór, gekk til smíðahúss og tegldi þar staf einn eða kelli, en bað vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér, hvers þær yrðu áskynja úm afdrif skipsins.
Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir, að ekki muni lengur þurfa að bíða þess, að synir hans lendi, því að þær stúlkurnar höfðu horft á þá bræður leggja í sundið, en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan; hafði honum þá þegar hvolft og hann borist upp á skerið. Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá, sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund, og þá tvær saman.
Þegar stúlkumar komu til karls, hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt, svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill, en haglega gerður og með útskurði allmiklum.

Stafnes

Stafnes.

Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið, þar sem Boðinn falli á land, segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum, sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega, þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér.

Stafnes

Á Stafnesi.

Gera þær nú, sem karl leggur fyrir, og þegar Boðinn rís hæst, tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: „Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða, sé rétt sundleið farin, og leiðið mig nú heim“.
Það fylgir sögu þessari, að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum, því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farist á sundinu, þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega.
Á þeim tímum, er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma, fórst þó eitt skip þama með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því, sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan við aðallendinguna.“ – Eftir heimildum frá Vilhjálmi Kr. Hákonarsyni frá Stafnesi. – Rauskinna.

Stafnes

Stafnesviti.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923 skrifar Hannes Þorsteinsson um „Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“, þ.á.m. Stafnes:

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

„Starnes (Stafnes). Stafnes í A. M. og síðan, en Starnes í fjölda fornbréfa frá 1270 og fram á 17. öld eða lengur, og vafalaust hið rétta, upphaflega nafn; er og enn nefnt svo hjá A. M. (í jarðabókinni í Rangárvallasýslu undir Nefsholt). Stiernes nefnist jörðin í Jarðab. Bockholts c. 1600 (A. M. 459 fol.), og eru það leifar af hinum gamla framburði, en Starnes beinlínis í Jb. Jens Söffrenssonar 1639 (A. M. 460 fol.). í ritgerð eptir séra Sigurð Br. Sívertsen á Útskálum er þess getið, að á þeim slóðum hafi verið stör mikil, þótt nú 8é eydd. Starnes verður því að teljast sem aðalnafn, en Stafnes sem varanafn, þótt það reyndar ætti að falla alveg burtu.“

Heimildir:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1993, Gömul sögn um Stanes – „Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes“, Vilhjálmur Kr. Hákonarson, Stafnesi, bls. 57.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1923, Hannes Þorsteinsson – Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi. Tileinkað minningu séra Guðmundar prófasts Helgasonar. Bls. 30.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Hafnarfjörður 1554

Í Sjómannadagsblaðinu 1992 eru greinar um tilurð, upphaf og þróunar byggðar í Hafnarfirði, m.a. undir fyrirsögninni „Miklar hamfarir og erfið fæðing„:

Sjómannadagsblaðið 1992
„Það var ekki lítið, sem gekk á fyrir máttarvöldunum að búa til Hafnarfjörð. Í sinni eigin sköpun gekk það svo til fyrir hólmanum, sem fékk nafnið Ísland að á einu sínu aldursstigi var yfir honum blágrýtishella, sem síðan lagðist yfir ís, og ísinn bráðnaði og hólminn varð blómum skreyttur, og enn kom ísinn og lagðist yfir blómin, en ísinn átti sér svarinn óvin. Hann var eldurinn, sem braust um undir blágrýtishellunum og ísnum eins og tröll í fjötrum, og tók að sprengja helluna og bræða ísinn og þá tók hraunið að renna og hraunin kólnuðu í gjallhrúgur og hraunið rann í sjó fram og það tóku að myndast skagar útúr hólmanum og víkur inn í hann.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Allt gekk þetta með miklum seinagangi, því að í þennan tíma var ekki til mannskepnan, sem sífellt er að flýta sér og mælir allan tíma í hænufetum, sem hún kallar ár. Hún gefur og öllu sín nöfn, þessi mannskepna. Og þegar gjallhringarnir kólnuðu og urðu blágrýtis- og móbergshrúgur kallaði hún þau fjöll, og eitt fjallið nefndi hún Vífilsfell, en skagann, sem runnið hafði fram úr því fjalli eða þeim fjallaklasa og storknaði í hraunhellu, var gefið nafnið Romshvalanes, og hefur það nafn trúlega tekið til þess skaga alls, sem nú er nefndur Reykjanesskagi.
Vífilfell var heitið eftir fóthvötum náunga, sem bjó á Vífilsstöðum. Sá hafði hlaupið eftir endilangri suðurströnd hólmans í leit að framtíðar búsetursstað fyrir sinn húsbónda. Kannski vilja Hafnfirðingar sem minnst um þennan mann tala. Það var nefnilega hann sem fann Reykjavík. Vífill var svo fótfrár, að þegar hann vildi róa til fiskjar, hljóp hann frá bústað sínum uppá þetta fjall að gá til veðurs áður en hann reri. Hann rann þetta sem hind á sléttum velli, þó á 700 metra bratta væri að sækja og spottinn 10 km. eða svo í loftlínu. Síðan hljóp hann til skips að róa eða heim í rúm til kellu sinnar aftur. Margt barnið hefur orðið til um aldirnar, þegar menn hættu við að róa.

Hvaleyri

Hvaleyrarbærinn 1772 (settur í nútíma samhengi). Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni.

Í fyrrgreindum gauragangi í jarðskorpunni hafði Hafnarfjörður myndast, af Hvaleyrarhöfða á annan veginn, en Álftanesinu á hinn veginn, og varð hin mesta völundarsmíð af firði.
Menn vita að vísu hvernig nafnið Hvaleyri varð til. Þeirri eyri gaf nafn hinn fyrsti fiskimaður hólmans, svo ákafur til veiðanna, að hann gætti ekki að afla heyja, og festist þessi veiðiáhugi með þeim, sem fylgdu í fótspor þessa náunga. Hann hafði í hrakningum rekizt inn á hinn skjólgóða fjörð og fundið þar hval rekinn á eyri, sem hann gaf þá nafnið Hvaleyri. En þótt vitað sé gerla, hvernig nafnið Hvaleyri er tilkomið veit enginn hver gaf firðinum nafnið Hafnarfjörður, en fjörðurinn ber nafn sitt með sóma, hann er lífhöfn í öllum veðrum með góðri skipgengri rennu inná öruggt skipalægi. Það mun áreiðanlega rétt, sem séra Árni Helgason segir að nafngiftin hefir upphaflega átt við fjörðinn milli Hraunsness og Melshöfða.
Það er ólíklegt að víkin eða reyndar bara vogurinn milli Hvaleyrarhöfða og Skerseyrar hefði verið kölluð fjörður, á tíma íslenzku nafngiftarinnar. Það hefur gerzt hið sama með Hafnarfjörð og ísafjörð. Kaupstaðir tóku nöfn sín af fjörðum, sem þeir stóðu við. Fjarðarnafnið festist á þessum vog, þar sem kaupstaðurinn reis. Sigurður Skúlason segir að „gamlar skoðanir séu lítils virði í þessu efni“. Það er undarleg ályktun.

Hafnarfjörður - Hvaleyri
Nafninu bregður fyrir í Hauksbókarhandriti um 1300 í sambandi við nafngift Flóka á Hvaleyri, en síðan ekki fyrr en í annálum á 15.du öld.
Heitið „Fjörðurinn“ er síðara tíma heiti á Hafnarfirði í máli manna, og einkum bæjarbúa sjálfra og Reykvíkinga, og líklega eru engir landsmenn í vafa um um við hvað sé átt þegar sagt er að maður eigi heima í „Firðinum“, það á enginn fjörður nema Hafnarfjörður. Líkt og það tók tímann að búa til Hafnarfjörð, reyndust seint búnir til Gaflarar, enda umhugsunarefni.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum.

Átti yfirleitt að búa til Krata. Það varð að ráði til jafnvægis í náttúrunni. Það er bókstaflega ekkert vitað, hvort í þessum forláta firði var nokkur sála búsett svo öldum skipti.
Hvaleyri er, sem fyrr er lýst, nefnd í Landnámu, og því nafni bregður fyrir, segir Sigurður Skúlason í sinni Hafnarfjarðarsögu, þrisvar sinnum á 14du öld, og þá fyrst árið 1343 í sambandi við skipsskaða. „Kristínarsúðin“ er sögð hafa brotnað við eyrina. Þar næst í kirkjugerningi 1391 og 1394 er sagt í annál að norskt skip hafi tekið þar land af hafi.
Nú er það ekki að efa að skipaferðir hafa verið um fjörðinn frá fyrstu tíð landnáms og eitthvert fólk þó nafnlaust sé, bollokað með rolluskjátur, lagt net í Hvaleyrartjörn og dorgað í firðinum fyrir fisk, en það er ekki svo mjög undarlegt að við fjörðinn festist engin byggð, sem sögur fari af fyrr en það verður að útlendingar gera garðinn frægan.
Fjörðurinn var einangraður, umkringdur hraunkarganum illum yfirferðar og engar búsældarlegar sveitir á næstu grösum og því um langan veg og torfæran að sækja kaupstefnur, ef skip hefði komið af hafi með varning, siglingamenn hylltust til að taka hafnir þar sem þeir lágu fyrir fjölmennum sveitum. Þá hefur og verið svo fámennt við fjörðinn að ekki hefur verið leitað þangað í liðsafnaði og hetjur ekki riðið þar um héruð til mannvíga.

Hafnarfjörður
Það urðu sem sé útlendingar, sem leystu Hafnarfjörð úr álögum einangrunar og færðu staðinn inní landsöguna. Útlendingar hafa alla tíð verið hrifnir af þessarri höfn og komið mikið við sögu staðarins. Þegar útlendingum verður leyft að landa hér afla, væri það ekki undrunarefni að þeir sæktu mikið til Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Það er um það löng saga í Sögu Hafnarfjarðar hinni fyrri, þegar Ríkharður hinn enski valdi sér Hafnarfjörð fyrstur manna svo sögur fari af sem verzlunarstað 1412, en einmitt það ár hófust siglingar Breta hingað til kaupskapar og fiskveiða.
„Sumarið 1415 var mikil erlend sigling til Hafnarfjarðar. Þangað sigldi þá knör sá, er Árni Ólafsson Skálholtsbiskup hafði látið gera erlendis og komið síðan á út hingað. En þetta sumar er einnig sagt, að 6 skip frá Englandi hafi legið í Hafnarfirði. Gæti það bent til þess, að staðurinn hafi þá þegar verið orðinn miðstöð enskra siglinga hér við land.
Skipverjar á einu þessarra ensku skipa rændu nokkurri skreið bæði á Romshvalanesi og í Vestmannaeyjum og var slíkt ekki eindæma um Englendinga, sem hingað komu á þessum tíma. Með einu þessarra skipa sigldi Vigfús Ívarsson, fyrrverandi hriðstjóri til Englands.“ Vigfús sigldi með fullt skip skreiðar en skreiðarverð var þá hátt í Englandi.

Hafnarfjörður
En Englendingum reyndist ekki lengi friðsamt í Hafnarfirði. Bæði Hansakaupmenn og Hollendingar tóku að leita eftir bækistöð uppúr 1471. Stríðið um Hafnarfjörð stóð þá mest milli Þjóðverja og Englendinga og fóru Englendingar mjög halloka í þeim viðskiptum, en létu sig þó ekki, þeirri þjóð er ósýnt en að láta sig, og héldu Englendingar áfram að auka sókn sína hingað til lands og voru fjölmennir víða sunnanlands og vestan allt norður í Jökulfirði og suður í Vestmannaeyjar.
HafnarfjörðurOg ekki hefur Þjóðverjum tekizt að hrekja þá með öllu úr Firðinum fyrr en kom fram undir 1520. Eftir það sátu Þjóðverjarnir að höfninni og bjuggu vel um sig á Óseyri. Alls sóttu Þjóðverjar á 39 hafnir hér við land og er af því mikil saga hversu valdamiklir þeir voru orðnir á 16. öldinni og jafnvel svo að þeir létu orðið til sín taka störf og samþykktir Alþingis. Allt framferði Þjóðverjanna féll landsmönnum miklu betur en Englendinga og miklu betra skipulag var á verzlunarháttum, og var Hafnarfjörður þeirra aðal bækistöð, og þar fastir kaupmenn, sem reistu hús myndarleg og kirkju. Veldi Hamborgara stóð með miklum blóma allt til 1543 að Danakonungur lét gera upptæka alla þýzka fiskibáta 40-50 skip, sem gengu frá Suðurnesjum og aðrar eignir Þjóðverja þar.
Veldi Hamborgara fór að hnigna eftir þetta og með Einokun 1602, misstu Þjóðverjar verzlunarleyfi sitt (1603) í Hafnarfirði. En ekki var að fullu slitið sambandi Hamborgara og Hafnafjarðar fyrr en á þriðja tug 17du aldar.“

Hafnarfjörður
Í framhaldinu tók danska einokunarverslunin við frá 1602-1787. Sigurður Skúlason, skrásetjari, kveður Konungsverzlun með þessum orðum:
„Með þessum hætti varð Hafnarfjörður mesta fiskihöfn Íslands í lok
einokunartímabilsins. Hafngæði og lega fjarðarins gerðu hann enn á ný að þýðingarmestu verzlunar- og fiskistöð landsins. Á uppdrætti af firðinum, sem gerður var um þessar mundir, sjást auk verzlunarhúsanna í Akurgerði, verzlunarhúsið á Langeyri, íbúðarhús stýrimanna og geymsluhús (Fiske Jagternes Huus) á Hvaleyri. Í Hvaleyrartjörn lágu fiskijaktirnar að vetrarlagi, en aðalsaltfiskverkunin fór fram á Langeyri, norðan fjarðarins. Þar lögðust fiskihúkkorturnar fyrir akkerum, meðan skipað var upp úr þeim, en ekki máttu þær liggja utar en svo, að Keili bæri beint yfir Hvaleyrarhöfða, vegna grýtts sjávarbotns.
Hafnarfjörður
Þegar kóngur hafði tapað í fimm árin, 1781-86 á Íslandsverzlun sinni ákvað hann að tapa ekki meiru. Honum þótti nú flest fullreynt um þessa Íslandsverzlun og sá þann kostinn vænstan að gefa hana frjálsa. Ekki tókst þó vel til um byrjunina fyrir Hafnarfjörð sem verzlunarstað.

Hafnarfjörður.

Hafnarfjörður.

Þann 6. júní 1787 var auglýst með tilskipun að verzlunin væri gefin frjáls við alla þegna Danakonungs, en um haustið (17. nóv.) var einnig gefin út tilskipun um kaupstaði í landinu, og fengu þá nokkrir verzlunarstaðir kaupstaðarréttindi, og urðu höfuðverzlunarstaðir í verzlunarumdæmum eða kaupsviðum og hétu þetta „autoseraðir útliggjarastaðir“. Þeir voru: Reykjavík, Vestmannaeyjar, Eskifjörður, Eyjafjörður, Ísafjörður og Grundarfjörður.
Hafnarfjörður varð þarna útundan. Hann var aðeins „autoriseraður höndlunarstaður“ í umdæmi Reykjavíkur, en kaupsvið Reykjavíkur ákveðið Gullbringu- og Kjósarsýsla og Borgarfjarðar- og Mýrasýsla vestur að Hítará.
Með þessari tilskipan var það staðfest af stjórnarvöldum að Reykjavík skyldi sitja yfir hlut Hafnarfjarðar sem verzlunarstaður.
Það átti ekki af Hafnarfirði að ganga, að ráðamenn hefðu litla trú á staðnum sem framtíðar verzlunarstað.

Bjarni SívertsenÁrið 1850 hafði danska innanríkisráðuneytið spurzt fyrir um það hjá stiftamtmanninum hvort Hafnarfjörður ætti að telja til þeirra hafna, sem væru hentugar til að vera meiriháttar verzlunarstaðir, þar sem kaupskip gætu lagzt svo, að vörum yrði skipað upp.
Stiftamtmaðurinn snéri sér til sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu og fól honum að gefa svarið.
í stuttu máli sagt taldi sýslumaður allt úr um Hafnarfjörð, sem gerlegt væri að byggja upp sem stóra verzlunarhöfn. Byggingarsvæðið í Hafnarfirði væri orðið svo þröngt að eins og sakir stæðu væri naumast hægt að reisa þar sæmileg verzlunarhús, hvað þá heldur mörg. Verzlanir þær, sem fyrir eru á staðnum geti ekki látið neitt af sínum lóðum. Ekki sé hægt að knýja Knudtzon stórkaupmann til að láta neitt af sínu landi, sem hann eigi með fullum rétti og samkvæmt eldri ályktun. (Hér mun átt við Akurgerði, eða landið vestan við fjörðinn). Hamarskot mátti heita fullbyggt, þar stæðu tvær verzlanir og búið að úthluta lóð fyrir þriðju verzlunina. í Hamarskotslandi sé því ekki lengur um neina verzlunarlóð að ræða sem geti náð til sjávar, svo sem sjálfgert sé að verði að vera.
Í Ófriðarstaðalandi sé óbyggð landræma meðfram sjónum, að vísu mætti reisa þar nokkrar byggingar eða tvær verzlanir, en slíkt yrði kostnaðarsamt, þar sem landið væri lágt, og verja yrði húsin fyrir sjógangi og ofan við þessa landræmu væri mýri. Loks er það að norðan við verzlunarstaðinn nái hraunið „svo gersamlega niður að sjó, að þar er ekki um neinar byggingarlóðir að ræða“.
Lausakaupmönnum var loks bannað að verzla í Firðinum, en það var um seinan fyrir Hafnarfjarðarkaupmanninn. Hann fór á hausinn í sama mund.
Á rústum þessa þrotabús Hafnarfjarðarverzlunarinnar reisti Bjarni Sívertsen verzlun sína, og í sama mund (1797) verzlun í Reykjavík, reisti þar verzlunarhús sem nefnt var Sívertsenshús. Þar var prestaskólinn síðar til húsa.
Árið 1804 keypti Bjarni bæði Hvaleyri og Akurgerði og 1816 keypti hann Ófriðarstaði og átti þá orðið verzlunarlóðirnar við fjörðinn nema Flensborg.
KnudtzonÁrið 1835 keypti Peter Christian Kudtzon, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn allar fasteignir af dánarbúi Bjarna Sívertsen í Akurgerðislandi á uppboði í Kaupmannahöfn
fyrir 3900 rd. í reiðu silfri.
Árið 1869 fluttist Þorsteinn Egilsson til Hafnarfjarðar og settist að í húsi Matthíasar J. Matthisen, kaupmanns, sem hann hafði reist á Hamarskotsmöl fyrstur manna á því verzlunarsvæði 1841.
Þarna hóf svo Þorsteinn verzlun sína. Hann komst í samband við Norsk-íslenzka Verzlunarfélagið, sem sjálfur Jón Sigurðsson hafði átt aðild að í félagi við norska Íslandsvini. Þorsteinn brá sér til Björgvinjar, og hafði þá orðið að fá lánað fyrir farinu, ekki var auður í garði hjá kaupmanninum, og hann kom upp aftur sem verzlunarstjóri hins nýstofnaða félags í Reykjavík. Hann kom á skonnortu hlaðinni vörum sem sigldi eftir skamma dvöl út aftur og einnig hlaðin vörum og sigldi þá úr fiskhöfninni Hafnarfirði.
Þorsteinn EgilssonSegir nú ekki af þessu félagi annað, en það reisti sér hurðarás um öxl með kaupum á gufuskipi, og ýms dýr mistök urðu í rekstri skipsins og félagið lagði upp laupana 1873. Þá réðst Þorsteinn hið sama ár til verzlunarfélags Álftaness og Vatnsleysustrandarhrepps. Það félag hætti eftir aflaleysisárið 1776.
Samtímamaður Þorsteins í Hafnarfirði var maður, sem þekktur er í landssögunni, sem einn af merkustu mönnum síns tíma, Þórarinn Böðvarsson, sem fyrst var prestur í Vatnsfirði, en síðar í Görðum frá 1868 til dauðadags 1895. Hann var prófastur í Kjalarnesþingi í 21 ár og alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu í 23 ár. Séra Þórarinn kom víða við í félags- og framkvæmdasögu Hafnarfjarðar á sinni tíð og var einnig frumkvöðull þar í útgerð. Segja mætti að engin ráð væru nema séra Þórarinn kæmi þar til.
Áður hefur það verið rakið hér í sögunni, að þrisvar sinnum kom það til að stjórnvöld gerðu uppá milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og héldu fram hag Reykjavíkur og mestu máli skipti í þeim hlutaskiptum að Innréttingarnar voru settar niður í Reykjavík 1752.
August FlygenringÁgúst Flygenring kemur til sögunnar í Firðinum sem skipstjóri. Hann kom til Hafnarfjarðar 1888 til að taka við skipstjórn á litlum kútter, Svend, sem séra Þórarinn átti og var með hann í 8 ár. Þá fer Ágúst til Noregs að kaupa stærra skip fyrir Þórarinn og keypti þá kútterinn Himalaya 1892, og var skipstjóri á því skipi til ársins 1900, að hann hætti skipstjórn og hóf útgerð og verzlun.
Einar Þorgilsson varð aftur á móti fyrstur manna til að bregðast við í verzlunarmálinu, þegar verzlanirnar, Knudtzonaverzlun og Linnetsverzlun voru að hætta rekstri.
Einar stofnaði þá 1895 Pöntunarfélag í Firðinum og veitti því forstöðu í tíu ár, en sjálfur byrjaði hann að verzla á Óseyri, sem hann hafði keypt árið 1900.
Einar ÞorgilssonÁrið 1897 varð Einar hreppstjóri Garðahrepps og þar með Hafnfirðinga og gekkst þá fyrir stofnun útgerðarfélags, þilskipafélags Garðhverfinga, til kaupa á kútter, svo að segja má að Einar brigði hart við, þegar hann sá hvað var að gerast í Reykjavík.
Rétt sem jarlarnir tveir og Pétur J. Thorsteinsson hafa snúið þróuninni í Hafnarfirði við og fólk fór á á ný að flytjast í þennan stað, reis hvert stórfyrirtæki útlendra manna af öðru á staðnum, Brydeverzlun hóf 1902 kútteraútgerð frá Hafnarfirði með fjórum kútterum, þá næst skaut sér inn Íslendingurinn Sigfús Sveinsson með 3 kúttera jafnt og hann reisti fiskverkunarstöðina Svendborg.

Falck konsúll, Norðmaður frá Stavanger kom með tvo litla togara, Atlas og Albatross 1903^4 og það var hann, sem með útgerð þeirra skipa frá Hafnarfirði hóf síldveiðar með herpinót fyrstur manna hér við land og er það ekki lítill atburður í íslenzku fiskveiðisögunni. Enn er að nefna Norðmanninn H.W. Friis, en hann hóf útgerð lóðabáta, og þeir urðu einir fimm um skeið. Og 1904 keypti Ágúst Flygenring gufubátinn Leslie og gerði hann fyrstur Íslendinga út til veiða með herpinót fyrir Norðurlandi.

Coot

Coot.

Þá er það næst að telja að hinn jarlinn, Einar Þorgilsson, tók að gera út frá Hafnarfirði fyrsta íslenzka togarann sem kom til landsins 6. marz 1905, og tæpum tveimur árum áður en fyrsti togarinn, Jón forseti kom til Reykjavíkur. Coot-útgerðin í Hafnarfirði var hins vegar fyrsta togaraútgerðartilraunin, sem lánaðist hérlendis.
Báðir ráku jarlarnir jafnt þessu kútteraútgerð sína 3-4 kúttera hvor og juku fiskkaup sín. Menn í nærliggjandi plássum allt suður til Keflavíkur tóku að verzla við þá og verzlanir þeirra urðu þær stærstu í bænum.
Báðir munu jarlarnir hafa lánað mönnum efni til húsbygginga og gerðu fólki kleyft að koma sér upp ódýrum timburhúsum, járnklæddum, sem kostuðu fyrir fyrri heimsstyrjöldina 700-1200 krónur. Fólk greiddi þessi lán með vinnu sinni.“

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1992, Miklar hamfarir og erfið fæðing – Hafnarfjörður, bls. 59-61.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 2018. Hér má sjá (gul lína) strandlínuna árið 1903.

Ísólfsskáli

Í jólablaði Víkurfrétta árið 1984 eru Ísólfur Guðmundsson og Herta Guðmundsson á Ísólfsskála heimsótt undir fyrirsögninni „Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt, Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita, vatns, rafmagns og símalaus“:

[Hafa ber í huga að ritstjórar og blaðamenn Víkurfrétta hafa í gegnum tíðina haft eingregin vilja til að heimfæra Grindavík upp á Suðurnesin, sem er gegn öllum fyrri heimildum. Efnisumfjöllunin sem slík á hins vegar erindi til almennings.]

Inngangur – Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt

Ísólfsskáli

Herta og Ísólfur á Skála.

Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita-, vatns-, rafmagns. Eins og flestir vita er þéttbýiasti staður landsins hérna á suðvestur horninu, og þvi teljast Suðurnesin vera með þéttbýlustu svæðum landsins. Er það þá ekki skritið, að á þessu svæði skuli finnast bóndabýli sem er aðeins 5 km frá einum af þremur kaupstöðum á svæðinu, þar sem heimilisfólkið verður að búa við einangrun oft frá hausti og fram á vor, vegna þess hve vegarsamgöngur eru slæmar? Þetta fólk, sem er hið eina á Suðurnesjum sem hefur afkomu sina eingöngu af fjárbúskap, verður einnig, þó það sé ekki lengra frá þéttbýli, að búa rafmagnslaust og vatnslaust meira og minna á hverjum vetri. Laugardaginn 1. desembersl. brutust Víkurfréttir á bíl með drifi á öllum hjólum til þessa fólks og tóku það tali, og birtist viðtalið hér á eftir. En fyrir þá sem ekki eru þegar farnir að renna grun um hverja er verið að tala, skal þess getið að hér er átt við hjónin Ísólf og Herthu Guðmundsson, að Ísólfsskála við Grindavík.

Ísólfsskáli
Ferðin að Ísólfsskála gekk nokkuð vel, þó var það ansi skrítin tilfinning í þessu góða veðri, að á Grindavíkurveginum frá Seltjörn og upp undir Gíghól [Gíghæð], var það þétt hrímþoka að aðeins var nokkurra metra skyggni.
Nú, eftir að henni lauk gekk ferðin vel. En til þess að komast að Ísólfsskála þarf að fara yfir Festarfjall og þar var algjörlega ófært fyrir venjulega fólksbíla, en fyrir þann farkost sem við völdum til fararinnar var þetta lítið mál. Þó voru kaflar sem voru afar slæmir jafnvel fyrir slíkan bíl.
Engu að síður tókst vel að komast á staðinn og eftir að hafa fengið kaffi hjá þeim hjónum var sest inn í stofu. Fyrst báðum við Ísólf að segja frá uppruna og sögu jarðarinnar.
„Ísólfsskáli er landnámsjörð, hér er ég fæddur og uppalinn“, sagði Ísólfur bóndi, „pabbi og mamma bjuggu hérna líka í 5 1/2 ár og afi bjó hérna. Hann var þrígiftur og átti 33 börn og eitt á milli kvenna, þannig að börnin voru 34. Hann hóf búskap að Hjalla í Ölfusi og þaðan fluttist hann að Breiðagerði á Vatnsleysuströnd. Þá fluttist hann að Vigdísarvöllum, bjó þar í nokkur ár. Síðan fluttust þau hingað og hér létust þau. Eftir það var Skálinn í eyði í 3 ár, en eftir það var Brandur bróðir hans pabba hér í 3 ár, en þá flutti pabbi hingað úr Grindavík 1916 og bjó hér eins og áður segir í 51 1/2 ár.
Ísólfsskáli
Mamma var gift áður, en við systkinin erum 11 á lífi, 5 hálfsystkini og 6 alsystkini. Eitt, þ.e. elsta hálfsystkinið, er nýlega dáið, en hann bjó hérna í Grindavík. Fyrst þegar pabbi kom hérna þá var þetta eiginlega ekki árennilegt, þetta var nú ekki annað en smá túnsnepill sem náttúrulega varð að slá með orfi og ljá eins og það gerðist í gamla daga, og þá setti hann á þetta eina belju og 10 gemlinga, og ég held að hann hafi fengið eitthvað um 20-25 hesta af heyi af þessu með því að slá þetta með orfi og ljá og kroppa þetta saman. Nú eru túnin með því sem hann stækkaði og ég líka, orðin um 40 hektarar, að mér er sagt. Þar af leiðandi hefur þetta stækkað smátt og smátt, en erfiðleikar fyrst voru miklir hérna varðandi það að rækta þetta, því að hér voru sandur og melar og varð að tína ofan af þessu grjót með handafli og grafa það niður til þess að losna við það, eða þá að bera það út fyrir í hauga.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – ýtusléttur Ísólfs ofan Skála.

Svo eftir að ýturnar komu þá fengum við ýtu hingað tvívegis til að ýta hérna melum og með því móti gátum við ræktað töluvert svæði hérna og þetta hefur þróast svona. Núna er ég eingöngu með fé, hátt á þriðja hundrað, en þetta fer að verða nokkuð mikið, því fóðurverð hefur hækkað mikið og þetta því orðið nokkuð dýrt. Ég keypti áburð í fyrra fyrir 60 þúsund. Svo keypti ég aftur í vor og þá fyrir 120 þúsund, og það var ekki nema 3 tonnum meira, svo á þessu sést hvað allt hefur hækkað“.
-Eru þeir ekki orðnir fáir hér á Suðurnesjum sem lifa á búskap?
„Þetta er eina lögbýlið sem er eingöngu með fjárbúskap, en þeir eru fleiri með fé hérna í Grindavík og á Vatnsleysuströnd. Eru það aðallega bræðurnir á Efri-Brunnastöðum sem eru með margt fé. En fé hefur fækkað á skaganum undanfarin ár, því mér var sagt að 1922 hefði verið 22 þúsund fjár hérna á Reykjanesskaganum og 100 hross í fjalli, auk þess sem allir bændur voru með beljur, eina, tvær og þrjár, en núna er ekki nema líklega 3 þúsund kindur á þessu svæði. Er þetta yfirleitt komið heim í rétt eða hólf við fyrstu eða aðra rétt og ekkert beitt yfir vetrarmánuðina, en áður fyrrgekk þetta fé úti allt árið og svo á sumrin suður í Selvogi eða Ölfusi. Nú eru menn að tala um ofbeit, en það er ekki fyrir hendi, því undanfarin ár hafa verið köld, eins og t.d. í fyrra þegar heyin hröktust ekki einu sinni á túnunum, því þau voru eins og í kæliskap og í sumar hröktust þau meira, því það var heitara og í sumar var gott sumar hvað sprettu snertir“.
-Hefur þú hér einhver önnur hlunnindi, s.s. reka?
Ísólfsskáli.-„Nei, að vísu rekur hérna smávegis af belgjum og plastkúlum, en maður verður eiginlega að passa þetta þvi það er svo mikið af fólki sem gengur um og annað hvort hirðir þetta eða þá hreinlega gengur vopnað um og skýtur þetta og eyðilegur, og það er það sem gerir það að verkum að þessi umferð hérna er ekki góð þegar menn skemma svona mikið í kringum sig. Það væri allt í lagi með þessa umferð, ef það væru almennilegir menn sem gengju um þetta“.
-Nú er aðeins korters keyrsla til Grindavíkur, búið þið við einangrun?
-„Það eru 5 km héðan til Grindavíkur, en þeir hafa aldrei verið það framfærir menn að þeir legðu rafmagn þessa leið. í upphafi uppistóð oddviti Grindavíkur ásamt nokkrum úr hreppsnefndinni sem þá var, að hreppurinn keypti ljósavél, 10 ha. Lister og aðra að Stað við Grindavík, því þá var búið á þessum tveimur bæjum. Nú, það var náttúrlega betra að hafa þessar vélar en myrkrið, en þær reyndust mjög illa, að minnsta kosti þessi hérna, því að það var rétt að maður gat haft ljóstýru af henni, annað ekki“.
-En hvernig eru þessi mál núna?
-„Ég hef mikið rifist út af þessu bæði við þingmenn og aðra. En þingmennirnir virðast ekkert gera fyrir mann. Eins hef ég rifist við bæjarstjórn og bæjarráð og hafa þeir sýnt þessu máli nokkurn skilning. Keyptu þeir vél, að vísu gamla og gerðu hana upp, og létu mig hafa hana. Verð ég síðan að sjá um rekstur á henni, og núna sl. sumar fór rafall í henni og þá kostaði 26 þúsund að láta gera við vélina fyrir utan rafvirkja sem ég varð að fá til að rífa hana í sundur og setja saman aftur. Kostaði þetta því stórfé. Tel ég þetta vera algjörlega ófullnægjandi að hafa þessa ljósavél, því að í 3 mánuði á síðasta ári vorum við hitalaus og vatnslaus vegna bilunar, því ef vélin ekki snýst, er allt stopp“.
-Hvernig eru þá símamálin?
Ísólfsskáli
-„Fyrst var hérna bara „bretasími“ sem var lagður á jörðina og var hann í lagi ef logn var, en ef það gerði vind þá hristist hann og skarst í sundur á jörðinni.
Nú, einu sinni fór ég að rífast í því að fá síma, við Ólaf heitinn Thors rétt fyrir kosningar. Spyr ég hann um símann og sagðist hann skyldi athuga það. Svo varð nú ekkert úr því, nema að ég var með þennan helv … bretasíma sem á höppum og glöppum í lagi. Nú, svo koma kosningarnar og þá er ég staddur í Grindavík og þá er Ólafur þar. Þá segir einn við hann: Hvernig heldur þú að kosningarnar fari núna, Ólafur? Ja, ætli það rokki ekki til eins og vant er, segir Ólafur. Ja, þú átt nú einn þarna, og bendir á mig.
Ja, ég segi þá við hann að ég lifði nú ekki á lygum og svikum. Þá segir Ólafur og ræskti sig: Ég man nú ekki eftir því aö hafa lofað þér þessu, en þetta kom til tals. Já, en ég vil nú að það sé byrjað á að mæla fyrir þessu. Nú, daginn eftir komu verkfræðingar og byrjuðu að mæla fyrir þessu, og síðan kom síminn“.
-Þannig að síminn hefur komið vegna kosningaloforðs Ólafs Thors?
-„Já, en það gildir ekki varðandi þá þingmenn sem nú eru, t.d. varðandi rafmagnið, því ég hef talað við þá marga, bæði Gunnar Schram og fleiri. Þeir virðast engir vilja vinna fyrir okkur, við eigum enga þingmenn núna, sem vilja starfa fyrir kjósendur sína, eins og virðist þó vera varðandi aðra landshluta. Þar koma þingmenn vilja kjósenda á framfæri og efna loforðin. Enda leggja þessir þingmenn rafmagn og láta byggja brýr o.fl., en þingmenn okkar gera ekki neitt“.
-Þrátt fyrir það að aðeins 5 km séu til Grindavíkur, þá er oft ófært hingað svo mánuðum skiptir og þið því algörlega einangruð?

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

-Já, 1932 þegar þetta hús var byggt hérna, var enginn vegur hingað og þá þurfti að leggja veg til að koma efninu í húsið. Þá fóru pabbi og systkinin í þáð að ryðja veg og voru allirsneiðingar handmokaðir, fyrst brekkurnar til að komast upp og svo aftur niður. Svo fengum við hálfs annars tonna vörubíl til að koma hingað með efnið í sperrurnar og sementið. Gekk ágætlega að komast hingað niður, en verra að komast upp aftur, því það var svo laust í brekkunum. Enduðu mál með því að farið var ofan í Grindavík til að fá skipshöfn af bát til að koma hingað. Lentu þeir í fjörunni og síðan ýttu þeir bílnum upp brekkurnar“.
-Eruð þið þá í algjörri einangrun frá hausti til vors, og haf ið því engin tök á að nýta ykkur þá þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á?
-„Nei, þeir hafa nú komið hingað og rutt veginn t.d. ef ég verð rafmagnslaus og eins ef mig hefur vanhagað um eitthvað sérstakt. Það er hins vegar útilokað i sambandi við slysahættu og annað að hafa engar samgöngur við Grindavik, því hér er heldur hvergi hægt að koma aö af sjó. Enda sýndi þaö sig einu sinni, er ég var vakinn hér upp um miðja nótt, að þá hafði maður sem ætlaði á bát úr Grindavík til Eyrarbakka orðið að taka land hérna fyrir neðan vegna bilunar á vél. Var hann orðinn það kaldur að ef hér hefði ekki verið fólk, þá hefði hann ekki lifað þetta af. Á þessu sést að nauðsynlegt er að hafa byggð hérna. En það væri ekkert vandamál, ef hér væri rafmagn, en það ástand sem er á þeim málum háir manni bæði varðandi féð og annað. Hér vill fólk reisa sumarbústaði og laxeldi, og einnig hafa menn viljað fá að búa hér, en þetta strandar allt á rafmagninu, því þetta er mátulega langt frá þéttbýliskjarnanum“.
-Hvað myndi ske ef hér kæmi upp eldur að vetrarlagi?
-„Þá er annað hvort að reyna að slökkva sjálfur eða reyna að fá hjálp með því að hringja, svo framarlega sem síminn er ekki bilaður“. Til að geta lifað í slíkri einangrun, verðið þið ekki að lifa eftir öðrum kenningum en aðrir íbúar í þessum mikla þéttbýliskjarna sem Suðurnes eru?

Ísólfsskáli

Jólagetraun Víkurfrétta 1984.

-„Jú, lífið hér byggist upp á því að vera sjálfum sér nógur og geta bjargað sér, hvað sem kemur fyrir“.
-Hvað gerið þið af ykkur í ykkar frítíma?
-„Hér er engin leið að sjá sjónvarp. Hafa þeir frá sjónvarpinu komið til að mæla það út, en fjöllin virðast skyggja á, þannig að í sjónvarp næst ekki nema til komi sendir til að endurvarpa t.d. frá Grindavik. Annars líður dagurinn þannig, að ég er allan daginn yfir fénu, síðan matast maður og sefur, eða þá að maður lítur í bók. Við erum afskipt af öllum félagsmálum. Hitt er verra, að hingað hefur á undanförnum áru

m komið mikið af alls konar óþverralýð, sem hafa verið að skjóta hér og eyðileggja. Skotið hefur verið á húsin hér, jafnvel þó fólk hafi verið í þeim, á fjárhúsin. Einu sinni skutu þeir rétt yfir konuna þegar hún var hér uppi við hjalla, en þá var ég í grenjaleit. Eru því víða för eftir kúluskot hér á húsunum. Virðast þetta vera einhverjir vitleysingar. Sem dæmi get ég sagt að hér verpir mikið af fýl og eitt árið sem það var mjög áberandi, óku þeir hér um og skutu fuglinn út um bílgluggann og létu hræin liggja síðan tvist og bast. Þessir menn virðast geta fengið byssuleyfi hvenær sem þeim dettur í hug, án þess að hafa ákveðin skotsvæði í huga. Sama er með selinn, hann flýtur hér um allar fjörur eftir að hafa verið skotinn af þessum mönnum“.
-Að lokum?
-„Það verður að fá hingað rafmagn. Það er helv… hart aö þurfa að eyða 1600 lítrum af olíu á mánuði. Þó maður fái þennan olíustyrk þá dugar þaö ekki. Samt reynir maður að spara olíuna eins og hægt er. Nú hefur hún hækkað enn, og þá sjá menn hvað þetta gildir. Svo það, að halda þessari vél gangandi, þetta eyðileggst og því þarf að endurnýja það. Nú, svo ef eitthvað bilar, þá kostar þetta tugi þúsunda, svo það er útilokað fyrir einn mann að standa undir þessu helv. … nema að þingmenn eða einhverjir menn hafi það að markmiði eins og í öðrum byggðarlögum, að leggja hingað rafmagn“.
ÍsólfsskáliHúsfreyjan á Ísólfsskála heitir Hertha Guðmundsson. Við spurðum hana hvernig henni fyndist að búa þarna.
„-Mér líkar það alls ekki illa. Ef hér væri bara meiri hiti í húsinu og meira rafmagn, þá væri þetta allt í lagi, en eins og nú er getum við ekki haft nein raftæki, t.d. er frystikistan geymd í húsi í Grindavik“.
-Eru rafmagnsmálin þá aðalvandamálið hérna?
-„Já, ljósavélin bilar oft, þá erum við gjörsamlega hitalaus, vatnslaus og ljóslaus. Það hefur oft komið fyrir að maður hefur verið 3-4 mánuði vatnslaus og þá lifir maður bara af rigningarvatni og þá er ekki hægt að hugsa um þvott, nema þá sem fátækraþvott eins og hann var í gamla daga. Fólk í Grindavík hefur oft boðið okkur að þvo fyrir okkur. En þetta finnst mér það versta við að vera hérna. En vatnsskorturinn stafar af því að í rafmagnsleysinu er ekki hægt að dæla vatninu og því verðum við að notast við rigningarvatnið. Það hefur því komið fyrir að við höfum þurft að fá vatn til neyslu frá Grindavík“.
-Finnst þér ekkert bagalegt að missa af ýmsu sem gerist í félagsmálum?
-„Jú, mann langar nú stundum að komast í samband við fólk eða á samkomur eða annað því um líkt. Við vitum ekkert um þau mál“.
-Hvernig er þá um háveturinn, leiðist ykkur ekkert?
-„Jú, það kemur stundum fyrir, sérstaklega ef símasambandslaust er. Þessi mál hafa nú lagast stórlega eftir að Keflavíkursímstöðin tók við þessum málum. Þær hafa oft samband við okkur eftir slæm veður til að athuga hvort allt sé í lagi. Það er mikil bót“.
-Hvernig líður dagurinn hjá þér?
-„Ég er mikið í handavinnu, sauma, hekla og les töluvert. Ég fæ bækur að heiman og les þær. Svo er maður allan daginn að hugsa um skepnurnar því það er afkoman okkar“.
-Nú ert þú þýsk að uppruna, hefur þú samband við Þýskaland?
-„Já, já, við höfum mikið samband, og margt fólk sem kemur hingað á sumrin kemur við hérna. Síðan hef ég mikið samband við þetta fólk“.
-Hvernig komst þú hingað til lands?
Ísólfsskáli
-„Ég kom hingað til lands í gegnum ráðningu hjá Jóni Helgasyni núverandi landbúnaðarráðherra, en hann var þá í Lubeck að ráða fólk til Íslands. Þetta var árið 1949. Kom ég hingað til lands með gamla Maí frá Hafnarfirði. Höldum við enn kunningsskap þrenn hjón sem eins var með, þ.e. konan kom með togaranum hingað til lands. Voru þetta mikil viðbrigði að koma hingað, með mínar minningar, og setjast svo að á sveitabæ sem var svona afskekktur, því ég kom beint hingað að Ísólfsskála. Var þetta allt mjög nýtt fyrir mér, þó ég hafi alist upp á sveitabæ, þó voru viðbrigðin kannski ekki alveg eins mikil og þau hefðu getað orðið að koma hingað. Ég er mikið náttúrubarn og finnst gott að vera mikið úti. Ég gæti ekki hugsað mér að vera alltaf inni“.
-Hvað finnst þér um Íslendinga sem Þjóðverji?
-„Íslendingar eru ágæt þjóð að sumu leyti, en ég held að þeir kunni ekki að hagræða hagsmunum sínum rétt. Þeir hafa of fljótt orðið ríkir að loknu stríðinu og hafa síðan átt erfitt með að halda á peningamálum sínum“.
-Að lokum?
„Ég vil óska öllum kunningjum okkar og vinum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs“.
Þetta fólk býr eins og fram kemur við mikla einangrun, þó það sé aðeins um 5 km frá Grindavik. Það sættir sig við að vera meira og minna innilokað, en rafmagnsmálin eru aftur á móti mikið mál hjá þeim, enda furðulegt að það skuli ekki vera fyrir löngu búið að leggja rafmagn í þessa átt út frá Grindavík eins og í hina áttina. Eins er það mikið öryggismál bæði fyrir þau og sæfarendur, að lagður verði upphækkaður vegur þarna, sem ekki væri eins snjóþungur og sá sem nú er, því þarna fyrir utan eru mið bátaflotans og því þarf að vera akfært þarna, ef eitthvað ber út af, t.d. skipsstrand eða annað því um líkt. Enda ófært að slíkar vegsamgöngur skuli vera hér á einum mesta þéttbýliskjarna landsins. – epj.

Heimildir:
-Víkurfréttir, jólablað, 47. árg. 13.12.1984, Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt, Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita, vatns, rafmagns og símalaus.
-Morgunblaðið, 28. tbl. 03.02.1965, Gengið á fjörur, bls. 12.
Ísólfsskáli

Ísólfsskáli

Í Vísi árið 1967 er viðtal við hjónin á „Ísólfsskála; Agnesi Jónsdóttur og Guðmund Guðmundsson“, undir fyrirögninni „Fimm tugir ára á bröttum kambi við brimlúðar flúðir“:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1915-1930; – Sæmundur G. Guðmundsson.

„Það var gaman að vera ungur Íslendingur í dag,“ sagði við mig vaxandi maður ekki alls fyrir löngu. Hann stóð rétt á tvítugu, vænn og“ vörpulegur.
Vonandi á hann framundan langa og giftudrjúga ævi, og á eftir að sjá og reyna margt, sem sýnir honum fyllri og fegurri lífsmynd en þá sem heillar hann í dag.
En hvað er þá að vera ungur Íslendingur? Eru það aðeins árin, sem segja til um aldur fólks — eða er það eitthvað annað og meira? Ef til vill getur sú innri glóð, sem skapazt hefur við reynslu áranna viðhaldið æskunni, sem eðlislægri eigind, en jafnframt auðgað hana rökhyggju og víðsýni.
Milli brattra gróðurlítilla hæða, skammt ofan við brimsorfna strönd nokkru austar en Grindavíkurþorp, stendur snoturt og vel umgengið býli sem heitir Ísólfsskáli. Þangað hef ég nú lagt leið mína og notið til þess atbeina tveggja systkina, sem slitið hafa þar barnsskónum á bröttum brimlúðum mölum. Og í notalegri stofu, þar sem ég get hreiðrað um mig í mjúku hægindi, situr andspænis mér kona. — Já, víst er aldurinn orðinn hár, því nú á hún 90 ár að baki. — En hvort aldurinn segir alla sögu tel ég vafasamt og nú skulum við heyra stutta þætti úr lífssögu þessarar konu, og blik bjartra augna segir mér að þar á megi nokkurt mark taka — ennþá sé minnið trútt og dómgreindin óbiluð.
Ísólfsskáli
— „Ég heiti Agnes Jónsdóttir og er fædd á Þórkötlustöðum í Grindavík. Foreldrar mínir voru Jón Þórðarson og Valgerður Gamalíelsdóttir, sem þar bjuggu, og þar ólst ég upp.
— Það er sennilega orðin mikil breyting á frá þeim tíma?
— Já, það er meira millibilið. Þá voru bara nokkrar torfbaðstofur í Þórkötlustaðahverfinu, og öll útgerð á áraskipum. Veiðarfærin voru handfæri og lína. Afli var oft ágætur, einkum á vertíðinni, og fiskurinn gekk mjög nærri landi. Þó brimlending sé í Grindavík og oft tvísýn landtaka kom mjög sjaldan fyrir að ekki væri fært Þórkötlustaðasund. — Það eru álög á því sundi.
— Hver eru þau álög?

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

— Það var álfkona, sem missti manninn sinn á Járngerðarstaðasundi. — Þar fórust 18 skip. — En hún sagði að aldrei skyldi skipstapi verða á Þórkötlustaðasundi ef rétt væri farið — og það ég bezt veit hefur þetta rætzt, — aldrei farizt skip. En á Járngerðastaðasundi munu þau orðin 20. — Og ég man eftir að hafa orðið áhorfandi að slysförum þar.
— Manst þú eftir mikilli fátækt í æsku þinni?
— Ójá. Það höfðu nú margir lítið fyrir framan hendurnar. Flestir höfðu mjög fáar kindur, t. d. höfðu foreldrar mínir 11 kindur, og svo höfðu þau eina kú. Aðalbjargræðið var því sótt til sjávar. Faðir minn stundaði alltaf sjó, og segja má að þaðan brysti aldrei björg. Ég man enga ördeyðu vertíð.
— Þú manst hörðu árin um 1880?
— Já. Þá var afskaplega mikill snjór, t.d. man ég það að grafa þurfti göng til að komast út úr bæjunum. Þeir voru að vísu ekki háreistir.
— Hvenær ert þú fædd?
— Þann 3. desember 1876.
— Þú ert þá orðin vaxin kona um aldamót?
— Já, og ég man eftir slysförum sem urðu hér á sjó aldamótaárið, það var úti á rúmsjó — ekki við land. Þetta var 28. október um haustið. Af þessum báti var einum manni bjargað en þrír fórust. Hann var þó ekki langlífur því á vertíðinni lézt hann. Og ævilok hans urðu þau, að hann fór fram í Þórkötlustaðanes, og hafði með sér byssu. Það var oft siður að skjóta fugl til bjargræðis heimilum. En skotið hljóp úr byssunni og varð honum að bana.

Þórkötlustaðir

Hraun í Grindavík – Þórkötlustaðagata.

— „Þegar ég var 23ja ára gömul fór ég frá foreldrum mínum og réðist til manns og var hjá honum í 11 ár og áttum við saman 6 börn. — En svo sundraðist það samband og fór ég þá aftur til foreldra minna og var hjá þeim um tíma. En svo vorið 1910 fór ég til hans Guðmundar míns, sem þá var lausamaður á Hrauni og þar vorum við í 6 ár, en fluttum þá hingað að Ísólfsskála og höfum verið hér síðan eða 51 ár, þann 4. júní í vor.
Ísólfsskáli— Hvernig var nú um að litast þegar þú komst hingað?
— Það var nú ekkert björgulegt. Jörðin hafði þá verið þrjú ár í eyði og fremur köld aðkoman. Baðstofan var lítil og ekki vel útlítandi. — Meðan við dvöldum á Hrauni hafði Guðmundur þar útgerð á stóru áraskipi, sem á voru 11 menn og höfðum við þá 18 manns í heimili. Fyrstu árin eftir að við fluttum hingað hafði hann áfram útgerð á Hrauni yfir vertíðina, og þá var ég ein heima með krakkana. — En það, að við fluttum hingað orsakaðist nokkuð af því, að ég hygg, að Guðmundur er hér fæddur og uppalinn. Hann er nú 83 ára og við höfum átt saman 6 börn. Mín börn eru því 12 og af þeim 11 á lífi.
— Þetta er orðið þó nokkuð ævistarf?
— Já, það hefur stundum orðið að taka til hendinni. Fyrst þegar við komum hér var aðeins örlítill túnblettur kringum húsið. En hér er nú orðin töluverð ræktun og mest unnin upp úr sandi.
— Hvað er þér nú sérstaklega minnisstætt frá þessari 50 ára veru hér í Ísólfsskála?
Ísólfsskáli
— Hér í skálanum hefur okkur liðið mikið vel. Aldrei orðið fyrir neinum óhöppum eða á föllum sem þannig eru frásagnarverð. Lífið hefur verið fábrotið en oftast notalegt og alltaf heldur miðað í átt til batnandi hags, svo það er ekki undan neinu að kvarta. Við vorum að vísu mjög fátæk fyrstu árin meðan börnin voru í æsku.
Hjá okkur voru tvö börn mín frá fyrra sambandi og svo öll börn okkar Guðmundar. Auk
þess tókum við tvö börn í fóstur.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

– Bættuð við það sem lítið var?
— Já, þess var þörf vegna barnanna.
— Þú manst þá tíð þegar askar voru matarílát fólksins?
— Já, heima hjá pabba og mömmu var ætíð borðað úr öskum og með hornspónum, og á þá voru grafin fangamörk eigendanna. Ljósabúnaður á heimilinu voru fýsislampar — kveikurinn í þá var snúinn úr ljósagarni. — Og fræðin mín — Helgakverið — lærði ég við lýsislampa. — Eldiviðurinn sem brennt var. Í eldhusinu var mosi og þang. — Ég man mjög vel eftir því aö ég var þar að lesa kverið mitt og þá féll sótkökkur úr mæninum niður á bókina.
— Fékkst þú tilsögn í skrift á þínum uppvaxtarárum?
— Já, ég var látin í skóla, sem þá starfaði í Garðhúsum og vorum við tvær systur þar sína vikuna hvor. Og hérna getur þú séð skriftina mína, — og nú réttir hún mér bók, sem er þannig frágengin að margur 70 árum yngri gæti verið hreykinn af. — Og þessi bók hefur að geyma mikinn og merkilegan fróðleik, í hana er skrifuð dagleg veðurlýsing síðustu 30 ára.
— Og það virðist svo sem höndin sé því nær jafnstyrk á síðustu og fyrstu síðum bókarinnar.
— Finnst þér minni þitt nokkuð farið að förlast?
— Nei, ekki held ég það, ennþá man ég flesta atburði sem nokkurs er um vert í lífshlaupi mínu — og ég get fylgzt með því sem fram fer í kringum mig og haft full not af blöðum og útvarpi.
Ísólfsskáli
Og nú er hér kominn bóndi Agnesar, Guðmundur Guðmundsson, en foreldrar hans, Guðmundur Hannesson og Guðrún Jóelsdóttir, bjuggu hér í Ísólfsskála í 20 ár — en þegar þau féllu frá flutti hann út í Grindavík, og byrjaði að stunda þaðan sjó 14 ára gamall.

Guðmundur og Agnes

Guðmundur og Agnes á Skála.

— Var nú ekki stremið að setjast undir svo stórar árar á þeim aldri?
— Jú, náttúrlega var það erfitt, og svo að setja skip og bera upp fiskinn. En skipin varð öll að setja af handafli, spil voru ekki komin fyrr en á síðustu sjófaraárum mínum, en þau yoru nú fremur ófullkomin í fyrstu.
— Og hvað segir þú svo um fimmtíu ára samstarf ykkar hjóna hér á Ísólfsskála?
— Mér finnst það hafa verið gott og lífið hér ánægjulegt og boðið okkur marga góða kosti, þótt örðugt væri í fyrstu.
— Hefur þú aldrei róið héðan að heiman?
— Það er tæpast teljandi. Fyrstu árin reri ég frá Hrauni — lá þar við, en hún var ein heima með börnin og satt að segja var ég þá aldrei í rónni þegar vond voru veður. — En vorum að reyna að rétta okkur við þetta hlutskipti meðan við vorum að reyna að rétta okkur úr kútnum og börnin að komast á legg. — Öll innkaup varð að spara til að geta staðið í skilum og borgað allt upp einu sinni á ári.  Þá hlaut maður líka nokkra tiltrú í viðskiptum.
— Eru engin selalátur eða lagnir hér í nágrenninu?

Nótarhóll

Nótarhóll.

— Jú, líklega hefur það nú verið, því hér framan við tána hérna er hóll, sem hét Nótarhóll.
Svo hér fyrri — 1703 — var stunduð selveiði í látrum hér austur á Selatöngum — en þann veiðirétt áttu Krýsuvíkingar að nokkru.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936.

— Þú manst eftir byggð í Krýsuvík?
— Já, en hún var þó farin að dragast saman bá. Faðir minn bjó þar nokkur ár á Vígdísarvöllum.
— Hefur þú aldrei lent í neinum verulegum erfiðleikum á sjó, Guðmundur?
— Nei, ég hef nú verið formaður hér og svo líka róið austur á fjörðum, bæði Borgarfirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði og reri út í Seley, en aldrei lent í neinu sem í frásögur er færandi og á sér ekki ótal hliðstæður í lífi íslenzkra sjómanna.
— En þú hefur oft aflað vel?
— Já, svona eftir hætti en mig skorti efni til að hafa nægilega góðan útbúnað hvað veiðarfæri snerti. Ég þurfti að fá allt að láni hjá kaupmanninum — Einari í Garðhúsum. Hann var svo sem ágætur ef maður stóð í skilum og eins og ég sagði áðan, þannig hafðist þetta. —

Ísólfsskáli

En svo þurfti að byggja hér upp, þá fór ég til Tryggva Þórhallssonar og hann aðstoðaði mig við að fá til þeirra framkvæmda 6000 króna lán úr byggingar- og landnámssjóði.
— Voru það ekki talsverðir peningar þá?
— Jú, en það var nú sama. Það var nú ekki nóg.
— Lengst af ykkar búskap hér á Ísólfsskála, að frá teknum fyrstu árunum, hafið þið haft ykkar aðalframfæri af landbúnaði?
— Já, það hefur verið svo, en við höfum aldrei haft stórt bú, til þess eru engin skilyrði, útengi er ekkert, og heysskapur ekki annar en sá sem tekinn verður á ræktuðu landi. Hér er engin fjörubeit á veturna, en dálítið kropp hér upp í hrauninu, þannig að í sæmilegum vetrum gengu sauðir mikið úti, meöan ég hafði þá.
— Þú hefur haft sauði?
— Já, ég held þeir hafi komizt upp í 40. Hvað sumarhaga snertir er hér mikið landrými.
— Hér kemur ekki hafís?
— Aldrei hefur það komið fyrir svo langt sem við munum, en af því höfum við haft sagnir frá eldri tímum.
— Hvað gerði fólkið sér til skemmtunar á ykkar æskuárum?
— Það þætti nú held ég fábreytt núna. Gíslakeðja — Höfrungaleikur og feluleikur. — Fullorðna fólkið lagði sig í rökkrinu og þá fengu unglingarnir að leika sér með því móti að hafa ekki hátt.
— Þú segist ekki hafa gert út héðan?
— Nei, en faðir minn gerði héðan út tvo báta einu sinni og það var vegna þess að hann fékk ekki uppsátur úti í Nesi [Þórkötlustaðanesi].
Þetta gekk nú ágætlega, það var í tvö skipti sem þeir hleyptu út í Nes. Annað skiptið fyrir brim — en annað skipti vegna þess að hann var svo hvass á norðan og þá börðu þeir upp í nesið.
— Hvernig lending er hér?
— Hún getur nú ekki talizt góð. Með landinu er alltaf geysilegur austanstraumur. Og þegar komiö var úr róðri var aflinn allur settur á seilar utan við lendinguna, færi bundið við og dufl sett á, en færið var í hnykli í skipinu og rakti sig þegar tekinn var landróðurinn, um leið og lagið kom. Þegar skipið kenndi grunns, stukku allir út og brýndu því undan sjó.
Þurfti hér oft mikið snarræði og örugg handtök. Síðan voru seilarnar dregnar í land og bornar á bakinu hér upp á kambinn, þar sem aflanum var skipt. — Það var stórt atriði að formaðurinn væri öruggur að taka lagið, og eins var það þegar farið var frá landi, þá var skipinu ýtt niður — hver maður stóð við sitt ræði og þegar formaðurinn kallaði — lagið — stukku allir upp í og gripu til ára og fyrir kom að fram á mennirnir komust ekki upp í og voru innbyrtir þegar fram á lónið kom. — Hér út á Selatöngum var þetta svona líka.
Ísólfsskáli
— Var þaðan útræði?
— Já, ég hef heyrt að fyrir Bátsendaflóðið hafi gengið þaðan 14 skip og ennþá sjást glögg merki verbúðanna.
— Já, það er margs að minnast frá fyrri árum, t.d. á haustin, þá var „þangað“ í fjörunni og reitt upp á fleiri hesta.
— Þangað? — Hvað kallarðu að þanga?
— Nú, þangið í fjörunni var tekið og reitt upp og svo þurrkað til eldiviðar. — Svo var reittur mosi. — Þetta var aðaleldsneytið, og svo dálítið af taði. Þetta var svo allt borið heim til bæjar á bakinu og þar var eina eldstóin hlóðir. T.d. þegar konan fór í mosatekju, þá bar hún hann heim í „fætli“ og prjónaði á leiðinni. — Svona var nú vinnumennskan þá.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

— Er ekki hægt að fara með sjó úti í Grindavík?
— Nei. Það er ógengt, verður að fara hér efra — eins er það inn til Krýsuvíkur.
— Hvernig voru skiptin á þessum áraskipum hér?
— Væru 11 á þá var skipt í 14 staði. — Þrír hlutir dauðir, — einn fyrir skipið og tveir fyrir veiöarfærin — formannshlutur þekktist ekki, enginn aukapartur fyrir það. — En nú skal ég segja þér nokkuð: — Einu sinni rauk hann upp í suðvestan veður aö næturlagi, þeir fara allir ofan og þá er báturinn farinn en skipið komið á hliðina — Þeim tókst að bjarga því við illan leik. — En hvar heldurðu að bátinn hafi rekið? — Hann rak vestur á Hraunssand á móti þessu stórviðri — Svona sterkur er straumurinn. —
— Hve langa línu höfðuð þið?
— Það var nú dálítið misjafnt — stundum á vorin lögðu þeir 300 króka hérna í leirinn og fylltu bátana. Og eftir því man ég, að pabbi reri stundum á vorin með 60 króka skötulóð hérna austur á Mölvíkina — og það var oft skata á hverju einasta járni — kannski ber svona einn öngull. — Allt saman stór skata. — Það er góður matur vel verkuð skata. — Þá var svo mikið lifað á harðæti og bræðingi. Þetta kom mergnum í mann — sérstaklega bræðingurinn — en hann var búinn til úr bræddri tólg og sjálfrunnu þorskalýsi. — Hver útvegsbóndi varð að leggja háseta til eitt fat undir lifur og ég held einnig fjórðung af rúgi og fjórðung af fiski. — Svo fékk hver maður 50 pund af mjöli, sem átti að duga í kökumat yfir veturinn, og einn sauð, sem átti að duga í kæfu, hvort sem menn vildu heldur stykkjakæfu eða soðkæfu — svo tvo fjórðunga af tólg og einn af smjöri — eða þrjá af smjöri. — Þetta var matan. Soðninguna tóku menn af afla. Það voru tveir í hverju rúmi, þeir höfðu kastið saman og tóku af því. — Fiskurinn var svo verkaður sem harðfiskur eða skreið á þeirra tíma vísu, en með nokkuð ólíkum hætti og nú er gert. Salt var þá ekki fáanlegt.
Ísólfsskáli
– Ég tók eftir mjög vel hlöðnum grjótgörðum víða hér umhverfis túnið og niður við sjóinn. Eru þeir þín verk?
— Já, flestir eru þeir hlaðnir eftir mig.
— Er ekki trjáreki hér?
— Jú, dálítill. T. d. get ég sagt þér að báturinn sem brotnaði hérna vestur á Hraunssandinum var smíðaður úr einu rekatré.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – nýrri bærinn.

Já, það er margt sem rifjast upp þegar litið er til baka um langan veg — og víst væri fróðlegt að heyra meira úr lífssögu þeirra Ísólfsskálahjóna — sem svo margt er frábrugðin þeirri sögu sem skráð yrði um hagi þeirra, sem nú eru ungir eða innan við miðjan aldur. —
Ungir? — Það er nú spurningin. — Er það gamalt fólk, sem hér hefur talað? — ánægt með sitt hlutskipti — laust við andlega lífsþreytu, að vísu með rúnir áranna ristar í skurnið.
— Hver er ungur?
„Oft hefur sjötugur fyrir
tvítugs manns tær stigið“.

Í Náttúrufræðingnum 1947 er vitnað í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 eftir sr. Geirs Backmanns um Ísólfsskála:

„Ísólfsskáli er þar austast við sjó. Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt hann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á Ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á Ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.
Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.“

Heimildir:
-Vísir, blað II 12.06.1967, Fimm tugir ára á bröttum kambi við brimlúðar flúðir, Viðtal dagsins er við hjónin á Ísólfsskála, Agnesi Jónsdóttur og Guðmund Guðmundsson, bls. 16-17.
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, landnám Ingólfs – Grindavík, bls. 42.
-Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Esjuberg

Á vefsíðu kirkjunnar 18. júní 2021 má lesa eftirfarandi um „útialtari“ á Esjubergi:

„Sunnudaginn 20. júní verður útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi, vígt af biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Með henni þjóna sóknarpresturinn sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Kór Reynivallaprestakalls syngur og organisti er Guðmundur Ómar Óskarsson. Athöfnin hefst kl. 14.00.

Esjuberg

Esjuberg – Biskup Íslands vígir útialtarið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft veg og vanda af útialtarinu og mun formaður félagsins, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, flytja ávarp við vígsluna.

Útialtari

Útialtarið.

Hátt í fjórir áratugir eru liðnir frá því að fyrst var hreyft þeirri hugmynd að koma upp á Esjubergi minnismerki í tilefni þess að sagnir herma að þar hafi verið reist fyrsta kirkjan á Íslandi og þá þegar fyrir kristnitöku árið 1000. Það var svo árið 2014 að var flutt tillaga á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar af tveimur Kjalnesingum um að reist yrði útialtari að Esjubergi. Tillögunni var vel tekið á þinginu en henni var vísað heim í hérað. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi tók svo málið í sínar hendur og hefur haft yfirumsjón með verkinu. Allar götur síðan hefur Sögufélagið Steini unnið jafnt og þétt að uppbyggingu útialtarisins. Þjóðkirkjan, ýmis félagasamtök, sjóðir og fjöldi einstaklinga hafa lagt fram fé til þess að þetta minnismerki yrði að veruleika. Stjórnarmenn í Sögufélaginu og velunnarar þess hafa lagt fram mikla vinnu við útialtarið. Fyrsta skóflustungan að útialtarinu var tekin 8. maí 2016.

Esjuberg

Biskup Íslands og sr. Arna Grétarsdóttir sóknarprestur Reynivallarprestakalls.

Nú er útialtarið tilbúið og er mannvirkið hið glæsilegasta. Útialtarið er hringur, með fjórum inngöngum sem snúa til höfuðátta, veggir eru hlaðnir af hleðslumeisturum sem og sæti. Upp úr níu tonna altarissteininum rís tveggja metra keltneskur kross sem steyptur var af hagleiksmanninum Guðna Ársæl Indriðasyni. Krossinn ber ýmis keltnesk tákn og á ytra borði hans eru steinvölur sem börn úr Klébergsskóla tíndu úr fjörunni á Kjalarnesi sem og steinar frá skosku (keltnesku) eyjunum Lindisfarne og Iona.

Útialtarið á Esjubergi er einstakur kristinn helgistaður og þar verða eflaust ýmsar athafnir hafðar um hönd, eins og skírnir, hjónavígslur og helgistundir.

Hvar er útialtarið?

Esjuberg

Esjuberg – skilti til leiðbeiningar að útialtarinu.

Þegar komið er upp úr Kollafirði blasir við skilti sem á stendur Kerhólakambur og einnig Útialtarið – og slaufumerkið um að þar sé að finna athyglisverðan stað til að skoða. Á vígsludaginn verður fánaborg við innkeyrsluna og ætti hún ekki að fara fram hjá neinum. Mælt er með því að fólk leggi bílum sínum til hliðar við innkeyrsluna og gangi að altarinu, en það eru 0.7 km. Spáð er ágætisveðri.“ – hsh

Á MBL.is 19. júní 2021 var eftirfarandi umfjöllun um útialtarið á vefmiðlinum:

Biskup vígir keltneskt útialtari á Esjubergi
Talið er að fyrsta kristna kirkja Íslands hafi staðið við Esjuberg og á hún að hafa verið reist um árið 900 en hennar er getið í íslenskum ritheimildum. Þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkjuna og nú á sunnudag mun biskup Íslands vígja útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi.

Esjuberg

Sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur Kjalarnesprófastdæmis.

„Þjóðkirkjan hefur talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar, en ekkert bólaði á framkvæmdum,“ segir Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins. „Þá fékk okkar litla sögufélag þá fáránlegu hugmynd að þetta væri verðugt verkefni fyrir félagið að halda á lofti nöfnum Kelta í íslenskri sögu,“ segir Bjarni í léttum tón í Morgunblaðinu í dag.

Og þann 21. júní s.á. mátti lesa:

Kjalarnes

Kjalarnes – útialtari; minnismerki.

„Biskup Íslands vígði á sunnudag útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkju sem talin er hafa verið fyrsta kristna kirkja Íslands, reist árið 900 og stóð við Esjuberg.

Kirkjunnar var getið í íslenskum ritheimildum en þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins sagði Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins, að „þjóðkirkjan hafði talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar en ekkert hafði bólað á framkvæmdum“.“

Heimildir:
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2021/06/18/Vigt-a-sunnudaginn/
-Mbl.is Innlent | Morgunblaðið | 19.6.2021 og
Innlent | mbl | 21.6.2021 | 21:02

Esjuberg

Esjuberg – útialtarli.

 

Mosfellsbær

Í Morgunblaðinu 1983 er fjallað um „Kirkjuklukku frá 13. öld…“. Þar mun vera um að ræða gamla kirkjuklukkan, sem var í Hrísbrúarkirkju, áður en hún var rifin og ný kirkja reist að Mosfelli:

Ævaforn kirkjuklukka frá Mosfelli [Hrísbrú]
Hrísbrú
Í gær kom einnig til Kjarvalsstaða ævaforn kirkjuklukka frá Mosfellskirkju [Hrísbrúarkirkju] í Mosfellssveit. Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hennar að sögn Björns Th., hún mun ekki vera frá frumkristni á Íslandi, en þó líklega frá því á 13. öld eða í byrjun þeirrar 14. Sést aldur hennar á lagi hennar, hún er útflá í laginu. Björn kvað uppruna óvissan, líklegast væri að hún væri þýsk, en gæti þó allt eins verið ensk eða frönsk. Klukkuna taldi dr. Róbert Abraham Ottósson, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, hljómfegurstu klukku á landinu.
Klukka þessi kemur mjög við í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness.
Er kirkja var lögð niður á Mosfelli og flutt að Lágafelli, vildu bændur á Hrísbrú ekki una því að kirkjuklukkan forna færðist þangað. Var hún því geymd á Hrísbrú uns aftur reis kirkja á Mosfelli, og þar er klukkan nú. — Ekki munu Hrísbrúingar þó vilja una við þá útgáfu, er Innansveitarkronika gefur um geymslustað klukkunnar á Hrísbrú, en ekki er ætlunin að blandast inn í þær deilur hér.
Björn Th. kvað þetta alls ekki elstu klukku á landinu. Sú elsta er geymd á Þjóðminjasafninu, og mun einnig verða á sýningunni nú. Það er klukka frá Hálsi í Fnjóskadal, frá því á 12. öld. „Sú klukka hefur hringt við eyrum Guðmundar biskups góða, er hann var að alast upp á Hálsi,“ sagði Björn Th.

Í Vísi 1962 birtist grein um Hrísbrúarklukkuna; „Klukkan kallar„:

Lágafellskirkja

Lágafellskirkja 1901.

Kátt tók að klingja og fast
klukkan, sem áður brast.
Alskærum ómi sló
út yfir vatn og skóg.
Mín klukka, klukkan þín
kallar oss heim til sín.– H.K.L.

Það geymast margar kynjasagnir í kristnum löndum. Um dularmátt kirkjuklukkna, hvernig þær orka ævilangt á mannlegar tilfinningar og mannleg örlög aftur á þær, líkt og klukkurnar séu gæddar lífi og sál.
Það kunna allir Íslendingar söguna af því, er Líkaböng Hóladómkirkju átti að hafa tekið að hringja sér sjálf, er lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt heim að Hólum. Tjéðlend frásögn hermir, að það hörmulega slys hafi hent, að fegursta stúlka þorpsins hafi fallið í mótin, þar sem verið var að bræða málminn í þorpsklukkurnar, og líkami hennar bráðnað þar. Sagan segir að fegurð hennar hafi orðið ódauðleg í hljómi klukknanna, sá hljómur sé ekki af þessum heimi.

Hrísbrúarkirkja

Mosfellskirkja – Við Mosfellskirkju sumarið 1883, enskur ferðamaður í hársnyrtingu, til vinstri er íslenskur fylgdarmaður ferðafólksins sem fékk að gista í kirkjunni. Myndin er önnur tveggja ljósmynda sem til er af þessari kirkju sem komst á hvers manns varir fimm árum síðar eins og greint er frá í Innansveitarkroniku. Kirkjan var byggð úr timbri og var eina timburkirkjan sem staðið hefur á Mosfelli.
Mosfellskirkja árið 1883. Ljósmyndari: Walter H. Trevelyan. © Brennholt.

Í einum fegursta dal Íslands, við dyr höfuðborgarinnar, er nú verið að móta í málm og stein lokaatriði ævintýralegrar og ótrúlegrar sögu, sem hófst árið 1888. Klukknahljómur er upphafs- og lokastef þessarar ljóðrænu, rómantísku frásagnar, og jafnvel á atómöld eru menn veikari fyrir rómantík en menn vilja vera láta.
Hið umrædda ár, 1888, var tekin af kirkja, sem staðið hafði í dalnum um aldaraðir. En allmargir dalbúanna máttu ekki til þess hugsa að klukknahljómurinn hyrfi úr dalnum. Þeir hófu harðar mótmælaaðgerðar gegn kirkjuyfirvöldunum og náðu á sitt vald klukkuur gömlu kirkjunni, sem jöfnuð var við jörðu. Segir sagan að þeir myndu aldrei hafa látið hana af hendi og verið þess albúnir að verja hana með afli.
Hrísbrú
Svo mikið er víst, að kirkjuklukkan er enn í dag varðveitt Í dalnum, á næsta bæ við hinn forna kirkjustað, sem tákn löngunarfullrar þrár þessa byggðarlags, hvers byggðarlags og hvers hjarta, eftir „alskærum“ helgum hljóm, þrátt fyrir allt og allt.
Á bænum með kirkjuklukkunni ólst upp drengur, sem síðar varð forvígismaður sveitarinnar. Hann lézt fyrir fáum árum, ókvæntur og barnlaus stóreignamaður og hafði þá stofnað eignum sínum sjóð, sem verja skal til að endurreisa kirkju dalbúa á hinum forna kirkjustað. Nú er þessi einstæða kirkjubygging hafin. Og fyrsti gripurinn, sem kirkjan hefur eignazt, er gamla klukkan, hið eina sýnilega tákn gömlu kirkjunnar, sem aldrei tókst að ræna frá dalbúum. Til orða hefur komið að taka upp þá venju með nýju kirkjunni, að hringja klukkum hennar út yfir dalinn á sama tíma hvert einasta kvöld. Og það er trú ýmisa, að fengi gamla klukkan ekki að hljóma með, myndi hún hringja sér sjálf.
„Mín klukka, klukkan þín kallar oss heim til sín“.

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Kirkja stóð á Mosfelli í Mosfellsdal frá ómunatíð, þar til síðsumars árið 1888. Þá voru Mosfells- og Gufunesssóknir lagðar niður og sameinaðar Lágafellssókn og ný kirkja reist miðsvæðis, það er að segja á Lágafelli. Lágafellskirkja var vígð á fyrsta góudag 1889. Þar hafði ekki verið kirkja áður, en óljósar sagnir eru um bænahús þar á 17. öld.
Það mætti mikilli andúð í Mosfellssókn, er kirkjan þar var lögð niður. Dalbúar og Inn-Kjalnesingar vildu ekki missa Mosfellskirkju, en sóknarpresturinn, séra Jóhann Þorkelsson, síðar dómkirkjuprestur í Reykjavík, kirkjuyfirvöldin í Reykjavík og meirihluti sóknarmanna voru fylgjandi þeirri breytingu, sem gerð var, enda hnigu óneitanlega að því ýmis rök. En tilfinningar dalbúa voru andstæðar þeim rökum, og gekk svo langt, að ýmsir íbúar Mosfellsdals og Inn-Kjalnesingar höfðu fullan hug á að una henni ekki og fóru þess á leit við séra Þorkel Bjarnason á Reynivöllum, að hann gerðist kjörprestur þeirra. Af bréfum, sem fóru á milli, er ljóst, að séra Þorkell tók vel í þessa málaleitan, en til þessa kom þó ekki, og mun þessi „uppreisn“ hafa verið þögguð niður af biskupi og kirkjuyfirvöldum.

Hrísbrú

Hrísbrú – kirkjan eftir fornleifauppgröft.

Harðasta andstaðan gegn því að taka af kirkju á Mosfelli var á bæjunum í kring. Andstæðingar þeirrar nýskipunar náðu í sínar vörzlur klukku úr Mosfellskirkju, þegar hún var rifin, og munu hafa verið albúnir þess að verja gerðir sínar með afli, ef á hefði verið leitað.
Elínborg Andrésdóttir, býr nú á Hrísbrú, og þar tók ljósmyndari Vísis myndina af henni með hina sögufrægu og sigursælu kirkjuklukku á dögunum.
Þótt Mosfellingar töpuðu fyrstu orustunni í stríðinu fyrir kirkju sinni, hafa aldrei þagnað að fullu þær raddir, sem gerðu tilkall til þess að Mosfellskirkja yrði endurreist.
Fyrir þremur árum andaðist hreppstjóri Mosfellssveitar, Stefán Þorláksson í Reykjahlíð, og kom í ljós, er erfðaskrá hans var opnuð, að þessu kirkjumáli var borgið. Stefán hafði alizt upp á Hrísbrú með gömlu kirkjuklukkunni og undir áhrifamætti þeirra minninga, sem við hana og Mosfellskirkju voru bundnar. Hversu máttug þau áhrif hafa verið, má bezt marka af því, að Stefán, sem var 6-kvæntur og barnlaus stóreignamaður, stofnaði með erfðaskrá sinni sjóð af þorra eigna sinna og skyldi verja honum til að endurreisa kirkju á Mosfelli Þar með var hið mikla tilfinninga- og metnaðarmál dalbúanna komið í höfn.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur;

Stefán lét eftir sig svo miklar eignir, að talið er að þær hrökkvi eigi aðeins fyrir byggingarkostnaði, heldur og fyrir viðhaldi og reksturskostnaði kirkjuhússins í framtíðinni. Meðal eigna þeirra, er Stefán arfleiddi kirkjusjóðinn að, er gróðrarstöð, þar sem einvörðungu eru ræktuð blóm og kirkjubyggingarsjóður rekur í samvinnu við garðyrkjumann, og má því með sanni segja, að blómin leggi sitt af mörkum til kirkjubyggingarinnar.

Mosfell

Mosfell – gamli bærinn og kirkjan.

Á sl. ári var efnt til verðlaunasamkeppni um teikningu að nýju kirkjunni og þrenn verðlaun veitt að tillögu dómnefndar, sem fjallaði um teikningarnar. Ekki var þó byggt eftir neinni verðlaunateikningunni, heldur eftir teikningu, sem Ragnar Emilsson gerði. Framkvæmdir við kirkjubygginguna hófust strax og klaki fór úr jörðu í vor. Nú hefur verið steyptur grunnur undir kirkjuna og verið er að slá upp fyrir kirkjuskipinu og kórnum. Nokkur hluti kirkjunnar er byggður inn í gamla kirkjugarðinn. Þar kom upp töluvert mikið af mannabeinum. Þeim var öllum safnað saman í stóra kistu, sem grafin var undir kórgólfi nýju kirkjunnar.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

Stjórn dánargjafar Stefáns Þorlákssonar skipa sóknarpresturinn, sýslumaður og biskup landsins. Þá starfar og sérstök kirkjubyggingarnefnd, sóknarpresturinn, séra Bjarni Sigurðsson, formaður, og sést af því, hve mikið hvílir á hans herðum við þetta endurreisnarstarf.
Með honum eru í byggingarnefndinni Jónas Magnússon, safnaðarfulltrúi í Stardal, Ólafur Þórðarson, sóknarnefndarformaður Varmalandi, Ólafía Andrésdóttir, húsfreyja, Laugabóli, og Ólafur Ólafsson, læknir, Reykjalundi.
Mikil og almenn ánægja og áhugi ríkir fyrir þessari kirkjusmíði í Mosfellssveit, eins og allur aðdragandi þessa byggingarmáls hefur tilefni til, og mun vart ofmælt, að fáar nútímakirkjur á Íslandi eigi jafn sögulegan aðdraganda.
Hin nýja kirkja á Mosfelli á að rúma 110 manns í sæti. Hún stendur á brekkubrún og sér þaðan yfir dalinn. Grunnflötur forkirkjunnar myndar þríhyrning, forhliðin er þríhyrnd og allir fletir byggingarinnar þríhyrndir. Turninn verður 23 metra hár og víkur frá venju að því leyti, að hann rís upp af austurenda kirkjunnar, það er að segja upp af kórnum. Í samræmi við aðrar línur kirkjunnar, er turninn þrístrendur og opinn að nokkrum hluta.“ – E.Bj.

Í Morgunblaðinu 2004 er sagt frá „Kirkju að Hrísbrú nefnda í Eglu„:

Kirkjan að Hrísbrú er nefnd í Eglu, sbr. 89. kafla:

Hrísbrú

Hrísbrú; skáli og kirkja – tilgáta.

„Grímur að Mosfelli var skírður, þá er kristni var í lög leidd á Íslandi; hann lét þar kirkju gera. En það er sögn manna, að Þórdís hafi látið flytja Egil til kirkju, og er það til jartegna, að síðan er kirkja var gerð að Mosfelli, en ofan tekin að Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður. En undir altarisstaðnum, þá fundust mannabein; þau voru miklu meiri en annarra manna bein. Þykjast menn það vita af sögn gamalla manna, að mundu verið hafa bein Egils. Þar var þá Skafti prestur Þórarinsson, vitur maður; hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn; var hausinn undarlega mikill, en hitt þótti þó meir frá líkindum, hve þungur var; hausinn var allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins; tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom, hvítnaði hann, en ekki dalaði né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskaddur fyrir höggum smámennis, meðan svörður og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.“

Í Mosfellingi 2005 er fjallað um „Fornleifauppgröft að Hrísbrú„:

Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils

Hrísbrú

Stefán Þorláksson (1895-1959) hreppstjóri í Reykjadal í Mosfellssveit. Stefán var sonur Þorláks nokkurs, sem kallaður var Ösku-Láki og konu úr Eyjafirði, sem Sólrún hét. Hann ólst upp á Hrísbrú í Mosfellsdal.

„Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar.
Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Í Skírni 1999 má lesa um „Kotunga í andófi„:
„Kannski birtast náin tengsl heilinda og andófs hvergi skýrar en í Innansveitarkroniku (1970). Hún er skopleg, hálf-heimildabundin lýsing á þrákelknislegu andófi bænda á Hrísbrú í Mosfellssveit gegn flutningi kirkju þeirra. Kergja Knúts gamla og Hrísbrúinga kallast á, en er ekki öll þar sem hún er séð. Erfiði var óþekkt Hrísbrúingum, þeir unnu öll sín verk áreynslulaust svo þeir sáust varla hreyfast, kunnu hvorki að flýta sér né vera of seinir og um sláttutíma var dengingarhljóðið í undarlegum samhljómi við næturkyrrðina, vakti góðar undirtektir fugla og er sú músík sem menn muna tíræðir. Hún minnir á eilífðarhljóminn í „Fugli ágarðstaurnum“. Þessir hæglátu menn brugðust ókvæða við þegar átti að taka niður Mosfellskirkju en kyndugt andóf þeirra var til einskis. Og þó ekki. Lengst inni í bænum var enn ein af þessum dularfullu og ójarðnesku konum sem víða bregður fyrir í sögum Laxness, Finnbjörg (nafnið á Boggu, ráðskonu Kjartans á Skáldstöðum), sem hafði hönd í bagga með öllum aðgerðum feðganna og andi hennar svífur yfir endurreisn kirkjunnar. Yfir rúmi hennar tifaði klukka með eilífðarhljómi.
Innansveitarkronika er einföld á ytra borði og virðist sundurlaus í byggingu. Hún rétt tæpir á söguþræði og bregður upp svipmyndum sem sögumaður í líki forvitins fróðleiksgrúskara tínir
saman. Um leið er sagan í andstöðu við hefðbundið form skáldsögunnar og leggur á borðið þá huglægni sem í frásagnaraðferðinni liggur. Sögumanni hefur tekist sá galdur að tengja fróðleiksatriði sem virðast lítilsverð. Samt er það svo að „heimildirnar“ sem virðast svo brotakenndar fá mál með sérstæðum hætti. Þegar upp er staðið blasir við margræð heildarmynd sem ekki er hægt að túlka á einn veg. Þess í stað eru margar raddir, mörg merkingarsvið í einni hljómkviðu. Innansveitarkronika er meðal annars, á sama hátt og „Fugl á garðstaurnum“, kýnískur útúrsnúningur á hugmyndafræði, stjórnkerfi, kennivaldi og auðhyggju. Í bakgrunni heyrist eilífðartónninn í túnslætti Hrísbrúarfeðga, klukku Finnbjargar og kvaki fugla.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Haus Egils Skallagrímssonar breiðir tíma sögunnar yfir alla Íslandssöguna, bein hins heiðna skálds sem flutt voru í utanverðan kirkjugarðinn á Mosfelli herða kergjuna í Hrísbrúingum. Og í sögulok er sagan kölluð jarteinabók sem þýðir að hún er röð kraftaverka sem lyfta merkingunni yfir hið hversdagslega, gefur þannig til kynna að fleira búi undir. Sagan hefur innri byggingu áþekka Biblíunni, hnig og ris, ferli frá þjáningu til upprisu. Fuglinn sem Hrísbrúingar ólu hjá sér í tuttugu ár, erkikapítalistinn Stefán Þorláksson, var eins konar lausnari, því við lát hans reis ný kirkja á Mosfelli, hún var því rifin og endurreist. Klukkan og kaleikurinn eru trúarleg eilífðartákn. Þegar kirkjan er rifin er klukkunni sökkt til heljar, í forarpyttinn á Hrísbrúarhlaði, en hún rís upp aftur gljáfægð til að hringja Finnbjörgu til grafar og er loks sett upp í nýju kirkjunni. Kaleikurinn, graal sögunnar, er geymdur á rúmbotnum heilagra kerlinga, og hann birtist í þann mund sem lesandinn fer að undrast um hann og endar eins og klukkan, í nýju kirkjunni. Þannig er sagan full af trúarlegum vísunum og myndmáli en fáu slegið föstu um þann guðdóm sem yfir sögusviðinu svífur. Í lokin, þegar kirkjan er byggð og vígð, vefast þræðirnir saman eins og af hálfkæringi, hauskúpa Egils, Hrísbrúingar og sauðfé, kvakandi fuglar, gömlu kerlingarnar, kaleikurinn og klukkan, Íslandsklukkan með hljóm síðan úr fornöld. Og jarteinabókinni lýkur með því að spurning gömlu konunnar er endurtekin: „Getur nokkur nokkurntíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér“ – (Innansveitarkronika: 181-82).

Á vefsíðu Héraðskjalasafns Mosfellsbæjar má lesa eftirfarandi um Ólaf Magnússon á Hrísbrú:

Merkisbóndinn á Hrísbrú

Ólafur Magnússon

Ólafur magnússon á Hrísbrú (1831-1915).

Ólafur Magnússon bóndi á Hrísbrú var einarður andstæðingur þess að Mosfellskirkja yrði rifin og kirkjuklukkan komst í vörslu hans eftir niðurrif kirkjunnar. Hún var geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða allt þar til ný kirkja var vígð á Mosfelli árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg Finnsdóttir kona hans eru mikilvægar persónur í Innansveitarkroniku.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli og kirkja.

Ljósmyndin af Ólafi er tekin í Austurstræti í Reykjavík snemma á 20. öld en engin ljósmynd hefur varðveist af Finnbjörgu.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.“
Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.“

Á vefsíðu Mosfellsbæjar má lesa eftirfarandi um kroniku Laxness – Innansveitarkronika – Einstök meðal verka Halldórs:

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

„Innansveitarkronika er sérkennileg blanda af sagnfræði og skáldskap og einstök meðal verka skáldsins. Efniviðurinn er sóttur í Mosfellssveit og byggir m.a. á deilu sem varð vegna kirkjumála í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þá náði sveitin niður að Elliðaám og kirkjur voru í Gufunesi og á Mosfelli. Kirkjuyfirvöld ákváðu hins vegar að leggja þær niður og byggja nýja kirkju miðsvæðis í sveitinni, að Lágafelli. Ekki voru allir hrifnir af þessum ákvörðunum, einkum var mikil andstaða í Mosfellsdal gegn niðurrifi Mosfellskirkju sem var alls ekki gömul bygging, byggð 1852. Ákvörðun yfirvalda varð ekki hnekkt, Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og sama árið reis Lágafellskirkja af grunni. Hins vegar skiluðu einstakir gripir kirkjunnar sér ekki, menn söknuðu bæði kaleiks og kirkjuklukku sem var ævaforn. Kaleikurinn fannst seinna í fórum vinnustúlkunnar Guðrúnar Jónsdóttur en klukkan var geymd að Hrísbrú í tæp 80 ár. Að Hrísbrú ólst upp Stefán Þorláksson (1895-1959). Hann þekkti söguna um klukkuna og kirkjuna frá blautu barnsbeini og honum var endurreisn Mosfellskirkju mjög hugleikin þótt ekki þætti hann neinn sérstakur trúmaður. Sem fulltíða maður bjó Stefán Þorláksson lengstum í Mosfellsdal, bæði í Reykjahlíð og Reykjadal, hann komst vel í álnir og auðgaðist m.a. á sölu á heitu vatni. Samkvæmt erfðaskrá Stefáns skyldu eigur hans renna til endurreisnar Mosfellskirkju. Hún var vígð árið 1965 eins og greint er frá í síðasta kafla Innansveitarkroniku:
„4ða apríl 1965 þegar Mosfellskirkja hin nýa var vígð, gjöf Stefáns Þorlákssonar, ein fegurst kirkja og best búin sem nú stendur á Íslandi, þá bárust henni ýmsar veglegar gjafir. Flestar komu gjafir þessar frá ættmennahópum í sókninni, niðjum þeirra manna er fyrir eina tíð höfðu séð kirkju sinni er þeir trúðu á jafnað við jörð hér á hólnum.“
Fremst í Innansveitarkroniku getur höfundur þess sérstaklega að „Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum“. Þetta er vert að hafa í huga við lestur bókarinnar, Halldór færir til atburði og persónur í tíma og rúmi og aðlagar því verki sem hann er að skapa, og var þetta reyndar alþekkt aðferð úr verkum hans.
Eitt besta dæmið um slíkt í Innansveitarkroniku er 11. kafli bókarinnar sem heitir Sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá vinnukonu prestsins á Mosfelli, Guðrúnu Jónsdóttur, sem hélt yfir Dalinn til að baka hverabrauð en villtist upp á Mosfellsheiði og fannst loks eftir nokkur dægur. Brauðið, sem henni hafði verið trúað fyrir, hafði hún ekki snert. Þessi kafli er nokkurs konar dæmisaga um að vera trúr yfir litlu en hér sækir Halldór hins vegar efniviðinn alls ekki í Mosfellsdal heldur á Suðurnes og var það allt önnur kona en Guðrún sem lenti í þeim hremmingum sem lýst er í bókinni.
Þrátt fyrir skáldsögulegt yfirbragð dregur Innansveitarkronika upp trúverðuga mynd af samfélaginu í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þannig háttar til með fleiri skáldögur Halldórs Laxness, þær eru oft traustar heimildir um þá tíma sem þær gerast á.“

Guðrún Jónsdóttir

Hrísbrú

Guðrún Jónsdóttir frá Hamrahlíð (1854-1936). Ljósmyndari óþekktur. Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar úr safni Guðmundar Magnússonar.

Guðrún Jónsdóttir er þekkt persóna úr Innansveitarkroniku. Hún var fædd árið 1854 á bænum Hamrahlíð, sem var kotbýli í grennd við Blikastaði, og stundaði alla tíð vinnumennsku á ýmsum bæjum í Mosfellssveit.
Guðrún andaðist á Æsustöðum í Mosfellsdal árið 1936 og hvílir í Mosfellskirkjugarði.
Gripir úr eigu hennar eru varðveittir á bókasafni Varmárskóla.

Í Innansveitakroniku Laxness segir í 20. kapítula „Af haugbroti“:
„Þegar Finnbjörg var látin sendi Ólafur karl Andrés son sinn á fund sóknarprests Lágafellskirkju, þeirrar kirkju niðrí sveit sem var laungu orðin sóknarkirkja mosdæla að lögum. Kvaðst Ólafur vera orðinn of sjóndaufur til að grilla Lágafellspresta svo hann næði til þeirra að berja þá. Það var ennfremur í erindum Andrésar að tjá presti að faðir sinn væri í því ráðinn að grafa konu sína í mosfellskirkjugarði og réði lágafellsprestur því hvort hann hunskaðist þángað á tilteknum degi og kasta rekunum; að öðrum kosti mundi hann, Ólafur á Hrísbrú, gera það sjálfur. Er þar skemst frá að segja að ekki var tekið óljúflega í þetta mál af þartilbærum yfirvöldum.
Nú er lík húsfreyu hefur verið lagt í kistu og borið til skemmu og bærinn tómur og alt á enda kljáð, sagði Stefán Þorláksson, og líður að útfarardegi, þá kallar Ólafur bóndi á sonu sína og fósturson og leggur fyrir þá þraut.
Þess var áður getið hér á blöðunum að svöð hafi verið eigi allsmá fyrir framan hlaðstétt á Hrísbrú og hefði einginn mælt þeirra dýpt og ekki heldur verið augljós mörkin milli þeirra og fjóshaugs mikils ásamt með hlandfor sem þar vall og hafði ollið leingi. Hafði forin ekki verið tæmd til fullnustu svo menn ræki minni til. Nú bregður svo við að Ólafur bóndi sendir lið sitt í for þessa með verkfæri þau sem þurfti og lætur hefja austur og gröft; segir að eigi skal láta staðar numið fyren þeir komi niður á dýrgrip sem fólginn sé djúpt í hauginum.
Nú fara þeir til og brjóta hauginn og er gagnslaust að lýsa slíku verki hér svo lángt sem um er liðið og einginn maður veit leingur hvað hlandfor er á Íslandi. Mundi ekki svipað gilda um óþrifaleg verk einsog fyr var ritað um erfið verk? Áður fyr voru eingin verk kölluð sóðaleg nema þau sem unnin voru án vandvirkni af kæríngarlausum verkamanni og lýstu handbragði skussa og ómennis.
Hvort sem ausið var eða grafið leingur eða skemur í Hrísbrúarsvöð, þá er ekki að orðleingja það, nema seinast koma menn það lángt niður í þessari voðalegu torfæru að rekuna tekur niðri og saung í málmi þar sem hún snart við. Menn hafa hendur á gripnum og losa um hann og bera burt úr forinni og uppá dyrakamp. Nú velta þeir grip þessum fyrir sér uns þeim kemur saman um að kveðja til Ólaf bónda og spyrja hann ráða. Hann þreifar á gripnum innvirðulega um stund uns hann kennir að þetta er kirkjuklukka. Hann segir að þessa klukku skal þvo vandlega og síðan fægja. Þvínæst fór hann inní bastofu og fann kólfinn úr klukkunni á kistubotni húsfreyar sinnar.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

Stefán Þorláksson hefur sagt frá þeim morni er hann fór með Ólafi fóstra sínum í undanrás að Mosfelli að búa í haginn áður en líkfylgdin kæmi. Þetta var um sumarsólstöður. Gamli Rauður var sóttur í hagann og stendur á hlaðinu ærið vambmikill. Það var lagður á hann hnakkur fyrir utan opna skemmuna en þar hafði öllu drasli verið rýmt burt svo rúmt væri um kistuna. Synir Ólafs leiddu föður sinn útúr bænum en hann bar sjálfur klukkuna í fángi sér, og var klukkan fljót að fá aftur þá spansgrænu sem fylgir sönnum kristindómi.
Synir Ólafs héldu í ístaðið hjá föður sínum og hjálpuðu honum á bak þeim rauða. Síðan létu þeir klukkuna í fáng honum þannig að hann gat samt haldið sér í faxið á hestinum. Fóstursyni fólksins var síðan sagt að teyma undir gamla manni sem leið lá heim að Mosfelli og láta staðar numið þar á hólnum fyrir utan sáluhliðið í mosfellskirkjugarði. Sveitin var ekki meirensvo risin úr rekkju og vorfuglinn heiðló hljóp samsíða þeim yfir Skriðuna og blés í veika flautu en kólfurinn í klukkunni var laus og gall við með skjöllu málmhljóði þegar Rauður hnaut við steinvölu í götunni. Ólafur bóndi gerði sín ekki vart heima á Mosfellsbænum en lét fósturson sinn leiða sig að sáluhliðinu og bar enn klukkuna í fánginu. Hann sagði að binda skyldi Rauð við garðstaur svo hann færi ekki í túnið, því síðan hér hættu að vera mínir prestar beiti ég aldrei á Mosfellstún, sagði hann.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukkan í Mosfellskirkju – upphengjan.

Þeir njörvuðu klukkuna með snærum við dyradróttina í sáluhliðinu. En með því ramböld vantaði sem bjalla verður að hafa svo hún leiki laus þegar tekið er í klukkustreinginn, og hríngíngin fái lángan tón af sveiflu, þá varð Ólafur á endanum að gera kólfinn lausan og dángla utaní klukkuna með honum. En þó hríngíng væri hljómlítil og ögn bundin var þetta þó klukknahljóð og hljómur Mosfellskirkju. Þegar líkfylgdin nálgaðist tók hann til að hríngja.

Mosfell

Þessa mynd tók Bjarki Bjarnason sumarið 1963, af sáluhliðinu í Mosfellskirkjugarði. Þann dag var jarðsett á Mosfelli, þótt engin væri þar kirkjan. Klukkunni, sem hafði verið varðveitt á Hrísbrú frá því á 19. öld, var ætíð hringt við greftranir á Mosfelli og krókurinn á sáluhliðinu var smíðaður sérstaklega fyrir hana.
Tveimur árum síðar var Mosfellskirkja hin nýja vígð og síðan hefur klukkan verið varðveitt þar. Í Innansveitarkroniku segir: „Það er einginn efi á því að þessi klukka geymir hljóm síðan úr fornöld. Presturinn sagðist ætla að hringja henni sjálfur við barnaskírnir af því hljómurinn í henni væri svo fallegur meðan hann væri að deya út.“

Hann linti ekki hríngíngu meðan kistan var borin um sáluhliðið. Hann hríngdi meðan fólkið var að tínast inní garðinn. Hann hríngdi meðan kistunni var sökt í jörðina og meðan presturinn var að kasta rekunum og fólkið að tínast burt frá gröfinni en rétti annars hugar þá höndina sem laus var þeim sem kvöddu hann og samhrygðust honum, uns fóstursonur hans sem sat á þúfu sagði honum að nú væri seinasti maður farinn og alt búið. Þannig hríngdi Ólafur kallinn á Hrísbrú alla sveitina inn í kirkjugarðinn á Mosfelli og útúr honum aftur.

Viku seinna fór Ólafur aftur sömu leið, að því sinni í fjórum skautum, að finna konu sína. Bogi sonur hans bar nú klukkuna á sjálfum sér fyrir kistu föður síns, festi hana í dyradróttina á sáluhliðinu einsog faðir hans hafði gert í vikunni á undan og hríngdi einsog faðir hans hafði hríngt uns lokið var, leysti síðan klukkuna af dyradróttinni og bar hana heim aftur að Hrísbrú.“

Á vefsíðu Lágafellskirkju, sbr. Mosfellskirkju er getið um „Teikningu af Mosfellskirkju„:

Teikning af Mosfellskirkju – erindi 15, mars 2015:
„Vegfarendur um Mosfellsdal veita athygli sérkennilegri byggingu sem vakir yfir byggðinni í dalnum á hinum forna kirkjustað, Mosfelli. Þetta óvenjulega guðshús, sem senn verður hálfrar aldar gamalt, er með athyglisverðari dæmum í þróunarsögu kirkjubygginga hér á landi. Sagan af því hvernig að kirkjuhúsið fékk á sig þessa mynd er ekki síður forvitnileg en aðdragandinn að byggingunni sjálfri. Svo vel vill til að fundargerðarbók byggingarnefndar hefur varðveist, samviskusamlega skráð af Jónasi Magnússyni í Stardal. Fundargerðirnar eru mikilvæg heimild um tilurð teikningarinnar af Mosfellskirkju, en flestum lýkur þeim með eftirfarandi orðum: „Fleira ekki tekið fyrir – fundi slitið. Síðan sest að kaffidrykkju í boði prestshjónanna á Mosfelli.“

Mosfell

Mosfellskirkja.

Alkunn er sagan af því hvernig það kom til að Mosfellskirkja var eldurreist fyrir 50 árum síðan. Kirkjurnar að Mosfelli og Gufunesi voru aflagðar og rifnar árið 1888 þegar sóknirnar voru sameinaðar. Ný, sameiginleg kirkja reis ári síðar á Lágafelli, misvæðis í byggðinni. Gamla Mosfellskirkjan, sú sem rifin var, var timburkirkja, smíðuð 1853 af Bjarna Jónssyni snikkara. Hann smíðaði tvær kirkjur í Grímsnesi sem enn standa, Mosfellskirkju og Búrfellskirkju.

Mosfell

Mosfellskirkja 2022.

Sameining sóknanna og niðurrif kirkjunnar á Mosfelli var andstæð vilja margra bænda í Mosfellsdal. Þessi saga er rauður þráður í seinni hluta Innansveitarkróníku Halldórs Laxness, en í þeirri bók er kirkjan að Mosfelli ein aðalpersóna verksins. Munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson að nafni, ólst upp á Hrísbrú þar sem klukka hinnar horfnu kirkju var geymd. Hann eignaðist jörðina Reykjahlíð árið 1933 og seldi hana Reykavíkurbæ 1947 ásamt heitavatnsréttindum. Á þessum og fleiri viðskiptum efnaðist hann vel og byggði sér íbúðarhúsið Reykjadal í Mosfellsdal, ásamt gróðurhúsum. Hann var hreppstjóri um skeið, framtakssamur og vinsæll í sinni sveit. Stefán, sem var ókvæntur og barnlaus, lést í júlí 1959. Í erfðaskrá gaf hann meirihluta eigna sinna til kirkjubyggingar að Mosfelli í Mosfellsdal.“

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 57. tbl. 10.03.1983, Kirkjuklukka frá 13. öld…, bls. 24-25.
-Vísir, 112. tbl. 17.09.1962, Klukkan kallar, bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 210. tbl. 05.08.2004, Kirkja að Hrísbrú nefnd í Eglu, bls. 6.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröftur að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Skírnir 01.09.1999, Kotungar í andófi, bls. 278-281.
-Héraðskjalasafn Mosfellsbæjar – http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/
-Bókasafn Mosfellsbæjar – http://www.bokmos.is/laxnessvefur/kronikan/
-Innansveitakrinika – http://innansveitarkronika.is/kafli/20
-Egilssaga – 20. kafli.
-https://www.lagafellskirkja.is/kerfi/wp-content/uploads/2015/04/Mosfellskirkja.pdf

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.