Landnám

Í Lesbók Morgunblaðsins 1969 fjallar Árni Óla um „Kjalarnesþing og Alþingi hið forna“:

Árni Óla„Fundur landsins og landnám eru vitanlega að því leyti merkustu viðburðir í sögu landsins sem þeir eru nauðsynlegur undanfari alls þess, sem hér hefir síðar gerzt. Og vafalaust hafa margir landnámsmenn vorir unnið afreksverk um byggingu landsins. En landnámin eru þó eigi svo margþætt né svo mikil vitraun sem setning Alþingis var, stofnun allsherjarríkis og setning laga handa landsmönnum öllum. Það er hið ágætasta verk og hafa margir góðir menn að því unnið, enda þótt Úlfljótur hafi mest í því átt. Það hefir kostað mikinn tíma og fyrirhöfn, og hefir útheimt margar skýringar og fortölur. Hafa höfðingjar þeir, sem Úlfljótur ráðfærði sig við áður en hann sigldi, sennilega unnið nokkuð fyrir málið, og svo Grímur geitskör, er hann fór um landið. — Svo sagði Einar prófessor Arnórsson, (Skírnir 1930).

 

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt, að færi fyrstur þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. —

Þingvellir

Alþingi – þingstaðurinn á Þingvöllum.

Svo segir Ari ífróði í Íslendingabók. En í Hauksbók Landnámu segir svo: Ingólfur tók sér bústað, þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík. Þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Hann var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að auðu landi og byggði fyrst landið, og gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum síðan. Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla. Þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi væri sett.
Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna vegna þess að hann nam hér fyrstur land. En ekki ætti hann síður að vera frægur fyrir hitt, að afkomendur hans og venslamenn stjórnuðu landinu fram að kristnitöku, eins og enn mun sagt verða.
Dr. Guðbrandur Vigfússon leit svo á, að þótt talið væri að Ísland hefði byggzt úr Noregi, þá hefði komið hingað á landnámsöld álíka margt fólk af keltnesku kyni eins og norsku. En norska kynið var „herraþjóðin“ í landinu, eins og glöggt má sjá af fornsögunum, og þær sýna líka að norsk menning og norskur hugsunarháttur hefir verið hér yfirgnæfandi. Í Noregi var byggð hagað öðruvísi en í öðrum germönskum nágrannalöndum. Í Svíþjóð, Danmörku og Þýzkalandi bjuggu menn í þorpum, en í Noregi voru sérstök bændabýli, og sama varð reglan hér á landi.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Þeir, sem fyrstir komu, námu mjög víð lönd, en byggðu þau svo skipverjum sínum og öðrum er seinna komu. Með þessu móti höfðu þeir nokkurn liðsstyrk, ef á þá yrði ráðizt og jafnframt voru þeir þá höfðingjar, hver í sínu landnámi. Vegna þessa stefndi allt að því, að hér risi upp smáríki, eins og var í Noregi áður en Haraldur hárfagri lagði land allt undir sig.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Þessir fyrstu héraðshöfðingjar stjórnuðu svo landinu um hríð, án þess að nokkur sameiginleg lög væru hér gildandi. Að vísu komu þeir með nokkrar norskar venjur viðvíkjandi eignarhaldi einstaklinga, kaupskap, hjúskap, um erfðir, hefndir fyrir víg o.s.frv. En þetta gat orðið breytilegt eftir héruðum er fram í sótti og sáu framsýnir menn hver voði var búinn innanlandsfriði ef framvindan yrði slík. Nauðsyn væri að stofna hér þjóðfélag áður en í óefni væri komið. Þá var það, að Þorsteinn Ingólfsson stofnaði Kjalarnesþing og „höfðingjar þeir, er að því hurfu“, eins og Ari fróði kemst að orði. Tveir aðrir af stofnendum þingsins eru nefndir Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs og Örlygur gamli á Esjubergi, og voru þeir báðir kristnir. En svo hafa aðrir höfðingjar bætzt í hópinn og þeir hafa átt heima í Borgarfirði og Árnessýslu. Þetta þing skyldi setja lög er giltu á yfirráðasvæði þess og dæma um mál manna.

Hvenær var Kjalarnesþing stofnað?
Það skiptir nokkru máli ef unnt er að ákveða hvenær þing þetta var stofnað, því að með hverju ári fjölgaði mikið fólki í landinu og þá um leið ýfingum og ófriði milli manna. Meðan engar reglur voru til að fara eftir í viðskiptum manna, var óhægt um vik að setja niður deilur.
Leiðvöllur
Kjalarnessþings er getið í Íslendingabók, Landnámu Grettis sögu, Harðarsögu og Kjalnesingasögu, en hvergi er þess getið hvenær það var stofnað. Í Grettissögu segir, að skömmu eftir útkomu Önundar tréfótar, sem bjó í Kaldbaksvík á Ströndum, „hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa og lauk svo, að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðsdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfæti og reið hann suður um vorið“. Önundur var tengdasonur Ófeigs grettis. Á leiðinni suður gisti hann í Hvammi hjá Auði djúpúðgu. Hún bað að Ólafur feilan sonarsonur sinn mætti ríða með honum suður til að biðja Alfdísar hinnar barreysku, og að hann styddi það mál. Tók Önundur því vel. Þegar hann hitti svo vini sína og mága, var talað um vígamálin, „og voru þau lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gerð, og komu miklar fébætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gerr. . . .Þetta haust fékk Ólafur feilan Alfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpúðga, sem segir í sögu Laxdæla“.

Heiðni

Heiðnir víkingar og kristnir keltar virðast hafa lifað í sátt í upphafi landnámsins.

Í Tímatalsritgerð sinni telur dr. Guðbrandur Vigfússon, að Auður djúpúðga muni hafa andast á árunum 908—910. Nokkru fyrir þann tíma hlýtur Kjalarnesþing því að hafa verið stofnað. Af frásögn Ara fróða í Íslendingabók mætti ráða, að Kjalarnesþing hefði upphaflega aðeins verið fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar, því að þar segir, að Þorsteinn Ingólfsson hafi haft þetta þing, „og höfðingjar þeir, er að því hurfu“. Er þar með gefið í skyn, að smám saman hafi honum bætzt samþingsmenn, og gat það vel tekið nokkur ár að þingháin næði alla leið austur að Þjórsá.
Hér verður því að álykta svo sem Kjalarnesþing hafi verið stofnað rétt upp úr aldamótum 900. Nú telur og dr. Guðbrandur Vigfússon að Ingólfur Arnarson muni hafa dáið um 900 og getur þess að menn ætli að þingið hafi verið stofnað eftir hans dag. Bendir það til þess, að þingstofnunin hafi verið fyrsta verk Þorsteins Ingólfssonar eftir að hann tók við mannafonnráðum í héraði. Þing þetta mun hafa verið stofnað að fyrirmynd norsku fylkjaþinganna á Frosta, Gula og Eiðsvelli, og það mun hafa verið orðið aldarfjórðungs gamalt þegar alþingi var stofnað.

Hvar var þingið háð?
Aðeins á einum stað er þess getið, hvar Kjalarnesþnig var háð. Nú þekkist þetta örnefni ekki lengur.
Landnám Ingólfs
Vegna nafns þingsins héldu menn lengi vel, að það hefði verið háð á Kjalarnesi. Jónas Hallgrímsson tók sér fyrir hendur sumarið 1841 að finna þingstaðinn og leitaði upplýsinga víða. Honum var bent á Leiðvöll, sem er skammt frá Móum á Kjalarnesi. Fór Jónas þangað, en sannfærðist fljótt um, að þar hefði aldrei verið háð þing, heldur hefði þar aðeins verið leið.
ÞingnesSvo fékk hann fregnir af því að í Þingnesi í Elliðarvatni væru margar og glöggvar búðatóftir, og þangað fór hann við áttunda mann til þess að rannsaka staðinn. Þar fann hann rúmlega 20 búðatóftir. Hann byrjaði á því að grafa upp stærstu tóftina, og segir hann að það hafi verið sú stærsta búðartóft, sem hann hafi séð á Íslandi, um 100 ferálnir að innanmáli. Veggir höfðu verið hlaðnir úr völdu grjóti og taldi hann að þeir mundu hafa verið um sex feta háir.
Því næst rannsakaði hann grjótdyngju nokkra utan við búðirnar, því að honum sýndist sem mannvirki mundi vera, en fann þar ekki annað en stóra steina og vissi ekki hvað þetta var. Þá réðist hann á merkasta staðinn, sjálfan dómhringinn. Þar var hringhlaðinn grjótgarður og taldi Jónas að hann mundi upphaflega hafa verið um tveggja álna þykkur neðst og álíka hár. Þvermál hringsins var 43 fet. Í miðjum hringnum var grjóthrúga og gat grjótið ekki verið komið úr hringgarðinum, og hélt hann því að þar mundu dómendur hafa setið.
Þingnes
Ekki var Jónas í nokkrum vafa um, að hér hefði hann fundið hinn gamla þingstað Þorsteins Ingólfssonar. Skammt þaðan voru einnig aðrar rústir, sem Jónas skoðaði ekki. Handan vatnsins, gegnt Þingnesi, undir holtinu sem Bugða rann fram með og heitir Norlingaholt, voru fram á þessa öld miklar búðatóftir og voru þær nefndar Norlingabúðir. Þarna hafa Borgfirðingar þeir, er þingið sóttu haft búðir sínar og bendir nafnið til þess, því að um aldir voru Borgfirðingar kallaðir Norlingar hér um nesin.
ÞingnesÞingnes heldur enn nafni sínu enda þótt það sé nú orðið að ey í vatninu, síðan vatnsborð Elliðavatns var hækkað vegna rafmagnsstöðvarinnar hjá ánum. Nesið gekk út í vatnið að sunnan, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Elliðavatns og Vatnsenda. Var fyrrum aðeins mjótt sund milli þess og engjanna fyrir norðan.
Þarna er einn af sagnmerkustu stöðum Íslands, en þó hefir verið farið illa með hann. Laust eftir seinustu aldamót, þegar ræktunaráhugi vaknaði meðal manna hér á landi, var ráðizt á Þingnes með plógum og öðruum jarðræktarverkfærum, öllum búðatóftum byllt um og eins dómhringnum, svo að þar var ekkert að sjá nama moldarflag. Norðlingabúðir vonu seinna kaffærðar, þegar afrennsli vatnsins var stíflað og yfirborð þess hækkað. Og þar með voru þurrkaðar út seinustu sýnilegu minjarnar um Kjalarnesþing.

Kristið þing
Heimildir fornsagnanna herma, að Örlygur gamli og Helgi bjóla hafi verið aðalhvatamenn að stofnun þingsins með Þorsteini. Þeir voru báðir kristnir og trúræknir vel. Örlygur hafði verið sendur hingað af Patreki biskupi á Iona með trúboðserindum. „Biskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenaríum og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina“ (Landn). Örlygur bjó á Esjubergi og reisti þar þegar kirkju hina fyrstu er sögur fara af hér á landi.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Helgi bjóla átti Þórnýju dóttur Ingólfs Arnarsonar og var því mágur Þorsteins. Einn af sonum þeirra Þórnýjar var nefndur Kollsveinn og mun það bafa verið auknefni, því að svo voru kallaðir sveinar þeir er fareldrar færðu guði nýfædda.
ÞingnesÞeir Helgi hjóla og Örlygur eru taldir meðal göfugustu landnámsmanna í Sunnlendingafjórðungi. Er því líklegt að þeir hafi ráðið miklu við stofnun þingsins og hvernig það var helgað. Er þá líklegt að þeir hafi látið helga það með tákni krossins og þar af sé komið nafnið Krossnes á þingstaðnum. Og þá er eigi ólíklegt, að grjótdyngjan sem Jónas Hallgrímsson fann þar í nesinu og vissi ekki hvennig á stóð, hafi verið leifar af stöpli, sem hlaðinn hefir verið undir krossmerkið. En er þing lagðist niður á þessum stað, hafi Kristnesnafnið horfið úr mæltu máli, og nesið síðan verið kallað Þingnes, eins og það heitir enn í dag.
Um þær mundir er Kjalarnesþing var stofnað voru engar trúarbragðadeilur hér á landi. Kristnir menn og heiðnir höfðu dreifzt um land allt og bjuggu þar í nábýli og fyrst í stað bar þeim ekki á milli í trúmálum. Og hafi nú verið — sem allar líkur benda til — að kristnir mennn hafi ráðið miklu á fyrsta Kjalarnesþingi, þá er eðlilegt að þeir réðu því hvernig þingið var helgað. En um þinghelgun með krossi má lesa í Kristnisögu, þar sem sagt er frá krossunum á alþingi árið 1000.

Lagasetning og dómnefna
Ætla má að hlutverk þingsins hafi að upphafi verið tvíþætt: lagasetning og dómnefna.
Um lagasetningu hefir verið farið eftir þeim réttarfarsvenjum, en mennn hafa alizt upp við í Noregi, og þó með þeim breytingum, er hæfðu breyttum aðstæðum. Hafa svo ný lög verið sett smám saman, eftir því sem hentaði og reynslan kenndi mönnum að nauðsynlegt var. En engin lög þessa þings gátu gilt annars staðar en í þinghánni.
Þingnes
Um dómaskipan verður ekkert sagt með vissu. Líklegt er að dómendur hafi verið kosnir af þingheimi hverju sinni og menn valdir eftir metorðum og mannviti. Dómhringurinn í Þingnesi sýnir, að dómar hafa farið þar út, enda vitum vér um tvo dóma, sem þar voru kveðnir upp. Fyrri dómurinn vax í vígsmáli Ófeigs grettis og hefir þegar verið sagt frá honum, en því má við bæta, að þeim dómi hefur verið fullnægt. Þorbjörn jarlakappi varð að fara utan og mun ekki hafa komið til Íslands aftur, og ekki heldur Sölmundur sonur hans. En Kári sonur Sölmundar kom til Íslands og segir frá því í Njáls sögu.
Frá hinum dómnum segir Ari fróði í Íslendingabók: „Maður hafði orðið sekurr um þrælsmorð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndur Þórir kroppinskeggi, en dóttursonur hans er nefndur Þorvaldur kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu og brenndi þar inni Gunnar bróður sinn. Svo sagði Hallur Órækjusonur. En sá hét Kolur er myrður var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn till alþingisneyslu. Af því er þar almenning að viða til allþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossahafnar. Svo sagði Úlfheðinn oss“.
(Bláskógar kallast nú Þingvallasveit. Hallur Órækjuson var systursonur Kolskeggs hins fróða, sem margt sagði fyrir um landnám á Austurlandi.
Úlfljótsvatn
Nafnið Kolsgjá er nú týnt, en menn halda að gjáin sé uppi á Leirunum. Úlfheðinn mun vera Úlfhéðinn Gunnarsson lögsögumaður). Þessi dómur hefir verið kveðinn upp áður en það væri afráðið hvar alþingi skyldi háð, og því aðeins var hægt að leggja landið til allþingisneyzlu að það var áður orðið almenningseign. Þórir hefir verið dæmdur sekur á Kjalarnesþingi en landi hans ekki ráðstafað á annan hátt en þann, að það skyldi vera almenningur.
Nauðsynlegt hefir verið á Kjalarnesþingi, eins og á alþingi síðar, að velja mann til að segja upp lög þau er samþykkt höfðu verið, og sjá um að dómum væri fullnægt. Engar sagnir höfum vér um, hver sá lögsögumaður hafi verið, en eflaust hefir hann átt heima í landnámi Ingólfs Arnarssonar. Og engin goðgá er þótt gizkað sé á, að það hafi verið Úlfljótur, hinn sami og seinna samdi allsherjarlög fyrir Ísland.
Konrad Maurer hefir það eftir séra Símoni Beck á Þingvöllum, að þar í sveitinni lifi þau munnmæli, að Úlfjótur lögsögumaður hafi upphaflega átt heima á Úlfljótsvatni í Grafningi.
Í Landnámu og fornsögum er aðeins getið um tvo menn, er hétu þessu nafni. Annar er talinn landnámsmaður norður í Skagafirði, og ekkert fleira um hann sagt, en hinn er Úlfljótur lögsögumaður, en ekkert getið um bústað hans fyrr en hann keypti Bæ í Lóni af Þórði skeggja, eftir að Þórður fluttist hingað suður í Mosfellssveit.

Kjalarnesþing

Þingin voru fyrst fornfáleg – haldin undir berum himni.

Nafnið Úlfljótsvatn er gamalt, því að það kemur fyrir í Harðarsögu, og enginn vafi er á, að það hefir verið kennt við einhvern mann, sem ÚlfLjótur hét. Þessi bær var í landnámi Ingólfs.
Úlfljótur var kynborinn, sonur Þóru, dóttur Hörða-Kára, sem talinn var ágætur maður, og segir Snorri, að á dögum Ólafs konungs Tryggvasonar hafi ættbogi hans verið mestur og göfgastur á Hörðalandi. Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs var einnig komimin af Hörða-Kára, og er því líklegt, að vinátta hafi verið með Úlfljóti og þeim feðgum Ingólfi og Þorsteini.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Forn munnmæli, sem engar öfgar fylgja skyldu menn ekki sniðganga. Ritaðar heimildir bera heldur ekki á móti því, að Úlfljótur hafi fyrst í stað átt heima á Úlfjótsvatni. Þeim ber aftur á móti saman um, að hann hafi keypt Lónslönd af Þórði skeggja þegar hann fluttist suður í Mosfellssveit, en Þórður hafi búið þar alt að 15 ár áður en hann fór hingað og þess vegna líklega ekki komið að Skeggjastöðum fyrr en eftir 900, eða í þann mund er Kjalarnesþing var stofnað. Þá hefði Úlfljótur enn átt að vera búandi á Úlfljótsvatni, og verið einn af þeim „vitru mönnum“, er stofnuðu þingið með Þorsteini Ingólfssyni.
Það getur varla talizt getgáta, að hugmyndin um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþingis hafi verið frá Þorsteini runnin, því að engum manni er betur trúandi tii þess en honum að hugsa svo stórmannlega. Hugmyndina mun hann þá fyrst hafa borið fram er honum þótti Kjalarnesþing orðið nógu öflugt til þess að vera bakhjall hennar, og allir helztu höfðingjar frá Hvítá í Borgarfirði austur á Rangárvelli höfðu heitið stuðningi sínum. Hið fyrsta, sem þurfti að gera, var að finna hentugan stað fyrir allsherjarþingið. Þetta var nauðsynlegt til þess að ekki yrði reipdráttur um það um allt land, að hver höfðingi vildi hafa hann hjá sér. Það gat hæglega spillt því, að málið næði fram að ganga.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Misskilningur er það að Grímur geitskör hafi valið þingstaðinn. Það hafa höfðingjar á Kjalarnesþingi gert. Og hafi Úifljótur verið lögsögumaður þingsins, þá virðast fyrstu ráðin um undirbúning að stofnun alþingis vera frá honum komin. Hann mun hafa ráðið því, þá er Þórir kroppinskeggi var gerður sekur og útlægur, að landið í Bláskógum væri ekki dæmt sektarfé handa einstökum mönnum (t.d. dómendum), heldur gert að almenningi. Það er skammt á milli Úlfljótsvatns og Þingvalla og hefir Últfljótur eflaust verið kunnugur staðháttum á Þingvöllum, og þess vegna lagt til að alþingi skyldi háð þar. Er líklegt að hann hafi dregið fram kosti landsins líkt og gert er í Íslendingabók og haft eftir Úlfhéðni Gunnarssyni lögsögumanni, að þar mættu allir „viða til alþingis í skógum, og á heiðum hagi til hrossahafnar“. Aðrir þingmenn fallast á þetta og svo er ákveðið að þingstaðurinn skuli vera þarna. Margt fleira hefir staðnum að vísu veriðfundið til ágætis, og þá ekki sízt það að hann var þegar orðinn almenningseign.
Úlfljótur hefir gert meira. Hann hefir fengið því framgengt að Grímur geitskör, fóstbróðir hans, væri sendur um land allt til þess að hafa tal af höfðingjum og fá þá til aðfallast á hugmyndina um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþing í Bláskógum. Var nauðsynlegt að vita hug höfðingja tiL þessa máls áður en fullnaðaðarákvörðun um ríkisstofnun væri tekin. Sagt er að Grímur hafi verið þrjú ár í þessu ferðalagi um landið og kæmi hann aftur erindi feginn, því að flestir eða allir höfðingjar hefðu verið málinu fylgjandi.
Og nú var komið að því, sem vandasamast var, að semja stjórnarskrá fyrir hið tilvonandi ríki. Og þá er Úlfljóti falið þetta vandaverk. Enginn aðili annar en Kjalarnesþing, var fær um að fela honum það. Þetta þing hafði tekið að sér forustu um stofnun allsherjarríkis og unnið að undirbúningi þess máls og þingmenn sjálfsagt komið sér saman um hvernig stjórnarskráin ætti að vera í höfuðdráttum. Það hafði ekki öðrum á að skipa að svo komnu máli, heldur en einhverjum af þingmönnum sínum. Og hver var þá líklegri til þess að verða fyrir vailnu, heldur en sjálfur lögsögumaðurinn — Úlfljótur. Hér virðast allar líkur benda í eina átt að Úllfljótur hafi átt heima á Úlfljótsvatni, eins og munnmælin herma; að hann hafi verið einn af þingmönnum Þorsteins Ingólfssonar; og verið kjörinn lögsögumaður Kjalarnessþings. Þetta gæti einnig stuðst við þessa frásögn Íslendingabókar: „Því nær tók Hrafn lögsögu Hæings sonur landnámamanns, næstur Úlfljóti“, því að Úlfljótur var aldrei lögsögumaður alþingis og væri hér bent til þess að hann hefði verið lögsögumaður Kjalarnessþings. Samkvæmt lögsögumannatali Ara fróða í Ísendingabók, hefir fyrsta alþingi 930 kosið Hrafn lögsögumann þegar er þingstörf gátu hafizt.

Þingvellir

Kjalarnesþing fól Úlfljóti að semja stjórnarskrána, en enda þótt höfðingjarnir þar hefðu komið sér saman um hvernig hún ætti að vera í aðalatriðum, hefir þeim þótt réttara að hafa hliðsjón af norskri löggjöf. Þess vegna fór Úlfljótur utan og er þrjá vetur í Noregi, kemur svo út með allsherjarlögin 929 og voru þau fyrst kölluð Úlfljótslög „en þau voru flest sett að því, sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs spaka Hörða-Káraasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja“. — Svo sagði Teitur Ísleifsson biskups (Ísl. bók).
Næsta sumar var „alþingi sett að ráði Úljóts og allra landsmanna, þar sem nú er, en áður var þing á Kjaiarnesi“ (Ísl. bók). Á þessu orðalagi má sjá, að Kjalarnesþing hefir verið talið upphaf, eða fyrirrennari alþingis og samband þessara þinga svo náið, að rétt var að segja að Hrafn Hængsson tæki lögsögu næstur Úlfljóti, því að lögsögu Úlfljóts var lokið með stofnun alþingis. Hann var þá 63 ára að aldri og mun hafa dregið sig í hlé eftir þetta afrek og farið austur í Lón.
Þingnes
Reykvíkingar fá æðstu völd Á þessu fyrsta allsherjarþingi var skipuð fyrsta embættismannastétt landsins. Þá var landinu skipt í 36 goðorð og goðarnir voru héraðsstjórar hver í sínu umdæmi; þeir voru einnig þingmenn og dómarar á alþingi. Eitt goðorðið var framar öllum hinum og kallað allsherjargoðorð. Það var goðorð Reykvíkinga og fylgdi því það heiðursstarf að helga alþingi.
Þorsteinn Ingólfsson mun hafa helgað þetta fyrsta alþing og hefir þótt sjálfkjörinn til þess sem stofnandi Kjalarnessþings og frumkvöðull að stofnun alþingis. Sést hér enn sambandið milli þessara tveggja þinga. Síðan fylgdi helgun alþingis goðorði Reykvíkinga og hefir það verið sérstakur virðingarvottur við minningu fyrsta landnámsmannsins og til heiðurs Þorsteini syni hans fyrir að vera stofnandi fyrsta þings á Íslandi og driffjöðrin í stofnun alþingis.
Með nýju allsherjarlögunum varð lögsögumaðurinn forseti alþingis og helzti embættismaður hins nýja ríkis, því að framkvæmdavaldið var í höndum hans, eins og sést á því, er Ari fróði segir um Skafta Þóroddsson lögsögumann: „Á hans dögum urðu margir höfðingjar og ríkismenn sekir eða landlótta of víg eða barsmíðar af ríkis sökum hans og landstjórn“.

Ingólfur

Ingólfur Arnarsson – minnismerki á Arnarhóli í Reykjavík.

Fyrsti lögsögumaður alþingis varð Hrafn Hængsson og hefir það ef til vill verið af því að faðir hans og bræður hafi stutt drengilega stofnum alþingis.
Jón Sigursson telur að Hrafn muni hafa verið fæddur 879 og „ef til vill fyrsti maður, sem fæddur er á Íslandi“ (Safn til sögu Íslands I). Hafi svo verið, gat það nokkru ráðið um lögsögumannskjör hans, að mönnum hafi þótt vel við eiga að fyrsti innborni Íslendingurinn skipaði æðsta embætti á hinu nýja alþingi, þar sem hann var líka göfugur höfðingi og ættstór. Hrafn gegndi embættinu um 20 ár, eða fram til 950, en eftir það ráða Reykvíkingar lögsögumannskjöri allt fram að kristniöku og hafa því verið valdamestu menn landsins á þeim tíma.
Árið 950 tekur Þórarinn Raga bróðir við lögsögu, en hann var mægður Reykvíkingum, því að Ragi bróðir hans mun hafa verið kvæntur systur Þorsteins Ingólfssonar og búið í Laugarnesi. Þórarinn gegndi embættinu í 20 ár, fram til 970, en þá tekur við Þorkell máni sonur Þorsteins Ingólfssonar og gegnir því um 15 ára skeið. Þá tekur við Þorgeir Ljósvetningagoði, en þeir Þorkell máni voru að öðrum og þriðja og er sú ættfærsla þannig: Þorkell máni var sonur Þóru dóttur Hrólfs rauðskeggs á Fossi á Rangárvöllum, en móðir Þorgeirs Ljósvetningagoða var Þórunn dóttir Ásu Hrólfsdóttur rauðskeggs. Þorgeir andaðist tveimur árum eftir kristnitöku og þá gekk lögsögumannsstarfið úr ættum Reykvíkinga, en goðorði þeirra fylgdi enn lengi helgun alþingis.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. tbl. 06.07.1969, Kjalarnesþing og Alþingi hið forna, Árni Óla, bls. 6-7.
Þingnes

Meðalfellsvatn - skilti

Á norðurbakka „Meðalfellsvatns“ er upplýsingaskilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

„Í Kjós er hægt að lesa merkilega sögu um hop og framskrið jökla ísaldar. Kjósin er dalur sem jöklar ísaldar hafa forðum grafið út úr Esjuhálendinu. meginjökull hefur skriðið út Hvalfjörð, en minni jöklar úr Kjós, sem hafa skilið Meðalfell eftir. Smærri skrijöklar hafa grafið út dalina norðan í Esjunni.

1. Meðalfell

Meðalfell

Meðalfell.

Í Landnámu segir að Valþjófur, sonur Örlygs hins gamla Hrappssonar landnámsmanns á Esjubergi, hafi byggt bæ sinn að Meðalfelli. Er hann því landnámsmaður Kjósrainnar, hann „nam Kjós alla“ segir orðrétt.

2. Eyjarétt

Eyjarétt

Eyjarétt.

Rétt neðan við Kaffi Kjós eru leifar Eyjaréttar sem var lögrétt frá 1890 til 1955. Hægt er að sjá merki um réttina ef gengið er upp í hlíðar Meðalfells upp af Kaffi Kjós og horft yfir svæðið þaðan.

3. Írafell

Írafell

Írafell (MWL).

Einn frægasti draugur landsins er Írafellsmóri. Sagt er að hann hafi verið vakinn upp úr dreng sem varð úti á milli bæja. Draugurinn var sendur að Möðruvöllum til að ásækja Kort nokkurn Þorvarðarson og var sagt að hann myndi fylgja ætt hans í níu ættliði. Draugurinn fylgdi syni Korts að Írafelli og dregur síðan nafn sitt af bænum.

4. Grjóteyri

Grjóteyri

Grjóteyri.

Um miðja 20. öld voru gerðir nokkrir skógarreitir af félagasamtökum, m.a. í landi Grjóteyrar.

5. Flekkudalur

Flekkudalur

Flekkudalur

Í Flekkudal eru hraunlög og móberg. Þessi hraun runnu líklega þegar eldstöðin á Kjalarnesi var að deyja út, en eldstöðin í Stardal ekki vöknuð. Meðalfell er myndað úr sömu jarðlögum. Í gili Flekkudalsár er einnig að finna margvíslegar stuðlamyndanir í móbergi, bólstra og móbergstúff með gerggöngum og stórum gúlum af stuðluðu blágrýti.

Meðalfellsvatn - skilti

Meðalfellsvatn – skilti.

Hvaleyrarvatn

Í Náttúrufræðingnum 1998 segir m.a. að „Hvaleyrarholt og Ásfjall eru að mestu úr grágrýti sem er yngra en 0,7 milljón ára og undir Hvaleyrarvatni og Ástjörn er einnig að finna grágrýti frá sama tíma. Hraunið sem stíflar vötnin er hluti af Hellnahrauni, sem er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og sjást þess engin merki að það hafi nokkurn tíma verið gróið að marki. Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn. Selhöfði og Stórhöfði fjær, en Húshöfði og Vatnshlíð nær.

Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra-Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra-Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum.“
Lítill lækur rennur frá Ásfjalli í Ástjörn, en í Hvaleyrarvatn hefur einungis safnast yfirborðsvatn eftir rigningar og snjóa. Hið síðarnefnda er því háðari veðursveiflum frá einum tíma til annars.

Selhöfði

Selhöfði – stekkur.

Ómar Smári Ármannsson skrifaði grein í Fjarðarpóstinn 2003 undir fyrirsögninni: „Á Gangi við Hvaleyrarvatn“. Í greininni er m.a. lýst gönguferð við vatnið, tóftum, seljum og borgum:
„Hvaleyrarvatn er í kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu; Vatnshlíð að norðanverðu, Húshöfða að austanverðu og Selhöfða að sunnanverðu. Selhraun (Hellnahraun) lokar fyrir afrennsli vatnsins að vestanverðu.

Vatnshlíð

Vatnshlíð 1960 – hús Hákons Bjarnasonar.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hóf uppgræðslu við vatnið árið 1956. Nú er svæðið orðið kjörið útivistarsvæði. Göngustígar liggja um skóginn og í kringum vatnið, um 20 mínútna léttur gangur. Á svæðinu eru einnig nokkrar minjar frá tímum fjárbúskapar, sem gaman er að skoða, auk þess sem torfhlaðin hafa verið ágæt skeifuskjól á stöku stað. Hús Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna. Sumarhús er undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.

Ákjósanlegt er að byrja göngu frá bílastæðinu norðan við vatnið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Í Húshöfða má t.d. sjá tóft af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tóft í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum, en var síðast notað árið 1922 frá Ási. Rétt vestar eru jarðlægar leifar, líklega af fyrrum selstöðu. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.

Ássel

Ássel.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla áríð 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – stekkur.

Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða. Þegar þangað er komið er beygt til hægri, uppá klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamals stekkjar, auk annars minni og eldri skammt austar. Auðvelt er fyrir vant fólk að koma auga á minjarnar, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel. Í norðanverðum Seldal er stekkur og auk þess óljósar seltóftir á grónum hvammi.

Stórhöfði

Nátthagi við Stórhöfða.

Vestan við Stórhöfða er grjóthlaðinn nátthagi með fjárskjólum. Líklegt má telja að hafi tengst selstöðunni í Seldal fyrrum. Vestan við Hvaleyrarvatn eru einnig minjar, bæði hlaðinn stekkur og óljósar jarðlægar tóftir.
Vörður eru á höfðunum fimm umleikis. Flestar eru þetta landamerkjavörður frá bæjunum er landið tilheyrði fyrrum.
Ágæt gönguleið er niður af Selhöfða til vesturs, á milli furulunda. Þá er komið að vatninu á milli seljanna og auðvelt að ganga meðfram því til baka – að bílastæðunum. Þessi ganga tekur u.þ.b. klst.“

Sjá einnig MYNDIR frá Hvaleyrarvatni og nágrenni..

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, bls. 276.
-Fjarðarpósturinn, 17. tbl. 30.04.2003, Á Gangi við Hvaleyrarvatn – Ómar Smári Ármannsson, bls. 11.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar.

Kárastaðakot

FERLIR hafði að þessu sinni það verkefni að leita uppi, staðsetja og teikna upp Kárastaðakot í fyrrum Þingvallasveit. Auk þess var ákveðið að skoða grjóthlaðna rétt ofan Brúsastaða.

Í Örnefnalýsingu Guðbjörns Einarssonar, bónda á Kárastöðum segir m.a. um Kárastaði og Kárastaðakot:

Kárastaðir

Kárastaðir – friðlýstar minjar.

„Miðsvæðis í Þingvallasveit, vestan vatns, er jörðin Kárastaðir. Hún liggur milli jarðanna Brúsastaða að austan, Skálabrekku að vestan og Þrándarstaða í Kjós að norðan, en takmarkast af Þingvallavatni að sunnan.
Kárastaðaás er misgengi ofan við bæinn og liggur frá suðvestri til norðausturs. Á honum eru Háás og Lágás. Á ská upp ásinn liggur Sniðgata, og vestar á honum heitir Jarðfall. Austan til á Háásnum er stór steinn, líkur húsi í laginu, og heitir hann Álfasteinn.

Kárastaðir

Kárastaðir.

Vestarlega undir Kárastaðaás er Nónmelur og Mógrafir. Gildrubrekkur liggja ofan við Kárastaðaás. Þar voru settar steingildrur fyrir refi í gamla daga. Suður undan Gildrubrekkum austan til er Þvergil, en vestur af þeim er Sæmundarflöt, og enn vestar Rjúpubæli. Ofan við Gildrubrekkur er Sandskeið. Norðvestur af Sandskeiði eru hvammar tveir, Hlíðarhvammur og Götuhvammur. Um Götuhvamm lá leiðin, þegar farið var með heybandslest úr Sökk, en það er mýrarslakki með fúamýri í. Selskarð er þar vestar. Um það var farið, þegar farið var í Selið, sem stóð í Selgili, og má enn sjá tóftirnar af Selinu.
Dalurinn milli Kárastaðahlíðar og Selfjalls heitir Lækir. Suður undan Selfjalli er dalkvos, sem heitir Skál, og skammt þar frá er Markagil, en þar eru mörkin milli Kárastaða og Brúsastaða.“
Hér að framan er ekkert minnst á Kárastaðakot.

Kárastaðir

Kárastaðir fyrrum.

Í skýrslu um „Lagningu jarðstrengs á Suðurlandi, deiliskráning… (Fornleifastofnun 2019) segir m.a. um Kárastaði:
„1570: Í máldaga frá árinu 1570 (og síðar) eru Kárastaðir eign Þingvallakirkju. DI XV, 644.
1695: Eign Þingvallakirkju og jarðardýrleiki 16 hdr. BL, 116.
1711: Jarðardýrleiki óviss. Jörðin átti þá afrétt með Grímsnesingum í Skjaldbreiðurhrauni. Eyðibýli: Kárastaðakot. JÁM II, 369.“

Hér að framan er sem sagt getið um Kárastaðakotið.

Í „Kortlagningu eyðibyggðarinnar á Þingvöllum segir Gunnar Grímsson í B.A-ritgerð sinni í fornleifafræði árið 2020 frá Kárastaðakoti:

„Kárastaðir og Kárastaðakot

Kárastaðakot

Kárastaðakot.

Tæpum þremur kílómetrum norðaustan Skálabrekku eru Kárastaðir, sem eru enn í byggð í dag. Kárastaðabændur stunduðu seljabúskap í Seldal, suðvestan bæjarins og var það einfaldlega nefnt Selið („Kárastaðir“, e.d., bls. 3). Eyðihjáleiga Kárastaða, Kárastaðakot, var byggð upp úr stekk bæjarins milli 1685–1691 (JÁM II, bls. 369). Mögulegar rústir Kárastaðakots sáust á loftmyndum Samsýnar í október 2019 fyrir tilviljun við skrásetningu leiða á Þingvöllum. Rústirnar hafa ekki verið heimsóttar á vettvangi og frekari rannsókna er þörf til að ákvarða hvort þær séu í raun bæjarstæði. Rústirnar, sem eru mitt á milli Kárastaða og Brúsastaða, eru sambyggðar og þeim svipar nokkuð til Bárukots í útliti. Kárastaðakot og Bárukot voru byggð og fóru í eyði á sama áratugnum.“

Kárastaðakot

Kárastaðakot – uppdráttur ÓSÁ.

Í Lögréttu 1919 er fjallað um Þingvelli við Öxará. Þar segir m.a.: „12. Kárastaðakot var bygt úr Kárastaðalandi um 1685. Þar var búið í 6 ár, svo lagðist það í eyði.“

Við vettvangssskoðun á tóftum Kárastaðakots var ljóst að um örkot var að ræða; húsakostur var þröngur; búr, baðstofa og útistandandi eldhús. Framan við kotið var fjárskjól og utan í því sauðakofi. Ofar var matjurtargarður og varða austar efst á mel. Neðar voru eldri minjar, greinilega stekkur. Minjarnar staðfestu framangreinda lýsingu um að kotið hafi verið byggð upp úr stekknum. Fjölmargar lýsingar eru um slíkt á Reykjanesskaganum í gegnum tíðina.

Brúsastaðir

Brúsastaðr – réttin undir Réttrahól.

Þá var haldið að Brúsastöðum með það fyrir augum að finna, staðsetja og teikna Brúsastaðaréttina undir Réttarhól (Einbúa).
Í Örnefnalýsingu fyrir Brúsastaði segir Haraldur Einarsson, fæddur á Brúsastastöðum, m.a.:

„Þar austur undir á er Einbúi, stakur hóll. Áin beygir nú, og þar er annar hóll, sem réttin er við. Hann var ekki kallaður neitt. [Hann heitir reyndar Réttarhóll.] Kallaður er Albogi í beygjunni á ánni. Þar eru klettabelti og skriður.

Brússtaðir

Brúsastaðarétt.

Vestan við bæ er sagður gamall kirkjugarður. Þar er hringmyndaður kragi og þýft inni í. Í hringnum eru þrjár lautir, ein stærst. Enginn vildi hrófla við þessu, og hefur það ekki verið sléttað. Einu sinni átti að slétta utan í þessum kraga, en þá var komið niður á stein-hleðslu, líkt og tröppur, og var þá hætt við. Blótsteinn er stór og mikill steinn, þar sem gamli bærinn stóð, vestan við kálgarð. Í hann er klöppuð skál.“

Brúsastaðir

Hoftóft? í kirkjugarði vestan Brúsastaða.

Augljóst má telja að framangreindur hóll vestan Brúsastaða er forn grafreitur. Skálalaga tóft í honum er mögulega hoftóft sú, sem fjallað hefur verið um, þrátt fyrir villandi örnefnin umleikis. Áhugaverður vettvangur fyrir fornleifafræðinga framtíðarinnar.

Brúsastaðir

Brúsastaðir – hlautsteinn.

Gömlu bæjarhúsin á Kárastöðum voru friðlýst af forsætisráðherra 16. júlí 2014 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs, sambyggðs hlaðins útihúss og upprunalegra innréttinga gamla íbúðarhússins.

Kárastaðir

Kárastaðir.

Á vef Minjastofnunar segir: „Gamla íbúðarhúsið að Kárastöðum hefur varðaveislugildi sem mjög gott dæmi um steinsteypt sveitahús í burstastíl eftir Jóhann Fr. Kristjánsson húsameistara. Það stendur á áberandi stað og blasir við helstu aðkomuleið að þjóðgarðinum á Þingvöllum. Í grein sem birtist í Samvinnunni 1925 er fjallað um uppdrátt af Kárastaðahúsinu og það nefnt sem fyrirmynd framtíðarbygginga á Þingvöllum í þjóðlegum anda, Þingvallabæjarins og Hótel Valhallar. Húsið var teiknað og byggt sem sveitaheimili og gistihús og þjónaði lengi sem slíkt auk þess að vera samkomustaður sveitarinnar. Kárastaðahúsið er eitt örfárra gistihúsa þessarar gerðar sem varðveist hafa.“

Framangreind friðlýsing er einungis ein af fjölmörgum vitlausum er ráðamönnum hefur verið boðið upp á í seinni tíð, án tæmandi útskýringa.

Heimildir:
-Brúsastaðir – Örnefnalýsing; Haraldur Einarsson 1981.
-Lögrétta, 14. árg. 19. tbl. 07.05.1919, Þingvellir við Öxará, bls. 67.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum… Gunnar Grímsson, B.A-ritgerð í fornleifafræði 2020.
-Ragnar Lundborg Jónsson, bóndi á Brúsastöðum.
-Lagning jarðstrengs á Suðurlandi, deiliskráning…Fornleifastofnun 2019.
-https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/sudurland/nr/1255

Kárastaðakot

Kárastaðakot.

Esjuberg

Fyrir neðan bæinn Grund á Kjalarnesi, vestan Esjubergs, er „útialtari„. Á skilti við altarið má lesa eftirfarandi texta, auk svilitlum viðbótafróðleik:

„Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera“.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Hér í landi Esjubergs verður reist útialtari sem minnismerki um merkan kristinn kirkjustað. Sagnir herma að fyrsta kirkja á Íslandi fyrir kristnitöku hafi verið reist á Esjubergi á Kjalarnesi. Mun það hafa verið um árið 900. Ekki er vitað hvar í landi Esjubergs kirkjan stóð. Næsta líklegt er að skriðuföll í Esju hafi spill vegsummerkjum eftir hana en þau breyttu ásýnd jarðarinnar og huldu flestar minjar á Esjubergi sem þar höfðu staðið um aldir og m.a. svonefnda kirkjurúst.

Esjuberg

Esjuber – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Fornleifarannsókn fór fram árið 1981 á þeim stað á Esjubergi þar sem menn töldu að kirkja hefði staðið og kirkjugarður. Ekkert fannst sem gat staðfest að kirkja hefði staðið á þeim stað.

Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappsson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi „kirkjuvið ok járnklukku ok penárium ok mold vígða“ til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar [sem] hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. örlygur reisti kirkju á Esjubergi.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

[Í 1, kafla Kjalnesingasögu segir: „Maður hét Örlygur. Hann var írskur að allri ætt. Í þann tíma var Írland kristið. Þar réð fyrir Konofogor Írakonungur. Þessi fyrrnefndur maður varð fyrir konungs reiði.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Hann fór að finna Patrek biskup frænda sinn en hann bað hann sigla til Íslands „því að þangað er nú,“ sagði hann, „mikil sigling ríkra manna. En eg vil það leggja til með þér að þú hafir þrjá hluti. Það er vígð mold að þú látir undir hornstafi kirkjunnar og plenarium og járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan að Íslandi. Þá skaltu sigla vestur fyrir þar til er fjörður mikill gengur vestan í landið. Þú munt sjá í fjörðinn inn þrjú fjöll há og dali í öllum. Þú skalt stefna inn fyrir hið synnsta fjall. Þar muntu fá góða höfn og þar er spakur formaður er heitir Helgi bjóla. Hann mun við þér taka því að hann er lítill blótmaður og hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli er fyrr sagði eg þér frá. Þar skaltu láta kirkju gera og gefa hinum heilaga Kolumba. Far nú vel,“ sagði biskup, „og geym trú þinnar sem best þóttú verðir með heiðnum.“

Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.“]

Esjuberg

Esjuberg – uppfærð örnefni.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið kirkju á Esjubergi: „Kirkja at Esjubergi.

Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 14. öld: „Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.

Þrátt fyrir áþreifanleg ummerki um kirkju á Esjubergi hafi ekki enn fundist á Esjubergi hafa Kjalnesingar hin síðari ár haft um hönd helgihald á staðnum í júnímánuði ár hvert.

Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjuergs er að vekja verðskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Útilaltarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eons og brúðkaup pg skírnir.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

Fyrsta skóflustunga var tekin að altarinu 8. maí 2016 af biskupi Íslands, prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, formanni Sögufélagsins Steina, formanni sóknarnefndar Brautarholtssóknar og einu fermingarbarni vorsins 2016.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

[Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir tók þar skóflustungu að útialtari ásamt sr. Þórhildi Ólafs. prófasti Kjalarnessprófastsdæmis, Hrefnu Sigríði formanni Sögufélagsins Steina, Birni Jónssyni formanni sóknarnefndar Brautarholtskirkju og fermingarbarninu Benedikti Torfa Ólafssyni.
Prófasturinn sr. Þórhildur Ólafs, leiddi helgistundina að keltneskum sið.]

Altarið sjálft verður sótt í Esjubergsnámur og upp úr því mun standa um tveggja metra hár keltneskur kross.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft forystu í máli þessu í samvinnu við ýmsa aðila.

[Guðni Ársæll Indriðason smíðaði mót fyrir krossinn sem rísa mun í miðju útialtarisins. Ákveðið er að hafa þrenningartákn, keltneska fléttu öðru megin og þrjá fiska hinu megin. Bjarni hefur verið í sambandi við Steinsmiðjuna S. Helgason sem ætla að sjá um smíðina á plötunum sem síðan verða festar á krossinn.]

Þetta söguskilti er sett upp hér til bráðabirgða en veglegra skilti verður síðar komið fyrir.

Esjuberg
[Kirkja Örlygs hefur sennilega aldrei verið við bæinn Esjuberg, miklu frekar í landi Esjubergs, er náði allt vestur í Kolafjörð. Þegar möguleg staðsetning framangreindrar kirkju gæti hafa verið þarf því að líta gagnrýnum augum í fyrirliggjandi örnefnalýsingar m.t.t. áttalýsinga, og horfa sérstaklega til örnefnanna „Leiðhamar“ og „Leiðvöllur“, sbr.:

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Vesturmörkin [austurmörkin], milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan [austan] hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.)

Upp af Leiðvelli var Kirkjuflöt. Þar er líklegt að kirkja Örlygs hafi verið reist í árdaga, þ.e. á Kirkjuflöt. Nánast öllu svæðinu ofan Leiðvallar hefur nú verið raskað með námugreftri. Upp af  Kirkjuflöt var Kirkjunýpa, gamalt örnefni, sem nú virðist vera horfið.
Esjuberg

Vogar

Í Vogum er fróðleiksskilti á „Sæmundarnefi“ sunnan Stóru-Voga. Á því er eftirfarandi texti:

Skipsströnd
Vogar
Í fjörunni út af Sæmundarnefi má finna leifar af tveimur skipum sem strönduðu þar á fyrri hluta 20. aldar.
Við Sandsker út af Sæmundarnefi má sjá kjöl og bönd af seglskipinu Fjallkonunni sem slitnaði upp í Vogavík og rak á land og strandaði í miklu hvassviðri árið 1904. Skipverjum var naumlega bjargað af heimamönnum. Eini staðurinn sem hægt var að koma báti til björgunar á sjó í hvassviðrinu var fyrir sunnan Sæmundarnef. því báru eða drógu heimamenn bát frá Bræðrapartsvörinni, norðan við Sæmundarnefið, eftir túninu og settu á flot sunnan megin við það. Fjallkonan, sem var frá Noregi, var með timburfarm sem fara átti til Hafnarfjarðar. Eftir strandið var timbrinu safnað saman úr fjörunni og selt á uppboði á Krisjánstanga. Mörg hús í hreppnum voru byggð úr þessu strandgóssi. Í kjölfar starndsins hefur verið talað um skerið sem Skútusker.
Vogar
Skammt frá Fjallkonunni, örlítið utar, eru leifar af öðru skipi, Hansaaaag sem strandaði haustið 1937. Í björtu og góðu veðri átti að sigla skipnu inn á Vogavík. Það tók hins vegar niðri á Geldingum (hvirflum) út af Þóruskeri sem er við endann á nuverandi hafnargarði. Þegar skipið losnaði var það dregið upp á Sandsker út af Sæmundanefi.
Hansavaag var gamalt tréskip sem hafi lengi verið notað til flutninga á sandi og steypumöl milli fjarða norðanlands. Hér átti að nota skipið sem fljótandi síldarsöltunarstöð á yfirstandandi síldarvertíð í faxaflóa. Um borð í skipinu var mikið af tómum síldartunnum ásamt stúlkum sem salta áttu síldina. manntjón varð ekki. Skipið var síðar rifið og selt á strandstað.
Vogar

Öxará

Í Náttúrufræðingnum 2020 fjalla Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson um „Virkjun Öxarár„:

Öxará

Öxará – virkjun.

„Jón Guðmundsson, bóndi á Brúsastöðum, keypti Hótel Valhöll árið 1919. Þá stóð hótelið austan Öxarár á svokölluðum Köstulum. Þar kom hann upp raflýsingu árið 1927 og framleiddi rafmagnið með dísilvél til að byrja með.
Árið 1929 var gamla hótelbyggingin tekin niður og endurbyggð vestan Öxarár þar sem hótelið stóð síðan allt til þess að það brann sumarið 2009. Á sama tíma og þessar framkvæmdir stóðu yfir íhugaði Jón að virkja Öxará enda var þá verið að reisa litlar vatnsaflsvirkjanir víða um land.

Öxará

Öxará – virkjun.

Í umræðum um friðun Þingvalla á alþingi 1928 kemur fram að þá hafði Jón farið fram á leyfi til virkjunar. Ljóst er af umræðunum að þingmönnum leist ekki á virkjun við Öxarárfoss og töldu að hún myndi spilla helgi staðarins og fegurð. Friðun Þingvalla var síðan samþykkt samhliða stofnun Þjóðgarðsins.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á Brúsastöðum.

Ekki er ljóst hvort Jón á Brúsastöðum hafði virkjun við Öxarárfoss einhvern tíma í huga. Þegar hann hóf virkjunarframkvæmdir 1932 var þaðí hans eigin landi, ofan við Brúsastaði þar sem Öxará fellur í flúðum og strengjum niður á jafnlendið. Þarna byggði hann inntaksstíflu, lagði aðfærslupípur, reisti stöðvarhús, kom upp raflínu og brúaði meira að segja ána gegnt stöðvarhúsinu. Virkjuð fallhæð var 13 m og lengd pípu um 180 m. Rafallinn var 37 kw rakstraumsrafall frá ASEA í Svíþjóð en vatnshjólið var smíðað í Landssmiðjunni. Ekki hafa fundist nein mæligögn um rennsli árinnar frá þessum tíma en vafalítið hafa menn þó reynt að meta það þegar lagt var á ráðin um vélar og búnað. Þetta var rennslisvirkjun án miðlunar og hafði lítil sem engin áhrif á rennsli Öxarár. Rafmagnið var leitt til Brúsastaða, Hótel Valhallar og í Þingvallabæinn. Nokkru síðar bættust sumarbústaðir í grenndinni við og einnig lét Jón lýsa upp Þingvallakirkju og fékk hún rafmagnið endurgjaldslaust. Raflínan til Þingvalla var 2,6 km að lengd.

Öxará

Öxará – virkjun.

Þetta var mikil framkvæmd og dýr fyrir einstakling, kostaði 25.000 kr. á verðlagi ársins 1932. Margt var því af nokkrum vanefnum gert og reksturinn gekk brösótt til að byrja með. Línan gat ekki flutt nema takmarkaða orku og spennufall var oft óhóflegt vegna þess hve grönn línan var. Auk þess urðu ýmsar truflanir viðstífluna af völdum framburðar og kraps í ánni. Jón vann því stöðugt að endurbótum og hafði stækkun í huga.

Öxará

Öxará – stíflan.

Árið 1942 endurnýjaði hann stífluinntakið og lét setja gildari víra í línuna og varð það til mikilla bóta. Með vaxandi umsvifum á Þingvöllum dugði þetta rafmagn ekki og fyrir lýðveldishátíðina 1944 var sett dísilrafstöð við Valhöll og notuð samhliða vatnsaflsstöðinni á sumrin fram til 1946. Þá var rekstri virkjunarinnar hætt en rafmagnið alfarið framleitt með olíu á vegum hlutafélags sem annaðist rekstur Valhallar frá 1944 til 1964 þegar Þingvellir fengu loks rafmagn frá Sogsvirkjun. Mannvirki virkjunarinnar gömlu eru enn vel sýnileg við ána ofan Brúsastaða, stífla stöðvarhús og brúarstólpar.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 2020, Öxará, Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson, bls. 13-14.

Öxará

Öxará – virkjun.

Kristrúnarborg

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 fjallar Jónatan Garðarsson um „Kristrúnarborg og konuna á bak við borgina„:

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson.

„Hún var frá Miðfelli í Þingvallasveit. Hún hlóð ásamt bróður sínum stóra fjárborg, missti mann sinn úr holdsveiki frá ungum syni, tók formannssæti hans á fiskifari heimilisins, sótti sjóinn ásamt vinnumönnum sínum, var órög við að sækja á djúpmið og stjórnaði hásetum sínum af myndugleik. Hún hét Kristrún og bjó á Óttarsstöðum í Hraununum.
Fjárborgir er víða að finna á Reykjanesskaganum og víðar og vitna um gott verklag og hyggjuvit þeirra sem hlóðu þær. Flestar borgirnar eru kenndar við þá bæi sem þær tilheyrðu, en ein fjárborg er kennd við konu og nefnd Kristrúnarfjárborg. Þessi fjárborg stendur á nokkuð sléttum hraunhrygg skammt vestan við Smalaskála í Hraunum sunnan við Straumsvík. Fjárborgin er allt eins nefnd Óttarsstaðafjárborg, en Kristrúnarborg er það nafn sem staðkunnugir notast jafnan við.
Konan sem fjárborgin er nefnd eftir hét Kristrún og var Sveinsdóttir en hún kom upphaflega sem vinnukona að Óttarsstöðum frá Miðfelli í Þingvallasveit og varð húsmóðir á bænum. Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði og örnefnasafnari segir frá því í örnefnaskrá sinni að Kristrún hafi hlaðið borgina ásamt vinnumanni sínum.
Það er rétt að huga aðeins nánar að því hver þessi kona var og hvernig stóð á því að hún settist að á Óttarsstöðum. En fyrst þarf að greina frá því hvernig málum á þessum slóðum var háttað áður en Kristrún kom til sögunnar.

Jón Hjörtsson
Óttarsstaðir
Þannig var að Jón Hjörtsson var leiguliði á Óttarsstöðum árið 1835, þá orðinn 59 ára gamall. Hann stundaði talsverða útgerð enda fiskveiðar góðar á þessum slóðum. Eiginkona Jóns var Guðrún Jónsdóttir, sem var 68 ára, og því nærri áratug eldri en eiginmaðurinn eins og algengt var á þessum tíma.
Rannveig dóttir þeirra hjóna var þrítug og bjó hjá þeim ásamt syni sínum Steindóri Sveinssyni, sem var tíu ára gamall. Vinnumaður á bænum var Guðlaugur Erlendsson, 39 ára gamall og Sigvaldi Árnason 43 ára tómthúsmaður, bjó einnig á Óttarsstöðum ásamt Katrínu Þórðardóttur 53 ára eiginkonu sinni.
Jón Hjörtsson keypti hálfa Óttarsstaðajörðina af konungssjóði 28. ágúst 1839 en hinn hlutann ásamt Óttarsstaðakoti keypti Guðmundur Guðmundsson í Straumsseli. Guðmundur var umsvifamikill á þessum tíma og eignaðist smám saman jarðirnar Stóra Lambhaga, Straum og Þorbjarnarstaði. Jón Hjörtsson og Guðrún stofnuðu til nýrrar hjáleigu í landi sínu fyrir 1850, sem fékk nafnið Kolbeinskot. Nafnið tengdist ábúandanum Kolbeini Jónssyni, sem var 34 ára árið 1850 og eiginkonan Halldóra Hildibrandsdóttir 40 ára. Þau áttu börnin Oddbjörgu 6 ára, Jón 2 ára og Hildibrand sem var eins árs.
Eyðikot
Fyrstu árin reyndu þau venjubundinn búskap, en túnin sem Kolbeinskot hafði til umráða voru ekki mikil, jafnvel þó að þau gætu slegið Kotabótina og beitt skepnum sínum á fjöru á vetrum og úthagann á sumrin. Veturinn 1859-60 reri Sighvatur Jónsson, sem kallaður var Borgfirðingur, á skipi Kolbeins og hafði fjölskyldan viðurværi sitt einvörðungu af fiskveiðum húsbóndans. Um þessar mundir bættist dóttirin Guðbjörg í barnahópinn og vegnaði fjölskyldunni ágætlega enda nóg að bíta og brenna. Árið 1890 þegar Kolbeinn var á 75. aldursári, en Halldóra að verða áttræð, bjuggu þau í Óttarsstaðakoti ásamt Jóni Bergsteinssyni, 14 ára dóttursyni sínum.

Kristrún kemur
Óttarsstaðir
Árið 1855 lést Guðrún Jónsdóttir húsmóðir á Óttarsstöðum, 88 ára gömul, en Jón Hjörtsson lifði konu sína, orðinn 79 ára gamall. Hann bjó á Óttarsstöðum í sambýli við Rannveigu dóttur sína og Steindórson hennar sem var 31 árs og einhleypur. Hann var í raun réttri húsráðandi og bóndi á bænum á þessum tíma. Steindór festi ekki ráð sitt fyrr en fimm árum seinna, en þá hafði vinnukonan Kristrún Sveinsdóttir verið á bænum um skeið. Kristrún fæddist 24. apríl 1832 að Miðfelli í Þingvallasveit. Hún var dóttir Sveins bónda Guðmundssonar og konu hans Þórunnar Eyleifsdóttur sem bjuggu að Miðfelli. Kristrún hafði orð á sér fyrir að vera tápmikil kona og eftirtektarverð. Hún kom að Óttarsstöðum ásamt Bergsteini bróður sínum, sem var einu ári eldri en hún, og var vinnumaður á bænum. Systkinin voru annálaðir dugnaðarforkar. Nokkru áður en þau komu að Óttarsstöðum hafði allt sauðfé verið skorið niður á suðvesturhorni landsins vegna fjárkláða. Bændur þurftu að koma sér upp nýjum fjárstofni og fengu sauðfé frá Norðurlandi sem var ekki hagvant í hraunlandslagi. Venja þurfti féð við nýju heimkynnin og þessvegna þótti skynsamlegt að breyta aðeins um búskaparhætti og hafa féð nær bæjum en áður hafði tíðkast. Um þessar mundir hættu margir bændur að færa frá í sama mæli og áður og selfarir lögðust af að miklu leyti og smám saman fóru selin í eyði.

Fjárborgin
Kristrúnarborg
Þegar fjárskiptin stóðu fyrir dyrum hófu menn víðsvegar á Suðurnesjum að hlaða upp hringlaga fjárborgir og var ein slík gerð í landi Óttarsstaða. Borginni var fundinn staður skammt vestur af Smalaskálahæð á sléttum hraunhól. Kristrún stjórnaði hleðslu fjárborgarinnar og tók virkan þátt í að koma henni upp, eða vann þetta að mestu ein ásamt vinnumanni sínum, samkvæmt því sem Gísli Sigurðsson komst næst, er hann safnaði upplýsingum um örnefni í landi Óttarsstaða. Alla vega fór það svo að fjárborgin var ætíð eftir það við hana kennd og kölluð Kristrúnarborg. Kristrún vann ekki ein að þessu því Bergsteinn bróðir hennar lagði drjúga hönd að verkinu, en þau voru vön að hlaða garða úr hraungrjóti sem nóg er af í Þingvallasveit. Hvort það var þessi atorka og verkkunnátta sem varð til þess að Steindór bóndi á Óttarstöðum heillaðist af Kristrúnu er ekki gott að fullyrða, en allavega fór það svo að þau gengu í hjónaband 9. október 1860. Hann var 36 ára en hún var 28 ára gömul þegar stofnað var til hjónabandsins.

Holdsveikin

Eyðikot

Óttarsstaðagerði.

Steindór var dugmikill bóndi og formaður sem aflaði vel og var ágætlega efnum búinn. Hjónabandið virðist hafa verið farsælt, en Steindórs naut ekki lengi við, því hann fékk holdsveiki og lést af völdum veikinnar árið 1870. Sveinn, sonur Steindórs og Kristrúnar, var á barnsaldri þegar faðir hans andaðist og átti Kristrún allt eins von á að þurfa að bregða búi.
Bergsteinn bróðir hennar byggði upp Eyðikotið árið 1864 og nefndi það Óttarsstaðagerði. Hann hafði nokkru áður gengið að eiga Guðrúnu Hannesdóttur, og árið 1870 áttu þau börnin Svein 9 ára, Þórönnu 6 ára, Guðmund 3 ára og Steinunni 1 árs. Hjá þeim var ennfremur Þorgerður Jónsdóttir móðir Guðrúnar og amma barnanna.
Kristrún sýndi einstakt þrek í því mótlæti sem á hana var lagt og tók á sig heimilisbyrðina alla óskipta og rekstur búskaparins út á við. Hún naut þess að Bergsteinn bróðir hennar bjó í Óttarsstaðagerði og settist sjálf að í litlu timburhúsi sem Vernharður Ófeigsson rokkasmiður byggði á Óttarsstöðum árið 1842, en hann andaðist tveimur árum seinna. Þá keypti Jón Hjörtsson húsið á 16 ríkisdali og frá þeirri stundu var það þurrabúð og leigt út sem slíkt um árabil. Kristrún samdi við Ólaf Magnússon, sem fæddist í Eyðikoti 1844, um að taka við búinu um hríð. Hann var sonur Magnúsar Jónssonar og Guðríðar Gunnlaugsdóttur og ólst upp í Hraunum. Eiginkona hans var Guðný, systir Guðjóns Jónssonar á Þorbjarnarstöðum, sem var þar leiguliði Árna Hildibrandssonar í Ási við Hafnarfjörð.

Kjarkmikil

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

Kristrún bjó í þurrabúðinni ásamt Sveini syni sínum, sem var aðeins 8 ára gamall, en hann átti seinna eftir að verða dugandi bóndi og formaður. Kristrún var kjarkmikil og áræðin og tók formannssæti bónda síns á fiskifari heimilisins. Sótti hún sjóinn ásamt vinnumönnum sínum með atorku og heppni, og samkvæmt manntalinu 1870 var hún sögð lifa á fiskveiðum, sem var ekki algengt starfsheiti kvenna á þessum árum. Var hún órög við að sækja á djúpmið og stjórnaði hásetum sínum af myndugleik. Jón Jónsson, 29 ára sjómaður, var hjá henni ásamt Björgu Magnúsdóttur, 23 ára eiginkonu sinni, og vinnumanninum Bergsteini Lárussyni, sem var einnig í skipsrúmi hjá Kristrúnu. Kristrún sá jafnframt um að versla til heimilisins og annaðist aðra aðdrætti, sem var óvenjulegt á þessum tíma. Kristrún giftist aftur, 16. nóvember 1871, Kristjáni Jónssyni sem var 12 árum yngri en hún. Kristján fæddist 12. september 1844 og var sonur Jóns Kristjánssonar bónda í Skógarkoti í Þingvallasveit og miðkonu hans, Kristínar Eyvindsdóttur, frá Syðri Brú í Grímsnesi, Hjörtssonar. Bróðir Kristjáns var Pétur Jónsson blikksmiður í Reykjavík. Kristján var dugandi efnismaður og tóku þau hjónin við búskap á Óttarsstöðum 1875. Þeim farnaðist vel og höfðu ágætar tekjur af fiskveiðum til að byrja með. Til marks um það má nefna að Kristján var sagður hafa 650 ríkisdali í tekjur 1873-74, sem segja má að Kristrún hafi aflað að mestu með formennsku sinni.

Þrjú börn

Hliðsnes

Hliðsnes – fjaran.

Þau Kristrún og Kristján bjuggu saman á Óttarsstöðum til ársins 1883, er þau fluttu að Hliðsnesi á Álftanesi. Þar bjuggu þau í 20 ár og eignuðust þrjú börn: Kristin stýrimann og seglmakara, sem bjó í Hafnarfirði og var kvæntur Rannveigu Jónsdóttur frá Setbergi; Þórunni húsfreyju sem giftist Ísaki Bjarnasyni bónda á Bakka í Garðahverfi og Jónu húsfreyju sem giftist Steingrími Jónssyni húseiganda í Hafnarfirði.
Kristrún lést 13. desember 1903 og fékk þau eftirmæli að hún hefði verið gædd miklu atgervi til sálar og líkama, verið kona tíguleg yfirlitum og mjög einarðleg, hreinlunduð, trygg og staðföst. Hún var ráðdeildarsöm, ástrík og umhyggjusöm móðir og eiginkona. Síðustu æviárin var heilsu hennar farið að hnigna og fékk hún slag að kvöldi 4. desember og lá síðan í dái þar til hún lést. Var hún jarðsett að Görðum 22. desember við hlið fyrri eiginmanns síns og nokkurra barnabarna.
Kristján flutti stuttu eftir andlát Kristrúnar frá Hliðsnesi til Hafnarfjarðar og hóf verslunarrekstur þar. Heppnaðist það miðlungi vel og gengu efni hans til þurrðar á skömmum tíma. Seldi hann verslun sína sumarið 1906 og bakaði fjárþurrðin honum þungar áhyggjur. Var hann ekki með sjálfum sér eftir það og gekk í sjóinn 2. september 1906, milli Hafnarfjarðar og Garðahverfis, og réð sér bana. Var hann tæpra 62 ára þegar þessi atburður átti sér stað. Svo aðgrunnt var á þessum slóðum að líkið var ekki alveg á kafi er það fannst. Var þessi atburður afar sorglegur og orti Friðrik Friðriksson eftirfarandi:

Ljúfur með líkn og dáð;
lengi var sveitarstoð,
grandvar með góðri lund,
gætinn í orði’ og hug.

Sonurinn Sveinn

Sjóróður

Sjóróður.

Sveinn, sonur Kristrúnar og Steindórs, kvæntist Þórunni Guðmundsdóttur frá Nýjabæ í Garðahreppi. Þau eignuðust dótturina Bertu Ágústu 31. ágúst 1896 er þau bjuggu í Hafnarfirði. Þegar dóttirin var tveggja ára fluttu þau að Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd og bjuggu þar í tíu ár, þar til þau fluttu að Stapakoti í Njarðvík.
Árið 1917 keypti Sveinn Lækjarhvamm í Laugarnesi, en hann andaðist stuttu eftir það. Þórunn bjó áfram að Lækjarhvammi, ásamt Bertu dóttur sinni, til 1925. Berta stundaði hannyrðanám í Askov í Danmörku og Kaupmannahöfn 1919 til 1921. Hún stundaði kennslu heima í Lækjarhvammi og bjó þar myndarbúi til ársins 1965 ásamt eiginmanni sínum Einari Ólafssyni, en þá var landið tekið undir byggingar.
Á meðal þeirra sem réðust sem vinnumenn að Óttarsstöðum var Brynjólfur Magnússon úr Holtum í Rangárþingi, sem varð seinna kennari. Hann kom til Kristrúnar og Kristjáns á Óttarsstöðum árið 1877, þegar hann var 16 ára. Taldi Brynjólfur sig eiga þeim og börnum þeirra mikið að þakka. Tókust góð kynni með honum og þeim, ekki síst dótturinni Þórunni, sem var ekki nema fjögurra ára gömul þegar hann kom á heimilið.

Studdi til náms
Kristrún gerði sér grein fyrir gáfum Brynjólfs og studdi hann til náms í Flensborgarskóla. Þaðan útskrifaðist hann 1891 og varð eftir það umferðakennari eða farkennari eins og það nefndist, á heimaslóðunum fyrir austan sem og í Gullbringusýslu. Var hann með fyrstu mönnum eystra til að læra að leika á orgel.
Síðustu sex ár ævi sinnar var Brynjólfur búsettur í Fífuhvammi í Seltjarnarneshreppi, hjá Þórunni Kristjánsdóttur frá Óttarsstöðum, sem var honum eins og litla systir. Brynjólfur lést 74 ára gamall, 8. október 1935, þegar bifreið ók á hann í suðurhlíðum Öskjuhlíðar, er hann var á leiðinni til Reykjavíkur til að sinna erindi fyrir Þórunni í Fífuhvammi. Hann höfuðkúpubrotnaði og lést á Landspítalanum.
Þessi frásögn gæti verið mun lengri en ástæðulaust er að tíunda fleira að sinni. Kristrún Sveinsdóttir var merkileg kona og það er full ástæða til að halda nafni hennar og ættmenna hennar á lofti. Fjárborgin ein og sér sýnir, svo ekki verður um villst, að hún kunni vel til verka og lét ekki sitt eftir liggja þegar til framfara horfði í einhverjum málum.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Kristrúnarborg og konan á bak við borgina – Jónatan Garðarsson, bls. 3-5.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin / Kristrúnarborg.

Þýskabúð

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 fjallar Ómar Smári Ármannsson um „Hraunin“ og Hraunabæina:

Hraunabæirnir
„Rétt við bæjardyr höfuðborgarsvæðisins er að finna einstaka vin sem staðið hefur nær óbreytt í aldir. Þetta eru Hraunabæirnir. Þeir liggja á svæðinu milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur, sunnan við Hafnarfjörð, í skugga hins risavaxna álvers. Þar þjóta bílarnir framhjá þúsundum saman en fæstir vita að hér leynist paradís sem birtir okkur sögu útvegs og einstakra búskaparhátta á liðnum öldum.

Straumur

Straumur.

Í Straumsvík, sem bærinn Straumur stendur við, var verslunarhöfn á miðöldum og þangað sigldu þýskir kaupmenn. Straumur er einn af Hraunabæjunum. Aðrir Hraunabæir eru Óttarsstaðir, Lónakot, Hvassahraun og fjölmargar hjáleigur þeirra.
Útræði var stundað frá þessum bæjum sem höfðu sameiginlegt beitiland sem kallað var Almenningur. Þar voru víða sel sem kennd voru við bæina. Umhverfis bæina eru víða enn uppistandandi heillegir grjótgarðar, auk fjárrétta, kvía, byrgja og nátthaga. Í annarri grein Jónatans Garðarssonar segir frá einni slíkri hleðslu, Kristrúnarborg, og konunni sem stóð að hleðslu hennar. Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur hefur rannsakað þetta svæði, ásamt stórum hluta Reykjanesskagans, árum saman, og safnað ómældum fróðleik. Hann heldur úti heimasíðunni www.ferlir.is, sem er aðgengileg öllum á netinu.Inngangar, millifyrirsagnir og myndatextar eru ritstjóra.

Omar 2021

Ómar Smári Ármannsson.

Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarsstaðir eystri og Óttarsstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi (hét Nýjakot áður). Þýskabúð og Jónsbúð voru hjáleigur Straums. Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot voru hjáleigur Óttarsstaða, en Gerði og Péturskot frá Þorbjarnarstöðum að sunnanverðu.
Þessir tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir, stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins hlaðnir garðar, gerði og aðrar tóftir, auk nokkurra sumarbústaða. Náttúrufegurðin er óumdeild – þrátt fyrir nálægð álversins. Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni.
Landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í vörunum þegar norðanáttin rak ölduna beint á hraunbrúnirnar er skaga út í fjöruna. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýskubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – loftmynd.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu. Víða má enn finna fjárskjól með grjóthleðslum.

Straumssel

Straumssel. Bær Guðmundar skógavarðar efst til vinstri.

Í Almenningi, sem svo er nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli allt til 1870 og þar bjó fólk og starfaði frá 6. til 16. viku sumars.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarsstöðum eystri.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krýsuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Frá Straumsvík lá Straumsselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumsseli suður í Almenning. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og heitir Ketilsstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn.
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – hlaðinn garður.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumsstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýst sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.
Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem „brimið þvær hin skreipu sker“.“
Byggt m.a. á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Hraunin – Ómar Smári Ármannsson, bls. 7-8.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur  neðan Reykjanesbrautar – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Þingvallahraun

FERLIR fór um ofanverða Þingvelli, austanvert land Brúsastaða (land Þingvallabæjarins náði einungs að Öxará. Brúsastaðir áttu landið norðan hennar; þar með alla þinghelgina á Þingvöllum. Sögur herma að bóndinn á Brúsastöðum hafi t.d. gert sér stekk úr Snorrabúð í miðri fyrrum þinghelginni, ekki síst í þeim tilgangi að fullvissa Þingvallabóndann um hvað væri hvers. Þetta þótti reyndar algengur siður bænda í gegnum fyrstu aldir Íslandsbygðar, þ.e. að staðsetja mannvirki sín, s.s. sel og fjárskjól, yst á landamerkjum). Ætlunin var að berja Bakkaréttina, minjar Grímukots og Bárukots augum.

Í Sunnudagsblaði Vísis 1937 er fjallað um „Eyðibýli í Þingvallasveit 1840„:

Þingvellir

Ofanverðir Þingvellir – Grímgilslækur.

„Lýsing Þingvallaprestakalls 1840, eftir Björn Pálsson, Þingvallaprest, hefir nú verið birt í binu merka ritsafni „Landnám Ingólfs“. — Kveðst síra Björn hafa verið vanheill um það leyti, er lýsingin var af honum heimtuð, og fyrir því hafi hann orðið að fara eftir sögusögnum annara um margt, og ekki getað glöggvað sig sjálfur á ýmsu því, „sem langt frá liggur í mínum víðlendu sóknum. Þó hefi eg spurt þá eina, sem eg vissi hér kunnugasta“.
ÞingvellirEins og að líkindum lætur, nefnir síra Björn öll bygð ból prestakallsins og lýsir þeim að nokkuru. — Í Þingvallasveit voru bygð býli hin sömu og nú, nálega hundrað árum síðar, að undanskildu Arnarfelli og Fellsenda.
Lýsing klerks á Þingvallajörðum er heldur ófullkomin, og má vera, að lasleika hans sé um að kenna. Jörðin Svartagil (hjáleiga frá Þingvöllum) segir hann að heitið hafi að fornu Vegghamrar. Það er fagurt heiti og réttnefni.. En týnt mun það nú af tungu Þingvellinga. Selkot, hjáleiga frá Stíflisdal, er í Norðurárdal. Þar höfðu Stíflisdalsbændur selför. Norðurárdalur í Þingvallasveit mun nú sjaldan nefndur. Þingvellingar segja „út í dal“ og er þá átt við báða dalina: Norðurárdal og Stíflisdal.

Síra Björn lætur og getið allra þeirra eyðibýla, sem honum eru kunn í Þingvallasveit, eða hefir heyrt nefnd. Er þó ekki ósennilegt, að eitthvað kunni að vanta í þá upptalningu. Þar vantar t.d. Móakot, sem getið er um einhversstaðar að brunnið hafi um miðja síðustu öld og ekki verið bygt af nýju, en hefir ef til vill verið í ábúð 1840, þó að síra Björn telji það ekki meðal bygðra býla. — Móakot var yst í svo nefndum Bæjardal, norðan ársprænu þeirrar, er þar verður, og kallast Móakotsá.

Þingvallahraun

Þingvallahraun – smyrill.

Síra Björn skýrir frá eyðibýlum í Þingvallasveit og Þingvallahrauni, sem hér segir:
„Svarið verður hér óglöggt, nefndar heyri eg þessar: Fíflavelli fyrir norðan Skjaldbreið. Litla-Hrauntún suður af Mjóafelli. — Hrafnabjörg vestur af Hrafnabjörgum. — Bótólfsstaði og Bæjarstæði i Miðfellshrauni. — Arnarfell, útsunnan undir Arnarfelli, bygðist fyrir stuttu um fáein ár með lítilli heppni. — Bárukot og Grímsstaðir (hvar Grímur hinn litli bjó, sem getið er í Hólmverja sögu) milli Brúsastaða og Svartagils; Múlakot fyrir austan Svartagil, undir Ármannsfelli; Hólkot í Stíflisdal; Kárastaðakot í túninu á Kárastöðum; Þórhalla- eða Ölkofrastaðir fyrir austan Skógarkot, er nú stekkur þaðan.“ — Ekki kveðst síra Björn vita neitt um það, hvenær jarðir þessar hafi farið í eyði.
Hann segir ennfremur:

Þingvellir

Straumendur á Grímgilslæk.

„Seinna hefi eg getað glöggvað upp miklu fleiri eyðibýli… .
Við bætast þá“ (í Þingvallasveit): Ólafsvellir í Klukkuskarði, milli Skjaldbreiðar og Tindaskaga. — Álftabakki í Stíflisdal, fyrir sunnan Kjálkárós. Vindheimar norðan undir Stóra-Sauðafelli.“ Jörðin Fellsendi er hvergi nefnd, hvorki sem bygt ból né eyðibýli. Mun því bygð þar yngri en hundrað ára.
Talið er, segir síra Björn, að kirkjur hafi verið að Gjábakka og í Stíflisdal, auk Þingvalla. Ennfremur að munnmæli hermi, „að kirkja hafi verið á Ólafsvöllum“ (í Klukkuskarði), „en auðsjáanlegt segja menn, að kirkja hafi verið á Hrafnabjörgum, ekki alllítil.“

Þingvellir

Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.

Í Lögréttu 1919 er fjallað um „Þingvelli við Öxará„. Þar segir m.a.:
„Jarðabók Árna Magnússonar telur 30 jarðir í Þingvallasveit árið 1711; af þeim voru 14 í eyði. Ennfremur hafði Á.M. það eftir munnmælum, að 50 bæir hefðu verið i sveitinni fyrir pláguna miklu (Svartadauða) 1402, og að Hrafnabjargir hafi staðið í miðri sveit. Sá bær stóð langt norð-austur í hrauninu niður undan Hrafnarbjargarklettum. Umhverfis þann stað er nú gróðurlaust og berblásið hraun að kalla má.
Bygðabýli í Þingvallasveit eru nú 16 að tölu og eyðibýlin 15, sem menn vita fyrir víst að voru í ábúð fyr á tímum. Flestöll eru þau nefnd í jarðabók Á. M. Og eru þau þessi:

Bárukot

Bárukot – uppdráttur ÓSÁ.

1. Bárukot fyrir ofan Almannagjá, en norðan Öxarár. Var af sumum mönnum bær þessi kallaður Þverspyrna eða Fótakefli. Kotið var fyrst bygt árið 1684, og var í ábúð að eins 8 ár og lagðist svo í eyði.

Grímastaðir

Grímastaðir (Grímakot).

2. Grímastaðir eða Grímakot var skamt fyrir norðan Bárukot. Árið 1711 sást þar votta fyrir garðhleðslu og mun að líkindum sjást fyrir henni enn. Bær þessi mun áður hafa heitið Grímsstaðir og kendur við Grím hinn litla, sem getið er um í Harðarsögu og Hólmverja, og bygði hann þar fyrstur og hafði stórt bú.
3. Múlakot, af sumum nefnt Mosastaðir, var sunnan undir Sleðási norður við Ármannsfell. Um 1680 var sá bær bygður upp úr fjárhúsum frá Svartagili. Ekki hafði það verið í ábúð nema eitt eða tvö ár.
4. Litla-Hrauntún stóð langt norðri á Þingvallahrauni hjer um bil miðja vegu milli Ármannsfells og Hlíðargjár. Liggur sú gjá norður af Hrafnagjá.
5. Hrafnabjörg. Sá bær stóð fyrir ofan Hlíðargjá upp undan svokölluðum Prestastíg. Er sögn manna, að þar hafi verið hálfkirkja til forna. Þar sjest enn fyrir mannvirkjum.
6. Bövarsholi er örnetni í skoginum skamt frá Veltankötlu. Býli þetta er komið í eyði löngu íyrir 1700. — Sagt er að býlið hafi tekið nafn af Ívari nokkrum, sem kvað hafa bygt það fyrstur. Um 1680 er sagt, að maður nokkur að nafni Sæmundur hafi búið þar rúmlega hálft ár eða svo, og hafi þar dáið.

Grímastaðir

Grímastaðir.

7. Ölkofra var bær norðaustur í hrauninu frá Þingvöllum. Fyrir austan Skógarkot er enn þá örnefni, sem heitir Ölkofrastaðir og Ölhóll. Mun sá bær hafa dregið nafn af Þórhali Ölkofra, sem Ölkofraþáttur er af. Gerði Ölkofra öl á alþingi til tekna sjer. Hann kveikti í Goðaskógi í Þingvallahrauni. Þá var bær hans kallaður Þórhallastaðir í Bláskógum. Bær þessi var í ábúð um 1700, en þar áður ýmist bygður eða í eyði.
8. Þórhallastaðir. Sá bær lagðist í eyði í Svartadauða, en löngu seinna er sagt, að bærinn hafi verið bygður upp aftur þar sem Skógarkot er nú, og að þar hafi þeir staðið áður. Hjer virðist eitthvað blandað málum með eyðibýlin. Að líkindum hafa Þórhallastaðir og Ölkofra verið sami bærinn, og ýmist verið kenndur við Þórhall eða Ölkofra, og færður þangað, sem Skógarkot er nú. Þó ei ekki loku fyrir það skotið, að hjer geti verið um tvo bæi að ræða.
9. Eiríksstaðir eru sagðir að hafa staðið fyrir norðan Mjóafell, milli þess og Skjaldbreiðar. Bæjar þessa er getið í Bárðarsögu Snæfellsáss og Ármannssögu. Eiríkur frá Eiríksstöðum var einn þeirra manna sem glímdu á Hofmannafleti.
10. Fíflavellir áttu að hafa verið landsuður frá Skjaldbreið. Getið er um þenna bæ í Ármannssögu.
11. Rótólfsstaðir voru norðan undir Miðfellsfjalli.

Kárastaðir

Kárastaðir.

12. Kárastaðakot var bygt úr Kárastaðalandi um 1685. Þar var búið í 6 ár, svo lagðist það í eyði.
13. Neðridalur var bær í dalnum norður af Stíflisdal. Hann lagðist í eyði í Svartadauða. Um 1700 sást þar votta fyrir girðingum og tóftum.
14. Hólkot var í landsuður frá Síflisdal. Þar var bygð fyrir Svartadauða. Sagt er, að þar hafi sjest fyrir tóftum og garðhleðslu.
15. Móakot var bygt á 19. öld, tiiilli Skálabrekku og Heiðabæjar. Það var í ábúð að eins sárfáár.
Hvort nokkuð er hæft í því, að 50 bæir hafi verið í Þingvallasveit á 13. og 14. öld og þar áður, og að Hrafnabjargir, sem áður eru nefndar, hafi staðið í miðri sveit, er ekki hægt að fullyrða; hefur það ekki verið rannsakað. En ekki er ósennilegt að svo hafi verið, því að Skógarsveitir voru yfirleitt mjög þjettbýlar til forna. Til þess að ganga úr skugga með það, þarf að rannsaka alt það svæði, sem líkindi eru til að bygðin hafi náð yfir í Bláskógum. Sagt er, að enn sjáist leifar af tóftum norður undir Skjaldbreið. En hvort það eru fornar bæjarrústir, vita menn ekki. Svo gæti víðar fundist, ef vel væri leitað.
Hafi bygð verið áður í Þingvallahrauni, á skóglendi, þar sem nú er algerlega berblásin jörð, hafa bæirnir lagst í eyði af öðrum orsökum en þeim, að menn fengjust ekki til að búa á jörðunum, ef það hefði verið nokkur leið. Jarðirnar lögðust í eyði sökum þess, að skógurinn var rifinn og upprættur með öllu, en landið bljes upp og varð óbyggilegt.
Að líkindum hefur alt svæðið fyrir norðan og austan Þingvallavatn heitið Bláskógar til forna.“…

Grímagilslækur rennur nú neðan tófta Bárukots. Augljóst er að hann hefur áður runnið ofan kotsins, a.m.k. að hluta, eða verið veitt þá leið um tíma. Neðar rennur í dag Hrútagilslækur.

Bárukot

Bárukot – tóftir.

Tófir Bárukots eru augljósar, en tóftir Grímukots eru öllu torræðnari. Túnstæðin eru aðskilin. Tóftin í Grímarskoti virðist miklu mun eldri, nánast jarðlæg, en tóftir Bárukots eru augljósar, sem fyrr sagði. Skammt vestan þeirra er grjóthlaðinn stekkur.

Gunnar Grímsson segir frá „Kortlagningu eyðibyggðarinnar á Þingvöllum…,- http://hdl.handle.net/1946/35509

Bárukot

Bárukot

Bárukot – tóftir.

Öðrum tveimur og hálfum kílómetrum norðaustan Brúsastaða eru Grímsstaðir (eða Grímastaðir) sem nánar verður fjallað um á blaðsíðu 41. Rúmum kílómetra sunnan Grímsstaða eru rústir Bárukots (mynd 15), sem var byggt í um átta ár milli 1684–1692. Þá þóttu landkostir á Grímsstöðum lakari til búsetu. Bárukot fékk fljótlega viðurnefnin Þverspyrna og Fótakefli (JÁM II, bls. 367) líkt og ferðalangar hafi gjarnan hrasað um tóftirnar á leið sinni þar um. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður mælir um 1250 metra milli Grímsstaða og Bárukots og lýsir kotinu sem „ferhyrndri hvirfingu, 9×11 m að stærð, og girðing vestan við, líklega fyrir fé. Dálítið suðvestar er hraungrýtistóft niðurfallin; hefur þar verið smákofi fyrir skepnur“ (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 86).

Grímsstaðir
Í Jarðabókinni 1711 eru Grímsstaðir, þá ritaðir sem Grímastaðir, sagðir hafa farið í eyði í plágunni miklu. Þar hafi svo aldrei verið byggð síðan og þar sjáist til garðaleifa og rústa sem og af túngarði og veggjaleifum (JÁM II, bls. 367). Grímsstaðir eru merktir mitt á milli Brúsastaða og Svartagils á korti sem fylgir sóknarlýsingu Þingvalla 1840 (Björn Pálsson, 1979, bls. 186). Bærinn er yfirleitt kallaður Grímastaðir í daglegu tali. Nafnið tengist sagnapersónunni Grími „litla“ úr Harðar sögu og Hólmverja en í sögunni keypti Grímur land „suður frá Kluptum, er hann kallaði á Grímsstöðum“ (Íslenzk fornrit XIII, bls. 14–15).
Sigurður Vigfússon fornfræðingur telur lýsingar Harðar sögu benda til að Grímsstaðir hafi verið einhvers staðar sunnan Sandklufta, sem er örnefni í austurhlíðum Ármannsfells. Stingur hann upp á þeirri hugmynd í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1880–1881 að bærinn undir Hrafnabjörgum (bls. 54) hafi verið hinir eiginlegu Grímsstaðir (Sigurður Vigfússon, 1881, bls. 43). Sigurður segir þó í aftanmálsgrein í sömu árbók að hann hafi síðar ákvarðað staðsetningu Grímsstaða og væru þeir við Grímsgil (eða Grímagil) milli Brúsastaða og Svartagils: Að austanverðu við gilið, eða þeim megin, sem snýr að Ármannsfelli, eru gamlar bæjatóttir vallgrónar, sem kallaðar eru Grímastaðir; þar eru valllendisflatir í kring, sem verið hefir tún; þar er nú orðið vaxið með víði. (Sigurður Vigfússon, 1881, bls. 98).
Brynjúlfur Jónsson fornfræðingur fer að Grímsgili sumarið 1904, teiknar upp tóftirnar, sem þar eru og lýsir þeim svo: Rúst Grímastaða er vestanmegin lækjarins […]. Hún er svo niður sokkin, að mestu gætni þarf til að sjá hana, og hún virðist hafa verið mjög lítil. Hún liggur austur og vestur, hefir dyr á suðurhlið og miðgafl vestan við þær með dyrum við útidyrnar. Vestur-herbergið er 3 fðm. langt, hitt aðeins 1 1/2 fðm. Breiddin eru 2 fðm. Þó má vera að austurherbergið hafi verið lengra, því endinn er óglöggur, og litlu austar sér á hleðslusteina í flagrotu. Þar skamt frá sér aðra, óglöggva tóft, mjög litla.
Önnur forn mannvirki sjást þar ekki. (Brynjúlfur Jónsson, 1905, bls. 46).

Bakkarétt

Bakkarétt.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir Grímsstaði um 1250 metra norðan Bárukots (1945, bls. 86) og lýsir rústum Grímsstaða á sambærilegan hátt og Brynjúlfur: Tóttir þær, er nú sjást á Grímsstöðum, eru litlar og óljósar. Helzt er þar bæjartóft, sem skiptist í þrennt, og skammt austur frá henni sér aðra tóft, mjög litla, og enn hina þriðju 40 skref frá (um 7 x 5 m. að stærð). (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 85–86).
Í örnefnalýsingu Svartagils eru rústirnar nefndar Grímakot og eru sagðar vera meðfram brekkunum, „við lækinn, fyrir austan Sandhólinn“ („Svartagil“, e.d., bls. 1). Töluvert suðaustan Grímsgils, nálægt þjónustumiðstöð Þingvalla, er einnig vörðubrot sem nefnist Litla-Grímsvarða (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 155). Í Árbók Ferðafélags Íslands 2003 er sagt að ummerki húsarústa Grímsstaða finnist ekki (Þór Vigfússon, 2003, bls. 178). Félagið Ferlir skoðaði svæðið undir Grímsgili 2007 og þar virtist á einum stað mega, með góðum vilja, sjá móta fyrir skálatóft nálægt Grímsgilslæk (eða Grímagilslæk) sem og mögulegum garðlögum (Ómar Smári Ármannsson, 2007).
Ritaðar heimildir benda sterklega á að rústir Grímsstaða séu við Grímsgil. Til að taka af allan vafa voru 0,7 ferkílómetrar kortlagðir við Grímsgilslæk, í tveimur ferðum í apríl og maí 2018, til að athuga hvort rústir lægju á fleiri stöðum þar um kring (mynd 19). Svo virðist ekki vera en þetta landsvæði er afar illa farið af mikilli umferð seinustu alda. Helstu leiðir á þessu svæði liggja í átt að leiðinni um Leggjabrjót, sem hefst vestan malarnámu. Við Grímsgil mátti greina óljósar upphækkanir á yfirborðslíkani og voru þær taldar hugsanlegar fornleifar. Borkjarnarannsókn 18. september 2019 staðfesti að upphækkanirnar eru í raun rústir af fornum mannvirkjum. Útlit rústanna kemur vel heim við uppdrátt Brynjúlfs Jónssonar af Grímsstöðum.
Á Grímsstöðum eru greinilegar rústir á þremur stöðum og er fyrst að nefna rústina sem Brynjúlfur Jónsson og Matthías Þórðarson kalla bæjarrúst. Hún er um 13,5×6 metrar að stærð og veggir hennar rísa um 40 sm upp af yfirborðinu. Rústin virðist tvískipt eða þrískipt.“

Þingvellir

Þingvellir – stífla.

Engar upplýsingar virðast liggja fyrir um hina formfögru Bakkarétt. Svo virðist sem listrænn ráðunautur hafi verið fenginn til að hanna réttina úr frá fagurfræðilegum forsendum. Líklega hefur hún leyst af réttina í Sleðabrekkum. Síðar, að loknu réttarhaldi í Bakkarétt hefur réttarhaldið færst yfir í Þingvallaréttina í Skógarkoti.

Engar upplýsingar virðast liggja fyrir um samspil Grímgilslækjar og Hrútagilslækjar ofan við hina manngerðu stíflu. Ofan stíflunnar er fráveita þar sem samlækjunum er hleypt niður að Leirum. Handan hennar hefur spengingum verið beytt til að koma affalli lækjanna í gegnum öflugt hraunhaft. Augljóst er af verksummekjum að þarna hafa farið fram talsverða framkvæmdir. Affallið rennur niður í Þingvallahraunið og hverfur niður í það ofan þjóðvegarins.

Lækjunum er að hluta hleypt úr stíflunni um steypt affall niður að Leirum (Þjónustumiðstöðinni). Mjög líklega hefur stíflugerðin verið gerð til þess að þjóna vatnsþörf þjónustumiðstöðvarinnar á Leirum og/eða til að takmarka vatnsrennslið þangað til að minnka líkur að flæður mynduðust umhverfis hana.

Í Náttúrufræðingnum 2020 fjalla Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson um Öxará. Þar segir m.a. um Grímagils- og Hrútagilslæk (Leiralæk):

Þingvellir

Þingvellir – örnefni ofan við Leirur.

„Norðan við Öxará koma saman lækir í giljum frá Botnssúlum og Ármannsfelli og mynda einn læk eða smáá sem Leiralækur nefnist. Á fyrri tíð féll hann óheftur niður á Leira, flatlendið þar sem söluskálinn og tjaldsvæðið eru nú. Þeir eru myndaðir af framburði lækjarins. (Sumir tala um Leirur og nefna lækinn Leirulæk). Leiralækur á efstu upptök sín í Svartagili og Sláttugili vestan við eyðibýlið Svartagil og í Hrútagili, sem er nokkru vestar. Aurkeilur liggja frá giljunum og út á hraunið þar sem giljalækirnir sameinast. Eftir það nefnist lækurinn Hrútagilslækur. Neðar bætist Grímagilslækur við og eykur rennslið í Hrútagilslæk að mun. Nokkru neðan lækjamótanna hafa verið gerðar stíflur á hrauninu og hafa þær áhrif á lækjarrennslið. Rétt norðan við þjóðgarðsmörkin þar sem þjóðvegurinn liggur yfir Tæpastíg steypist lækurinn ofan í efstu misgengissprunguna í dálitlum fossi eða flúð. Þar skiptir hann um nafn og heitir Leiralækur eftir það. Efst rennur hann góðan spöl norðuraustur eftir þröngri sprungunni þar sem hann hverfur öðru hverju í hraunið en birtist svo á ný. Syðst í Hvannagjá tekur hann krappa beygju og snýr nánast viðá ferð sinni uns hann streymir frjáls niður brekkurnar ofan við Leirana. Þar smýgur hann undir akveginn og hverfur loks í Leiragjá, sem hann hefur að mestu fyllt með möl og sandi. Leirarnir eru grónar flatir sem myndast hafa af framburði Leiralækjar en ekki er hægt að sjá að Öxará hafi nokkru sinni flætt þar um.
Í þurrkatíð er Leiralækur jafnan þurr og raunar getur Hrútagilslækur einnig horfið gersamlega. Þurrir farvegir sýna að fyrrum hefur Hrútagilslækur runnið til Öxarár og hefur þá aukið vatnsmagn hennar allnokkuð.“

Brúsastaðir áttu landið utan Öxarár og þar með Þinghelgina. Í Vilkinsmáldaga frá 1397 eru Brúsastaðir þó skráðir eign kirkjunnar. DI IV, 94. Árið 1695 eru Brúsastaðir skráðir eign Þingvallakirkju og jarðardýrleiki 13 hdr. BL, 116.

Heimildir:
-Vísir Sunnudagsblað, 29. tbl. 25.07.1937, Eyðibýli í Þingvallasveit 1840, bls. 2-3.
-Lögrétta, 19. tbl. 07.05.1919, Þingvellir við Öxará, bls. 1.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum…, Gunnar Grímsson – http://hdl.handle.net/1946/35509
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 2020, Öxará, Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson, bls. 7.

Þingvellir

Þingvellir – rudd hefur verið upp stífla og sprengt í gegnum hraunhaft með tilheyrandi affalli….